Dagbók: júlí 2009
Föstudagur, 31. 07. 09.
„Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar:Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, er þegar tekinn til við að undirbúa sjónvarpsþátt sinn á ÍNN. Í nýjustu dagbókarfærslunni á heimasíðu sinni segist hann hafa farið inn á stöðina til að lesa inn stutta tilkynningu í tilefni af því að þáttur hans hefur göngu sína á ÍNN þann 19. ágúst.
„Þetta kom þannig til að Ingvi Hrafn bauð mér að taka svona þátt og ég tók því boði," segir Björn, en Ingvi Hrafn Jónsson er stjórnarformaður stöðvarinnar og einn af þáttastjórnendunum.
Björn segist enn eiga eftir að leggja niður fyrir sér hvernig þátturinn verður, en hann verður hálftíma langur annan hvern miðvikudag og mun bera heitið Björn Bjarna.
Björn segist búast við að fá til sín gesti og fjalla bæði um innlend og erlend málefni:
„Allt milli himins og jarðar - ég hef frjálsar hendur, svo það eru ekki sett nein skilyrði um efnistök. Ég spila þetta af fingrum fram."“
Í dag tók um 45 mínútur að aka frá Hveragerði til Selfoss. Þrengingin var við Ölfusárbrúna og hringtorgið handan við hana á Selfossi. Umferðin var mikil allt að Hvolsvelli. Húsbílar, tjöld og mannfjöldi er mikill í Fljótshlíðinni. Kvöldkyrrðin var sólböðuð undir heiðskírum himni.
Fimmtudagur, 30. 07. 09.
Merkilegt er, að enginn fjölmiðill segi frá samtali Kristins R. Ólafssonar í Madrid í Spegli RÚV í kvöld við Evrópumálaráðherra Spánar um afstöðu hans til aðildar Íslands að Evrópusambandinu og áhuga Spánverja á Íslandsmiðum og íslenskum útgerðarfyrirtækjum, ef Ísland verður aðili að ESB. Ráðherrann minnti á, að Spánn yrði í forsæti ESB í upphafi næsta árs og kynni því að hafa mikið um væntanlegar viðræður við Íslendinga að segja. Spánn væri „heimsveldi í fiskveiðum“ og ætlaði að halda þeirri stöðu Íslendingar gætu ekki setið einir að eigin miðum og ekki heldur staðið gegn erlendri fjárfestingu í útgerð og fiskvinnslu yrðu þeir aðilar að ESB, því að þar giltu sömu reglur fyrir alla.
Fréttir bárust um það í dag, að málefni Íslands verða ekki á dagskrá stjórnarfundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3. ágúst. Af því tilefni ritaði ég pistil um málið.
Í dag fór ég á ÍNN-sjónvarpsstöðina og las inn stutta kynningu í tilefni af því, að miðvikudaginn 19. ágúst er stefnt að því, að ég verði þar með fyrsta hálftíma þátt minn. Hann verður annan hvorn miðvikudag klukkan 21.30.
Miðvikudagur, 29. 07. 09.
Óskiljanlegt er, að nokkrum detti í hug, að Ísland verði sett í sömu skúffu og N-Kórea, Búrma, Zimbabwe eða önnur slík ríki, þótt alþingi sætti sig ekki við Icesave-afarkosti. Það er svo sem í samræmi við annað í málflutningi Evrópusamtakanna, að slíkri framtíð skuli hótað á vefsíðu þeirra, sé ekki fallist á einhliða kröfur og skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þetta er svo grófur hræðsluáróður, að hann er þeim til háborinnar skammar, sem halda honum á loft.
Pierre Lellouche, Evrópumálaráðherra Frakka, sagði á blaðamannafundi í Reykjavík í dag, að tengsl væru á milli Icesave og ESB-aðildar Íslands. Aðgangseyririnn er skýr.
Í spænska blaðinu El Pais sagði 27. júlí:
„Spænski flotinn lítur á fiskimið þessi (við Ísland) sem fjársjóð. Diego López Garrido, Evrópumálaráðherra Spánar, tók fram á sunnudag í Brussel að Spánverjar „myndu hafa mikið að segja“ á meðan samningaviðræðurnar stæðu yfir til að koma í veg fyrir að fiskveiðihagsmunir þeirra skaðist á einhvern veg.“
Þetta er diplómatískt mál en skiljanlegt: Spænska ríkisstjórnin ætlar að komast í fjársjóðinn við Ísland. Saga Spánverja innan ESB einkennist af einarðri varðstöðu um það, sem þeir telja mikilvæga hagsmuni sína. Úthafsveiðar falla undir þá.
Að líkja afstöðu minni og Árna Þórs Sigurðssonar til NATO og aðildar Íslands að bandalaginu saman er fráleitt. Hann vill Ísland úr NATO ég vil virka þátttöku í NATO. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar, að varnarmálastofnun sé nauðsynlegt millistykki aðildarinnar. Hún er til marks um lúxus innan stjórnsýslunnar, sem ber að afmá. Yfirlýsingar gefnar í nafni hennar eru auk þess margar furðulegar.
Þriðjudagur, 28. 07. 09
Furðulegt er að heyra opinberan embættismann lýsa yfir því í útvarpsviðtali, að starfsemi varnarmálastofnunar sé skilyrði fyrir aðild Íslands að NATO. Þetta gerði forstjóri stofnunarinnar í morgun. Hvergi segir í samningum Íslands við NATO, að hér skuli starfa varnarmálastofnun. Ef íslensk stjórnvöld vilja eiga önnur samskipti við NATO en pólitísk, ákveða þau hvaða stofnanir koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart bandalaginu.
Hitt er ekki síður undarlegt, að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, skuli tala á þann veg, að loftrýmisgæsla undir merkjum NATO á N-Atlantshafi snerti ekki hagsmuni Íslands og Íslendinga. Að sjálfsögðu skiptir þessi gæsla okkur Íslendinga máli og við eigum að auðvelda hana. Það er hins vegar unnt að gera á viðaminni hátt en með því að reka varnarmálastofnun.
Nýlega var varnarmálastofnun borin fyrir upplýsingum um ferðir rússneskra kafbáta, þar á meðal kjarnorkuknúinna, á Drekasvæðinu, þar sem líklegt er talið, að olía finnist í íslenskri lögsögu. Þess var ekki getið, hvernig stofnunin aflaði þessara upplýsinga. Ástæða er til að velta fyrir sér, hvort samræmist reglum NATO að birta þær opinberlega. Kannski vildi stofnunin réttlæta tilvist sína gagnvart Árna Þór og öðrum vinstri-grænum, sem vilja friðlýsa íslenska lögsögu fyrir ferðum kjarnorkuknúinna skipa?
Allt frá því að utanríkisráðuneytið setti varnarmálastofnun á laggirnar hefur verið brotalöm í starfsemi hennar, enda á utanríkisráðuneytið ekki að standa að slíkri starfsemi, þótt það hafi komið fram fyrir Íslands hönd gagnvart bandaríska varnarliðinu á sínum tíma. Hlutdeild utanríkisráðuneytisins í þessum rekstri er tímaskekkja.
Mánudagur, 27. 07. 09.
Utanríkisráðherrar ESB samþykktu í dag, að vísa aðildarumsókn Íslands til framkvæmdastjórnar ESB. Hún gefur ráðherrunum álit sitt á umsókninni. Ákveðið var að skoða umsókn Albaníu á næsta fundi ráðherranna, enda væri stjórnarkreppa í landinu. Ef ráðherrarnir hefðu skotið ákvörðun um Ísland á frest hefði landið verið sett á bekk með Albaníu og Makedóníu. Grikkir standa gegn Makedóníu vegna nafnsins á landinu.
Össur Skarphéðinsson kallar það „diplómatískan sigur“, að Íslendingum var ekki skipað á þennan biðbekk.
Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn formaður utanríkismálanefndar, segir flokksbróður sínum Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að halda sér á mottunni í andstöðu við ESB-umsóknina. Alþingi hafi samþykkt hana og hann verði að hlíta því. Tónninn í Árna Þór hefur breyst, frá því að hann lét eins og leitast yrði við að sætta sjónarmið og hafa sem víðtækast samráð.
Þetta tvennt: Grobb Össurar og krafa um undirgefni vinstri-grænna vegna samþykktar alþingis verður ESB-stef stjórnarliðsins næstu vikur og mánuði.
Hvernig halda menn, að rætt verði um væntanlega niðurstöðu í Brussel-viðræðunum? Ákallið um að kyngja Icesave-samningunum, þrátt fyrir gallana á þeim, er hjáróma miðað við kröfuna um að samþykkja aðildarsamninginn, þegar þar að kemur.
Nú hrópa þingmenn Samfylkingarinnar á sjálfstæðismenn vegna Icesave og segjast tala í nafni „atvinnulífsins“, sem vilji, að afarkostirnir séu samþykktir. Þetta minnir aðeins á hróp Samfylkingarinnar í þágu Baugs og Kaupþings á sínum tíma.
Spyrja má: Hver er reisn íslensks „atvinnulífs“? Á það ekki betri málsvara en þá, sem telja þjóðina komast á vonarvöl, nema hún leggist í duftið gagnvart erlendu valdi í hvaða mynd, sem það birtist? Eru þeir menn enn með tögl og hagldir innan „atvinnulífsins“, sem ýttu undir útrásina á sínum tíma og lögðu blessun sína yfir allt, sem gert var í hennar nafni?
Sunnudagur, 26. 07. 09.
Í pistli hér á síðunni í dag kemst ég að þeirri niðurstöðu, að ríkisstjórnin hafi með stuðningi meirihluta alþingis tekið ranga ESB-ákvörðun á röngum tíma. Þetta ber ekki mikilli stjórnvisku vitni, enda réð einþykkni Jóhönnu og óðagot Össurar ferðinni.
Í dag lýsti Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, yfir andstöðu við stefnu forsætisráðherra og utanríkisráðherra í málinu.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vera ósammála Jóni Bjarnasyni og ráðherra, sem sé ekki tilbúinn til að framfylgja samþykktum Alþingis beri að víkja úr ríkisstjórn. Ætlar Jóhanna Sigurðardóttir að verða við þessari kröfu Sigríðar Ingibjargar og víkja Jóni úr ríkisstjórninni? Ætlar Sigríður Ingibjörg að fylgja orðum sínum eftir með því að flytja tillögu um vantraust á Jón?
Sama dag og Jón Bjarnason snerist opinberlega gegn höfuðmáli Jóhönnu og Össurar birti Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, gagnrýni á stefnu Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu á vefsíðu sinni. Ögmundur hafnar þeirri kenningu forystumanna ríkisstjórnarinnar, að tafarlaust samþykki á Icesave-afarkostunum sé forsenda þess, að Íslendingar brjótist úr alþjóðlegri einangrun. Hann telur að berjast eigi fyrir sanngjörnum málstað Íslendinga á alþjóðavettvangi og segir:
„Það er koma fólki í skilning um að þegar á reynir virka réttarkerfin ekki heldur hnefaréttur hins sterka. Farvegur Icesave deilunnar er óræk sönnun þessa. Þegar allt kemur til alls er almenningi umhugað um að verja grundvallarforsendur lýðræðislegs réttarríkis. Þegar okkur tekst að færa sönnur á að okkur er meinaður aðgangur að réttarkerfunum og í stað þess beitt hnefaréttinum; að við viljum standa við lögformlegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar; að við viljum borga þær skuldir sem okkur ber að greiða, að við viljum endurheimta stolna fjármuni og láta þá alla renna til þeirra sem hafa verið hlunnfarnir; að við virðum skilmála sem við höfum undirgengist, þá mun okkar land rísa á ný.“
RÚV kallaði ekki í neinn þingmann Samfylkingarinnar vegna þessara orða Ögmundar Jónassonar, enda virðisti þeim sama, þótt meginmál Steingríms J. sæti gagnrýni. Hinir skulu hins vegar víkja, sem leyfa sér að lýsa efasemdum um ESB-stefnuna.
Laugardagur, 25. 07. 09.
Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar settist að völdum hinn 1. febrúar 2009, var því heitið, að nú skyldi upplýsa almenning um stöðu sína og þjóðarinnar. Undanfarnar vikur hefur hvað eftir annað gerst, að upplýst er um gögn, sem að ætlan stjórnvalda átti að halda leyndum. Snerta gögnin meðal annars aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og gerð Icesave-samninganna.
Ríkisstjórnin hefur orðið að sætta sig við meiri umræður um Icesave en hún vildi og segja má, að með hverjum deginum magnist rökstudd gagnrýni á samningana. Steingrímur J. Sigfússon og Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður hans, eru til andsvara og er sótt að þeim úr þingflokki vinstri-grænna ekki síður en úr öðrum áttum. Samfylkingarfólkið þegir almennt þunnu hljóði vegna Icesave en lætur berast til fjölmiðla, að innan þingflokksins fjölgi efasemdarmönnum um málið. Reynt er að berja í brestina með vísan til þess, að án samninganna séu Íslandi allar bjargir bannaðar.
Þegar hollenski utanríkisráðherrann hótaði, að ESB-umsókn Össurar yrði tekin í gislingu, nema gengið yrði frá Icesave, lét Steingrímur J. sig hafa það að ráðast á ráðherrann fyrir að vera með „loftfimleika til heimabrúks“. Sannaðist þá enn, hve vel Steingrímur J. vill standa við loforð sitt við Jóhönnu um að þjóna ESB-lund Samfylkingarinnar. Líklegt er, að fyrir Steingrími J. vaki að efla fylgi við Icesave meðal þingmanna Samfylkingarinnar. Minna þá á, að þeir eigi honum skuld að gjalda fyrir ESB-stuðninginn.
Föstudagur, 24. 07. 09.
Norðanvindurinn var svalari í Fljótshlíðinni í gær en í dag. Sagt var í fréttum, að síðustu nótt hefði hiti farið niður fyrir frostmark á Hellu. Er það óþekkt, frá því að mælingar hófust. Einnig fraus hjá kartöflubændum í Þykkvabænum.
Stríði mínu við túnrollurnar er ekki lokið. Mér hefur tekist að fækka þeim en ekki útiloka með öllu. Þær, sem enn komast á bannsvæðið, skríða undir vírinn, þar sem mér hefur ekki enn tekist að loka. Þeim stöðum fækkar jafnt og þétt.
Fimmtudagur, 23. 07. 09.
Össur Skarphéðinsson afhenti Carl Bildt í dag umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Var það í annað sinn, sem Svíum var afhent umsóknin. Af sjónvarpsmyndum mátti ráða, að ekki hefði verið mikil reisn yfir athöfninni.
Fjármálaráðuneytið unir því, að Norræni fjárfestingabankinn hætti að lána Íslendingum, nema alþingi fallist á Icesave-afarkostina. Miðað við þvermóðsku Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu, kemur þetta ekki á óvart.
Lögfræðirökin gegn Icesave-samningunum verða sífellt þyngri. Þá færa hagfræðingar sterk rök fyrir því, að áætlun Seðlabanka Íslands um, að Íslendingar geti borið Icesave-byrðarnar standist ekki. Ríkisstjórnin fellur frá kröfu um tafarlausa afgreiðslu alþingis á Icesave-málinu.
Í dag birti Fréttablaðið grein eftir mig, þar sem ég andmæli Jóni Kaldal, ritstjóra blaðsins, vegna ummæla hans í leiðara um löggæslumál og fjárveitingar til þeirra í ráðherratíð minni.
Á ruv.is segir í dag af þessu tilefni:
„Landssamband lögreglumanna tekur undir gagnrýni Björns Bjarnasonar fyrrverandi dómsmálaráðherra um óeðlilegt hlutfall yfirmanna og undirmanna innan lögreglunnar. Þetta endurspeglast meðal annars í því að endurnýjun í grunnlöggæslu hefur ekki verið nægileg.
Í grein í Fréttablaðinu í dag sver Björn Bjarnasona, fyrrverandi dómsmálaráðherra, af sér sakir þess efnis að hafa fjársvelt Lögregluna árum saman. Hann bendir hins vegar á hluti sem betur mættu fara eins og hlutfall yfirmanna og undirmanna innan Lögreglunnar. Markmið sameiningar lögregluembættanna árið 2007 um að fækka stöðum yfirmanna hefur ekki gengið eftir.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands Lögreglumanna, segir að félagsmenn hafi sumir hverjir gagnrýnt að hlutfall yfirmanna sé of hátt. Hann segir hinsvegar að uppbygging lögreglunnar sé flókin þar sem lögreglan er byggð upp í lagskiptu umhverfi, svipað og hjá her.
Snorri segir það vonbrigði að sameining embætta hafi ekki skilað sér í fækkun yfirmanna eins og til stóð.“
Miðvikudagur 22. 07. 09.
Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og hann var einnig birtur á amx.is. Þar ræði ég umræður um ESB-mál í Þýskalandi og hvernig Ísland tengist þeim.
Engu er líkara en hvorki Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, né Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, átti sig á því, að með umsókn um ESB-aðild eru skilin á milli utanríkismála og innanríkismála að verða að engu á milli Íslands og ESB-ríkjanna. Þeir láta báðir eins og krafa hollenska utanríkisráðherrans um, að Íslendingar axli ábyrgð vegna Icesave sé eitthvert hollenskt innanríkismál. Svo er ekki, það er ESB-mál og lausn þess er forsenda aðildar Íslands að ESB.
Þeir Össur og Steingrímur J. hafa komið sér saman um að svara á þann veg, að hollenski ráðherrann hafi ekki verið að ræða við Össur heldur kjósendur sína í gegnum Össur til að styrkja eign stöðu á heimavelli!
Spunameistarar Samfylkingarinnar láta berast til fjölmiðla, að efasemdir um Icesave-samningana séu að aukast meðal þingmanna Samfylkingarinnar. Af fréttunum má álykta, að þá megi Steingrímur J. fara að gæta sín. Skyldi hann grípa til sömu ráðstafana og Jóhanna Sigurðardóttir á dögunum, þegar hún hótaði Steingrími J. stjórnarslitum, hefði hann ekki hemil á andstæðingum ESB-aðildar meðal þingmanna vinstri-grænna?
Lilja Mósesdóttir, þingmaður vinstri-grænna, valdi þann kost, að taka ekki þátt í fundi efnahags- og skattanefndar alþingis, þar sem hún er varaformaður, þegar Icesave-samningarnir voru afgreiddir úr nefndinni. Þetta er sérkennileg aðferð til að skjóta sér undan þingmannsábyrgð. Lilja afsakaði sig með því, að hún væri ný á þingi. Hvergi er þess getið í lögum, að ábyrgð nýrra þingmanna sé önnur en hinna eldri.
Þriðjudagur, 21. 07. 09.
Á mbl.is birtist í kvöld:
„Utanríkisráðherra Hollands, Maxime Verhagen, hringdi í dag í Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og þrýsti á að Alþingi ljúki afgreiðslu Icesave-samkomulagsins og samþykki það. Greint er frá þessu í hollenskum fjölmiðlum í dag....
Verhagen segir í samtali við (hollenska blaðið) Trouw að það sé algjörlega nauðsynlegt að Ísland samþykki samkomulagið. Annars geti liðið langur tími þar til Ísland fái inngöngu í Evrópusambandið.
„Lausn Icesave-deilunnar myndi flýta fyrir umsóknarferli Íslands í Evrópusambandið," segir Verhagen. Það myndi sýna það og sanna að Íslendingar taki tilskipanir ESB alvarlega.“
Meginrök fyrir ESB-aðildarsamþykkt alþingis 16. júlí voru, að við þyrftum að vita um skilyrði aðildar. Hér kynnumst við þeim fyrstu.
Mbl.is segir okkur ekki, hvað Össur sagði við hollenska starfsbróður sinn. Mótmælti hann eða bukkaði sig og beygði? Hann hefur örugglega ekki spurt, hvers vegna Hollendingar vildu ekki, að dómari segði okkur Íslendingum, hvaða skyldur falla á okkur samkvæmt ESB-tilskipuninni, sem við eigum að taka alvarlega.
Mánudagur, 20. 07. 09.
Í dag var tilkynnt:
- Að endurfjármögnun bankanna þriggja, sem hrundu í byrjun október, fari fram eigi síðar en 14. ágúst nk.
- Að skilanefndir Glitnis og Kaupþings, að undangengnu samráði við kröfuhafa, eigi þess kost að eignast meginhluta hlutafjár í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi.
- Að samkomulagi sé náð við kröfuhafa gamla Landsbankans um hvernig staðið verður að því að ljúka uppgjöri milli hins gamla og nýja Landsbanka, en það samkomulag er í eðli sínu all frábrugðið hinum tveimur, þar sem samsetning kröfuhafahópsins er önnur en í hinum bönkunum.
Búist er við að framlag ríkisins til endurfjármögnunar bankanna nemi um 271 milljarði íslenskra króna. Fallist kröfuhafar Glitnis og Kaupþings á það samkomulag sem undirritað hefur verið við skilanefndir bankanna tveggja lækkar fjárframlag ríkisins um 73 milljarða og verður samanlagt um 198 milljarðar króna. Í fjárlögum 2009 er heimild fyrir ríkissjóð að leggja bönkunum þremur til allt að 385 milljörðum króna.
Í dag eru 40 ár liðin frá því, að bandarísku geimfararnir tveir Neil Armstong og Ed Aldrin stigu á tunglið. Endurvarpað var í RÚV frásögnum fréttamanna frá þeim tíma af þessum heimsögulega atburði. Athygli mína vakti, hve hófstilltir fréttamenn voru og komu þó efninu vel og greinilega til skila. Ég velti fyrir mér, glamrinu og gauraganginum í kringum einhvern sambærilegan atburð nú á tímum.
Fróðlegt væri, ef gerður yrði samanburður á framsögn fréttamanna þá og nú. Ég kann betur að meta látlausa en skýra framsögn en þá sönglandi, sem einkennir framsögn æ fleiri sjónvarps- og útvarpsmanna. Walter Cronkite, fréttamaður og sjónvarpsþulur, andaðist á dögunum. Minningarbútar um framgöngu hans bera með sér hófsemi, sem ávann honum traust áhorfenda.
Þegar rætt er um málfarsráðunaut RÚV. eru málvillur á dagskrá. Hitt er ekki síður þýðingarmikið að huga að framsögninni. Hún er mjög mismundandi og nægir þar að nefna fréttamenn til sögunnar. Þá þarf að brýna fyrir útvarpsfólki að sýna erlendum orðum virðingu. Á dögunum talaði kynnir í tónlistarþætti alltaf um Copenheyjen - þegar vísað var til Copenhagen.
Sunnudagur, 19. 07. 09.
Kosið verður til þýska sambandsþingsins 27. september og er því spáð að kristilegir demókratar CDU/CSU sigri og er talið líklegt, að þeir myndi stjórn með frjálsum demókrötum, FDP, að kosningum loknum. Í utanríkisstefnu FDP kemur fram áhugi á því, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu í því skyni að treysta og tryggja aðgang ESB að norðurskautinu. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur einmitt sagt, að hann ætli að „selja“ Ísland innan ESB með vísan til norðurskautshagsmuna ESB.
Í gær sagði ég frá því, að CSU, það er kristilegir demókratar í Bæjaralandi hefðu ekki áhuga á að ESB stækkaði á næstunni umfram Króatíu. Aðild hennar strandar á mótmælum Slóvena út af deilu um landamæri við Adríahaf og í hafinu.
Þýska sjónvarpsstöðin ZDF stofnar til sumarviðtala við þýska stjórnmálaleiðtoga. Nú um helgina var rætt við kanslaraefni þýskra jafnaðamanna, SPD, Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra. Hann var spurður um afstöðu til aðildarumsóknar Íslands. Sagðist hann hafa sagt forsætisráðherra Íslands, þegar þeir hittust í Brussel, að umsókn Íslands yrði vel tekið.
Nú er spurning, hvaða forsætisráðherra þetta var. Jóhanna Sigurðardóttir ræðir ekki ótilneydd við erlenda menn, hvorki stjórnmálamenn né aðra. Kannski hefur hún heldur aldrei komið til Brussel. Steinmeier varð utanríkisráðherra 2005, svo að hann hefur annað hvort hitt Halldór Ásgrímsson eða Geir H. Haarde og rætt málið við þá.
Steinmeier hefur aldrei háð kosningabaráttu áður. Hann komst til áhrifa og síðan valda innan SPD sem hægri hönd Gerards Schröders, þáverandi kanslara. Ólíklegt er talið, að hann verði langlífur á vettvangi þýskra stjórnmála, tapi SPD í kosningunum. Kannanir benda til, að svo verði.
Laugardagur, 18. 07. 09.
Þegar fréttir berast um, að kristilegir (CSU) í Bæjaralandi leggist gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, er ástæðulaust að láta eins og þar sé um áhrifalitla hægrimenn að ræða. Völd CSU í Bæjaralandi eru ótvíræð og ítök þeirra meðal kristilegra demókrata mikil.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var fyrir fáeinum dögum á flokksþingi CSU og reyndi að draga úr gagnrýni þeirra á Evrópusambandið. Þýski stjórnlagadómstóllinn hefur nýlega kveðið upp þann dóm, að þýska sambandsþingið geti staðfest Lissabon-sáttmálann, en þó ekki fyrr en þingið hafi sett lög, sem mæla fyrir um skýran íhlutunarrétt þess til að tryggja þýska hagsmuni gegn Brussel-valdinu. Deilt er um, hve langt eigi að ganga í þeirri löggjöf og vill CSU, að Brussel-valdinu séu settar sem mestar skorður. Merkel vill milda þær kröfur og mun því leggja mikið á sig til að koma til móts við önnur sjónarmið CSU varðandi ESB. Raunar hefur hún sagt, að ekkert liggi á að stækka ESB meira.
Þótt menn ræði um hið bitlausa álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis sem vegvísi í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, er ekki að finna þar neina áætlun um, hvernig ætlunin er að vinna ríkisstjórnir ESB-landanna til stuðnings við aðild Íslands. Ætlar Jóhanna Sigurðardóttir að leggjast í víking til að ræða við stjórnarleiðtoga ríkjanna? Ef hún byrjar í London gæti hún rætt við Gordon Brown um Icesave í leiðinni.
Athyglisvert er, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, guðmóðir ESB-stefnu Samfylkingarinnar, lítur með ólund til þess, hve stuðningur við aðildarumsókn í þinginu var naumur, hún treystir ekki Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og vill halda honum frá ESB-málum, loks gagnrýnir hún aðferð Steingríms J. og Svavars Gestssonar við gerð Icesave-samninganna, ESB hefði átt að eiga aðild að þeim. Þetta eru kaldar kveðjur til vinstri-grænna.
Föstudagur, 17. 07. 09.
Skrifaði pistil í morgun um ESB-atkvæðagreiðsluna á alþingi í gær. Hann birtist bæði hér á síðunni og á amx.is, vefsíðu, sem nýtur sívaxandi vinsælda. Efni þar er greinilega mikið lesið. Er fagnaðarefni, að vefsíðu á borð við amx.is skuli haldið úti, þegar efnistök allra fjölmiðla eru eins og steypt í sama mót. Hvergi virðist metnaður til að líta á þróun mála á annan hátt en samræmist þeirri pólitísku rétthugsun, að ESB-aðild sé æðsta takmarkið.
Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, afhenti umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sænskum stjórnvöldum í dag. Sagði utanríkisráðherra það hafa verið nauðsynlegt til að málið kæmist inn á utanríkisráðherrafund ESB-ríkjanna 27. júlí.
Samfylkingarmennirnir í utanríkisráðuneytinu hafa svo snör handtök í málinu að engu er líkara en þeir séu í kapphlaupi. Þeir skyldu þó ekki óttast, að aðfarirnar við að knýja málið í gegn hafi veikt svo grundvöll ríkisstjórnarinnar, að hann sé að bresta?
Augljóst er á öllum viðbrögðum við ákvörðuninni um að sækja um ESB-aðild, að hún vekur hvergi fögnuð eins og almennt hefur gerst í umsóknarríkjum. Við öllum blasir, hvílíkum bolabrögðum var beitt til að þvinga málið fram á þingi. Sú aðferð ein hefði átt að duga til að þingmenn utan stjórnarflokkanna leggðu tillögu ríkisstjórnarinnar ekkert lið. Úr því að svo var ekki, verður hlutur þeirra, sem hlupu undan flokksmerkjum til að þjónusta ríkisstjórnina, verri en ella.
Fimmtudagur, 16. 07. 09.
Nýr áfangi hófst í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) í dag, þegar alþingi samþykkti með 33 atkvæðum gegn 28, 2 sátu hjá, tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn. Verði gengið til viðræðna, eftir að ráðherraráðið hefur sent umsóknina til skoðunar hjá framkvæmdastjórninni og hún lagt mat á hana, munu þær taka nokkur misseri. Íslenska stjórnkerfið verður meira og minna undirlagt, ef sinna á málinu af alvöru, og milljörðum króna verður varið til að framkvæma þessa tillögu, sem samþykkt var fyrir þá sök eina, að annars ryfi Samfylkingin stjórnarsamstarfið við vinstri-græna.
ESB-aðildarumsókn hefur aldrei verið samþykkt með svo litlum pólitískum stuðningi. Haldi einhver, að nú hverfi málið af hinum pólitíska vettvangi og stjórnmálaumræður geti farið að snúast um eitthvað annað, er það hinn mesti misskilningur.
Vegna framgöngu embættismanna utanríkisráðuneytisins í aðdraganda samþykktarinnar og leyndarhyggju þeirra í málinu, er full ástæða til að taka öllu, sem frá þeim kemur, af mikilli varúð og með fyrirvara. Hættan er sú, að þeir hafi samið við sjálfa sig um þá niðurstöðu, sem þeim þykir líklegast að falli að óskum Brussel-valdsins, áður en lagt er af stað. Margt í áliti meirihluta utanríkismálanefndar bendir til, að svo sé.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, verður í forsæti utanríkisráðherrafundar ESB-ríkjanna mánudaginn 27. júlí, þegar Össur Skarphéðinsson ætlar að afhenda umsóknina. Bildt segir á vefsíðu sinni í dag:
„Per telefon får jag beskedet att Alltinget i Island nu beslutat att landet skall ansöka om medlemsskap i Europeiska Unionen.
Självfallet har vi anledning att välkomna detta. Som ordförandeland kommer vi att se till att denna ansökan nu hanteras på ett korrekt sätt.
Nu bär det av till middag.“
Hér fer ekkert á milli mála: Bildt fagnar, að hafa fengið í síma skilaboð um, að alþingi hafi samþykkt aðildarumsókn og hann segist ætla að sjá til þess, að hún verði afgreidd á réttan hátt. Spurningin er þessi: Sagði sá, sem hringdi í Bildt, honum frá því, hve Össur verður með veikan pólitískan stuðning, þegar þeir hittast í Brussel?
Frá því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti ályktun sína um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu hafa ESB-fjölmiðlar og ESB-álitsgjafar ráðist á hana og útmálað á hinn versta veg. Við atkvæðagreiðslu á þingi í dag var hún felld með minnsta hugsanlega mun 32:30 og þingmenn allra flokka nema Samfylkingar lögðu henni lið. Þetta sýnir, að Bjarni Benediktsson og félagar hans í þingflokki sjálfstæðismanna hafa haldið vel á málstað sínum. ESB-fjölmiðlarnir láta þessa auðvitað ekki getið.
Miðvikudagur, 15. 07. 09.
Misnotkun á fréttaþáttum RÚV í þágu ESB-aðildarsinna er orðin á þann veg, að trúverðugleiki fréttastofunnar er að þverra. Frá morgni til kvölds hefur í dag verið gengið á þingmenn Borgarahreyfingarinnar af fréttamönnum og þeir sakaðir um svik við kjósendur sína. Lauk Kastljósi kvöldsins á þann veg, að Þórhallur Gunnarsson fagnaði því sérstaklega, að Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur hafði í beinni sendingu frá alþingi tekist að fá Þór Saari, þingmann Borgarahreyfingarinnar, til að segja, að kannski mundi hann að lokum styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um ESB-aðildarumsókn.
Í dag kom í ljós, að utanríkisráðuneytið hafði stungið skýrslu um ESB-áhrif á íslenskan landbúnað undir stól. Var það gert með þeim rökum, að hún væri ófullgerð. Að kröfu þingmanna var skýrslan að lokum birt. Ástæðan fyrir undanskotinu kom þá í ljós. Efni skýrslunnar féll ekki að málstað aðildarsinna.
Þetta atvik og atburðarásin vegna Icesave-samninganna síðustu daga, þar sem embættismenn utanríkisráðuneytisins hafa einnig leitt ferðina, er aðeins smjörþefurinn af þeim vinnubrögðum, sem verða viðhöfð, samþykki alþingi ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar með hið bitlausa álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis sem veganesti. Þingmennirnir, sem standa að því að knýja ESB-aðildarumsókn í gegn á þessum ótrúverðugu forsendum, gengu flestir til kosninga með þau orð á vörunum, að styrkja þyrfti alþingi gagnvart framkvæmdavaldinu.
Í dag var einnig sagt frá því, að norski seðlabankastjórinn stæði að baki lögfræðingum bankans, þegar þeir finna að efni Icesave-samninganna. Þar með féll sú röksemd Svavars Gestssonar, formanns samninganefndarinnar, og Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar alþingis, að lögfræðiálitið væri marklaust, af því að það væri ekki formlega frá seðlabankanum.
Það þarf vissulega sérstakt hugarfar til að komast að þeirri niðurstöðu, að efni lögfræðiálita ráðist af því, hvort þau eru formleg eða óformleg. Að svo kunni að vera, segir hins vegar mikið um viðhorf Svavars og Árna Þórs til slíkra álita. Þegar ég starfaði í borgarstjórn undir meirihluta R-listans, taldi ég, að R-listinn kallaði stundum eftir áliti lögfræðinga til að knýja fram niðurstöðu sér í hag. Mér þótti það ekki alltaf merkileg lögfræði.
Á www.wordsmith.org má lesa í dag:
„scree
PRONUNCIATION:
MEANING:
noun: Rock debris at the base or the side of a mountain.
ETYMOLOGY:
From Old Norse skritha (landslide). “
Þriðjudagur, 14. 07. 09.
Ókum í kvöld til Þingvalla og hlustuðum kl. 20.00 á Barokkhópinn Custos í þéttsetinni Þingvallakirkju. Norðanvindurinn var sterkur, þegar við gengum frá Flosagjá að kirkjunni og heldur var hryssingslegt að sjá brunarústirnar af hótel Valhöll í rokinu.
Klukkan 18.40 var ég í Spegli RÚV og ræddi við Láru Magnúsardóttur um stefnumörkun Þingvallanefndar frá 2004 fyrir þjóðgarðinn og hvernig mál horfðu nú við, eftir að Valhöll hefði brunnið. Ég sagði, að á síðari tímum hefði líklega engum dottið í hug að velja hóteli á Þingvöllum stað, þar sem Valhöll hefði staðið. Þess vegna teldi ég ólíklegt, að nokkurt mannvirki risi einmitt á þeim stað að nýju. Í því sambandi bæri ekki síst að hafa í huga verndun vatnsins en bæjarstæði Valhallar væri á viðkvæmum stað með tilliti til þess og landsigs. Ef reisa ætti hús fyrir veitingastað og fundi, ætti að gera það á Völlunum fyrir norðan þinghelgina. Hótel ætti hins vegar að rísa að Skógarhólum, þar sem Landsamband hestamannafélaga hefði aðstöðu og hefði ég rætt það mál á sinum tíma við forráðamenn landsambandsins í umboði Þingvallanefndar.
Æ skýrist betur, að þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem ætla að greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu eða sitja hjá eru að lengja líf ríkisstjórnarinnar fyrir utan allt annað. Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu, að ekki yrði sótt um aðild nema með skilyrðum. Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar er tekið fram, að ekki skuli sett nein skilyrði fyrir umsókn. Sjálfstæðismenn samþykktu tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu auk efnislegra skilyrða á landsfundi sínum. Með þeirri samþykkt var bæði tekin ákvörðun um aðferð og efni. Þeir sjálfstæðisþingmenn, sem samþykkja eða veita ESB-máli brautargengi án þessarar aðferðar og efnisþátta fara gegn samþykkt landsfundarins.
Mánudagur, 13. 07. 09.
Sölvi Tryggvason, sjónvarpsmaður, og Þorbjörn Þórðarson, blaðamaður á Morgunblaðinu, stofnuðu til umræðna um Icesave í þættinum Málefni á Skjá einum í kvöld og fengu að lokinni úttekt á málinu Davíð Oddsson til einkaviðtals og síðan þá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri-grænna, og Árna Pál Árnason, samfylkingarmann og félagsmálaráðherra, til að skiptast á skoðunum.
Davíð Oddsson sagði öllum hafa verið ljóst, að ríkisábyrgð hvíldi ekki á bönkunum eftir einkavæðingu þeirra. Hann lýsti undrun yfir spurningu um , hvort unnt væri að fara í mál gegn breska ríkinu fyrir breskum dómstóli. Taldi fráleitt að spyrja þannig um réttarríki. Bretum væri ekkert að vanbúnaði að stefna íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstóli, ef þeir teldu sig eiga kröfur á hendur því. Davíð þótti einnig skrýtið að spyrjendur hans virtust nálgast Icesave-málið á þann veg, að Íslendingar ættu engan annan kost en verða við kröfum Breta og Hollendinga. Breski seðlabankastjórin teldi íslenska ríkið ekki ábyrgt fyrir Icesave, þetta hefði hann sagt við sig í símtali í þann mund, sem bankarnir hrundu.
Steingrímur J. Sigfússon sagðist neyðast til að taka á þeim málum, sem lágu til afgreiðslu, þegar hann varð fjármálaráðherra, þar væri Icesave verst. Þá býsnaðist hann yfir því, að sitja uppi með þessi mál, en sjálfstæðismenn héldu uppi gagnrýni á sig. Þetta væri allt þeim að kenna. Bjarni Benediktsson minnti Steingrím J. á, að Icesave-samningurinn hefði verið gerður undir hans forsjá og á pólitíska ábyrgð hans en ekki annarra.
Í gær sagði ég hér frá því, sem Carl Bildt segir um umræður hér á landi um aðild að ESB og hann sé í startholunum. Því er haldið fram, að ég hafi íslenskað texta Bildts ranglega. Þessi túlkun á mínum orðum og hans byggist á því sérkennilega viðhorfi hér, að tillaga til þingsályktunar um aðildarumsókn að ESB frá ríkisstjórn og meirihluta utanríkismálanefndar, sé ekki tillaga um aðild að ESB heldur um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning. Að sjálfsögðu hefur Bildt ekki hugmynd um orðaleiki hér á landi um þetta mál og þá sérstaklega leiki vinstri-grænna, sem telja sér trú um, að umsókn um aðild að ESB sé ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu. Bildt veit, að umsókn um aðild þýðir aðeins eitt. Ég ritaði í dag pistil hér á síðuna um bitlaust álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis um ESB-málið.
Fyrir marga í hópi vinstri-grænna er vafalaust auðvelt að telja sér trú um, að allt annað felist í ESB-ályktuninni en þar stendur. Þeir töldu á sínum tíma einræði kommúnismans til marks um háþróað lýðræði.
Sunnudagur, 12. 07. 09.
Málflutningur þeirra, sem vilja, að tillaga ríkisstjórnarinnar um ESB-málið verði samþykkt á alþingi, einkennist af hroka og yfirlæti. Hvers vegna? Líklega til að staðfesta enn frekar elítu-stimpilinn, það er að þeir viti betur, aðrir séu ekki annað en heimaalnir bjálfar, sem vilji einangra land og þjóð.
Enginn er dæmigerðari fulltrúi 101-elítunnar en Egill Helgason, álitsgjafi og þáttarstjórnandi hjá ríkissjónvarpinu. Hann segir á bloggi sínu 12. júlí:
„Kúvendingar Bjarna Benediktssonar í ESB málum eru mjög sérstæðar. Þegar hann er farinn að flytja tillögur um tvöfalda þjóðaratvæðagreiðslu er það ekki dæmi um sérstaka lýðræðisást, heldur einfaldlega til marks um að flokkur hans ræður ekki almennilega við þetta mál.“
Egill kýs stundum að láta eins og hann sé gullfiskur en ekki marktækur álitsgjafi. Hér ræður gullfiskaminnið. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti, að leggja skyldi umsókn um ESB-aðild fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Í ESB-málinu er framganga formanns Sjálfstæðisflokksins ekki undrunarefni heldur formanns vinstri-grænna, Steingríms J. Sigfússonar, sem gengur á svig við kosningaloforð eigin flokks. Munurinn er hins vegar sá, að Steingrími J. er hrósað af ESB-elítunni, sem hann veittist að í sjónvarpssal daginn eftir kjördag, fyrir að hafa tekið U-beygju en ráðist er gegn Bjarna Benediktssyni fyrir að fylgja fram stefnu flokks síns, sem var mótuð fyrir kosningar.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, ráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar og Össurar í ESB-málum, bloggar 12. júlí:
„På den mer positiva planhalvan följer vi självfallet diskussionen i Alltinget i Island om att ansöka om medlemsskap i Europeiska Unionen. På ett eller annat sätt kommer sannolikt ett avgörande inom mycket nära framtid – och då skall vi vara redo för det.“
Hér fer ekkert á milli mála. Bildt telur, að alþingi sé að fjalla um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann er við öllu búinn.
Laugardagur 11. 07. 09.
Að fáir þingmenn sitji í salnum undir ESB-umræðum í blíðviðrinu í dag, kemur ekki á óvart. Fjöldi þingmanna í salnum segir alls ekkert um, hvort þingmenn telji mál miklu skipta eða ekki. Ummæli fréttamanns RÚV mátti skilja á þann veg, að fámenni í þingsalnum væri til marks um, að þeir teldu ESB-málið ekki mikilvægt.
Þingmenn þurfa ekki að sitja í þingsalnum til að gera upp hug sinn. Þingfréttaritarar verða hins vegar að hlusta á allar umræður til að geta gefið af þeim skýra mynd í frásögn sinni. Þegar þingfréttir snúast um, hve margir sitja í þingsalnum eða hvort þingfundir standa stundinni lengur eða skemur, er verið að segja frá því, sem engu máli skiptir, hafi menn áhuga á efni málsins.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur skýrt frá því, að hann lærði af Maltverjum að sækja má um þýðingarstyrki til Evrópusambandsins sendi ríki inn aðildarumsókn. Þessa kanínu dró Össur úr hatti sínum, þegar þingmenn drógu í efa, að 990 milljónir króna dygðu til að greiða kostnað við umsóknina, Talan 990 milljónir vekur grun um, að Össur hafi minnst gagnrýni á stjórnlagaþingið, sem ríkisstjórnin ætlaði að boða fyrir marga milljarði króna. 990 milljónir eru sölulegri tala en 1000 milljónir, milljarður.
Föstudagur, 10. 07. 09.
Valhöll á Þingvöllum brann til kaldra kola í dag. Í pistli, sem ég ritaði hér á síðuna 28. ágúst 2002 sagði meðal annars:
„Síðastliðið vor náðist annað langþráð markmið, þegar ríkið eignaðist landið og húsakostinn á Valhallarlóðinni, sem fram til þess tíma hafði verið í einkaeign innan þjóðgarðsins. Hefur forsætisráðuneytið forystu um ákvarðanir varðandi nýtinu húsakostsins í samráði og samvinnu við Þingvallanefnd. Þá hefur aðstaða fyrir starfsmenn þjóðgarðsins verið bætt með nýju starfsmannahúsi við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum, en áður voru starfsmennirnir í sumardvöl að Gjábakka, en bæjarhúsið þar brann á liðnum vetri.“
Eins og þarna kemur fram brann hús að Gjábakka veturinn 2001/2002. 10. júlí 1970 brann Konungshúsið í aftakaveðri með sorglegu manntjóni eins og sagan geymir og stendur mér nærri. Nú brennur Valhöll.
Þingvallanefnd mótaði framtíðarstefnu fyrir þjóðgarðinn árið 2004, þegar hann var skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Í henni er gert ráð fyrir aðstöðu til mannamóta á þeim stað, þar sem Valhöll hefur staðið, og takmörkuðu gistirými.
Ég er þeirrar skoðunar, að standi vilji til almenns hótelreksturs í þjóðgarðinum, eigi hann alfarið að vera í höndum einkaaðila og ætlaður staður í Skógarhólum, við rætur Ármannsfells, en ekki í þinghelginni sjálfri, þar sem Valhöll stóð.
Þegar Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra fól hann Þorsteini Gunnarssyni, arkitekt, að gera úttekt á Valhöll og leggja á ráðin um framtíð hennar. Húsakosturinn var í raun næsta ósamstæður og helst var það miðhluti hússins í kringum anddyri þess, sem hafði byggingarsögulegt gildi. Skýrsla Þorsteins geymir lýsingu á sögu hússins og gerð þess.
Geir H. Haarde lét ekkert að sér kveða varðandi Valhöll sem forsætisráðherra. Frá því að forsætisráðuneytið tók húsið að sér og útleigu á rekstri þess var ráðist í nokkrar endurbætur á því. Ef ég man rétt hafa fimm rekstraraðilar komið að hótel Valhöll síðan 2002. Bendir það til þess, að umsvif hefðu mátt vera meiri.
Mig hefur undrað, að ekki skuli hafa verið kjörin ný Þingvallanefnd eftir kosningarnar 25. apríl, en í nefndinni eiga að sitja þingmenn. Mér skilst, að ákveðið hafi verið að kjósa nýja nefnd nk. mánudag. Þingvallanefnd hefur hins vegar í raun ekki haft neitt um Valhallarreitinn að segja, því að starfsemi á honum hefur fallið beint undir forsætisráðuneyti samkvæmt því, sem ákveðið var á árinu 2002.
Fimmtudagur, 09. 07. 09.
Skrapp í Skálholt og hlýddi klukkan 20.00 á Skálholtskvartettinn flytja kvartett eftir Haydn og Dauðann og stúlkuna kvartett eftir Franz Schübert. Því meira, sem ég hlusta á verk eftir Schübert því hrifnari verð ég af tónsmíðum hans, Kvintettinn, sem ég hlýddi tvisvar á í Frakklandi í síðustu viku, er magnað verk, sem Schübert samdi rétt fyrir dauða sinn og heyrði aldrei fluttan. Dauðinn og stúlkan grípur áheyrandann einnig. Rosamunda, sem þau fluttu í Frakklandi, er hins vegar of daufgert verk fyrir minn smekk.
Veðurblíðan í dag hefur verið einstök hér í Fljótshlíðinni. Ég hef unnið að því að endurbæta hluta af gamalli girðingu í von um, að hún verði fjárheld. Mér hefur ekki orðið að þeirri von enn og er með ólíkindum að kynnast því, af hve mikilli þrá og þrjósku þær fáu kindur, sem una sér ekki í haga utan girðingar, sækjast eftir að troða sér inn á bannsvæði.
Mér telst til, að þær séu í kringum fimm ærnar, sem eru ekki til friðs, ef svo orða það. Eina af þeim á ég og er hún ekki barnanna best. Hún er grábotnótt og auðþekkjanleg vegna þess hve háfætt hún er og vör um sig. Dygði það ekki til, þekkist hún í ár af lömbunum sínum tveimur, en þau eru mórauðbotnótt. Þá hefur þriðja lambið, hvítt, hallað sér að henni, eftir að hafa týnt móður sinni.
Við rákum hana úr landinu í gær en í morgun var hún komin að nýju á bannsvæði og enn rákum við hana á brott. Ég sá hana síðan utan girðingar og sýndist mér hún stappa niður fæti af reiði, þegar ég nálgaðist. Í kvöld rak ég augun í hana af bæjarhólnum, þar sem hún var að leita að veikum bletti á gamalli girðingu.
Miðvikudagur, 08. 07. 09.
Fróðlegt væri, ef einhver fjölmiðill gerði úttekt á mismunandi viðhorfi til rannsóknar í Baugsmálinu og þess, sem nú er að gerast. Þóra Arnórsdóttir ræddi við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, í Kastljósi að kvöldi 7. júlí og sagði fagnaðarefni, að hafnar væru húsleitir á vegum embættis hans. Mátti skilja hana á þann veg, hvort ekki væri öruggt, að þeim yrði haldið áfram og hjá fleirum.
Við samanburð á því, sem gerðist í Baugsmálinu, og aðgerðum sérstaks saksóknara, verður að hafa í huga, að lögfræðingaherinn á vegum Baugs taldi ómaklega að skjólstæðingum sínum vegið og látið var í veðri vaka, að öll rannsóknin byggðist á pólitískum grunni. Var allt kært, stórt og smátt, sem kæra mátti og leitað álits hæstaréttar, þar sem það var unnt, í því skyni að standa sem öflugastan vörð um rétt ákærðra og grunaðra.
Baugsmenn sögðust hafa varið milljörðum króna í vörnina og var fjölmiðlum þeirra meðal annars beitt til að skapa þeim meðbyr hjá almenningi.
Hæstiréttur gerði mjög strangar kröfur til ákæru í Baugsmálinu og mótaði með því fordæmi, sem hafa verður í heiðri í störfum sérstaks saksóknara. Dómurinn í Baugsmálinu og allir úrskurðir hæstaréttar hafa einnig fordæmisgildi fyrir sérstakan saksóknara og starfsmenn hans.
Þótt Þóra Arnórsdóttir telji sig réttilega tala fyrir munn almennings, þegar hún leggur áherslu á, að hinn sérstaki saksóknari láti sem víðast og mest að sér kveða, hafa slíkar brýningar minna gildi fyrir ákæruvaldið en fordæmin úr Baugsmálinu. Þau skyldu þó ekki setja hinum sérstaka saksóknara þrengri skorður en nú þykja við hæfi að mati almennings?
Þriðjudagur, 07. 07. 09.
Af atburðum dagsins í ICESAVE-málinu verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að Samfylkingin undir forystu Össurar Skarphéðinssonar leggi sig fram um að leggja það alfarið á herðar Steingríms J. Sigfússonar og vinstri-grænna að tryggja samþykkt málsins á þingi. Steingrímur J. verði í senn að bera allan þunga vegna ICESAVE og jafnframt sjá til þess, að Samfylkingin geti gengið til viðræðna við Brussel-valdið um aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrir tilstuðlan Carls Bildts, utanríkisráðherra þeirra.
Davíð Oddsson sagði í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 5. júlí, að Svíar hefðu sýnt Íslendingum mesta þvermóðsku í lánaviðræðum við Norðurlöndin vegna bankahrunsins. Bildt hefur kannski talið það bestu leiðina til að knýja fram ICESAVE-samningana gagnvart Samfylkingunni, þótt hún láti síðan Steingrím J. um að moka flórinn.
Morgunblaðið sagði frá því í morgun, að bresk lögfræðistofa Mishcon de Reya í London hefði samið greinargerð um ICESAVE-málið fyrir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Þar kæmi fram, að lögfræðingarnir hefðu „hvorki fundið neina skriflega staðfestingu þess að Ísland hafi formlega undirgengist að ábyrgjast skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda, hvað varðar Icesave-innstæðurnar, né undirgengist aðrar skuldbindingar en þær sem felast í tilskipuninni eins og hún var innleidd í lögum 98/1999.“
Forsíða greinargerðarinnar er þessi:
ICESAVE
- ISSUES AND SOLUTIONS -
CONFIDIENDTIAL BRIEFING PAPER FOR
OSSUR SKARPHEDINSSON
ICELANDIC FOREIGN MINSTER
29 MARCH 2009
„Ég hef ekki beðið það um neina vinnu fyrir mig eða utanríkisráðuneytið og kannast ekki við það,” sagði Össur, þegar hann var spurður um þessa greinargerð og vísaði á fjármálaráðuneytið, sem sendi frá sér fréttatilkynningu, þar sem sagði:
Lesa meiraMánudagur, 06. 07. 09.
Þegar ég renni yfir blöð og kynni mér, hvað borið hefur hæst í umræðum í fjarveru minni í rúma viku, sé ég, að ekkert hefur miðað hjá ríkisstjórninni í glímu hennar við stóru málin og þó sérstaklega í ICESAVE-málinu. Augljóst er, að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður vinstri-grænna, hefur ákveðið að binda sig við siglutréð og sökkva með stjórnarskútunni. Ég vona, að það óhappafley sökkvi, áður en ríkisstjórninni tekst að granda sjálfri þjóðarskútunni. Fari fram sem horfir bendir allt til kafsiglingar hennar undir forystu Steingríms J. og Jóhönnu Sigurðardóttur.
Sorglegt er að lesa í leiðara Morgunblaðsins, að ritstjórinn hefur mótað sér þá stefnu að styðja ICESAVE, þótt sú þverstæða sé kynnt í leiðaranum, að ekki séu öll kurl enn komin til grafar í málinu. Sagt er, að blaðið hafi mótað sér stefnu í málinu í Reykjavíkurbréfi 14. júní og hún sé svo fastmótuð, að við henni verði ekki haggað, hvað sem á dynur. Augljóst er, að stuðningur blaðsins við ICESAVE byggist á stefnu þess um aðild að Evrópusambandinu.
Sigríður Jónsdóttir, bóndi í Arnarholti, líkti ESB-aðildarþörfinni við fíkn í sjónvarpsþættinum Út og suður, sem var endurtekinn í dag. Þetta er góð líking, þegar til þess er litið, að aðildarsinnar blása á allt, sem ætti að vekja þá til umhugsunar um réttmæti stefnu sinnar og hvað hún kostar þjóðina.
Sunnudagur, 05. 07. 09.
Laugardagur, 04. 07. 09
Ég fór í Lúxemborgargarðinn og sá þar hóp stunda taj tsjí hjá kínverskum leiðbeinanda og annan hóp æfa qi gong. Ég lét mér nægja að horfa á æfingarnar.
Síðan gekk ég að Pantheon. Andspænis þjóðargrafreitnum er ráðhús V. hverfis og borgaralegur hjónavígslustaður . Þar var nóg að gera í sumarblíðunni. Norðan við Pantheon er Sorbonne-háskóli og á vegg byggingar hans eru letruð nöfn afreksmanna í sögu mannsandans og þar til dæmis hoggið í steininn: Snorro Sturluson.
Frá Pantheon gekk ég að Notre Dame. Þar var röð fólks við dyr dómkirkjunnar. Biðin var ekki löng og jók það á helgi heimsóknarinnar, að innan dyra var sungin messa.
Í le nouvel Observateur birtist langt viðtal við Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta. Þótti blaðamönnunum ástæða að taka fram, að óvenjulegt væri, að Sarkozy vildi ræða við þá, þar sem vikublaðið er talið vinstrisinnað og ekki hlynnt forsetanum, sem áréttaði afdráttarlaust, að hann væri hægrimaður en sér bæri sem forseta að leitast við að sameina þjóðina.
Nýlega flutti Sarkozy ræðu í Versölum, þar sem þingmenn í fulltrúadeild og öldungadeild þingsins komu saman. Í fréttum á Íslandi þótti merkilegast við ræðuna, að Sarkozy hefði mælt gegn því, að konur klæddust burkum í Frakklandi. Á það var ekki minnst í þessu viðtali, heldur hitt, að forsetinn hefði talað á þann veg, að hann hefði horfið frá áformum sínum um að gjörbreyta frönsku þjóðlífi. Sarkozy taldi þetta rangtúlkun á ræðu sinni.
Blaðamennirnir víkja að atviki á dögunum, þar sem maður var kallaður fyrir rétt fyrir að hafa hrópað að lögreglumönnum við skyldustörf: „Sarkozy je te vois.“ (Sarkozy, ég sé þig.) Var hann sakaður um að hafa vegið að virðingu forsetaembættisins. Sarkozy segist fyrst hafa frétt af þessu atviki í fjölmiðlum. Þetta væri fáránlegt og hann væri miður sín vegna þess, að maðurinn skyldi ákærður. Það væri ekki með sínum vilja.
Á göngu minni fór ég um lítið markaðstorg. Þar stóðu flokkssystkin forsetans og dreifðu stuðningmiða við hann og hvatningu um að veita flokki hans fjárhagslegan stuðning. Á forsíðu fjórblöðungsins stóð: Gripið til aðgerða, loforð efnd. Frakkland breytist. Á baksíðunni stóð: Áfram skal haldið! Þá var þetta haft eftir Sarkozy: „Til að Frakkland komi sterkara úr krísunni en fyrir hana.“
Inni í fjórblöðungnum eru nefnd nokkur áhersluatriði til að árétta, hve forsetinn hefur staðið vel að málum. Meðal þess sem Sarkozy telur sér verulega til tekna er að banna auglýsingar í almannahljóðvarpi og sjónvarpi.
Skuldir franska ríkisins eru miklar og aukast enn á næsta ári, þegar tekið verður stórlán til að standa undir fjárlagahalla. Franski fjárlagavandinn er annars eðlis en hinn íslenski, þar sem hann á rætur að rekja til þess, að ríkið eyðir einfaldlega um efni fram en við Íslendingar verðum að taka á okkur ofurþungt högg vegna bankahrunsins.
Lesa meiraFöstudagur, 03. 07. 09.
Ókum frá les Murs klukkan 10.00 sem leið lá til Parísar og höfðum fundið hótel okkar í Latínuhverfinu og skráð okkurinn rúmlega 12.30. Síðan skiluðum við bílnum rétt hjá Gare St. Lazare hinum megin við Signu.
Ég gekk þaðan að hótelinu, sem er við Rue de Seine, mitt á milli Place St. Michel og St. Germain kirkjunnar. Það var ágætt að skreppa upp á efstu hæð i Printemps-vöruhúsinu við Blvd Haussmann til að átta sig á staðháttum. Þaðan sést til allra átta yfir borgina.
Hitinn var um 30 stig og sól. Valdi ég mér leið í skugganum. Mannmergðin var mikil og götukaffistaðir þéttsetnir, þótt tebollinn kosti 4,50 evrur, sem er mikið á alla mælikvarða en ekki síst fyrir okkur Íslendinga með 100% lægri krónu en fyrir fáeinum misserum. Eins og kunningi minn sagði, nýkominn frá Spáni fyrr í sumar: Nú er staðan þannig, að maður fær samviskubit af því að kaupa einn bjór!
Ég fór um Tuileries-garðinn frá Rue de Rivoli, fram hjá Louvre-safninu og að Pont Royal til að fara yfir Signu. Ég stöðvaði á miðri brúnni til líta í kringum mig. Þegar ég ætlaði af stað, hnippti kona, líklega frá N-Afríku í mig og benti á gullhring, sem lá á brúnni. Hún tók hann upp og rétti mér, spurði, hvort ég hefði misst hann. Ég sagði svo ekki vera, mín vegna mætti hún hirða hann og eiga. Þá brosti hún tannlitlu brosi og sagðist ekki mega ganga með skartgripi, hvorki hring, armband né eyrnalokka. Hún rétti mér hringinn, tók ég hann, kvaddi hana og hélt af stað. Þá heyrði ég hana kalla og sneri ég mér að henni. Hún sagðist ekki eiga fyrir mat, hvort ég gæti ekki gefið henni peninga. Ég lét hana hafa nokkrar evrur. Hún brást illa við og sagði þær ekki nægja fyrir máltíð. Ég ítrekaði kveðju mína til hennar og hélt mína leið.
Mér þótti þetta nýstárleg aðferð til að reyna að hafa af mönnum fé. Um kvöldið var mér sagt, að skrýtnast væri, að ég sæti uppi með hringinn, því að venjulega endaði atvik sem þetta á því, að upphafsmaðurinn héldi hringnum fyrir sig, svo að hann gæti endurtekið leikinn gagnvart næsta fórnarlambi.
Fimmtudagur, 02. 07. 09.
Skálholtskvartettinn tók til við æfingar í les Murs klukkan 10.00 en hann býr sig nú undir þátttöku í sumartónleikunum í Skálholti um aðra helgi.
Í síðdegishvíldinni að loknum hádegisverði var friðurinn rofinn, þegar þrumuveður gekk yfir með úrhellisrigningu.
Við Rut héldum af stað í lítið nágrannaþorp, þar sem við hittum klukkan rúmlega 16.00 hjónin Marie Claude og Jean Louis Robillard en hann er keramiker og hefur meðal annars gert listaverk, sem prýðir hlöðuna eða tónleika- og æfingasalin í les Murs.
Við hittum hjónin á tónleikunum þorpskirkjunni og mæltum okkur mót við þau, en fyrir fáeinum dögum komu þau úr tveggja vikna ferð til Íslands og létu mjög vel af henni.
Við skoðuðum vinnustofu listamannsins. Eitt af því, sem Robillard fæst við er að gera keramik myndir eftir gluggum dómkirkjunnar í Bourges. Frá þeim hjónum ókum við til Bourges og skoðuðum sýningu á verkum Robillards í dómkirkjunni sjálfri. Hann sagði, að sömu glerlistamenn hefðu gert gluggana í Bourges og Chartres. Kirkjunnar eru hins vegar ólíkar að gerð, þótt báðar séu gotneskar. Ber meira á rómönskum áhrifum í Bourges-dómkirkjunni.
Við kvöldmatarborðið í les Murs bættust að þessu sinni tveir ungir Hollendingar, skólafélagar dóttursonar Schröder-hjónanna. Þeir höfðu ekið frá Miðjarðarhafsströnd Frakklands þá um morguninn og kusu að tjalda utan við virkisvegg les Murs, við síkið. Sögðust þeir hafa ætlað í sumarleyfi í Króatíu en þar hefði rignt svo mikið, að þeim líkaði ekki. Litu inn á internet-kaffi og kíktu á veðurkort og sáu, að líklega yrði mest sól í Suður-Frakklandi og óku þá þangað og höfðu verið í fimm daga á Antibes-skaganum en voru nú á heimleið. Sögðust þeir hafa lagt 4000 km að baki í ferðinni.
Miðvikudagur 01. 07. 09.
Þegar ekið er í myrkri og komið á áfangastað um hánótt, er erfitt að gera sér grein fyrir aðstæðum. Hótel Maine bauð af sér mun meiri þokka en ætla mátti við næturkomuna og morgunverðarsalurinn var einstaklega glæsilegur og atbeini allur hinn besti. Bendi ég þeim, sem eiga leið um Eu, að huga að þessu hóteli, en ekkert okkar Íslendinganna vissi, að þessi borg væri til, áður en við komum þangað. Svava bjó heima hjá augnlækni og sýndi hann henni baðströndina, áður en við hittumst öll á hótel Maine um 08.30 og héldum af stað til les Murs.
Á Mcdonald‘s stað rétt utan við Chartres mátti tengja tölvu þráð- og kostnaðarlaust í ótakmarkaðan tíma. Þar sem við vorum þar um hádegisbilið nældum við okkur í hamborgara og ég sendi Óla Birni, ritstjóra amx.is, umsögn mína um bók Jóns F. Thoroddsens og birtist hún á amx.is á meðan við ókum til les Murs í allt að 33 stiga hita og glampandi sól.
Mcdonald´s lagar sig að kröfum tímans og býður fjölþætta þjónustu. Græn flögg blakta þar fyrir framan til að minna á umhverfisumhyggju staðanna. Að þeim stað, þar sem við áðum, streymdu foreldrar með börn sín í hádegismat. Datt okkur í hug, að 1. júlí hæfist sumarleyfi í skólum og börnum væri boðið í hádegisverðinn til hátíðarbrigða.
Klukkan var tæplega 14.30, þegar við renndum inn í kyrrðina í les Murs, og höfðum við þá lagt 832 km að baki á tveimur dögum. Ég ók Citroen 4C dísel og reyndist hann vel. Ég mældi ekk eyðsluna en dísillíterinn kostar 1,11 til 1,14 evrur eftir gæðum olíunnar.
Ekki til setunnar boðið í les Murs, því að klukkan 18.00 fluttu tónlistarmennirnir sömu verk og daginn áður. Að þessu sinni í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá setrinu, það er kirkjunni í þorpinu Méure.
Að tónleikunum loknum var hinum góða hópi gesta boðið hvítvínsglas af vínekru í nágrenninu á sólbakaðri flötinni framan við kirkjuna. Hvítvínið er þurrt í ætt við Sancerre, enda ræktað á svipuðum slóðum.
Í tilefni af velheppnaðri ferð til Dieppe og tvennum tónleikum var efnt til hátíðarkvöldverðar í les Murs.
Lesa meira