Dagbók: janúar 2010

Sunnudagur, 31. 01. 10. - 31.1.2010

Í Víkverja Morgunblaðsins 30. janúar er endurtekin rangfærslan um, að ég hafi skipað „tvo annálaða heiðursmenn til að hefja rannsókn á aðdraganda hrunsins en þeir væru báðir bullandi vanhæfir.“ Segir Víkverji, að Morgunblaðið hafi fyrst fjölmiðla kveikt á vanhæfinu. Segir Víkverji, að sonur annars heiðursmannanna sé grunaður um lögbrot og lýkur síðan efnisgrein sinni um þetta á þessum orðum: „Hefði ekki verið bent á vanhæfið væri hann (sonurinn) ef til vill ekki heldur ekki grunaður um neitt í dag.“

Sá, sem skrifar Víkverja þennan dag, hefði átt að kynna sér staðreyndir, áður en hann setti ofangreind orð á blað. Þau eru til marks um óvandaða blaðamennsku um mannorð þeirra, sem í hlut eiga. Ég skipaði ekki neina til að rannsaka aðdraganda hrunsins. Ég samþykkti hins vegar tillögu ríkissaksóknara um, að á vegum embættis hans yrði hugað að heildarmati á því, sem rannsaka bæri. Mér datt aldrei í hug, að ríkissaksóknari ætti að rannsaka bankahrunið, enda flutti ég nokkrum dögum eftir hrunið tillögu um að koma á fót embætti sérstaks saksóknara. Lögfesting tillögu minnar tafðist, vegna þess að samfylkingaráðherrar þvældust fyrir henni á fyrstu stigum en lögðu henni lið, eftir að ákveðið var að koma á fót rannsóknarnefnd á vegum alþingis.

Egill Helgason og Jón F. Thoroddsen hafa haldið fram ósannindum í sama dúr og gert er í Víkverja. Jón hefur ekki haft þrek til að leiðrétta það, sem hann segir um málið í óvandaðri bók sinni um hrunið. Hann hefur ekki einu sinni svarað bréfum mínum um málið, þar sem ég óska eftir opinberri leiðréttingu. Ég velti fyrir mér, hvort hið sama gildi um Víkverja og Jón, að hann leiðrétti ekki rangfærslu sína. Hérmeð skora ég á Víkverja og ritstjórn Morgunblaðsins að birta það, sem satt er í þessu máli og biðjast afsökunar á því að bera menn röngum sökum.

Laugardagur, 30. 01. 10. - 30.1.2010

Dagurinn hér í Fljótshlíðinni var einstaklega bjartur og fallegur í logninu. Eyjafjallajökull skjannahvítur og snjóföl á Þríhyrningi en jörð auð í byggð.

Ég skrifaði pistil í tilefni af ársafmæli ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. Þau fengu leyfi Ólafs Ragnars til að mynda hana sem minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009. Samfylking sleit stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, af því að hún taldi sig geta gert betur meðal annars við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið í samstarfi við vinstri-græna. Ríkisstjórnin var mynduð í anda óvildar í garð Sjálfstæðisflokksins. Verði spenna í stjórnarsamstarfinu telja stjórnarliðar í sig kjark með því að fjargviðrast yfir Sjálfstæðisflokknum. Slíkt hugarfar leysir engin vandamál þjóðarinnar, enda eru þau öll í verra horfi nú en fyrir ári, eins og sést af pistli mínum.

Jóhanna hefur dregið sig inn í skel, eftir að hún varð forsætisráðherra. Hún heldur ekki fram hagsmunum þjóðarinnar út á við. Samfylkingin getur ekki losað sig við hana af ótta við, að flokkurinn splundrist í átökum um eftirmanninn. Steingrímur J. beitir yfirgangi til að halda völdum innan eigin flokks, eins og sást á því, þegar hann bannaði ályktun um Icesave á nýlegum flokksráðsfundi, af því að hann óttaðist að þeir Svavar Gestsson mundu tapa henni.

Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins fengu forráðamenn gamla Alþýðubandalagsins, Steingrímur J. og Svavar, tækifæri til að sýna, hvernig þeir héldu á hagsmunum þjóðarinnar í erfiðri deilu við aðrar þjóðir. Við öllum blasir, að þeir réðu ekki við málið. Öll viðleitni Steingríms J. miðar að því að fela hina hörmulegu niðurstöðu. Hann gengur erinda Breta og Hollendinga í von um að geta fundið leið til að réttlæta óhæfuverkið. Ólafi Ragnari tókst að draga athygli frá eigin þjónkun við útrásarvíkingana með því að neita að rita undir lög Steingríms J. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lætur eins og hann geti verið „stikkfrí“ í þessari milliríkjadeilu.

 

Föstudagur, 29. 01. 10. - 29.1.2010

Strax og fréttir bárust af því, að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu haldið til Amsterdam með Steingrími J. Sigfússyni fór hrollur um marga sjálfstæðismenn, vegna þess hve mikla skömm þeir  hafa á framgöngu Steingríms J., sem hvað eftir annað hefur sýnt, að hann svífst einskis í þágu ráðherravaldanna. Töldu þeir, að Steingrímur J. væri að draga þá í gildru til að komast undan því, að Icesave-málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann vildi sannfæra stjórnarandstöðuna, að ekki yrði lengra komist gegn Bretum og Hollendingum.

Í dag hefur verið haldið þannig á fréttum af ferðinni, að Jóhanna heimasæta Sigurðardóttir hefur sagt frá fundinum og enn haldið í sömu rulluna um, að enn þurfi að bíða eftir einhverju, sem ekkert er eða verður.

Augljóst er, að nauðsynlegt er að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að sýna Bretum og Hollendingum svart á hvítu, að þeir standa andspænis einhuga þjóð. Hin mikla athygli, sem atkvæðagreiðslan fær á alþjóðavettvangi, verður til að þrýsta á stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi úr annarri átt en frá Íslandi, það er frá þeirra eigin kjósendum.

Samkvæmt mínum fréttum af viðræðunum í Haag var fjármálaráðherra Hollands og aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands alveg ljóst af orðum Bjarna Benediktssonar, að aldrei mundi nást nein sátt í Icesave-málinu hér á landi gagnvart kröfu þeirra, sem ríkisstjórn Íslands hefði samþykkt, að þeir fengju allt „sitt“ greitt. Héldu þeir fast við slíka kröfu, yrði dómur að falla um hana, svo að Íslendingar teldu sér skylt að verða við henni.

Sé þessi frétt rétt hefur Steingrímur J. ekki haft erindi sem erfiði. Á hinn bóginn hefur stjórnarandstöðunni gefist tækifæri til að árétta skoðun sína gagnvart þremur fjármálaráðherrum, sem eru sammála, það er hinum hollenska, breska og íslenska. Dugi þetta til að sýna Steingrími J. fram á, hve fjarri hann er að verja rétt þjóðarinnar, var ferðin ekki farin til einskis.

Fimmtudagur 28. 01. 10. - 28.1.2010

Fór í kvöld á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hlýddi á Sögusinfóníu Jóns Leifs. Það segir sýna sögu um þróun tónlistar síðan Jón samdi þetta verk í Berlín 1941 og 1942, að nú hljómar hún eins og hver önnur sinfónía en þótti þá framandleg. Samkvæmt ævisögu Jóns Leifs eftir Árna Heimi Ingólfsson vildi Jón andmæla túlkun Richards Wagners á norrænum menningararfi með sinfóníunni. Wagner nálgaðist viðfangsefnið alltof mildum höndum.

Á tónleikunum voru frumflutt þrjú ný íslensk tónverk eftir Hlyn Aðils Vilmarsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Hróðmar I. Sigurbjörnsson. Þau eru öll samin undir þeim formerkjum, að tónskáldin hafi Sögusinfóníuna í huga, enda báru tónleikarnir titilinn: Sögusinfónían + 3. Segja má, að dæmið hafi gengið upp með glæsibrag.

Eftir tónleikana sagði Hjálmar H. Ragnarsson, að íslenskir rithöfundar ættu Halldór Laxness sem sitt viðmið, myndlistarmenn Kjarval og tónlistarmenn Jón Leifs.

Miðvikudagur, 27.01.10. - 27.1.2010

Tók í dag viðtal við Lárus L. Blöndal, hrl.,í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN . Við ræddum um Icesave en Lárus hefur ritað um málið frá lögfræðilegum sjónarhóli ásamt Stefáni Má Stefánssyni. Þeir félagar hafa skrifað greinarnar í Morgunblaðið en í dag birtist grein eftir þá í norska blaðinu Aftenposten. Þeir hafa hug á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í fleiri blöðum erlendis. Lárus sagði þá ekki hafa fengið neinn stuðning ríkisvaldsins við þýðingu eða annað vegna þessarar kynningar á málstað Íslendinga á Norðurlöndunum eða annars staðar.

Í þessari viku hafa lögfræðilegir ráðunautar bresku ríkisstjórnarinnar verið kallaðir fyrir rannsóknarnefnd í London, sem kannar aðdraganda þess, að Tony Blair tók ákvörðun um að ráðast inn í Írak í mars 2003. Goldsmith lávarður, sem sat í ríkisstjórn Blairs og var jafnframt æðsti lögfræðilegur ráðunautur hennar, svaraði spurningum nefndarmanna í beinni útsendingu í dag. Hann sagðist hafa verið þá og vera enn sannfærður um, að innrásin hafi verið lögleg.  Lögfræðiráðgjafar breska utanríkisráðuneytisins, sem sátu fyrir svörum í nefndinni í gær, töldu innrásina ólöglega. Hún hefði ekki notið stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

BBC hefur í tilefni af þessum ágreiningi leitað til lagaprófessora. Þeir leggja áherslu á, að bresk stjórnvöld standi ætíð við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum. Væri einhver veigur í íslenskum stjórnvöldum eða málsvörum Íslands í Bretlandi, ættu þeir að nýta sér áhuga breskra fjölmiðla á lagalegum skuldbindingum á alþjóðavettvangi til að minna á Evrópurétt og hvernig gallar á honum eru notaðir til að setja Íslendingum afarkosti. Það sýni ekki mikla virðingu bresku ríkisstjórnarinnar á því að ljúka milliríkjadeilum á grundvelli alþjóðalaga.

 

Þriðjudagur 26. 01. 10. - 26.1.2010

Lárus L. Blöndal, hrl., sem undanfarin misseri hefur birt greinar með Stefáni Má Stefánssyni, lagaprófessor, um lagalegar skuldbindingar vegna Icesave, verður gestur minn á ÍNN annað kvöld klukkan 21.30. Lögfræðiáhersla við lausn Icesave-deilunnar fékk nýjan þunga í gær, þegar Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, og Sigurður Líndal, lagaprófessor, rituðu grein í Morgunblaðið og sögðu Íslendinga ekki eiga að fallast á neinar kröfur Breta og Hollendinga, án þess að dómari segi fyrst álit sitt á greiðsluskyldunni.´

Sagt er, að bresk lögfræðistofa hafi bent Svavari Gestssyni, formanni Icesave-samninganefndar Íslands, á, að hann ætti að huga meira að lagaskyldum í samningaviðræðum við Breta en gert hefði verið. Svavar á að hafa svarað Bretunum á þann veg, að þeir skyldu engar áhyggjur hafa af lögfræðinni, þeir Indriði H. Þorláksson hefðu fundið snilldarlausn á málinu.

Nú vita allir, hve hörmuleg lausn málsins varð. Þjóðin býr sig undir að hafna henni í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni, frá því að lýðveldi var stofnað. Verði lausnin samþykkt, telja margir, að þjóðaratkvæðagreiðslan verði hin fyrsta og síðasta í sögu lýðveldisins. Stjórnarflokkarnir ræða nú að fresta atkvæðagreiðslunni til að hafa lengri tíma til stefnu, þótt þeir hafi til þessa látið eins og lífið sé að leysa í málinu og engan tíma megi missa.

Mánudagur, 25. 01. 10. - 25.1.2010

Sótti stjórnarfund í Snorrastofu í Reykholti í dag. Kjartan Ragnarsson fræddi okkur um hugmynd sína varðandi baðhús og hótel við Deildartunguhver. Stórhuga áform, sem vonandi tekst að framkvæma. Snorrastofa fagnar 10 ára afmæli sínu í ár. Starfsemi hennar stendur með blóma undir forystu Bergs Þorgeirssonar. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þróun Reykholts síðustu 15 ár, frá því að ákveði var að hverfa frá skólastarfi þar.

Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu undir formennsku Páls Hreinssonar tilkynnti í dag, að nýjar upplýsingar yrðu til að fresta útgáfu á skýrslu nefndarinnar um að minnsta kosti fjórar vikur. Tryggvi Gunnarsson, einn þriggja nefndarmanna, lýsti á dramatískan hátt tilfinningum sínum og reiði vegna upplýsinga, sem hafa farið um hendur nefndarmanna. Taldi hann, að gefa ætti þjóðinni frí í nokkra daga til að kynna sér efni skýrslunnar, sem yrði tæpar 2.000 síður að lengd.

Takist nefndinni að birta skýrslu sína undir lok febrúar eða í byrjun mars, þarf þjóðin ekki aðeins að taka sér frí frá daglegum störfum til að kynna sér efni hennar, heldur verður einnig gerð sú krafa til fólks á kosningaaldri, að það búi sig undir að greiða atkvæði um Icesave hinn 6. mars.

Það yrði svo sem í samræmi við annað umrót í þjóðlífinu, að þetta tvennt félli saman.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir, að kvikmyndagerðarmenn verði að sætta sig við mikinn niðurskurð á fjárveitingum til Kvikmyndasjóðs, af því að hann hafi fengið svo mikla peninga á undanförnum árum. Vinstri-græn eru iðin við að skella skuldinni á aðra. Þetta er þó sérkennilegasta aðferðin til þess.

Sunnudagur, 24. 01. 10. - 24.1.2010

Kammersveit Reykjavíkur undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar var með tónleika á Myrkum músíkdögum í Listasafni Íslands. Flutt voru verk eftir Jón Leifs, Þorkel Sigurbjörnsson, John Speight, Leif Þórarinsson og Jón Nordal. Salurinn var þéttsetinn og fögnuður mikill. Verk Jóns Leifs, Endurskin úr norðri, fær ekki góða umsögn í ævisögu Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs. Í flutningi Kammersveitarinnar hljómaði það betur en umsögnin gaf til kynna.

Grétar Þór Eysteinsson, stjórnmálafræðingur á Akureyri, hefur sagt í fréttatímum RÚV , að sér þyki 7.200 manna þátttaka í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík boða lítinn áhuga á borgarstjórnarkosningunum.

Óljóst er við hvað Grétar miðar. Því má til dæmis velta fyrir sér, hvort hann hafi tekið mið af því í mati sínu, að nú voru frambjóðendum settar reglur um kostnað og auglýsingar, sem ekki hafa áður gilt. Er Grétar að miða við prófkjörið haustið 2006, þegar um 10.000 manns kusu, ef rétt er munað, og einn frambjóðandi varði allt að 25 milljónum króna til að kynna sig?

Hraðsoðin álit stjórnmálafræðimanna eru því miður alltof oft frekar byggð á tilfinningu en ígrunduðu mati á aðstæðum.

Nú er yfirmaður spunaliðs ríkisstjórnarinnar, Einar Karl Haraldsson, tekinn til við að tjá sig í útlöndum um óskaríkisstjórn sína til að taka við af þeirri íslensku við að halda fram málstað Íslands í Icesave-málinu. Segist hann helst líta til Noregs, Frakklands eða Þýskalands. Á þessu er mun einfaldari lausn: Að skipta um ríkisstjórn á Íslandi og fá þá til setu í henni, sem hafa þrek og getu til að verja málstað þjóðarinnar.

Um þessa helgi fyrir ári steig Samfylkingin það óheillaspor að slíta stjórnarsamstarfi með úrslitakostum um, að Jóhanna Sigurðardóttir yrði forsætisráðherra. Síðan hefur allt stjórnarfar gjörbreyst til hins verra, enda er límið í ríkisstjórn Jóhönnu óvild í garð annarra stjórnmálaflokka en ekki samstaða um farsæld til framtíðar.

 

Laugardagur, 23. 01. 10. - 23.1.2010

Hanna Birna Kristjándóttir fékk afgerandi stuðning sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins í Reykjavík í dag. 7.200 greiddu atkvæði og er það góð þátttaka  á hvaða kvarða sem er en ekki síst, þegar í huga er haft, að ekki var nein keppni um fyrsta sætið. Þeir fimm, sem kepptu um annað sætið, raða sér í næstu fimm sætin á eftir Hönnu Birnu. Í 10 efstu sætunum eru 6 konur og tveir, sem ekki hafa komið að borgarmálum áður, Geir Sveinsson og Hildur Sverrisdóttir.

Þáttaskil verða í borgarstjórnarflokknum eftir þetta prófkjör, þegar til þess er litið, að nú hverfur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson úr honum. Hann hefur setið í borgarstjórn síðan 1982 og látið verulega að sér kveða. Hann tók við af mér sem oddviti borgarstjórnarflokksins, þegar ég varð ráðherra að nýju 2003. Vilhjálmur Þ. var borgarstjóri í 16 mánuði eftir kosningarnar 2006 fram á haust 2007.

Hanna Birna kom inn í borgarstjórnarflokkinn á sama tíma og ég árið 2002. Hið sama er að segja um Gísla Martein Baldursson og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Gísli Marteinn og Vilhjálmur Þ. börðust um leiðtogasætið í prófkjöri fyrir kosningarnar 2006 með sigri Vilhjálms Þ.

Hanna Birna er fjórði borgarstjórinn á þessu kjörtímabili og kemur frá því, sem hinn öruggi sigurvegari innan Sjálfstæðisflokksins og borgarstjórnar í heild, þar sem henni hefur tekist að sameina borgarfulltrúa til góðra verka á farsælan hátt. Ég óska henni, öðrum frambjóðendum og sjálfstæðismönnum öllum til hamingju með niðurstöðu prófkjörsins.

Í dag er einnig ástæða til að óska handboltaliðinu til hamingju með sigurinn yfir Dönum á Evrópumótinu í Austurríki.

Föstudagur, 22. 01. 10. - 22.1.2010

Furðulegt er, að fréttastofa RÚV skuli hafa hlaupið á sig á þann hátt, sem komið hefur í ljós varðandi fasteignakaup nafngreindra einstaklinga. Tilgangur fréttarinnar var að tengja þingmenn, núverandi og fyrrverandi, við óeðlileg fasteignaviðskipti. Fréttin stóðst ekki athugasemdir þeirra, sem nafngreindir voru, og hefur fréttaastofan beðist afsökunar. Uppákoman ætti að verða fréttastofunni víti til varnaðar.

Rústabjörgunarsveitin er komin heim frá Haiti og frásagnir félaga í henni færa Íslendinga nær þessum hrikalegu hamförum, þegar þeir lýsa reynslu sinni af björgunarstarfinu. Augljóst er, að sveitin hefur unnið mikið og gott starf þá daga, sem hún var á vettvangi.

Nú er rætt um, að ríkisstjórnin sé, með aðstoð erlendrar ríkisstjórnar, að leita að sáttasemjara við Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. Merkilegt er, að óskin um þennan sáttasemjara kemur einkum frá þeim, sem standa ríkisstjórninni næst. Óskin einkennist af vantrausti á ríkisstjórnina og forystumenn hennar.

Að kalla þurfi á þriðja aðila til málamiðlunar fellur að þeirri skoðun ríkisstjórnarinnar, að verði ekki farið að vilja hennar um að samþykkja Icesave-afarkostina muni Ísland einangrast á alþjóðavettvangi.

Allir, sem þekkja til starfa hinna alþjóðlegu matsfyrirtækja, segja, að niðurstöður þeirra ráðist af viðhorfi þess, sem hafi hagsmuna að gæta vegna þeirra. Íslendingar kynntust því, að mat á íslensku bönkunum gaf litla viðvörun um það, sem í vændum var í október 2008. Hvers vegna skyldu þessi fyrirtæki hafa réttar fyrir sér núna?

 

 

 

Fimmtudagur, 21. 01. 10. - 21.1.2010

Sat í hádeginu fund samtaka eldri sjálfstæðismanna í Valhöll, þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Helgi Hjálmsson, formaður Félags eldri borgara, fluttu ræður.

Bjarni sagðist undrandi á því, hve illa gengi að fá stjórnarliða til að ræða viðfangsefni líðandi stundar með framtíðina í huga. Þeir kæmust ekki yfir fortíðina og vildu helst ekki annað en skamma Sjálfstæðisflokkinn. Velti hann því fyrir sér, hvenær andstæðingar sjálfstæðismanna kæmust á nýtt stig.

Þegar ég hlustaði á Bjarna, minntist ég þess, hve ég var undrandi við upphaf þingsetu minnar og á fyrsta kjörtímabilinu frá 1991 til 1995, að hlusta á hverja skammarræðuna eftir aðra um Sjálfstæðisflokkinn vegna viðreisnarstjórnarinnar, sem hafði farið frá völdum árið 1971 eða 20 árum áður. Líklegt er að fram yfir 2030 verði þeir á þingi, sem telji mestu skipta að skamma Sjálfstæðisflokkinn vegna þess sem gerðist 2008.

Helgi Hjálmsson minnti á, að 1. júlí 2009 hefði ríkisstjórnin ráðist á grunnlífeyri aldraðra. Hefði það ekki gerst áður í sögunni. Stefán Ólafsson, prófessor, væri hugmyndafræðingurinn á bakvið þetta og hefði hann komið fram af tvöfeldni gagnvart eldri borgurum.

Ég átti að vera á fundi í Borgarfirði í dag en hætt var við hann vegna veðurs. Stormurinn var svo mikill, að óvarlegt var að aka á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

Miðvikudagur, 20. 01. 10. - 20.1.2010

Ég heyrði ekki betur en Steingrímur J. teldi sérstakan vanda steðja að þjóðinni vegna trúnaðarbrests út á við, þegar hann ræddi við Ingva Hrafn Jónsson á ÍNN, 19. janúar. Mátti skilja á Steingrími J., að þennan brest mætti rekja til einhverra annarra en þeirra, sem koma fram fyrir hönd þjóðarinnar út á við, það er ríkisstjórnarinnar. Svo er auðvitað ekki. Þegar lagt er mat á stjórnarhætti lands, er litið til þess, hvernig ríkisstjórn þess heldur á málum. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. hefur mistekist að efla traust í garð lands og þjóðar.

Atvinnustarfsemi innan lands lamast hægt og sígandi, fjárfestingar stefna í að verða hlutfallslega minni en nokkru sinni frá stríðslokum. Ríkisstjórnin fylgir stefnu í Evrópumálum, sem mun eyðileggja íslenskan landbúnað og fela öðrum ákvörðunarvald um sjávarafla í íslenskri lögsögu.

Útgerðarmenn í Vestmannaeyjum hafa stefnt stórum hluta flota síns í land vegna baráttufundar annað kvöld gegn fyrirhuguðum breytingum ríkisstjórnarinnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ætlunin er að mótmæla ákvörðunum stjórnvalda um fyrningarleið í sjávarútvegi, útflutningsálagi á ísfisk og afnámi sjómannaáfsláttar.

Ríkisstjórnin leggur stein í götu orkunýtingar og amast við stóriðjufyrirtækjum. Skattar eru hækkaðir á sama tíma og skatttekjugrunnurinn er minnkaður.

 

Þriðjudagur 19. 01. 10. - 19.1.2010

Merkilegt er, að enginn fjölmiðill skuli kafa nánar ofan í það, sem fram kemur á vefsíðunni amx.is um Hamalajajöklana, bráðnun þeirra og tengslin við Ólaf Ragnar og Kristján Guy Burgess, alþjóðaráðgjafa hans, núverandi aðstoðarmann Össurar Skarphéðinssonar.

Heift Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa, í garð þeirra, sem hann telur, að hafi gert eitthvað á sinn hlut, náði nýjum hæðum í dag, þegar hann flutti vantraust á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, flutti um hana níðvísu á borgarstjórnarfundi og birti óhróður í hennar garð í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu.

Erfitt er að átta sig á því, hvað vakir fyrir Ólafi F.. Kannski er það bara að komast í fjölmiðlaljósið að nýju á kostnað Hönnu Birnu. Hvað sem því líður er ekki unnt að segja annað en að lítið lagðist fyrir kappanna. Skyldi hann trúa því, að þetta auki líkur á því, að hann nái endurkjöri í borgarstjórnarkosningunum í vor?

 

 

Mánudagur, 18. 01. 10. - 18.1.2010

Dr. Tatyana Parkhalina, sérfræðingur í samskiptum Rússlands og NATO, flutti fróðlegt hádegiserindi á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar í þéttsetnum fyrirlestrasal Þjóðminjasafns. Hún er þeirrar skoðunar, að vegna þróunar heimsstjórnmála, hræðslu við hryðjuverkaárásir úr suðri og Kínverja úr austri muni Rússar halla sér æ meira að Vesturlöndum. Valdamenn í Kreml óttist hins vegar vestræna stjórnarhætti, því að þeir muni kippa fótunum undan völdum þeirra og stjórnarháttum.

Síðdegis tók dr. Parkhalina þátt í málstofu með nemendum í Háskóla Íslands. Þá sat hún fyrir svörum hjá Boga Ágústssyni og verður samtal þeirra væntanlega á sjónvarpsdagskrá næsta sunnudag.

Sunnudagur, 17. 01. 10. - 17.1.2010

Vek athygli á því, að á morgun, mánudag 18. janúar flytur dr. Tatyana Parkhalina, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum frá Rússlandi, erindi klukkan 12.00 í ráðstefnusal Þjóðminjasafns um samskipti Rússlands og NATO. Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Varðberg og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands boða til fundarins.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna, þar sem ég ræði enn um Icesave-málið og vek meðal annars máls á þeirri staðreynd, að flokksráð vinstri grænna, sem sat á fundi 15. og 16. janúar, minnist ekki einu orði á málið í ályktun sinni. Tel ég, að það sýni ótta forystu flokksins við, að flokksráðið hefði ályktað gegn stefnu Steingríms J. í málinu.

Er óvenjulegt, að flokksforingi í sporum Steingríms J. í Icesave-málinu leiti ekki stuðnings eigin flokksmanna við stefnu sína og störf. Að ekki skuli fjallað í fréttum um þögn flokksráðsins um Icesave-málið, sýnir annað hvort meðvirkni fréttamanna við þöggunina eða algjöran skilningsskort á fréttagildi þagnar flokksráðsins. Af minna tilefni hafa fréttamenn RÚV leitað álits stjórnmálafræðings.

Icesave-málið heldur nú lífi í ríkisstjórninni. Stjórnarflokkarnir sameinast í ótta sínum við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Stjórnarandstaðan á ekki, úr því sem komið er, að auðvelda þeim að losna undan henni. Hins vegar þarf að undirbúa markvissar aðgerðir, eftir að þjóðin hefur hafnað Icesave-lögunum, svo að stjórnvöld verði ekki tekin í bólinu eins og ríkisstjórnin 5. janúar. Ríkisstjórnin er líkleg til að ráðast á þjóðina með skömmum og gleyma því enn og aftur, að glíman er við bresk og hollensk stjórnvöld.

 

Laugardagur, 16. 01. 10. - 16.1.2010

Hér er krækja á þáttinni Í vikulokin  á rás 1 í dag, þar sem ég var með Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrv. alþingismanni, Guðna Ágústssyni, fyrrv. ráðherra, og ræddum við fréttir vikunnar, að sjálfsögði einkum Icesave-fréttir, undir stjórn Freys Eyjólfssonar.

Klukkann 17.30 var ég í Garðakirkju, þar sem Skálholtskvartettinn flutti Sjö síðustu orð Krists á krossinum eftir Joseph Haydn. Voru tónleikarnir í minningu Helgu Ingólfsdóttur, semballeikara.

Sagt er frá því sem stórfrétt, að flokksráð vinstri-grænna styðji ríkisstjórnina og samstarfið við Samfylkinguna. Flokkurinn styður þó ekki höfuðmál Samfylkingarinnar, aðild að Evrópusambandinu. Er líklega einsdæmi, að tveggja flokka ríkisstjórn sé klofin ofan í rót en standi samt í aðildarferli að ESB. Þetta sannar enn, hve stjórnarhættir hér eru á skjön við allt, sem venjulegt er. Stafar þetta af þrá flokkanna til að halda í völdin, hvað sem það kostar.

Föstudagur, 15. 01. 10. - 15.1.2010

Hér er krækja á þátt minn með Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, á ÍNN miðvikudaginn 13. janúar.

Haldinn var þriggja tíma Icesave-fundur stjórnar og stjórnarandstöðu í stjórnarráðshúsinu í dag.

Varla er unnt að skilja ummæli stjórnarandstöðuformanna að loknum fundinum á annan veg en þann, að ef til vill megi ná samkomulagi um skipan nýrrar viðræðunefndar. Enn er ágreiningur um efnisatriði. Hann verður ekki brúaður, á meðan Steingrímur J. hvetur til þess, að þjóðin samþykki Icesave-lögin, eins og hann gerði á flokksráðsfundi á Akureyri í dag. Jóhanna sagði, að efnt til yrði næsta fundar einhvern tíma í næstu viku. Allur vindur virðist úr þessu sáttatali.

Norðurlandaferð Steingríms J. hefur ekki skilað neinum árangri. Svíar eiga fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd Norðurlanda. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Svía ráða afstöðu sænska stjórnarmannsins. Þeir vilja, að Íslendingar viðhaldi óbreyttum samningum við Breta og Hollendinga. Fulltrúi Hollendinga í framkvæmdastjórn sjóðsins hefur sagt, að Íslendingar verði að halda sig við Icesaves-samningana, annars hafi þeir verra af í AGS. Dominique Strauss-Kahn, forstjóri AGS, segist verða að taka mið af því, sem stjórn sjóðsins ákveður.

Bandaríkjastjórn gegnir lykilhlutverki í stjórn AGS. Hvergi hefur komið fram, að ríkisstjórn Íslands hafi snúið sér til hennar til að greiða fyrir afgreiðslu á máli Íslands í sjóðsstjórninni.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að slíta viðræðum við stjórnarandstöðuna. Yrði það gert, blasti enn betur við en ella, að ráðherrarnir eru ekki með nein áform til að leysa úr vanda þjóðarinnar. Þeir berja einfaldlega hausnum við steininn. Þetta staðfestir nauðsyn þess, að gengið sé til þjóðaratkvæðis, svo að hreyfing komist á Icesave-málið hér á landi. Án hennar gerist ekkert nýtt gagnvart öðrum.

Fimmtudagur, 14. 01. 10. - 14.1.2010

Í hádeginu efndi innanríkisnefnd Sjálfstæðisflokksins undir formennsku Hildar Dungal til fjölmenns fundar í Valhöll um stjórnarskrána, þar sem Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hafði framsögu en Sturla Böðvarsson stýrði fundi og hvatti til þess, að sjálfstæðismenn tækju enn til við að ræða og móta nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.

Klukkan 17.30 fór ég í þéttsetinn ráðstefnusal Þjóðminjasafnsins, þar sem Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi, flutti erindi um skipulagsmál í Reykjavík með vísan til íbúaþróunar, samgöngumála og umhverfismála. Bílaeign er meiri en annars staðar á Norðurlöndum, almenningssamgöngur verr nýttar og mengun meiri. Var gerður góður rómur að máli hans.

Hörmungar vegna jarðskjálftans, sem varð á Haiti í fyrradag, eru gífurlegar. Rústabjörgunarmenn Landsbjargar, sem voru fyrstir erlendra björgunarliða til Port au Prince, höfuðborgarinnar, segja um 60% húsa hrunin í borginni. Af fréttum má ráða, að samhæfing milli íslenskra björgunarmanna hér heima og á Haiti sé mikil með aðstoð gervihnattamynda, gps-tækni og gervihnattasíma. Þetta sannar enn, hve mikils virði er að tryggja sem besta fjarskipta- og feriltækni til að tryggja öryggi björgunarmanna og auðvelda þeim störf, eins og frekast er kostur miðað við aðstæður á hverjum stað.

Miðvikudagur, 13. 01. 10. - 13.1.2010

Í dag ræddi ég við Harald Benediktsson, formann Bændasamtaka Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Samtalið snerist einkum um aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið. Augljóst er, að utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess hafa ekki þá sýn á samskiptin við Evrópusambandið, að um eitthvað sé að semja, enda gera menn þar á bæ sér grein fyrir því, að um aðildarferli af Íslands hálfu er að ræða en ekki samningaferli. Þá kemur fram, að embættismenn anda ofan í hálsmálið á Haraldi félögum, þegar ESB-mál eru á döfinni. Þátturinn hefst 21.30 og er sendur út á tveggja tíma fresti fram til klukkan 20.00 fimmtudaginn 14. janúar og síðan að nýju næsta laugardag og sunnudag.

Sweder van Wijnbergen, hagfræðiprófessor við Amsterdam-háskóla, ritar grein í NRC Handelsblad í Hollandi, sem birtist á ensku á vefsíðunni SpiegelOnline  og lesa má hér.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, endurtók þá fullyrðingu í fréttum sjónvarps í kvöld, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri ekki að fresta því að taka afstöðu til áætlunar um Ísland vegna afskipta hans sjálfs af Icesave, heldur ráði afstaða Norðurlandanna töfum hjá sjóðnum. Fréttamaðurinn hafði ekki fyrir því að spyrja Gylfa, hvort Steingrímur J. hefði ekki farið til Norðurlandanna og komið hróðugur til baka, af því að hann hefði náð árangri í viðræðum sínum.

Hollenski prófessorinn segir í ofannefndri grein sinni, að Age Bakker, hollenskur framkvæmdastjórnarmaður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), hafi gefið stórundarlega yfirlýsingu með því að tilkynna, að vegna óuppgerðra skulda Íslendinga við Hollendinga og Breta yrði allri aðstoð við Ísland seinkað. Bakker komi þetta ekkert við, það sé stjórn AGS, sem taki þessa ákvörðun. AGS verði að standa ofan við hagsmuni einstakra ríkja. Það sé fáheyrt, að einn framkvæmdastjórnarmannanna og frá ríki, sem hafi greinilegra hagsmuna að gæta, reyni að hafa áhrif á mál sem þessi. Þetta hafi neikvæð áhrif fyrir Holland innan AGS og jafnvel fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sjálfan.

Það er eftir öðru, að Gylfi Magnússon viti ekki um þessar yfirlýsingar hollenska framkvæmdastjórnarmannsins hjá AGS og það þurfi hollenskan prófessor til að vekja máls á þessari sérkennilegu framkomu. Skyldi ríkisstjórn Íslands fela sendiherra Íslands í Washington að mótmæla við forstjóra AGS?

 

   

 

 

Þriðjudagur, 12. 01. 10. - 12.1.2010

Hér kemur loksins krækja á viðtal mitt við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem flutt var í sjónvarpsstöðinni ÍNN (www.inntv.is) hinn 30. desember síðastliðinn. Við ræddum um stöðu lögreglunnar meðal annars í ljósi búsáhaldabyltingarinnar svonefndu og skipulagðrar glæpastarfsemi.

Á morgun, miðvikudaginn 13. janúar, ætla ég að ræða við Harald Benediktsson, formann Bændasamtaka Íslands í þætti mínum á ÍNN. Mun ég einkum beina athygli að stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og framvindu mála, frá því að alþingi samþykkti ályktun sína um aðildarviðræður 16. júlí síðastliðinn.

Össur Skarphéðinsson er allt í einu tekinn til við að ræða um Icesave og nú halda hann og Steingrímur J. fund með forystumönnum stjórnarandstöðunnar án Jóhönnu. Greinilegt er, að Össur telur sig hafa stöðu til að ýta henni til hliðar. Hann segir svo digurbarkalega að „aðrir geti borið töskur“ Ólafs Ragnars á Indlandi og gerir þar með bæði lítið úr ferð Ólafs Ragnars og hlutverki utanríkisráðherra í fylgd með þjóðhöfðingja í opinberum heimsóknum.

Skyldi Össur hafa uppveðrast svona, þegar þrír formenn félaga atvinnurekenda lögðu til, að nefnd undir formennsku hans tæki að sér að semja upp á nýtt um Icesave?

Hér skal því spáð, að þessi goluþytur verði skammvinnur, því að allt stefnir hraðbyri í þjóðaratkvæðagreiðslu og ríkisstjórnin mun eiga fullt í fangi með að verjast boðaföllum heima fyrir, enda berst hún þar fyrir lífi sínu vegna samninga sinna við Breta og Hollendinga. Í Haag og London vilja menn auðvitað, að Steingrímur J. og Össur sitji sem lengst.

Mánudagur, 11. 01. 10. - 11.1.2010

 

Í fréttum RÚV að kvöldi 10. janúar sagði, að skattasérfræðingar væru nú önnum kafnir við að upplýsa um þær breytingar sem hefðu orðið á skattkerfinu á skömmum tíma. Þeir segðu marga leita leiða til að koma sér undan aukinni skattbyrði með lögmætum hætti, og því óvíst hvort skattahækkanirnar kæmu til með að skila sér í auknum skatttekjum ríkissjóðs þegar upp væri staðið.

Sama dag var sagt frá því í fréttum, að auglýsingar á dýrum bílum eða armbandsúrum væru til marks um, að menn vildu koma peningum í annars konar verðmæti, til dæmis til að flytja þá þannig úr landi á tímum gjaldeyrishafta eða í stað þess að geyma þá á neikvæðum vöxtum í bankastofnunum.

Að kvöldi 11. janúar sagði RÚV frá því, að kunnur athafnamaður hefði bæst í hóp fjölmargra, sem hefðu flutt lögheimili sitt úr landi. Líklegt er, að fleiri, sem á því hafa tök og efni, bætist í hóp Íslendinga með lögheimili erlendis. Ástæðuna fyrir ákvörðunum efnafólks, sem nú flytur, má rekja beint til nýrra skattalaga ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.

Að kenna bankahruninu um þessa þróun í skattamálum er fráleitt. Hún hefði orðið án þess, hvenær sem Steingrími J. og Indriða H. hefði verið hleypt inn í fjármálaráðuneytið. Þeir eru þar einfaldlega að framkvæma skattastefnu vinstri-grænna. Hún bætir gráu ofan á svart í efnahagslífinu og skapar fleiri vandamál en hún leysir.

Á sama tíma og Jóhanna og Steingrímur J. herða þannig skattatökin á landsmönnum, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir, að skatttekjur aukist, vilja þau ekki ljá máls á því að reyna að minnka Icesave-skuldabyrðina. Skatttekjur eiga að standa undir henni með öllu öðru. Ógæfulegri stjórnarherrum hefur þjóðin sjaldan kynnst - sem betur fer.

Sunnudagur, 10. 01. 10. - 10.1.2010

Ef til vill er ekki eins undarlegt og virðist við fyrstu sýn, að helsta málefni, sem stuðningsmenn Icesave-afarkostanna ræða nú, sé, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi velt fyrir sér og rætt alla kosti í Icsave-málinu. Miðlarnir, sem áður voru kenndir við Baug, en eru nú í höndum ríkisvaldsins, leggja lykkju á leið sína til úthrópa Bjarna fyrir það, sem þeir kalla mismunandi skoðanir hans á leiðum í Icesave-málinu.

Þeir, sem sátu fundinn með Bjarna í Valhöll 9. janúar, vita, að þessi herferð Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á ekki við nein rök að styðjast. En hvers vegna er ekki undarlegt, að ráðist sé að Bjarna með þeim röngu fullyrðingum, að hann hafi skipt um skoðun? Jú, af því að stjórnarflokkarnir líta þannig á, að alla úr þeirra röðum, sem skipta um Icesave-skoðun beri að úthrópa. Árásirnar á Bjarna eiga þannig að minna aðra á, hvaða víti þeir skuli varast.

Í dag leit ég inn á skrifstofu, sem Hildur Sverrisdóttir, lögfræðingur, opnaði í tilefni af framboði sínu í prófkjöri sjálfstæðismanna vegna borgarstjórnarkosninga hér í Reykjavík. Ég kynntist störfum Hildar fyrst, þegar ég var menntamálaráðherra og hrundið var af stað verkefni, sem kennt var við jafningjafræðslu gegn fíkniefnum. Þá kom strax í ljós dugnaður hennar og áhugi á að vinna að framgangi góðra málefna. Það yrði fengur að fá Hildi til starfa í borgarstjórn Reykjavíkur.

 

Laugardagur, 09. 01. 10. - 9.1.2010

Í morgun sótti ég fjölmennan fund Bjarna Benediktssonar um Icesave-málið í Valhöll. Segi ég frá honum í þessum pistli. Augljóst var af fréttum Stöðvar 2 af fundinum, að fréttastofunni stóð ekki á sama um styrk Bjarna og samstöðu sjálfstæðismanna að baki honum. Hið sama kemur fram í bloggi andstæðinga sjálfstæðismanna um fundinn.

 

Föstudagur, 08. 01. 10. - 8.1.2010

Ég ritaði í dag pistil á amx.is til að vekja athygli á þeirri staðreynd, að samningamenn Íslands í Icesave-deilunni hafa haft að engu allar ábendingar um, að lögmæti krafna Breta og Hollendinga sýnist á veikum grunni, svo að ekki sé meira sagt. Þó taka íslenskir embættismenn undir með starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi, þegar kemur að að lögfræðilega þættinum, því að þess hefur aldrei orðið vart, að utanríkisráðuneyti Íslands láti í ljós nokkrar efasemdir um lögmætið.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og varaþingmaður Samfylkingarinnar, var enn á ný í sjónvarpsfréttum með þann boðskap, að samningsstaða Íslands væri önnur og verri en í kalda stríðinu. Þessar kenningar byggjast á því, að málstaður okkar í þorskastríðunum hafi verið svo slæmur, að hann hefði ekki náð fram, nema vegna þess að landið var hernaðarlega mikilvægt og við vorum í varnarsamstarfi við Bandaríkjamenn og innan NATO.

Þetta er einkennileg rulla og hvergi heyri ég þessi sjónarmið nema innan úr Háskóla Íslands. Hvergi í öllum erlendum fréttum og greinum um Icesave, sem ég hef lesið undanfarna sólarhringa, sé ég byggt á rökum af þessu tagi í umræðum um stöðu Íslands, enda skiptir þetta engu máli um lausn Icesave-deilunnar. Þar ráða lagarök að lokum úrslitum eins og í öllum þrætum siðmenntaðra þjóða og þó sérstaklega innan Evrópusambandsins. Æ betur er og að koma í ljós, að hvorki ESB né Bretar eða Hollendingar vilja hampa lagarökunum, af því að þau eru þeim í óhag. Þeim mun einkennilegra er, að íslenska utanríkisráðuneytið heldur þessum rökum ekki fram til að styrkja málstað Íslands.

Þegar síðasta þorskastríðið var háð, 200 mílna deilan 1975 til 1976, var því haldið fram af andstæðingum Íslendinga, að þeir væru að brjóta alþjóðalög. Hafréttarsáttmáli SÞ var ekki kominn til sögunnar, en allir sáu, hvert stefndi þar um stærð lögsögu. Hægt og sígandi fjaraði undan lögmæti krafna Breta, þar til þeir áttuðu sig á, að best væri að semja um niðurstöðu málsins. Hið sama er að gerast í Icesave-málinu. Hægt og sígandi eru efasemdir um lögmæti krafna Breta og Hollendinga að styrkjast. Á hinn bóginn skortir alla markvissa eftirfylgni af hálfu íslenskra stjórnvalda nú.

Sú kenning er fráleit, að efni sjónarmiða Íslendinga í þorskastríðunum hafi ekki skipt máli. Að sjálfsögðu gerðu þau það, eins og efni sjónarmiða Íslendinga skipta núna máli í Icesave-deilunni.

Fimmtudagur, 07. 01. 10. - 7.1.2010

 

Merkilegt er að sjá, hve danskir leiðarahöfundar og Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, eru reiðir Íslendingum vegna ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar. Kannski telja þeir sig eiga eitthvað í Icesave-samningunum, úr því að Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Danmörku til skamms tíma, gerði þá? Svo er ekki. Reiði blaðaeigenda í garð Baugs og Nyhedsavisen er svo djúpstæð og sár, að hún hverfur seint.  Danskir útgefendur töpuðu milljörðum króna, áður en Nyhedsavisen lagði upp laupana. Uffe Ellemann-Jensen líkist Stór-Dana í skrifum sínum, þeim finnst ekki leiðinlegt að taka Íslendinga á hné sér og tala niður til þeirra, ef svo ber undir.

Í Bretlandi gagnrýndu The Independent og The Financial Times í leiðurum afstöðu bresku ríkisstjórnarinnar til Íslands.

Stundum er látið eins og Icesave sé ótengt ESB-aðild Íslands. Þeir, sem vitnað er til hér að neðan, eru ekki sammála þeirri skoðun:

The Economist 7. janúar:

„Lagalega staðan er langt frá því að vera skýr. Er í raun ríkisábyrgð á slíkum innistæðutryggingum? Þó ráða ríkisstjórnir Bretlands og Hollands yfir nokkrum sterkum vopnum, þær geta til dæmis stöðvað aðild Íslands að ESB.“

Leiðari í Irish Times 7. janúar:

„Kreppan kann að tefja fyrir nýlegri ósk Íslands um ESB-aðild, ekki síst vegna þess að hvert aðildarríki getur beitt neitunarvaldi gegn nýjum umsækjendum. Brussel, sem sýndi Reykjavík vígtennurnar í gær, ætti ekki að gera illt verra með því að mæla með einstaklega hörðum samningi um mál, sem er í meginatriðum tvíhliða viðskiptadeila. Ísland á dálítinn slaka skilinn.“

Michael Hudson, prófessor við háskólann í Missouri, í The Financial Times 7. janúar:

„Íslenska ríkisstjórnin var tilbúin til að láta undan [kröfum Breta og Hollendinga] og taldi það nauðsynlegan herkostnað til að komast inn í ESB, en nýlegar skoðanakannanir sýna, að 70% kjósenda hafa misst áhugann á aðild. Þetta er sama hlutfall og tala þeirra, sem líklegt er að snúist gegn lögunum um að fara að kröfum Breta og Hollendinga. “

Miðvikudagur, 06. 01. 10. - 6.1.2010

Í dag hef ég varið miklum tíma til að skoða erlend blöð og vefsíður til að reyna að átta mig á því, hvernig fjallað er um synjun Ólafs Ragnars á Icesave-lögunum. Ég skrifaði pistil á vefsíðuna amx.is um greinar tveggja breskra álitsgjafa. Helst virðist, að þeir, sem eru viðmælendur ráðherra ríkisstjórnar Íslands séu með hótanir í garð Íslendinga.  Aðrir hafa meiri skilning á því en ráðherrar, að ekki sé sjálfgefið, að Íslendingar sætti sig við Icesave-afarkostina.

Nú fyrst, þegar í þetta óefni er komið, berast fréttir af því, að Steingrímur J. ætli að leggja land undir fót til að ræða við starfsbræður í Bretlandi og Hollandi um Icesave.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, segir frá því á vefsíðu sinni í dag, að hann hafi rætt við Össur Skarphéðinsson í síma. Bildt segir:

„Annars har det varit den isländska situationen som krävt fortsatt uppmärksamhet under dagen.

Utrikesminister Össur Skarptheöinsson och jag hade ett längre samtal i dag på eftermiddagen.

Presidentens ingripande har utan tvekan skapat en för landet mycket besvärlig situation – som dessvärre dessutom kan bli ändå mycket mera besvärlig om inte det hela reds upp.

Annars fanns det faktiskt en hel del tecken på att den isländska ekonomiska situationen höll på att förbättras. Men nu är allt utomordentligt osäkert igen.“

Af færslunni má skilja, að Össur hafi ekki dregið upp fagra mynd af gjörðum Ólafs Ragnars fyrir Bildt.  Ólafur Ragnar hafi spillt fyrir ríkisstjórninni við endurreisnarstarfið, sem hafi verið farið að skila árangri en nú sé allt í mikilli óvissu að nýju.

Hér hefur verið lagt til, að utanríkisráðuneytið hafi eftirlitsmann á staðnum, þegar Ólafur Ragnar ræðir við erlenda fjölmiðla. Nú virðist ekki veita af, að forsetaskrifstofan hafi mann á staðnum, þegar Össur lýsir Ólafi Ragnari í símtölum sínum yfir hafið.

Þriðjudagur, 05. 01.10. - 5.1.2010

Í pistli hér á síðunni lýsi ég atburðum dagsins, það er ákvörðun Ólafs Ragnars og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Dæmigert er, að ráðherrar taka til við að kveinka sér undan viðbrögðum Breta og Hollendinga í stað þess að halda fram málstað Íslands. Að sjálfsögðu hefði utanríkisráðherra strax í dag átt að leggja af stað í ferð til nágrannalanda og Brussel til að kynna stöðuna. Össur lætur sér hins vegar nægja að efna til mótmæla gegn Ólafi Ragnari með því að hætta við að fara með honum til Indlands! Hverjum er ekki sama?

Greinilegt er, að neikvæðari tónn er í afstöðu vinstri-grænna til stjórnarsamstarfsins eftir atburði dagsins en Samfylkingarinnar, enda er þingflokkur vinstri-grænna klofinn ofan í rót í Icesave-málinu.

Engu er líkara en hér trúi stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar röngum fréttum erlendra fjölmiðla um, að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar.  Þetta er einkennileg afstaða, sem byggist á hræðsluáróðri stjórnarsinna í Icesave-málinu frá upphafi, um að eitthvað ógurlegt gerist, verði ekki gengið að afarkostunum, sem birtust í samningi þeirra Steingríms J. og Svavars. Það þjónar enn málstað ríkisstjórnarinnar, að sem dekkst mynd sé dregin af stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Þannig telja spunaliðar Samfylkingarinnar best að ná sér niðri á Ólafi Ragnari núna.

Frá stjórnmálafræðingum Samfylkingarinnar berast þau boð, að Ólafur Ragnar sé upp á sitt eindæmi að breyta eðli forsetaembættisins og búa til forsetaræði í stað þingræðis. Hann virðist telja, að hann hafi vald á borð við forseta Frakklands eða Finnlands. Í krafti þessara ranghugmynda sinna sé hann að skipta sér af málum, sem heyri alls ekki undir hann. Það er merkilegt, að stjórnlagafræðingar skuli líta þannig á, að Ólafur Ragnar hafi heimild til slíks valdabrölts í skjóli 26. gr. stjórnarskrárinnar. Hvar ætli þeir finni þann lagabókstaf? Ekki í 26. greininni.

 

 

Mánudagur, 04. 01. 10. - 4.1.2010

Ólafur Ragnar Grímsson hefur boðað blaðamannafund á Bessastöðum á morgun en á miðvikudag heldur hann til Indlands. Vill hann hafa lokið við afskipti sín af Icesave-lögunum fyrir brottför. Synjun kann að leiða til stjórnarkreppu. Hafi Ólafur Ragnar gengið úr skugga um, að svo verði ekki á fundum með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. í gær, kann hann að synja og halda til Indlands. Verði stjórnarkreppa vegna synjunar, hættir hann annað hvort við að synja eða Indlandsferðina. Líklegt er, að hann velji fyrri kostinn og staðfesti lögin.

Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir, að liggi við stjórnarskrárbroti vegna dráttar á ákvörðun Ólafs Ragnars. Forseta er ekki veittur neinn frestur til að velta lögum fyrir sér. Öll umhugsun af þessu tagi skapar óvissu og stangast á við vilja stjórnarskrárgjafans. Þá er öfugmæli að kalla synjun forseta málskot til þjóðarinnar. Ákvæði 26. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslu er vörn þings og þjóðar gegn því, að forseti bregðist löggjafarskyldu sinni með því að snúast gegn vilja alþingis. Lög halda gildi, þótt forseti synji þeim. Endanleg örlög laga ráðast síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema alþingi felli þau úr gildi, eins og gert var við fjölmiðlalögin.

Ólafur Ragnar hefur með aðstoð stjórnlagafræðinga, sem vilja ekki skýra stjórnarskrána með vísan til þess, sem að baki bjó við setningu hennar, skapað slíka óvissu um valdheimildir forsetaembættisins, að óhjákvæmilegt er að afnema 26. grein stjórnarskrárinnar og setja annars konar ákvæði um, hvernig staðið skuli að ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Verulega hefur reynt á íslenskt stjórnkerfi frá bankahruni. Ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum, kosið hefur verið til þings. Þótt ný ríkisstjórn og meirihluti þingmanna hafi komist að rangri niðurstöðu og haldið illa á mörgum málum, hefur stjórnkerfið sem slíkt staðist áraunina. Hið einkennilega er, að forsetaembættið, sem er í höndum eins manns, hefur ekki staðist prófið, hver svo sem niðurstaðan verður á morgun.

 

Sunnudagur, 03. 01. 10. - 3.1.2010

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, undraðist á vefsíðu sinni í gær, að forseti Íslands tæki sér umhugsunarfrest áður en hann staðfesti Icesave lögin með undirskrift sinni. Þá gagnrýndi Björn Valur, að Ólafur Ragnar Grímsson hefði verið fundað með fulltrúum InDefence hópsins að morgni 2. janúar, en þá komu um 1000 manns að Bessastöðum til að fylgja eftir kröfu InDefence-hópsins. Rúmlega 60.000 nöfn eru á listunum, um 93% með kosningarétt að sögn InDefence-manna. Krafan er um, að Ólafur Ragnar synji Icesave-lögunum. Björn Valur spyr, hvort Ólafur Ragnar ætli ekki að kalla málsvara Icesave-laganna á sinni fund.

Björn Valur bregður með skrifum sínum ljósi á þá staðreynd, að ákvörðun Ólafs Ragnars um að taka sér umhugsunarfrest, er enn eitt skref hans til að grafa undan þingræðinu samhliða því að breyta embætti forseta úr sameiningartákni í þátttakanda í pólitískum deilum. Það er engin tilviljun, að aldrei áður hefur fólk komið saman við Bessastaði til að hafa áhrif á ákvörðun forseta andspænis tillögu til hans frá alþingi og ríkisstjórn.  Lítilmennska ráðherra í Icesave-málinu birtist enn í því, að þeir mótmæla Ólafi Ragnari ekki.

Þegar Ólafur Ragnar steig óheillaskrefið 2. júní 2004 með því að synja fjölmiðlalögunum, breytti hann eðli forsetaembættisins. Síðan hefur vegur þess sífellt orðið minni. Nú stendur hann frammi fyrir kröfu tugþúsunda, sem höggva í sama knérunn. Í stað þess að taka ákvörðun tafarlaust eins og honum ber, þegar tillaga um undirritun laga er lögð fyrir hann, brýtur hann gegn öllum meginreglum, sem honum ber að fylgja til að halda embætti forseta Íslands ofan við pólitískar þrætur.

Ólafur Ragnar sagði í nýársávarpi sínu, að ekki væri brýnt að breyta stjórnarskránni. Hann veit sem er, að fyrsta breytingin yrði að svipta forseta synjunarvaldi samkvæmt 26. gr. og mæla fyrir um aðra leið til að þjóðin geti sagt álit sitt á málum í atkvæðagreiðslu.

Laugardagur 02. 01. 10. - 2.1.2010

 

Sama dag og Ólafur Ragnar Grímsson flutti nýársávarp og hvatti til siðvæðingar stjórnmálanna og áréttaði nauðsyn þess, að fagmennska réði ferð við ákvarðanir kjörinna fulltrúa og embættismanna, birtist viðtal við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, fræðigrein Ólafs Ragnars. Gunnar Helgi var spurður, hvað hann teldi Ólaf Ragnar gera andspænis Icesave-lögunum. Gunnar Helgi svaraði:

„Það er engin leið að segja það með einhverri vissu en ég mundi halda að það væru frekar minni líkur en meiri [að Ólafur Ragnar neitaði, að skrifa undir]. Ef að Ólafur neitar að skrifa undir þetta þá stendur hann svolítið uppi vinalaus í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Það er alveg ljóst að mjög stór hluti þeirra sem vilja að hann neiti að skrifa undir eru litlir vinir Ólafs og mjög stór hluti þeirra sem að gera ráð fyrir að hann muni skrifa undir eru kannski helst þeir sem eru pólitískir vinir Ólafs.“

Að mati Gunnars Helga ráða ekki fagleg rök ákvörðun Ólafs Ragnars heldur útreikningur hans á því, hvar hann eigi helst vinaskjól. Þessi skoðun Gunnars staðfestir nauðsyn þess, að siðvæðingin hefjist á Bessastöðum. Ólafur Ragnar er örugglega þeirrar skoðunar, að eftir höfðinu dansi limirnir.

Fjórir lykilmenn í Icesave-málinu eru fyrrverandi ritstjórar Þjóðviljans: Ólafur Ragnar, Svavar Gestsson, Össur Skarphéðinsson og Þráinn Bertelsson. Hverjum dettur í hug, að Ólafur Ragnar vilji skera sig úr þessum hópi?

Föstudagur, 01. 01. 10. - 1.1.2010

Gleðilegt ár!

Í dag skrifaði ég pistil um áramótaávörp Jóhönnu Sigurðardóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar.

Haldi einhverjir, að Ólafur Ragnar hugsi um eitthvað annað en sjálfan sig, þegar hann tekur afstöðu til þess, hvort hann ritar undir Icesave-afarkostina, þekkja þeir ekkert til mannsins. Hann veit, að hann á skjól á vinstri vængnum, sem hefur barist upp á líf og dauða fyrir því, að  Icesave-skuldabagginn verði lagður á þjóðina. Ólafur Ragnar mun ekki kasta því skjóli frá sér, þótt tæplega 60 þúsund hafi skorað á hann að gera það.

Við upphaf nýs árs er ágætt að fá fordóma sína enn einu sinni staðfesta. Egill Helgason bregst með ósannindum við pistli mínum um áramótaávörpin. Egill tekur ávallt stöðu með Ólafi Ragnari, Jóhönnu og Steingrími J., þegar í harðbakka slær. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, hefur enga burði til að framfylgja lögum um RÚV, sem mæla fyrir um óhlutdrægni starfsmanna þess. Egill skákar í því skjóli, en þættir hans njóta sífellt minni vinsælda, þótt 38 milljónum króna sé varið til þeirra á ári.

Samantekt á www.andriki.is í tilefni áramótanna sýnir slíka hlutdrægni fréttastofu og álitsgjafa RÚV, að þögn stjórnenda stofnunarinnar um leiðir til úrbóta og hollustu við lög um hana hljóta að kalla á endurskoðun á skyldunni til að greiða RÚV-nefskattinn. Ég greiddi atkvæði með nefskattinum í góðri trú um, að öll ákvæði nýrra laga um RÚV yrðu í heiðri höfð. Annað hefur komið á daginn, þegar litið er til fréttamiðlunar og álitsgjafa stofnunarinnar.