3.7.2009

Föstudagur, 03. 07. 09.

 

 

Ókum frá les Murs klukkan 10.00 sem leið lá til Parísar og höfðum fundið hótel okkar í Latínuhverfinu og skráð okkurinn rúmlega 12.30. Síðan skiluðum við bílnum rétt hjá Gare St. Lazare hinum megin við Signu.

Ég gekk þaðan að hótelinu, sem er við Rue de Seine, mitt á milli Place St. Michel og St. Germain kirkjunnar.  Það var ágætt að skreppa upp á efstu hæð i Printemps-vöruhúsinu við Blvd Haussmann til að átta sig á staðháttum. Þaðan sést til allra átta yfir borgina.

Hitinn var um 30 stig og sól. Valdi ég mér leið í skugganum. Mannmergðin var mikil og götukaffistaðir þéttsetnir, þótt tebollinn kosti 4,50 evrur, sem er mikið á alla mælikvarða en ekki síst fyrir okkur Íslendinga með 100% lægri krónu en fyrir fáeinum misserum. Eins og kunningi minn sagði, nýkominn frá Spáni fyrr í sumar: Nú er staðan þannig, að maður fær samviskubit af  því að kaupa einn bjór!

Ég fór um Tuileries-garðinn frá Rue de Rivoli, fram hjá Louvre-safninu og að Pont Royal til að fara yfir Signu. Ég stöðvaði á miðri brúnni til líta í kringum mig. Þegar ég ætlaði af stað, hnippti kona, líklega frá N-Afríku í mig og benti á gullhring, sem lá á brúnni. Hún tók hann upp og rétti mér, spurði, hvort ég hefði misst hann. Ég sagði svo ekki vera, mín vegna mætti hún hirða hann og eiga. Þá brosti hún tannlitlu brosi og sagðist ekki mega ganga með skartgripi, hvorki hring, armband né eyrnalokka. Hún rétti mér hringinn, tók ég hann, kvaddi hana og hélt af stað. Þá heyrði ég hana kalla og sneri ég mér að henni. Hún sagðist ekki eiga fyrir mat, hvort ég gæti ekki gefið henni peninga. Ég lét hana hafa nokkrar evrur. Hún brást illa við og sagði þær ekki nægja fyrir máltíð. Ég ítrekaði kveðju mína til hennar og hélt mína leið.

Mér þótti þetta nýstárleg aðferð til að reyna að hafa af mönnum fé. Um kvöldið var mér sagt, að skrýtnast væri, að ég sæti uppi með hringinn, því að venjulega endaði atvik sem þetta á því, að upphafsmaðurinn héldi hringnum fyrir sig, svo að hann gæti endurtekið leikinn gagnvart næsta fórnarlambi.