28.1.2008 21:12

Mánudagur, 28. 01. 08.

Málsvörn þeirra, sem verja ólætin á ráðhúspöllunum og einstæð skrif eða ummæli um Ólaf F. Magnússon, tekur á sig furðulegar myndir.

Fréttablaðið er flaggskip Baugsmiðlanna og útgáfan ræðst af fjölda auglýsinga. Borgaralegri forsenda fyrir útgáfu blaðs er óhugsandi. Þó telur Páll Baldvin Baldvinsson, leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag, trúverðugt, að Fréttablaðið sé að verða vettvangur fyrir and-borgaralegar skoðanir. Breytast í einskonar síðari tíma Þjóðvilja til að geta tekið upp hanskann fyrir þá, sem standa fyrir hrópum og köllum á borgarstjórnarfundum.

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður ungra jafnaðarmanna, sem var fremst í flokki mótmælenda á ráðhúspöllunum, skrifar um lýðræði í Fréttablaðið í dag og skilgreinir á þann frumlega hátt, að ekki hafi mátt skipta um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, af því að ekki hafi verið málefnaágreiningur í meirihlutanum, sem splundraðist. Vandinn við þann meirihluta var, að hann setti ekki fram nein málefni - kannski til að springa ekki vegna þeirra? Hvernig getur meirihluti án sameiginlegra málefna sprungið vegna ágreinings um þau?

Þá setur hún orðið meirihluti innan gæsalappa, af því að varamaður Ólafs F. hefur enn og aftur hlaupið af hólmi. Anna Pála er laganemi. Hvar hefur hún kynnst þeirri kenningu í lögfræði, að meirihluti á þingi, í stjórnum eða ráðum byggist á afstöðu varamanna?

Umræður um Spaugstofuna og Ólaf F. leiði ég hjá mér, þar sem ég horfði ekki á hana. Almennt minnir Spaugstofan mig á veröld sem var - dálítið eins og að koma til Austur-Þýskalands, þegar múrinn var hruninn og menn voru að leita að nýrri framtíð en þó enn í gamla tímanum. Stundum getur slíkt ástand verið hlægilegt en sjaldan fyndið.