Laugardagur 13. 12. 14
Fréttir frá Noregi herma að komið hafi verið fyrir búnaði við Stórþinghúsið, byggingar ráðuneyta og bústað forsætisráðherrans sem gerir notendum hans kleift að fylgjast með ferðum farsímaeigenda og hlusta á samtöl þeirra í símann. Norska blaðið Aftenposten afhjúpaði að þessi tæki væru í hjarta höfuðborgarinnar. Kom fréttin stjórnmálamönnum og gæslumönnum öryggis þeirra í opna skjöldu.
Um þetta má lesa nánar hér. Allir sem ganga með farsíma verða að gera ráð fyrir að með þeim kunni að verða fylgst á þennan hátt. Spurningin er aðeins hve spennandi rannsóknarefni einstaklingurinn er.
Nýlega efndi Varðberg til fundar þar sem tveir tölvu-öryggisverðir Landsbankans fluttu erindi og sögðu að enginn væri óhultur fyrir tölvuárás, ætluðu kunnáttumenn sér að brjótast inn í tölvukerfi stæðust fá árásina.
Þetta mátti hið risavaxna fyrirtæki Sony Pictures Entertainment og þúsundir starfsmanna þess reyna á dögunum. Þegar starfsfólkið kom til vinnu mánudaginn 24. nóvember blasti við því að einhver hefði farið ránshendi um tölvukerfi fyrirtækisins um heim allan. Þegar þau kveiktu á tölvuskjánum birtist þeim glottandi hauskúpa og textinn: „Við höfum náð öllum innri gögnum þínum, þar á meðal leyndarmálum þínum og lykilorðum […] Þetta er ekki nema byrjunin. Hlýðir þú okkur ekki birtum við öllum heiminum gögn þín.“
Þetta hafa reynst orð að sönnu. Kvikmyndinni Annie sem átti að frumsýna um jólin hefur verið lekið á netið. Þjófarnir hafa undir höndum öll skjöl fyrirtækisins og tölvubréf starfsmanna þess, nokkur tetrabæt, og yfirvöld standa ráðþrota frammi fyrir þjófnaðinum. Grunur lék á að Norður-Kóreustjórn stæði að baki illvirkinu til að hefna fyrir gerð myndar á vegum Sony sem snýst um launmorð á Kim Jong-un, einræðisherra landsins. Ekki hefur reynst unnt að sanna neitt um hlutdeild útsendara frá Norður-Kóreu né nokkurra annarra.
Hér hafa verið nefnd tvö ný dæmi til áminningar um að í samtímanum eru það ekki síður einkaaðilar en opinberir sem geta sölsað undir sig upplýsingar um einkahagi fólks og fyrirtækja svo að ekki sé talað um gögn á stjórnarskrifstofum.