Dagbók: 2016

Laugardagur 31. 12. 16 - 31.12.2016 13:30

 

Glöggur lesandi þess sem hér stóð í gær sendi mér þessa athugasemd:

„Ég skil ekki hvers vegna þú undrast á: „Kröfugerðina á hendur öðrum, einkum stjórnvöldum" Í landi þar sem hið opinbera á 80% eigna þjóðarinnar og 30% landsmanna 15% þannig að aðeins 5% er til skipta fyrir 70% landsmanna (Mbl. 3. des 2015) munu menn gera kröfur til „eigenda“ 95% þjóðareignarinnar. Endurúthlutunarþjóðfélagið (Mbl. 19. jan. 2013) virkar svona. Það mun ganga af sjálfu sér dauðu þegar það gengur ekki lengur upp.“

Hér verður ekki rýnt í hlutfallstölurnar sem nefndar eru í athugasemdinni eða þær dregnar í efa. Þær gefa ekki gott fyrirheit um framtíðina því að ekki skilar neinu til lengdar að gera aðeins kröfur til annarra í stað þess að líta í eigin barm og láta að sér kveða á eigin forsendum.

Nú þegar vinstrisinnaðir hagfræðingar telja mannkyni helst til bjargar að auka jöfnuð má minnast þess að GINI-stuðullinn margumtalaði sem mælir misskiptingu auðs innan samfélaga hefur aldrei verið lægri á Íslandi, það er jafnréttið sem stuðullinn mælir hefur aldrei verið meira hér á landi.

Í áramótagrein í Morgunblaðinu segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Nú við áramót er ástæða til að líta um öxl á árangur síðustu ára. Á þessu ári varð ljóst að kostnaður íslenska ríkisins vegna hrunsins yrði endurheimtur og gott betur. Afgangur fjárlagaáranna 2014-2016 vegur upp allan hallarekstur áranna á undan. Þjóðarframleiðslan hefur náð sér á strik og er orðin meiri en þegar best lét fyrir fall bankanna, uppgangur ferðaþjónustunnar hefur þar gegnt stóru hlutverki.[...]

Ísland á í fyrsta sinn í yfir 50 ár meira erlendis en það skuldar, skuldastaða heimila og fyrirtækja er orðin betri en í lok síðasta góðæris, verðbólga er lítil og kaupmátturinn vex verulega ár frá ári.“

Ótrúlegur efnahagslegur árangur hefur náðst undanfarin misseri. Kosningarnar 29. október 2016 skapa forsendur fyrir pólitísk þáttaskil með myndun ríkisstjórnar á grundvelli stefnu um hvernig nýta skuli þennan árangur með því að auka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra.

Þakka samfylgdina á árinu 2016.


Föstudagur 30. 12. 16 - 30.12.2016 9:45

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins var lögð spurning fyrir forystufólk úr atvinnulífinu í tilefni af áramótunum. Efni hennar var á þá leið hvað stjórnvöld gætu gert á nýju ári til að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyrðu samtökum svarenda. 

Efni spurningarinnar er í takt við þann tíðaranda sem setur sífellt meiri svip á almennt viðhorf. Kröfugerðina á hendur öðrum, einkum stjórnvöldum. Hún einkennir svo að segja allar fréttir, einkum ríkisútvarpsins. Stundum má velta fyrir sér hvort ekkert þyki fréttnæmt nema finna megi þann flöt á málinu að unnt sé að krefjast frekari opinberra afskipta. 

Innan opinbera kerfisins vísa menn gjarnan hver á annan. Nú segir til dæmis talsmaður opinbera hlutafélagsins Isavia, sem þekkt er fyrir leyndarhyggju, að vilji menn lenda á svonefndri neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli þurfi þeir ekki annað en biðja um leyfi í innanríkisráðuneytinu! Brautinni var lokað að gengnum dómi í hæstarétti. 

Í annan stað kvarta menn undan auknu regluveldi. Að hinu leytinu vilja menn aukna stýringu af opinberri hálfu.

Engin atvinnugrein hefur dafnað hraðar undanfarið en ferðaþjónustan. Hvert er helsta umkvörtunarefni Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um áramótin? Hún sagði í ríkisútvarpinu í morgun:

„Hér kemur glæný atvinnugrein skoppandi inn á leikvöllinn og menn eru ekki tilbúnir að taka henni af fullri festu og alvöru og hafa trú á greininni sem heils árs atvinnugrein, sem er komin til að vera. Auðvitað hefði ég viljað sjá stjórnvöld taka miklu fastar á þeim verkefnum sem við blasa. Það þarf að tryggja betur innviðina. Það þarf stýringu. [...] Stjórnvöld hefðu þurft að bregðast við af meiri þunga mun fyrr.“

Í frétt á ruv.is um þetta samtal kemur ekki fram hvað stjórnvöld hefðu átt að gera fyrr. Leggja á skatt til að takmarka fjölda ferðamanna? Stýra komu þeirra til landsins á annan hátt? Setja þak á fjölda farþegavéla til landsins? Skattleggja hótelbyggingar eða húsbreytingar sérstaklega til að hefta fjölgun gististaða?

Þjóðlífið hefur lagað sig að gífurlegri fjölgun ferðamanna mun hraðar en nokkurn gat grunað. Að breyta þessari fjölgun í sérstakt vandamál fyrir stjórnvöld og krefjast meiri stýringar af þeirra hálfu er flótti frá meginviðfangsefni atvinnugreinarinnar: að leysa sín mál sjálf á eigin forsendum. Það hefur sannast að allt inngrip af hálfu stjórnvalda leiðir aðeins til mótmæla og deilna innan greinarinnar.

Fimmtudagur 29. 12. 16 - 29.12.2016 10:15

Viðtal mitt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN í gærkvöldi vakti athygli víða.  Það má sjá áfram í dag klukkan 12.00, 14.00, 16.00 og 18.00 fyrir utan að vera á tímaflakki Símans. Þá má sjá þáttinn hér.

Draga má þá ályktun af viðtalinu að Bjarna finnist nýrri ríkisstjórn skorinn of þröngur stakkur styðjist hún aðeins við 32 þingmenn, það er eins atkvæðis meirihluta. Þannig yrði staðan ef sjálfstæðismenn mynduðu stjórn með þingmönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Það hefur örugglega ekki orðið til að auka bjartsýni Bjarna um innri styrk slíkrar ríkisstjórnar hve langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður hans við tvíhöfðana Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé hafa verið. Í fréttum um viðræður þeirra kemur meira að segja fram að enn sé ágreiningur um ESB-málið.

Í viðtalinu á ÍNN lýsti Bjarni skoðun sinni á þann veg að yrði ESB-aðild hreyft að nýju yrði alþingi að taka ákvörðun um að sækja um aðild og síðan yrði að bera þá samþykkt þingsins undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Hann vék jafnframt þungum gagnrýnisorðum að samþykkt þingsins frá 16. júlí 2009.

Umsóknin var 2009 var meingölluð, samþykkt með fyrirvara um að hlaupa mætti frá henni, aðildarferlinu var siglt í strand og því hætt af þeim sem sendu umsóknina til Brussel. Síðan var umsóknin formlega afturkölluð af réttum íslenskum yfirvöldum. Í öllu ferlinu kusu ESB-menn að slá úr og í gagnvart Íslandi og einnig eftir afturköllunina. Þetta er þeirra háttur eins og blasir nú við Bretum eftir ákvörðun þeirra um ESB-úrsögnina.

Sé enn ágreiningur um ESB-málið milli Bjarna og viðmælenda hans frá Viðreisn og Bjartri framtíð getur hann ekki stafað af öðru en því að viðmælendurnir haldi fast í þá skoðun að ályktun alþingis frá 2009 eigi enn að liggja til grundvallar í samskiptum íslenskra stjórnvalda og ESB. Fastheldni í þessa afdönkuðu samþykkt felur í sér skilningsleysi á eðli hennar og öllu sem síðan hefur gerst í samskiptunum við ESB, meira að segja dauði ESB-flokksins, Samfylkingarinnar, dugar ekki til að opna 2009-mannanna í ESB-málum. 

Miðvikudagur 28. 12. 16 - 28.12.2016 15:00

Í dag ræddi ég við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er klukkustund að þessu sinni og verður hann frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld. Hann skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum ræðum við um alþjóðamál, í öðrum hlutanum snýst samtal okkar um stjórnmálin á heimavelli og í þriðja hlutanum ræðum við stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðunum. Sjón er sögu ríkari.

Í athyglisverðri grein Óla Björns Kárasonar, alþingismanns og ritstjóra Þjóðmála, í Morgunblaðinu í dag er lýst átökum um skattamál á alþingi rétt fyrir jólin. Þar segir:

„Á lokasprettinum við afgreiðslu fjárlaga 2017 voru felldar ýmsar tillögur um hækkun skatta og gjalda. [...] Róttækustu tillögurnar um hækkun skatta voru í nafni Vinstri grænna og var formaðurinn Katrín Jakobsdóttir flutningsmaður. Hún átti stuðningsmenn í öðrum flokkum.

Katrín vildi hætta við að fella niður milliþrep í tekjuskatti, innleiða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt með 20% og 25% þrepum, endurvekja eignarskatt undir hatti auðlegðarskatts, setja komugjöld á farþega, hækka kolefnisgjald enn frekar og setja á sykurskatt. Tillögurnar fólu í sér róttækar skattkerfisbreytingar og verulega hækkun skatta. Þær voru lagðar fram daginn áður en gengið var frá fjárlögum og tekjuforsendum þeirra og voru ekki ræddar í þingnefnd. Katrín sætti að ósekju gagnrýni fyrir vinnubrögðin. Hún var „kosin á þing fyrir pólitískar skoðanir og væntanlega erum við öll hér þess vegna,“ svo vitnað sé til orða Katrínar. Tillögurnar voru því eðlilegar og í samræmi við grunnhugmyndir vinstri manna í öllum flokkum.“

Tillögur Katrínar voru felldar á afgerandi hátt þegar litið er á atkvæðatölurnar þótt efnisleg afstaða sumra hafi verið blendin og vekur þar sérstaka athygli að af hálfu Viðreisnar var beitt tæknilegum en ekki efnislegum rökum gegn tillögunum.

Óli Björn segir réttilega að vegna hugsjóna vinstri grænna (VG) sé ekki unnt að álasa formanni þeirra að hafa lagt fram þessar tillögur. Þær voru hins vegar felldar og mætti því ætla að þingflokki Katrínar Jakobsdóttur sé ljóst að tillögurnar njóta ekki hljómgrunns og eiga því ekki erindi í stjórnarmyndunarviðræður sé í raun vilji til að þær beri árangur. Helst virðist samhljómur milli VG og Pírata í skattamálum.

 

Þriðjudagur 27. 12. 16 - 27.12.2016 13:45

Mánudagur 26. 12. 16 - 26.12.2016 15:15

Á árinu 2016 hefur hælisumsóknum í Noregi fækkað um 90%. Talið er að umsóknirnar verði alls um 3.000 í ár en voru 31.150 árið 2015. Þróunin hefur verið einstök að þessu leyti í Noregi. Í október einum árið 2016 lögðu 2.425 hælisleitendur fram umsóknir í Svíþjóð, um 600 færri en allt árið 2016 í Noregi.

Sylvi Listaug úr Framfaraflokknum er ráðherra innflytjendamála í Noregi. Hún sagði við vefsíðuna ABC Nyheter í nóvember: „Til þessa hafa um 2.700 hælisleitendur komið til Noregs í ár. Þeir eru næstum tvöfalt fleiri í Danmörku og rúmlega 22.000 í Svíþjóð á sama tíma. Þetta er ekki eingöngu unnt að skýra með landamæraeftirlitinu. Pólitísk skilaboð hafa áhrif og ég óttast að verði skipt um ríkisstjórn og Verkamannaflokkurinn taki við stjórnarforystu breytist þetta.“

Lars Østby, sérfræðingur í innflytjendamálum hjá norsku hagstofunni, tekur undir með ráðherranum gildi pólitískra yfirlýsinga þótt hann efist um að Listhaug-áhrifin séu jafnmikil og tölurnar gefa til kynna, aðrir þætti eigi einnig hlut að máli. Norskir sérfræðingar segja að mestu skipti samningur ESB og Tyrklands um lokun leiðarinnar frá Tyrklandi til grísku eyjanna. Þeir sem komi á bátum frá Líbíu yfir Miðjarðarhaf til Ítalíu eigi erfitt með að fá hæli í Noregi.

Norðmenn gerðu fyrir nokkrum misserum sérstakar ráðstafanir til að stöðva straum hælisleitenda frá Albaníu eða öðrum Balkanlöndum. Þeim var gert ljóst á afgerandi hátt að ekki þýddi að óska eftir hæli í Noregi, fólki yrði snúið til baka á 48 stundum enda kæmi það frá löndum sem teldust örugg miðað við alþjóðareglur.

Hér á landi hefur ekki verið gripið til jafnskipulegra aðgerða og í Noregi til að gera hælisleitendum sem ekki hafa neina lögmæta ástæðu til að leggja fram umsókn hér afdráttarlaust ljóst að umsóknirnar séu tilgangslausar. Í fyrra var um þetta leyti gefið „pólitískt merki“ frá alþingi um að ríkisborgaralögum kynni að verða beitt til að koma til móts við óskir hælisleitenda frá Albaníu. Þetta hefur dregið dýrkeyptan dilk á eftir sér.

Þegar ráðist var í smíði nýrra útlendingalaga hér var haft á orði að farið yrði að norskri fyrirmynd. Hafi það verið gert er augljóst að í lögum eru heimildir sem unnt er að nýta til að takmarka tilhæfulausan straum hælisleitenda hingað. Þessar heimildir á að sjálfsögðu að nýta á sama hátt og gert hefur verið í Noregi.

Sunnudagur 25. 12. 16 - jóladagur - 25.12.2016 15:30

 

Norska skáldið Knut Ødegård lauk á árinu þýðingu á fjögurra binda verki Edda-dikt. Cappelen Damm er útgefandi þessara glæsilegu bóka þar sem íslenski textinn úr Konungsbók Eddukvæða birtist á vinstri síðu en þýðing Knuts Ødegårds á hægri síðu. Í formála þriðja bindis segir norski menningarmaðurinn Lars Roar Langslet sem lést 18. janúar 2016:

„Ingen kunn være bedre rustet til å gjendikte Edda-kvadene for dagens norske lesere enn Knut Ødegård, som selv er fullblods poet, med et rikt forfatterskap bak seg. Det borger for at de poetiske kvalitetene í denne urgamle diktingen ikke blir avbleket í filologosk korrekthet. Men formidleren Ødegård er seg klart bevisst at han burde velge et språkform som ikke krever at leseren stadig må slå opp í ordbøker for å fatte ordmeningene – derfor har han holdt seg til et forholdsvis moderne nynorsk. I tillegg er hann grunnlærd í de norrøne og lojal mot sin lærdom, med innsikt i de nyeste forskningsarbeider på feltet, og med gode faglige hjelpere.

En bedre formidler av denne storslagne diktingen kunne vi ikke få. Det er et kjempeverk han nå er i ferd med å fullføre – en ny bragd føyet på hans lange merittliste.“

Lars Roar Langslet minnir á það í formála sínum í þriðja bindinu á þessu mikla verki að Eddukvæðin séu stöðug uppspretta fyrir aðra listamenn allt fram til dagsins í dag. Eitt magnaðasta listaverkið reist á hetjukvæðunum er Niflungahringur Richards Wagners – óperuverk í fjórum hlutum sem tekur rúmlega 15 klukkustundir að flytja. Þegar ég horfi á það undrast ég að náttúrvinir og umhverfisvernarsinnar skuli ekki hafa nýtt sér boðskap þess málstað sínum til framdráttar.

Með þetta í huga gladdi mig þegar ég las í eftirmála Knuts Ødegårds í fjórða bindi þýðingarinnar miklu að máttugur kveðskapur hetjukvæðanna í Konungsbók ætti að minna okkur á að ganga varlega um auðlindir jarðar, hann snýst um bölvunina sem fylgir illa fengnu gulli. Lokaorð Knuts Ødegårds í eftirmála hans eru:

„Det er gledeleg at det nett í våre dagar er ei veksande interesse for den norrøne diktinga her til lands, det er jamvel tale om ein „norrøn vår“. Denne diktinga er ikkje berre vår norrøne arv, men i høgste grad forteljingar for vår tid ­– og kanskje meir aktuelle og utfordrande enn nokon gong.·

Um leið og þýðingu Knuts Ødegårds er fagnað skal vakið máls á mikilvægi þess að leitast sé við að skrá og greina hve mikil áhrif Snorri Sturluson og hans menn í Reykholti hafa haft á heimsmenninguna með því sem þeir skráðu fyrir 800 árum.

 

 

Laugardagur 24. 12. 16 - 24.12.2016 15:30

Gleðileg jól!

Í Morgunblaðinu birtast fréttir um að þrýst sé að Þingvallanefnd um leyfi til að reisa 1.200 manna veitingahús í landi Gjábakka innan þjóðgarðsins að austanverðu. Nefndin hefur þegar hafnað þessum tilmælum en aðstandandi verkefnisins segir í blaðinu í dag: „Við erum ekki af baki dottnir og munum kynna verkefnið áfram.“ 

Til að tryggja að sem minnst mengun verði af starfseminni er ætlunin að forvinna mat á Laugarvatni og jafnframt að þvo allt notað leirtau utan þjóðgarðsins þannig að skolvatn verði í lágmarki. Kostnaður er talinn um 1.400 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að ríkið eignist veitingahúsið og það sem því fylgir á 30 árum. Loks segir í frétt Morgunblaðsins að aðferðafræði og við fjármögnun Hvalfjarðarganga á sínum tíma sé fyrirmynd og ekki sé reiknað með fjármagni frá ríkinu í verkið.

Af fréttinni má ráða að fyrir þeim sem standa að kynningu á þessu verkefni vaki að þrýsta á Þingvallanefnd sem kjörin verður af nýkjörnu alþingi svo að hún fallist á hugmyndir þeirra og kröfur. Ég vona að svo verði ekki.

Fyrir um hálfri öld voru þau mistök gerð að leyfa nokkra sumarbústaði í Gjábakkalandi. Vegna þungrar gagnrýni var tekið fyrir slík leyfi og jafnframt ákveðið að leggja kvaðir á eigendur bústaða þar varðandi nýtingu vatns og rafmagns. Á þessum árum var búið á Gjábakka, eftir að búskap þar var hætt nýtti þjóðgarðurinn hús þar fyrir starfsmenn sína. Eftir eldsvoða í húsinu var það rifið.

Beri menn hag þjóðgarðsins og gesta hans fyrir brjósti er fráleitt að heimila 1.200 manna veitingastað í Gjábakkalandi og mynda þar nýja þungamiðju í þjóðgarðinum eins og það er orðað í kynningargögnum vegna staðarins. Eitt er mengunarhætta á vatnakerfi Þingvallavatns annað er mannvirkja- og ljósmengun í austurhluta þjóðgarðsins sem gjörbreytir allri sýn yfir hann frá Hakinu.

Vilji menn fjölga mannvirkjum við þjóðgarðinn á að gera það vestan við hann, til dæmis í Skógarhólum fyrir vestan Ármannsfell. Fyrir dyrum er að bæta akveginn yfir Uxahryggi og þá myndast ný hringleið um Þingvelli, að þessu sinni til norðurs og til Borgarfjarðar. Þegar fram líða stundi verður hún ekki síður vinsæl en leiðin um Geysi og Gullfoss.

Skorað er á Þingvallanefnd að stand fast gegn öllum framkvæmdum í Gjábakkalandi.

 

 

Föstudagur 23. 12. 16 - 23.12.2016 14:30

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrsti þingmaður norðvesturkjördæmis, formaður fjárlaganefndar, stóð vel að verki við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins á alþingi. Bjarni Benediktsson lagði frumvarpið fram þegar alþingi kom saman til fyrsta fundar eftir kosningar þriðjudaginn 6. desember 2016. Frumvarpið varð að lögum að kvöldi 22. desember í betri sátt en almennt ríkir við afgreiðslu fjárlagafrumvarps.

Við afgreiðslu málsins á þessum skamma tíma tókst Haraldi í samvinnu við Bjarna og meðnefndarmenn sína í fjárlaganefnd að finna lausnir á málum sem vöktu hörðust viðbrögð við frumvarpinu þegar það sá dagsins ljós. Þar bar mest á kröfum fyrir hönd Landspítalans. Spurning vaknar hvort allir mælikvarðar um hagkvæmni raskist ekki með einni svo risavaxinni ríkisstofnun. 

Björn Levi Gunnarsson tölvunarfræðingur er þingmaður Pírata úr Reykjavík/suður. Hann situr í fjárlaganefnd og segir í áliti sínu um fjárlagafrumvarpið að einlægur vilji nefndarinnar hafi verið að búa svo um hnúta að „heilbrigðisstofnanir hefðu a.m.k. tækifæri til þess byrja á núlli og möguleika á að koma í veg fyrir hallarekstur“. Björn Levi telur „eftir að hafa rýnt í tölurnar og gögnin sem nefndin fékk aðgang að, að því markmiði hafi verið náð. Stofnanir heilbrigðiskerfisins ættu að geta sinnt nauðsynlegri þjónustu við landsmenn án þess að enda í mínus.“

Björn Levi segist hafa sett sér „það lágmark að fjárlög 2017 skiluðu heilbrigðiskerfinu réttu megin við núllið í rekstrarafkomu”. Að lokinni athugun á málinu hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að „sú upphæð þyrfti að vera 7,5 milljarðar kr.“ Þá upphæð sé „að finna í fjárlagafrumvarpinu og þeim breytingum sem fjárlaganefnd leggur til við frumvarpið. Þeirri upphæð er skipt á milli nokkurra málefnasviða og málefnaflokka og í sameiningu þurfa margir að ná þeim markmiðum sem sett eru. Mjög lítið þarf út af að bregða til þess að heildarmarkmiðið náist ekki. Píratar verða vægðarlausir í eftirliti með því að þessum fjármunum verði varið á sem skilvirkastan hátt. Ábyrgð framkvæmdarvaldsins í þessu máli er gríðarlega mikil að mati Pírata“.

Hér skal ekki dregið í efa að Björn Levi lýsi niðurstöðu í þessu langvinna máli á óhlutdrægan hátt. Ber að fagna því að fundist hefur farsæl lausn, deilurnar um fjárveitingar til heilbrigðismála eru fyrir löngu komnar langt út fyrir öll mörk og eru dapurlegri en réttmætt er – þær einar vinna gegn markmiðinu um að efla traust á heilbrigðiskerfinu.

Fimmtudagur 22. 12. 16 - 22.12.2016 13:15

Morgunblaðið birtir enn á ný í dag furðuleg ummæli samfylkingarmannsins Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, um umferðarmál.

Hjálmar Sveinsson er í einkastríði, með stuðningi meirihluta borgarstjórnar, við einkabílinn. Hjálmar telur tilgangslaust að bæta og auka umferðarmannvirki í Reykjavík af því að þau fyllist samstundis af bílum. Þá telur hann fjölgun ferðamanna í Reykjavik ekki leiða til þess að „réttlætanlegt“ sé „að fara í milljarða framkvæmdir vegna aukins umferðarþunga vegna ferðamanna“ í höfuðborginni. Hann ítrekar „að það sé sýn borgaryfirvalda að til framtíðar sé betra að auka vægi almenningssamgangna í stað þess að fara í dýrar framkvæmdir á gatnakerfinu“.

Hjálmar Sveinsson segir: ,,Það væri einsdæmi í heiminum ef við myndum byggja upp öflugt vegakerfi til að mæta þörfum ferðamanna á bílaleigubílum í stað þess að beina þeim í almenningssamgöngur. [...] Með því að bæta sífellt við nýjum akreinum og mislægum gatnamótum, þá fyllast þessar nýju akreinar um leið.“

Þessar yfirlýsingar eru af þeim toga að erfitt er að trúa að þarna tali maður sem bauð sig fram til að gæta hags borgarbúa og skapa þeim sem bestar aðstæður með vísan til vilja þeirra og hagsmuna. Vissu kjósendur þegar þeir greiddu Samfylkingunni atkvæði í borgarstjórnarkosningum árið 2014 að þeir væru að velja mann til að stjórna borginni sem ætlaði að nota vald sitt til að kenna þeim að hafna einkabílnum og sætta sig við bann við nýjum umferðarmannvirkjum? Raunar hefur ekki aðeins verið staðið gegn nýjum mannvirkjum í þágu einkabílsins heldur hafa þau sem fyrir eru drabbast niður vegna viðhaldsleysis. Holunum í malbikinu er líklega ætlað að letja fólk til að aka á eigin bíl um götur borgarinnar.

Óvild Hjálmars Sveinssonar í garð bílaleigubíla vekur athygli. Hann virðist álíta að hvergi í heiminum taki menn tillit til slíkra bifreiða við gerð umferðarmannvirkja. Þær séu afgangsstærðin sem verði til þess að menn bíði í sífellt lengri biðröðum vegna skorts á umferðarmannvirkjum.

Vegna málflutnings Hjálmars sagði Ómar Ragnarsson á Facebook:

„Fróðlegast er að heyra þau rök að vegna þess að hvort eð er verði ekki hægt að minnka umferðartafir í Reykjavík eigi ekkert að gera í þeim málum. Minnir á kaupmanninn, sem var spurður af hverju hann hefði ekki ákveðna vöru á boðstólum og hann svaraði: „Það þýðir ekki neitt að panta hana, - hún selst hvort eð er alltaf upp.““

Miðvikudagur 21. 12. 16 - 21.12.2016 15:00

Í dag ræddi ég við sr. Vigfús Þór Árnason í þætti mínum á ÍNN í tilefni af útkomu ævisögu hans, Vilji er allt sem þarf, Ragnar Ingi Aðalsteinsson skráði. Frumsýning kl. 20.00 í kvöld. Af samtalinu og bókinni má ráða að án náins samstarfs við skólastjóra hefði ekki tekist svo farsællega hjá sr. Vigfúsi Þór að skjóta fótum um sókn og söfnuð í Grafarvogi.

Að prestar fái inni í skólum á sama hátt nú og þegar sr. Vigfús Þór efndi þar til kirkjulegra athafna er liðin tíð. Borgaryfirvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé brot á mannréttindum að nýta skólabyggingar í þágu kirkjunnar og raunar er þeim í nöp við að farið sé með skólabörn í kirkjur fyrir jólin.

Þetta er mikil öfugþróun. Hún er reist á álíka heimskulegri pólitískri rétthugsun og andstaða Hjálmars Sveinssonar, formanns skipulagsráðs borgarinnar, við gerð umferðarmannvirkja. Hann telur að ekki þurfi fé af samgönguáætlun til umferðarmannvirkja, fé til borgarinnar renni í almenningssamgöngur enda segi sérfræðingar tilgangslaust að reisa frekari umferðarmannvirki.

Í Morgunblaðinu í dag kemur í ljós að Hjálmar fór ekki rétt með afstöðu sérfræðinga. Í blaðinu segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri:

„Mikið hefur verið rætt og skrifað um gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, við Elliðaárdalinn. Vegagerðin telur vera brýnt að byggja þar mislæg gatnamót. Það er hins vegar gott dæmi um framkvæmd sem sveitarfélag [Reykjavíkurborg] vill ekki ráðast í þrátt fyrir að fjárveiting hafi verið komin fyrir framkvæmdinni á sínum tíma.“

Að sögn Hreins dylst engum að vissir vegakaflar í borginni anni illa umferð á álagstímum, en hann bendir jafnframt á að aukin áhersla á almenningssamgöngur muni ekki endilega draga úr umferð einkabíla frá því sem nú er.

Viðleitni borgaryfirvalda undir forystu samfylkingarfólks til að hafa vit fyrir borgarbúum hvort heldur á andlega eða veraldlega sviðinu hefur fyrir löngu farið út fyrir öll mörk.

Við þetta bætist síðan þvermóðskan þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli og lokun hans fyrir sjúkraflugi á óveðursdögum eins og í gær. Í því efni hefur málsvari ríkishlutafélagsins ISAVIA gengið í lið með borgarstjóra og hans mönnum sem segjast hafa meira vit á hvort óhætt sé að fljúga til vallarins en flugmennirnir sem gera það af ríkri ábyrgðarkennd. Má rekja afstöðu ISAVIA til þess að fyrrverandi borgarstjóri R-listans er samgöngustjóri ríkisins?

Þriðjudagur 20. 12. 16 - 20.12.2016 10:15

Deilur fréttamanna ríkisútvarpsins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra, eiga ekkert skylt við fréttir heldur eru í ætt við pólitískt karp þar sem rifist er um hver sagði hvað við hvern og hvenær. Af því að fréttamaður ríkisútvarpsins stendur í þessum útistöðum við Sigmund Davíð er þessu útvarpað í fréttatíma stöðvarinnar. Hér var nefnt að óháðum aðila yrði falið að gera úttekt á deilunni í von um að leiða mætti hana til lykta.

Sigmundur Davíð hefur brugðist vel við hugmynd um slíka úttekt. Stjórnendum útvarpsins ætti að vera sérstakt kappsmál að tekið sé á þessu deilumáli þannig að ekki sé vegið enn frekar að trúverðugleika opinbera hlutafélagsins. Forystugrein Morgunblaðsins snýst í dag um starfsaðferðir fréttastofnunnar. Þar segir:

„Fréttakona „RÚV“ á Akureyri sem leynir því minna en sumir kollegarnir hversu vilhöll hún er bað Sigmund Davíð, sem hún rekur iðulega hornin í, um viðtal í tilefni aldarafmælis Framsóknarflokksins. En erindið var að gera Sigmund tortryggilegan fyrir að sjást lítið í þingsalnum.[...]

Fréttakonan reyndi að skrökva sig frá því að hún hefði fengið viðtal við Sigmund á fölskum forsendum. Þó er þetta haft eftir henni: „Ég hafði óskað eftir viðtali við hann í tilefni dagsins með SMS-skilaboðum, en engin svör fengið. Við ákváðum því að fara á staðinn og kanna hvort hann myndi veita viðtalið. Sigmundur Davíð tók mér vel og bað mig að bíða andartak, áður en við tókum viðtalið. Hann spurði mig aldrei um efni þess fyrirfram, eins og stjórnmálamenn gera þó gjarnan.“ Telur fréttakonan að biðji hún um viðtal við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins í tilefni aldarafmælis, þá beri honum að spyrja hvort viðtal um aldarafmæli flokksins fjalli um aldarafmæli flokksins?“

Eiður Svanberg Guðnason bregst á þennan hátt við hugmyndinni um að óháður aðili fari yfir samskiptasögðu fréttastofunnar og Sigmundar Davíðs:

„Rannsókn á fréttamennsku? Eru þetta skilaboð til fréttamanna um að halda sig á mottunni í samskiptum við stjórnmálamenn? Man ekki eftir að hafa heyrt svona tillögu áður. Í Póllandi og Tyrklandi kreppa stjórnvöld að blaðamönnum, - vægt til orða tekið.“ 

Þessi samanburður fellur um sjálfan sig nema menn vilji afsaka það sem gerst hefur í Póllandi og Tyrklandi. Áður hefur verið gerð úttekt á efnistökum fréttastofunnar og hún birst í skýrslu til alþingis, sé rétt munað.

Mánudagur 19. 12. 16 - 19.12.2016 17:45

Samfylkingin fékk 31,9% í borgarstjórnarkosningunum 2014 en mælist með rétt rúm 17% í könnun fréttastofu 365 sem var gerð 12-14. desember. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar eru nú fimm talsins en yrðu fjórir ef niðurstöður kosninga yrðu á sömu leið og niðurstöður könnunarinnar en gert er ráð fyrir að 2018 verði 23 borgarfulltrúar valdir í stað 15 núna.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur með 31,9%, Samfylking 17,1%, VG 15,4%, Píratar 14,6%, BF 13% og Framsókn 4%. Meirihluti fjögurra flokka helst í borgarstjórn gangi þetta eftir.

Ekki hefur skilað sér í opinberar umræður hver er nauðsyn þess að fjölgja borgarfulltrúum úr 15 í 23. Áform voru upp um þetta á 1978 til 1982 hjá vinstri-flokkum í borgarstjórn en Sjálfstæðismenn bundu enda á áformin þegar þeir fengu að nýju meirihluta í borgarstjórn árið 1982. Óljóst er hvort ágreiningur er milli meiri- og minnihluta borgarstjórnar um fjölgun borgarfulltrúa. Á hinn bóginn hefur Halldór Halldórsson, oddviti borgarstórnarflokks Sjálfstæðismanna, vill hverfabinda val á borgartulltrúum

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Samfylkingamanninn Hjálmar Sveinsson, formann skipulagsnefndar borgarstjórnar, sem segir að ástæða þess að Reykjavíkurborg hafi ekki þrýst á um að fá fjármuni frá alþingi vegna framkvæmda á umferðarmannvirkjum í borginni sé sú að árið 2012 hafi verið samið við Vegagerðina og hið opinbera um að fá allt að einum milljarði á ári til tíu ára til þess að byggja upp almenningssamgöngur. Í staðinn myndi Reykjavík ekki ráðast í stórar framkvæmdir á borð við mislæg gatnamót á tímabilinu. Sérfræðingar segi það engu breyta þótt byggð verði mislæg gatnamót því framtíðarspár um umferðarþunga sýni að gatnakerfið muni springa ef umferð vegna einkabílsins eykst á sama hraða og hún hefur gert liðna áratugi.

Leiðin út úr þessum vanda að mati Hjálmars er að ráðast gegn einkabílnum og knýja á um að fólk noti almenningssamgöngur. „Ef umferð eykst eins mikið til ársins 2040 og hún gerði árin 1987-2012 þá verður hér allt stopp. Jafnvel þótt settir yrðu margir tugir milljarða í að byggja mislæg gatnamót,“ segir Hjálmar. „Það þýðir ekki að allir eigi að hjóla, ganga eða fara í strætó, heldur að hærra hlutfall fólks geri það en nú.“

Þessi framtíðarsýn Hjálmars er í anda heimsslitaspámanna sem ganga stundum fram á völlinn og segja við meðbræður sína: „Annaðhvort gerið þið eins og ég segi eða það kemur ykkur í koll.“ Eftir þessari forsögn starfar borgarstjórn Reykjavíkur nú og stöðnunin eykst af því að stjórnendurnir hafa talið sér trú um að hún sé óhjákvæmileg.

Sunnudagur 18. 12. 16 - 18.12.2016 14:00

 

Fyrir mörgum árum las ég grein í breska vikuritinu Spectator þar sem fjallað var um hvers konar einstaklingar sæktust eftir að fara í blaðamennsku. Þetta var fyrir tíma veraldarvefjarins, netheima, Facebook og alls annars sem komið hefur fram og auðveldar fólki að lýsa skoðun sinni á mönnum og málefnum á opinberum vettvangi.

Í greininni var sagt að nokkur hluti þeirra sem tækju sér fyrir hendur að skrifa í blöð gerði það til að ná sér niðri á öðru fólki, til að fá útrás fyrir uppsafnaða reiði eða sálarangist sem myndast hefði vegna aðstæðna, til dæmis í skóla eða vegna sérstakra aðstæðna í uppeldinu. Ef blöð eru lesin, horft á sjónvarp eða hlustað á útvarp með niðurstöðu þessarar fræðilegu rannsóknar í huga auðveldar hún manni oft að greina fordóma fréttamannsins frá kjarna málsins sem hann lýsir.

Augljóst er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra, hefur tekið þá afstöðu að fréttastofa ríkisútvarpsins stjórnist af óvild í sinn garð. Þetta birtist enn einu sinni greinilega í viðbrögðum hans við spurningum fréttamanns sem fyrir hann voru lagðar vegna veislu sem hann hélt á Akureyri föstudaginn 16. desember í tilefni af 100 ára afmæli Framsóknarflokksins.

Þessi deila Sigmundar Davíðs og fréttastofunnar er bæði erfið fyrir hann og fréttastofuna. Þá er allt annað en þægilegt fyrir hlustendur að verða vitni að þessu stöðuga stríði. Á vegum fréttastofunnar hlýtur að fara fram athugun á hvernig staðið hefur verið að miðlun frétta af Sigmundi Davíð. Ætti að kalla á sérfræðing sem báðir aðilar treysta til að fara yfir málið og birta um það skýrslu.

Hér eru gefin út tvö fríblöð sem dreift er til almennings án þess að hann hafi um það beðið, almennt liggja slík blöð frammi erlendis og þeir taka sem vilja. Hér er blöðunum troðið inn um bréfalúgur. Vissulega er unnt að biðjast undan því að fá blöðin og oft liggja þau í stöflum í anddyri fjölbýlishúsa, öllum til ama. Fréttatíminn er annað þessara blaða og standa þjóðkunnir fésýslumenn að útgáfu blaðsins.

Til starfa á Fréttatímann hafa ráðist blaðamenn sem hika ekki við að veitast ómaklega að einstaklingum. Ef til vill fá þeir ekki störf nema á fríblöðum, sé um áskrift að miðlum að ræða óttist eigendur þeirra fækkun áskrifenda, starfi sumt af þessu fólki þar. 

Laugardagur 17. 12. 16 - 17.12.2016 12:15

Hér í dagbókinni sagði fimmtudaginn 15. desember „árið 2015 gerðist sá einstæði atburður að alþingismenn gripu fram fyrir hendur útlendingastofnunar, hnekktu lögmætri afgreiðslu hennar og samykktu með lögum ríkisborgararétt fyrir albanska fjölskyldu sem stofnunin hafði neitað um leyfi til að dveljast í landinu með vísan til laga og reglna um hælisleitendur”.

Í Fréttatímanum, furðublaði undir ritstjórn Gunnars Smára Egilssonar, þar sem safnast hafa fjölmiðlamenn sem jafnan lenda í útistöðum við einhverja eða eltast við sama fólkið ár og síð, vitnar, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir í ofangreind orð og gerir það á þennan hátt: og hnekktu „lögmætri afgreiðslu stofnunarinnar með því að veita Dega-fjölskyldunni frá Albaníu ríkisborgararétt í desember 2015“.

Orðin innan tilvitnunarmerkja eiga lesendur Þóru Kristínar væntanlega að skilja á þann veg að hún vitni beint í það sem ég skrifaði. Það gerir hún ekki heldur gerir mér upp orð til að styrkja lesanda sinn í þeirri trú að mér sé sama þótt útlendingastofnun hafi vísað dauðveikum dreng úr landi. Engin sönnun liggur þó fyrir um að ekki hefði verið unnt að lækna drenginn í Albaníu. Fyrr í grein sinni hafði Þóra Kristín í sama tilgangi vikið að sjálfsmorði Makedóníumanns, hælisleitanda, hér og snúið út úr orðum mínum eins og þau sneru sérstaklega að honum.

Þóra Kristín telur siðferði og góðmennsku sína bera af illmennsku minni og hikar ekki við að grípa til falsana til að árétta það. Oftar en einu sinni notar hún svo lýsingarorðið „gamli“ til að lýsa mér, ekki af því að hún vilji sýna sér eldri manni virðingu heldur til að gera lítið úr mér og skoðunum mínum.

Skítkast sem þetta er dapurlegur vitnisburður um málflutning þeirra sem taka að sér að verja illt ástand í útlendingamálum og hafna að tekið sé á hælisumsóknum Albana og Makedóníumanna á sama hátt hér og annars staðar. Með samvinnu lögreglu og lögfræðinga útlendingastofnunar í flugstöð Leifs Eiríkssonar mætti stytta dvalartíma fólksins hér og jafnframt spara íslenskum skattgreiðendum stórútgjöld.

Sé texti Þóru Kristínar lesinn á vefsíðu Fréttatímans segir fyrir neðan grein hennar þar: „TAKTU ÞÁTT Í UMRÆÐUNUM Verum uppbyggileg og berum virðingu fyrir hvort öðru.“ Þetta á greinilega við um aðra en starfsmenn Fréttatímans. Hvers vegna í ósköpunum er þessu óvandaða blaði dreift ókeypis á heimili fólks? Hverjum dettur í hug að bera kostnað af því?

 

 

 

Föstudagur 16. 12. 16 - 16.12.2016 15:00

ÍNN-viðtal mitt við Sigríði Hagalín Björnsdóttur um skáldsögu hennar Eyland er komið hér á netið.

Í vikunni var forvitnilegt Kastljós í sjónvarpinu þar sem fulltrúar allra þingflokka sátu fyrir svörum um stjórnmálaástandið og líkur á myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þátturinn er ekki eftirminnilegur vegna þess hvað með sögðu, þeir höfðu í raun ekkert nýtt fram að færa, heldur vegna heiftarinnar sem birtist í samskiptum Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns Pírata, og Katrínar Jakobsdóttur, formanns vinstri-grænna.

Birgitta kennir Katrínu um að hafa eyðilagt tilraunir sínar til að mynda stjórn, tilraunir sem voru dæmdar til að mistakast frá upphafi. Enginn flokksleiðtogi vill setjast í stjórn sem Birgitta myndar þótt hún ætli að eigin sögn að vera utan hennar. Þetta var frá upphafi vonlaus tilraun hjá Birgittu og þess vegna kom það enn verr við Katrínu að henni væri kennt um að Birgittu mistókst. Birgitta leitar að sökudólgi til að draga athygli frá allri vitleysunni sem hún og Smári McCarthy Pírati sögðu um að stjórnarmyndunin væri á beinu brautinni – 90% líkur á myndun stjórnar sagði Birgitta föstudaginn 9. desember en neyddist til að viðurkenna sig sigraða mánudaginn 12. desember. Hafi verið markmið forseta Íslands að draga athygli að markleysi orða Birgittu náðist það.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir tók viðtal við Katrínu sem birtist í Fréttatímanum fimmtudaginn 15. desember.

Katrín hallmælir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn enda telur hún „ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að fara að gefa eftir í skattlagningu á efnaðasta fólkið“. Þarna vísar hún til þess úrslitaatriðis VG að auðlegðarskattur verði lagður á að nýju.

Boðskapur Katrínar hefur frá 30. október verið að hún þurfi sífellt meiri tíma og meira svigrúm til að velta fyrir sér hvað gera skuli. Hún segir:

„En ég held að við ættum ekki að missa kúlið þótt einhverjir gamlir skarfar séu að halda því fram að þetta hafi vanalega tekið einn sólarhring þegar þeir voru og hétu. Það eru mörg lönd í Evrópu sem hafa gengið í gegnum langar og erfiðar stjórnarkreppur en að lokum hafa hlutirnir blessast. Við erum ekki komin hálfa leiðina þangað þótt við tökum okkur aðeins lengri tíma í að hugsa næstu leiki.“

Ekki er ljóst hver er skotmark Katrínar þegar hún talar um „gamla skarfa“. Líklegt er að orðalagið væri talið ósæmilegt ef hún ætti við konur en í því felst ekki aðeins óvirðing við skoðunina sem hún andmælir heldur einnig þá sem hafa hreyft henni.

Í Belgíu tók stjórnarmyndun 541 dag. Setji Katrín sé það viðmið verður engin stjórn mynduð fyrr en á árinu 2018.

Fimmtudagur 15. 12. 16 - 15.12.2016 11:30

Í fréttum ríkisútvarpsins sagði í gær:

„Aldrei hafa fleiri sótt um hæli á Íslandi í einum mánuði og nú í nóvember. Alls bárust 255 umsóknir um hæli, sem er meira en allt árið 2014. Mikil fjölgun hefur orðið á hælisumsóknum undanfarna mánuði, mest meðal fjölskyldufólks frá Makedóníu og Albaníu. Í nóvember sóttu 180 manns frá Makedóníu um hæli. Útlendingastofnun leggur áherslu á að hraða afgreiðslu mála fólks frá þessum ríkjum, en samkvæmt tölfræði stofnunarinnar hefur enginn frá Albaníu né Makedóníu fengið hæli á þessu ári.

„Í dag er málsmeðferðartíminn í þessum forgangsmálum hjá okkur í kringum 20-27 daga,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðstjóri hjá Útlendingastofnun.“

Enginn sem þekkir til mála í Makedóníu eða Albaníu skilur hvað knýr fólk þaðan til að fljúga alla leið til Íslands. Að baki hljóti að vera annarlegur, hulinn tilgangur. Hér hefur áður verið lýst hver hann er: 1. Að dveljast hér á landi í nokkra mánuði á kostnað íslenskra skattgreiðenda. 2. Að stunda svarta atvinnu á meðan á dvölinni stendur. 3. Að nýta sér íslenska heilbrigðisþjónustu.

Þetta vita allir sem vilja vita en samt grípa stjórnvöld ekki til enn harðari úrræða en gert hefur verið til að stöðva straum þessa fólks til landsins. Ástæðan er ekki síst sú að frá alþingi, fjárveitingarvaldinu, kemur enginn þrýstingur í þá veru að stöðva þessa ásókn í skattfé almennings. Aukafjárveitingar eru samþykktar án umræðu vegna móttöku fólksins en menn velta fyrir sér hverri krónu þegar rætt er um fé til að gæta landamæranna á viðunandi hátt.

Fjölgun þessara hælisleitenda sem eiga engan lögmætan rétt til að fá vernd hér má rekja til þess að um þetta leyti árið 2015 gerðist sá einstæði atburður að alþingismenn gripu fram fyrir hendur útlendingastofnunar, hnekktu lögmætri afgreiðslu hennar og samykktu með lögum ríkisborgararétt fyrir albanska fjölskyldu sem stofnunin hafði neitað um leyfi til að dveljast í landinu með vísan til laga og reglna um hælisleitendur.

Að slegið hafi verið nýtt met í nóvember ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart ef til þess er litið að þeir sem hvetja fólkið til Íslandsfarar og hagnast ef til vill á henni segi því að rétt fyrir jól ár hvert samþykki alþingi Íslendinga lög um ríkisborgararétt og þess vegna sé rétti tíminn til að fara til landsins nú í von um fá nafn sitt og fjölskyldu sinnar inn í lagatextann.

Miðvikudagur 14. 12. 16 - 14.12.2016 10:30

Jólaundirbúningur felur meðal annars í sér að fara í pósthús. Í morgun ók ég  félaga mínum sem þurfti að reka erindi í slíku húsi. Við ákváðum að vera snemma á ferðinni og töldum víst að húsið yrði opnað fyrir klukkan 09.00 í jólaösinni. Svo reyndist þó ekki vera en félagi minn náði í afgreiðslunúmer 6 enda beið hann við dyrnar þegar pósthúsið var opnað.

Erindið var tvíþætt. Í fyrsta lagi að ná í sendingu sem tilkynnt hafði verið með miða frá póstinum dags. 12.12 um að sendingin yrði til afgreiðslu næsta dag, það er 13.12. Þetta reyndist ekki rétt því að afgreiðslukonan sló inn í tölvu og sagði sendinguna ókomna í pósthúsið að morgni 14.12. Í öðru lagi var erindið að vigta bók til að átta sig á hvað kostaði að senda hana til útlanda og kaupa frímerki til að setja á nokkrar slíkar sendingar. Afgreiðslustúlkan réð einfaldlega ekki við þetta verkefni og óx svo augum að finna frímerkin sem á þurfti að halda að félagi minn hvarf á braut frímerkjalaus.

Þetta er ótrúleg en sönn saga. Á meðan þetta gerðist sat ég í rúmar 20 mínútur í bíl fyrir utan pósthúsið og sá hvað eftir annað fólk fara úr bílum sínum að pósthúsdyrunum en snúa strax til baka. Því hraus einfaldlega hugur við að fara í biðröðina sem myndaðist strax og pósthúsið var opnað með aðeins þrjár manneskjur við afgreiðslu og þar af eina sem hafði greinilega ekki hlotið næga starfsþjálfun. Þegar félagi minn sem var númer 6 í röðinni hvarf á braut án þess að hafa í raun fengið nokkra afgreiðslu sá hann að talan 20 var komin yfir afgreiðsluborðið við hliðina á sér.

Frímerki eru á undanhaldi og virðist þurfa þrautþjálfað afgreiðslufólk til að selja þau í pósthúsum. Þar vilja starfsmenn að viðskiptavinir láti einfaldlega stimpla sendingar sínar í stað þess að kaupa frímerki. Líklega þýðir þetta að í stað þess að fara með bréf í póstkassa verður fólk að gera sér ferð í pósthús til að láta stimpla hvert bréf. Ekki dregur það úr örtröðinni í þessum húsum.

Nú þarf að taka ákvörðun um hvort gerð verður önnur tilraun til að nálgast sendinguna sem átti að vera í pósthúsinu 13.12 en var ekki komin 14.12 eða biðja um að hún verði borin heim fyrir 700 kr. aukagreiðslu.

Hefðbundnar jólasögur eru að jafnaði sorglegar en enda þó vel. Vonandi fá þeir sem eiga erindi í pósthús vegna jólanna betri úrlausn sinna mála en við félagarnir. Biðin langa verði ekki til einskis.

Þriðjudagur 13. 12. 16 - 13.12.2016 12:15

Í dag hef ég rætt við formenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin,“ sagði í gær, 12. desember, í fjórðu skriflegu yfirlýsingunni sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, birtir á vefsíðunni www.forseti.is vegna stjórnarkreppunnar sem hófst með lausnarbeiðni Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra sunnudaginn 30. október.

Orðin „alvarlegu stöðu“ urðu til þess að Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, þingfréttaritari fréttastofu ríkisútvarpsins, sagði eitthvað þa þessa leið í beinni útsendingu sjónvarpsfrétta klukkan 19.00 mánudaginn 12. desember: „Nú er komin stjórnarkreppa.“

Hér hefur verið lýst undrun yfir að stjórnmálafræðingar og fréttamenn vilja ekki nota orðið stjórnarkreppa um ástandið sem ríkt hefur síðan 30. október. Hefur verið spurt hvað þyrfti að gerast til að þessir flytjendur frétta og skýringa á þeim teldu við hæfi að tala um stjórnarkreppu. Skýring fékkst með yfirlýsingu Jóhönnu Vigdísar, að forseti notaði orðin „alvarleg staða“ um ástandið.

Dæmið sýnir raunar hve fráleitt er að forðast að nota orðið stjórnarkreppa um leið og kreppa verður vegna lausnarbeiðni forsætisráðherra.

Merkilegri orð er að finna í yfirlýsingu forsetans sem fól engum einum að mynda stjórn heldur hvatti þess í stað flokksleiðtoga „til að ráða ráðum sínum og kanna með óformlegum viðræðum sín á milli hvaða leiðir eru enn mögulegar til myndunar ríkisstjórnar sem njóti meirihlutastuðnings á Alþingi eða geti að minnsta kosti varist þar vantrausti“. Í þessu felst að forseti veitir í raun heimild sína til að mynduð sé minnihlutastjórn.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Nú er loks lokið enn einni tímaeyðslu um stjórnarmyndun. Reynsluleysið, hvert sem litið er, blasir við. Síðasta umboð var ekki veitt vegna rökstuddrar vissu um að það gæti leitt til ríkisstjórnar. Hefði það verið í spilunum væri ástandið í landinu alvarlegra en það lítur út fyrir að vera. Fimm flokka dellustjórn hefði ekki þýtt lok stjórnarmyndunaröngþveitis, heldur verið tilkynning um viðvarandi öngþveiti. [...]

Eins og málum er komið í stjórnarmyndun færi sennilega best á því að forseti gerði forystumönnum tveggja stærstu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og VG, ljósa ábyrgð sína. Þeir hefðu samtals 31 þingmann. Því væri þeim rétt að mynda öfluga minnihlutastjórn til vors. Best væri ef þeir fengju engan til að lofa að verja stjórnina. Það þarf aðeins einn til. Fáir myndu telja sér gagnlegt að bera fram vantraust.“

Mánudagur 12. 12. 16 - 12.12.2016 15:50

Enn einu sinni liggur fyrir hve ranga sýn Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur á eigin stöðu. Fyrir helgi sagði hún 90% líkur á að sér tækist að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Birgitta sagði einnig: „Ég myndi aldrei nenna að sitja á svona fundum ef ég sæi engan tilgang með þeim.“

Ljóst varð í dag, 12. desember, að enginn tilgangur var með fundunum sem Birgitta hefur stýrt frá föstudeginum 2. desember. Fulltrúar fimm flokka hafa setið og talað saman í 10 daga án nokkurrar niðurstöðu. Birgitta sagði fyrir helgi að það mundi skýrast í síðasta lagi föstudaginn 16. desember hvort tilraun sín bæri árangur.

Eftir að Birgitta fór að tala um svo marga daga enn með forystuna í sínum höndum er greinilegt að einhver hefur hnippt í hana því að allt í einu breyttist tónninn, nú skyldi nýliðin helgi notuð til að kanna hvort viðræðurnar kæmust af óformlegu á formlegt stig!

Þessi munur á „óformlegum“ og „formlegum“ viðræðum virðist hafa verið hannaður til að vinna tíma – menn yrðu að fá ráðrúm til að ræðast við óformlega áður en þeir hæfu formlegar umræður. Er einkennilegt að fjölmiðlamenn láti stjórnmálamenn komast upp með slíkan leikaraskap og taki þátt í honum.  

Formleg hlið stjórnarmyndunar snýr að forseta Íslands. Hann felur einhverjum stjórnarmyndun (afhendir honum umboðið eins og nú er sagt) og sá sem þetta er falið ræðir við menn á formlegan hátt að tilmælum forseta.

Tal Birgittu við fulltrúa annarra flokka núna var álíka tilgangslaust og brölt hennar með fundum í Lækjarbrekku fyrir kosningar. Lækjarbrekkufundirnir opnuðu augu margra fyrir leikaraskapnum hjá Pírötum. Fundir Birgittu nú sýna að heitstrengingar hennar fyrir kosningar eru marklausar, ekki brotnaði á neinu stefnumáli Pírata enda var öllum kosningaloforðum þeirra ýtt til hliðar til þess eins að Birgitta væri sem lengst í sviðsljósinu í krafti ákvörðunar forseta Íslands.

Þegar Guðni Th. Jóhannesson fól Birgittu stjórnarmyndun lýsti hann bjartsýni sinni um framhaldið með sérstakri yfirlýsingu sem lauk á þessum orðum:

„Ég vænti þess að fá upplýsingar strax upp úr helgi [fyrir viku] um gang væntanlegra stjórnarmyndunarviðræðna. Þótt talsverður tími hafi nú liðið frá kosningum og ekki megi slá slöku við er engin þörf á óðagoti.“

Hafi Birgitta talið forseta trú um að árangur sinn réðist af tímanum sem hún fengi, blekkti hún forsetann eins og aðra.

 

Sunnudagur 11. 12. 16 - 11.12.2016 14:15

ÍNN-viðtal mitt við Davíð Loga Sigurðsson um bók hans Ljósin á Dettifossi er komið á netið og má sjá það hér.

Ágreiningurinn innan forystusveitar Framsóknarflokksins tók á sig nýja mynd í dag, nokkrum dögum fyrir 100 ára afmælishátíð flokksins í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 16. desember. Frá því var skýrt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður flokksins, fyrrv. forsætisáðherra og formaður flokksins, ætlaði ekki að sækja hátíðina í Þjóðleikhúsinu heldur halda sína eigin á Akureyri.

Var sagt frá frumkvæði Sigmundar Davíðs á vefsíðunni kaffid.is á Akureyri 10. desember en þar segir meðal annars af þessu tilefni:

„Þeir framsóknarmenn sem Kaffið.is ræddi við voru á einu máli um að sms-skilaboðin frá Sigmundi Davíð hlytu að draga dilk á eftir sér. Fyrrum formaður flokksins, sem lítilsvirti aldarafmælið með þessum hætti, hlyti að vera á útleið úr flokknum og væri varla líft þar öllu lengur. Hann yrði þá væntanlega þingmaður í eins manns flokki.“

Framsóknarflokkurinn hlaut átta þingmenn kjörna í kosningunum 29. október 2016, fækkaði þeim um 11 frá kosningunum 2013. Flokknum hefur verið haldið til hlés í stjórnarmyndunarviðræðunum þótt Sigurður Ingi Jóhannsson flokksformaður sitji sem forsætisráðherra í starfsstjórninni.

Þeir sem líta til samstarfs við Framsóknarflokkinn velta fyrir sér hve margir þingmanna hans stæðu að baki ríkisstjórn yrði hún mynduð með aðild hans. Ágreiningurinn vegna afmælisins staðfestir að Sigurður Ingi getur ekki treyst á Sigmund Davíð. Hvað með Gunnar Braga Sveinsson? Eru þingmenn Framsóknarflokksins í raun aðeins sex þegar kemur að stjórnarmyndun?

Ögmundur Jónasson, fyrrv. innanríkisráðherra, kemst í erlendar fréttir vegna yfirlýsinga um að hann hefði í ráðherratíð sinni ákveðið að standa frekar með Julian Assange hjá WikiLeaks en FBI, bandarísku alríkislögreglunni. Taldi Ögmundur menn FBI hafa komið hingað til lands án leyfis og ætlunin hafi verið að blekkja Assange. Sú saga sem gerðist árið 2011 hefur örugglega ekki öll verið skráð og enn eru of margir lausir endar á málinu til að unnt sé að sjá það í heild.

Hvað sem því líður liggur nú fyrir að bandarískar leyniþjónustustofnanir telja nær fullsannað að Rússar hafi stolið tölvubréfum frá stjórn bandaríska Demókrataflokksins og John Podesta, helsta ráðgjafa Hillary Clinton, og komið þeim til Julians Assange og þaðan inn á WikiLeaks til stuðnings Donald Trump í kosningabaráttunni.

Trump svarar fullum hálsi og segist ekki treysta CIA eða öðrum leyniþjónustumönnum. Þeir hafi ranglega haldið Saddam Hussein eiga gjöreyðingarvopn í Írak. Er fleira líkt með skoðunum Ögmundar og Trumps?

Laugardagur 10. 12. 16 - 10.12.2016 13:45

Á það hefur verið bent hér á þessum stað í vikunni að Fréttablaðið var notað til þess að gera hæstaréttardómara tortryggilega vegna beinna eða óbeinna fjárhagslegra tengsla við Glitni á sínum. Birtist þetta best í stórri forsíðumynd blaðsins miðvikudaginn 7. desember og texta undir henni. Þar eru fjórir dómarar hæstaréttar á leið úr Dómkirkjunni að lokinni þingsetningarmessu. Var þess meðal annars getið að systir eins dómarans hefði átt í Glitni!

Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Baugs og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er aðalritstjóri fjölmiðlaveldisins 365 og þar með Fréttablaðsins. Hún skrifar leiðara í blaðið í dag þar sem hún er steinhissa á að framganga blaðsins gagnvart dómurunum hafi vakið undrun. Allt hafi verið unnið eftir bókinni um faglega fréttamennsku með almannahag að leiðarljósi. „Samt þurfa fjölmiðlar að sitja undir gamalkunnu stefi um að þeir gangi annarlegra erinda,“ segir hún og spyr eins og hvítvoðungur: „Getur einhver í alvöru haldið því fram að tíðindi vikunnar teljist ekki fréttnæm?“

Hún segir jafnframt frá því að af hálfu 365 hafi verið reynt að spyrja starfandi lögfræðinga og háskólafólk álits á því sem blaðið og ríkisútvarpið báru á borð fyrir almenning um þetta efni en fáir hafi tekið vel í þá málaleitan. Er aðalritstjórinn greinilega sár yfir því og segir: „Það er ekki góður vitnisburður um þessar ágætu stéttir sem beinlínis eiga að hafa borgaralega skyldu til að leyfa okkur hinum að njóta sérþekkingar sinnar.“ Sárafáir hafi þó haft „kjark til að koma fram opinberlega“.

Að fullyrða að lögfræðingar og háskólafólk hafi „borgaralega skyldu“ til að veita tafarlaus svör eða gefa álit á einhverju sem fjölmiðlar birta jafnvel án þess að fréttir séu fullunnar eins og var í þessu tilviki er í anda „freka mannsins“ svo að nefnd sé persóna sem varð til á síðum Fréttablaðsins. Athyglisvert er að aðalritstjórinn sér ástæðu til að nefna að „meirihlutinn karlar“ hafi tekið til máls um fréttaflutninginn og vill Kristín þar með greinilega ýta undir „kynjaða“ umræðu um málið.

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins ræðir þessar fréttir á allt öðrum nótum en Kristín í dag. Hann segir:

„Þetta samspil fjölmiðlaveldis 365 og hins vitastjórnlausa Ríkisútvarps hefur lengi verið til staðar. Það var grímulaust núna. Forsíðan á Fréttablaðinu var ekki ein. Þær urðu fjórar í röð ásamt eftirfylgni annarra fjölmiðla Jóns Ásgeirs. Reynt var að veifa eignarhlutum dómara í bönkum eins og svimandi upphæðum, frá 15 upp í 40 milljónum, sem féllu til sem arfshlutar sem viðkomandi ætluðu sér ekki að eiga. Slíkar upphæðir væru myndarleg hlutdeild í stæðilegri verslun í Kringlu eða á Laugavegi. En í 500 milljarða króna banka viktar hún ekki.“

Föstudagur 09. 12. 16 - 9.12.2016 10:30

Starfsstjórn hefur setið frá 30. október þegar Sigurður Ingi Jóhannsson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í fréttatíma ríkisútvarpsins í hádeginu 8. desember veltu fréttamenn fyrir sér hvort Sigurður Ingi flytti áramótaávarpið 31. desember 2016 vegna þess að ekki hefði tekist að mynda stjórn.

Ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 þriðjudaginn 6. desember. Með hliðsjón af stöðu stjórnmála um þessar mundir er enn undarlegra en ella að forstöðumenn ríkisstofnana eða annarra stofnana sem eiga allt sitt undir ákvörðunum fjárveitingarvaldsins skuli reka upp ramakvein vegna fjárlagafrumvarpsins. Það er flutt til að halda í horfinu. Efni þess er aðhaldssamt eins og eðllegt er á pólitískum óvissutímum.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, gagnrýndi réttilega stóryrði rikissforstjóra í fjölmiðlum vegna fjárlagafrumvarpsins. Þeir ættu að ræða málið við þingið og fjárlaganefnd eftir framlagningu frumvarpsins.

Fríða Björk Ingvadóttir, rektor Listaháskóla Íslands, sér orð ráðherrans sem tilefni til gagnrýni á hann á Facebook, hún hafi ekki náð eyrum stjórnvalda með þeim aðferðum sem hann nefni. Hún nái ekki fundi fjárlaganefndar. Hún lætur eins og það séu ekki forstöðumenn stofnana sem hefji opinberar umræður um fjárhag stofnana sinna heldur fjölmiðlar. Hún segir:

„Þetta liggur í samfélagsumræðunni, og það er skylda fjölmiðla að mínu mati að segja frá þessum ágreiningi milli stofnana og fjárveitingarvaldsins, vegna þess að það er almenningur sem á þessar stofnanir og þær eru reknar fyrir skattfé. Og í þessum tilvikum, bæði hvað varðar háskólastigið og heilbrigðiskerfið, er verið að vega mjög alvarlega að innviðum samfélagsins, og þetta eru innviðir sem samfélagið þarf að reiða sig á til framtíðar.“

Þetta er einkennileg röksemdafærsls. Við öllum blasir að forstöðumenn stofnana telja sig hafa hag af því gagnvart fjárveitingarvaldinu að barma sér opinberlega. Að tala um það sem eðlislægan þátt samfélagsumræðunnar að hrópað sé á aukna hlutdeild í skattfé almennings með aðferðunum sem fjármálaráðherra gagnrýndi er blekking. Notaði ekki rektor listaháskólans skólaslitaræðu sína sl. vor til að kvarta undan fjárskorti?

Á sínum tíma þegar ég var aðili að ákvörðunum um fjárveitingar til stofnana og hinn samningsaðilinn kaus að bera raunir sínar á torg sagði ég gjarnan að greinilega væri ekki vilji til að ræða málið frekar við mig eða ráðuneytið. Menn skyldu þá leita annarra leiða en að lokum þyrfti þó samþykki mitt.

 

Fimmtudagur 08. 12. 16 - 8.12.2016 10:00

Þegar alþingismenn samþykktu fyrir ári að breyta frumvarpi til laga um ríkisborgararétt einstaklinga til að hnekkja ákvörðun útlendingastofnunar um brottvísun fjölskyldu frá Afganistan var fullyrt að það hefði ekki fordæmisgildi. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist þessi frétt:

„Um það bil 820 einstaklingar eru í dag hælisleitendur á Íslandi, en vegna skorts á húsnæði hefur Útlendingastofnun neyðst til að hýsa hluta þessa fólks á hótelum í Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu.

Í skriflegu svari Útlendingastofnunar til Morgunblaðsins kemur m.a. fram að fjöldi hælisleitenda sem nú gista á hótelum sé um 240 og er kostnaður fyrir hvert hótelherbergi um 15.000 krónur nóttin. Í sumum tilfellum gista fleiri en einn einstaklingur í hverju herbergi, t.a.m. þegar um er að ræða barnafjölskyldur. „Þessi fjöldi sem nú gistir á hótelum hefur aldrei verið meiri, en við höfum þó séð svipaðan fjölda áður,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta eru dýrustu úrræðin sem við höfum og um leið og pláss losnar annars staðar tökum við fólk út af hótelum. Álagið er hins vegar mjög mikið og það hafa komið dagar þar sem um 40 manns óska eftir hæli, en undanfarna þrjá mánuði hefur það verið þannig að fleira fólk kemur inn í kerfið en fer út úr því,“ segir hún.

Þeir hælisleitendur sem ekki gista á hótelum eru vistaðir í húsnæði í Reykjavík, Hafnarfirði og á Kjalarnesi. Alls leigir Útlendingastofnun húsnæði á 13 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og er leigukostnaður, samkvæmt skriflegu svari stofnunarinnar, um 36 milljónir á mánuði. Við þessa upphæð bætist hótelkostnaður sem skiptir mörgum tugum milljóna á mánuði.“

Langfjölmennasti hópurinn af þessum 820 sem hér eru nefndir eru frá Albaníu og Makedóníu. Fólkið á engan rétt til að setjast hér að í krafti laga og reglna um flóttamenn þótt það krefjist inngöngu í flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hælisleitendur. Með því setur það lögreglu afarkosti. Fólkið dvelst hér síðan á kostnað skattgreiðenda á meðan umsóknir eru til meðferðar í kerfinu. Margir stunda svarta vinnu, aðrir njóta heilbrigðisþjónustunnar. Ekki hefur verið upplýst hverjir standa að því að skipuleggja ferðir fólksins hingað eða hvað þeir fá í sinn hlut.

Það er til marks um ótrúlega vanþekkingu eða blekkingarviðleitni að segja að ákvörðun þingmanna fyrir ári hafi ekki haft nein áhrif í heimalöndum þessa fólks.

Miðvikudagur 07. 12. 16 - 7.12.2016 12:15

Þess var minnst í gær, 6. desember, að 100 ár voru liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins. Að því tilefni skrifaði ég grein um hann í Morgunblaðið að ósk ritstjóra þess og má lesa hana hér.

Á forsíðu Fréttablaðsinsbirtist í dag mynd af fjórum hæstaréttardómurum: Markúsi Sigurbjörnssyni, Viðari Má Matthíassyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni og Eiríki Tómassyni á leið úr Dómkirkjunni í Alþingishúsið við þingsetningu í gær. Texti undir myndinni snýst um að þeir tengist Glitni banka á einn eða annan hátt. Myndin er liður ófrægingarherferð blaðsins á hendur hæstaréttardómurum. Aðalritstjóri blaðsins er mágkona verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem enn ræður hvað birtist á forsíðu blaðsins þegar sakamál tengd honum eru til meðferðar fyrir dómstólum.

Í Morgunblaðinu segir í morgun:

„Formaður Dómarafélags Íslands, Skúli Magnússon, segir óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að gögn um hæstaréttardómara sem Kastljós og fréttastofa 365 hafa fjallað um komi frá Glitni. Í gögnunum kemur fram að fjórir hæstaréttardómarar, sem síðar hafi dæmt í málum tengd bankanum, hafi átt samanlagt 487 þúsund hluti í Glitni á árunum 2007-2008 sem hafi á þeim tíma verið um 14 milljóna króna virði.

„Þeir sem hafa lekið upplýsingunum vilja hafa áhrif á störf dómara og skapa tortryggni um störf þeirra,“ sagði Skúli við mbl.is í gær og bætti við að forsíða Fréttablaðsins [þriðjudaginn 6. desember], þar sem afrit af ökuskírteini Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, var meðal annars birt, væri vitnisburður um upplýsingaleka. Þeir sem stæðu að lekanum hlytu að ætla sér eitthvað meira með hann og væntanlega að hafa áhrif á meðferð mála.

„Þetta eru væntanlega einhver mál sem tengjast Glitni. Þetta eru upplýsingar sem stafa frá Glitni. Ég held að sú ályktun sé því miður óhjákvæmileg að þeir sem standa að þessum upplýsingaleka vilji hafa einhvers kona áhrif á störf dómstóla eða þá að skapa tortryggni um þeirra störf,“ segir Skúli.“

Í dag ræddi á ÍNN ég við Davíð Loga Sigurðsson um bók hans Ljósin á Dettifossi. Verður þátturinn frumsýndur á rás 20 kl. 20.00 í kvöld.

 

Þriðjudagur 06. 12. 16 - 6.12.2016 10:30

Þegar forsíða Fréttablaðsins í dag er lesin vaknar spurning um hvort á döfinni sé mál í hæstarétti sem varðar hagsmuni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Forsíðan er misnotuð á svipaðan hátt og gert var á tíma Baugsmálsins þegar blaðamenn Fréttablaðsins gengu erinda eigenda sinna til að bæta stöðu þeirra við meðferð sakamálsins.

Augljóst er að ákveðið hefur verið með aðstoð almannatengla að gera aðför að hæstaréttardómurum og þó einkum að Markúsi Sigurbjörnssyni, fráfarandi forseta hæstaréttar. Eins og oft áður þegar um slíka skipulagða aðför er að ræða er Kastljós sjónvarpsins notað til að veita henni einskonar gæðastimpil – sá stimpill er að vísu orðinn svo útjaskaður að hann skaðar frekar málstað þeirra sem grípa til hans en hitt.

Upphlaup af þessu tagi eru oft svo illa ígrunduð og illa unninn að þau missa marks. Forvitnilegast við þau er að sjá hverjir eiga aðild að þeim og hverjir bíta á öngulinn.

Skúli Magnússon, formaður dómarafélagsins, stígur varlega til jarðar eins og eðlilegt er að dómari geri telji hann sig ekki hafa öll gögn málsins undir höndum. Hann sagði meðal annars á rás 2 í morgun:

„Það er ljóst að þarna hefur upplýsingum verið komið á framfæri við fjölmiðla í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf dómstóla og hugsanlega ýta við möguleikum á því að endurupptaka þessi mál. Það sem við hljótum að bíða eftir núna er að þessir dómarar sem eiga í hlut hreinlega geri hreint fyrir sínum dyrum og segi okkur bæði kollegum sínum, dómurum, og samfélaginu og hvort þeir tilkynntu þetta eða ekki. Síðan er það annað mál hvort þeir voru vanhæfir í einstökum málum eða ekki og það er eitthvað sem þarf að skoða með tilliti til hvers og eins máls.“

Karl Garðarsson, fyrrv. þingmaður Framsóknarflokksins, þarf ekki að bíða eftir frekari upplýsingum. Hann segir á Facebook-síðu sinni vegna Kastljóssins:

„Væntanlega verða gerðar kröfur um endurupptöku fjölmargra mála sem tengjast hruninu, vegna meints vanhæfis Markúsar Sigurbjörnssonar forseta Hæstaréttar til að fjalla um þau. Dómskerfið er því í uppnámi.“

Það er einmitt tilgangur þeirrar herferðar á hendur dómurum hæstaréttar sem nú er hafin að ná því markmiði sem Karl lýsir þarna. Þá þurfa menn aðeins að svara spurningunni cui bono? Svarið við henni segir alla söguna. Skyldi Kastljósið eða fréttastofa ríkisútvarpsins birta það?

 

Mánudagur 05. 12. 16 - 5.12.2016 10:30

Á mbl.is má lesa nú að morgni mánudags 5. desember:

„Píratar ætla sér að hefja stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka í dag. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, gat ekki sagt til um hvort viðræðurnar verða formlegar eða óformlegar.

Fyrst verður þingflokksfundur Pírata haldinn klukkan 10 í Alþingishúsinu þar sem ríkisfjármálin verða rædd. „Það er það sem flestir flokkarnir eru að gera í ljósi þess að það á að leggja fram fjárlagafrumvarp í vikunni,“ segir Smári.

„Við erum í þeirri stöðu að þinghald er að koma ofan í hitt, þannig að við þurfum að halda mörgum boltum á lofti.“

Aðspurður segir hann að engar viðræður við aðra flokka hafi farið fram um helgina. Tíminn hafi verið notaður í undirbúning.“

Smári McCarthy er í þriggja manna nefnd Pírata sem hefur umboð flokksins til að standa að viðræðum um stjórnarmyndun, forseti Íslands veitti einum nefndarmannanna, Birgittu Jónsdóttur, þetta umboð föstudaginn 2. desember. Þrátt fyrir undirbúning alla helgina veit Smári ekki í dag hvort rætt verður formlega eða óformlega við aðra flokka í dag. Að vísu er ekki skýrt í fréttinni frá hvaða munur er á þessu tvennu hjá Pírötum.

Af orðum Smára má ráða að hann telur að setning alþingis þriðjudaginn 6. desember kunni að trufla eða jafnvel fipa Pírata við stjórnarmyndunina, þeir þurfi að huga að svo mörgum boltum.

Skömmu eftir að Donald Trump sigraði í bandarísku forsetakosningunum, 8. nóvember, sagði Birgitta, kafteinn Pírata, að alþingi yrði þá þegar að koma saman til að ræða „aðgerðaáætlun“ vegna sigurs Trumps auk þess taldi hún óviðunandi að þingmenn Pírata vissu ekki hvar þeir fengju skrifstofur á vegum þingsins.

Starfsstjórn Sigurðar Inga Jóhanssonar beitir sér fyrir að þing kemur saman og leggur þar fram fjárlagafrumvarp. Hefur starfsstjórn áður staðið að framlagningu fjárlagafrumvarps. Miðað við hægaganginn í viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna má ætla að þeir sætti sig bara bærlilega við minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins og kann hún því að sitja eitthvað áfram. Hlýtur þá að koma til álita að skipta um ráðherra í henni og þeir hverfi á braut sem ekki eiga lengur sæti á alþingi: Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Sigrún Magnúsdóttir en nýtt fólk setjist í stjórnina í þeirra stað.

 

Sunnudagur 04. 12. 16 - 4.12.2016 13:15

Forsetakosningar fara fram í Austurríki í dag og þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar á Ítalíu.

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að verði niðurstaðan sigur sinn og já-manna verði Ítalía öflugasta ríkið innan ESB með pólitíska óvissu að baki. Bretar eru á útleið, Frakkar kjósa nýjan forseta vorið 2017 og Þjóðverjar nýtt þing haustið 2017. Við brottför Breta verða Ítalir með þriðja öflugasta hagkerfið innan ESB. Framtíð þess er þó óviss hvernig sem atkvæðagreiðslan fer í dag. Bankakerfi Ítalíu rambar á barmi hruns og seðlabanki evrunnar hefur haldið því á floti. Hvort og hvernig það verður gert áfram eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna kemur í ljós.

Andstæðingar Renzis vilja ekki aðeins hindra framgang stjórnarskrárbreytinganna heldur beina þeir spjótum sínum einnig að aðild Ítala að evru-samstarfinu og ESB.

Í Austurríki keppa græninginn Alexander Van der Bellen (72 ára) og Norbert Hofer (45 ára), frambjóðandi Frelsisflokksins, í annað sinn um forsetaembættið. Í kosningum á maí 2016 vann Van der Bellen með tæplega 31.000 atkvæða meirihluta. Frelsisflokkurinn kærði framkvæmd kosninganna og voru þær ógiltar vegna brota á reglum við talningu atkvæða.

Hofer er eindreginn andstæðingur útlendingastefnu ESB. Talið er að sigri hann verði það til að styrkja stöðu flokka með svipaða stefnu í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi. Frelsisflokkurinn hefur mánuðum saman notið mestra vinsælda stjórnmálaflokka í Austurríki. Þingkosningar verða þar á árinu 2017.

Van der Bellen er hagfræðiprófessor og hallast að Bandaríkjum Evrópu. Hofer er verkfræðingur sem vill „ESB þjóðríkja“, það er ESB reist á minni „miðstýringu“ en nú ríkir. Hann segist einnig ætla að beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu meðal Austurríkismanna verði Tyrkland aðili að ESB eða ef Brusselmenn sækist eftir of miklum völdum frá aðildarríkjunum.

Hvert sem litið er innan ESB er aðild að sambandinu sundrandi afl á vettvangi stjórnmálanna og kallar á ákafar deilur á heimavelli um hvernig aðild skuli háttað og hve mikið tjón hún hefur í för með sér fyrir viðkomandi ríki.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er enn óljóst hér á landi hvort spjallfundir stjórnmálamanna eftir kosningarnar 29. október hafi leitt til þess að þeir hafi talað ESB út af borðum sínum. Sé svo ekki, sannar það aðeins hve óraunsæjar umræðurnar eru. Að gera kröfu um framhald aðildarviðræðna við ESB að úrslitamáli í stjórnarmyndunarviðræðum á Ísland í desember 2016 sýnir aðeins pólitíska firringu þeirra sem það gera.

Laugardagur 03. 12. 16 - 3.12.2016 18:30

Við vorum 39 á rangæskri bókamessu hjá okkur í Hlöðunni á Kvoslæk í dag. Það var dimmt yfir, rigningarsuddi og um 8 stiga hiti. Þegar við ákváðum þennan dag gátum við eins búist við snjókomu og kulda.  Við Rut skipulögðum bókakynninguna í samvinnu við Bjarna Harðarson, bóksala og útgefanda á Selfossi.

Bjarni á bókaútgáfuna Sæmund og voru fjórar bækur hans kynntar: Þórður Tómasson í Skógum las úr bók sinni: Mjólk í mat, sr. Sváfnir Sveinbjörnsson úr bók sinni: Á meðan straumarnir sungu. Systkinin Ásgeir og Sigrún Sigurgestsbörn hafa skrifað bók um formóður sína: Hólmfríðar saga sjókonu en Ásgeir las úr henni. Guðmundur Óli Sigurgeirsson, kennari á Kirkjubæjarklaustri, las úr bók sinni: Við ána sem ekki var. Bókaútgáfan Hólar gefur út bókina Sigurðar sögur dýralæknis og las höfundurinn, Sigurður Sigurðarson dýralæknir úr henni.

Þórður Tómasson safnvörður í Skógum, fæddur 28. apríl 1921, 95 ára, var aldursforseti meðal höfunda og gesta. Hann hafði ekki komið að Kvoslæk eftir að við endurreistum staðinn. Áður var hann hér nokkrum sinnum meðal annars þegar hann tók niður gamla hlóðaeldhúsið sem nú má sjá í safninu í Skógum. Hann er ótrúlega ern og ekur sjálfur sem ekki er auðvelt í dimmviðrinu sem nú er. Hann las ekki aðeins úr bók sinni heldur fór utan að með ljóð og bæn. Fram kom að hann hefði gefið út 21 bók og væri með tvær í smíðum.

Föstudagur 02. 12. 16 - 2.12.2016 10:00

Þeir sem kjörnir eru á alþingi eru ekki neyddir til setu þar, þeir bjóða fram krafta sína til að stjórna landinu, að þeir sitji á alþingi sýnir að þeir njóta til þess trausts. Frumkrafa á hendur þingmönnum er að þeir komi sér saman um þá sem taka að sér að sinna framkvæmdavaldinu, mynda ríkisstjórn. Engu er líkara en of margir þeirra sem kjörnir voru í kosningunum 29. október átti sig ekki á þessu, þeir haldi að þeir hafi verið kjörnir til þátttöku í pólitískum samkvæmisleik um það hver eigi eða megi tala við hvern, í hvaða röð og hvenær.

Væri ástandið þannig að við blasti einhver vandi sem kallaði á alvarlegt áhættumat og menn hrykkju frá honum eftir að hafa kynnt sé hann mætti ef til vill finna efnisleg rök fyrir hiki við að setjast í ríkisstjórn með þessum flokknum eða hinum. Ástandið er alls ekki þannig. Fráfarandi ríkisstjórn skilar góðu búi hvernig sem á málið er litið.

Hér er um að ræða ríkt vantraust milli flokka og einstaklinga sem koma sér ekki saman, einkum vegna fordóma. Margt furðulegt verður til í þessum umræðum þingamannanna eins og hugmynd um að nú ætti bara að mynda þjóðstjórn. Í því felst í raun ekki annað en að færa samtölin sem nú fara fram án árangurs inn í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar þar sem þeim yrði fram haldið án niðurstöðu.

Annars vegar blasir við að nýr þingmeirihluti verður að taka á því sem nú er farið að kenna við innviði samfélagsins, það er að veita aukið fé til heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála. Hins vegar eru það gæluverkefnin: ESB-aðildin, stjórnarskrármálið, uppbrot fiskveiðistefnunnar og niðurbrot landbúnaðarins. Gæluverkefnin þvælast meira fyrir þeim sem ræða um stjórnarsamstarf en innviðamálin.

Sum gæluverkefnanna eru einfaldlega galin eins og talið um ESB-aðild þegar Brusselmenn eru á barmi taugaáfalls yfir að ESB-samstarfið sé að renna sitt skeið í núverandi mynd. Um stjórnarskárbreytingar verður að ríkja þjóðarsátt. Að eyðileggja fiskveiðistjórnarkerfið er aðför að efnahagslegum grunni þjóðarinnar, þá sem vilja gera það verður að sýna í réttu ljósi. Aðförin að landbúnaðinum er dæmd til að mistakast vilji menn láta rök og skynsemi ráða.

 

Fimmtudagur 01. 12. 16 - 1.12.2016 14:15

Samtal mitt á ÍNN við Sverri Jakobsson prófessor um bók hans Auðnaróðal er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag eru 98 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Eins og fram kemur í lok samtals okkar Sverris sköpuðu Íslendingar sér strax sérstöðu innan norska konungdæmisins. Þeim var gert skylt að taka upp lög konungsins, norsk lög í Járnsíðu, en þeir löguðu þau að eigin þjóðfélagi með breytingum og við það varð til lögbókin Jónsbók árið 1281. Sum ákvæði Jónsbókar eru enn í íslenska lagasafninu, hvort þau gilda ræðst að lokum af afstöðu dómstóla.

Sverrir benti á að strax með setningu Jónsbókar hefðu Íslendingar skapað sér sérstöðu innan norska ríkisins. Þeir hefðu einnig áréttað sérstöðu sína við siðaskiptin árið 1550.

Guðmundur Hálfdanarson prófessor segir á Vísindavef Háskóla Íslands:

„Staða Íslands gagnvart Danmörku var alla tíð frekar óljós og umdeild, og breyttist verulega í tímans rás. Upphaflega komst landið undir Danakonung við samruna norsku og dönsku krúnanna seint á 14. öld og taldist þá ekki hluti Danmerkur heldur norskt skattland undir stjórn sameiginlegs konungs Danmerkur og Noregs.

Með vaxandi miðstýringu frá Kaupmannahöfn, einkum eftir siðaskiptin um miðja 16. öld og innleiðingu einveldis í konungdæminu á 7. áratug 17. aldar, styrktist vald Danakonungs yfir landinu. Staða einstakra hluta þessa flókna ríkis var þó aldrei mjög skýr, því að þótt markmið Danakonunga, eins og allra annarra evrópskra einvaldskonunga, væri að koma á samræmdri stjórn innan ríkisins alls, þar sem allt endanlegt vald væri í höndum hins fullvalda konungs, þá tókst það aldrei að fullu. Þannig voru fjarlægir hlutar ríkisins, eins og Ísland, alla tíð tiltölulega sjálfstæðir um eigin innri málefni og lagareglur voru aldrei algerlega samræmdar í ríkinu öllu.“

Sérstaða Íslands var alla tíð á þann veg að ekki var með réttu unnt að kalla landið nýlendu. Hvort það var hjálenda er umdeilanlegt en þó lýsir orðið stöðu landsins á réttmætari hátt en að segja Ísland nýlendu sem þó margir gera.

Hvað sem ágreiningi um þetta varðar hlutu Íslendingar fullveldi 1. desember 1918 og síðan fullt sjálfstæði 17. júní 1944.


Miðvikudagur 30. 11. 16 - 30.11.2016 15:00

Í dag ræddi ég við Sverri Jakobsson prófessor um bók hans Auðnaróðal sem snýst um valdabaráttu á Íslandi frá 1096 til 1281. Þessi tími er talinn einn mesti ófriðartími Íslandssögunnar og á bók Sverris fullt erindi til samtímans bæði til að auka áhuga og skilning á þessu merka tímabili í þjóðarsögunni og einnig til að spegla samtímann í því sem þá gerðist. Samtal okkar verður frumsýnt á ÍNN klukkan 20.00 í kvöld.

Við það er miðað að Íslendingar hafi gengið Noregskonungi á hönd 1262/64 með gamla sáttmála. Sverrir segir í raun erfitt að slá neinu ártali föstu í þessu sambandi. Eitt sé þó víst að Íslendingar tóku upp annars konar samband við Noregskonung en þeir væntu því að þeir vissu ekki við fyrstu tengslin að það mundi leiða til skattheimtu í nafni sameinaðs konungdæmis.

Þessi lýsing kemur vel heim og saman við ýmislegt sem sagt er varðandi hugsanlegan aðildarsamning Íslendinga við Evrópusambandið. Menn tala gjarnan um stöðuna innan sambandsins eins og var áður en Evrópusambandið tók við af Evrópubandalaginu með auknu miðstjórnarvaldi og skilyrðislausri kröfu um aðlögun að sáttmálum sambandsins.

Dæmi um úr sér genginn málflutning af þessu tagi mátti sjá í grein eftir Óla Anton Bieltvedt, alþjóðlegan kaupsýslumann og stjórnmálarýni, í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. nóvember. Þar segir meðal annars:

„Fullyrðingar hafa komið fram um það í fjölmiðlum hér, að skilmálar ESB séu óhagganlegir. Vitnað hefur verið í það, að sóknarprestur á Akureyri hafi skrifað ESB og spurst fyrir um málið. Hann á að hafa fengið þau svör, að ekki væri hægt að semja um aðildarskilmálana. Fyrir mér er þetta meira grín en alvara og alveg út í hött. Hverjum dettur eiginlega í hug að ESB upplýsi klerk á Akureyri, þó merkur kunni að vera, um möguleika og svigrúm í aðildarsamningum milli ríkisstjórna og forráðamanna ESB?“

Við mann sem skrifar svona þýðir ef til vill ekki að vekja máls á staðreyndum. Að sjálfsögðu var full alvara í svarinu til sóknarprestsins á Akureyri enda í samræmi við fastmótaða stefnu ESB. Þótt ESB-embættismenn séu oft sakaðir um hroka og fjarlægð frá almennum borgurum sæmir ekki að bera á þá lygar. Óli Anton lifir í þeirri trú að Íslendingar geti samið við ESB á sama grunni og Danir sömdu við EB fyrir rúmum 40 árum. Hann áttar sig ekki á pólitískri andstöðu við ESB-aðild Tyrkja.

Þriðjudagur 29. 11. 16 - 29.11.2016 10:15

Viðbrögð vinstrisinna og Kúbuvina við fráfalli einræðisherrans Fidels Castros eru mörg sérkennileg. Sumir hafa lent í vandræðum eins og James Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Hann neyddist til að hætta við að fara til Kúbu og fylgja Fidel Castro til grafar vegna mikillar gagnrýni sem hann hlaut fyrir samúðarkveðju við fráfall einræðisherrans. Trudeau lýsti honum laugardaginn 26. nóvember sem „einstökum leiðtoga“ en sunnudaginn 27. nóvember viðurkenndi hann að Castro hefði verið einræðisherra og brást þannig við kröfu stjórnarandstæðinga um að hann yrði ekki við útförina. Síðar var tilkynnt að dagskrá hans rúmaði ekki för til Kúbu.

Guðmundur Andri Thorsson, dálkahöfundur Fréttablaðsins, skrifar af nokkrum söknuði um Castro í blaðið mánudaginn 28. nóvember. Raunar má skilja hann svo að það hafi ekki verið Castro sem brást heldur kommúnisminn. Guðmundur Andri segir:

„Kommúnisminn brást – en það gerir kapítalismann í sjálfu sér ekkert gáfulegri. Við þurfum alveg nýjar lausnir, nýjan þankagang, nýtt skipulag: annars ferst mannkynið og eftirlætur jörðina kakkalökkunum. [...]

Kapítalisminn er vissulega ómögulegur – en það gerir kommúnismann ekkert gáfulegri.“

Dálkahöfundurinn kallar þarna eftir einhverju nýju þjóðfélagskerfi, væntanlega til þess að menn á borð við Fidel Castro fái notið sín. Boðskapurinn mótast hins vegar af gamalkunnri samanburðarfræði: þótt kommúnisminn sé slæmur er kapítalisminn það líka. Í kalda stríðinu leiddu þessi fræði vinstrisinna gjarnan til þeirra niðurstöðu að Sovétríkin væru þó að lokum ívið betri en Bandaríkin.

Þessi afsökunaraðferð er greinilega ekki gengin sér til húðar hjá þeim á Vesturlöndum sem sætta sig ekki við eigið þjóðfélagskerfi og telja hlutverk sitt að boða einhverja aðra lausn á þjóðfélagsvandanum án þess þó að vita hver hún er.

Á Kúbu lögðu stjórnvöld fram bækur þar sem menn gátu skráð nöfn sín vegna dauða leiðtogans. Textinn til undirritunar hafði ekki að geyma samúðarkveðju heldur hátíðlega yfirlýsingu um hollustu við byltinguna og varðstöðu um hana. Almenningur var hvattur til taka undir „byltingarkenninguna“ sem Castro boðaði í ræðu árið 2000. „Við berjumst áfram fyrir þessum hugsjónum. Við sverjum þess heit!“ segir í textanum.

Fáir muna líklega hvaða kenningu Castro boðaði árið 2000. Í sjálfu sér skiptir það ekki máli fyrir þjóð í kerfi sem er komið í þrot.

 

 

Mánudagur 28. 11. 16 - 28.11.2016 18:15

Sálumessa um vin minn Gunnar Eyjólfsson var frá Kristskirkju í dag kl. 15.00 og rúmaði kirkjan ekki alla sem vildu kveðja hann. Prestur var sr. Hjalti Þorkelsson, oragnisti Steingrímur Þórhallsson, einsöngvarar voru Alina Bubik og Hallveig Rúnarsdóttir, einleik á fiðlu lék Zbignew Dubik, Kammerkór Neskirkju söng en Frímann og Hálfdán – Útfararþjónusta annaðist útförina. Ingvar E. Sigurðsson leikari las úr Pétri Gaut og Sveinn Einarsson flutti minningarorð.

Athöfnin fór vel og virðulega fram. Fallegur, einfaldur hátíðleiki hennar féll vel að minningu Gunnars. Andi hans sveif yfir öllu sem fram fór. Hann er jarðaður í Garðakirkjugarði að eigin ósk, þaðan sést bæði til Keflavíkur og Karmelklaustursins í Hafnarfirði.

Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið og má lesa hana hér. Þar rifja ég upp brot af því marga og eftirminnilega sem við höfum gert saman undanfarna þrjá áratugi. Frá mörgu er sagt hér á þessum dagbókarsíðum. Þær frásagnir eru þó ekki nema reykurinn af réttunum.

Sunnudagur 27. 11. 16 - 27.11.2016 14:45

Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram án þess að nokkur hafi umboð forseta til að mynda stjórn. Það breytir ekki skyldu stjórnmálamanna til að finna leið úr stjórnarkreppunni. Sumum finnst orðið „kreppa“ greinilega svo svakalegt að þeir telja ekki við hæfi að nota það um friðsamlega sambúð stjórnmálaforingja sem geta ekki komið sér saman um starfhæfan meirihluta á þingi að baki ríkisstjórn. Ef menn vilja ekki kalla þetta „kreppu“ verða þeir að finna annað orð.

Hér á sama við og um „starfsmannastjórann“ í Hvíta húsinu. Í Morgunblaðinu var orðið notað en sett í sviga á ensku chief of staff. Það er illa komið ef fjölmiðlamenn geta ekki komið sér saman um eitt gegnsætt orð um þennan háttsetta bandaríska embættismann. Til mín hefur verið send tillaga um að kalla hann einfaldlega „forsetaritara“ þótt í starfinu í Washington felist mun meira vald og mun meiri áhrif en hjá þeim sem gegnir þessu embætti í Reykjavík. Þá hef ég einnig séð tillögu um að kalla hann stallara.

Ég skila auðu í málinu.

Þessi orð eru skrifuð í háloftunum fyrir sunnan Ísland þegar flugstjóri Icelandair-vélarinnar Kötlu var að tilkynna okkur farþegum hans í flugini frá Brussel að tæpar 30 mínútur væru eftir til Keflavíkurflugvallar og við myndum lenda aðeins á undan áætlun.

Þannig lýkur þriggja nátta ánægjulegri ferð til Brussel. Í flugvélinni er nettenging og set ég þetta því inn á vefsíðuna um leið og vélin tekur að lækka sig.

ps eftir að ég komst í samband að nýju eftir heimkomu sendi orðhagur maður mér tillöguna „liðsstjóri“ um manninn við hliðina á Bandaríkjaforseta. Það er gegnsætt orð um hlutverk mannsins sem stjórnar liði forsetans. Það má reyna að innleiða það.

Rétt er að geta þess að við ferð um Brussel-flugvöll verður maður ekki var við annað en allt sé eðlilegt þrátt fyrir eyðilegginguna miklu í hryðjuverkinu í mars. Innkoma í flugstöðvarbygginguna er að vísu sérstök. Okkur var ekið að bílageymslu og farið er í gegnum hana áður en gengið er inn í sjálfa flugstöðvarbygginguna.

Þá má geta þess fyrir áhugamenn um skatta á ferðamenn að við brottför af hótelinu var innheimtur borgarskattur - city tax var sagt, 9,28 evrur á nóttu, 1,115 ísl. kr.

Sunnudagur 27. 11. 16 - 27.11.2016 14:45

Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram án þess að nokkur hafi umboð forseta til að mynda stjórn. Það breytir ekki skyldu stjórnmálamanna til að finna leið úr stjórnarkreppunni. Sumum finnst orðið „kreppa“ greinilega svo svakalegt að þeir telja ekki við hæfi að nota það um friðsamlega sambúð stjórnmálaforingja sem geta ekki komið sér saman um starfhæfan meirihluta á þingi að baki ríkisstjórn. Ef menn vilja ekki kalla þetta „kreppu“ verða þeir að finna annað orð.

Hér á sama við og um „starfsmannastjórann“ í Hvíta húsinu. Í Morgunblaðinu var orðið notað en sett í sviga á ensku chief of staff. Það er illa komið ef fjölmiðlamenn geta ekki komið sér saman um eitt gegnsætt orð um þennan háttsetta bandaríska embættismann. Til mín hefur verið send tillaga um að kalla hann einfaldlega „forsetaritara“ þótt í starfinu í Washington felist mun meira vald og mun meiri áhrif en hjá þeim sem gegnir þessu embætti í Reykjavík. Þá hef ég einnig séð tillögu um að kalla hann stallara.

Ég skila auðu í málinu.

Þessi orð eru skrifuð í háloftunum fyrir sunnan Ísland þegar flugstjóri Icelandair-vélarinnar Kötlu var að tilkynna okkur farþegum hans í flugini frá Brussel að tæpar 30 mínútur væru eftir til Keflavíkurflugvallar og við myndum lenda aðeins á undan áætlun.

Þannig lýkur þriggja nátta ánægjulegri ferð til Brussel. Í flugvélinni er nettenging og set ég þetta því inn á vefsíðuna um leið og vélin tekur að lækka sig.

Laugardagur 26. 11. 16 - 26.11.2016 17:00

 

Mannfjöldinn á götum Brussel er mikill í dag. Jólamarkaðurinn var opnaður með pomp og prakt í gær. Uppljómaðir ísbirnir gengu fylktu liði frá kauphöllinni út á óperutorgið þar sem skautasvell kallar á gesti. Glögg er borið fram í kaffihúsum og á markaðnum.

Til hliðar og inni á meðal mannfjöldans ganga hermenn gráir fyrir járnum með hriðskotabyssur í fanginu. Viðbúnaðinn má rekja til hryðjuverkanna hér fyrr á árinu. Þau hræða þó grreinilega ekki fólk frá að koma saman.

Mikilli umferðaræð í hjarta borgarinnar hefur verið lokað fyrir bílaumferð. Það er ekki af varkárni vegna hættu á hryðjuverkum heldur vegna andúðar nýs borgarstjóra á einkabílnum sagði bílstjóri nokku og taldi þetta aðför að eðlilegu mannlífi í miðborginni.

Síðast þegar forseti Íslands lét hjá líða að veita nokkrum einum umboð til stjórnarmyndunar leiddi það til þess að Gunnar Thoroddsen klauf þinglokk Sjálfstæðismanna og myndaði veikburða stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.

Spennandi verður að sjá hvað gerist núna. Ákvörðun forsetans er gagnrýniverð nema honum hafi að öðrum kosti þótt sér skylt að fela þríeyki Pírata umboðið eða tvíhöfðanum Benedikt og Óttari umboðið. Forseta er alls ekki skylt að setja slíka hringekju af stað. Hann hefði átt að fela Bjarna Benediktssyni umboðið að nýju.

Í Morgunblaðinu birtir Agnes Bragadóttir fréttaskýringu sem dregur aðra mynd af tilraun Katrínar Jakobsdóttur (VG) til að mynda stjórn en ummæli um farsæla forystu hennar gáfu til kynna áður en upp úr slitnaði.

Það hefur fallið á silfur Katrínar í þessum sviptingum. Hitt er þó enn undarlegra að Píratar skuli enn hafa Birgittu Jónsdóttur sem helsta talsmann sinn. Hafi kosningarnar nú orðið til að hafa varanleg áhrif á stjórnmálastarf í landinu snýr það að Pírötum. Þeir ná aldrei að hafa annað en yfirlýsingaáhrif á framvindu stjórnmála á meðan Birgitta er í forystu þeirra. Annaðhvort velta þeir henni úr sessi eða verða áfram í raun áhrifalausir nema í fréttatímum.

Sagt er frá því að útlendingayfirvöld séu tekin til við að beita reglunni um tveggja ára bann við endurkomu á Schengen-svæðið við afgreiðslu mála hælisleitenda frá Makedóníu og Albaníu. Það var tími til kominn og í fréttum ríkisútvarpsins var sagt að 40 hefðu dregið hælisumsókn sína til baka. 

Föstudagur 25. 11. 16 - 25.11.2016 14:15

Í dag rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skrapp í heimsókn í höfuðstöðvar NATO í Brussel að um hálf öld er síðan ég kom þangað fyrst. NATO flutti þá frá París til Brussel í búðir belgíska flughersins enda bar þetta brátt að vegna ákvörðunar Charles de Gaulles Frakklandsforseta sem vildi árétta sjálfstæði Frakka á þennan hátt og setja skil á milli sín og Bandaríkjastjórnar á skýrari hátt en áður.

Bandalagið hefur starfað á þessum stað síðan í lágreistum byggingum. Aðildarríkjunum hefur fjölgað úr 12 í 28 (brátt 29) og húsnæðisvandinn hefur verið leystur með því að bæta við fleiri 3ja hæða einingum og lengja gangana. Anddyrið er enn sama og áður, öryggisgæsla við inngöngu í höfuðstöðvarnar hefur þó verið aukin til muna. Gestir mega til dæmis ekki taka með sér farsíma inn í bygginguna.

Handan við götuna sem áður var hraðbraut en er nú orðin að einskonar innan-borgargötu með sporvögnum er nú verið að leggja lokahönd á nýjar byggingar sem eiga að hýsa NATO. Þegar spurt er hvenær verði flutt vill enginn nefna ákveðna dagsetningu. Svo oft hafi dagsetningar ekki staðist en það verði væntanlega næsta sumar.

Í NATO eins og annars staðar ræða menn hvaða breytingar verða vegna sigurs Donalds Trumps. Enginn efast um að Bandaríkjamenn verði áfram þungamiðjuþjóð innan bandalagsins. Óvissuþættir tengjast þó fleiru: Brexit, þjóðaratkvæðagreiðslu á Ítalíu, forsetakosningum í Frakklandi, þingkosningum í Þýskalandi og síðast en ekki síst ástandinu í Tyrklandi.

Nú er samtal okkar dr. Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur sagnfræðings komið á netið eins og sjá má hér.

Það var frumsýnt á ÍNN miðvikudaginn 23. nóvember og fjallar um bókina Land föður míns sem Vilborg þýddi og gefin er út af Uglu.

Fimmtudagur 24. 11. 16 - 24.11.2016 16:15

Flugum til Brussel í morgun með Icelandair. Allt var á áætlun, gott ferðaveður og einnig er veðrið í Brussel gott. Miðborgin var lokuð vegna mótmæla starfsmanna á sviði heislugæslu og menningarmála. Ekki var unnt að aka að hótelinu og fjöldi fólks í sérstökum klæðnaði mótmælenda setti svip á borgarlífið en kröfugöngum var lokið þegar við vorum á ferðinni um hádegisbilið.

Það er verið að setja upp risastóra jötu á Grand Place og þar er nú fagurlega skreytt jólatré. Þá má sjá á öllu umstaningu í kringum kauphöllina að árlegi jólamarkaðurinn þar verður opnaður um helgina.

Belgía er sérkennilegt ríki, skipt í fjóra hluta: Brussel, Vallóníu, Flæmingjaland og land þýskumælandi. Þing Vallóna komst í fréttir á dögunum þegar það andmælit fríverslunarsamningi ESB og Kanada. Fyrir þessu voru ekki síst ástæður sem rekja má til stjórnmálaástandsins í Belgíu en sósíalistar sem ráða miklu í Vallóníu eiga ekki menn í sambandsstjórninni. Þeim þótti því ekkert að því að skapa ríksstjórn eigin lands vandræði og þrýsting frá ráðamönnum innan ESB.

Belgar eiga heimsmet í lengd stjórnarkreppu, 541 dag, árið 2011. Það met jók ekki trú manna á stjórnarháttum í landinu.

Nú hefur stjórnarkreppa hjá okkur staðið síðan 30. október. Þegar svo er var skrýtið að heyra stjórnmálafræðing ríkisútvarpsins, Eirík Bergmann Einarsson,  segja í gær að nú færi að glitta í stjórnarkreppu. Hvaða ástand telur stjórnmálafræðingurinn að hafi ríkt í landstjórninni frá 30. október? 

Miðvikudagur 23. 11. 16 - 23.11.2016 11:00

Utanríkisráðherrar EFTA-landanna, Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss hittust á fundi í Genf mánudaginn 21. nóvember. Eftir fundinn er ljóst að ríkisstjórnir Íslands og Sviss eru jákvæðari fyrir aðild Breta að EFTA eftir útgöngu þeirra úr ESB en Norðmenn. Johann Schneider-Amman, forseti Sviss, sagði að vildu Bretar nálgast EFTA með aðild í huga væru Svisslendingar tilbúnir að ræða málið.

Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði að loknum fundinum mikilvægt að EFTA-ríkin yrðu samstíga og létu ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið. Fyrir Ísland væru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Áður hefur Lilja lýst jákvæðu viðhorfi til aðildar Breta að EFTA og tekið annan pól í hæðina en norskir ráðherrar.

Tvíræðni Norðmanna birtist enn eftir fundinn í Genf og kann Lilja að vísa til hennar þegar hún áréttar nauðsyn þess að allir innan EFTA séu samstiga. Monica Mæland, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noreg, sagði eftir Genfar-fundinn að Bretar væru mikilvægasta viðskiptaþjóð Norðmanna sem vildu viðhalda eins góðu sambandi við þá og unnt væri. Bretum yrði best borgið í eins nánum tengslum við innri markað ESB og verða mætti. Norðmönnum kæmi soft Brexit – mjúk útganga – best. Þeir hefðu ekki lýst neinum áhuga á EFTA-aðild. Sæktu þeir um hana yrði málið að sjálfsögðu rætt.

Aðild að EFTA er forsenda aðildar Breta að EES-samningnum. Sumir fréttaskýrendur gera því skóna að Norðmenn séu svona tregir í taumi þegar kemur að EFTA-aðild Breta vegna þess að þeir vilji ekki missa stöðuna sem stærsti og áhrifamesti aðilinn að EFTA-hlið EES-samningsins (Sviss er ekki í EES).

Hér skal ekki gert lítið úr slíkum þjóðarmetnaði. Hitt getur einnig verið skýring að meðal ráðamanna í Noregi og innan norska stjórnarráðsins gæti ríks vilja til náins sambands við ESB og norskir ESB-vinir vilji einfaldlega ekki segja eða gera neitt sem Brusselmenn telja að veiki stöðu sína gagnvart Bretum í komandi Brexit-viðræðum.

Breski blaðamaðurinn Christopher Booker ítrekaði í grein í The Sunday Telegraph 20. nóvember þá skoðun að eftir brottför úr ESB gætu Bretar aðeins staðið í viðskiptum „innan“ innri markaðarins á sama hátt og þeir gera nú með aðild að EES. Öryggisákvæði EES-samningsins veittu Bretum rétt til að hafa stjórn á fjölda innflytjenda. Booker er fróðastur breskra dálkahöfunda um tengsl Bretlands og ESB.