Dagbók: janúar 2008

Fimmtudagur, 31. 01. 08. - 31.1.2008 19:04

Í dag var rætt um Evrópumál á alþingi með vísan til skýrslu utanríkisráðherra um Ísland á innri markaði Evrópu. Skýrslan byggist á raunsæju mati á stöðu Íslands og er rökrétt framhald af skýrslu Evrópunefndar, sem birt var fyrir tæpu ári. Færði ég rök fyrir þessari skoðun í ræðu minni í umræðunum.

Eftir hádegi gerði ég grein fyrir skýrslu Evrópunefndar á málþingi, sem Samtök atvinnulífsins (SA) héldu að hótel Loftleiðum. Kom á óvart, að í kvöldfréttum Stöðvar 2, var rætt um þetta málþing eins og einhvern leynifund til að undirbúa aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hver skyldi hafa sagt fréttamanninum það? Eða var þetta bara hugarburður hans, af því að málþingið var lokað fjölmiðlum?

 

Miðvikudagur, 30. 01. 08. - 30.1.2008 22:26

Fyrir nokkrum árum var hætt að gera veður út af því í fjölmiðlum, að stjórnmálamenn færu til útlanda til að sinna opinberum erindum. Gerðist þetta um svipað leyti og fjölmiðlar hættu að fjargviðrast yfir ráðherrabílum, gerð þeirra og innkaupsverði.

Hvers vegna var þessu hætt? Jú, utanferðir eru snar þáttur í daglegu líf fólks og ráðherrarbílarnir eru ósköp venjulegir.

Nú þykir hins vegar mjög fréttnæmt, að Ólafur F. Magnússon, nýkjörinn borgarstjóri, ætlar að sitja heima í stað þess að sækja norræna höfuðborgaráðstefnu. Tekið er fram í einu blaðanna, að þetta stafi ekki af flughræðslu borgarstjórans, enda ætli hann að fljúga til Englands með vorinu!

 

Þriðjudagur, 29. 01. 08. - 29.1.2008 19:02

Uppnámið vegna meirihlutaskipta í borgarstjórn Reykjavíkur ætti að verða sérstakt rannsóknarefni stjórnmálafræðinga. Síðasta andvarp andstæðinga umskiptanna breytist í reiði í garð staksteinahöfundar Morgunblaðsins. Hann virðist hafa einstakt lag á að espa þetta fólk, sem í hinu orðinu telur hróp og köll á ráðhúspöllunum til marks um lýðræðisást sína. Ekkert er þó nýtt undir sólinni.

Var klukkan 20.00 í glæsilegu 80 ára afmælishófi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem haldið var í Listasafni Íslands við Tryggvagötu og flutti þar ávarp.

Mánudagur, 28. 01. 08. - 28.1.2008 21:12

Málsvörn þeirra, sem verja ólætin á ráðhúspöllunum og einstæð skrif eða ummæli um Ólaf F. Magnússon, tekur á sig furðulegar myndir.

Fréttablaðið er flaggskip Baugsmiðlanna og útgáfan ræðst af fjölda auglýsinga. Borgaralegri forsenda fyrir útgáfu blaðs er óhugsandi. Þó telur Páll Baldvin Baldvinsson, leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag, trúverðugt, að Fréttablaðið sé að verða vettvangur fyrir and-borgaralegar skoðanir. Breytast í einskonar síðari tíma Þjóðvilja til að geta tekið upp hanskann fyrir þá, sem standa fyrir hrópum og köllum á borgarstjórnarfundum.

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður ungra jafnaðarmanna, sem var fremst í flokki mótmælenda á ráðhúspöllunum, skrifar um lýðræði í Fréttablaðið í dag og skilgreinir á þann frumlega hátt, að ekki hafi mátt skipta um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, af því að ekki hafi verið málefnaágreiningur í meirihlutanum, sem splundraðist. Vandinn við þann meirihluta var, að hann setti ekki fram nein málefni - kannski til að springa ekki vegna þeirra? Hvernig getur meirihluti án sameiginlegra málefna sprungið vegna ágreinings um þau?

Þá setur hún orðið meirihluti innan gæsalappa, af því að varamaður Ólafs F. hefur enn og aftur hlaupið af hólmi. Anna Pála er laganemi. Hvar hefur hún kynnst þeirri kenningu í lögfræði, að meirihluti á þingi, í stjórnum eða ráðum byggist á afstöðu varamanna?

Umræður um Spaugstofuna og Ólaf F. leiði ég hjá mér, þar sem ég horfði ekki á hana. Almennt minnir Spaugstofan mig á veröld sem var - dálítið eins og að koma til Austur-Þýskalands, þegar múrinn var hruninn og menn voru að leita að nýrri framtíð en þó enn í gamla tímanum. Stundum getur slíkt ástand verið hlægilegt en sjaldan fyndið.

Sunnudagur, 27. 01. 08. - 27.1.2008 17:06

Þjónusta við vegfarendur á vefsíðu vegagerðarinnar er til fyrirmyndar. Þar gat ég fylgst með því, þegar vegir urðu auðir af klaka og merktir grænir austan úr Fljótshlíð til Reykjavíkur og hagað ferð okkar í samræmi við það. Við fórum Þrengslin, þar sem Hellisheiðin var merkt rauð og lokuð.

Ferðin að austan gekk vel. Á milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar lentum við í sandbyl, þegar sterkur vindurinn feykti blautum sandi yfir veginn. Undan ströndinni var ógnvekjandi brimgarður.

Laugardagur, 26. 01. 08. - 26.1.2008 11:13

Sérkennilegt er að sjá allra vinstri álitsgjafa í bullandi vörn vegna skrílslátanna á pöllunum í ráðhúsinu á fimmtudag, þegar nýr borgarstjóri var kjörinn. Málsvörnin fyrir þá framkomu er veik, enda er málstaðurinn slæmur. Nýr meirihluti fékk þar greinilega gott veganesti.

Þorrablót Fljótshlíðinga var haldið í kvöld í Goðalandi. Það kom í hlut okkar hluta Hlíðarinnar að bera veg og vanda af blótinu. Gerðu nágrannar mínir það með glæsibrag. Mitt verkefni var að flytja ávarp í upphafi skemmtunarinnar og taka þátt í að syngja frumsaminn brag um okkur sveitafólkið undir lok skemmtiatriða.

Föstudagur, 25. 01. 08. - 25.1.2008 21:39

Sífellt verður skýrara, hve mikil mistök það voru hjá ungliðum vinstri flokkanna að efna til mótmæla við innsetningu nýs borgarstjóra og meirihluta í borgarstjórn 24. janúar. Ætlunin var greinilega að vega að Ólafi F. Magnússyni og fæla hann frá að taka við borgarstjóraembættinu. Tilraunin rann út í sandinn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sýndi nauðsynlegan myndugleika, eftir að hún var kjörin forseti borgarstjórnar, til að ná tökum á fundinum og tryggja framhald hans, án þess að beita þyrfti valdi í því skyni að skapa fundarfrið. Fráleitt er að kenna framferði öskrandi fulltrúa ungliðahreyfinga Samfylkingar og vinstri/grænna við lýðræði.

Nýi meirihlutinn hefur þegar tekið ákvörðun um framtíð húsanna 4 til 6 við Laugaveg, sem Dagur B. og félagar köstuðu í fang ríkisins. Eftir að borgarstjórn gafst upp, með símtali frá Degi B., við að framkvæma fyrri ákvarðanir sínar um húsin, var ljóst, að ekki yrði leyst úr málinu án útgjalda á kostnað skattgreiðenda. Sú niðurstaða liggur nú fyrir, spurningin er hve mörg hundruð milljóna þarf að greiða úr borgarsjóði fyrir húsin.

Með húsakaupunum og ákvörðuninni um að viðhalda heildarsvip á Laugaveginum hrynur samkomulagið, sem Bolli Kristinsson, sem rak verslunina Sautján, gerði við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi borgarstjóra, fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002. Laugavegurinn hefur staðnað í sex ár, eftir að samkomulagið var gert. Nú verður spennandi að sjá hvort, hann gangi í endurnýjun lífdaga. 

Borgaryfirvöld þurfa að leggja fé í fleira en gömul hús á barmi niðurrifs, ef þau vilja breyta yfirbragði miðborgarinnar. Þau verða jafnframt að ganga markvisst og skipuglega til verks við fleiri skipulagsákvarðanir en vegna þessara tveggja húsa við Laugaveginn.

 

 

Fimmtudagur, 24. 01. 08. - 24.1.2008 19:23

Hafi ólæti á pöllunum í borgarstjórnarsalnum í dag átt að afla málstað þeirra, sem að þeim stóðu, fylgi, sýnir það ótrúlegt dómgreindarleysi þeirra, sem hæst öskruðu og sýndu kjörnum fulltrúum og nýjum borgarstjóra, Ólafi F. Magnússyni, mestan dónaskap.

Hvers vegna segir Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, að kjósa eigi aftur í borgarstjórn núna, þegar lög mæla fyrir um sveitarstjórnarkosningar á fjögurra ára fresti?

Nú æsir Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi vinstri/grænna, sig að nýju í sjónvarpsfréttum. Hún telur ekki lengur nauðsynlegt að „róa umræðuna“ enda komin í ábyrgðarlausa stjórnarandstöðu.

Björn Ingi Hrafnsson sagði af sér sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í dag. Hitinn var orðinn of mikill fyrir hann í framsóknareldhúsinu - hann vill ekki þurfa að sitja undir meiri árásum þar.

Hvað á Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, þegar hann ræðir ítrekað um litgreiningu í tengslum við fjármögnun framsóknarmanna á fötum Björns Inga?

Miðvikudagur, 23. 01. 08. - 23.1.2008 0:01

Ef meirihluti undir Degi B. Eggertssyni sem borgarstjóra og sjö borgarfulltrúum að auki var lífvænlegur með stuðningi Ólafs F. Magnússonar, hvers vegna er meirihluti undir Ólafi F. Magnússyni sem borgarstjóra og sjö borgarfulltrúum að auki ekki lífvænlegur? Báðir eru þeir Dagur og Ólafur F.  læknar og báðir kjörnir í borgarstjórn. Annar er samfylkingararmaður hinn frjálslyndur. Gerir það gæfumun? Eða er úrslitamál, að Björn Ingi Hrafnsson Framsóknarflokki eigi lokaorð?

 

Þriðjudagur, 22. 01. 08. - 22.1.2008 21:41

Flutti framsöguræður fyrir tveimur lagafrumvörpum á þingi í dag annars vegar um nálgunarbann og hins vegar um breytingar á útlendingalögum. Síðan voru flutt ýmis þingmannafrumvörp á verksviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis og tók ég þátt í umræðum um þau fram yfir kl. 19.00.

Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að halda á sínum málum, eftir að hafa dottið út úr meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og standa einnig utan ríkisstjórnar? Þetta hefur flokkurinn ekki reynt síðan 1994 og frá þeim tíma hefur Orkuveita Reykjavíkur verið nokkur þungamiðja í valdakerfi hans - að lokum varð Björn Ingi Hrafnsson að pólitískum ómerkingi vegna brölts í kringum hana.

Hugsjónir Framsóknarflokksins eru óljósar, svo að ekki sé meira sagt, og völdin orðin að engu. Fyrir hvað á að berjast? Helst má skilja, að sú ákvörðun á sínum tíma, að litgreina frambjóðendur Framsóknarflokksins til að ákvarða kjörþokka þeirra, hafi knúið flokkinn til að kosta föt á frambjóðendur. Hver gat ímyndað sér, að lokahnykkur í innanflokksátökum framsóknarmanna í Reykjavík snerist um fatareikninga? Klofinn flokkur af því tilefni þarf ekki hugsjónir til að þvælast fyrir sér.

 

Mánudagur, 21. 01. 08. - 21.1.2008 20:06

Nýr meirihluti varð til í borgarstjórn Reykjavíkur í dag, þegar Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins, gekk til liðs við sjö borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ólafur F. tók fram í yfirlýsingu, sem hann las á blaðamannafundi klukkan 19.00 á Kjarvalsstöðum, að meirihlutinn mundi starfa út kjörtímabilið, það er til vors 2010. Ólafur F. verður borgarstjóri fyrri hluta tímans en Vilhjálmur Þ. Vílhjálmsson síðari hlutann, þeir skiptast jafnframt á að verða formenn borgarráðs. Borgarstjórn kemur saman til fundar fimmtudag 24. janúar og þá fara valdaskiptin fram.

Aldrei var nein samstaða innan þess hóps, sem myndaði meirihluta á rústum OR/REI fyrir 100 dögum og þar sem Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóri. Hópurinn hefur ekki getað lagt fram málefnaskrá og lét reka á reiðanum í fjölda mála.

Framsóknarmenn hafa nú misst valdastöðu sína innan borgarstjórnar Reykjavíkur, en þar hafa þeir talið sig hafa tögl og hagldir síðan 1994. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði grunn að valdaleysi sínu með svikum við Sjálfstæðisflokksins vegna OR/REI. Hann situr nú undir hörðum árásum innan eigin flokks vegna fatakaupa á kostnað flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar - í fréttum sjónvarps ríkisins var upplýst í kvöld, að þetta snerist um reikninga, sem nema um einni milljón króna. Björn Ingi sagðist í Kastljósi hafa keypt hluta af þessum fötum fyrir sjálfan sig.

Útför skákmeistarans Bobby Fischers fór fram í morgun í kyrrþey samkvæmt ósk hans í Laugardælakirkjugarði í Flóahreppi skammt frá Selfossi. Séra Jakob Rolland, prestur kaþólskra, jarðsöng.

Sunnudagur 20. 01. 08. - 20.1.2008 16:11

Frá því ég varð formaður Þingvallanefndar árið 1992 hefur ekki verið rætt, hvort taka eigi nýja gröf í þjóðargrafreitnum. Ríkir þegjandi samkomulag um, að grafreiturinn fái að hvíla í friði.  Össur Skarphéðinsson sagði réttilega í útvarpsviðtali, að vel færi á því, að Skáksamband Íslands stæði að útför Bobbys Fischers, vilji hans nánustu, að hann sé jarðsettur hér á landi. 

Guðjón Ólafur Jónsson telur af og frá, að Björn Ingi Hrafnsson borgarfulltrúi segi sig úr Framsóknarflokknum vegna trúnaðarbréfs Guðjóns Ólafs. Björn Ingi setji nú leikrit á svið til að afla sér samúðar meðal flokksmanna. Guðjón Ólafur segist vera með mörg hnífasett í bakinu frá Birni Inga, þótt hann hafi fengið hann til starfa fyrir þingflokk framsóknarmanna fyrir fimm til sex árum. Í kringum Björn Inga sé sviðin framsóknarjörð í Reykjavík.

Pétur Gunnarsson, ritstjóri eyjan.is, gjörkunnugur innviðum Framsóknarflokksins og þeim Birni Inga og Guðjóni Ólafi, segir á eyjan.is: „Þetta er ógeðslegt mál, formaður Framsóknarflokksins kallar þetta „persónulegar deilur“ og að hann „standi með sínum mönnum.“ Í mínum huga er þetta atlaga með árásarmanni og fórnarlambi. Hver meðalleiðtogi hefði átt að koma auga á það og skilja sauðina frá höfrunum.“

Pétur vill sem sagt, að Guðni Ágústsson taki afstöðu í Reykjavíkurdeilunni miklu en haldi ekki með báðum. Enn er að sannast, að þrátt fyrir allt sé Framsóknarflokkurinn til skiptanna í Reykjavík, án þingmanns og með aðeins einn borgarfulltrúa, Björn Inga, sem kannski er á förum, þótt Guðjón Ólafur trúi því ekki.

 

Laugardagur, 19. 01. 08. - 19.1.2008 22:55

Björn Ingi Hrafnsson bregst þannig við árásum Guðjóns Ólafs Jónssonar, flokksbróður síns, að hann segist velta fyrir sér að fara úr Framsóknarflokknum eða jafnvel af stjórnmálavettvangi. Ég segi frá þessum nýjustu átökum innan Framsóknarflokksins í pistli mínum í dag - Nýju fötin Björns Inga.

 

 

Föstudagur, 18. 01. 07. - 18.1.2008 21:01

Var í Vík í Mýrdal klukkan 16.00 til að fagna 100 ára afmæli Lögbirtingablaðsins í boði Önnu Birnu Þráinsdóttur, sýslumanns og ritstjóra blaðsins. Ritstjórnin var flutt frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til Víkur 1. janúar 2007. Blaðið er nú gefið út rafrænt en aðeins 10 áskrifendur eru að prentaðri útgáfu þess. Hér má lesa ávarp, sem ég flutti af þessu tilefni.

Sagt var frá því, að Bobby Fischer, heimsmeistari í skák, hefði látist úr nýrnaveiki í gær. Jafnframt hefur komið fram, að fleira hrjáði hann, en honum hafi þótt óþarfi að leita sér lækninga - hann var 64 ára, þegar hann andaðist.

Ég minnist þess vel, þegar heimsmeistaraeinvígið var háð 1972. Ég fór í Laugardalshöllina og skynjaði andrúmsloftið. Á þessum árum var ég útgáfustjóri Almenna bókafélagsins og samdi við Freystein Jóhannsson, blaðamann á Morgunblaðinu, um að rita bók um einvígið.

Nú sé ég , að BBC rifjar upp, þegar Henry Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hringdi í Fischer og hvatti hann til að berjast við Spassky. Nú er komin út bók um kalda stríðið milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, sem leggur einvígi Fischers og Spasskys til grundvallar.

Nýlega var ég á kaffihúsi í París. Eigandinn var á ferð meðal gesta og fagnaði þeim. Hann spurði okkur Rut, hvaðan við værum, þegar hann heyrði það, sagði hann: Ísland, ég man eftir því vegna heimssögulegs atburðar í upphafi áttunda áratugarins. Þar sem þetta var Frakki, taldi ég víst, að hann hefði í huga, þegar Pompidou og Nixon hittust á Kjarvalsstöðum 1973. Nei, sagði hann: Fischer gegn Spassky!

Fyrir nokkrum misserum sat ég fund evrópskra dómsmálaráðherra í Helsinki. Þá kom stjórnarerindreki frá Serbíu til mín og sagðist vilja óska mér til hamingju með hugrekki ríkisstjórnar Íslands. Fyrir hvað? spurði ég. Jú, fyrir að veita Bobby Fischer ríkisborgararétt. Stjórnin í Belgrad hefði ekki haft þrek til að verða við ósk hans af ótta við reiði Bandaríkjastjórnar.

Erlendir fjölmiðlar láta þess getið við andlát Fischers, að hann hafi fengið skjól sem íslenskur ríkisborgari með samþykki alþingis, eftir að hafa komið sér út úr húsi hjá Bandaríkjastjórn og lent í fangelsi í Japan. Íslendingar hafi alltaf haft taugar til hans síðan 1972.

Fimmtudagur, 17. 01. 08. - 17.1.2008 8:57

60 ára afmælishóf Davíðs Oddssonar í ráðhúsinu í dag var bæði fjölmennt og glæsilegt. Var ánægjulegt, að þau Ástríður skyldu gefa okkur vinum sínum tækifæri til að samfagna með þeim og Þorsteini á þessum degi.

Menn eru mismikil afmælisbörn. Ég sleppi mínum afmælisdögum en hef gaman að því að samfagna með vinum mínum - ekki síst ef ræðuhöldum er stillt í hóf, svo að gestir fái tækifæri til að ræða saman. Þannig var það í veislu Davíðs undir veislustjórn Kjartans Gunnarssonar - fyrir utan afmælisbarnið fengu aðeins þrír orðið: Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri og Halldór Blöndal, formaður bankaráðs seðlabankans.

Ég hef skrifað svo mikið um stjórnmálastörf Davíðs hér á síðuna undanfarin tæp 13 ár, að engu er við það allt að bæta. Davíð og við, sem taldir eru hans nánustu pólitísku samstarfsmenn, höfum náð þeim árangri, að andstæðingar okkar sjá ofsjónum yfir því.  Megi þeir hvíla í friði á þessum degi!

Í gær vakti ég máls á því hér á síðunni, að fréttastofa sjónvarps, sem flutti frétt um Þorstein Davíðsson Oddssonar (feitletrun mín til að vekja athygli á sérstakri kynningu) hefði flutt áhorfendum sínum tíðindi af greinum í Fréttablaðinu gegn því, að Árni M. Mathiesen skipaði Þorstein sem héraðsdómara, greinum, sem studdu niðurstöðu dómnefndar.

Þorsteinn Einarsson, hæstaréttarlögmaður, ritar grein í Morgunblaðið í dag um starfshætti dómnefndar. Hann bendir á, að hlutverk hennar sé að segja álit sitt á umsækjendum um dómaraembætti og spyr, hvaðan hún hafi umboð til að fella dóm um stjórnsýslu Árna M. Mathiesens. Þess sé hvergi getið í reglum um nefndina, að hún hafi umboð til slíkra starfa.

Þorsteinn Einarsson segir í grein sinni:

„Í greinargerð dómnefndar er ráðherra gagnrýndur fyrir ákvörðun sína og á því byggt að ráðherra hafi brotið lög með því að skipa ekki í embættið einn umsækjenda sem dómnefnd mat hæfastan. Sú niðurstaða dómnefndar að ráðherra hafi borið að fara að umsögn hennar er röng. Dómnefnd misskilur hlutverk sitt og misles einfaldan lagatexta. Lögin eru skýr. Dómnefnd er falið eitt og aðeins eitt hlutverk: Að veita ráðherranum umsögn um umsækjendur, sem hann hefur til hliðsjónar þegar hann tekst á hendur það lögskipaða hlutverk sitt að gera upp á milli umsækjenda. “ (Feitletrun Bj. Bj.)

Hvenær skyldi fréttastofa sjónvarps eða ritstjórn Kastljóss segja frétt af þessari grein Þorsteins Einarssonar eða láta ræða efni hennar? Þorsteinn er jú hæstaréttarlögmaður eins og Ástráður Haraldsson. Er það kannski málstaðurinn sem stjórnar ákvörðunum hjá hinu óhlutdræga RÚV?

Lesa meira

Miðvikudagur, 16. 01. 08. - 16.1.2008 19:44

Sérkennilegt er að fylgjast með því, hvernig fréttamenn ljósvakamiðlanna halda lífi í umræðum um skipan Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara. Æsingagreinar í Fréttablaðinu eru gerðar að fréttaefni. Vegna greinar Sigurðar Líndals í Fréttablaðinu í gær hefðu fréttamennirnir mátt rifja upp orðin, sem höfð eru eftir bandaríska heimspekingnum Leo Strauss: Umræðum eða deilum lýkur, þegar annar aðilinn tekur að líkja hinum við Hitler og nasista.

Eftir að Sigurður Líndal hafði dæmt sig úr leik, kom Freyr Ófeigsson, fyrrverandi dómstjóri á Akureyri, fram á völlinn og ræddi fjálglega í Kastljósi, hve hættulegt væri að rugla reitum milli dómstóla og stjórnmála, þar yrðu menn að virða skýr skil, svo að ekki yrði hróflað við sjálfstæði dómstólanna eða dregið úr virðingu þeirra. Þess var látið ógetið í Kastljósi, að Freyr var í áratugi samtímis dómari og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins á Akureyri.

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður ritar grein í Fréttablaðið 16. nóvember, sem verður fréttaefni í ljósvakanum vegna þeirrar skoðunar hans, að skipan Þorsteins Davíðssonar í stöðu héraðsdómara hafi verið röng, ómálefnaleg og ólögmæt. Verulegar líkur séu á því að dómstólar ógildi ráðninguna, ef málið verði borið undir þá. Þótt þessi skoðun byggist ekki á öðrum rökum en óvild höfundar, ber fréttastofa sjónvarpsins það undir tvo keppinauta Þorsteins um dómarastarfið, hvort þeir ætli ekki að fara að ráðum Ástráðs og kæra til dómstólanna. Þeir segja ekki nei. Þá segir á ruv.is: „Báðir kváðust vera að hugsa sinn gang og hvorugur útilokaði að höfða mál til að hnekkja ákvörðun setts dómsmálaráðherra.“

Þriðjudagur, 15. 01. 08. - 15.1.2008 19:29

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri/grænna, var með fyrstu spurninguna í óundirbúnum fyrirspurnum á fyrsta degi alþingis eftir jólaleyfi. Henni var beint til forsætisráðherra og snerist um veitingu þriggja embætta. Því til stuðnings, að valdi ráðherra væru takmörk sett, vitnaði Árni Þór af velþóknun í Sigurð Líndal prófessor og þessi orð hans í Fréttablaðinu í dag:

„Hér skín í taumlausa vildarhyggju [í skipun Árna M. Mathiesen á Þorsteini Davíðssyni í embætti héraðsdómara] þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýskalandi eftir 1930.“

Að líkja íslenskum stjórnmálamanni við nasista er sem betur fer einsdæmi í seinni tíð að minnsta kosti. Sigurður Líndal telur sér sæma að gera það og það í grein, þar sem hann er að fjargviðrast á dæmalausan hátt yfir því, að einhver „ofstækisöfl“ hafi náð tökum á forystu Sjálfstæðisflokksins. Sigurður ætti að benda á þann í forystusveit Sjálfstæðisflokksins, sem hefur sýnt sambærilegt ofstæki í málflutningi og kemur fram í hinum tilvitnuðu orðum í grein hans sjálfs,

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði réttilega í svari sínu:

 „Ég tel þann málflutning sem hv. þingmaður vitnaði til í grein í Fréttablaðinu í dag viðkomandi höfundi til minnkunar og ekki til sóma að viðhafa málflutning af því tagi um þetta tiltekna mál?.. Ég fullyrði að iðnaðarráðherra hefur í sínum tveimur embættisveitingum stuðst við gild rök og bestu samvisku og dómgreind og sama á að sjálfsögðu við um hinn setta dómsmálaráðherra hvað varðar setningu héraðsdómara.

Matsnefndir og hæfnisnefndir eru góðar og þær eru nauðsynlegar til þess að fara yfir mál en þær eiga ekki að hafa síðasta orðið í málum sem þessum og það vita auðvitað allir sem þessi mál hafa kynnt sér. Ég hef sjálfur sætt ámæli fyrir skipun tveggja hæstaréttardómara sem settur dómsmálaráðherra. Ég veit ekki betur en að þeir dómarar hafi báðir tveir staðið sig mjög vel í starfi og dettur engum manni í hug að gagnrýna störf þeirra í dag þó að skipanirnar hafi verið umdeildar á sínum tíma. Ég hafna þess vegna þessari gagnrýni sem fram er komin. Ég tel að hún sé ekki á málefnalegum grunni reist og ég tel að ráðherrarnir báðir hafi verið fyllilega innan sinna valdheimilda.“

 

 

Lesa meira

Mánudagur, 14. 01. 08. - 14.1.2008 19:57

Spennandi verður að fylgjast með breytingum á þingstörfum frá og með morgundeginum, þegar alþingi tekur að starfa eftir nýjum þingsköpum. Það var vel af sér vikið hjá Sturlu Böðvarssyni, forseta alþingis, að ná þessum breytingum fram fyrir áramót - löngu var orðið tímabært að koma betri skipan á störfin í þingsalnum.

Tvisvar í viku verður í upphafi þings unnt að beina óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra og eiga fimm ráðherrar að vera skráðir til að svara hvorn daginn - það er fyrsta þingdag vikunnar og fimmtudaga kl. 10.30.

Líklegt er að stjórnarþingmenn láti meira að sér kveða í umræðum en áður. Til þessa hafa þeir haldið sig til hlés, ræða frá einhverjum þeirra hefur gjarna orðið stjórnarandstöðuþingmanni tilefni til tveggja eða þriggja tíma gagnsóknar undir þeim formerkjum, að fyrst stjórnarsinni sé að tala, geti enginn fundið að því, að stjórnarandstaðan tali enn meira og enn lengur. Þetta er skrýtin lógík en hún hefur samt verið notuð oftar en tölu verður á komið.

Nú reynir á góðan undirbúning þingmanna. Það er vandasamara að búa sig undir 20 mínútna markvissa ræðu en margra klukkustunda orðaflaum.

Sunnudagur, 13. 01. 08. - 13.1.2008 18:55

Í pistli mínum í dag ræði ég um vandræðin við Laugaveginn vegna óvissu um ákvarðanir og stefnu Reykjavíkurborgar.

Einkennilegt er að heyra Svandísi Svavarsdóttur, formann skipulagsráðs borgarinnar, átelja vegagerðina fyrir niðurstöðu hennar vegna Sundabrautar.

Vegagerðin var spurð af borgarstjórn Reykjavíkur um kostnað við göng undir Elliðavog og segir þau verða 9 milljörðum dýrari en eyjaleiðina svonefndu. Helst er að skilja á Svandísi, að svarið sé til marks um pólitísk afskipti.

Hvers vegna finnur hún ekki að afskiptum húsfriðunarnefndar af Laugavegi 4 til 6 og telur þau pólitísk? Af því að hún er sammála nefndinni en ekki vegagerðinni?

Laugardagur 12. 01. 08. - 12.1.2008 17:04

Bréfvinur minn á netinu sendi mér þessa sögu, sem hann sagðist hafa notað til að skýra, hver væri munurinn á repúblíkana og demókrata í Bandaríkjunum.

Repúblíkani og demókrati voru á gangi og mættu flakkara. Repúblíkaninn gaf flakkaranum nafnspjaldið sitt og sagði honum að koma í fyrirtæki sitt og fá vinnu. Hann tók síðan tuttugu dollara seðil úr vasa sínum og gaf flakkaranum.

Demókratinn hreifst mjög af þessu og þegar þeir mættu öðrum flakkara, ákvað hann að veita honum aðstoð. Hann fór til flakkarans og vísaði honum leiðina að næstu skrifstofu félagsaðstoðar. Hann fór síðan í vasa repúblíkanans og gaf flakkaranum fimmtíu dollara.

Nú skilur þú, hver er munurinn á milli repúblíkana og demókrata.“

Föstudagur, 11. 01. 08. - 11.1.2008 18:25

Fréttin í morgun um, að ráðist hafi verið á óeinkennisklædda starfsmenn fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vekur óhug. Ráðist var á lögreglumennina við störf á Laugaveginum. Árásarmennirnir tengdust ekki því máli, sem var til rannsóknar.

Um áramótin voru félagar í fíkniefnadeildum lögreglu og tollgæslu heiðraðir af Stöð 2 fyrir vel unnin störf á árinu 2007. Þau verðlaun eru verðskulduð. Fíkniefnabarónum hefur kannski vaxið þessi viðurkenning í augum og þess vegna gert erlenda málaliða sína út af örkinni gegn lögreglumönnunum?

Áfram verður að leita leiða til að auka öryggi lögreglumanna Þetta síðasta atvik sannar enn, að þeir þurfa að vera við öllu búnir. Huga ber að þjálfun varðhunda fyrir lögregluna og sjá til þess, að hún hafi varnarbúnað með hæfilegan fælingarmátt.

Fimmtudagur, 10. 01. 08. - 10.1.2008 20:53

Húsafriðunarnefnd lýsti áliti á Laugavegshúsunum og Björn Ingi Hrafnsson og Dagur B. Eggertsson, forystumenn meirhlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, sögðu, að ný staða hefði skapast. Sérfræðingar hefðu talað og ekki væri undan því vikist að taka mið af orðum þeirra - auk þess þyrfti menntamálaráðherra að taka ákvörðun!

Borgarstjórn hefur fjallað um skipulag við Laugaveginn um árabil, samt er það fyrst nú á elleftu stundu, sem sérfræðingarnir tala og setja málið í nýtt ljós - og svo er það ráðherrann.

Sundabraut hefur einnig verið um árabil til meðferðar í borgarstjórn - þótt enginn viti enn, hvar hún á að liggja, af því að borgarstjórn hefur ekki tekið ákvörðun. Síðast þurfti hún að fá mat sérfræðinga á jarðgöngum í samanburði við svonefnda eyjalausn.

Vegagerðin hefur nú lokið mati sínu og G. Pétur Matthíasson, upplýsingaulltrúi hennar, greinir frá niðurstöðunni í Fréttablaðinu og 24 stundum í morgun og segir meðal annars:

„Athugun er nú að fullu lokið og ljóst að jarðgangagerðin er tæknilega möguleg en kostnaður er hins vegar mun meiri en áður var talið eða um 24 milljarðar króna með vegtengingum. Jarðgangalausnin er þannig um 9 milljörðum króna dýrari kostur en eyjalausnin. Fyrir þennan mismun upp á 9 milljarða mætti gera mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, leggja Miklubraut í stokk vestur fyrir Lönguhlíð og Kringlumýrarbraut í stokk suður fyrir Listabraut. ......

Eyjalausnin felur ekki í sér að umferð verði aukin um Skeiðarvog en að sjálfsögðu mun Sundabrautin breyta umferðinni hvar sem hún kemur upp. Röskunin verður eigi að síður mun meiri með jarðgöngunum en eyjalausn þar sem gangamunnar verða fjórir, þar af þrír vestan megin, helmingur ganganna mun liggja undir borginni og byggja þarf veg út í sjó við Laugarnesið til að tengja göngin við Kringlumýrarbrautina. Niðurstaða Vegagerðarinnar er að innri leiðin, eyjalausnin, er tæknilega, fjárhagslega og umferðarlega mun betri kostur en jarðgangaleiðin og gefur miklu meiri arðsemi af því fjármagni sem til framkvæmdanna er varið. Vegagerðin getur því ekki mælt með að jarðgangalausn verði valin.“

Vegna Laugavegshúsanna er spurt: Hver ber kostnað af því, að ekki er staðið við ákvarðanir borgarstjórnar, þegar til kastanna kemur?

Vegna Sundabrautar er spurt: Ætlar Reykjavíkurborg að bera kostnaðaraukann við göng í stað eyjaleiðar?

Líklegt er, að borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Dags B. og Björns Inga velji þann Sundabrautarkost að bíða eftir samgönguráðherra og krefjast þess að auki, að hann borgi dýrustu leiðina til að bjarga meirihlutanum.

Meirihluta, sem ræður ekki við að semja sér málefnaskrá, er einfaldega ofvaxið að leysa mál við Laugaveg og taka ákvörðun um Sundabraut - þá er bara kallað á ráðherra sér til hjálpar.

Miðvikudagur, 09. 01. 08. - 9.1.2008 21:53

Myndin um Bob Dylan í Regnboganum er of flókin. Áhorfandinn þarf að vera vel að sér um ævi Dylans til að átta sig á fléttu sögunnar. Á hinn bóginn er smellin hugmynd að fela hópi leikara að kynna hin ýmsu æviskeið söguhetjunnar. Myndin og bók Dylans Chronicles Volume One minna á, að of mikið er gert úr hlut hans sem mótmælanda á sjöunda áratugnum. Hann leit ekki á sig sem slíkan og kvartar undan því í bók sinni, að hann hafi verið stimplaður á þennan veg.

Bæði Hillary Clinton og John McCain notuðu orðið „comeback“ í sigurræðum sínum í New Hampshire - þau vísuðu þar til þess, sem Bill Clinton sagði 1992, þegar hann lenti í öðru sæti í ríkinu og kallaði sjálfan sig „the comeback kid“ af því tilefni. McCain, sem er kominn á áttræðisaldur, sagðist að vísu ekki getað sagst vera „kid“.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segist undrandi á húsafriðunarnefnd vegna tillögunnar til menntamálaráðherra um friðun húsa neðst á Laugaveginum. Hvers vegna hélt borgarstjóri ekki þannig á málinu, að borgarstjórn Reykjavíkur hefði örugglega forræði þess? Hann skapaði sjálfur svigrúm fyrir húsafriðunarnefnd með því að ýta málinu á undan sér.

Stjórnsýsla í skipulags- og byggingarmálum Reykjavíkurborgar er hvorki markviss né skilvirk. Þá er sjálfstæði sveitarfélaga orðin tóm, ef sérfræðinganefnd getur vísað ákvörðunum um húsaraðir í hjarta sveitarfélags til ákvörðunar ráðherra - og það eftir að allar stofnanir sveitarfélagsins hafa komist að annarri niðurstöðu en sérfræðinganefndin. Hin pólitíska ábyrgð á slíkum skipulagsþáttum á að sjálfsögðu að hvíla á viðkomandi sveitarstjórn, svo að unnt sé að kalla hana til ábyrgðar í kosningum.

Þriðjudagur, 08. 01. 08. - 8.1.2008 21:35

Í Kastljósi kvöldsins kvartaði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri/grænna, undan því, að ekki væri farið í mannjöfnuð í rökstuðningi ráðherra um stöðuveitingar. Ráðherra er aðeins skylt að færa rök fyrir því, hvers vegna hann valdi þann, sem hann skipaði. Ráðherra á ekki bera hann saman við aðra umsækjendur eða segja álit sitt á þeim.

Húsafriðunarnefnd hefur nú beint því til menntamálaráðherra að friða húsin neðst á Laugaveginum. Þar með hefur nefndin gripið fram fyrir hendur borgarstjórnar Reykjavíkur. Sú stefna, að húsin skyldu hverfa, var mótuð af R-listanum fyrir kosningar 2002, eftir að kaupmenn við Laugaveg höfðu undir forystu Bolla Kristinssonar, sem kenndur er við verslunina 17, samið um nýtt skipulag Laugavegsins við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi borgarstjóra, enda myndu viðskipti við Laugaveginn ella verða fyrir óbætanlegu tjóni.

Í pistli mínum laugardaginn 5. desember ræddi ég þróunina í varnarsamstarfi Norðurlandanna. Í framhaldi af honum vek ég athygli á því, sem Anne-Grete Strøm-Erichsen, varnarmálaráðherra Noregs, sagði í athyglisverðri ræðu í Oslo Militære Samfund mánudaginn 7. janúar 2008. Niðurstaða hennar er hin sama og allra annarra norrænna ráðherra, sem um þessi mál fjalla, að það er að verða breyting á stöðu öryggismála og huga þarf að þeim með öryggishagsmuni ríkjanna í huga – ekki síst þeim þáttum þeirra, sem snerta hina „mjúku öryggismálaþætti“.

Norski varnarmálaráðherrann vék meðal annars að ferðum Rússa í nágrenni Noregs og sagði:

Lesa meira

Mánudagur, 07. 01. 08. - 7.1.2008 21:19

Hér sögðu einhverjir spekingar, að til lítils yrði að fjölga myndavélum í miðborginni, öryggi borgarbúa mundi ekkert aukast við það. Í Kaupmannahöfn hefur morð með hnífsstungu á Strikinu sl. laugardagsmorgun orðið til þess, að krafist er fleiri eftirlitsmyndavéla í borginni. Vegna myndavélar fékk lögregla nákvæma vitneskju um, hvað gerðist, þegar 19 ára pitlur var stunginn til bana eftir ómerkilegt rifrildi um húfu. Strax var unnt að lýsa eftir hinum grunaða. Lögregla og borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn ætla að taka höndum saman um myndavélavæðinguna. Lög, sem heimila hana, eru ný samþykkt að frumkvæði Lene Espersen, dómsmálaráðherra.

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, ferðast um heiminn og talar fyrir fullu húsi, þótt hver áheyrandi þurfi að greiða 15 til 30 þúsund kr. fyrir að hlusta á hann. Í New Hampshire talaði hann ókeypis fyrir helgi og það voru nóg sæti. Clinton var að mæla með Hillary, konu sinni, í forsetaframboð. Undir ræðu hans á fundi í New Hampshire-háskóla sl. föstudag voru margar sætaraðir tómar. Laugardagsfundur hans var í leikfimisal skóla, sem rúmar um 700 manns, aðeins 225 komu og létu sér víst fátt um finnast.

1992 náði Bill Clinton sér á strik í prófkjöri demókrata í New Hampshire, þegar hann lenti í öðru sæti og lýsti sjálfum sér sem „the comeback kid“. Þetta var ekki gott „comeback“ hjá honum núna.

Sunnudagur, 06. 01. 08. - 6.1.2008 19:30

Það er ekki ráðlegt fyrir nokkurn mann að fara til Bandaríkjanna.“ Þetta stendur í leiðara Morgunblaðsins í dag. Ástæða er til að efast um, að nokkrum manni detti í hug, að fara af þessu ráði blaðsins – eigi hann á annað borð erindi til Bandaríkjanna.

Mörg bresk fyrirtæki hafa samið um símsvörun við þjónustufyrirtæki á Indlandi. Er talið, að 1,6 milljón Indverja sinni þessum störfum, flestir á þrítugs aldri. Indversk stjórnvöld skipuleggja nú áfallahjálp fyrir þetta fólk. Sífellt stærri hópur á um sárt að binda vegna þess hve dólgslega og dónalega er látið við þá, sem í símana svara.

Laugardagur, 05. 01. 08. - 5.1.2008 21:37

Morse lögregluforingi er fastagestur á laugardagskvöldum á DR 1 sjónvarpsstöðinni og væri það ekki vegna hans ætti ég ekkert erindi við sjónvarpið þau kvöld.

Á ruv.is segir:

„Borgarminjavörður Guðný Gerður Gunnarsdóttir segir óvíst að húsin við Laugaveg 4-6 eigi heima á Árbæjarsafni, ekki sé heppilegt að flytja gömul hús hvert sem er. Þau verði rannsökuð eftir helgi og reynt að komast til botns í því hvort þau geymi merkilega byggingasögu.

Í húskönnun Minjasafns Reykjavíkur frá árinu 2000 var mælt með á húsin yrðu varðveitt þar sem þau væru hluti af mikilvægri götumynd Reykajvíkur. Síðar var samþykkt deiliskipulag sem heimilaði að byggt yrði hótel og verlunarhúnæði sem er talsvert stærra en gömlu húsin. Borgarminjavörður segir að húsin hafi mest varðveislugildi þar sem þau eru nú. Eftir helgi verði þau rannsökuð að athugað hvort þau hafi nægilega mikið varðveislugildi til að fara á safn.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill láta útsvarsgreiðendur í Reykjavík kosta flutning þessara húsa og endurreisn í Hljómskálagarðinum! Margrét Sverrisdóttir og Svandís Svavarsdóttir vilja, að húsin verði á sínum stað. Björn Ingi Hrafnsson vill að húsin verði rifin. Þetta er afstaða hins einhuga meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.

Einkennilegt er, að nú fyrst skuli komist til botns í því, hvort húsin „geymi merkilega byggingasögu.“ Borgarstjóri hefur ekki áhuga á að kaupa húsin til að koma í veg fyrir, að þau hverfi. Það gildir annað um þessi hús en þau, sem stóðu á Stjörnubíóreitnum við Laugaveg og voru í eigu Jóns Ólafssonar - þar voru hús keypt á yfirverði til niðurrifs.

Hvers vegna á borgarstjórn Reykjavíkur svo erfitt með að framfylgja eigin ákvörðunum, þegar á hólminn er komið? Stjórnsýsla er ekki traustvekjandi, ef ekki er unnt að leiða mál til lykta í samræmi við niðurstöður hennar sjálfrar í eigin málum.

Föstudagur, 04. 01. 08. - 4.1.2008 23:19

Danska dómsmálaráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu í dag um, að hætt væri að prenta hin dönsku Lovtidende en samkvæmt dönsku stjórnarskránni birtast þar öll dönsk log og hófst útgáfan árið 1871, þegar Ísland var enn hluti danska ríkisins. Hér eftir verða Lovtidene gefin út á netinu og segir í tilkynningunni, að með því sé fleirum en áskrifendum hins prentaða rits, sem einkum hafa verið lögfræðingar, gefinn kostur á að fylgjast með nýjum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

Sagt er, að stranglega hafi verið unnið að öryggisreglum vegna lovtidende.dk. Þá er tekið fram, að aðeins í Austurríki hafi menn áður farið inn á þessa rafrænu útgáfubraut stjórnartíðinda, Danir séu því aðrir í röðinni. Ástæða er til að mótmæla þessu hér, því að Stjórnartíðindi, sem geyma íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið rafræn frá 9. nóvember 2005 eins og kynnt var þann dag. Þá lauk rúmlega 130 ára prentsögu Stjórnartíðinda en Danir eru nú að ljúka 137 ára prentsögu Lovtidende hjá sér.

Dómstóll í Amsterdam hefur ákveðið, að loka skuli vændishúsi í hjarta borgarinnar, sem talið er, að Vítisenglar, Hell's Angels, reki. Er litið á þetta sem lið í því að rjúfa tengsl milli kynlífsiðnaðar og skipulagðrar glæpastarfsemi.

Fimmtudagur, 03. 01. 08. - 3.1.2008 21:59

Áður hef ég vakið athygli á lofsamlegum ummælum um kvikmyndina Das Leben der Anderen. Nú rakst ég á grein um myndina eftir Paul Cantor, prófessor í ensku við Virginíuháskóla, í nýjasta hefti Books & Culture. Hún hefst á þessum orðum:

„Florian Henckel von Donnersmarck's The Lives of Others, now available on DVD, is the best feature film debut by a director since Orson Welles's Citizen Kane. Coming it seemed out of nowhere and defying all the conventional wisdom of the motion picture industry, Donnersmarck achieved a remarkable commercial and critical success with his first full-length film, culminating when it won the Oscar for Best Foreign Picture of 2006.“

Reynir Traustason ritstjóri ritar á dv.is:

„,,Fáninn er á þeim stað sem hann hefur verið í mörg ár. Þeirri staðsetningu er ekki breytt við viðburði eða athafnir á Bessastöðum. Nýársávarp forseta er tekið upp í salnum á Bessastöðum og engu breytt af því tilefni,“ segir Örnólfur Thorsson forsetaritari vegna þeirrar athugasemdar Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra að forsetinn hafi brotið fánalög með því að hafa íslenska fánann á vinstri hönd þegar hann flutti ávarp til þjóðarinnar á nýársdag. DV sagði frá málinu í dag og vísaði til heimasíðu Björns. Örnólfur segir að ekki standi til að breya neinu þrátt fyrir gagnrýni ráðherrans. “

Feitletrun er mín, en þarna fer ritstjórinn með rangt mál. Ég sagði þessa staðsetningu fánans „stílbrot“ og birti kafla úr fánareglum. Engin ákvæði eru um þetta í fánalögum.

Miðvikudagur, 02. 01. 08. - 2.1.2008 21:09

Það eru víðar smíðuð nýyrði en í íslensku, þar á meðal á ensku en þar er nafnorðið commentariat að ryðja sér rúms um þann hóp manna, sem segir álit sitt á fréttum eða skýrir þær. Orðið er smíðað úr tveimur orðum commentator (álitsgjafi) og proletariat (öreigar). Fyrst birtist það opinberlega árið 1993 í grein í The Washington Post.

Til skýringar á orðinu er sagt, að það nái til dæmis til stjórnenda umræðuþátta og gesta þeirra, dálkahöfunda blaða og tímarita og pólitískra bloggara. Nú þarf að huga að íslensku nýyrði um þessa skoðanamótandi atvinnumenn - orðið álitsgjafi er hlutlaust miðað við broddinn í commentariat.

 

 

 

Þriðjudagur, 01. 01. 08. Nýársdagur. - 1.1.2008 14:17

Gleðilegt ár!

Í ágætu áramótaávarpi sínu að kvöldi gamlársdags komst Geir H. Haarde forsætisráðherra meðal annars svo að orði:

„Sérhver þjóð á sér merki og tákn um stöðu sína og samheldni. Fáninn er eitt þeirra en annað er þjóðsöngurinn. Hann hefur reynst mörgum þungur í skauti í söng og segja má að það hafi spillt nokkuð fyrir almennri notkun hans. Af þeim sökum beitti forsætisráðuneytið sér fyrir því, í samvinnu við fagmenn, að koma á framfæri nýrri og meðfærilegri útgáfu þjóðsöngsins til hliðar við hina eldri. Ég vona að vel hafi til tekist og að hið volduga og fagra lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar heyrist sungið við fleiri tækifæri en áður.

Þjóðsöngurinn okkar, lofsöngur sr. Matthíasar til Guðs vors lands og íslensku þjóðarinnar, er sjaldan sunginn allur, en hann hittir sannarlega þann streng í brjóstum okkar sem slíkur söngur á að snerta.“

Söngelskt fólk fagnaði þessum orðum forsætisráðherra og taldi þau í tíma töluð, þar sem þjóðsöngurinn væri oftar fluttur sem tónverk en sunginn og mætti þar sérstaklega nefna Ríkisútvarpið til sögunnar. Hvers vegna er þjóðsöngurinn til dæmis ekki sunginn eftir ávarp forseta Íslands á nýársdag? Hvers vegna er þjóðsöngurinn ekki sunginn í Ríkisútvarpinu um áramót? Orðið „þjóðsöngur“ ætti að vera stjórnendum Ríkisútvarpsins næg ábending um, hvernig flytja skuli verkið.

Íslenski fáninn sómir sér vel í sal alþingis við hægri öxl þess, sem situr á forsetastóli þingsins og ræðumanns í salnum. Þarna er farið að reglum um stað fánans. Skjaldarmerkið er við hægri öxl forsætisráðherra, þegar hann flytur áramótaávarp sitt. Þegar forseti Íslands flytur þjóðinni nýársávarp sitt úr sal Bessastaða, er íslenski fáninn hins vegar við vinstri öxl forsetans. Þetta er stílbrot.

Í fánareglum segir: „Sé fáni á stöng við altari, ræðustól eða ræðuborð, leiksvið eða annan sambærilegan stað, skal hann vera vinstra megin séð frá áhorfanda.“