3.7.2007 22:44

Þriðjudagur 03. 07. 07.

Það er ekki oft, sem maður sér bíleigendur í Reykjavík leita að skugga fyrir bílinn sinn vegna sólar og hita. Það hefur þó gerst í gær og í dag hér í Reykjavík. Jörðin er einnig farin að skrælna undan sólarbirtunni.

Mér þótti forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins í dag Langar og harðar umræður í þingflokki Sjálfstæðisflokks ekki gefa rétt af fundi okkar sjálfstæðismanna. Þótt hann stæði í tvo tíma, var það ekki til marks um harðar umræður. Umræðuefnið var hins vegar veigamikið og eðlilegt, að margir kveddu sér hljóðs um það.

Kvikmyndin Die Hard með Bruce Willis er talin magnaðasta spennu- og átakamynd kvikmyndasögunnar samkvæmt mælingum. Nú höfum við tækifæri til að sjá Die Hard 04 og veldur hún ekki vonbrigðum. Sögusviðið dregur athygli að hættum, sem steðja að hátæknivæddum þjóðfélögum okkar.

Nýlega hafa Eistlendingar mátt reyna netheimastríð við Rússa vegna deilu um stað fyrir stríðsminnismerki - Eistland er eitt netvæddasta þjóðfélag í Evrópu - þar sitja til dæmis ráðherrar með fartölvur á ráðherrafundum. Stjórnsýslan er rafræn og unnt er að kjósa rafrænt til þings.