Dagbók: apríl 2000

Laugardagur 29.4.2000 - 29.4.2000 0:00

Klukkan 10.00 hélt ráðstefna sérfræðinga um víkingasöguna áfram meðal annars með fyrirlestri Gísla Sigurðssonar. Klukkan 13.00 sýndi Helga Arnalds brúðuleikþátt sinn um Leif heppna. Klukkan 17.30 héldum við frá Washington til Baltimore og þaðan til Íslands en lent var klukkan 6.00 að morgni 30. apríl. Flugum við með hinni nýju Boeing 757-vél Flugleiða, Leifi Eiríkssyni, og gekk þar allt með ágætum og samkvæmt áætlun.

Föstudagur 28.4.2000 - 28.4.2000 0:00

Klukkan 8.00 var haldið af stað til Smithsonian til þátttöku í ráðstefnu sérfræðinga um víkingasöguna. Við upphaf hennar flutti ég ávarp. Klukkan 13.00 hófst hádegisverðarboð forsetahjónanna í Hvíta húsinu. Klukkan 17.30 var frumsýning á sjónvarpsmynd um víkingaferðirnar og Leif Eiríksson eftir Valgeir Guðjónsson í bústað sendiherra Íslands.

Fimmtudagur 27.4.2000 - 27.4.2000 0:00

Klukkan 9.30 hófst athöfn í Náttúrusögusafni Smithsonian-stofnunarinnar í Washington og síðan fórum við og skoðuðum Víkingasýningu safnsins. Hádegisverður í boði Smithsonian í höfuðstöðvum safnsins. Þar var Howard Baker, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður og náinn samstarfsmaður Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta, gestgjafi. Síðdegis fór ég í menntamálaráðuneyti Bandaríkjanna og átti þar fund með þeim, sem stjórna stefnumótun að því er varðar nýtingu tölvutækninnar í skólum. Klukkan 18.30 hófst mikil veisla í Smithsonian-safninu vegna þess að Víkingasýningin var opnuð.

Miðvikudagur 26.4.2000 - 26.4.2000 0:00

Flugum síðdegis til Baltimore og ókum þaðan til Washington DC.

Mánudagur 24.4.2000 - 24.4.2000 0:00

Klukkan 15.00 var ég í Sunnudagskaffi hjá Kristjáni Þorvaldssyni á Rás 2, en þátturinn var að þessu sinni á mánudegi, öðrum í páskum.

Fimmtudagur 20.4.2000 - 20.4.2000 0:00

Klukkan 14.00 var Þjóðmenningarhúsið opnað og var ég meðal þeirra, sem fluttu ávarp. Klukkan 16.00 var afmælishátíð Þjóðleikhússins og var ég í hópi þeirra, sem fluttu afmælisávörp. Klukkan 20.00 var frumsýning á Jónsmessunæturdraumi eftir Shakespeare í Þjóðleikhúsinu.

Miðvikudagur 19.4.2000 - 19.4.2000 0:00

Þetta var mikill gleðidagur, því að þá eignuðust Sigríður Sól dóttir okkar og Heiðar Már eiginmaður hennar son, fyrsta barnabarnið okkar Rutar. Klukkan 14.00 voru nýir salir Listasafns Reykjavíkur opnaðir í Hafnarhúsinu. Klukkan 20.00 fór ég í Hallgrímskirkju og hlustaði á Mótettukórinn flytja Jóhannesarpassíuna undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Þriðjudagur 18.4.2000 - 18.4.2000 0:00

Klukkan 16.00 var athöfn í Þjóðarbókhlöðunni vegna þess að í fyrsta sinn var úthlutað fjármunum úr Launasjóði fræðiritahöfunda.

Föstudagur 14.4.2000 - 14.4.2000 0:00

Klukkan 16.00 var fundur í fulltrúaráði listahátíðar í Reykjavík og þar var skýrt frá því, að Þórunn Sigurðardóttir hefði verið ráðin fyrstu listræni stjórnandi hátíðarinnar.

Fimmtudagur 13.4.2000 - 13.4.2000 0:00

Klukkan 10.00 flugum við til Ísafjarðar, héldum fundi með nemendum og kennurum Menntaskólans á Ísafirði og síðan með fulltrúum bæjarstjórnar og heimsóttum þróunarsetur. Komum heim aftur um klukkan 18.00 og fór ég þá á kynningarfund hjá Össuri hf. í Listasafni Íslands.

Miðvikudagur 12.4.2000 - 12.4.2000 0:00

Klukkan 13.15 hófst ársfundur Rannsóknarráðs Íslands og var ég meðal ræðumanna þar. Klukkan 16.00 var athöfn í Alþingishúsinu í tilefni af útgáfu ritverksins Kristni á Íslandi, sem alþingi kostaði og kom út þennan dag.

Þriðjudagur 11.4.2000 - 11.4.2000 0:00

Klukkan 12 á hádegi var haldið upp á afmæli Félags járniðnaðarmanna í Marel og þar fengum við að skoða framleiðslu í hátæknifyrirtæki og flytja afmælisbarninu heillaóskir.

Mánudagur 10.4.2000 - 10.4.2000 0:00

Klukkan 17.00 var opnuð myndasýning í Þjóðarbókhlöðunni á vegum utanríkisráðuneytisins í tilefni af 60 ára afmæli utanríkisþjónustunnar.

Sunnudagur 9.4.2000 - 9.4.2000 0:00

Klukkan 14.00 fór ég á Vorvítamín Hamrahlíðarkóranna. Klukkan 19.00 fór ég í Borgarleikhúsið og sá Fegurðardrottninguna á Línakri.

Laugardagur 8.4.2000 - 8.4.2000 0:00

Klukkan 17.00 fór ég á aðalfund Árvakurs hf.

Föstudagur 7.4.2000 - 7.4.2000 0:00

Klukkan 8.30 tók ég þátt í setningarfundi ráðstefnu norrænna blaðahönnuða og teiknara á Grand hóteli. Klukkan 17.00 fór ég aðalfund Granda hf.

Fimmtudagur 6.4.2000 - 6.4.2000 0:00

Klukkan 10.00 setti ég samstarfsnefndarfund með skólameisturum og tók þátt í umræðum á honum fram að hádegi.

Miðvikudagur 5.4.2000 - 5.4.2000 0:00

Klukkan 10.00 var blaðamannafundur í Listasafni Íslands, þar sem Microsoft kynnti með formlegum hætti íslenska útgáfu sína á Windows 98. Síðdegis svaraði ég fyrirspurn á alþingi frá Kolbrúnu Halldórsdóttur um Fullorðinsfræðslu fatlaðra. Klukkan 17.00 setti ég 19. Reykjavíkurmótið í skák í Ráðhúsinu.

Þriðjudagur 4.4.2000 - 4.4.2000 0:00

Síðdegis komu fulltrúar skáta á minn fund og afhentu mér bækur, sem skátahreyfingin hefur gefið út. Ég flutti á alþingi frumvarp um sjálfstæði Íslenskrar málstöðvar.

Mánudagur 3.4.2000 - 3.4.2000 0:00

Klukkan 9.00 setti ég norræna ráðstefnu um fjármögnun háskólastigsins og tók síðan þátt í pallborðsumræðum um málið. Síðdegis svaraði ég óundirbúinni fyrirspurn á alþingi frá Kolbrúnu Halldórsdóttur um skólanámskrár MR og MA.

Sunnudagur 2.4.2000 - 2.4.2000 0:00

Klukkan 14.00 fór ég í Ráðhúsið og setti kynningardaga Fullorðinsfræðslu fatlaðra. Um kvöldið fórum við síðan og sáum Íslenska dansflokkinn sýna list sína í Borgarleikhúsinu.

Laugardagur 1.4.2000 - 1.4.2000 0:00

Klukkan 13.00 var ég við upphaf Heimsmeistaramóts í atskák í Salnum í Kópavogi. Klukkan 13.30 sótti ég 70 ára afmælistóleika Lúðrasveitarinnar Svans. Klukkan 15.00 var ég í Listasafni Íslands, þegar einstök sýning á Þingvallamyndum eftir Jóhannes S. Kjarval, Ásgrím Jónsson og Jón Stefánsson var opnuð. Klukkan 16.00 opnaði ég fróðlega og vel skipulagða sýningu um sögu Reykjavíkur í Árbæjarsafni.