Dagbók: febrúar 1998
Laugardagur 28.2.1998
Eftir of langt hlé gafst mér tóm til að skjótast í bíó og sá myndina Sjö ár í Tíbet en bókina las ég fyrir mörgum árum, því að Bókfellsútgáfan gaf hana út á sjötta áratugnum, ef ég man rétt. Lýsir hún einstæðri för til Tíbets og kynnum að þjóðinni og Dalai Lama, þeim sem enn lifir, ungum. Þá kynnumst við einnig eyðileggingarstefnu Kínverja í Tíbet, þar sem þeir hafa nú í fimm áratugi keppst við að eyðileggja þetta friðsama og trúaða þjóðfélag. Framganga kínversku kommúnistanna í Tíbet er þeim til ævarndi skammar en gagnrýni á þjóðarútrýmingarstefnuna þar svara þeir jafnan með þeim hroka, sem þeim einum er laginn og við kynntumst, þegar Tævanir sóttu okkur heim síðastliðið haust. Þótti mér leiðinlegt, hve fáir voru í salnum til að sjá þessa fróðlegu og sönnu mynd.
Föstudagur 27.2.1998
Fyrir hádegi fór ég í Laugarnesskólann og heimsæki þar bekkinn, sem kemur fram í auglýsingamynd ráðuneytisins vegna námskrárkynningarinnar. Var það mjög skemmtileg stund með krökkunum og vinsamlega á móti okkur tekið af Jóni Frey Þórarinssyni skólastjóra. Klukkan 15.00 fór ég í Menntaskólann í Reykjavík og fór þar um með Ragnheiði Torfadóttur rektor til að átta mig á þeim miklu framkvæmdum, sem nú standa fyrir dyrum við skólann. Klukkan 17.00 fór ég í Kennaraháskóla Íslands til að fagna því, að fyrstu íbúðirnar voru formlega teknar í notkun í nýjum stúdentagörðum Byggingarfélags námsmanna við Bólstaðarhlíð, en ég tók þar fyrstu skóflustungu 28. febrúar 1997.
Fimmtudagur 26.2.1998
Klukkan 14.00 efnir Þingvallanefnd til fundar með sveitarstjórnarmönnum í uppsveitum Árnessýslu um stækkun þjóðgarðsins.
Þriðjudagur 24.2.1998
Um kvöldið var í ég stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og ræddi um menntamál.
Þriðjudagur 17.2.1998
Við Rut förum í nokkurra daga frí til Bretlands og heimsækjum meðal annars gamlan og góðan vin okkar, Kenneth East, sem var sendiherra Breta hér í síðasta þorskastríðinu og varð að gera hlé á störfum sínum, þegar stjórnmálasambandi landanna var slitið vorið 1976.
Laugardagur 14.2.1998
Klukkan 13.30 útför Halldórs Kiljans Laxness og erfidrykkja. Klukkan 20 frumsýning í Skemmtihúsinu á leikriti um Guðríði Þorbjarnadóttur eftir Brynju Benediktsdóttur.
Föstudagur 13.2.1998
Fyrir hádegi þrjú frumvörp til umræðu á Alþingi. Klukkan 18.00 samverustund Bandalags íslenskra listamanna til minningar um Halldór Laxness á Ingfólfstorgi.
Miðvikudagur 11.2.1998
Klukkan 15.30 tveimur fyrirspurnum svarað á Alþingi. Klukkan 20 frumsýning á Meiri gauragangi í Þjóðleikhúsinu.
Þriðjudagur 10.2.1998
Klukkan 17 var brjóstmynd af frú Vigdísi Finnbogadóttur afjúpuð í Ráðherrabústaðnum. Klukkan 19 var í Íslandi í dag í Stöð 2 og ræddi um stjórnmálaafskipti Halldór Laxness.
Laugardagur 7.2.1998
Klukkan 14 fórum á Háskólahátíð í Háskólabíói og þáðum kaffi í boði rektors að athöfninni lokinni, er það góð nýbreytni og gefur mönnum færi á að hittast á annan hátt en þann að ganga saman í prósessíu inn og út úr salnum. Eftir hátíðina fórum við í Gerðarsafn, þar sem Baltazar var að opna mikla sýningu í öllum sölum hússins. Er undarlegur norna-óhugnaður í sumum málverkanna, en þau eru alls 32. Þaðan fórum við í Hafnarborg þar sem Björg Þorsteinsdóttir var að opna sýningu á vatnslitamyndum og Kristján Jónsson var einnig að opna sýningu á málverkum sínum, sem tengjast meðal annars húsum í Reykjavík með sérkennilegum og skemmtilegum hætti. Klukkan 20 fórum við í Borgarleikhúsið til að vera við frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum, sem minntist jafnframt 25 ára afmælis síns. Þrjú verk voru á dagskránni. Hið fyrsta við tónlist eftir Arvo Pärt og hafði Rut einmitt farið með Pärt á æfingu hjá dansflokknum og hann séð verkið í fyrsta sinn sér til gleði. Danshöfundurinn Ed Wubbe var við frumsýninguna í Borgarleikhúsinu og var hann undrandi og glaður yfir því,. að Pärt hefði fyrst fengið tækifæri hér til að sjá verk sitt. Þegar ég tók við sem menntamálaráðherra var mikil óvissa um framtíð Íslenska dansflokksins. Hann var í skipulagslegri, fjárhagslegri og húsnæðislegri kreppu. Ný stjórn sem ég setti yfir flokkinn hefur unnið þrekvirki á tveimur árum. Magnús Árni Skúlason framkvæmdastjóri hefur siglt skipinu af öryggi frá degi til dags, en hann hefur nú sagt starfi sínu lausu og hefur verið auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra. Skipulagið er í réttri þróun. Fjárhagslega hefur verið tekið til hendi. Dansflokkurinn hefur fengið samstað í Borgarleikhúsinu. Síðast en ekki síst hefur verið mótuð ný listræn stefna undir forystu Katrínar Hall og skilaði hún sér vel í sýningunni á laugardag. Frumsýningarkvöldið gekk ekki áfallalaust að þessu sinni frekar en kvöldið áður, því að ekki var unnt að draga upp tjaldið eftir hlé vegna bilunar í tölvu - gekk það erfiðlega í upphafi sýningarinnar en alls ekki eftir hlé. Voru áhorfendur sendir úr salnum eftir að þeir höfðu sest að loknu hléi og beðið það í um 20 mínútur. Gengu menn þá til þess verks að fella tjaldið í orðsins fyllstu merkingu og var salurinn opnaður að nýju, eftir að tjaldið hafði verið fjarlægt. Var hléð um klukkustund á þessari sýningu, ívið lengra en kvöldið áður.
Föstudagur 6.2.1998
Klukkan 20 fórum við í Íslensku óperuna og horfðum á Ástardrykkinn. Fréttnæmt þótti, að ítalski tenórinn var með hálsbólgu og varð að lengja hléð um helming meðan farið var með hann á sjúkarhús til rannsókna, söng hann þó verkið á enda Jóni Ásgeirssyni gagnrýnanda Morgunblaðsins til lítillar gleði eins og sjá má í blaðinu í dag. Sýningin var lífleg og skemmtileg.
Fimmtudagur 5.2.1998
Klukkan 16.00 efndi Rannsóknarráð Íslands til athafnar í Þjóðarbókhlöðunni í tilefni af því, að rannsóknagagnasafn þess var opnað á netinu. Kom það í minn hlut að skrá mig sem fyrsta notandann. Gagnasafnið er vistað hjá Miðheimum-Skímu og gat ég talað af eigin reynslu í um það bil þrjú ár, þegar ég sagði, að allan þann tíma hefði ég vistað vefsíðu mína hjá Miðheimum og aldrei lent í neinum vandræðum. Klukkan 17.00 var athöfn í Listasafni Íslands, þar sem forseti Íslands afhenti menningarverðlaun VÍS en Kjartan Gunnarsson, stjórnarformaður VÍS, kynnti verðlaunahafa og bauð til kampavínsveislu.
Miðvikudagur 4.2.1998
Klukkan 13.15 flutti ég ræðu á fundi á vegum Samtaka iðnaðarins um menntamál. Á Alþingi svaraði ég fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um fjöldatakmarkanir í læknadeild Háskóla Íslands. Klukkan 17 tók ég þátt í hátíðlegri athöfn á vegum Skýrslutæknifélags Íslands vegna útgáfu á Tölvuorðasafni. Er þetta fjórða útgáfa orðasafnsins, hin veglegasta bók. Verður það ekki fullþakkað, að menn skuli leggja jafn hart að sér og gert hefur verið við þessa miklu vinnu að þýða tækniorð og hugtök á íslensku. Í ræðum manna við athöfnina kom fram eindreginn vilji til að beita sér fyrir því, að stýrikerfi í tölvum verði íslenskað. Miklar umræður hafa farið fram um þetta mál á netinu undanfarið. Klukkan 20 fórum við í Borgarleikhúsið, en þar var á Litla sviðinu frumsýnt leikrit eftir Nicky Silver, Feitir menn í pilsum. Hafi það verið ætlun höfundarins að ganga fram af áhorfendum tókst það gagnvart okkur.
Mánudagur 2.2.1998
Klukkan 10 fyrir hádegi fór ég í Perluna og var viðstaddur, þegar ritað var undir samning Íslenskrar erfðagreiningar og svissneska fyrirtækisins Hoffmann-la Roche. Á sama tíma var athöfn í Norræna húsinu, þar sem ritað var undir samning milli fyrirtækisins Hugvit og IBM, sem byggist á hugbúnaðarvinnu Hugvits. Báðir þessir samningar eru stórmerkilegir og sýna, að Íslendingar standa framarlega í læknis- og líffræði og tölvunarfræðum. Klukkan 17. 00 voru íslensku bórkmenntaverðlaunin afhent þeim Guðbergi Bergssyni og Guðjóni Friðrikssyni við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Sunnudagur 1.2.1998
Síðustu viku velti ég því oftar en einu sinni fyrir mér, hvað ylli því, að svo margir viðburðir gerðust einmitt í henni. Tvö leikrit voru frumsýnd, ópera og ballett í Reykjavík, margar listsýningar voru opnaðar, viðurkenningar veittar, formlega gengið frá mikilvægum samningum á sviði rannsókna og vísinda auk þess sem ný Tölvorðabók sá dagsins ljós og Rannsóknarráð Íslands opnaði nýtt gagnasafn á netinu. Lítum nánar á vikuna: Klukkan 20.30 fór ég á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur og Hamrahlíðarskólakóranna í Langholtskirkju, þar sem flutt var tónlist eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt, sem nú er búsettur í Berlín og kom þaðan til að vera við tónleikanna. Ég hafði fylgst náið með öllum og miklum undirbúningi þessara tónleika enda er Rut kona mín formaður Kammersveitarinnar og var einleikari og konsertmeistari á tónleikunum. Lék lengi vafi á því, hvort Pärt kæmi en dag einn hringdi hann í Rut og sagðist mundu hætta við að fara til London og koma hingað í staðinn en með því skilyrði þó, að hann þyrfti ekki að tala við fjölmiðla. Var Pärt síðan hér frá föstudeginum 30. janúar til mánudagsmorgunins 2. febrúar. Ljóst var, að áhuginn á tónleikunum yrði svo mikill, að forsendur væru fyrir að hafa þá tvenna. Varð að ráði að efna til seinni tónleikanna kl. 23 þetta sama sunnudagskvöld. Pärt er einkar hógvær og geðþekkur maður og má fullyrða að návist hans á tónleikunum hafi stuðlað að því að gera stundina betri en ella. Átti hann greinilega hug og hjörtu hins mikla skara ungs fólks í Hamrahlíðarkórunum, sem Þorgerður Ingólfsdóttir hafði þjálfað af sínum alkunna dugnaði og listfengi. Sagði hún við kórfélaga, að fyrir þá að hitta Pärt væri álíka og hún hefði haft tækifæri til að hitta Stravinsky á Íslandi á menntaskólaárum sínum. Hughrifin af tónlistinni voru mikil og mér er sagt, að þau hafi þó verið enn meiri á seinni tónleikunum en hinum fyrri, þegar kórinn gaf allt sem hann átti í Te Deum. Björk er meðal aðdáanda Pärt og mun hún hafa hætt við að fara til London þetta sunnudagskvöld til að fá tækifæri til að hlusta á tónleikana. Minnist ég þess ekki, að jafnmargir hafi komið til Rutar á mannamótum til að lýsa ánægju sinni með tónleika og þessa og lýsa áhrifunum, sem tónlistin hafði á þá.