31.12.2016 13:30

Laugardagur 31. 12. 16

 

Glöggur lesandi þess sem hér stóð í gær sendi mér þessa athugasemd:

„Ég skil ekki hvers vegna þú undrast á: „Kröfugerðina á hendur öðrum, einkum stjórnvöldum" Í landi þar sem hið opinbera á 80% eigna þjóðarinnar og 30% landsmanna 15% þannig að aðeins 5% er til skipta fyrir 70% landsmanna (Mbl. 3. des 2015) munu menn gera kröfur til „eigenda“ 95% þjóðareignarinnar. Endurúthlutunarþjóðfélagið (Mbl. 19. jan. 2013) virkar svona. Það mun ganga af sjálfu sér dauðu þegar það gengur ekki lengur upp.“

Hér verður ekki rýnt í hlutfallstölurnar sem nefndar eru í athugasemdinni eða þær dregnar í efa. Þær gefa ekki gott fyrirheit um framtíðina því að ekki skilar neinu til lengdar að gera aðeins kröfur til annarra í stað þess að líta í eigin barm og láta að sér kveða á eigin forsendum.

Nú þegar vinstrisinnaðir hagfræðingar telja mannkyni helst til bjargar að auka jöfnuð má minnast þess að GINI-stuðullinn margumtalaði sem mælir misskiptingu auðs innan samfélaga hefur aldrei verið lægri á Íslandi, það er jafnréttið sem stuðullinn mælir hefur aldrei verið meira hér á landi.

Í áramótagrein í Morgunblaðinu segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Nú við áramót er ástæða til að líta um öxl á árangur síðustu ára. Á þessu ári varð ljóst að kostnaður íslenska ríkisins vegna hrunsins yrði endurheimtur og gott betur. Afgangur fjárlagaáranna 2014-2016 vegur upp allan hallarekstur áranna á undan. Þjóðarframleiðslan hefur náð sér á strik og er orðin meiri en þegar best lét fyrir fall bankanna, uppgangur ferðaþjónustunnar hefur þar gegnt stóru hlutverki.[...]

Ísland á í fyrsta sinn í yfir 50 ár meira erlendis en það skuldar, skuldastaða heimila og fyrirtækja er orðin betri en í lok síðasta góðæris, verðbólga er lítil og kaupmátturinn vex verulega ár frá ári.“

Ótrúlegur efnahagslegur árangur hefur náðst undanfarin misseri. Kosningarnar 29. október 2016 skapa forsendur fyrir pólitísk þáttaskil með myndun ríkisstjórnar á grundvelli stefnu um hvernig nýta skuli þennan árangur með því að auka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra.

Þakka samfylgdina á árinu 2016.