Dagbók: júní 2014

Mánudagur 30. 06. 14 - 30.6.2014 22:00

Berlingske Media í Danmörku sem gefur út Berlingske Tidende hefur verið selt til belgíska útgáfufélagsins  De Persgroep. Það var félagið Mecom sem seldi og voru þetta þriðju eigendaskiptin á elsta blaðaútgáfufyrirtæki Danmerkur á tæpum15 ár. Ferðin hófst árið 1999 þegar Mærsk Mc-Kinney Møller, eigandi og stjórnandi stórfyrirtækisins A.P. Møller, ákvað að selja hlutabréf sín í Berlingske.

Sagan segir að Mc-Kinney Møller hafi reiðst vegna skrifa í Berlingske Tidende um að faðir hans hafi verið hluthafi í fyrirtæki sem seldi Þjóðverjum vopn í síðari heimsstyrjöldinni. Árið 1982 hafði A.P. Møller-Mærsk tekið höndum saman með Danske Bank og Calsberg og bjargað Berlingi frá gjaldþroti. Sumir segja hins vegar að hann hafi selt bréfin 1999 vegna alþekkts viðskiptalegs innsæis. Hann hafi séð hvert stefndi í blaðaútgáfu á tímum rafrænna miðla.

Det Berlingske Officin hét blaðaútgáfan þá og árið 2000 keypti norska stórfyrirtækið Orkla hana. Meginrekstur þess snerist um matvöruverslanir en Berlingske og systurblöðin BT og Weekendavisen voru felld undir deildina Orkla Media. Þar voru blöðin í sex ár þar til breska fjárfestingarfyrirtækið Mecom sem átti blöð í Þýskalandi og Hollandi keypti blöðin og breytti nafni félagsins í Berlingske Media.

Nýi eigandinn, De Peersgroup gefur meðal annars úr mest selda dagblað Belgíu Het laatste Nieuws og fjögur hollensk dagblöð og er Algemeen Dagblad (AD) stærst.

Hér er sögð enn ein sagan af uppnáminu sem víða ríkir í blaðaheiminum vegna aðlögunar hans að hinum leiðum til upplýsingamiðlunar.

Sunnudagur 29. 06. 14 - 29.6.2014 22:30

Leiðtogaráð ESB ákvað að tilnefna Jean-Claude Juncker forseta framkvæmdastjórnar ESB af því að ESB-þingið hefði fellt þann sem ella hefði verið tilnefndur. ESB-þingið á síðasta orðið, þar er kosið um menn í framkvæmdastjórn ESB. Leiðtogaráðið hefur rétt til tilnefningar. ESB-þingmenn héldu því raunar fram að ráðið gæti ekki annað en tilnefnt Juncker, fulltrúa stærsta þinflokksins.

Höfnun leiðtogaráðsins á Juncker hefði bætt stjórnarkreppu við skulda- og efnahagskeppu innan ESB. Samstarfið innan ESB hefði ekki þolað stjórnarkreppu og erfiðleikar leiðtoganna hefðu orðið meiri vegna hennar en óþægindin af því að tilnefna Juncker. Að hann kemur frá Lúxemborg auðveldar Þjóðverjum og Frökkum að hafa hann í vasanum.

Það verður spennandi að sjá hvaða embætti Bretar fá í stjórnkerfi ESB eftir að David Cameron forsætisráðherra tapaði orrustunni um Juncker. Nú er Breti talsmaður ESB í öryggis- og utanríkismálum. Halda þeir því embætti áfram?

Sérkennilegt er að talað sé um afstöðu Camerons eins og hann hafi framið veisluspjöll. Að ekki séu allir sammála um val á manni í toppsæti kemur engum lýðræðissinna á óvart. Innan ESB ríkir hins vegar samtryggingarkerfi sem vegur þyngra en lýðræðisástin þegar á reynir – sparkað er í þá sem hafa sjálfstæða skoðun. Michel Rocard, fyrrv. forsæstisráðherra Frakka, sagði best að Bretar færu úr ESB af því að þeir héldu fram kröfum um sérlausnir.

Íslendingar vildu sérlausn í sjávarútvegsmálum og ESB neitaði að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Viðræðunum var hætt – hvaða íslenskur stjórnmálamaður ætlar að blása í þær lífi að nýju?

 

Laugardagur 28. 06. 14 - 28.6.2014 23:30

Innanríkisráðuneytið og Rauði krossinn gerðu nýlega samning um málefni hælisleitenda. Í honum felst meðal annars að Rauði krossinn sér hælisleitendum fyrir lögmönnum. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður hefur í áranna rás látið málefni hælisleitenda sig varða. Í dag lýsir hann í samtali við Reykjavík vikublað ótta um að lögmenn missi spón úr aski sínum vegna hins nýgerða samnings við Rauða krossinn. Hann harmar að samningurinn kunni að leiða til minni ríkisútgjalda og lætur að því liggja að lækkun útgjaldanna sé aðför að mannréttindum hælisleitenda.

„Þessi samningur þýðir auðvitað að lögmenn hætta almennt að fylgjast með því hvernig Útlendingastofnun hagar störfum sínum. Það dregur þá úr möguleikum lögmanna, og kannski áhuga, til að gera grein fyrir störfum stofnunarinnar og gagnrýna þar starfshætti,“ segir Ragnar. Hann hefur oft flutt hvassa gagnrýni á yfirvöld og talið hana í þágu hælisleitenda. Mín reynsla er að Ragnar hikaði ekki við að ganga of langt í yfirlýsingum um örlög einstaklinga sem vísað var úr landi.

Viðtalið við Ragnar sýnir að hann lítur þannig á að íslenska ríkið eigi að standa straum af kostnaði við störf lögmanna sem taka að sér að berjast fyrir málstað hælisleitenda gegn stofnunum ríkisins. Hann óttast að lögfræðingar sem þannig hafa starfað missi spón úr aski sínum, fé til Rauða krossins og lögfræðinga á hans vegum sé illa varið, ekki síst vegna þess að gert sé ráð fyrir að hlutlausri ráðgjöf af hálfu lögfræðinga Rauða krossins.

Þessi afstaða Ragnars Aðalsteinssonar skýrir hvers vegna oft er engu líkara en lögmenn hælisleitenda gangi frekar fram sem almannatenglar en lögmenn í hefðbundnum samskiptum við stofnanir ríkisins í þágu skjólstæðinga sinna. Yfirlýsingar lögmannanna hafa löngum átt greiða leið inn í fréttatíma ríkisútvarpsins og þær hafa verið gefnar til að vekja samúð með skjólstæðingum lögmannanna og ýta undir þá skoðun að yfirvöldin sýni óbilgirni.

 

Föstudagur 27. 06. 14 - 27.6.2014 19:00

Nýjasti þáttur minn á ÍNN frá miðvikudeginum 25. júní þar sem ég ræddi við Börk Gunnarsson, blaðamann á Morgunblaðinu, um ástandið í Írak er kominn inn á netið og má sjá hann hér.

Það var valtað yfir David Cameron, forsætisráðherra Breta, á fundi leiðtogaráðs ESB í dag þegar 26 af 28 leiðtogum ESB-ríkja ákváðu að láta andstöðu hans við tilnefningu Jean-Claudes Junckers í forsæti framkvæmdastjórnar ESB sem vind um eyru þjóta. Viktor Orban frá Ungverjalandi var hinn eini sem var sama sinnis og Cameron. Hér má lesa nánar um þessi átök.

Niðurlæging Camerons er í hrópandi andstöðu við þá skoðun sem heyrist stundum hér á landi frá þeim sem líta á Evrópusambandið sem eitthvað annað og meira en samskiptavettvang ríkisstjórna. Aðildar- og viðræðusinnar á Íslandi segja, þegar þeir eru komnir út í horn, að innan ESB séu samskiptin á svo siðmenntuðu stigi að þar detti engum í hug að valta yfir þann sem sé á öndverðum meiði, alltaf sé valin leið virðingar og sátta. Þetta er auðvitað bábilja eins og svo margt annað sem þetta fólk segir til að fegra málstað sinn.

Að sjálfsögðu er ekki hikað við að valta yfir Breta séu þeir með sérsjónarmið. Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, taldi nýlega best fyrir alla að Bretar hyrfu  einfaldlega úr ESB þeir spilltu svo mjög fyrir öllu innan dyra. Mátti skilja hann á þann veg að Bretar hefðu ekki þroska til að taka þátt í samstarfinu innan ESB. Aðfararirnar við að velja forseta framskvæmdastjórnarinnar bera ekki með sér mikinn lýðræðisþroska þegar látið er í veðri vaka að velja verði Jean-Claude Juncker vegna sigurs EPP-flokksins í ESB-þingkosningunum.

Með valinu á Juncker er ýtt undir völd og áhrif ESB-þingsins á kostnað þjóðþinganna 28 og þar með vegið enn einu sinni að þeim aðilum innan ESB sem starfa óskorað í umboði kjósenda í einstökum ríkjum. Þessir kjósendur þekkja þá almennt sem þeir kjósa á þjóðþingin en hafa ekki minnstu hugmynd um hverjir sitja á ESB-þinginu. Lýðræðið innan ESB er skrumskæling af lýðræðinu, hannað hefur verið stjórnkerfi sem ekki yrði liðið í neinu lýðræðisríki.

Fimmtudagur 26. 06. 14 - 26.6.2014 19:50

Hilmar Þorsteinsson kærði í apríl 2014 þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja honum um aðgang að niðurstöðum PISA-könnunar 2012, sundurliðuðum eftir grunnskólum borgarinnar. Reykjavíkurborg synjaði beiðninni m.a. á þeim forsendum að um vinnugögn væri að ræða. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það. Þá taldi hún ekki vera í þeim upplýsingar sem féllu undir lög um persónuvernd. Því bæri Reykjavíkurborg að afhenda kæranda afrit af gögnunum. Þetta segir í úrskurði nefndarinnar frá 24. júní 2014.

Fagna ber þessari niðurstöðu um leið og lýst er undrun yfir hve hart embættismenn Reykjavíkurborgar hafa lagt að sér til að komast hjá því að afhenda gögnin sem hér um ræðir. Með vísan til þeirra geta allir áhugamenn um bætt skólastarf, foreldrar og aðrir, fengið aðgang að upplýsingum sem gefa vísbendingar um gæði skólastarfs. Miðlun þessara upplýsinga er forsenda nauðsynlegs aðhalds að skólastarfi.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, beitti sér mjörg fyrir að aðgengi almennings að upplýsingum um innra starf skóla yrði aukið. Talaði hún fyrir daufum eyrum á æðstu stöðum í stjórnkerfi borgarinnar. Nú liggur hins vegar ljóst fyrir að það er ekki farið að lögum þegar því er neitað innan borgarkerfisins að miðla upplýsingum af því tagi sem fást á grundvelli PISA-könnunarinnar.

 

Miðvikudagur 25. 06. 14 - 25.6.2014 22:43

Í dag ræddi ég við Börk Gunnarsson, blaðamann á Morgunblaðinu, í þætti mínum á ÍNN. Börkur var upplýsingafulltrúi NATO í Bagdag í Írak 2005 til 2006. Við ræddum um stöðuna í Írak um þessar mundir. Næst má sjá þáttinn á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Í dag komst Hæstiréttur Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu að lögregla mætti ekki rannsaka farsíma þeirra sem hún handtekur án þess að hafa til þess leitarheimild frá dómara. Þetta er niðurstaða sem markar tímamót og mun áreiðanlega hafa áhrif langt úr fyrir Bandaríkin. Nánar má lesa um þetta á Evrópuvaktinni.

Þessi bandaríski dómsúrskurður hlýtur að vekja athygli hér á landi þar sem menn ræða nú af hita um heimildir til saksóknara við rannsóknir mála og hvernig staðið er að úrskurðum um þær af hálfu dómara.

Í sjálfu sér er nýmæli að nú skuli athygli hér beinast að þeirri staðreynd að dómarar úrskurða og heimila hlerun en hvorki saksóknari né lögregla. Í hinum miklu hlerunarumræðum sem urðu hér árið 2006 og á árunum þegar ég var dómsmálaráðherra létu þeir sem hæst höfðu eins og dómsmálaráðherra hefði tekið ákvörðun um hleranir á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum. Allt var þetta þá blásið upp á pólitískum forsendum og þeim til lítils sóma sem að því stóðu.

Gagnrýnin á hleranir nú er á öðrum grunni en á árunum 2003 til 2008. Þegar rætt er um formhlið málsins hljóta menn hins vegar að verða að líta til þeirra venja sem skapast hafa í áranna rás, til dæmis um það hver gengur með beiðni á fund dómara. Venja skiptir máli við framkvæmd stjórnarskrár og laga. Gildi hennar veiktist hins vegar í sakfellingu meirihluta landsdóms í málinu gegn Geir H. Haarde.

Þriðjudagur 24. 06. 14 - 24.6.2014 21:40

Það er til marks um breytingar á andrúmsloftinu í samfélaginu eftir hrun að gagnrýni á sérstakan saksóknara herðist og nú beinast spjótin einnig að dómurum. Þessi þróun er rannsóknarefni og ætti að bera hana saman við það sem gerist í öðrum löndum þegar þeir eru sóttir til saka sem vekja áhuga fjölmiðla eða kjósa að flytja mál sitt í þeim samhliða því sem þau eru reifuð frammi fyrir dómurunum.

Baugsmálið 2002 til 2008 var að verulegu leyti háð í fjölmiðlum. Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi má sjá hve margir tóku til máls á opinberum vettvangi til varnar Jóni Ásgeiri og félögum og hve hart var ráðist að þeim sem Baugsmenn töldu standa að baki málarekstrinum gegn sér. Þar svifust menn ekki neins og leitast var við að breyta málinu í pólitískt átakamál. Umræðurnar nú hafa ekki tekið þá stefnu.

Fyrir nokkrum árum hitti ég ítalskan prófessor í stjórnmálafræði. Við ræddum um stöðu Silvios Berlusconis sem þá var á hátindi valdsins sem forsætisráðherra en sætti rannsókn lögreglu. Prófessorinn var sannfærður um að þetta væru pólitískar ofsóknir og fór mörgum orðum um þær. Nú hefur Berlusconi (77 ára) verið dæmdur út af ítalska þinginu og sinnir samfélagsþjónustu í refsingarskyni. Vafalaust telja ýmsir stuðningsmenn Berlusconis enn að hann sé fórnarlamb pólitískra óvina, lögreglu, saksóknara og dómara.

 

 

 

Mánudagur 23. 06. 14 - 23.6.2014 20:30

Í dag hlýddi ég á doktorsvörn Sumarliða R. Ísleifssonar sagnfræðings í hátíðarsal Háskóla Íslands. Hann varði þar ritgerð sína um ímynd Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar eins og hún birtist í erlendum ritum, einkum enskum og þýskum. Var fróðlegt að kynnast útlistunum doktorsefnisins á þessu viðfangsefni og viðræðum hans við andmælendur. Í lokin varð hann dr. Sumarliði og fagnaði fjölmennur hópur áheyrenda honum með lófataki.

Ástráður Eysteinsson, forseti hugvísindasviðs háskólans, setti samkomuna og sagði að um 500 manns stunduðu nú doktorsnám í Háskóla Íslands og Sumarliði væri hinn 10. frá 2008 sem verði doktorsritgerð við sagnfræðideild skólans. Þetta er mikil gróska en við brautskráningu úr HÍ laugardaginn 21. júní sagð Kristín Ingólfsdóttir rektor meðal annars:

„Í þessari viku var birtur nýr listi yfir 3.000 áhrifamestu vísindamenn í heimi. Meðal þeirra er  Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild, en hann er handhafi tveggja einkaleyfa sem ég nefndi hér að framan.  Á listanum er einnig Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild. Þar eru líka níu aðrir vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar.   Á Íslandi starfa þannig 11 af 3.000 áhrifamestu vísindamönnum í heiminum.  Sú hlutdeild jafnast á við að hér búi 26 milljónir manna en ekki 320 þúsund.“

 

Í nýjasta hefti hins heimskunna bandaríska tímarits Foreign Affairs er grein sem heitir New World Order - Labor, Capital, and Ideas in the Power Law Economy eftir Erik Brynjolfsson, Andrew McAfee, and Michael Spence. Erik Brynjolfsson  er kynntur á þennan veg: Schussel Family Professor of Management Science at the MIT Sloan School of Management and Co-Founder of MIT's Initiative on the Digital Economy.

Sé Google spurður um Erik Brynjolfsson kemur meðal annars upp símasamtal sem Páll Þórhallsson, þá blaðamaður á Morgunblaðinu, nú skrifstofustjóri löggjafarmála í forsætisráðuneytinu, átti við Erik árið 1994. Þar segir í upphafi:

- Góðan dag, ég heiti Páll Þórhallsson blaðamaður á Morgunblaðinu. Er þetta Erik Brynjólfsson?

Já.

- Ég var að lesa í The Economist um rannsóknir þínar á áhrifum tölvuvæðingar á framleiðni fyrirtækja. Nafnið vakti athygli mína, ertu af íslenskum ættum?

Já, reyndar. Faðir minn, Ari Brynjólfsson, er Akureyringur. Ég fæddist í Danmörku en ólst upp í Bandaríkjunum.

- Hefurðu komið til Íslands?

- Já, nokkrum sinnum. Ég á þar ættingja eins og Áslaugu Brynjólfsdóttur fræðslustjóra.

 

Sunnudagur 22. 06. 14 - 22.6.2014 21:50

Í gær var hér minnst á að í fréttum ríkisútvarpsins hefði verið talað um „fjölsóttustu staðina“ á Hornströndum. Í dag flutti ríkisútvarpið upptöku á tónleikum Mahler-kammersveitarinnar í Eldborg, metnaðarfullum og glæsilegum tónleikum, stórtónleikum sagði kynnirinn og talaði einnig um að Mahler-sveitin væri með þeim „þéttbókuðustu“ í heimi. Þetta orðskrípi átti væntanlega að segja hlustendum að mikil spurn væri eftir hljóðfæraleikurunum og dagbækur þeirra væru mjög þéttbókaðar.

Á sunnudagskvöldum er þátturinn Hovedscenen á dagskrá NRK2-sjónvarpsstöðvarinnar. Þar eru sýndir listrænir viðburðir, óperur, ballettar (um síðustu helgi Svanavatnið frá Mariinskji leikhúsinu í St. Pétursborg) og tónleikar. Í kvöld er sýnt frá barokk-hátíð í Champs Elysée leikhúsinu í París. Skemmtilegt sjónvarpsefni og vel gert.

Laugardagur 21. 06. 14 - 21.6.2014 21:25

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var talað um „fjölsóttustu staði“ á Hornströndum þetta er eins og að lýsa „háttsettustu“ embættismönnum einshvers staðar í stað þess að nefna þá hina „hæst settu“. Áhyggjurnar á Hornströndum snúast um „mest sóttu“ staðina.

Undarlegt er hve þulir ríkisútvarpsins þylja oft dagskrárkynningu sem uppfyllingarefni í stað þess að leika tónlist úr því að dagskrárgerð er hagað þannig að hlé myndast. Stefin sem áður voru flutt til uppfyllingar eru horfin og í stað þeirra eru kynningar að dagskrá endurteknar. Kvað svo rammt að þessu í hádeginu að eini kosturinn var að slökkva á viðtækinu.

Vinstri-grænir (VG) efndu til flokksráðsfundar í dag og setti Björn Valur Gíslason, varaformaður flokksins, fundinn og sagði meðal annars:

„Það virðast vera skamm­tíma­sjón­ar­mið og ein­stök mál um­fram heild­ar­sjón­ar­mið og framtíðar­sýn sem ráða því hvernig kjós­end­ur ráðstafa at­kvæðum sín­um. Niðurstaða [sveitarstjórnar]kosn­ing­anna hlýt­ur að valda ákveðnum áhyggj­um.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í ræðu sinni:

„Einn vandi íslenskra stjórnmála er að við hugsum í kjörtímabilum. En þegar við erum að ræða stóru málin þá dugir ekki að hugsa til næstu fjögurra ára. Þá þarf að hugsa til næstu 100 ára.“

Vinstri-grænir fóru illa út úr sveitarstjórnarkosningunum. Forysta flokksins hefur greint vandann: Það á að beina augum kjósenda til næstu 100 ára en fjögurra.

Föstudagur 20. 06. 14 - 20.6.2014 22:10

Viðtal mitt við Rósu Guðbjartsdóttur, formann bæjarráðs Hafnarfjarðar, á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Í bandarískum fjölmiðlum og víða annars staðar velta menn fyrir sér hvort Hillary Clinton hafi sent frá þriðju bók sína Hard Choices til að skapa sér stöðu og afla sér fylgis fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Í nýjasta hefti breska vikuritsins The Spectator birtist ritdómur um bókina eftir Matthew Walther. Af honum má ráða hann mundi ekki kjósa Clinton hefði hann kosningarétt. Hann segir:

„Draugar Clinton hafa skrifað bók fyrir fólk án mikillar reynslu af bókum. Raunar hafa þeir skrifað bók fyrir fólk án mikillar reynslu af fólki […] Tiltölulega snemma lesum við um rifrildi tveggja starfsmanna utanríkisráðuneytisins sem semja frið og taka til við að hittast um helgar „til að ræða stefnumörkun þegar þeir fá sér egg og heitt súkkulaði“. Eru þeir sérvitringar? Af öðrum hnöttum? Eða hafa höfundar okkar sem fengu í hendurnar leiðinlega frásögn um tilviljanakennd samtöl yfir kaffi án koffíns einfaldlega fært hana í stílinn?

Annars staðar erum við frædd um að „í einkahádegisverði í Yellow Oval Room  á annarri hæð í Hvíta hússins“ hafi Clinton rætt við Michelle Obama „um hvernig forsetafjölskyldan hefði komið sér fyrir og áform hennar um að berjast gegn offitu barna með heilsusamlegra mataræði og hreyfingu“. Ég spyr: Tala einhverjir saman á þennan hátt? „Hæ Michelle.“ „Já, halló Hillary.“ „Jæja, hvernig gengur?“ „Ekki sem verst.“ „Hvað ertu að sýsla?“ „Ekkert sérstakt. Mér datt bara í hug að berjast gegn offitu barna með heilsusamlegra mataræði og hreyfingu.“ Gervi-staðreyndir eins og þessar og hundruð annarra er bornar á borð til að gera Clinton mannlegri en gera hana aðeins undurförlari en hún er líklega í raun.

Hard Choices er löng, róleg, leiðinleg bók. Við lesturinn langaði mig til að sýna af mér illsku. Mig langaði til að setja eitthvað ógnandi á spilarann og hækka hljóðið. Mig langaði til að stela ís í brauðformi af barni eða sparka í kettling. Mið langaði til að kveikja í fimm eða sex hægt brennandi sígarettum, kasta þeim í pósthólf nágranna minna og kveikja í póstkortum og gluggaumslögunum þeirra. Bílstuldur, íkveikja, jafnvel morð, allt kom þetta í huga minn.“

 Ég held að lestur þessarar bókar bíði hjá mér.

Fimmtudagur 19. 06. 14 - 19.6.2014 22:55

Viðskiptafréttir eru ekki sterkasta hlið fréttastofu ríkisútvarpsins, raunar þekkjast þær ekki sem sérstakur liður í dagskránni eins og almennt er í útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Líklega er þetta vegna hefðar sem skapast hefur á fréttastofunni. Hún hefur í áranna rás almennt verið hallari undir ríkisrekstur en einkaframtakið.

Vanmáttur fréttamanna til að fjalla um viðskiptamál birtist greinilega í Spegli fréttastofunnar í dag þegar rætt var um viðskipti orkufyrirtækja með grænar heimildir. Hér verður ekki gerð tilraun til að endursegja það sem flutt var áheyrendum, í mínum eyrum var það einfaldlega óskiljanlegt.

Hafi fréttamaðurinn skilið hvað viðmælandi hans sagði hefði hann átt að setja það fram á þann hátt að skiljanlegt yrði fyrir áheyrendur. Framsetningin var hins of flókin til að vekja trú á að fréttastofan vissi hvernig ætti að setja efnið í aðgengilegan búning fyrir hinn almenna hlustanda.

Miðvikudagur 18. 06. 14 - 18.6.2014 22:50

Í dag ræði ég við Rósu Guðbjartsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna og formann bæjarráðs í Hafnarfirði, í þætti mínum ÍNN. Næst má sjá þáttinn á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Dick Cheney, fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna, skrifar harðorða gagnrýni á Barack Obama Bandaríkjaforseta í The Wall Street Journal í dag og segir hann ráðalausan vegna stöðunnar í Írak annars staðar. Hann segir:

„Hætta er á Írak falli í hendur róttæks hryðjuverkahóps íslamista og Obama talar um loftslagsbreytingar. Hryðjuverkamenn ná meira landi og auðlindum á sitt vald en nokkru sinni fyrr í sögunni og hann fer í golf. Hann virðist gjörsamlega andvaralaus eða honum virðist standa á sama um þá staðreynd að endurvakið al-Kaída skapar skýra og brýna hættu fyrir Bandaríkin.[…]

Árið 1983 sagði Ronald Reagan forseti: „Megi eitthvað læra af sögunni er það að einfeldningsleg friðþæging og óskhyggja gagnvart andstæðingum okkar er tóm vitleysa. Í því felast svik við fortíð okkar og aðför að frelsi okkar.“ Obama forseti stefnir að því að hans verði minnst sem mannsins sem sveik fortíð okkar og eyddi frelsi okkar.“

 

 

 

Þriðjudagur 17. 06. 14 - 17.6.2014 22:50

Ókum til Þingvalla í kvöld þar sem Rut lék einleik í Þingvallakirkju í tónleikaröðinni sem Einar Jóhannesson skipuleggur nú áttunda árið í röð. Það rigndi mikið og minnti vafalaust á veðrið 17. júní 1944 eins og því hefur verið lýst, nú síðast í skemmtilegum sjónvarpsþætti þar sem rætt var við lýðveldisbörnin. Tónleikagestir fylltu bekki kirkjunnar og fögnuðu Rut vel í lokin.

Mánudagur 16. 06. 14 - 16.6.2014 22:15

Þess verður minnst á morgun að 70 ár eru liðin frá því að lýðveldið Ísland var stofnað. Á þjóðhátíðardeginum árið 2014 láta sumir enn eins og ESB-aðildarumsóknin leiði að lokum til einhvers sem styrki lýðveldið þótt framkvæmd hennar jafngilti afsali á yfirráðum fiskveiðilögsögunnar og fiskveiðistjórnin flyttist til Brussel. Yrði það mesta aðför að efnahagslegum grundvelli lýðveldisins í sögu þess.

Með þingtæknilegum aðferðum tókst á liðnum vetri að koma í veg fyrir að vilji kjósenda um afturköllun ESB-umsóknarinnar næði fram að ganga. Ríkisstjórninni var ekki nauðsynlegt að leggja tillögu um afturköllun umsóknarinnar fyrir alþingi. Strax eftir myndun sína gat ríkisstjórnin lýst yfir við framkvæmdastjórn ESB að umsóknin væri úr sögunni. Reynsluleysi eða röng ráðgjöf varð til þess að sú leið var ekki farin.

Einhliða tilkynning utanríkisráðherra eða forsætisráðherra sem báðir hafa umboð til að binda þjóðina gagnvart öðrum ríkjum eða alþjóðasamtökum dugar til að afturkalla ESB-umsóknina. Enginn efast um að þingmeirihluti er að baki slíkri ákvörðun. Deilan á þingi snerist um inntak óljósra yfirlýsinga um þjóðaratkvæðagreiðslu í tengslum við framhald viðræðna við ESB.

Engum ætti að vera mikilvægara en forsætisráðherra að óvissu sé eytt gagnvart ESB. Hinn 17. júní 2010 veitti leiðtogaráð ESB framkvæmdastjórn ESB umboð til að hefja aðildarviðræður við ríkisstjórn Íslands. „Með ákvörðun leiðtogaráðsins færðist Ísland úr umsóknarferli yfir í viðræðuferli,“ segir á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Ríkisstjórnin batt enda á viðræðuferlið fyrir ári. Nú er tímabært að binda enda á umsóknarferlið. Það færi vel á að gera það fjórum árum eftir að viðræðuferlið hófst.

Sunnudagur 15. 06. 14 - 15.6.2014 22:30

Ég spáði því hér í gær að Már Guðmundsson seðlabankastjóri mundi ekki ætla að sækja að nýju um embætti seðlabankastjóra og hann mundi tilkynna ákvörðun sína um það í viðtalsþættinum Eyjunni á Stöð 2 í dag. Mér skjátlaðist. Már ætlar að sækja um, frá því skýrði hann í sjónvarpsþættinum. Þá er bíða eftir að sjá hvaða einkunnir ríkisendurskoðandi og umboðsmaður alþingis gefa honum.

Ástandið versnar í Úkraínu með meira mannfalli en áður vegna hernaðarátaka. Blóðug átök eru í Sýrlandi og Írak, nýtt ríki ofstækismanna kann að koma til sögunnar. Spennan eykst milli Kínverja og Víetnama vegna ágreinings um yfirráð á Suður-Kínahafi. Japanir og Filippseyingar telja Kínverja beita sig órétti. Athygli beinist að herjum landanna. Ríkisstjórn Nígeríu getur ekki tryggt öryggi borgara sinna eða bjargað um á annað hundrað skólastúlkum sem hryðjuverkamenn rændu. Stjórnendur Evrópuríkja vara við hættunni af því að óvinir evrópskra þjóðfélaga, þjálfaðir í stríðinu í Sýrlandi láti að sér kveða með ógnarverkum í evrópskum borgum. Í Bandaríkjunum er stjórnkerfið sífellt í viðbragðsstöðu af ótta við nýja hryðjuverkaárás.

Þetta er dapurleg mynd sem boðar okkur óvissa og jafnvel hættulega framtíð. Hún vekur jafnvel spurningar um hvernig þriðja heimsstyrjöldin verður skilgreind þegar fram líða stundir.

Laugardagur 14. 06. 14 - 14.6.2014 22:16

Hrifning ýmissa fjölmiðlamanna á uppátækjum Jóns Gnarrs hefur haft áhrif á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, sem velur tímaritið Monocle til að skýra frá því að hann ætli ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á Bessastaði árið 2016 með orðunum: „En tuttugu ár í þessum bransa er langur tími.“

Monocle er lýst sem blöndu af tímaritunum Foreign Policy og Vanity Fair, það er af tímariti um alþjóðamál og lífsstíl. Tímaritið kom fyrst út árið 2007 og birtast 10 hefti á ári.

Fréttir um framtíðaráform Ólafs Ragnars höfðu ekki fyrr borist til landsins eftir þessari einkennilegu leið en gamall samstarfsmaður hans, Már Guðmundsson seðlabankastjóri, sagði við fjölmiðlamenn að hann mundi greina frá því í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 sunnudaginn 15. júní hvort hann ætlaði að sækja um embætti seðlabankastjóra að nýju. Aðferðin sem Már velur bendir til þess að hann ætli ekki að sækja um embættið að nýju.

Ríkisendurskoðun hefur ekki enn kynnt niðurstöðu rannsóknar sinnar á launamálum Más. Hann fór illa af stað sem seðlabankastjóri fyrir fimm árum þegar hann lenti í launadeilu þar sem hann taldi ekki staðið við það sem hann vænti þegar hann ákvað að taka skipun í embættið. Þá hefur umboðsmaður alþingis til skoðunar kvörtun vegna embættisfærslu Más. Vekur undrun þeirra sem til þekkja hve langan tíma það hefur tekið umboðsmann að komast að niðurstöðu í málinu.

Að forseti Íslands og seðlabankastjóra skuli kjósa þessar leiðir til að koma mikilvægum upplýsingum til þjóðarinnar er ekki í ætt við neitt annað en furðulegheit Jóns Gnarrs þótt hvorugur þeirra hafi ákveðið að fara í furðufatnað til að vekja athygli á sér.

 

 

Föstudagur 13. 06. 14 - 13.6.2014 22:15

Furðuleg grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson birtist í blaði hans, Fréttablaðinu, í dag. Hann segist hafa verið hundeltur að ástæðulausu af íslenska réttarkerfinu í 12 ár. Greinin er skrifuð í tilefni af því að Jón Ásgeir var sýknaður í héraðsdómi Reykjavíkur í svonefndu Aurum-máli. Eftir að dómurinn var felldur hljóp ólöglærður meðdómari á sig og veittist að embætti sérstaks saksóknara. Jón Ásgeir gerir hið sama og gagnrýnir sérstaklega tvo nafngreinda lögreglumenn.  Þessi samhljómur í málflutningi meðdómarans og hins sýknaða er óvenjulegur.

Á Evrópuvaktinni vek ég athygli á þeirri þverstæðu að Jón Ásgeir vitnar í tölvubréf til að sanna þá fráleitu kenningu sína að pólitískar ofsóknir gegn sér hafi breyst í lögreglumál þótt í Aurum-málinu hafi það átt þátt í sýknu Jóns Ásgeirs að dómararnir töldu tölvubréf haldlaus sönnunargögn. Um þetta má lesa hér.

Framsóknarflokkurinn jók fylgi sitt snarlega á síðustu dögum kosningabaráttunnar vegna athyglinnar sem Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddvitinn á lista þeirra, vakti með ummælum sínum um moskulóðina í Reykjavík. Árásirnar á Sveinbjörgu Birnu stuðluðu að fylgisaukningunni.

Hinar hörkulegu umræður vegna þessa máls valda titringi í innviðum Framsóknarflokksins að kosningum loknum. Gamlir forystumenn og ráðherrar flokksins, Ingvar Gíslason og Guðni Ágústsson, leitast við að skrifa flokkinn frá þeirri mynd sem upp hefur verið dreginn af honum. Ingvar gekk svo langt í grein í Fréttablaðinu að leggja til að Sveinbjörg Birna segði af sér.

Í raun þarf engan að undra að hrikti í flokki sem hefur skilgreint sig sem miðjuflokk þegar hann er settur á bás með flokkum á borð við Þjóðfylkinguna í Frakklandi. Það er hins vegar öfgafullt að bregðast þannig við vegna orða Sveinbjargar Birnu og ber aðeins vott um að menn vita ekki hver er boðskapur Þjóðfylkingarinnar eða annarra flokka innan ESB með svipuð sjónarmið.

Fimmtudagur 12. 06. 14 - 12.6.2014 19:15

Móðir Dags B. Eggertssonar  borgarstjóra segir í netsamtali við Ernu Indriðadóttur að hún hafi sagt upp Morgunblaðinu vegna þess hvernig þar var skrifað um Gauta, son hennar, hagfræðing í Bandaríkjunum.

Þessi ummæli minna á hve mikilvægt er að geta valið og hafnað þegar um fjölmiðla er að ræða. Þetta getum við ekki þegar ríkisútvarpið er annars vegar og á höfuborgarsvæðinu verða menn að setja sérstakan límmiða á póstkassann vilji þeir ekki fá Fréttblað Jóns Ásgeirs í hann.   Úti á landi er mönnum í sjálfsvald sett hvort þeir ná í Fréttablaðið á sölustað.

Frá blautu barnsbeini hafa öll dagblöðin komið á heimili mitt þar til ég hætti að hafa áhuga á DV. Ég minnist þess ekki að foreldrar mínir hafi haldið blaði frá heimilinu þótt illa væri skrifað um föður minn. Eftir að ég tók til við að skrifa í blöð og lenda í deilum eða sæta gagnrýni man ég ekki eftir að nokkru sinni hafi verið rætt um að útiloka blað frá heimilinu.

Eitt er að kæra sig ekki um að vera áskrifandi að blaði annað að lýsa opinberlega yfir að maður vilji ekki lesa blaðið vegna skoðana sem það birtir.

Með rafrænum aðferðum ætti að mega innheimta gjöld af notendum ríkisútvarpsins eftir því hvenær þeir kveikja á stöðinni, að minnsta kosti virðist unnt að meta áhorf á sjónvarp á þann hátt. Hvers vegna ætli enginn vinni að framgangi slíks frelsis notenda á sviði fjölmiðlunar?

Byltingin við miðlun og öflun frétta og upplýsinga skapar okkur meira frelsi en okkur er tamt að viðurkenna af því að við lítum á allar breytingar til góðs sem sjálfsagðan hlut. Misnotkun á internetinu er svo mikil að sérfróðir menn spá takmörkunum á frelsinu sem þar ríkir og segja að við sem höfum nýtt okkur það í um aldarfjórðung séum hinir einu í sögunni sem kynnumst slíku frelsi.

Miðvikudagur 11. 06. 14 - 11.6.2014 18:40

Í dag var skýrt frá því að Tómas H. Heiðar hefði verið kjörinn dómari við Alþjóðlega hafréttardóminn á fundi aðildarríkja hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann hlaut 124 atkvæði en mótframbjóðandi hans frá Austurríki hlaut 30.

Hafréttardómurinn hefur aðsetur í Hamborg og er skipaður 21 dómara, þar af þremur frá Vesturlöndum. Tómas tekur við dómaraembættinu 1. október en hann var kjörinn til níu ára. Tómas H. Heiðar hefur gegnt starfi þjóðréttarfræðings í utanríkisráðuneytinu frá árinu 1996. Hann er jafnframt forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands.

Þetta er glæsilegur árangur í kosningabaráttu sem vafalaust hefur verið hörð.  Það spillti greinilega ekki fyrir frambjóðanda Íslands að landið stæði utan við Evrópusambandið. Kannski hefur það styrkt stöðuna á þessum vettvangi að vera ekki innan sambandsins og geta talað sjálfstæðri röddu. Raunar vekur nokkra undrun að landlukt ríki á borð við Austurríki sækist eftir að eignast fulltrúa í hafréttardómi.

Nýtt ríki er að verða til í norðurhluta Íraks og hluta af Sýrlandi. Þar eru súnnítar á ferð og bera öll merki þess að heyja stríðið af islömskum trúarhita. Í liði þeirra hafa verið menn frá Vesturlöndum sem margir óttast að snúi til heimalanda sinna og beiti þar ofbeldi í trúarofsa sínum. Árás á óbreytta borgara skammt frá bænahúsi gyðinga í Brussel er rakin til slíks vígamanns.

 

Þriðjudagur 10. 06. 14 - 10.6.2014 20:30


Viðtal mitt á ÍNN við Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um sveitarstjórnarkosningarnar er komið á netið og má sjá það hér.

Ummæli Sverris Ólafssonar, fjármálaverkfræðings og meðdómara í Aurum-málinu í héraðsdómi Reykjavíkur, um sérstakan saksóknara eru Sverri til skammar og veikja traust á dómstólnum reyni hann ekki að rétta hlut sinn á einhvern hátt hvað sem líður áfrýjun málsins.

Einn hinn sýknuðu er Jón Ásgeir Jóhannesson. Málaferli vegna hans virðast endalaus enda af nógu að taka eins og dæmin sýna. Jón Ásgeir notar sýknuna í Aurum-málinu til að slá um sig í Bretlandi og boða endurkomu sína þangað. Fréttirnar í Bretlandi bera með sér að enn starfi einhverjir almannatenglar fyrir Jón Ásgeir í Bretlandi.

Fréttastofa ríkisútvarpsins beitir þeirri aðferð við fréttir af þessu máli að leiða fram menn til skiptis. Í hljóðvarpinu klukkan 18.00 í dag var rætt við Gest Jónsson hrl., lögmann Jóns Ásgeirs. Hann talaði eins og sá sem getur sagt dómstólum fyrir verkum og minnti framkoman á yfirlætið sem hann sýndi oft þegar hann ræddi við fjölmiðla í Baugsmálinu.

Gestur tekur undir orð Sverris um að Ólafur Þór hafi af ásetningi sagt ósatt. Þá segir á ruv.is:

„Gestur Jónsson segir alveg ljóst að Sverrir hafi ekki verið vanhæfur í málinu. Hann telur einnig að ummæli Sverris í viðtalinu í gær hafi engin áhrif á gang málsins komi það til kasta Hæstaréttar. „Ég átta mig ekki á því hvernig ummæli sem hann lætur falla, sem augljóslega eru sögð þar sem manninum er ekki skemmt yfir ásökunum sem á hann eru bornar af sérstökum saksóknara, ég get ekki ímyndað mér hvernig það ætti að hafa þýðingu varðandi úrslit málsins.““

Fréttamaðurinn spurði að sjálfsögðu ekki hverjar hefðu verið „ásakanir“ sérstaks saksóknara. Hvað sagði Ólafur Þór sem kallar á slíkt orðalag af hálfu lögmannsins? Til að varpa ljósi á framgöngu Gests fyrir skjólstæðinga sína hefði átt að geta þess í fréttinni að hann hefði nýlega verið dæmdur í hæstarétti til að greiða réttarfarssekt vegna framgöngu sinnar í héraðsdómi Reykjavíkur.

 Sjá nánar um málið á Evrópuvaktinni.

Mánudagur 09. 06. 14 - 9.6.2014 22:24

Ótti við nýja tækni og miðlun upplýsinga með henni er landlægur meðal íhaldssamra stétta. Nú hafa dómarar í Aurum-málinu yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleirum við héraðsdóm Reykjavíkur komist að þessari niðurstöðu:

„Þótt sönnunarmatið sé frjálst er sú leið ótæk að mati dómsins að byggja sönnun í málinu á túlkun á tölvupóstunum sem eru, a.m.k. að hluta, andstæðir framburði ákærðu og/eða vitna fyrir dómi.“

Hvernig rímar þetta við önnur dómsmál þar sem tölvubréf koma við sögu? Eru þau almennt talin hafa minna sönnunargildi en það sem menn segja fyrir dómi? Hvernig var þessu háttað þegar fjallað var um verðsamráð olíufélaganna á sínum tíma? Dugar að segja annað fyrir rétti en stendur í tölvubréfum til að ómerkja efni þeirra?

Á sínum tíma reisti Jón Ásgeir kenninguna um pólitískt samsæri gegn sér með aðstoð lögreglu á stolnum tölvubréfum.

Aldrei hefur verið upplýst hver stal tölvubréfunum sem Jón Ásgeir gjörnýtti í eigin þágu eftir að þau birtust í blaði hans en hæstiréttur taldi almannahagsmuni réttlæta birtingu þeirra bréfa. Nú þegar tölvubréf geyma fyrirmæli frá Jóni Ásgeiri til bankastarfsmanna er talið ótækt að taka mark á tölvubréfum í dómsmáli. 

Leiðir þetta til þess að hætt verði að gera upptæk tölvugögn við húsleit á vegum lögreglu að kröfu ákæruvaldsins?

Það er ekki ein báran stök,

Sunnudagur 08. 06. 14 - 8.6.2014 22:50

Á ruv.is má lesa í dag:

„Með því að mynda meirihluta til hægri og vinstri sýnir Björt framtíð að flokkurinn er ekki afleggjari frá Samfylkingunni. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. Nýr meirihluti í Hafnarfirði kynnir málefnasamning á næstu dögum. […]

Björt Framtíð hefur myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi og í Hafnarfirði og sömu flokkar ræða saman á Akranesi. Í Reykjavík hallar flokkurinn sér hins vegar til vinstri, með Samfylkingu, Vinstri grænum og Pírötum.

Ólafur Þ. Harðarson segir það ekkert nýtt að allir flokkar geti unnið saman. „En það er enn auðveldara í sveitastjórnum þar sem er ekki mikill málefnalegur ágreiningur. Björt Framtíð sýnir með þessu að hún getur myndað meirihluta bæði með Sjálfstæðisflokknum og líka til vinstri og með því er hún kannski að sýna fram á að það sé ekki rétt sem sumir hafa haldið fram hún sé bara svona afleggjari frá Samfylkingunni.“

Ólafur segir hugsanlegt að flokkurinn sé að taka við hlutverki Framsóknarflokksins á miðju stjórnmálanna. Þó sé erfitt að álykta um landstjórnarmál út frá sveitastjórnarkosningum.“

Lokaniðurstaða Ólafs Þ. er kaldhæðnisleg í ljósi umræðna um Framsóknarflokkinn um þessar mundir þegar ýmsir álitsgjafar útmála hann sem systurflokk þeirra sem berjast gegn innflytjendum innan ESB. Prófessorinn gefur til kynna að það sé laust rými í miðju stjórnmálanna og Björt framtíð ætli að fylla það og geri með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórnum.

Ég túlkaði afstöðu Bjartrar framtíðar á annan veg á Evrópuvaktinni í dag eins og lesa má hér.

 

Laugardagur 07. 06. 14 - 7.6.2014 23:30

Í dag ók ég fram og til baka úr Fljótshlíðinni. Mikil umferð var á móti þegar ég ók til höfuðborgarinnar og nokkur að austan þegar ég hélt aftur í Fljótshlíðina. Hér í Hlíðinni er mikill fjöldi húsbíla, greinilega félagsmót. Auk þess eru hundruð annarra gesta.

Um þessa helgi eins og flestar sumarhelgar eru hér um slóðir jafnmargir einstaklingar og á fjölmennri útihátíð. Sá er munurinn að nú þegja fjölmiðlar um þessa mannfagnaði öfugt við það sem gerist um verslunarmannahelgina. Þá er ekki eins mikið talað um löggæslu núna eins og fyrstu helgina í ágúst.

Bílaumferðin var róleg og skipuleg. Ég sá tvo lögreglubíla á leiðinni austur. Hinn síðari ók á bakvið rútu og sást því ekki fyrr en ekið var fram hjá rútunni sem kom á móti mér. Skömmu áður en ég mætti þessum lögreglubíl þaut maður á mótorhjóli fram hjá mér, örugglega á um 150 km hraða. Hann tók eftir lögreglubílnum um leið og hann skaust fram hjá honum, hægði á sér, leit til baka eins og hann ætti von á að verða eltur. Þegar það gerðist ekki, gaf hann í að nýju og hvarf á örskots stundu.

Á árum áður höfðu yfirvöld einkum áhyggjur af hópi fólks sem kom saman á Þingvöllum um hvítasunnu og skemmti sér í tjöldum.

 

 

Föstudagur 06. 06. 14 - 6.6.2014 22:50

Fréttir berast um að framsóknarmenn hafi stofnað til samstarfs við sjálfstæðismenn í Skagafirði þótt B-listi Framsóknarflokboðioksins hafi fengið meirihluta fulltrúa í sveitarstjórninni. Ein ástæðan fyrir þessu er líklega að Framsóknaflokkurinn hlaut ekki stuðning meirihluta kjósenda.

Sambærilegar fréttir berast frá Akranesi um að sjálfsæðismenn sem fengu meirihluta sveitarstjórnarmanna þar eigi í viðræðum við fulltrúa Bjartrar framtíðar um samstarf í sveitarstjórninni en með því yrði henni tryggður stuðningur meirihluta kjósenda.

Fréttirnar bera með sér virðingu fyrir lýðræðinu og nauðsyn þess að sveitarstjórn starfi í umboði meirihluta íbúanna.

Ekki berast neinar fréttir um að framsóknarmenn hér í Rangárþingi eystra, þar sem þeir fengu meirihluta sveitarstjórnarmanna án stuðnings meirihluta kjósenda, ætli að leita samstarfs við minnihlutann til að meirihluti íbúanna telji meirihluta sveitarstjórnar starfa í umboði sínu. Hér skilja þó aðeins fimm til átta atkvæði á milli meirihluta og minnihluta.

Fimmtudagur 05. 06. 14 - 5.6.2014 22:15

Skömmu fyrir kosningar til borgarstjórnar hinn 31. maí birtist frétt um fyrirhugaða nýbyggingu við Borgartún. Málið var borið undir Hjálmar Sveinsson úr Samfylkingunni, varaformann skipulagsnefndar, og svaraði hann út í hött auk þess fólk hefði ekki gert athugasemd á réttum tíma.

Eftir kosningar bárust fréttir um rúmlega aldargamlan silfurreyni við Grettisgötu í Reykjavík. Hann ætti að fella til að rýma fyrir byggingum. Mikil óánægja ríkti meðal íbúa. Þeir hefðu efnt til undirskriftasöfnunar í mótmælaskyni og ætluðu að leggja fram kæru fengjust engin svör.

Í frétt ríkisútvarpsins um málið sagði mánudaginn 2. júní:

„Hjálmar Sveinsson, varaformaður skipulagsráðs í Reykjavík, sat í borgarráði þegar ákvörðunin var tekin. Hann segir að skipulagsbreytingar hafi verið samþykktar í febrúar þar sem horfið hafi verið frá stærri framkvæmdum við reitinn, þar sem meðal annars var gert ráð fyrir bílastæði og niðurrifi. Með breytingunni er gert ráð fyrir að húsin verði friðuð og flutt til, byggingamagnið minnkað.

Ákvörðun um framkvæmdirnar, sem og flestar aðrar, gætu í einhverjum skilningi verið afturkræfar.

„En ég tel ekki að þessi ákvörðun, það er að segja deiliskipulagið í heild sinni verði afturkallað. Kannski yfirsást mönnum þessi fallegi reynir hérna. Nú sitjum við uppi með það hvað getum við gert við hann. Getum við bjargað honum? Og nú er garðyrkjustjóri að skoða möguleikann á því að hreinlega ná honum upp og færa hann," segir Hjálmar Sveinsson.“

Á mbl.is þriðjudaginn 3. júní sagði:

„Ylfa Dögg Árna­dótt­ir, íbúi á Grett­is­götu 13, seg­ir í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í dag,  að úr­sk­urður Minja­stofn­un­ar verði kærður til úr­sk­urðar­nefnd­ar. Hjálm­ar Sveins­son, vara­formaður skipu­lags­nefnd­ar Reykja­vík­ur, seg­ir að nýtt deili­skipu­lag hafi verið aug­lýst 23. des­em­ber síðastliðinn og að frest­ur til at­huga­semda hafi runnið út sex vik­um síðar án þess að nokk­ur slík hefði borist.“

Eftir fjögurra ára setu Jóns Gnarrs sem borgarstjóra var kjörsókn lítil í Reykjavík og flokkur hans sem bauð fram undir nýju nafni galt afhroð, tapaði fjórum borgarfulltrúum, fékk tvo í stað sex. Þá hefur verið haldið á kynningu mála gagnvart almenningi á þann hátt sem fram kemur í fréttunum þar sem Hjálmar Sveinsson kemur á vettvang til að svara fyrir hönd yfirvalda. Borgararnir eru ávallt of seinir á sér og verða beygja sig undir vilja yfirvaldanna.

Lýðræði hefur ekki eflst í Reykjavík á árunum 2010 til 2014 og yfirvöldin gera ekkert með andmæli almennings. Þau eru alltaf of seint á ferðinni eða höfð að engu eins og í flugvallarmálnu.

 

Miðvikudagur 04. 06. 14 - 4.6.2014 22:15

Á ÍNN í kvöld á miðnætti og á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun má sjá viðtal mitt við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um sveitarstjórnarkosningarnar.

Á eyjan.is segir í dag frá fundi Samstöðu um þjóðarhagsmuni, þverpólitísks hóps í Hörpunni. Þar hafi Jón Sigurðsson, fv. ráðherra, seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins, talað. Þá segir:

„Margir úr þeim hópi [samstöðu] koma að myndun nýs evrópusinnaðs stjórnmálaflokks, Viðreisnar, sem á að vera staðsettur hægra megin við miðju stjórnmálanna, til dæmis Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur og framkvæmdastjóri Talnakönnunar. Jón segir í samtali við Eyjuna að Viðreisn hafi ekki staðið ein að fundinum í dag, stofnfundur hennar verði í næstu viku.

En ætlar Jón að ganga til liðs við hina nýju Viðreisn og er hann á leið úr Framsóknarflokknum?

„Ég er ekki á neinni leið – en hef reyndar ekki getað kosið minn gamla flokk um skeið,“ segir Jón.

Hann ræddi svonefnd moskumál Framsóknarflokksins í Reykjavík í kvöldfréttum beggja sjónvarpsstöðva og sagðist þar telja að atburðarrásin í svokölluðu moskumáli hafi verið úthugsuð, bæði hjá oddvita flokksins í Reykjavík, sem og hjá núverandi formanni. Skortur á viðbrögðum megi túlka sem mikla stefnubreytingu hjá flokknum.“

Lokayfirlýsing Jóns varpar öðru ljósi á aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna af hálfu framsóknarmanna en áður hefur verið gert. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hefur látið eins og um hugdettu sína væri að ræða en ekki þaulskipulagða kosningabaráttu.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði í 10-fréttum sjónvarps í kvöld að menn segðu ýmislegt í hita kosningabaráttunnar og gaf þar með til kynna að um óskipulagða uppákomu hafi verið að ræða.

Hvort hefur Jón Sigurðsson eða Eygló rétt fyrir sér? Sveinbjörg Birna veit svarið.

 

 

 

 

 

 

Þriðjudagur 03. 06. 14 - 3.6.2014 22:00

Í kvöld er danska sjónvarpið (DR2) helgað Lars Løkke Rasmussen, formanni Venstre-flokksins. Aðalstjórn flokksins situr á fundi í Odense og er búist við að flokksformaðurinn verði neyddur til að segja af sér. Flokkurinn er í frjálsu falli eftir að upplýst hefur verið um fjárstuðning flokksins til formannsins til fatakaupa, ferðalags til Mallorka fyrir konu hans og son auk þess sem reiddar hafa verið aukagreiðslur fyrir hans svo að hann megi reykja á hótelherbergjum þar sem hann býr.

Það er sýnd löng heimildarmynd um feril Lars Løkkes Rasmussens og rætt við fjölda fólks. Til dæmis er farið með blaðamanninum á Ekstra Bladet sem skrifaði fréttina um fatastyrkin (152.000 d. kr.) og farið með honum að herrafataversluninni þar sem Lars Løkke Rasmussen keypti föt og skó.

Vandi Venstre-flokksins er ekki þessi einstöku mál heldur hitt að hvað eftir annað beinist athygli að formanninum vegna atvika sem hneyksla fólk og þykja bera vott um brenglaða dómgreind.

Þá tapaði Venstre-flokkurinn fylgi í ESB-þingkosningunum hinn 25. maí. Eftir þær brotnuðu varnarveggir flokksformannsins og er augljóst að DR telur víst að dagar Lars Løkkes Rasmussens sem flokksformanns séu taldir.

Undir miðnætti að dönskum tima sagði fréttamaður DR að allt benti þó til þess að á hinum langa aðalstjórnarfundi hefði flokksformaðurinn snúist til varnar og ætlaði að berjast fyrir pólitísku lífi sínu. Fjöldi blaðamannafundi fylgist með fundinum og eru sammála um að ár og dagur séu síðan slíkt ástand hefði skapast í dönskum stjórnmálum.


 


Mánudagur 02. 06. 14 - 2.6.2014 20:30

 

Nokkrar umræður hafa orðið um útsendingu ríkisútvarpsins eftir að kjörstöðum var lokað að kvöldi 31. maí. Áður en útsendingin hófst hafði hún verið rækilega kynnt og áhorfendur sjónvarps væntu mikils. Því miður stóð úrvinnsla úrslitanna ekki undir væntingum og miðað við það sem sjá má í erlendum sjónvarpsstöðvum við kynningu kosningaúrslita var þetta næsta gamaldags allt saman.

Vegna áhuga míns á úrslitum í Rangárþingi eystra, þar sem framsóknarmenn héldu meiriluta með minnihluta atkvæða og aðeins fimm atkvæða forskoti, hafði ég auga með fréttum frá talningarmönnum á Hvolsvelli. Það birtist hvað eftir annað borði neðst á skjánum þar sem aðeins var getið um B og D-listana en ekki var minnst á L-listann. Bogi Ágústsson var ekki alveg klár á heiti þriðja listans þegar hann fór yfir úrslitin.

Var einkennilegt að Boga var í senn falið að bregða mynd á skjáinn og ræða um hana. Leiddi það til þess að sömu skýringamyndirnar voru sýndar oftar en einu sinni og þess var ekki alltaf gætt að réttar nafnarunur birtust. Skondið var að sjá þá Boga og Ólaf Þ. Harðarson ræða spekingslega um tölur án þess að átta sig strax á að þær sýndu að meirihlutinn í Reykjavík væri fallinn.

Þá myndaðist spenna í samskiptum sjónvarpsmanna og formanns kjörstjórnar í Reykjavík. Klúðraðist þar eitthvað og virtust klögumál ganga á víxl. Raunar var yfirbragðið sem menn fengu af starfi kjörstjórnar í Reykjavík ekki á þann veg að yki traust á framkvæmd kosninganna þar.

Í raun var þetta allt dálítið bíó en líklega á annan hátt en stjórnendur kosningavökunnar ætluðu. Þá glímdi ríkisútvarpið einnig við vanda vegna þess að vefur þess hrundi og lá niðri í nokkrar klukkustundir þegar mest á reyndi.

Ríkisútvarpið hefur oft staðið sig betur en þetta á kosninganótt.

 

Sunnudagur 01. 06. 14 - 1.6.2014 19:41

Að kvöldi kosninga til alþingis fyrir rúmu ári lýsti Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, úrslitum kosninganna sem „hamförum“ fyrir flokk sinn. Samfylkinguna. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014 ræddu menn dræma kosningaþátttöku og ESB-fræðingurinn Eiríkur Bergmann Einarsson lýsti henni á Stöð 2 sem „hamförum fyrir lýðræðið“.

Kosningaþátttakan hér á landi er um meiri en þegar kosið er til ESB-þingsins,  þar er hún að meðaltali um 43% hér var hún nú að meðaltali þó um 20 prósentustigum meiri. Skyldi Eiríkur Bergmann taka mark á ESB-þinginu sem lýðræðisstofnuna? Aðeins um 13% Slóvaka kusu til þingsins.

Á visir.is er rætt við Harald Bjarnason, framkvæmdastjóra Auðkennis, sem vill auka kosningaþátttöku með rafrænni kosningu. Hann telur fyrirtæki sitt hafa þróað rafræn skilríki sem nota megi til að snúa öfugþróun vegna lélegrar kjörsóknar til betri vegar.

Vandræðin við rafræna kosningu hafa verið á þann veg að hún veitir enga tryggingu fyrir aukinni lýðræðisþátttöku almennings. Vandinn við kjörsókn er ekki tæknilegur heldur snýr hann að því hvort fólk telji hag sínum betur borgið með að fara á kjörstað eða ekki.

Í ESB-ríkjunum höfðar ESB-þingið aðeins að takmörkuðu leyti til kjósenda. Í Reykjavík hefur setið borgarstjóri sem breytti kosningum  í einskonar leiksýningu. Hann gefur ekki mikið fyrir stjórnmálastarf og almennt hefur lítið verið gert úr gildi þess hin síðari ár. Varla hefur það hvatt fólk til að nýta kosningaréttinn?