13.1.2010

Miðvikudagur, 13. 01. 10.

Í dag ræddi ég við Harald Benediktsson, formann Bændasamtaka Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Samtalið snerist einkum um aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið. Augljóst er, að utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess hafa ekki þá sýn á samskiptin við Evrópusambandið, að um eitthvað sé að semja, enda gera menn þar á bæ sér grein fyrir því, að um aðildarferli af Íslands hálfu er að ræða en ekki samningaferli. Þá kemur fram, að embættismenn anda ofan í hálsmálið á Haraldi félögum, þegar ESB-mál eru á döfinni. Þátturinn hefst 21.30 og er sendur út á tveggja tíma fresti fram til klukkan 20.00 fimmtudaginn 14. janúar og síðan að nýju næsta laugardag og sunnudag.

Sweder van Wijnbergen, hagfræðiprófessor við Amsterdam-háskóla, ritar grein í NRC Handelsblad í Hollandi, sem birtist á ensku á vefsíðunni SpiegelOnline  og lesa má hér.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, endurtók þá fullyrðingu í fréttum sjónvarps í kvöld, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri ekki að fresta því að taka afstöðu til áætlunar um Ísland vegna afskipta hans sjálfs af Icesave, heldur ráði afstaða Norðurlandanna töfum hjá sjóðnum. Fréttamaðurinn hafði ekki fyrir því að spyrja Gylfa, hvort Steingrímur J. hefði ekki farið til Norðurlandanna og komið hróðugur til baka, af því að hann hefði náð árangri í viðræðum sínum.

Hollenski prófessorinn segir í ofannefndri grein sinni, að Age Bakker, hollenskur framkvæmdastjórnarmaður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), hafi gefið stórundarlega yfirlýsingu með því að tilkynna, að vegna óuppgerðra skulda Íslendinga við Hollendinga og Breta yrði allri aðstoð við Ísland seinkað. Bakker komi þetta ekkert við, það sé stjórn AGS, sem taki þessa ákvörðun. AGS verði að standa ofan við hagsmuni einstakra ríkja. Það sé fáheyrt, að einn framkvæmdastjórnarmannanna og frá ríki, sem hafi greinilegra hagsmuna að gæta, reyni að hafa áhrif á mál sem þessi. Þetta hafi neikvæð áhrif fyrir Holland innan AGS og jafnvel fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sjálfan.

Það er eftir öðru, að Gylfi Magnússon viti ekki um þessar yfirlýsingar hollenska framkvæmdastjórnarmannsins hjá AGS og það þurfi hollenskan prófessor til að vekja máls á þessari sérkennilegu framkomu. Skyldi ríkisstjórn Íslands fela sendiherra Íslands í Washington að mótmæla við forstjóra AGS?