Dagbók: júlí 2007

Þriðjudagur, 31. 07. 07. - 31.7.2007 22:09

Gallup birtir könnun í dag, sem sýnir 45% fylgi Sjálfstæðisflokksins og hefur það ekki verið meira síðan árið 2000. Samfylking dalar, en ríkisstjórnin nýtur stuðnings 83% landsmanna. Stjórnarandstöðuflokkarnir tapa fylgi.

Að stjórnmálaflokkur njóti jafnmikils fylgis og Sjálfstæðisflokkurinn eftir 16 ára forystu í ríkisstjórn er ekki aðeins einsdæmi hér á landi heldur einnig í flestum ef ekki öllum lýðræðisríkjum.

Mánudagur, 30. 07. 07. - 30.7.2007 20:41

Utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór nýlega í heimsókn til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs, eins og kunnugt er. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um deilur á þessu ófriðar- og óróasvæði af eigin raun og leggja friðarlóð á vogarskálar. Of snemmt er að segja nokkuð um árangur ferðarinnar, enda er nauðsynlegt að undirbúa hvert skref, sem stigið er til lausnar á þessum langvinnu deilum af kostgæfni.

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir, sem um margra ára skeið hefur látið sig málefni Palestínumanna varða, minnti á það í tilefni af ferð Ingibjargar Sólrúnar, að Norðmenn hefðu ekki tekið til við friðarumleitanir milli Ísraela og Palestínumanna, fyrr en þeir höfðu rannsakað deilumálin gaumgæfilega og haldið úti sérstakri stofnun í þeim tilgangi. Þrátt fyrir Óslóar-samkomulagið svonefnda og framlag Norðmanna er enn hart deilt á þessum slóðum.

Hvað sem líður friðarhorfum fyrir botni Miðjarðarhafs eftir för utanríkisráðherra þangað, er ljóst, að ferðalagið hefur valdið alvarlegum deilum um afstöðuna til Palestínumanna meðal jafnaðarmanna og sósíalista hér á landi. Hafa deilur málsvara Fatah-hreyfingarinnar, sem stjórnar á Vesturbakkanum, og Hamas-samtakanna, sem stjórnar Gaza-spildunni, sett svip sinn á stjórnmálaumræður hér eftir heimkomu utanríkisráðherra.

Í Morgunblaðinu í dag má sjá tvær greinar um málið, eins og hér verður rakið.

Lesa meira

Sunnudagur, 29. 07. 07. - 29.7.2007 21:12

Við ókum inn í rigningu uppúr hádeginu hér í Reykjavík úr glampandi morgunsól í Fljótshlíðinni, þar sem sjá mátti tugi húsbíla, hús- og tjaldvagna auk þess var töluverð umferð smávéla um flugvöllinn við Múlakot. Sumarblíðan í sveitinni iðaði sem sagt af mannlífi.

Í nýju hefti af tímaritinu Ský las ég smásöguna Skjólið eftir Ágúst Borgþór Sverrisson. Hann sýnir oft góða takta sem bloggari. Ég hafði gaman af sögunni. Ágúst Borgþór hefur boðað, að hann sendi frá sér skáldsögu nú í haust. Smásagan í Skýi vakti áhuga minn á að kynnast fleiru en bloggi Ágústs Borgþórs.

Í pistlinum í dag fjalla ég um baráttu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar fyrir lækkun skatta og vísa meðal annars á vefsíðu hans. Þar er mynd af honum með Margaret Thatcher. Í The Daily Telegraph  í gær var sagt frá því, að þeir, sem sækjast eftir framboði til forseta fyrir flokk repúblíkana í Bandaríkjunum, telji sér það til tekna að sitja fyrir með frú Thatcher og fari því í einskonar pílagrímsför til hennar í London. Rudy Guiliani mun hitta hana í september, en Fred Thompson, sem eru næstur Guiliani að vinsældum, þótt hann hafi ekki enn gefið kost á sér, hefur þegar látið mynda sig með frú Thatcher.

 

Laugardagur, 28. 07. 07. - 28.7.2007 21:28

Blaðið skýrði frá því, að fastaráð NATO hefði fimmtudaginn 26. júlí samþykkt áætlun um lofthelgisgæslu (Air Policing) við Ísland og ættu orrustuþotur frá NATO-ríkjum að koma hingað fjórum sinnum á ári til að sinna eftirlitinu með æfingum. Þá ætti að nýta tækjakost ratsjárstofnunar í þágu eftirlitsins.

Air Policing eða lofthelgisgæslu má jafna við landhelgisgæslu. NATO skilgreinir starfsemina á þennan veg: „The use of interceptor aircraft, in peacetime, for the purpose of preserving the integrity of a specified airspace.“Lofthelgiseftirlitið er stundað með orrustuþotum, enda eru aðrar flugvélar ekki búnar til valdbeitingar í háloftunum. Lofthelgisgæsla lýtur samkvæmt skilgreiningu að innra öryggi ríkja og líkist löggæslu eins og orðið policing gefur til kynna.

Lögregla ræður hvergi yfir orrustuþotum og það er ekki fyrr en hin síðari ár, sem til slíkra tækja er litið í því skyni að tryggja innra öryggi.

Öfgafullri og ótrúverðugri beitingu orrustuþotu í þágu innra öryggis má kynnast í kvikmyndinni Die Hard 04.

ps. athygli mín hefur verið vakin á því, að hljóðvarp ríkisins flutti frétt um þetta föstudaginn 27. júlí.

Föstudagur 27. 07. 07. - 27.7.2007 22:44

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun og þar var ákveðið að leggja áform um göng til Vestmannaeyja á hilluna, eins og það var orðað í fréttum, þegar Kristján Möller samgönguráðherra hafði skýrt frá niðurstöðunni.

Fráleitt er að halda áfram að þrefa um göng til Vestmannaeyja á stjórnmálavettvangi og tímabært  fyrir ríkisstjórnina að taka af skarið. Rök Árna Johnsens fyrir því, að enn skuli  varið hundrað milljónum eða meira af skattfé almennings til frekari rannsókna vegna ganga til Eyja eru veikburða. Raunar kemur á óvart, hve mikla áherslu Árni leggur á vísindarannsóknir á þessu sviði miðað við litla trú hans á slíkum rannsóknum við ákvörðun sjávarútvegsráðherra um aflaheimildir.  Haft er eftir Árna í dag, að löggæsla hér á landi taki einkum mið af hryðjuverkaógn. Árni virðist ekki átta sig á því, að sömu aðferðum er beitt til að glíma við skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi

Fimmtudagur, 26. 07. 07. - 26.7.2007 18:46

Fór síðdegis um borð í togskipið Brimnes, nýtt skip Brims, sem liggur við Ægisgarð. Skipið er frá árinu 2003 og var smíðað fyrir Norðmenn en hefur nú verið endurgert fyrir veiðar og vinnslu Brims. Skipið er stórt og glæsilegt, ekki síst brúin, en þar var margt um manninn og rúmaðist fjöldinn vel, þegar boðnar voru pönnukökur og vöflur með sultu og rjóma. Skipið er bæði til botnfisks- og rækjuveiða auk fullkomins búnaðar til vinnslu um borð.

Í Kastljósi kvöldsins og í gærkvöldi var fjallað um, hvernig ráðherrar hafa ráðstafað því fé, sem þeir hafa á fjárlögum til að verja til verkefna að eigin ákvörðun - ráðstöfunarfé ráðherra, eins og það heitir í fjárlögum, en það er mismikið eftir ráðuneytum.

Hafi einhverjir haldið, að með umfjöllun sinni væri Kastljós að upplýsa eitthvað, sem áður hefur verið hulið, er það misskilningur. Ráðherrar eru reglulega spurðir um þetta á alþingi og þar eru tölur birtar opinberlega í heild, sem ekki var gert í Kastljósi.

Hafi ætlunin verið að leiða í ljós, að ráðstöfun ráðherra á þessu fé væri á skjön við lög og reglur, tókst það ekki - fjármunirnir eru til ráðstöfunar fyrir ráðherra og þótt starfsmönnum Kastljóss kunni að þykja, að því hefði átt að ráðstafa öðru vísi en gert hefur verið, skiptir það í raun engu.

Í Kastljósi var notað orð um ráðstöfunarféð - „skúffufé“ - sem ég hafði ekki heyrt áður. Á þessi nafngift að gefa þá hugmynd, að um eitthvert pukur sé að ræða í kringum ráðstöfun þessa fjár? Sé svo, er um rangnefni að ræða.

 

 

Miðvikudagur, 25. 07. 07. - 25.7.2007 20:44

Hið mikla fjölmenni við minningar- og kveðjuathöfn um Einar Odd Kristjánsson í Hallgrímskirkju í dag var enn til marks um, hve víðtæk tengsl hans voru í þjóðlífinu. Að sitja með honum á þingi og í þingflokki í 12 ár var eftirminnilegt vegna einurðar hans og þunga í málflutningi, svo að ekki minnst á gleðina í kringum hann. 

Frá 1999 var Einar Oddur varaformaður fjárlaganefndar. Hann var kallaður til og hafður með í ráðum um allar stefnumarkandi ákvarðanir í ríkisfjármálum á þessum árum. Í þingsölum og utan þeirra var á hann hlustað, þegar hann kvaddi sér hljóðs um ríkisfjármálin. Hann lá ekki á skoðunum sínum og nálgaðist mál oft úr annarri átt en ráðuneyti eða opinberir ráðgjafar.

Ég kynntist því fyrst sem menntamálaráðherra og síðar sem dóms- og kirkjumálaráðherra, hve vel Einar Oddur var að sér um einstaka fjárlagaliði. Væri leitað til hans af félögum eða einstaklingum vegna einstakra verkefna, rak hann þau erindi af samviskusemi. Hann hafði einlægan áhuga á menningarmálum og beitti sér fyrir fjárveitingum til margvíslegra menningarlegra viðfangsefna um land allt. Við vorum ekki endilega sammála um aðferðafræði við úthlutun fjármuna til einstakra verkefna en deildum ekki um verkefni, sem nutu stuðnings á fjárlögum. Fyrir farsæld í samskiptum við Einar Odd skipti sköpum, að hann fór aldrei í launkofa með skoðanir sínar eða skildi mann eftir í óvissu - hann þorði að taka af skarið og standa og falla með skoðunum sínum.

Hér á síðunni hef ég oftar en einu sinni lýst aðdáun minni á þýsku Óskarsverðlaunamyndinni Das Leben der Anderen (Líf annarra). Í framhaldi af því vil ég  halda því til haga, að Ulrich Mühe, aðalleikari myndarinnar, STASI-starfsmaðurinn, er látinn aðeins 54 ára að aldri, magakrabbamein leiddi hann til dauða.

Þriðjudagur 24. 07. 07. - 24.7.2007 18:40

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, vill, að lög um heimild til sólarhringssölu á áfengi á veitingastöðum verði endurskoðuð. Afbrotatölfræði sýnir fjölgun ofbeldisbrota og hvers kyns óknytta á tímanum 03.00 til 06.00 á þeim 12 mánuðum, sem lögin hafa gilt.

Rannsókn á St. Thomas' sjúkrahúsinu í London sýnir, að heimsóknir vegna áfengisneyslu á slysa- og bráðadeild sjúkrahússins hafa þrefaldast síðan lögin tóku gildi.

William Hague, málsvari breska Íhaldsflokksins, sækir nú hart að Brown og ríkisstjórn hans með kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna breytinga á sáttmálum Evrópusambandsins. Öll helstu dagblöð í Bretlandi krefjast einnig þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin verst með þeim rökum, að ekki sé verið að setja Evrópusambandinu stjórnarskrá og þess vegna þurfi ekki að bera nýja sáttmála undir þjóðina. 

Mánudagur, 23. 07. 07. - 23.7.2007 9:12

Í Le Figaro í dag (lefigaro.fr) er skýrt frá því að Brigitte Gemme, þá 17 ára í Québéc, hafi verið fyrst allra til að opna vefsíðu (nú bloggsíðu) á frönsku hinn 7. júní 1995. Síðan hét Montréal, Soleil et Pluie - Montreal, sól og regn, en henni var lokað 12. mars 2003. Ég held þessu til haga sem hluta af sögu netheima. Mín síða hóf formlega göngu sína í febrúar 1995 en henni hefur ekki verið lokað.

Forystumenn í frönskum stjórnmálum halda úti bloggsíðum og er Alain Juppé, borgarstjóri í Bordeaux, í þeirra hópi. Hann hvarf úr frönsku ríkisstjórninni eftir stutta setu að loknum þingkosningunum 17. júní sl., en hann náði ekki kjöri á þing. Spurt var, hvort hann mundi einnig segja af sér sem borgarstjóri. Hann svaraði þeirri spurningu neitandi á vefsíðu sinni 20. júní.

Sunnudagur, 22. 07. 07. - 22.7.2007 18:55

Þessi frétt birtist á mbl.is síðdegis í dag:

Aðgerðasinnar úr röðum Saving Iceland létu til skarar skríða í miðborg Reykjavíkur í dag er þeir klifruðu upp á Ráðhús Reykjavíkur og hengdu þar upp borða með áletruninni „Vopnaveita Reykjavíkur?“.“

Feitletrunin er mín en ég minnist ekki að hafa séð orðin áður. Hver er munur á aðgerðasinna og mótmælenda? Hvers vegna er þetta nýyrði notað um þetta fólk? Að ósk þess? Hvað í ósköpunum er Vopnaveita Reykjavíkur?
ps. Glöggur lesandi benti mér á, að orðið aðgerðasinni, hefði verið notað í Staksteinum Morgunblaðsins  26. júlí 2006 en þar stóð meðal annars:
 

„Aðgerðasinnar, eða aktífistar eins og þeir kallast á útlendum málum, hafa gjarnan frekar verið tengdir við vinstri vænginn í pólitík en hægri vænginn. Skilgreiningin á aðgerðasinna er dálítið teygjanleg, en gjarnan er átt við þann, sem telur það ekki duga að skrifa í blöðin eða veifa mótmælaskilti til að koma skoðunum sínum á framfæri, heldur verði bein aðgerð að koma til; að brenna fána, fara úr fötunum, leggjast fyrir jarðýtu eða eitthvað því um líkt.

Og eins og áður sagði hefur þessi tegund pólitískrar baráttu fremur verið praktíseruð á vinstri vængnum. Kunnugir komu t.d. ekki auga á marga nafnkunna kjósendur Sjálfstæðisflokksins í mótmælasetunni, þar sem virkjanaandstæðingar lokuðu veginum við Arnarfell fyrr í vikunni.

Í gær varð hins vegar breyting á. Ungir sjálfstæðismenn gripu til beinna aðgerða á skrifstofu skattstjórans í Reykjavík og hindruðu aðgang annarra að opinberum skattskrám, sem þar lágu frammi, lögum samkvæmt. “

Laugardagur, 21. 07. 07. - 21.7.2007 22:38

Einn þeirra, sem oft er á síðum blaðanna, er Davíð Þór Jónsson en síðasta vetur vann hann sér það helst til frægðar að semja spurningar og dæma svör í sjónvarpsþættinum vinsæla Gettu betur. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því, að Davíð Þór verði ekki við þetta starf næsta vetur heldur ætli hann að halda áfram námi sínu í guðfræði. Blaðamaðurinn hefur líklega ætlað að setja sig í kristilegar stellingar, þegar hann skrifaði fréttina um vistaskiptin en hún hefst á þessum orðum: „Davíð Þór Jónsson hefur ákveðið að venda kvæði sín í kross.“ (Feitletrun mín.) Hvernig ætli Davíð Þór hefði dæmt, ef málfarsspurningu hefði verið svarað á þennan veg?

Föstudagur, 20. 07. 07. - 20.7.2007 22:33

Hvaða uppnám ætli hefði orðið hér á landi, ef lögregla hefði í 16 mánuði rannsakað pólitíska greiðasemi stjórnmálaflokks fyrir styrki eða lán til kosningabaráttu, en saksóknari síðan ákveðið að ákæra ekki? Veðrið var svo vont í Bretlandi í dag, að kannski gáfu menn sér ekki tóm til að hrópa sig hása af hneykslan eða fárast yfir kostnaði við lögreglurannsóknina. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, var ánægður með niðurstöðuna, því að það hefði sett blett á leiðtogaferil hans í Verkamannaflokknum, ef ákært hefði verið, svo að ekki minnst á dóm gegn flokknum í málinu.

Jacques Chirac, fyrrverandi Frakklandsforseti, hefur verið yfirheyrður í því skyni að upplýsa, hvernig staðið var að því í borgarstjóratíð hans í París, að hafa erindreka flokks hans á launum hjá borginni. Þá kann forsetinn fyrrverandi að verða kallaður fyrir dómara til að skýra frá vitneskju sinni um Clearstream-hneykslið. Rannsóknin hefur tekið nýja stefnu, eftir að skoðað var efni, sem þurrkað hafði verið út af hörðum diski og í ljós kom, að Dominique de Villepin, þáverandi utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra, hafði ekki sagt rétt frá um aðild sína eða tengsl Chiracs. Hneykslið felst í því, að ranglega var gefið til kynna, að Nicolas Sarkozy hefði persónulega og leynilega hagnast á herskipasölu til Tævans.  Markmið uppspunans var að útiloka Sarkozy frá forsetaframboði.

Í kvöld voru tveir álitsgjafar kallaðir fyrir Helga Seljan í Kastljósi til að ræða fréttir vikunnar. Mér heyrðust aðeins tvö mál á dagskrá hjá Helga: spurningin um lokað rými eða ekki fyrir einkadans á Goldfinger og örlög Lúkasar, hunds á Akureyri.

Í vikunni fórst ein af fjórum þyrlum landhelgisgæslunnar og utanríkisráðherra hefur alla vikuna verið á ferðalagi um Ísrael og Palestínu auk þess sem Novator keypti Actavis og hart hefur verið deilt um matvælaverð.

Fimmtudagur, 19. 07. 07. - 19.7.2007 21:50

Nú hefur verið opnaður kínverskur matstaður í gjörbreyttu Nausti, þar sem allt er miklu bjartara en áður. Var einstaklega vel tekið á móti gestum, þegar hinn nýi staður var kynntur í dag.

Sumarsýning Listasafns Íslands Ó-NÁTTÚRA! var opnuð í kvöld að viðstöddu fjölmenni.  Á sýningunni eru um 80 myndlistarverk eftir 51 myndlistarmann. Var gaman að kynnast þessum fjölbreyttu verkum undir þessum formerkjum. Í kynningu á sýningunni segir meðal annars: 

„Sýningin fjallar um náttúruna í ólíkum myndum. Ýmis merkingartengsl skapast á milli verkanna á sýningunni sem vekja upp áleitnar spurningar. Þannig má skoða verk sem fjalla um inngrip vísindanna og líftæknina eða ógnir stríðs og mannvonsku. Einnig eru verk á sýningunni sem sýna upphafna náttúru eins og hún birtist í hugskotum margra og náttúruna sem ráðandi afl með sína óbeisluðu krafta.“

Í Listasafni Íslands hitti ég Björn Jónasson, eiganda útgáfunnar Guðrúnar, sem hefur meðal annars gefið út Snorra-Eddu með tveimur myndum eftir Anslem Kiefer. Ég sagði frá mikilli sýningu á verkum eftir Kiefer og bókinni hér á síðunni 16. júní sl. Ég spurði Björn, hvernig hann hefði fengið Kiefer til að gera myndir fyrir bókina. Björn sagðist einfaldlega hafa haft upp á símanúmeri hans og hringt í hann til Ástralíu - Kiefer hefði ekki talið neitt sjálfsagðara en að taka þátt í verkinu, hann dáðist af Snorra og þekkti verk hans.

Nokkur hiti virðist hafa hlaupið í menn vegna framtíðar Valhallar á Þingvöllum. Málið er ekki svo einfalt, að Þingvallanefnd ákveði, hvort Valhöll standi eða ekki. Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði nefnd undir formennsku Þorsteins Gunnarssonar, formanns húsafriðunarnefndar og arkitekts, til að fjalla um framtíð Valhallar - Þingvallanefnd er samráðsaðili nefndarinnar. Ákvarðanir um framtíð Valhallar verða teknar í forsætisráðuneytinu. Deilur Þingvallanefndarmanna um Valhöll endurspegla aðeins ólík sjónarmið í málinu en segja ekkert um hlut nefndarinnar að því.

 

Miðvikudagur, 18. 07. 07. - 18.7.2007 21:27

Framkvæmdir eru nú hafnar milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar í þágu Háskólans í Reykjavík. Ég sé ekki betur en unnið sé að því að færa göngustíginn vestan Öskjuhlíðar nær hlíðinni, svo að hin mikla háskólabygging hafi nægilegt rými. Teikningar af skólanum sýna engin bílastæði en einhver sagði, að skólastarfið kallaði á stæði fyrir 2000 jeppa!

Eins og lesendur síðu minnar vita taldi ég eðlilegt, að mannvirkjagerð á þessum viðkvæma stað færi í umhverfismat en það vildi R-listinn alls ekki. Dagur B. Eggertsson, núverandi leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, réðist að mér vegna þessarar skoðunar og ég lenti í smá-ritdeilu í Morgunblaðinu við Katrínu Jakobsdóttur, varaformann vinstri/grænna, um málið. Hún taldi með öllu óþarft, að þarna yrði lagt mat á umhverfið og röskun þess.

Á dögunum hrópaði Dagur B. Eggertsson á umhverfismat vegna áforma um framkvæmdir í Örfirisey, ekki mæli ég gegn slíku mati, ef þar á ráðast í framkvæmdir, sem ganga nærri umhverfinu. Þegar ég heyrði þetta ákall Dags í þágu náttúrunnar þarna, undraðist ég, hvers vegna enginn spurði hann, hver væri munurinn á nauðsyn umhverfismats í Örfirisey, sem er að mestu manngerð, og að þess væri ekki þörf við rætur Öskjuhlíðar.

ps. Glöggur lesandi, sem hefur vitneskju um bílastæðaáform HR í Vatnsmýrinni ritaði mér og sagði: „Þú talar um að einhver hafi sagt þér að skólastarf HR kalli á stæði fyrir 2.000 jeppa...Ég vildi leiðrétta þetta, því ekki gott ef þú ert að fara þarna með ranga tölu. Það er gert ráð fyrir því að þarna verði um 1.000 bílastæði fyrir venjulegar bifreiðar (lang fæstir nemenda eða um 5-10% eru á jeppum) og meðan flugvöllurinn er þarna, sem væntanlega verður næstu 15-20 árin a.m.k. að mínu mati, þá verða þau að mestu við enda austur vestur brautarinnar. Síðan er gert ráð fyrir gjaldskyldu og bílastæðahúsi að hluta til neðanjarðar í framtíðinni. Það verður lagður mikill metnaður í gerð þessara stæða af hálfu Reykjavíkurborgar...“

Þriðjudagur, 17. 07. 07. - 17.7.2007 21:10

Á mbl.is má í dag lesa frásögn af viðtali þýska blaðsins Die Welt við Olli Rehn, sem fer með stækkun Evrópusambandsins (ESB) í framkvæmdastjórn þess. Þar kemur hið sama fram og í skýrslu Evrópunefndar, en nefndarmenn hittu Rehn í lok maí 2005, að Íslendingum yrði fagnað, sæktu þeir um aðild að ESB og ekki tæki langan tíma að mati Rehn að semja um aðild Íslands að ESB. Raunar kom þetta sama viðhorf fram hjá Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í viðtali við National Interest í Bandaríkjunum og ég sagði frá í Morgunblaðinu og hér á síðunni.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag, að það sé ekki sinn draumur fyrir Íslendinga, að þeir gangi í ESB. Hann furðar sig að umræðum um upptöku evru, það gerist ekki nema með inngöngu í ESB. Með þessum orðum svarar hann vangaveltum Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, í viðtali við Viðskiptablaðið, þar sem hún taldi það einna helst stranda á Sjálfstæðisflokknum, að hér yrði tekin upp evra. Valgerður ætti að líta sér nær í því efni.

Mér hefur stundum dottið í hug, að frekar ætti að nota orðið barrtrjáatíð en gúrkutíð um efnistök fjölmiðlamanna í fréttaleysi. Þeir geta alltaf tekið til við að ræða grisjun barrtrjáa á Þingvöllum, ef annað þrýtur. Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, ritaði innblásinn leiðara um málið mánudaginn 16. júlí undir fyrirsögninni: Flórufasismi.

Ættjarðarástin drýpur þar af hverju orði og kýs Þorsteinn að gera UNESCO, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, að sérstökum blóraböggli í málinu og telur okkur Íslendinga hafa sætt afarkostum af hálfu UNESCO, þegar Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004. Barrtré séu höggvin á Þingvöllum segir Þorsteinn „í skiptum fyrir stimpil frá Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Sá stimpill gerir ekki meira úr Þingvöllum en þeir eru. Það má nota hann til þess að græða nokkrar krónur á ferðamönnum.“

Í dag er sagt frá því í fyrirsögn í Fréttablaðinu, að UNESCO geri enga kröfu um þessa grisjun og hana megi rekja til áætlunar, sem gerð var árið 2001. Að Þingvellir séu á heimsminjaskránni fyrir 30 silfurpeninga er fráleitt. Þorsteinn spyr í lok leiðara síns, hver sé vernd alþingis í þágu Þingvalla. Árið 2004 tóku ný lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum gildi eftir ítarlegar umræður á alþingi, lög, sem styrkja réttarstöðu þjóðgarðsins um leið og að stækka hann.

Mánudagur, 16. 07. 07. - 16.7.2007 22:57

Klukkan var rúmlega 19.00, þegar Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands (LHG), hringdi til mín og tilkynnti mér, að TF-Sif, Dauphin þyrla LHG, hefði farið í sjóinn við æfingar með björgunarbáti frá Hafnarfirði rétt fyrir utan Straumsvík. Mannbjörg hefði orðið.

Skömmu síðar sótti Georg mig og flugum við með TF-Líf yfir slysstaðinn og var dapurlegt að sjá aðeins ofan á flotholtin á TF-Sif en þyrlan snerist á hvolf skömmu, eftir að hún lenti á sjónum. Kyrrt var í sjóinn, logn og heiðskírt og flugum við nokkra hringi yfir slysstaðinn, fengum góðar fréttir af líðan áhafnar og héldum aftir til Reykjavíkur.

Eftir nokkra viðdvöl á Reykjavíkurflugvelli héldum við í átt til Straumsvíkur og fórum fyrst inn á byggingarsvæði rétt norðan við álverið en þar voru fréttamenn, sem vildu ná sambandi við okkur. Stöð 2 var fyrst til að biðja um viðtal og veitti ég henni það, áður en við fórum í Straumsvíkurhöfn, en þangað kom áhöfn þyrlunnar með gúmbáti. Þar voru einnig fulltrúar rannsóknanefndar flugslysa, sem ræddu við áhöfnina.

Síðan ókum við Georg út fyrir hið lokaða hafnarsvæði og hittum þar fjölmiðlamenn og þar gafst þeim einnig tækifæri til að taka myndir af áhöfninni.

Fréttastofa sjónvarpsins bað okkur að bíða fram yfir klukkan 22.00, svo að hún geti sent samtal við okkur í beinni útsendingu og að því loknu sneri ég aftur heim.

Áhöfn TF-Sifjar sýndi mikið æðruleysi við þessar aðstæður og brást við á réttan hátt. TF-Sif hefur þjónað LHG með ágætum í 22 ár. Strax og ljóst var, að þyrlunni yrði líklega ekki flogið framar, hófu starfsmenn LHG að kanna, hvernig unnt yrði að fylla skarð hennar.

Sunnudagur, 15. 07. 07. - 15.7.2007 11:31

Einar Oddur Kristjánsson, góður samþingmaður og flokksbróðir, er fallinn frá fyrir aldur fram. Það verður skarð fyrir skildi í þingflokki okkar sjálfstæðismanna. Við munum sakna öflugs málsvara og skemmtilegs félaga. Blessuð sé minning Einars Odds.

Vorum klukkan 14.00 í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, þar sem fagnað var 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Sr. Kristinn Jens Sigurþórsson í Saurbæ var prestur við athöfnina en sr. Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, prédikaði. Að lokinn messu var boðið í kaffi á Hótel Glym.

Spuninn út af færslu minni hér á síðuna síðdegis hinn 12. júlí tekur á sig ýmsar myndir. Í spunadálki Fréttablaðsins í dag segir bjorgvin@frettabladid.is:

„Margir pirrast út í tilraunir um hraðleið í gegnum öryggishlið á Keflavíkurflugvelli. Telja þetta forréttindi. Hafa ber þó í huga að oft fara þarna í gegn menn og konur sem þurfa vinnu sinnar vegna að fljúga til útlanda fjórum sinnum í mánuði. Lítill sjarmi yfir því. Þeir sem hneykslast á þessu hljóta líka að vera ósammála því að fólk borgi sig fram fyrir röð í heilbrigðiskerfinu, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Björn Bjarnason hafa talað fyrir, þótt það gagnist bæði þeim sem bíða og þeim sem fara fram fyrir og greiða fyrir þá þjónustu. Það sama ætti að ganga yfir alla á þeim vettvangi eins í öðrum.“

Ef fimm til tíu mínútur til eða frá leggjast svona þungt á þá, sem þurfa að fara fjórum sinnum í gegnum öryggishlið á Keflavíkurflugvelli í mánuði, má spyrja, hvort ferðin í heild sé ekki óbærileg. Að bera umræður um tilvik af þessu tagi saman við hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, er í besta falli broslegt. Hvers vegna skyldi höfundurinn ekki taka fram, að skoðanir mínar um jafnræði í opinberri þjónustu í stað ívilnana séu fráleitar, af því að ég beitti mér fyrir einkarekstri á háskólastiginu?

Laugardagur, 14. 07. 07. - 14.7.2007 22:54

Jón Kaldal skrifar um eftirlitsmyndavélar í leiðara í Fréttablaðið í dag og segir meðal annars:

„Tæknin er að mörgu leyti komin langt fram úr lögunum. Nútímamaðurinn skilur á hverjum degi eftir sig fjölmörg spor um hvað hann aðhefst. Hægt er að kortleggja nákvæmlega ferðir hans út frá gsm símanum sem hann er í vasanum og skoða hvað vörur og þjónustu hann kaupir út frá kreditkortinu. Ef fólki er mjög umhugað um einkalíf sitt hefur það hins vegar val um að nota hvorki gsm síma og né kreditkort. Fólk hefur ekki slíkt val gagnvart eftirlitsmyndavélunum. Þær festa alla í minni sitt. Í linsum þeirra liggja allir undir grun.“

Þessar athugasemdir Jóns Kaldals rista grunnt, þegar hugað er að öllum upplýsingunum, sem unnt er að finna um hann og aðra með því að slá leitarorði inn á Google eða aðrar öflugar leitarsíður.

Í ræðu í hófi Persónuverndar á dögunum vitnaði ég í Thomas L. Friedman, dálkahöfund The New York Times. Hann telur okkur í raun hvergi óhult, ekki vegna eftirlitsmyndavéla, gsm-síma eða kreditkorta, heldur vegna bloggsíðna, myndavélasíma eða YouTube síðna - þess vegna ættum við að alltaf að haga okkur óaðfinnanlega, svo að ekki sé veist að okkur í netheimum.

Um eftirlitsmyndavélar og meðferð á efni úr þeim gilda ákveðnar reglur og sé brotið gegn þeim er efnið gagnslaust. Engar slíkar reglur gilda hins vegar um efni, sem leitarvélar í netheimum finna, og æ fleiri nota til að átta sig á einstaklingum, skoðunum þeirra og skapgerð. Huglausir nafnleysingjar nota gjarnan netið til að veitast að einstaklingum eða rægja þá. Almennt séð er líklegra, að slíkur „prófíll“ skipti einstakling meiru en sá, sem festist í eftirlitsmyndavél - efni hennar er eytt eftir ákveðinn tíma en hinu er kannski aldrei unnt að halda utan ósýnilegra þreifianga leitarvélanna.

 

Föstudagur, 13. 07. 07. - 13.7.2007 22:20

Conrad Black, blaðakóngur með meiru, var í dag fundinn sekur af kviðdómi í Chicago. Hann sætti ásamt þremur öðrum 42 liða ákæru fyrir að hafa misfarið með fé í almenningshlutafélaginu Hollinger. Hann var sakfelldur fyrir þrenn fjársvik og fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir framgang réttvísinnar. Black var sýknaður af níu ákæruliðum. Eftir að kviðdómurinn hafði komist að niðurstöðu sinni, sagði blaðamaður The Daily Telegraph, sem eitt var í eigu Blacks, að sakfelling vegna eins liðar í ákærunni dygði til að hann missti traust og trúnað í viðskiptalífinu. Hinir þrír meðákærðu voru fundnir sekir um þrenn fjársvik.

Í The Daily Telegraph er haft eftir Jacob Zamansky, sem er fyrrverandi saksóknari í Bandaríkjunum, að dómarar sýni svindlurum af sauðahúsi Blacks, sem hafi brugðist miklum trúnaði og dregið sér mikið fé, litla miskunn. Taldi hann, að dómarinn í máli Blacks mundi taka mið af þeirri refsingu, sem Richard Skilling, fyrrverandi forstjóri Enrons, og Bernie Ebbers, forstjóri WorldCom, fengu en báðir voru dæmdir í meira en 20 ára fangelsi.

Í Bandaríkjunum eru mál sem þessi talin prófsteinn á það, hvort réttvísin hafi burði til að taka á stórum og flóknum svikamálum, þar sem miklum fjármunum er beitt til varnar hinum ákærðu. Vitnaleiðslur í máli Blacks stóðu í um 15 vikur. Kviðdómurinn settist á rökstóla hinn 27. júní og þurfti oftar en einu sinni að leita liðsinnis dómara til að komast að niðurstöðu sinni vegna ágreinings meðal kviðdómenda.

Fimmtudagur, 12. 07. 07. - 12.7.2007 18:32

Á nýlegu ferðalagi mínu fór ég um nokkra flugvelli og minnist þess ekki að hafa nokkurs staðar séð sérstök öryggishlið fyrir farþega á viðskiptafarrými. Í þessu efni á að gilda sama regla og í skattamálum, það er að fjárhagslegt svigrúm nýtist til að lækka skatta á öllum en ekki til að ívilna sumum. Þá er sú kenning góð, að sérreglur fyrir útvalda leiði frekar til mistaka en alúð við almennar reglur, sem gilda fyrir alla.

ps. Lesandi hefur bent mér á að á Schiphol-flugvelli við Amsterdam sé sérstakt öryggishlið fyrir vildarfarþega.

Miðvikudagur, 11. 07. 07. - 11.7.2007 22:24

Í Danmörku er nú rætt um að heimila einkarekna háskóla, það er að ríkið fari sömu leið og farin hefur verið hér, að greiða ákveðna fjárhæð með nemanda samkvæmt reiknireglu, hvort sem ríkið rekur háskólann eða einkaaðili.

Útfærslan virðist vefjast fyrir Dönum, af því að þeir þora ekki að ræða greiðslu skólagjalda til einkareknu háskólanna. Þess í stað er látið í veðri vaka, að Harvard og Oxford muni stofna háskóladeildir í samvinnu við einkaaðila í Danmörku. Berlingske Tidende hafði samband við talsmenn þessara skóla og töldu þeir af og frá, að þeir mundu hefja starfsemi í Danmörku.

Danir virðast ekki hafa frétt af því, hve háskólastarfsemi hefur blómstrað hér á landi, eftir að einkarekstur háskóla var heimilaður - og hér reyndist það síður en svo hindrun fyrir einkareknu skólanna að mega innheimta skólagjöld. Kannski mun sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn skrifa einhverju dönsku blaðanna og segja Dönum frá góðri reynslu okkar Íslendinga af einkaframtaki í háskólastarfi?

Sendiherrann gæti þá einnig upplýst Dani um, að vöxtur í háskólastarfi og háskólamenntun hér hafi auðveldað fjármálafyrirtækjum að ráða menntað starfsfólk - og þar með styrkt þau í sókn sinni í Danmörku og annars staðar.

Þriðjudagur, 10. 07. 07. - 10.7.2007 19:18

Þegar ég kom út af fundi ríkisstjórnarinnar í morgun sat fréttamaður Stöðvar 2 fyrir mér á stéttinni fyrir framan Stjórnarráðshúsið og vildi vita, hvort ég hefði setið í bakherbergjum með Valgerði Sverrisdóttur og talað illa um Baugsfólkið vegna Baugsmálsins. Ég sagði svo ekki vera, ég hefði enga slíka fundi átt með Valgerði og ekki rætt um þetta fólk við hana.

Fyrirsátin var veitt af Stöð 2 vegna viðtals við Valgerði í Viðskiptablaðinu föstudaginn 6. júlí, þar sem hún ræddi á óljósan hátt um sjálfstæðismenn og Baugsmálið og mátti skilja orð hennar á þann veg, að hún byggi yfir einhverjum upplýsingum, án þess að segja frá þeim. Ég er engu nær en aðrir um það, hvað býr að baki orðum Valgerðar.

Síðdegis mánudaginn 9. júlí vakti visir.is athygli á orðum Valgerðar, síðan sneri visir.is sér til Hreins Loftssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Baugs. Stöð 2  gerði þetta að fréttaefni að kvöldi 9. júlí og eftir fréttirnar komu helstu verjendur Baugsmanna, Gestur Jónsson og Jakob R. Möller, í Ísland í dag á Stöð 2 til að ræða hina hálfkveðnu vísu Valgerðar. Taldi Gestur réttilega, að Valgerður yrði að segja meira, svo að botn fengist í orð hennar.

Mánudagur, 09. 07. 07. - 9.7.2007 20:46

Í nýjasta hefti af The Spectator les ég þetta eftir Charles Moore:

„Endalaus rigning. Venjulega eru mýs aðeins að hrella okkur á veturna. En þegar túnin eru svona blaut hefur húsið okkar orðið fyrir miðsumar-árás. Síðustu tvær vikur höfum við náð í 18 mýs. Við frystum þær og förum með þær í uglu-skjól sveitarinnar.“

Ég las í málfarsdálki Njarðar P. Njarðvík í Fréttablaðinu, að í fasteignaauglýsingu hefði verið sagt, að hin fala íbúð væri „stödd“ við einhverja götu í borginni. Hvert ætli hún sé komin núna?

Eftir að hryðjuverkamenn óku á flugstöðvarbygginguna í Glasgow sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands: „Hin gömlu skil milli öryggis innan og utan landamæra eru horfin. Við verðum að hugsa málin alveg upp á nýtt.“ Í Þýskalandi fara nú fram miklar umræður um, hvort breyta eigi stjórnarskránni á þann veg, að herinn megi láta að sér kveða í aðgerðum innan Þýskalands.

Sunnudagur, 08. 07. 07. - 8.7.2007 15:14

Mér finnst miður að hafa gert of mikið úr andstöðu Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, við frumvarp um breytingar á fjarskiptalögunum vorið 2005, þegar rætt var um geymslu á IP-tölum og aðgang lögreglu að slíkum tölum og leyninúmerum án dómsúrskurðar. Ágúst Ólafur var að sjálfsögðu á móti þessum lagabreytingum en ekki „fremstur í flokki“ andstæðinga eins og ég sagði ranglega í grein í Morgunblaðinu  5. júlí. Ágúst Ólafur finnur réttilega að þessari fullyrðingu minni í grein í Morgunblaðinu í dag. Bið ég hann afsökunar á því, að hafa gert of mikið úr hans hlut.

Í grein sinni rifjar Ágúst Ólafur upp þau mál, þar sem hann telur sig hafa verið fremstan eða framarlega í flokki andstöðumanna og nefnir 24-regluna, sem hefur auðveldað útlendingastofnun störf hennar, og greiningardeild lögreglunnar, sem hefur sannað gildi sitt, frá því að hún hóf störf 1. janúar sl. Skelegg barátta Ágústs Ólafs gegn tillögum mínum um þetta efni og ýmislegt fleira leiddi til þeirra mistaka, sem ég hef leiðrétt hér að ofan.

Í tilefni af 25 ára afmæli laga um persónuvernd gaf Persónuvernd út rit með greinum nokkurra höfunda og er Ágúst Ólafur meðal þeirra. Þar fullyrðir hann, að greiningardeildin rannsaki afbrot „áður en þau eru framin með svokölluðu áhættumati og forvarnarvinnu.“ Segir hann, að litlar upplýsingar hafi fengist um það á alþingi eftir hvaða aðferðafræði greiningardeildin mundi starfa, hvaða heimildir hún hafi eða hverjir séu erlendir starfsbræður hennar.

Vissulega væri mikils virði, ef lögregla gæti rannsakað afbrot „áður en þau eru framin.“ Greiningardeildin getur það ekki en hún greinir upplýsingar, sem henni berast eða hún aflar sér á grundvelli lögheimilda, sem er að finna í lögum um meðferð opinberra mála, dregur af þeim ályktanir og leggur á ráðin um nauðsynlegar aðgerðir í samræmi við hættumat. Hún er einskonar kortagerðarmaður fyrir lögreglumenn eða aðra, sem vinna að því að tryggja öryggi borgaranna. Hún er sérhæfð deild innan lögreglu með þetta hlutverk. Til að styrkja hin erlendu tengsl starfar nú íslenskur tengslafulltrúi hjá Europol í Haag, samstarf lögregluyfirvalda á Norðurlöndum er mikið og í nýju samkomulagi við Bandaríkjamenn um fyrirkomulag varna landsins er lögð sérstök áhersla á samvinnu lögregluyfirvalda landanna.

Laugardagur, 07. 07. 07. - 7.7.2007 18:24

Í Staksteinum í dag segir ritstjóri Morgunblaðsins: „Raunar eru nokkrar vikur liðnar frá því að dómarinn (Hrafn Bragason hæstaréttardómari innsk. mitt) baðst lausnar en það reyndist ómögulegt fyrir Morgunblaðið að fá það staðfest fyrir nokkru. Af hverju er það svona mikið leyndarmál að dómari við Hæstarétti (svo!) segi af sér? Af hverju þarf að fara í felur með það í nokkrar vikur?“

Embætti hæstaréttardómara er eitt af fáum embættum, sem veitt eru af forseta Íslands að tillögu ráðherra og veitir forseti hæstaréttardómurum einnig lausn að tillögu ráðherra. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins er ekki greint frá tillögu til forseta, fyrr en um hana hefur verið fjallað í ríkisstjórn, en allar tillögur til forseta Íslands skal bera upp í ríkisstjórn, áður en þær eru lagðar fyrir forseta. Ég kynnti tillögu mína um lausn fyrir Hrafn Bragason í ríkisstjórn 3. júlí sl. og eftir það staðfesti ráðuneytið að sjálfsögðu tilvist hennar.

Dómara er að sjálfsögðu heimilt án afskipta ráðuneytisins að skýra frá því, hvort hann hyggst starfa lengur eða skemur í réttinum.

Vangaveltur höfundar Staksteina vekja þá spurningu, hvort í raun skipti máli, að skýrt sé frá því deginum fyrr eða síðar, að dómari láti af störfum í hæstarétti fyrir aldurs sakir.

Rétt er að geta þess, að embætti hæstaréttardómara verður auglýst laust til umsóknar innan tíðar, en Hrafn Bragason lætur af störfum hinn 1. september.

Föstudagur, 06. 07. 07. - 6.7.2007 22:39

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun og þar kynnti Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra þá ákvörðun sína, að heildarþorskafli skyldi vera 130 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Einnar hefur staðið vel að öllum undirbúningi ákvörðunar sinnar og nýtur hún stuðnings ríkisstjórnarinnar.

Þegar ég kom út af ríkisstjórnarfundinum, vildu fjölmiðlamenn vita um afstöðu mína til þeirrar niðurstöðu mannréttindadómstóls Evrópu að hnekkja dómi hæstaréttar í máli fjölfatlaðrar stúlku. Henni voru dæmdar bætur af fjölskipuðum dómi í héraði, hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu en mannréttindadómstóllinn var ósammála hæstarétti.

Landlæknir hefur sagt í tilefni af dómi mannréttindadómstólsins, að rúmlega 60 ára gömul lög um læknaráð séu barns síns tíma og þau þurfi að endurskoða - ég er sammála því en sagði við fréttamennina, að lögin væru ekki á mínu forræði og þess vegna ekki mitt að gera tillögu um breytingu á þeim. Ég heyrði síðar í fréttum, að heilbrigðisráðherra, sem hefur forræði laganna, hugar að breytingu á þeim og styð ég hann í því.

Ég tók enga afstöðu til þess, hvort niðurstaða mannréttindadómstólsins væri áfellisdómur yfir hæstarétti eða álitshnekkir fyrir hann - dómar væru dómar og þeim bæri að hlíta. Fyrirsögn á mbl.is um orð mín gefur ekki rétta mynd af þeim. Ég tek einfaldlega ekki undir með þeim, sem telja niðurstöðu æðra dómsstigs álitshnekki fyrir hið lægra eða áfellisdóm yfir því. Dómar tala fyrir sig sjálfir og orð mín eða annarra breyta engu um inntak þeirra - dómum ber hins vegar að hlíta.

Síðdegis flutti ég ávarp í móttöku Persónuverndar í tilefni af 25 ára afmæli laga um persónuvernd, þar lét ég þess getið, að lögin væru barns síns tíma - ætli það verði ekki eitthvað uppnám út af því, eins og áður þegar ég hef sagt þetta um lög.

ps. vefstjóri mbl.is breytti fyrirsögn á frétt vefjarins um mannréttindadómstólinn og hæstarétt og færði hana í samræmi við orð mín - fyrirsögninni varð hins vegar ýmsum bloggurum tilefni til árása á mig og hún varð einnig kveikja að frétt í Fréttablaðinu 7. júlí.

Fimmtudagur, 05. 07. 07. - 5.7.2007 19:12

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir mig um vernd barna gegn nettælingu en það orð nota ég um enska orðið „grooming“, sem nær yfir hegðun í netheimum, sem ég lýsi nánar í greininni.

Í Fréttablaðinu í dag segir:

„Hollywood-raunsæi

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra dreif sig í bíó á dögunum og sá myndina Die Hard 4.0 með Bruce Willis í aðalhlutverki. Ráðherrann var hæstánægður með myndina og segir á heimasíðu sinni: "Sögusviðið dregur athygli að hættum, sem steðja að hátæknivæddum þjóðfélögum okkar." Velta má fyrir sér hver viðbrögð Björns verða við stórmyndinni Transformers, sem sýnd verður síðar í mánuðinum, en þar segir frá átökum risavaxinna geimvélmenna hér á jörð. Leiða má líkur að því að slík atburðarás væri klárlega ekki minni ógn við hátæknivædd þjóðfélög okkar en ævintýri ofurlöggunnar John McClane.“

Þetta er spunakennd útlegging á því, að ég hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum með Die Hard 04. Ég get upplýst, að ég hef ekki áhuga á kvikmyndum um geimvélmenni.

Miðvikudagur, 04. 07. 07. - 4.7.2007 21:00

Gordon Brown svaraði í fyrsta sinn í dag spurningum sem forsætisráðherra í neðri deild breska þingsins. Sky News fjallar ítarlega um fyrirspurnatímann og kallar til fólk til að gefa leiðtogum flokkanna einkunnir. Blaðamenn töldu David Cameron, leiðtoga íhaldsmanna, koma best frá umræðunum.

Brown svaraði meðal annars á þann veg, að hann hefði aðeins verið forsætisráðherra í fimm daga. Þótti álitsgjöfum ekki mikið til þess koma, að forsætisráðherra skyti sér undan að svara á þennan hátt.

Ég hef stundum verið sakaður um að svara ekki, þótt ég telji mig hafa svarað, af því að fyrirspyrjandinn vildi fá annað svar en ég gaf. Mér sýnist blaðamaður Blaðsins þessarar skoðunar í dag. Hann segir mig ekki hafa svarað spurningum, sem hann sendi mér, af því að ég svaraði þeim ekki á þann veg, sem hann vildi - í tölvubréfinu tók hann meðal annars fram, að ég ætti að svara hverri spurningu fyrir sig! Ég sakna þess, að hann birti ekki spurningar sínar, svo að lesendur Blaðsins geti lesið þær og metið hvers vegna ég svaraði á þann veg, sem ég gerði.

Þriðjudagur 03. 07. 07. - 3.7.2007 22:44

Það er ekki oft, sem maður sér bíleigendur í Reykjavík leita að skugga fyrir bílinn sinn vegna sólar og hita. Það hefur þó gerst í gær og í dag hér í Reykjavík. Jörðin er einnig farin að skrælna undan sólarbirtunni.

Mér þótti forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins í dag Langar og harðar umræður í þingflokki Sjálfstæðisflokks ekki gefa rétt af fundi okkar sjálfstæðismanna. Þótt hann stæði í tvo tíma, var það ekki til marks um harðar umræður. Umræðuefnið var hins vegar veigamikið og eðlilegt, að margir kveddu sér hljóðs um það.

Kvikmyndin Die Hard með Bruce Willis er talin magnaðasta spennu- og átakamynd kvikmyndasögunnar samkvæmt mælingum. Nú höfum við tækifæri til að sjá Die Hard 04 og veldur hún ekki vonbrigðum. Sögusviðið dregur athygli að hættum, sem steðja að hátæknivæddum þjóðfélögum okkar.

Nýlega hafa Eistlendingar mátt reyna netheimastríð við Rússa vegna deilu um stað fyrir stríðsminnismerki - Eistland er eitt netvæddasta þjóðfélag í Evrópu - þar sitja til dæmis ráðherrar með fartölvur á ráðherrafundum. Stjórnsýslan er rafræn og unnt er að kjósa rafrænt til þings.

Mánudagur, 02. 07. 07. - 2.7.2007 22:21

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 17.00 til að ræða ákvörðunina, sem Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun taka um hámarksafla næsta fiskveiðiár.

 

 

Sunnudagur, 01. 07. 07. - 1.7.2007 21:00

Ókum úr Skálholti um 16.30, eftir að Rut hafði leikið þar Haydn og Schubert með Skálholtskvartettinum. Heimferðin gekk snurðulaust og var undarlegt að heyra látið að því liggja í fréttum hljóðvarps ríkisins klukkan 18.00 að umferðin austur fyrir fjall væri óvenjulegri en almennt um helgar eða raðir eða tafir væru þar.

Fréttirnar um hættuástandið í Bretlandi vegna hryðjuverka eða tilrauna til þeirra minna enn á, að öryggisgæsla í þágu þjóða snýr nú að nánasta umhverfi hins almenna borgara og er höndum lögreglu í samvinnu við öryggis- og greiningarstofnanir.

Starfshættir hryðjuverkamanna eru spegilmynd af því, sem tíðkast hjá þeim, sem stunda skipulagða glæpastarfsemi. Markmið hryðjuverkamannanna er að drepa sem flesta almenna borgara með sprengjum sínum, markmið fíkniefnasala er að lokka sem flesta í lífshættulegt net sitt til að hafa af þeim sem mest fé og lífið, ef svo ber undir. Leiðin að markmiðinu felst í því að skipuleggja leynilega hópa, sem eru ekki svo nátengdir, að náist einn, geti aðrir haldið áfram, án þess að höfuðpaurinn finnist. Innan hópanna ríkir nægileg ógn til þess, að enginn þorir að gerast uppljóstrari og segja lögreglu sannleikann.