29.6.2014 22:30

Sunnudagur 29. 06. 14

Leiðtogaráð ESB ákvað að tilnefna Jean-Claude Juncker forseta framkvæmdastjórnar ESB af því að ESB-þingið hefði fellt þann sem ella hefði verið tilnefndur. ESB-þingið á síðasta orðið, þar er kosið um menn í framkvæmdastjórn ESB. Leiðtogaráðið hefur rétt til tilnefningar. ESB-þingmenn héldu því raunar fram að ráðið gæti ekki annað en tilnefnt Juncker, fulltrúa stærsta þinflokksins.

Höfnun leiðtogaráðsins á Juncker hefði bætt stjórnarkreppu við skulda- og efnahagskeppu innan ESB. Samstarfið innan ESB hefði ekki þolað stjórnarkreppu og erfiðleikar leiðtoganna hefðu orðið meiri vegna hennar en óþægindin af því að tilnefna Juncker. Að hann kemur frá Lúxemborg auðveldar Þjóðverjum og Frökkum að hafa hann í vasanum.

Það verður spennandi að sjá hvaða embætti Bretar fá í stjórnkerfi ESB eftir að David Cameron forsætisráðherra tapaði orrustunni um Juncker. Nú er Breti talsmaður ESB í öryggis- og utanríkismálum. Halda þeir því embætti áfram?

Sérkennilegt er að talað sé um afstöðu Camerons eins og hann hafi framið veisluspjöll. Að ekki séu allir sammála um val á manni í toppsæti kemur engum lýðræðissinna á óvart. Innan ESB ríkir hins vegar samtryggingarkerfi sem vegur þyngra en lýðræðisástin þegar á reynir – sparkað er í þá sem hafa sjálfstæða skoðun. Michel Rocard, fyrrv. forsæstisráðherra Frakka, sagði best að Bretar færu úr ESB af því að þeir héldu fram kröfum um sérlausnir.

Íslendingar vildu sérlausn í sjávarútvegsmálum og ESB neitaði að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Viðræðunum var hætt – hvaða íslenskur stjórnmálamaður ætlar að blása í þær lífi að nýju?