Dagbók: september 2003

Þriðjudagur, 30. 09. 03 - 30.9.2003 0:00

Klukkan 17.00 efndi borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna til fundar í Valhöll með forráðamönnum hverfafélaganna og kynntum við það, sem er efst á baugi í borgarmálunum.

Klukkan 20.00 var ég á fundi hjá Hvöt í Valhöll og ræddi um stjórnmálaviðhorfið, einkum um varnar- og öryggismál.

Mánudagur, 29. 09. 03 - 29.9.2003 0:00

Klukkan 15.00 var samsæti í nýjum húsakynnum dómsmálaráðuneytisins fyrir stjórn og forráðamenn Bindindisfélags ökumanna, sem stofnað var fyrir 50 árum í húsnæði því, sem ráðuneytið hefur nú.

Laugardagur, 27. 09. 03 - 27.9.2003 0:00

Klukkan 09.00 hófst haustferð starfsmanna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og var ég með í henni fram yfir hádegi og veitti leiðsögn á gönguferð um Þingvelli.

Föstudagur, 26. 09. 03. - 26.9.2003 0:00

Flutti klukkan 13.00 setningarávarp á málþingi Lögfræðingafélagi Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands í tilefni af 50 ára afmæli gildistöku mannréttindasáttmála Evrópu.

Fimmtudagur, 25. 09. 03. - 25.9.2003 0:00

Klukkan 13.15 var ég í Lögregluskólanum við Krókháls og fór þar í skoðunaferð, hitti skólastjóra, kennara og nemendur og ræddi um skólastarfið og framtíð þess til klukkan tæplega 16.00.

Mánudagur, 22. 09. 03. - 22.9.2003 0:00

Klukkan 13.30 kom Davíð Oddsson forsætisráðherra í nýtt hús dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við Skuggasund og afhenti mér lykla að því á formlegan hátt og skoðaði síðan húsið.

Klukkan 14.00 var efnt til blaðamannafundar til að kynna nýja útgáfu af Lagasafninu og jafnframt var sagt frá nýja húsnæðinu.

Sunnudagur, 21. 09. 03. - 21.9.2003 0:00

Fór klukkan 06.00 af stað frá Kvoslæk í göngur, fékk lánaðan hestinn Sleipni hjá Eggerti Pálssyni, bónda á Kirkjulæk og komum við til byggða um klukkan 15.30. Síðan var féð rekið í réttina um klukkutíma síðar og vorum við þar fram undir sex í norðanroki.

Laugardagur, 20. 09. 03 - 20.9.2003 0:00

Fór um klukkan 07.00 í göngur með Fljótshlíðarbændum en við urðum að snúa til baka um hádegisbilið vegna þess, hve veðrið var vont.

Fimmtudagur, 18. 09. 03 - 18.9.2003 0:00

Kom mér fyrir í nýrri ráðherraskrifstofu í nýjum húsi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við Skuggasund.

Miðvikudagur, 17. 09. 03 - 17.9.2003 0:00

Flaug heim  með kvöldflugi frá Róm um London.

Þriðjudagur, 16. 09. 03 - 16.9.2003 0:00

Tók þátt í pallborðsumræðum Microsoft-ráðstefnunnar og fjallaði um upplýsingatækni og stjórnsýslu fram til ársins 2010.

Mánudagur, 15. 09. 03 - 15.9.2003 0:00

Lenti í Keflavík um klukkan 06.00 og hélt þaðan áfram til Frankfurt klukkan 07.30, var komin til Rómar um 15.30 og skráði mig á ráðstefnu Microsoft og ítölsku ríkisstjórnarinnar um upplýsingatækni.

Sunnudagur, 14. 09. 03. - 14.9.2003 0:00

Fór um hádegisbil frá Leesburg til Dulles-flugvallar við Washington til að fara þaðan með Continental um Newark til Rómar. Fluginu til Newark aflýst. Ákveð að fara til Baltimore og taka kvöldvél Flugleiða til Keflavíkur og halda þaðan áfram til Rómar.

Föstudagur, 12. 09. 03 - 12.9.2003 0:00

Flaug síðdegis frá Keflavík til Baltimore og ók þaðan til Leesburg í Virginæiu á ársfund IISS.

Mánudagur, 08. 09. 03. - 8.9.2003 0:00

Klukkan 10.15 hitti ég Luo Gan einn af níu  mönnum í stjórnmálaráði kínverska kommúnistaflokksins, en hann fer með yfirstjórn dóms- og lögreglumála í Kína. Var fundur okkar í 45 mínútur og fór fram í Þjóðmenningarhúsinu.

Klukkan 12.00 var ég gestgjafi Luo Gans í hádegisverði í Þjóðmenningarhúsinu. Áður en við settumst að borðum sýndi ég honum handritin. Lauk hádegsiverðinum um klukkan 13.00 og þá ákváðu öryggisverðir hans, að Luo Gan skyldi fara út um bakdyr Þjóðmenningarhússins, þar sem nokkur hópur manna hafði komið saman til að mótmæla en einnig Kínverjar á Íslandi til að fagna. Sást í sjónvarpi, að til einhverra stympinga kom milli Sigurðar A. Magnússonar, sem stóð með spjald á vegum Amnesty, og Kínverja með rauðan fána.

Klukkan 19.30 var ég í Kastljósi sjónvarpsins hjá Kristjáni Kristjánssyni og svaraði spurningum vegna Luo Gans og skipunar Ólafs Barkar Þorvaldssonar í hæstarétt.

Föstudagur, 05. 09. 03. - 5.9.2003 0:00

Klukkan 15.00 kom Margareta Winberg, aðstoðarforsætisráðherra og jafnréttisráðherra Svíþjóðar, til fundar við mig í ráðuneytinu og ræddum við um samstarf til að sporna við vændi og verslun með fólk.

Fimmtudagur, 04. 09. 03. - 4.9.2003 0:00

Borgarstjórnarfundir hófust að nýju að loknu sumarleyfi og stóð þessi fyrsti fundur frá klukkan 14.00 til 22.00. Ég skrapp frá í tvo tíma klukkan 16.00 til að flytja ávarp á fimm ára áfmælishátíð Háskólans í Reykjavík.

Mánudagur, 01. 09. 03. - 1.9.2003 0:00

Klukkan 12.00 var ég í varðskipinu Tý við Ingólfsgarð í Reykjavíkurhöfn með starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins. Hófst þar heimsókn til Landhelgisgæslunnar á hádegisverði. Síðan var haldið í höfuðstöðvar gæslunnar að Seljavegi 32 og kynntum við okkur starf í stjórnstöð hennar og sprengjueyðingarmanna. Loks héldum við á Reykjavíkurflugvöll og fórum meðal annars í ferð með þyrlunni Líf.