30.9.2016 17:45

Föstudagur 30. 09. 16

Að kvöldi miðvikudags 28. september efndu Félag eldri bogara og Grái herinn til baráttufundar í Háskólabíói sem var þéttsetið. Guðmundur Björn Þorbjörnsson var á fundinum fyrir fréttastofu ríkisútvarpsins. Frétt hans klukkan 22.00 hófst á þessum orðum:

„Óp og köll voru gerð að formanni Sjálfstæðisflokksins á fundi baráttuhóps eftirlaunafólks í Háskólabíói í kvöld. Liðsmaður Gráa hersins segir baráttuna fyrir bættum kjörum eldri borgara rammpólitíska.“

Flutt var sýnishorn af því hvernig fundarmenn tóku fjármálaráðherra og heyrðist  baul í nokkrar sekúndur. Annaðhvort lét fréttastofan undir höfuð leggjast að flytja það sem fréttamaðurinn kallaði „óp og köll“ eða hann ákvað að flytja „rammpólitíska“ frétt til að gera á hlut fjármálaráðherra eða til að láta hlustendur halda að eldri borgarar hefðu misst stjórn á sér á fundinum.

Í gær var sagt frá því hér að umboðsmaður alþingis hefði skrifað  7930 orða álit vegna kvörtunar fanga yfir að hafa verið kallaður „asni“ af fangelsisstarfsmanni. Um 8000 orð fylla fjórar þéttskrifaðar síður í Morgunblaðinu. Umboðsmaður alþingis dregur ekki af sér þegar honum berst erindi af þessu tagi. Hvenær kemur að því að orðlag í fréttum ríkisútvarpsins verður borið undir umboðsmann alþingis?

Á leiðinni austur í Fljótshlíð síðdegis í dag var ekki traustvekjandi að hlusta á fréttamann ríkisútvarpsins segja í beinni útsendingu frá niðurstöðu fundar vísindamanna og viðbragðsaðila í stjórnstöðinni í Skógarhlíð. Þau rök eru gjarnan notuð til stuðnings tilvist ríkisútvarpsins að það hafi hlutverki að gegna í almannavarnakerfi þjóðarinnar. Þegar það kerfi er virkjað á einn eða annan hátt eins og gert hefur verið nú vegna vaxandi jarðhræringa í Mýrdalsjökli skiptir miklu að starfsmenn ríkisútvarpsins gangi fram af sömu varúð og ábyrgðarkennd og aðrir opinberir aðilar. Það var ekki gert í fréttunum klukkan 16.00. Fréttamaðurinn hafði ekkert vald á efninu og hlustandinn var litlu nær um stöðu mála.