Dagbók: desember 2014

Miðvikudagur 31. 12. 14 - gamlársdagur - 31.12.2014 15:00

Forvitnilegt er að velta fyrir sér aðdraganda þess að Sigrún Magnúsdóttir (f. 15. júní 1944) varð fimmti ráðherra Framsóknarflokksins á ríkisráðsfundi í dag. Morgunblaðið birti frétt laugardaginn 27. desember um að til stæði að Framsóknarflokkurinn fengi fimmta ráðherra sinn um áramótin, kæmi nafn Sigrúnar Magnúsdóttur þingflokksformanns helst við sögu og yrði hún umhverfis- og auðlindráðherra.

Eftir þetta hófust vangaveltur í fjölmiðlum þar sem ráðamenn Framsóknarflokksins komu annaðhvort af fjöllum eða vildu ekkert um málið segja. Þennan sama laugardag náði fréttastofa ríkisútvarpsins til dæmis í Vigdísi Hauksdóttur alþingismann. Hún var kynnt til sögunnar á þann veg hún hefði verið orðuð við ráðherraembætti. „Aðspurð hvort hún hefði áhuga á að taka að sér ráðherraembætti, sagðist hún þurfa að ræða það mál við formann flokksins, ef til þess kæmi,“ sagði á ruv.is

Þegar náðist í Sigrúnu sagði hún að enginn hefði orðað þetta við sig. Hún boðaði hins vegar þingflokksfund þriðjudaginn 30. desember, þar lagði Vigdís Hauksdóttir til að Sigrún yrði ráðherra og varð það niðurstaðan. Er henni óskað til hamingju og velgengni í starfi.

Það sannar djúpstæð ítök Morgunblaðsins í stjórnmálalífinu að blaðið skyldi flytja þingmönnum Framsóknarflokksins fréttina um að Sigrún yrði ráðherra hinn 31. desember. Blaðið missti hins vegar spóna úr aski sínum við áramótin við brottför Óskars Magnússonar útgefanda og blaðamannanna Kolbrúnar Bergþórsdóttur og Harðar Ægissonar úr Hádegismóum. Óskar hverfur til bústarfa í Fljótshlíðinni en Kolbrún og Hörður forframast á DV, hún sem ritstjóri og hann viðskiptaritstjóri.

Viðskiptaskrif Harðar í Morgunblaðið hafa oft verið upplýsandi um strauma og stefnur. Kolbrún lætur sig varða jafnt stjórnmál og menningarmál og hefur lagt margt gott og upplýsandi til þeirra mála og ekki versnaði framlag hennar þegar hún áttaði sig á villu síns vegar í ESB-aðildarmálinu. Verður spennandi að sjá hvernig henni tekst að leiða DV úr eyðimörkinni.

Myndin sem helstu stuðningsmenn ríkisútvarpsins hafa dregið af framtíð stofnunarinnar er svo svört að líklegt er að þeir telji að þar dragi til stórtíðinda á árinu 2015 vegna fjárskorts. Hallgrímur Thorsteinsson, fráfarandi ritstjóri DV, hefur verið ómyrkur í máli um það sem hann gjarnan kallar aðför sjálfstæðismanna að ríkisútvarpinu. Nú er hins vegar skýrt frá því að hann ætli að huga að hljóðvarpsrekstri á vegum nýrra eigenda DV. Skyldi hann búa sig undir að fylla í skarðið eftir að ríkisútvarpinu verður lokað?

Árið 2014 hefur verið viðburðaríkt ekki síst á alþjóðavettvangi en um það fjalla ég í pistli sem ég setti hér á síðuna í dag.

Ég þakka lesendum síðunnar samfylgdina á árinu 2014.

 

Þriðjudagur 30. 12. 14 - 30.12.2014 17:30

Ræðuritari Angelu Merkel Þýskalandskanslara tók texta í smíðum með sér á USB-kubbi heim til sín. Þegar hún setti kubbinn aftur í tölvuna í kanslarahöllinni í Berlín birtist viðvörun. Í kubbnum var forrit sem gat miðlað öllu úr tölvum notandans til óviðkomandi. Sagt er að NSA, þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, og GCHQ, hlerunarstofnun Bretlands, noti þetta forrit til afritunar og hlerunar!

Leitað var að forritinu í 200 tölvum kanslarahallarinnar. Það fannst aðeins hjá ræðuritaranum.

Nýlega bárust fréttir frá Noregi um fjarskiptabúnað í miðborg Oslóar sem beindist að farsímum þingmanna, ráðherra og embættismanna. Unnt var að fylgjast með ferðum þeirra og hlera símtöl.

Brotist var inn í tölvukerfi Sony-kvikmyndafyrirtækisins og stolið viðkvæmum upplýsingum sem hótað var að birta opinberlega ef sýnd yrði kvikmynd fyrirtækisins um tilræði gegn leiðtoga Norður-Kóreu. Sony hætti við að sýna myndina en lét síðan undan þrýstingi. Sony rakar nú inn fé fyrir myndina. Á skömmum tíma hafa ókunnir aðilar lokað tvisvar sinnum fyrir öll netsamskipti í N-Kóreu.

Hér eru tíunduð atvik frá síðustu dögum. Þau sýna að njósna- og skemmdarverkastríðið í netheimum tekur á sig ýmsar myndir. Enginn er óhultur.

Aldrei er skýrt frá neinu sambærilegu opinberlega hér á landi. Er það vegna þess að Íslendingar eru „stikkfrí“ í þessu stríði? Eða er það vegna þess að menn halda að Íslendingar séu „stikkfrí“ og þess vegna gerist aldrei neitt fréttnæmt?

Mánudagur 29. 11. 14 - 29.12.2014 19:00

Laugardaginn 27. desember komu jafnaðarmenn og borgaraflokkarnir í Svíþjóð sér saman um fjárlög ársins 2015 og megindrætti fjárlaga til ársins 2022 þótt áfram sitji minnihlutastjórn í landinu. Þá sömdu flokkarnir einnig um að vinna saman að varnarmálum, lífeyrismálum og orkumálum. Hvatinn að þessu samkomulagi var vilji flokkanna til að afstýra þingrofi og kosningum í mars á næsta ári. Þeim stendur ógn af kosningum vegna mikils fylgis Svíþjóðardemókratanna sem sigruðu í þingkosningunum í september 2014 og hafa aukið fylgi sitt síðan. Helsta stefnumál þeirra er að sporna við fjölgun hælisleitenda og innflytjenda í Svíþjóð.

Vaxandi óánægja í Svíþjóð vegna innflytjendastefnu stjórnvalda minnkar ekki við að þingkosningum sé afstýrt. Líklegt er þvert á móti að Svíþjóðardemókratar styrkist.

Í Grikklandi hafa stjórnarflokkarnir gert allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir að þar verði rofið þing og boðað til kosninga. Þeim misheppnaðist að fá frambjóðanda sinn til forseta gríska lýðveldisins kjörinn á þingi í dag og við svo búið er þingrof óhjákvæmilegt og kosningar verða 25. janúar 2015, megi marka fréttir.

Ráðandi flokkar í Grikklandi óttast að missa forystu í hendur bandalags róttækra vinstrisinna, Syriza, sem vill hnekkja neyðarlánasamningum Grikkja og hverfa frá aðhaldsstefnunni í ríkisfjármálum sem fylgt hefur verið að kröfu ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hefur sjóðurinn tilkynnt að hann haldi að sér höndum gagnvart Grikkjum fram yfir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Eftir að ljóst var að stefndi í þingkosningar í Grikklandi sögðu bæði Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, og Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóri ESB, að Grikkir yrðu að fylgja umsaminni stefnu, annað ylli vandræðum fyrir þá og aðrar evru-þjóðir. Er augljóst að innan Grikklands og utan munu talsmenn aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum leggja hart að Grikkjum að hafna stefnu Syriza í þingkosningunum.

Syriza vill hvorki að Grikkir kasti frá sér evrunni né ESB-aðild. Hitt er ljóst að næstu vikur verður því haldið að grískum kjósendum að atkvæði greitt Syriza auki líkur á úrsögn úr evru-samstarfinu. Til þessa hefur meirihluti Grikkja ekki viljað segja skilið við evruna og hræðsluáróður um hvað við taki án hennar hefur til þessa dugað til að halda Syriza frá stjórn Grikklands.

 

 

 

Sunnudagur 28. 12. 14 - 28.12.2014 19:30

Auður Jónsdóttir rithöfundur vekur í grein í vefblaðinu Kjarnanum athygli á að Mikkel Vuorela, menningarblaðamaður á danska blaðinu Politiken, hafi ritað grein um fjárhag RÚV. Greinin birtist miðvikudaginn 17. desember. Blaðamaðurinn segir að niðurskurður á RÚV sé að mati margra álitsgjafa svo mikill við afgreiðslu fjárlaga 2015 að hann jafngildi því að hætt verði öllum fréttaflutning, framleiðslu á öllu íslensku sjónvarpsefni eða lokun á báðum útvarpsrásunum. Þar að auki telji nokkrir fjölmiðlamenn að niðurskurðurinn kunni að vera einskonar pólitísk refsing vegna óánægju með pólitískan fréttaflutning RÚV.

Vitnað er í Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, sem segir áhyggjuefni í þessu sambandi að nokkrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi sagt opinberlega að RÚV sé „biased imod dem“, það er hlutdrægt gegn þeim og þeir hafi vald til að vængstýfa RÚV.

Þá vitnar blaðamaður Politiken í Hallgrím Thorsteinsson, ritstjóra DV, sem segir að niðurskurður hjá ríkisútvarpinu sé svar stjórnmálamanna við gagnrýni fréttastofu þess á þá. Er Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sérstaklega nefnd til sögunnar og segir Hallgrímur „fráleitt“ hvernig ríkisstjórnin fari með tölur, um sé að ræða  „reelle nedskæringer, som også han ser som et politisk angreb på journalistikken“, það er „raunverulegan niðurskurð sem hann telur einnig pólitíska aðför að störfum fréttamanna“.

Allt er þetta með nokkrum ólíkindum í ljósi þess sem Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði í grein í Fréttablaðinu þriðjudaginn 23. desember undir fyrirsögninni RÚV – staðreyndum haldið til haga:

„Að lokinni afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015 liggur fyrir að framlag til RÚV milli áranna 2014 og 2015 hækkar umfram verðbólgu, en sú hækkun nær að sjálfsögðu engan veginn að vega upp þá raunlækkun sem orðið hefur á undanförnum árum og er fyrirhuguð aftur að ári.“  (Feitletrun mín.)

Grein sinni í Kjarnanum lýkur Auður Jónsdóttir á þessum orðum:

„Fólk í æðstu stöðum á Alþingi hefur nú sýnt af sér slíka grunnhyggni, tækifærismennsku, mannfyrirlitningu, ábyrgðarleysi og ég vona hreinlega fáfræði frekar en einbeittan vilja til að svipta kjósendur upplýstri umræðu að mig langar helst til að segja: Skammist ykkar!“

Allt er þetta reist á þeim misskilningi að ríkisstjórnarflokkarnir hafi skorið niður fé til RÚV milli áranna 2014 og 2015 þegar hið gagnstæða er rétt. Spurning hlýtur að vakna um hver eigi í raun að skammast sín vegna þessara umræðna.

Laugardagur 27. 12. 14 - 27.12.2014 16:40

Franska blaðið Le Monde birtir leiðara í dag um ræðuna sem Frans páfi flutti sem jólakveðju yfir kúríunni mánudaginn 22. desember og ég íslenskaði að hluta eins og sjá má hér. Ber leiðarinn fyrirsögnina: Frans, valdaránspáfinn

Blaðið segir að með ræðunni hafi páfi lýst kúríunni stríð á hendur og veltir fyrir sér hvað vaki fyrir honum. „Jorge Bergoglio [Frans] gleymir ekki ástæðunni fyrir því að hann var kjörinn, hann, jesúítinn, argentískur kardínáli, fyrir 20 mánuðum af öðrum kardínálum til að koma í stað Benedikts XVI. sem sagði af sér: að moka flór Vatíkansins, það var verkefnið sem hinum nýja fullvalda páfa var falið. Frans hefur tekið þetta að sér og hann ætlar eftir öllum sólarmerkjum að dæma að sinna verkefninu af festu hvað sem það kostar og hvað sem það kann að kosta hann,“ segir blaðið og minnir á að hann hafi þegar kynnt breytingar á stjórn fjármála Vatíkansins og kallað á ytri endurskoðendur.

Hið mikla verk sem bíður Frans er að mati blaðsins ekki að hreinsa til í kúríunni heldur felist það í byltingarkenndum hugmyndum hans um að breyta valdahlutföllum innan kaþólsku kirkjunnar og kalla þar fleiri til áhrifa. Hann ætli að veikja miðstjórnina og færa vald út á jaðarsvæði. Hann vilji virkja presta  og leikmenn, karla og konur.

Markmið hans sé einnig að ráðast á ítök ítölsku kirkjunnar innan Vatíkansins, á þann  veg megi túlka ræðu hans yfir kúríunni. Hann sé þriðji páfinn í meira en fjórar aldir eftir Pólverjann Jóhannes Pál II. og Þjóðverjann  Benedikt XVI. sem ekki sé ítalskur og það sem sé enn athyglisverðara, hann er fyrsti páfinn sem er ekki Evrópumaður. Að þessu leyti sé hann mjög góður fulltrúi hins breiða fjölda meðal kaþólskra en þeir séu nú að meirihluta búsettir utan Evrópu. Hann vilji að áhrif þessa fjölda takmarkist ekki aðeins við páfann heldur birtist í fleiri valdastöðum.

Leiðara Le Monde lýkur á þessum orðum:

„Tekst Frans að ljúka þessu erfiða verkefni? Hverjar eru líkurnar á að hann sigri í þessari sókn gegn valdakerfi kirkjunnar? Jafnvel þeir sem fylgjast best með innan Vatíkansins hika við að spá nokkru um niðurstöðuna. Hitt er víst, hvað sem öðru líður, að árið sem brátt byrjar skiptir sköpum fyrir Kirkjuna – og yfirmann hennar.“ 

Föstudagur 26. 12. 14 - 26.12.2014 17:00

Sum mál eru þess eðlis að þau verða ávallt til umræðu, þar á meðal er veiting fálkaorðunnar. Við forsetakosningar er gjarnan spurt hvaða afstöðu frambjóðendur hafi til orðuveitinga. Almennt má telja til vinsælda fallið að hafa efasemdir um gildi þess að veita einstaklingum orður enda fá þær jafnan færri en vilja. Þessar efasemdir hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar þjóðhöfðinginn fær hið þakkláta hlutverk að afhenda orðuna og kynnist gleði þeirra sem hana fá.

Handhafar forsetavalds, forsætisráðherra, forseti alþingis og forseti hæstaréttar, fá orðuna vegna embætta sinna, þeim er í sjálfsvald sett hvort þeir taka við henni. Feðgarnir Hermann Jónasson og Steingrímur neituðu að taka við orðum og jafnaðarmennirnir Benedikt Gröndal og Jóhanna Sigurðardóttir. Aðrir forsætisráðherrar hafa tekið við orðunni, þeirra á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nú hinn 13. desember og hefur það kveikt umræður um veitingu hennar. Af því tilefni sendi skrifstofa forseta Íslands frá sér tilkynningu í dag, annan dag jóla, þar sem segir meðal annars:

„Hefðbundið er að handhafar forsetavalds, forseti Alþingis, forseti hæstaréttar og forsætisráðherra, séu sæmdir fálkaorðunni og athöfnin fari fram á Bessastöðum. Hið sama á við um orðuveitingar til sendiherra erlendra ríkja sem byggja á samskiptavenjum við viðkomandi ríki. Ekki er sérstaklega greint frá þessum orðuveitingum með fréttatilkynningu til fjölmiðla en þær skráðar á lista yfir orðuhafa á heimasíðu embættisins.“

Tilefni tilkynningarinnar er greinilega tilraunin sem hefur verið gerð til að sverta veitingu orðunnar til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Einars K. Guðfinnssonar, forseta alþingis, með því að segja hana hjúpaða leynd. Tilkynningin minnir á hnignun fjölmiðlunar þar sem rokið er af stað með hálfkaraðar fréttir til að koma einhverjum í koll í stað þess að vinna málið í heild áður en af stað er farið. Oft er það ekki gert af ótta við að „fréttin“ verði að engu sé öll sagan sögð.

Varð ekki síðast hvellur vegna orðunnar þegar Ólafur Ragnar neitaði að veita hana fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna? Aldrei var nein tilkynning send að því tilefni. Að þjóðhöfðinginn hafni að veita orðu er fréttnæmara en hann veiti hana.

 

 

Fimmtudagur 25. 12. 14 - 25.12.2014 19:20

Í tilefni jólanna íslenskaði ég hluta af ræðu sem Frans páfi flutti yfir kúríunni í Róm og má lesa hana hér.

Miðvikudagur 24. 12. 14 - aðfangadagur. - 24.12.2014 18:00

Ég færi lesendum síðu minnar bestu óskir um gleðileg jól!

Þriðjudagur 23. 12. 14 - Þorláksmessa - 23.12.2014 18:30

Guggenheim-stofnunin í New York í Bandaríkjunum hefur ákveðið að semja um 20 ára lengri afnot af safnhúsinu í Bilbao sem Frank Gehry teiknaði og opnað var árið 1997 með verkum frá Guggenheim. Byggingin og safnið hafa gjörbreytt áliti umheimsins á Bilbaó og orðið efnahag borgarinnar og Baskahéraðsins á Spáni mikil lyftistöng.

Að ákveðið var að opna deild frá Guggenheim í Bilbaó var nýmæli á þeim tíma þegar það var gert en nú færist í aukana að fræg listasöfn opni útibú í fjarlægum borgum: Louvre í París er með útibú í Abu Dhabi og borginni Lens í N-Frakklandi. Pompidou-safnið í París undirbýr útibú í Malaga á Spáni. Hermitage-safnið í St. Pétursborg hefur kynnt áform um útibú í Barcelona og þannig mætti áfram telja.

Í áranna rás hafa 17 milljónir manna heimsótt Guggenheim-safnið í Bilbaó, beint og óbeint skapar það atvinnu fyrir 5.000 manns.

Æskilegt er að fundinn sé staður á höfuðborgarsvæðinu fyrir safnahús sem jafnaðist á við Hörpu að glæsileika til að hýsa Listasafn Íslands og Náttúrugripasafn Íslands. Ef til vill kynni erlent stórlistasafn að hafa áhuga á að reka útibú á Íslandi. Þörfin fyrir slíkt hús er ljós öllum sem leiða að því hugann. Glæsileg listasafnhús sem sjá má víða um heim hafa mikið aðdráttarafl.

Þótt fundinn sé staður jafngildir það ekki að ráðist verði í framkvæmdir en móta verður stefnu og velja stað fyrir nýja byggingu fyrir listasafn og náttúrugripasafn. Þegar ég ræddi við hljómburðar-arkitektina sem hönnuðu Eldborgarsalinn á sínum tíma og spurði hve langan tíma tæki að framkvæma hugmyndir um tónlistarhús töluðu þeir um 13 til 18 ár og reyndist það rétt mat varðandi Hörpu.

Eldborgarsalurinn hefur aðdráttarafl eins og sannaðist til dæmis á dögunum þegar London Philharmonic Orchestra kom til að leika í honum. Hið sama gildir um þann sal og glæsilegar byggingar listasafna, hann kallar á þá sem vilja fá tækifæri til að kynna list sína við bestu aðstæður.

 

 

 

 

Mánudagur 22. 12. 14 - 22.12.2014 20:15

Í dag snaraði ég grein úr Le Figaro þar sem höfundur ræðir um deilur í Frakklandi vegna þess að jólajatan er sýnd á opinberum stöðum í landinu vantrúuðum til armæðu. Dómarar eru ekki sammála um hvort það brjóti gegn lögum um aðskilnað ríkis og kirkju að jatan sé til sýnis í ráðhúsum landsins, greinarhöfundur hefur skýran skilning á málinu eins og sjá má hér

Höfundurinn segir meðal annars:

„Um aldamótin við upphaf 20. aldar snerust stjórnmálin mjög um að tryggja framgang hins veraldlega, nú er veraldarhyggjan orðin hugsjónalegt vopn í höndum þeirra sem hafa gert guðlaus stjórnmál að kennisetningu sinni. Þessir einstaklingar, hvort sem þeir aðhyllast frjálsa hugsun eða eru í hópi öfga-vinstrisinna sem enn heillast af efnishyggju marxismans líta ekki á veraldarhyggjuna sem tæki til að stuðla að pólitískum og samfélagslegum friði  - sem hún er eða ætti að vera -  heldur sem vopn gegn trúarbrögðum, einkum gegn kristni. Þeir leita ekki að almannarými sem mótast af frelsi heldur almannarými sem er fullt af því sem Kostas Papaioannou kallar réttilega „freð-hugsjón“ þeirra. Tilhugsunin ein um að líta megi á Frakkland sem kristið land fær hárin til að rísa á þeim.“

Minnir þetta ekki dálítið á umræðurnar í borgarstjórn Reykjavíkur og viðhorf þeirra þar sem vilja ekki að skólabörn fari undir merkjum skóla í kirkju. Á móti hverju er þetta fólk að berjast? Notar það jólin „sem vopn gegn trúarbrögðum, einkum gegn kristni“? Andstaðan vekur kannski helst athygli vegna þess hve hún er kaldhæðnisleg  og í samræmi við kenninguna um „freð-hugsjónina“.

Í dag hafnaði stjórnsýsludómstóllinn í franska bænum Melun kröfu saksóknara um að jatan yrði fjarlægð úr ráðhúsi bæjarins. Skömmu áður hafði stjórnsýsludómstóll í Montpellier komist að sömu niðurstöðu vegna jötu í ráðhúsinu í bænum Beziers. Niðurstaðan varð önnur vegna ráðhússins í bænum Vendée og hefur hún verið kærð til æðra dómstóls.


Sunnudagur 21. 12. 14 - 21.12.2014 18:45

Í breska blaðinu The Daily Telegraph birtist þessi leiðari laugardaginn 20. desember undir fyrirsögninni: Vive la différence ­– Lifi fjölbreytileikinn:

„Góðar fréttir fyrir ættjarðarvini. Breska hagkerfið er ekki aðeins að verða stærra en hið franska heldur virðist einnig sem matreiðslumenn okkar séu að fara fram úr hinum frönsku. Fátið er svo mikið á mönnum hinum megin við sundið að Frakkar ætla að hefja „útrás á vegum ríkisins í þágu matargerðarlistar“ til að koma í veg fyrir að Engilsaxar „velti Frakklandi úr sessi“ sem helsta aðdráttarafli fyrir matgæðinga. Frakkar viðurkenna að eins og málum er nú háttað sé mikið af þeim matvælum sem í boði eru fyrir ferðamenn „sjaldan ný og úr heimabyggð … ekki mjög bragðgóð“. Gestir í París munu áreiðanlega bæta orðunum „óheyrilega dýr“ á listann.

Þessar fréttir hljóta að særa hið galverska stolt. Hvaða segja þær á hinn bóginn um Bretland? Að við séum hætt að leggja okkur til munns kjöt og tvær tegundir af grænmeti? Fisk og franskar? Volgan bjór? Að við höfum forframast, sláum um okkur og … séum dálítið frönsk? Gætum við ekki að okkur mun tilraun Breta til að slá við la vie française leiða til þess að við verðum öll fáguð, tískuleg og lagleg og að við munum sitja lengi yfir hádegisverði, ræða heimspeki og dreypa á höfgum vínum. Zut alors! Eigum við á hættu að verða að öllu sem við hötum?“

 

Laugardagur 20. 12. 14 - 20.12.2014 19:15

Í gær vakti ég athygli á grein í nýjasta hefti Þjóðmála eftir Matti Friedman. Lesandi síðunnar benti mér á að Friedman hefði skrifað skelegga grein um sama efni í tímaritið The Atlantic fyrir skömmu og má nálgast hana hér.

Nú í vikunni var vakin athygli á deilu innan Harvard-háskóla í Bandaríkjunum vegna þess að matsala skólans, Harvard University Dining Services, hætti viðskiptum við SodaStream, fyrirtæki í Ísrael sem um þessar mundir hefur starfstöð á Vesturbakkanum. Ákvörðun um að hætta viðskiptunum var tekin í kyrrþey fyrr á þessu ári fyrir þrýsting frá Harvard College Palestine Solidarity Committee. Taldi þessi stuðningshópur Palestínumanna að í ljósi átaka Ísraela og Palestínumanna ylli það ýmsum nemendum óþægindum að verða að sækja vatn í stauta frá SodaStream. Hætti matsalan viðskiptum við fyrirtækið í apríl 2014.

Það var ekki fyrr en átta mánuðum síðar, miðvikudaginn 17. desember, sem ákvörðunin um viðskiptabannið komst í hámæli innan Harvard-háskólasamfélagsins þegar sagt var frá því í The Harvard Crimson, dagblaði háskólans. Þar til þá vissi Drew Faust, rektor Harvard, ekkert um þetta og nú er hafin rannsókn á hvernig að töku ákvörðunarinnar var staðið. SodaStream tilkynnti í október að fyrirtækið mundi flytja starfstöð sína á miðju næsta ári frá Vesturbakkanum til bæjar í Suður-Ísrael.

Þetta litla dæmi frá Harvard sýnir hve langt deilan vegna Ísraels teygir sig og hvaða ráðum er beitt til að bregða fæti fyrir Ísraela. Stundum heyrast raddir hér á landi um að hætta eigi viðskiptum við Ísraela og til dæmis að hætta að veita ferðamönnum þaðan eðlilega þjónustu.

Má rekja viðbrögð á Vesturlöndum til þess sem menn lesa eða heyra í fjölmiðlum, einmitt þess vegna er áhugavert að kynna sér það sem Matti Friedman hefur fram að færa um hvernig staðið er að miðlun þessara frétta.

Ferðamálastofa segir að 915.465 erlendir ferðamenn farið frá landinu til 1. desember í ár eða um 176 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 23,8% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra. Um 61 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nóvember eða 14.400 fleiri en í nóvember á síðasta ári. Aukningin nemur 31% milli ára. Ferðamenn hafa aldrei mælst fleiri í nóvember frá því að mælingar hófust.

 

Föstudagur 19. 12. 14 - 19.12.2014 16:30

Desember-hefti tímaritsins Þjóðmála ( 4. hefti 10. árgangs) er komið út með fjölbreyttu efni eins og venjulega. Þar er meðal annars að finna grein eftir Matti Friedman, blaðamann í Ísrael, sem birtist sl. sumar í Tablet Magazine  í Bandaríkjunum. Þar afhjúpar hann einhliða fréttaflutning alþjóðlegra fréttastofa um Ísrael. Grein Friedmans vakti athygli og umræður þegar hún birtist án þess að því yrði hnekkt sem hann segir. Í greininni segir Friedman meðal annars:

„Þegar þeir sem bera ábyrgð á að skýra fyrir heiminum framvindu heimsmála, blaðamennirnir, telja að stríð gyðinga séu fréttnæmari en öll önnur stríð, þegar þeir lýsa gyðingum í Ísrael sem þeim aðila deilunnar sem hafi augljóslega rangt fyrir sér, þegar þeir sleppa öllu sem hugsanlega gæti réttlætt athafnir gyðinga og fela hið rétta andlit óvina þeirra, flytja þeir lesendum sínum — hvort sem þeir ætla sér það eða ekki — þann boðskap að gyðingar séu versta fólkið á jörðinni. Gyðingar eru tákn hinna illu vætta sem siðmenntað fólk lærir að fyrirlíta frá unga aldri. Alþjóðleg fréttamennska hefur breyst í siðfræðilegan leikþátt þar sem kunnuglegt illmenni er á ferð.“

Vegna þess hve mikil fyrirferð er á fréttum frá Ísrael hér á landi og hve margir eru fljótir að taka afstöðu gegn Ísraelum þegar þeir takast á við nágranna sína á greinin eftir Friedman brýnt erindi til þeirra sem lifa í fréttaumhverfinu á Íslandi eða taka þátt í að móta það.

Fimmtudagur 18. 12. 14 - 18.12.2014 22:00

 

 

Viðtal mitt við Ófeig Sigurðsson, höfund skáldsögunnar Öræfi, á ÍNN frá 10. desember er nú komið á netið og má sjá það hér.  Skáldsagan hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu gagnrýnenda og nýtur vinsælda í bókaverslunum. Í samtalinu við Ófeig lýsir hann starfi sínu sem höfundur og ástæðunum fyrir að hann valdi sér þetta sögusvið.

Um svipað leyti og friðarverðlaun Nóbels voru afhent í Osló veittu þeir sem standa að friðarverðlaunum Konfúsíusar í Kína Fidel Kastró (88 ára), fyrrv. einræðisherra á Kúbu, Konfúsíusar-verðlaunin.  Töldu þeir að með friðarvilja sínum sem leiðtogi Kúbu hefði Kastró verið mikilvæg fyrirmynd annarra þjóðarleiðtoga. Hópur kúbverskra námsmanna tók við verðlaununum í Peking fyrir hönd Kastrós.

Þessi friðarverðlaun voru fyrst veitt árið 2010 þegar Lien Chan, fyrrverandi varaforseti Tævan, fékk þau. Árið 2011 komu þau í hlut Vladimírs Pútíns, þáv, forsætisráðherra Rússlands.  Árið 2012 var komið að Kofi Annan, fyrrv. aðalritara Sameinaða þjóðanna, sem verðlaunahafa og árið 2013 fékk Yi Cheng, Zen-meistari, verðlaunin.

Enginn verðlaunahafanna hefur látið svo lítið að koma til athafnarinnar þegar verðlaunin eru afhent. Sýnir það ekki mikla virðingu fyrir þeim sem að verðlaununum standa. Kínversk stjórnvöld hafa þvegið hendur sínar af verðlaununum og hafa lýst andstöðu við veitingu þeirra. Nú velur China International Peace Studies Center, hópur háskólamanna, verðlaunahafa og segist hann ekki hafa tengsl við stjórnvöld.

Allt er þetta næsta furðulegt eins og svo margt sem gerist í Kína þar sem oft er leitast við að endurgera það sem aðrir gera og breyta því í kínverskt frumkvæði. Fidel Kastró hefur ekki sést opinberlega á þessu ári síðan í janúar, hann tók þá þátt í athöfn þegar menningarmiðstöð var opnuð í Havana.

Í hálfa öld hefur Fidel Kastró helst náð sér á strik þegar hann flytu skammarræður um Bandaríkin. Nú hefur hann ekki lengur tilefni til þess.

 

 

 

 

Miðvikudagur 17. 12. 14 - 17.12.2014 19:15

Í dag ræddi ég við Þorgrím Þráinsson rithöfund í þætti mínum á ÍNN og má sjá samtalið klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag. Þorgrímur sendir tvær bækur frá sér núna fyrir jólin. Hann vinnu mikið með ungu fólki og kynnumst við reynslu hans í þættinum – hún er einstæð vegna fjölmargra heimsókna hans í alla grunnskóla landsins.

Söguleg tímamót urðu í dag þegar forsetar Bandaríkjanna og Kúbu kynntu að þeir mundu vinna að því að ríkin tækju upp stjórnmálasamband að nýju en því var slitið 1961. Þá er einnig stefnt að því að aflétta viðskiptaþvingunum Bandaríkjamanna. Nú hafa Bandaríkjamenn sleppt þremur kúbverskum föngum, fengið tvo til baka, þar á meðal njósnara sem setið hefur 20 ár í fangelsi á Kúbu.

Ákvörðun Baracks Obama Bandaríkjaforseta verður umdeild eins og allar ákvarðanir um stórpólitísk mál og repúblíkanar gagnrýna hann fyrir að sýna kommúnistum á Kúbu of mikla undirgefni með litlum kröfum í skiptum fyrir þetta stóra skref – það kunni að festa einræði kommúnista á Kúbu í sessi. Boðskapur í þá veru hljómar ósennilegur. Líklegt er að hið sama gerist á Kúbu eins og annars staðar þar sem glufa myndast í stjórnkerfi kommúnista:  stjórnarherrarnir standast ekki kröfur fólksins um sífellt meira frelsi.

Bandaríkjaþing er að meirihluta skipað repúblíkönum, báðar deildir. Þingmenn verða að samþykkja fjárveitingu til að opna megi sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu og viðskiptabanninu verður ekki aflétt nema þingmenn breyti lögum.

Ef marka má fréttir CNN er hinn almenni Havana-búi í skýjunum vegna þessara tíðinda og dansar fólk  á götum úti. Fólkið hefur aldrei heyrt forseta Kúbu tala eins vinsamlega um Bandaríkjaforseta eins og Raoul Kastró gerði í dag. Málflutningur forsetans brjót í baga við allt sem þetta fólk hefur kynnst alla ævi sína því að flestir Kúbverjar muna ekki eftir sér nema undir stjórn kommúnista sem hefur flutt hatursáróður í garð forseta Bandaríkjanna í meira en hálfa öld.

Þriðjudagur 16. 12. 14 - 16.12.2014 18:50

Rússneska hagkerfið er svo háð útflutningi á olíu að engan þarf að undra að rúblan falli um tæp 60% þegar olíuverð lækkar í 57 dollara tunnan úr 107 dollurum í sumar. Rússneski seðlabankinn reyndi að stöðva gengisfallið með því að hækka stýrivexti úr 10,5% í 17% fyrir upphaf viðskipta í morgun. Allt kom fyrir ekki, rúblan hélt áfram að falla í dag og líkja menn ástandinu við það sem gerðist í Rússlandi 1998 þegar lá við ríkisgjaldþroti. Stjórnvöld leituðu á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans til að halda ríkinu á floti. Eftir að Vladimír Pútín og félagar innlimuðu Krím eiga þeir ekki greiðan aðgang að alþjóðasjóðum sér til hjálpar.

Fréttir herma að kaupæði hafi gripið um sig meðal þeirra í Rússlandi sem eiga sparifé og þeir leggi nú leið sína í verslanir til að kaupa rafmagnstæki, tölvur, sjónvörp, síma, húsgögn og ökutæki áður en varningurinn hækkar í verði eða hverfur alfarið úr verslunum vegna viðskiptabanns Vesturlanda.

Vaxtahækkun seðlabankans á meðal annars að veita bönkum vernd gegn því að sparireikningar tæmist. Ólíklegt er að það takist og því er hætta á að bankar gangi á eigið fé sitt eða velti einfaldlega á hliðina vegna þess hve fá tækifæri þeir hafa til að endurfjármagna sig eftir rof í viðskiptum þeirra við Vesturlönd. Á hinn  bóginn er líklegt að gæslumenn banka á Vesturlöndum hefji baráttu gegn viðskiptaþvingunum gagnvart rússneskum bönkum sem skulda vestrænum bönkum hundruð milljarða dollara.

Stjórnarhættir Vladimírs Pútíns hafa annars vegar einkennst af því að hann hefur opnað Rússum aðgang að meira vöruúrvali en nokkru sinni hefur þekkst í sögu Rússlands og ekki lagt hömlur á viðskipti með varning sem áður var aðeins á færi yfirstéttar landsins að eignast, hins vegar hefur Pútín þrengt frelsi til upplýsingamiðlunar og skoðanamyndunar. Frelsið til viðskipta og þjóðernishyggja í þágu Stór-Rússlands hefur helst stuðlað að vinsældum Pútíns meðal almennings. Nú steðjar mikil hætta að þessu tvennu. Ónýt rúbla þrengir möguleika almennings til að njóta vöruúrvalsins samhliða bítandi áhrifum viðskiptaþvingana, draumurinn um Stór-Rússland verður að engu neyðist Pútín til að taka sér betlistaf í hönd.

 

Mánudagur 15. 12. 14 - 15.12.2014 20:40

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Facebooksíðu sinni. „Viðbrögð flokkssystkina hans [menntamálaráðherra] eru að ræða um mikilvægi kirkjuheimsókna skólabarna á aðventunni. Djöfulsins teboðshræsni.“ Þingmaðurinn tók á þennan smekklega hátt upp hanskann fyrir afskipti Lífar Magneudóttur, varaborgarfulltrúa VG, sem er formaður mannréttindaráðs borgarinnar og varaformaður leikskóla- og frístundaráðs, af kirkjuferð nemenda í Langholtsskóla. Sagði Líf að heimsóknin í kirkjuna bryti í bága við samskiptareglur Reykjavíkurborgar við trúfélög þar sem flytja ætti hugvekju. Kvartanir hefðu borist frá foreldrum vegna kirkjuferða skóla í borginni.

Orð þingmannsins „djöfulsins teboðshræsni“ endurspegla fyrirlitningu hennar á bandarísku stjórnmálaafli. Demókratar í Bandaríkjunum reyna að færa andstæðinga sína í flokki repúblíkana undir merki teboðsins svonefnda en þátttakendur í því eru útmálaðir sem öfgamenn. Vindurinn lekur hratt úr þessari áróðursblöðru demókrata enda misheppnaðist þeim að treysta stöðu sína í nýlegum þingkosningum og misstu meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Líf og Sigríður Ingibjörg eru dæmigerðir fulltrúar stjórnmálaviðhorfa sem kalla fram hörð viðbrögð austan hafs og vestan. Í Frakklandi hafa verið stofnuð æskulýðssamtök undir heitinu Jeunes Euroréalistes. Í stefnuskrá þeirra segir að kynslóðin sem alist hefur upp við sameiginlegan innri markað ESB og Maastricht-sáttmálann hafi ekki notið ávaxtanna sem lofað var þegar þessi skref voru stigin til samruna í Evrópu og nauðsynlegt sé að endurskoða starfsemi ESB frá grunni.

Það sé einkum unga fólkið í ESB-löndunum sem megi þola fjöldaatvinnuleysi og öryggisleysi um afkomu sína vegna þess að grafið sé undan allri framleiðslustarfsemi. Þá sé lagt bann við því að menn minnist grísks, rómversks, kristins arfs Evrópu en rækt við slíkan arf sé forsenda þess að fólk finni sameiginlegan tilgang í lífi og starfi.

Líf Magneudóttir var í Kastljósi kvöldsins og áréttaði þá skoðun að líta bæri á íslenska þjóðfélagið sem fjölmenningarsamfélag og þar með ætti ekki að halda fram einum menningararfi umfram annan.

Þess verður ekki vart að þeir sem nú hrópa hæst um að vegið sé að íslenskri menningu og menningararfi vegna stöðu ríkisútvarpsins hafi áhyggjur af árásum á þessa sömu menningu í nafni fjölmenningar.

Sunnudagur 14. 12. 14 - 14.12.2014 17:30

Tilraunir til að bregða fæti fyrir ráðherra og embættismenn einkenna DV, Reykjavík vikublað og Grapevine. Síðastnefnda blaðið er gefið út á ensku og þrífst á praktískum upplýsingum fyrir ferðamenn. Upplýsinga af því tagi er þó almennt leitað á netinu. Fyrir utan upplýsingamolana hafa blaðamenn á Grapevine um nokkurt árabil lagt sig í líma við að hallmæla borgaralegum stjórnmálaöflum í landinu. Að þessu leyti er blaðið í ætt við Reykjavík vikublað. Blöðin „pönkast á“ stjórnmálmönnum hægra megin við miðju en sækja gull í greipar þeirra sem leggja stund á viðskipti og kaupsýslu.

Atli Þór Fanndal blaðamaður er samnefnari blaðanna þriggja. Nú hefur hann tekið sér fyrir hendur á vefsíðu DV að hirta Sigurð Má Jónsson, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, fyrir að hringja til ritstjórnar Grapevine í því skyni að vara þá við að hafa allt gagnrýnislaust eftir Jóhanni Páli Jóhannssyni, blaðamanni á DV. Þetta lagðist illa í blaðamenn Grapevine og kvörtuðu þeir við Atla Þór sem hneykslast á Sigurði Má og segir: „Í frétt Grapevine kemur fram að þrátt fyrir hin ýmsu hneykslismál ríkisstjórnarinnar hafi lesendur ekki tilefni til að ætla að ríkisstjórnin sé alltaf að brjóta lög ef annað er ekki sérstaklega tekið fram.“ Þessi setning lýsir í hnotskurn efni Grapevine fyrir utan almennan fróðleik fyrir ferðamenn.

Atli Þór tekur sér fyrir hendur að skilgreina hlutverk blaðamanna og segir: „Hlutlægni felur í sér að það sem sett er fram standist kröfur um heimildavinnu og sé óháð skynjunum, viðhorfum og löngunum fólks.“ Blaðamennska Atla Þórs felst aðallega í að draga línur á milli staðreynda og leggja síðan fyrir lesendur mynd reista á eigin ímyndunarafli. Þetta verður seint kennt við hlutlæga blaðamennsku. Í gagnrýni sinni á Sigurð Má segir Atli Þór:

„Samtökin Fréttamenn án landamæra sendu nýlega frá sér yfirlýsingu þar sem upplýsingafrelsi á Íslandi er sagt hafa hnignað verulega frá því í hruninu. Er í því sambandi nefnt að aðstoðarmaður innanríkisráðherra hafi farið í meiðyrðamál gegn tveimur blaðamönnum DV og krafist fangelsisrefsingar yfir þeim…“

Atli Þór lætur þess ógetið að Jóhann Páll og Jón Bjarki Magnússon átu ofan í sig orð sín um aðstoðarmanninn og báðust afsökunar. Þeir bitu síðan hausinn af skömm sinni með því að kenna eigendum DV um að þeir gerðu sátt í málinu. Hafi þeim verið misboðið og viljað halda sjálfstæði sínu áttu þeir að segja skilið við eigendur blaðsins. Rík ástæða er til að efast um hlutlægni blaðamanna sem starfa við þessar aðstæður þar á meðal Atla Þórs.

Laugardagur 13. 12. 14 - 13.12.2014 17:40

Fréttir frá Noregi herma að komið hafi verið fyrir búnaði við Stórþinghúsið, byggingar ráðuneyta og bústað forsætisráðherrans sem gerir notendum hans kleift að fylgjast með ferðum farsímaeigenda og hlusta á samtöl þeirra í símann. Norska blaðið Aftenposten afhjúpaði að þessi tæki væru í hjarta höfuðborgarinnar. Kom fréttin stjórnmálamönnum og gæslumönnum öryggis þeirra í opna skjöldu.

Um þetta má lesa nánar hér. Allir sem ganga með farsíma verða að gera ráð fyrir að með þeim kunni að verða fylgst á þennan hátt. Spurningin er aðeins hve spennandi rannsóknarefni einstaklingurinn er.

Nýlega efndi Varðberg til fundar þar sem tveir tölvu-öryggisverðir Landsbankans fluttu erindi og sögðu að enginn væri óhultur fyrir tölvuárás, ætluðu kunnáttumenn sér að brjótast inn í tölvukerfi stæðust fá árásina. 

Þetta mátti hið risavaxna fyrirtæki Sony Pictures Entertainment og þúsundir starfsmanna þess reyna á dögunum. Þegar starfsfólkið kom til vinnu mánudaginn 24. nóvember blasti við því að einhver hefði farið ránshendi um tölvukerfi fyrirtækisins um heim allan. Þegar þau kveiktu á tölvuskjánum birtist þeim glottandi hauskúpa og textinn: „Við höfum náð öllum innri gögnum þínum, þar á meðal leyndarmálum þínum og lykilorðum […] Þetta er ekki nema byrjunin. Hlýðir þú okkur ekki birtum við öllum heiminum gögn þín.“

Þetta hafa reynst orð að sönnu. Kvikmyndinni Annie sem átti að frumsýna um jólin hefur verið lekið á netið. Þjófarnir hafa undir höndum öll skjöl fyrirtækisins og tölvubréf starfsmanna þess, nokkur tetrabæt, og yfirvöld standa ráðþrota frammi fyrir þjófnaðinum. Grunur lék á að Norður-Kóreustjórn stæði að baki illvirkinu til að hefna fyrir gerð myndar á vegum Sony sem snýst um launmorð á Kim Jong-un, einræðisherra landsins. Ekki hefur reynst unnt að sanna neitt um hlutdeild útsendara frá Norður-Kóreu né nokkurra annarra.

Hér hafa verið nefnd tvö ný dæmi til áminningar um að í samtímanum eru það ekki síður einkaaðilar en opinberir sem geta sölsað undir sig upplýsingar um einkahagi fólks og fyrirtækja svo að ekki sé talað um gögn á stjórnarskrifstofum. 

Föstudagur 12. 12. 14 - 12.12.2014 17:40

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði föstudaginn 12. desember kröfu um endurupptöku á máli hælisleitandans Tonys Omos.

Tony Omos kom hingað til lands með flugi frá Kaupmannahöfn 17. október 2011 og framvísaði hann við komuna kanadísku vegabréfi í eigu annars manns. Daginn eftir óskaði hann eftir hæli hér á landi og var hælisskýrsla síðan tekin af honum.  Hann sagðist á leið til Kanada, hann ætti unnustu í Toronto.  Vegna anna í innanríkisráðuneytinu tók 15 mánuði að afgreiða hælisumsókn hans en henni var endanlega hafnað og hann sendur landi 18. desember 2013. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 12. desember 2014 að hvorki útlendingastofnun né innanríkisráðuneyti ætti að taka mál Omos upp að nýju. Brottvísun hans stendur óhögguð.

Ein helsta krafa um endurupptöku málsins var reist á því að á hinum langa tíma, tveimur árum, sem tók að afgreiða hælisumsóknina, hefðu persónulegir hagir Omos breyst. Þannig væri hann í sambandi við íslenska konu en hefði áður verið í sambandi við konu að nafni A. Sú hefði stöðu hælisleitanda og ætti von á barni. Omos væri hugsanlega faðir barnsins. Í niðurstöðu dómara segir: „Kom framangreind A fyrir dóminn og sagði stefnanda [Omos] vera föður barns hennar sem hefði fæðst 3. febrúar 2014. Engin gögn liggja þó fyrir í málinu er staðfesta faðerni barnsins.“ Einnig kom fram að móðurbróðir Omos væri búsettur hérlendis og við aðalmeðferð málsins hefði B gefið skýrslu en hún segðist vera hálfsystir Omos og að hún hefði komið til landsins í júlí 2012.

Dómarinn segir að þrátt fyrir að Omos kunni að hafa stofnað til framangreindra sambanda og vinatengsla á meðan mál hans var hér til meðferðar og að tilgreindir ættingjar hans hafi komið hingað til lands í kjölfar komu hans til landsins breyti það ekki því að koma hans til landsins og dvöl tengdust einungis umsókn um hæli hans hér á landi en ekki því að hann hefði átt hér fjölskyldu eða ættingja.

Það var ekki fyrr öll önnur efnisrök reyndust haldlaus gegn brottvísuninni að tekið var til að krefjast hælis fyrir Omos hér á landi í krafti fjölskyldutengsla. Þar reið Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, fyrstur á vaðið opinberlega með viðtali við Omos í DV 18. nóvember 2013 þegar við blasti að hann yrði fluttur úr landi. Reiði vina Omos vegna skjalsins sem var lekið úr innanríkisráðuneytinu má rekja til þess að þeir töldu það veikja þennan málstað sinn.

 

 

 


Fimmtudagur 11. 12. 14 - 11.12.2014 19:30

Samtal mitt við Jóhönnu Kristjónsdóttur á ÍNN í tilefni bókar hennar Svarthvitir dagar má nú sjá hér á netinu.

Ég vek athygli á frétt sem birtist á bls. 64 í Morgunblaðinu í morgun og sagt er frá á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér.

Það kemur ekki á óvart að bandarískar kafbátaleitarvélar leggi nú leið sína til Keflavíkurflugvallar og stundi þaðan eftirlitsflug eins og þær gerðu árum saman fram á tíunda áratuginn. Þær hurfu héðan endanlega fyrir 10 árum eða í febrúar 2004. Koma vélanna til Íslands nú í sumar minnir á hve hratt staðan í öryggismálum hefur breyst hér á norðurslóðum og í Evrópu allri vegna Úkraínudeilunnar.

Hugveitan European Leadership Network sendi nýlega frá sér skýrslu sem nær fram í nóvember á þessu ári þar sem lýst er nærri 40 hernaðarlegum atvikum sem orðið hafa síðustu átta mánuði og snerta samskipti rússneska hersins við vestræna aðila. Í skýrslunni segir að þegar á heildina sé litið blasi við mjög óhugnanleg mynd af virðingarleysi fyrir lofthelgi ríkja, neyðarklifi, yfirvofandi árekstrum í lofti og á sjó, sviðsettum árásum og öðrum hættulegum uppátækjum. Atvikin gerist reglulega og á landfræðilega stóru svæði.

Í skýrslunni er að finna lýsingu á 11 alvarlegum atvikum sem bera vott um vísvitandi árásarhug eða vilja til óvenjumikillar ögrunar sem kallar fram meiri hættu á stigmögnun en almennt gerist. Þar megi nefna ofríki í garð eftirlitsflugvéla, lágflug yfir herskip og sviðsettar rússneskar sprengjuárásir. Þá eru nefnd 3 sérlega hættuleg atvik þar sem miklar líkur voru á að tjón yrði unnið eða til beinna hernaðarárekstra kæmi: á síðustu stundu tókst að koma í veg fyrir árekstur milli áætlunarvélar og rússneskrar eftirlitsflugvélar; eistneskum öryggisstarfsmanni var rænt og Svíar efndu til umfangsmikillar kafbátaleitar. Þótt til þessa hafi tekist að koma í veg fyrir beina hernaðarárekstra telja skýrsluhöfundar að meiri árásargirni Rússa og aukinn harka af hálfu Vesturlanda gegn henni magni hættuna á að fyrir slysni komi til stigmögnunar og menn missi stjórn á atburðarásinni.

 

 

Miðvikudagur 10. 12. 14 - 10.12.2014 19:45

Í dag ræddi ég á ÍNN við Ófeig Sigurðsson, höfund skáldsögunnar Öræfi, sem hefur fengið góða dóma og notið vinsælda í bókaverslunum. Ég leitaði meðal annars álits Ófeigs á orðum sem féllu í Stokkhólmi sunnudaginn 7. desember þegar Frakkinn Patrick Modiano tók við bókmenntaverðlaunum Nóbels en í ræðu sinni ræddi hann hlutskipti skáldsagnahöfundarins. Viðtal okkar Ófeigs verður sýnt klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Málflutningur þeirra sem taka sér fyrir hendur að kalla á meira opinbert fé til ríkisútvarpsins er sérkennilegur eins og þegar hefur verið getið hér. Guðmundur Andri Thorsson líkir stofnuninni við Esjuna og hún verði að standa óhögguð þrátt fyrir gjörbreytt umhverfi í tækni og fjölmiðlun.

Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV, hvarf nýlega frá ríkisútvarpinu og settist í stól Reynis Traustasonar. Hallgrímur endurómar sjónarmið fyrrverandi samstarfsmanna  í leiðara blaðs síns þriðjudaginn 9. desember. Hann segir meðal annars:

„Ríkisútvarpið sætir grimmilegri og grímulausri pólitískri aðför um þessar mundir, líklega þeirri alvarlegustu sem dæmi eru um í langri sögu útvarps í almannaþágu á Íslandi. Aðförin miðar beinlínis að því að veikja fjárhagslega og menningarlega stöðu RÚV til frambúðar. Nú skal látið sverfa til stáls.“

Þetta eru stór orð og úr öllu samhengi við kröfurnar sem gerðar eru til stjórnenda ríkisútvarpsins um að virtur sé fjárhagsramminn sem löggjafinn ákveður hverju sinni við gerð fjárlaga. Að líkja þessu við „grimmilega og grímulausa pólitíska aðför“ ber vott um að allt jafnvægi skorti í málflutninginn. Í stað þess að færa fram rök setja menn sig í frekjulegar stellingar. Það sæmir ekki stöðu ríkisútvarpsins í samfélaginu og er til þess eins fallið að veikja ímynd þess.

Ný yfirstjórn ríkisútvarpsins fór illa af stað. Breytingar sem gerðar voru á dagskrá rásar 1 mæltust illa fyrir hjá traustustu hlustendum hennar. Gagnrýni var svarað af yfirlæti sem mátti í sumum tilvikum jafna við hroka. Sambærilegt viðhorf setur svip sinn á kröfugerðina um hækkun nefskatts í þágu ríkisútvarpsins. Hlustun og áhorf dregst saman og svarið af hálfu stofnunarinnar er að heimta meira fé af þeim sem hafa lítinn og minnkandi áhuga á því sem hún hefur fram að færa.

Að lemja á stjórnmálamönnum til að bæta stöðu ríkisútvarpsins í stað þess að ræða aðlögun starfsemi og dagskrár þess að nýjum aðstæðum er ekki annað en veruleikaflótti, minna málflytjendur stundum á jólasveina úr Esjunni.

Þriðjudagur 09. 12. 14 - 9.12.2014 20:45

Í dag var Angela Merkel endurkjörin formaður kristilegra demókrata (CDU) á landsfundi flokks þeirra í Köln. Hún fékk 97,7% atkvæða, henni tókst því ekki að slá fyrra met sitt frá landsfundinum árið 2012 þegar hún fékk 97,9% atkvæða. Hún hefur verið kjörin átta sinnum síðan hún tók við formennsku flokksins árið 2000, minnst fylgi féll hún árið 2004, 88,4% atkvæða.

Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra sagði í samtali við Süddeutsche Zeitung mánudaginn 8. desember: „Angela Merkel talar ekki eins mikið um sigra sína og Napóleon en hún hefur náð meiri árangri.“

Á ruv.is segir í dag:

Ferlið við að afnema gjaldeyrishöftin er vonandi á lokastigi, segir Lee Bucheit, einn af ráðgjöfum stjórnvalda. Ráðgjafarnir funduðu í dag með slitastjórnum föllnu bankanna þar sem þær lýstu skoðunum sínum til afnáms hafta.[…]

Bucheit segist bjartsýnn á að hægt verði að stíga stór skref í afnámi hafta fljótlega. „Stjórnvöld hafa sagt að þau vilji gera eitthvað snemma á næsta ári og ég tel það raunhæft.““

Þegar þetta er lesið vakna spurningar um trúverðugleika þeirra, einkum í Samfylkingunni, sem hafa haldið því fram í fimm ár að ekki sé unnt að losna úr gjaldeyrishöftum nema gengið sé í Evrópusambandið.

Það er efni í heila bók að rifja upp allt sem ESB-aðildarsinnar hafa sagt um leiðina úr höftum. Skyldu þeir láta til sín heyra núna og mótmæla áformum um afnám hafta utan ESB?

 

 

Mánudagur 08. 12. 14 - 8.12.2014 19:15

Forvitnilegt er að taka saman það sem mönnum dettur í hug að segja ríkisútvarpinu til varnar. Hér er gullkorn  Guðmundar Andra Thorssonar, dálkahöfunar Fréttablaðsins, frá því í morgun:

„Ríkisútvarpið er sameign íslensku þjóðarinnar sem vill hafa öflugt almannaútvarp hér á landi þar sem fólk fær að starfa af fagmennsku og heilindum en þarf ekki að búa við stöðugar árásir frá frekjuhundum.


Árásirnar á Ríkisútvarpið jafngilda árásum á Árnastofnun eða Veðurstofuna. Þetta er eins og að vera andvígur Þjóðminjasafninu. Þetta er eins og að berjast fyrir því að Esjan verði lögð niður.“

Engir ala meira á sundurlyndi vegna ríkisútvarpsins en starfsmenn þess sjálfir sem líta ekki á það sem sameign þjóðarinnar heldur sameign starfsmanna eins og dæmin sanna. Úr því að Guðmundur Andri nefnir Árnastofnun, Veðurstofuna og Þjóðminjsafnið til sögunnar hefur tekist að gjörbreyta þessum ríkisstofnunum á undanförnum árum án þess að allt fari á annan endann út af því enda er viðhorf starfsmanna til breytinga þar allt annað en á ríkisútvarpinu.

Að líkja fjölmiðli sem á að þróast í takt við tímann og taka mið af tækninýjungum og breytingum í fjölmiðlun við fjall sýnir best hve steinrunnir helstu opinberir málsvarar ríkisútvarpsins eru og hvílíkur óravegur er frá að unnt sé að ræða um stöðu og starfshætti ríkisútvarpsins í samtímanum við þá af nokkurri skynsemi.

Sunnudagur 07. 12. 14 - 7.12.2014 16:00

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri ræðir málefni ríkisútvarpsins (RÚV) í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann á Morgunblaðinu, laugardaginn 6. desember. Að lokum snýst samtalið um hve hátt útvarpsgjaldið þurfi að vera, það er nefskatturinn sem landsmenn greiða vegna RÚV, til að Magnús Geir treysti sér til að „sinna lögbundnum skyldum“ fyrirtækisins. Verði gjaldið lækkað í 17.800 kr. á ári 2015 í stað 19.400 kr. eins og það er í ár hefði það í för með sér „mikla breytingu á starfsemi og hlutverki RÚV,“ segir Magnús Geir og einnig:„Það er ekki verið að fara fram á að útvarpsgjaldið hækki, heldur einfaldlega að það standi í stað,“. Við þær aðstæður treysti hann sér „til að leiða Ríkisútvarpið inn í bjartari tíma“ eins og hann orðar það. Í þessum orðum felst að það muni 1.600 kr. milli feigs og ófeigs.

Verði ekki orðið við þessari kröfu telur stjórn RÚV að alþingi vilji í raun „gjörbreyta hlutverki, skyldum og þjónustu Ríkisútvarpsins“ og „eðlilegt [sé] að fram fari sérstök umræða um það á Alþingi og þá með tilheyrandi breytingum á útvarpslögum. Ákvörðun um að breyta útvarpsgjaldinu verði ekki tekin fyrr en að henni lokinni“.

Þeir sem sjálfir eiga mikið undir að ekkert breytist á ríkisútvarpinu og það hafi nóg fé handa á milli kveða sumir fast að orði í umræðunum um fjárhag ríkisútvarpsins. Þeir eru hins vegar vanhæfir til að fjalla um málið sé litið til almennra leikreglna. Þar má meðal annars nefna Egil Helgason, þáttarstjórnanda og álitsgjafa, félaga í hljómsveitinni Skálmöld og ýmsa aðra sem óttast að missa spón úr aski sínum eða aðstöðu af einhverju tagi.

Vandi stjórnmálamanna við töku ákvarðana sem snerta fjárhag ríkisútvarpsins er sá að sagan kennir þeim að stjórnendur RÚV hafa svo oft sagt að fáist einhver ein hækkun þá hverfi allur vandi til framtíðar. Því miður hefur hækkunarbeiðnin varla fyrr verið samþykkt en einhver nýr pinkill er nefndur til sögunnar og sagt að hann eyðileggi öll góðu áformin um hina björtu framtíð.

Ríkisútvarpið er ekki eini opinberi miðillinn sem óttast framtíð sína við gjörbreyttar aðstæður í fjölmiðlun. Þegar ég var menntamálaráðherra fyrir 15 árum voru stjórnendur norrænu ríkisútvarpanna mjög uggandi um stöðu stofnana sinna og sendu sameiginlegt bréf til að biðja þeim verndar.

Laugardagur 06. 12. 14 - 6.12.2014 21:45

Carl Bildt, fyrrv. utanríkisráðherra Svía úr Moderata-flokknum (mið-hægri), segir á vefsíðu sinni í dag að fráleitt sé fyrir Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra jafnaðarmanna, að láta eins og hann hafi lagt sig í líma við að stofna til samstarfs milli minnihlutastjórnar sinnar og borgaraflokkanna. Miklu nær sé að segja að ríkisstjórnin hafi hallað sér alltof langt til vinstri. Þá hafi Magdalena Andersson fjármálaráðherra hvað eftir annað vegið að borgaraflokkunum og sagt að hún mundi þrýsta vinstri-fjárlögunum í gegnum þingið hvað sem tautaði og raulaði. Ríkisstjórnin féll af því að hún hafði ekki þingmeirihluta fyrir fjárlögunum.

Bildt segir að í ljós komi hvort innflytjendamál verði stóra mál kosningabaráttunnar fram til 22. mars 2015. Nauðsynlegt sé að ræða þau og átta sig á vandanum vegna þeirra, hann minnki ekki. Bildt telur vandann ekki fyrst og fremst felast í fjölda innflytjenda heldur felist hann í aðlögun þeirra, hana verði að stórbæta. Í því efni hafi vinstri flokkarnir alfarið brugðist. Það stafi meðal annars af því að breytt aðlögunarstefna rekist á nokkrar heilagar kýr vinstri manna eins og aukið frjálsræði á vinnumarkaði. Með þvermóðsku leggi þeir vopn í hendur andstæðinga innflytjenda. Þessa hlið málsins þurfi að ræða meira og hún hafi ekkert með Svíþjóðardemókratana að gera. Stefan Löfven réðst þá í blaðagrein í dag og kallaði ný-fasista eins og sjá má hér. http://evropuvaktin.is/stjorn/?gluggi=skjal&tegund=stjornmalavakt&id=34487

Í dag var ég á Facebook spurður álits á ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá starfandi dómsmálaráðherra, um að flytja lögregluna á Hornafirði úr suðurliði í Austfjarðalið, Svar mitt er:

Í fyrsta lagi tel ég fagnaðarefni að lögregluumdæmin stækki. Í öðru lagi er skynsamlegt að lögregluumdæmi falli að kjördæmamörkum þótt fleiri en eitt umdæmi sé innan sama kjördæmis. Í þriðja lagi ber að líta til þess að sveitarfélagið Hornafjörður teygir sig allt til Skaftafells og þangað kann að vera fljótlegra að sinna erindum frá Kirkjubæjarklaustri en Höfn. Í fjórða lagi hefði með samvinnu milli lögregluumdæma innan NA-kjördæmis mátt fjölga í Austfjarðaliðinu. Í fimmta lagi hefur allur undirbúningur um langt skeið lotið að því að Hornafjörður sé í suðurliðnu. Séu rök sem hnekkja þessum sjónarmiðum hef ég ekki enn heyrt þau. Komi þau fram ber að leggja mat á þau.

Föstudagur 05. 12. 14 - 5.12.2014 17:30

Um nokkurt skeið hefur verið látið eins og áhugamenn um starfsöryggi blaðamanna úti í heimi væru slegnir óhug vegna þess að Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, stefndi Jóna Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni blaðamönnum á DV fyrir að fara með rangt mál um hana. Nefnd voru til sögunnar samtökin Blaðamenn án landamæra, Alþjóðasamtök blaðamanna og International Modern Media Institute auk þess létu blaðamennirnir þess getið að rætt hefði verið um málshöfðunina gegn þeim á vefsíðu breska blaðsins The Guardian.

Í dag var tilkynnt að sátt hefði tekist milli Þóreyjar og blaðamannanna um að ummæli í blaðagrein sem Jóhann Páll og Jón Bjarki skrifuðu um rannsókn lögreglunnar á leka úr innanríkisráðuneytinu væru dauð og ómerk. Þá fær Þórey 330 þúsund krónur í sáttaskyni sem hún segist ætla að láta renna til Stígamóta. DV ehf, útgáfufélag DV, greiðir fjárhæðina til Þóreyjar.

Nú er spurning hvað hin alþjóðlegu samtök gera eftir að ljóst er að blaðamennirnir hafa orðið að lýsa ummæli í grein sinni dauð og ómerk og auk þess greiða Þóreyju fé í sáttaskyni. Þeir fara með öðrum orðum frá málinu sem ósannindamenn. Augljóst er að miðlað var einhverjum upplýsingum til útlanda í því skyni einu að kalla fram viðbrögð sem fældu Þóreyju frá að halda stefnu sinni fram fyrir dómara. Það bragð misheppnaðist og sitja menn víða um lönd nú eftir með sárt enni. Spurning er hvort Jón Bjarki og Jóhann Páll biðji þá afsökunar.

Jón Bjarki lætur sér afleiðingar óvandaðra skrifa um Þóreyju ekki að kenningu verða. Jón Bjarki „pönkast“ nú á Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og heldur fram ósannindum eins og þeim að stjórnmálaskoðanir hennar hafi ráðið því að hún var á sínum tíma skipuð aðstoðarríkislögreglustjóri eða lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hvað Jón Bjarki hefur fyrir sér í því efni er á álíka sterkum grunni reist og ummæli hans um Þóreyju Vilhjálmsdóttur sem hann þorði ekki annað en éta ofan í sig með sátt af ótta við þungan dóm.

 

 

 

 

 

Fimmtudagur 04. 12. 14 - 4.12.2014 20:40

Ólöf Nordal varð innanríkisráðherra í dag að tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Kom val Bjarna á óvart en tillaga hans var samþykkt einróma á þingflokksfundi í Valhöll í morgun. Fyrsta val Bjarna var Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis. Hann hafði ekki áhuga á að víkja úr forsetasætinu og hafnaði tilmælum Bjarna.

Einar K. var augljós kostur bæði vegna mikillar reynslu og sem oddviti í kjördæmi sem ekki á ráðherra í hópi sjálfstæðismanna.  Á stjórnmálavettvangi gilda ákveðin lögmál – þar á meðal að öll kjördæmi eiga kröfu til ráðherraembættis eða ígildis þess eins og forsæti á alþingi er.

Í Reykjavík eru tvö kjördæmi. Með brotthvarfi Hönnu Birnu úr ríkisstjórn missti annað þeirra þingmann auk þess sem fækkaði um konu í ríkisstjórninni. Ólöf Nordal var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Reykvíkinga áður en Hanna Birna var kjörin á þing árið 2013. Með þetta í huga var rökrétt að Bjarni hugsaði til hennar úr því að hann ákvað á annað borð að „hugsa út fyrir kassann“ í leit að ráðherra.

Er fagnaðarefni að Ólöf skyldi verða við tilmælum Bjarna. Með henni kemur reynslumikill stjórnmálamaður inn í ríkisstjórnina, lögfræðingur með sérstakan áhuga á dóms- og lögreglumálum tekur við embætti innanríkisráðherra. Verður það vonandi til að rétta hlut dómsmálanna innan innanríkisráðuneytisins og styrkja áformin um að til verði sérstakt dómsmálaráðuneyti að nýju.

Undarlegt þótti að svo langan tíma tæki að finna nýjan ráðherra í stað Hönnu Birnu. Þegar niðurstaðan liggur fyrir er ljóst að ástæðan fyrir fresti Bjarna er að hann lenti í vanda eftir að Einar K. hafnaði tilmælum hans. Enginn gat í raun vænst þess að Ólöf stigi hið stóra skref án þess að fá ráðrúm til umhugsunar. Með farsælli ákvörðun styrkti Bjarni stöðu sína sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

 

 

Miðvikudagur 03. 12. 14 - 3.12.2014 19:10

Í dag ræddi við Jóhönnu Kristjónsdóttur á ÍNN um bók hennar Svarthvítir dagar og fleira. Má sjá þáttinn klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur stokkað upp á 365 miðlum og séð til þess að þar sé í lykilstöðum fólk sem fer að vilja hans við að beita fjölmiðlum fyrirtækisins gagnvart mönnum og málefnum þegar hann telur þess þörf. Við lestur á dálkinum Skjóðan í Markaðnum fylgiblaði Fréttablaðsins í dag, miðvikudaginn 3. desember, vaknar spurning um hvort Jón Ásgeir riti dálkinn undir dulnefninu Skjóðan.

Höfundurinn skeytir skapi sínu á Jóni H. B. Snorrasyni, aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og Sigurði Tómasi Magnússyni prófessor vegna frétta um að þeir hafi fengið verktakagreiðslur frá sérstökum saksóknara. Hvers vegna er Skjóðunni í nöp við þessa tvo menn? Af því að þeir voru saksóknarar í  Baugsmálinu. Augljóst er að Skjóðan hefur átt undir högg að sækja í því máli og nær ekki upp í nefið á sér fyrir reiði vegna þess þótt sex ár séu síðan dómur féll og Jón Ásgeir var sakfelldur.

Rifjað er upp í þessum nöldurdálki Markaðarins að ákæruatriðum í Baugsmálinu hafi verið vísað frá dómi. Skjóðan ætti að lesa bókina Í krafti sannfæringar sem Jón Steinar Gunnlaugsson sendi frá sér á dögunum þar sem hann fer meðal annars orðum um muninn á afstöðu dómara í Baugsmálinu til ákæru þar og til þeirra ákæra sem nú eru lagðar fyrir þá í efnahagsbrotamálum. Af orðum Jóns Steinars er auðvelt að ráða að annað sé uppi á teningnum nú en þá og kröfur dómara til ákæru í Baugsmálinu hafi verið óeðlilegar.

Á tíma Baugsmálsins beitti Jón Ásgeir fjölmiðlaveldi sínu í eigin þágu til að hafa áhrif á almenningsálit og dómara. Hann telur sig líklega hafa haft árangur sem erfiði. Enn heldur hann dauðahaldi í fjölmiðla og enn eru mál vegna hans rekin fyrir dómstólum.

 

 

Þriðjudagur 03. 12. 14 - 2.12.2014 19:10

Fyrir nokkrum vikum var efnt til fundar um efnið: Hver er munurinn Vantrú og Siðmennt? Er þörf fyrir ólík félög efahyggjufólks?" Sindri Guðjónsson frá Vantrú og Sigurður Hólm frá Siðmennt svöruðu spurningunum. Hver þau voru veit ég ekki. Meira hefur hins vegar verið sagt frá málþingi sem Siðmennt hélt laugardaginn 29. nóvember um efnið: Þurfum við að óttast íslam? Þar flutti Sigurður Hólm erindi sem hann segir að vakið hafi hörð viðbrögð ýmissa, meðal annars líflátshótun.

Ibra­him Sverr­ir Agn­ars­son, formaður Fé­lags múslima á Íslandi, Guðrún Mar­grét Guðmunds­dótt­ir, doktorsnemi í mann­fræði, og Helgi Hrafn Gunn­ars­son þingmaður fluttu einnig er­indi á málþing­inu. Allar lýsingar benda til að mikill hiti hafi verið í ýmsum fundarmönnum. „Hit­inn var ekki frá múslim­um, þrátt fyr­ir að ég hafi talað í raun mjög skýrt gegn bók­stafstrú múslima kom gagn­rýn­in ekki þaðan,“ seg­ir Sig­urður við mbl.is.

Hann telur „að besta leiðin til að búa til öfga­hreyf­ing­ar sé að ein­angra fólkið sem er þess­ar­ar trú­ar þannig að því líði illa í sam­fé­lag­inu og finn­ist það utang­arðs“. Að sjálfsögðu gefur aldrei góða raun að einangra neinn eða setja honum afarkosti. Hitt er annað mál hvort sanngjarnt sé að skella skuldinni á aðra í þessu efni. Í því einu felst leið til einangrunar að velja sér samstað meðal fólks með allt aðra lífskoðun og trúarbrögð en maður sjálfur, neita að laga sig að samfélagi þess fólks og krefjast þess að þeir sem fyrir eru breyti siðum sínum.

Félagsmenn í Vantrú hafa ekki alltaf verið innan hóflegra marka í málflutningi sínum og ekki hikað við að svara þeim sem þeir telja sér óvinsamlega með rosta.

Aldrei á að hafa í heitingum og síst af öllu hóta einhverjum lífláti. Miðað við hve víða er fast að orði kveðið í garð einstaklinga vekur nokkra undrun hve oft menn kveinka sér undan að þung orð séu látin falla þegar rætt er um íslam eða trúarbrögð almennt.

 

 

Mánudagur 01. 12. 14 - 1.12.2014 19:00

Þátt minn á ÍNN frá síðasta miðvikudegi má sjá núna á netinu, sjá hér. Ég ræði við Sigríði Hjartar í Múlakoti í Fljótshlíð um verndun gamla bæjarhússins á staðnum þar sem rekið var hótel um langt árabil, stunduð garðrækt og listamannalíf.

Í dag setti ég á FB-síðu mína krækju á myndband sem hefur verið gert til að sýna að það geti ekki verið að flugvélin sem fórst við Smólensk í Rússlandi 10. apríl 2010 og forseti Póllands auk um 100 annarra manna með henni hafi verið komin niður undir jörð þegar hún splundraðist. Það hljóti að hafa gerst á meðan flugvélin var hærra á lofti. Hér má sjá þetta myndband.

Höfundur Staksteina í Morgunblaðinu í morgun ræðir ákvörðun ríkisstjórnar og fjárlaganefnar um að leggja ríkisútvarpinu til meira fé en áður hafði verið ákveðið. Í Staksteinum segir:

„Og hver er svo skýring stjórnvalda á því hvers vegna haldið er áfram að auka við framlagið til Ríkisútvarpsins á meðan ýmis grunnþjónusta býr við mikla skerðingu auk þess sem ekki er hægt að lækka skatta á almenning? Jú, uppgefin skýring er á þá leið að viðbótarframlaginu sé sett það skilyrði að Ríkisútvarpið þurfi að halda eigin fjárhagsáætlanir!“

Rannsóknarefni er hve oft stjórnendur ríkisútvarpsins hafa lofað bót og betrun í fjármálum við afgreiðslu fjárlaga en síðan hefur ekki staðið steinn yfir steini. Sökudólginn er jafnan ekki að finna innan útvarpsins. Þar fara menn aldrei í meðferð sem einkennist af viðurkenningu á eigin sök. Allt er alltaf öðrum að kenna.

Grátkór ríkisútvarpsins notar alla fjölmiðla til að ala á þeirri skoðun að níðst sé ríkisútvarpinu. Lesendur Morgunblaðsins hafa kynnst þessum kór síðustu daga. Pétur Gunnarsson rithöfundur sagði til dæmis í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamann mánudaginn 24. nóvember:

„Ég er uggandi um útvarp allra landsmanna. Það minnir á sært dýr. Úlfarnir hafa runnið á blóðslóðina og eru að gera sig líklega til að ráðast á það. Ég óttast að óvildarmenn RÚV til langs tíma ætli að nota núverandi ástand til að rýra, skerða og þrengja enn frekar að hag Ríkisútvarpsins.“

Miðað við alla milljarðana sem ríkisútvarpið hefur milli handa er með ólíkindum að menn sem almennt eru marktækir skuli taka þennan pól í hæðina þegar þess eins er krafist að útvarpið sé rekið innan setts fjárlagaramma.