Dagbók: nóvember 2013

Laugardagur 30. 11. 13 - 30.11.2013 22:10

Stjórnarandstaðan telur verst við tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun skulda heimilanna að óvíst sé um fjármögnun þeirra. Í þessu felst ekki gagnrýni á efni tillagnanna heldur aðferðina við að fjármagna þær. Það sýnir að stjórnarandstaðan viðurkennir að tillögurnar skili þeim árangri sem að er stefnt, að koma til móts við skuldara.

Í fjárlögum ársins 2013 sem núverandi stjórnarandstaða samdi og samþykkti var áætlað að 3,7 milljarða kr. halli yrði á rekstri ríkissjóðs á árinu. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2013 sem lagt var fram í vikunni er nú gert ráð fyrir að heildarhalli ársins 2013 verði neikvæður um 25,5 milljarða kr. og þar með 21,8 milljörðum kr. lakari en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Breytingarnar á afkomu ríkissjóðs frá áætlun fjárlaga stafa aðallega af því að tekjur ríkissjóðs eru umtalsvert lægri en áætlað var í fjárlögum vegna minni hagvaxtar en vænst var.

Þessar tölur eru nýjasta sönnun um hve glögg núverandi stjórnarandstaða er á fjárlagatölur, hagvöxt og framvindu mála. Nú þegar forystumenn stjórnarandstöðunnar eru á nálum vegna afkomu ríkissjóðs í tilefni aðgerða í þágu skuldugra heimila er að sjálfsögðu ástæða til að leggja vel við hlustir.

Föstudagur 29. 11. 13 - 29.11.2013 23:30

Fréttir af nýrri könnun á vegum MMR sem birt var í dag sýnir að Björt framtíð er næst stærsti flokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokknum. Björt framtíð mælist með 15,2% en Sjálfstæðisflokkurinn með rúmlega 10 stigum meira fylgi. Fylgi Bjartrar framtíðar er til marks um vinsældir pólitískrar firringar – Annars vegar er þess krafist af stjórnarflokkunum að þeir standi við kosningaloforð sín um raunveruleg viðfangsefni varðandi hag lands og þjóðar hins vegar leggur Björt framtíð flokkurinn sem mælist stærstur í stjórnarandstöðu megináherslu á að leggja niður mannanafnanefnd og færa til frídaga!

Þegar Guðmundur Steingrímsson, leiðtogi Bjartrar framtíðar, tekur til máls á alþingi talar hann í hæðnislegum spurnartón án þess að leggja fram nokkuð sem getur talist framlag til efnislegrar lausnar á málum. Draga má í efa að nokkurs staðar sé unnt að finna sambærilegan stjórnmálaflokk í nágrannalöndunum sem rýkur upp í vinsældum, þeir gera það almennt með skýra stefnu, einkum með því að lýsa efasemdum um ágæti Evrópusambandsins.

Björt framtíð talar í hálfkveðnum vísum um ESB-málið, segist vilja leiða viðræður til lykta án þess að setja fram samningsmarkmið. Það er sama hvar borið er niður, hvarvetna leitast flokkurinn við að vera á gráu svæði og hann laðar greinilega stjórnarandstæðinga með sér þangað. Hve lengi honum helst á þessu fylgi er óljóst. Spurning er hve lengi samfylkingarfólk ætlar að líða Bjartri framtíð að höggva í sínar raðir.

Fimmtudagur 28. 11. 13 - 28.11.2013 22:30

Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra töldu stjórnendur ríkisútvarpsins lífspursmál fyrir stofnunina að öll starfsemi hennar flyttist í hið mikla útvarpshús við Efstaleiti sem er þó minna en upphaflega var ætlað. Nú sagði Páll Magnússon útvarpsstjóri í Kastljósi kvöldsins að hann vildi selja útvarpshúsið.

Eyjólfur Konráð Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var á sínum tíma eindreginn andstæðingur þess að svo stórt hús yrði reist yfir ríkisútvarpið og vildi að því yrði breytt í kartöflugeymslu.

Fylgi útvarpsstjóri hugmynd sinni eftir er eðlilegt að velta fyrir hvernig eigi að nýta húsið við Efstaleiti. Miðað við legu útvarpshússins á höfuðborgarsvæðinu og gerð hússins með miklum geymslum fyrir tæki og tól auk góðs rýmis umhverfis það mundi húsið til dæmis henta vel sem höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þar færi einnig vel um samhæfingarstjórn almannavarna, fjarskiptadeild lögreglu, neyðarlínuna auk vakstöðvar siglinga.

Miðað við áform Reykjavíkurborgar um breytingar á Hlemmi í þágu skapandi greina er ekki vafi um áhuga fjárfesta á að nýta lögreglustöðina við Hverfisgötu í þágu þjónustu af einhverju tagi eða reisa nýtt hús á reitnum – þarna er einnig kjörinn staður fyrir Listaháskóla Íslands sem vill vera í hringiðu miðborgarinnar.

Miðvikudagur 27. 11. 13 - 27.11.2013 21:15

Það væri verðugt að birta Reykvíkingum allt sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur sagt um það sem gerast á í Vatnsmýrinni. Nú segir hann „að hægt sé að gera Vatnsmýrina að okkar eigin Danmörku, sem sé flöt með örar samgöngur og aðstöðu fyrir góða umferð hjólafólks og þeirra sem gangandi eru. Sagði hann jafnvel möguleika á lestum þar þegar litið er til lengri tíma,“ segir á mbl.is í dag og er vitnað til þess sem kom fram á fundi um framtíð og tækifæri í Vatnsmýrinni á Hótel Natura.

Þá talaði Dagur B. einnig um „íbúðir meðfram Öskjuhlíðinni, norður af Háskólanum í Reykjavík“. Hvað á hann við? Svæðið þar sem skóli á vegum Hjallastefnunar hefur fengið aðsetur? Eða þar sem Flugbjörgunarsveitin er? Á að setja virkisvegg við alla vesturhlíð Öskjuhlíðar? Einu sinni sagði Dagur B. að lyfjafyrirtæki risi á þessum stað.

Norræna húsið er í Vatnsmýrinni þar flutti Camilla Gunell, landsstjóri á Álandseyjum, fróðlegt hádegiserindi um Álandseyjar sem herlaust svæði á nýjum tímum í öryggismálum. Kröfunni um herleysi er fylgt svo stíft að sérstakt leyfi varð að gefa sænska hernum til að lenda þyrlum á Álandseyjum við björgunarstörf vegna slyssins mikla þegar ferjan Estonia sökk og meira en 1.800 manns fórust.

Alyson Bailes, aðjúnkt í stjórnmálafræðideild HÍ, flutti einnig ræðu á fundinum og velti einmitt fyrir sér samskiptum borgaralegra yfirvalda og hernaðarlegra við gæslu öryggis í samtímanum. Færi eitthvað úr skorðum gerðist það inni í samfélögum og það kynni að auka á hættu fólks væri ekki heimilt að beita öllum ráðum til viðbragða meðal annars hervaldi – herlaus svæði gætu orðið hættulegri en þau þar sem kalla mætti á hermenn til hjálpar.

Síðdegis var útgáfuhóf vegna bókarinnar Karólínu sem Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur hefur skrifað um Karólínu Lárusdóttur og myndlist hennar – glæsileg bók og verðugur minnisvarði um list Karólínu – Forlagið er útgefandi  og flutti Jóhann Valdimarsson forstjóri eftirminnilega ræðu um sögu bókarinnar og áhuga sinn á útgáfu hennar.

 

 

Þriðjudagur 26. 11. 13 - 26.11.2013 21:55

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður flutti í hádeginu erindi í tilefni af 150 ára afmæli Þjóðminjasafnsins, stiklaði á stóru í sögu þess, lýsti atburðum á afmælisárinu og greindi frá framtíðarhugmyndum sínum – þar bar hæst væntanleg sýning í Þjóðmenningarhúsinu. Verður spennandi sjá hvernig tekst að mynda þar sýningu á efni úr mismunandi söfnum – Þjóðmenningarhúsið verður Safnahúsið að nýju.

Nú hefur Skoski þjóðernisflokkurinn kynnt stefnuskrá sína á tæpum 700 blaðsíðum í hvítbók sem ætlað er að sanna fyrir Skotum að þeim sé fyrir bestu að greiða atkvæði með sjálfstæði lands síns í þjóðaratkvæðagreiðslu 18. september 2014. Flokkurinn setur fram samningsmarkmið með því að kynna hollustu við drottninguna, sterlingspundið, aðild að NATO og að ESB. Þá er 15.000 manna skoskur herafli kynntur til sögunnar.

Fróðlegt er að bera þessi vinnubrögð saman við aðferðina sem Samfylkingin og VG beittu við hina misheppnuðu tilraun sína til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið án þess að gefa sér og því síður þjóðinni allri tækifæri til að segja álit sitt á þessu afsali á fullveldi hennar.

Talsmenn sjálfstæðis Skotlands ætluðu að mæla með aðild að evru-svæðinu en vegna vandræðanna þar hafa þeir horfið frá að leggja það fyrir skoska kjósendur. Áform þeirra um að halda pundinu verða greinilega notuð af ráðamönnum í London til að veikja trú Skota á nauðsyn þess að stíga skrefið til sjálfstæðis.

Mánudagur 25. 11. 13 - 25.11.2013 22:20

Þorbjörn Rúnarsson hefur ritað út fræga samtalið við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor í Spegli ríkisútvarpsins föstudaginn 22. nóvember í tilefni að því að 50 ár voru liðin frá morðinu á John F. Kennedy. Undir lok samtalsins beindi Gunnar Gunnarsson fréttamaður umræðunum inn á brautir sem leiddu til samanburðar á stöðu mála í Bandaríkjunum og Evrópu og hafði Gunnar á orði að líka væri „gríðarlega mikil fátækt í Bandaríkjunum“. Þá sagði Hannes Hólmsteinn:

„Ég held reyndar að fátæktin sé viðráðanlegri þar [í Bandaríkjunum], því það eru fleiri leiðir opnar til þess að komast út úr fátækt og við sjáum það til dæmis ef við lítum á Evrópu að þar er svo mikið atvinnuleysi hjá ungu fólki. Það er allt upp í helmingurinn af ungu fólki atvinnulaust í sumum Evrópulöndunum núna og það þýðir að það hefur ekki sömu tækifærin og í Bandaríkjunum til að brjótast út úr fátækt og í bjargálnir og það sem að ég held að bæði Evrópa og Bandaríkin þurfi að gera í framtíðinni er að keppa í lífsbaráttunni við þessi nýju ríki [Kína og Indland]. Og til þess að gera það held ég að þau þurfi að gera það sem er gamalkunnugt ráð, sem er að virkja kapítalismann og sköpunarmátt hans og lækka skatta. En það eru meiri líkur á að Bandaríkjamenn geri það heldur en Evrópubúar. Ég held að þeir séu dáldið að festast í einhverjum mótum sem getur orðið til þess að Evrópa breytist í eitthvað sambland úr elliheimili og byggðasafni.“

Hannes Hólmsteinn minnist þarna á að „allt undir helmingurinn af ungu fólki“ sé atvinnulaust í Evrópu. Þetta er ekki hárrétt. Í Grikklandi og á Spáni hefur atvinnuleysi ungs fólks farið yfir 60%. Í orðum hans kemur hins vegar fram mat sem reist er á raunsæi.

Sunnudagur 24. 11. 13 - 24.11.2013 22:20

Nýi þátturinn sem sýndur var í ríkissjónvarpinu í kvöld Orðbragð heppnaðist vel, hann má nálgasthér.  Það er tímabært að gera nútímalegan sjónvarpsþátt um íslenskt mál. Ritmálið verður æ mikilvægara vegna tölva og síma, að smíða brú á milli skammstafana nú og í fyrstu handritunum var vel til fundið. Þá spöruðu menn kálfskinn með því að stytta orðin – hvað spara þeir nú? Orðið app var tekið inn í málið en orðinu fésbók hafnað. Hvað orð á að nota yfir Facebook? Snjáldur?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsir ofstæki og hatri í sinn garð í þessari frásögn.  Ég gagnrýndi fyrir nokkru þegar Lára Hanna Einarsdóttir gerði tilraun til að afskræma nýjan sjónvarpsþátt Gísla Marteins Baldurssonar með eigin útgáfu á honum. Tilgangurinn virtist vera hinn sami og hjá þeim sem beita sér gagnvart ríkisútvarpinu til að Hannes Hólmsteinn sé bannfærður.

Laugardagur 24. 11. 13 - 23.11.2013 23:55

Nú er viðtal mitt við Vigdísi Grímsdóttur rithöfund á ÍNN komið á netið og má sjá það hér.

Í kvöld sáum við Carmen í Hörpu, sýnd fyrir fullu húsi, síðasta sýning á þessari fjölmennu og litríku sýningu. Hanna Dóra Sturludóttir, Garðar Thór Cortes og Þóra Einarsdóttir stóðu sig öll með prýði í stórum hlutverkum sínum. Ég hefði viljað hafa meiri suðræna spennu í uppsetningunni og átta mig ekki á hvers vegna hún tók mið af fasistastímanum á Spáni – voru fasistar að berjast sérstaklega við sígarettusmyglara?

 

Föstudagur 22. 11. 13 - 22.11.2013 23:40

Meirihlutinn í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt breytingar á þingsköpum til að hindra að minnihlutinn í deildinni geti beitt málþófi til að tefja framgang ákvarðana Bandaríkjaforseta um skipan manna í embætti. The New York Times segir að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Þingmenn deili um allt, stórt og smátt. Líkur séu á að ekki takist samkomulag um fjárlög í desember og þess vegna verði enn á ný að skrúfa fyrir opinbera þjónustu á næsta ári vegna fjárskorts.

Eftir rimmuna um fjárlögin fyrir nokkrum vikum þegar menn töldu að repúblíkanar hefðu gengið lengra en góðu hófi gegndi og ofboðið almenningi beinast spjótin nú að Barack Obama Bandaríkjaforseta. Í nýjasta hefti af The Economist birtist mynd af Obama sem sýnir hann sökkva í sæ undir fyrirsögninni: Maðurinn sem gekk venjulega á vatni.

Seinna kjörtímabilið er mun erfiðara Obama en hið fyrra. Í dag er hugur Bandaríkjamanna hins vegar við annað, 50 ára minningardag morðsins á John F. Kennedy. Á öllum sjónvarpsstöðvum fyrur utan ríkissjónvarpið íslenska eru minningamyndir um Kennedy og/eða upphaf fjögurra þátta raðar um Kennedy-fjölskylduna.

Í ríkissjónvarpinu á Íslandi er sýnd myndin Boðorðin tíu þar sem Charlton Heston leikur Móses. Myndin var gerð 1956 en tæknilegt útlit hennar hefur greinilega verið endurbætt. Sýningin tengist örugglega þáttaröðinni um sögu kvikmyndanna – sú saga er ríkissjónvarpinu ofar í huga en sagan tengd Kennedy.

 

 

Fimmtudagur 21. 11. 13 - 21.11.2013 23:40

Varðberg efndi til fundar í hádeginu í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ræðu um öryggismál. Henni mæltist vel og svaraði fyrirspurnum fundarmanna að loknu erindi sínu.

Í kvöld fór ég í Hannesarholt þar sem Sveinn Einarsson kynnti bók sína um Guðmund Kamban og sýnd var sjónvarpsmynd frá 1988 um Kamban eftir Víking Viðarsson. Var þetta fróðleg og skemmtileg kynning á Kamban.

Kristján Albertsson, vinur minn, kom fram í myndinni, blindur á Droplaugarstöðum, og lýsti kynnum sínum af Kamban. Rifjaðist upp fyrir mér hve oft hann minntist hans í samtölum okkar á sínum tíma.

Miðvikudagur 20. 11. 13 - 20.11.2013 21:30

Í dag ræddi ég við Vigdísi Grímsdóttur rithöfund í þætti mínum á ÍNN um nýju bókina hennar Dísu sögu. Viðtalið verður næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Það ætti engum að leiðast við að heyra Vigdísi segja frá bókinni sinni og störfum sem rithöfundur.

Það er forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðunum í Noregi við fréttinni í Dagbladet í gær um að Bandaríkjamenn hefðu skráð 33 milljónir símtala Norðmanna á einum mánuði. Nokkrum klukkustundum eftir að fréttinn birtist var upplýst að leyniþjónusta norska hersins hefði safnað upplýsingunum í Afganistan vegna öryggisgæslu í þágu norskra hermanna þar. Ritstjóri Dagbladets viðurkenndi að blaðið hefði hlaupið á sig. Málið heldur áfram í dag eins oglesa má í þessari frétt á Evrópuvaktinni.

Ögmundur Jónasson gegndi embætti sem innanríkisáðherra. Hann er nú formaður stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis og lét í Spegli ríkisútvarpsins eins og hann vissi ekki svörin við einhverjum spurningum sem nefndarmenn hefðu lagt fyrir ráðuneytisstjóra og þyrftu að leggja fyrir ríkislögreglustjóra. Hvers vegna þessar sviðsetningar og leikaraskapur?

Ekki tók betra við í Speglinum þegar Arnar Páll Hauksson ræddi við Kristin Hrafnsson, upplýsingafulltrúa Wikileaks. Kristinn fer gjarnan með hálfkveðnar vísur til að gera stofnanir tortryggilegar, að þessu sinni til dæmis greiningardeild ríkislögreglustjóra. Að líkja henni við leyniþjónustur annarra ríkja er alrangt eins og hver fréttamaður getur kynnt sér með því að lesa lög og reglur.

Það er dæmigert að í Speglinum er lögð áhersla á þá sem fiska í gruggugu vatni þegar öryggis- og lögreglumál eru annars vegar en ekki leitað til þeirra sem hafa þekkingu á málum. Ritstjóri Dagbladets í Noregi er í varnarstöðu fyrir sig og blað sitt vegna óvandaðra vinnubragða. Vandræði hans ættu að vera víti til að varast í heimi fjölmiðlamanna.

Þriðjudagur 19. 11. 13 - 19.11.2013 22:05

Í raun er ótrúlegt að aðeins hafi munað 90 mínútum að landslið Íslands næði á heimsmeistaramótið í knattspyrnu á næsta ári. Í leiknum í kvöld nægðu þessar mínútur fyrir Króata til að skora 2 mörk, okkar menn náðu hins vegar ekki að koma boltanum í netið hjá gestgjöfunum í Zagreb, höfuðborg Króatíu. Hvað sem því líður er ástæða til að óska íslenska liðinu til hamingju með árangurinn. Hann sýnir mikla þrautseigju. Króatar eru þekkt hörkutól.

Ég hafði ekki síður áhuga á leik Frakka og Úkraínumanna eins og sjá má hér á Evrópuvaktinni. Frakkar töpuðu illa í Kænugarði sl. föstudag og fengu á sig 2 mörk án þess að skora neitt sjálfir. Þeir urðu að sigra 3:0 í kvöld til að komast til Brasilíu. Þeim tókst það! Við þetta verður liðinu les Bleus fyrirgefið vegna allra fyrri ófara. Leikurinn í kvöld mun hvorki ýta undir kynþáttahatur né auka á þunglyndi frönsku þjóðarinnar til viðbótar við efnahagsraunir og óvinsælasta forseta V. franska lýðveldisins.

Mánudagur 18. 11. 13 - 18.11.2013 22:20

Nú hef ég lesið bækur Össurar Skarphéðinssonar og Steingríms J. Sigfússonar um störf þeirra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég ætla að skrifa um þær í næsta hefti Þjóðmála.

Allir vissu að vinstri-grænir áttu í illdeilum hver við annan allt kjörtímabilið. Átökin innan Samfylkingarinnar voru ekki minni. Steingrímur J. undrast hve vel samfylkingarfólki tókst að leyna þeim. Um þetta má ef til vill segja að meiri sársauki dregur athygli frá hinum minni, átökin innan VG skýldu átökunum innan Samfylkingarinnar.

Í frásögnum af bókunum hefur athygli verið beint að deilum ráðherra við forseta Íslands. Steingrímur J. leit þannig á 31. desember 2009 að hann mætti ekkert segja þegar Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir Icesave I lögin á ríkisráðsfundi. Síðar kynntust ráðherrarnir því að forsetinn taldi sig hafa fullt málfrelsi á ríkisráðsfundum og dóseraði yfir þeim.

Frá þessum einræðum er sagt í bók Össurar, hann kippti sér í raun ekki upp við þær vegna vináttu sinnar við Ólaf Ragnar. Hvorki Össuri né öðrum fyrrverandi flokksbræðrum Ólafs Ragnars tókst hins vegar að hindra hann í beita synjunarvaldinu tvisvar vegna Icesave.

Sunnudagur 17. 11. 13 - 17.11.2013 18:45

Niðurstaðan í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík er áfellisdómur yfir þeim sem farið hafa með forystu flokksins í borgarstjórn undanfarin misseri. Halldór Halldórsson hlaut 1. sæti vegna þekkingar sinnar á sveitarstjórnamálum og vegna þess að hann hefur staðið fjarri borgarstjórn Reykjavíkur. Vissulega hefði þátttakan í prófkjörinu mátt verða meiri en sé litið á hana sem hlutfall af kjósendum flokksins í Reykjavík um þessar mundir er ósanngjart að bera þátttökuna saman við fjöldann sem kaus í prófkjöri þegar flokkurinn var með 40% til 50% fylgi í höfuðborginni.

Halldór Halldórsson var gestur í þætti mínum á ÍNN eins og sjá má hér. Hann nálgast viðfangsefnið af þekkingu og heilbrigðri skynsemi eins og þegar hann segir að í umferðarmálum eigi að hafa að markmiði að flæði ökutækja sé sem jafnast og greiðast. Það segir sína sögu að jafnsjálfsögð yfirlýsing stangist á við stefnuna sem núverandi borgaryfirvöld fylgja. Þeir sem aka til dæmis um Borgartúnið átta sig á hvað felst í orðum Halldórs. Fróðlegt væri að vita hve háum fjárhæðum hefur verið úr borgarsjóði á þessu ári til að leggja stein í götu einkabílsins.

Halldórs bíður það verkefni að rífa Sjálfstæðisflokkinn upp úr hjólförunum og koma honum á skrið að nýju í Reykjavík. Til þess þarf hann öflugan og samhentan frambjóðendahóp að baki sér og flokkskerfi sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Raunar sýnir vegur Besta flokksins að flokkskerfi er minna virði en að ná beinu og milliliðalausu sambandi við kjósendur. Að beina athygli að flokkskerfinu eftir prófkjör eins og þetta er líklega hreinn misskilningur, miklu nær er að snúa sér beint að því að vinna hug og hjörtu kjósenda með jákvæðum boðskap og skírskotun til heilbrigðrar skynsemi.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að mér heilsast eins vel og á verður kosið og hefur mér ekki orðið neitt meint af fallinu á föstudag. Öllum er hættulaust að stunda qi gong eins og ég hef gert reglulega í tæp 20 ár án þess að verða misdægurt vegna þess. Menn eiga hins vegar að gæta sín kenni þeir einhverra óeðlilegra óþæginda því að æfingarnar geta magnað þau. Um qi gong má fræðast í nýrri bók Gunnarsæfingarnar.

 

 

 

Laugardagur 16. 11. 13 - 16.11.2013 20:14

Vaknaði hress á Landspitalanum í morgun. Eftir frekari rannsóknir var ég útskrifaður um hádegisbil með lyfseðli um töflur sem mér væri hollt að taka. Eins og jafnan áður þegar ég hef notið þjónustu þess frábæra fólks sem starfar á spítalanum fer ég þaðan stoltur yfir að þjóðin eigi slíkt sjúkrahús og öruggur um að ég hafi verið í hinum bestu höndum.

Fyrstu fréttir herma að Halldór Halldórsson hafi hlotið fyrsta sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Mér finnst það lofa góðu.

 

 

Föstudagur 15. 11. 13 - 15.11.2013 22:20

Þrisvar hef ég lagst inn á Landspítalann. Ávallt með nokkuð sérstökum aðdraganda.

Fyrir um það bil 20 árum var ég á prestastefnu á Hólum í Hjaltadal þar sem ég flutti erindi en fékk blóðeitrun í fótinn. Fór ég á slysavarðstofuna þegar ég kom til borgarinnar og var skipað að fara beint á Landspítalann þar sem ég lá í um það bil viku og fékk sýklalyf í æð.

Snemma árs 2007, fyrir rúmum sex árum féll saman á mér lunga. Þá lagðist ég tvisvar inn á Landspítalann og var að lokum lagfærður með holskurði. Sagði ég frá því dag frá degi hér á síðunni.

Við qi gong æfingar í morgun leið yfir mig, hringt var í sjúkrabíl sem kom fljótt á vettvang. Félagar mínir vöktu mig til meðvitundar en öruggar hendur þeirra sem komu í bílnum með þekkingu sína og reynslu sköpuðu mér og öllum öðrum vissu um að allt færi á hinn besta veg. Á Landspítalanum komst ég strax í hendur lækna og hjúkrunarfræðinga, var drifinn i hjartaþræðingu, sem sýndi heilbrigðar kransæðar. Síðan tóku við rannsóknir fram eftir degi og ákveðið var að fylgjast með mér og lagðist ég til svefns á hjartadeildinni.

Fimmtudagur 14. 11. 13 - 14.11.2013 19:15

Stjórnarandstæðingar óttast líklega að fjölgun aðstoðarmanna framsóknarráðherra verði til þess að auka fylgi þeirra. Ekki er unnt að leita annarrar skýringar á frumkvæði fréttastofu ríkisútvarpsins við að miðla til hlustenda í hádegisfréttum að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hefðu gert athugasemdir við ákvæði í stjórnarráðslagafrumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var ekki hlustað á athugasemdirnar og lögin sett með ákvæðunum sem gagnrýnd voru.

Af fréttinni í ríkisútvarpinu og útleggingu á henni má skilja að ekki sé við hæfi fyrir ráðherra Framsóknarflokksins og Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, að hafa fleiri en einn aðstoðarmann vegna gagnrýni þeirra á frumvarp Jóhönnu. Ástæða er til að velta fyrir sér hvers vegna fréttastofan vakti ekki máls á því við stjórnarmyndunina hvort ráðherrar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks treystu sér til að setjast í ráðherrastóla af því að þeir hefðu verið andvígir breytingunni á stjórnarráðinu.

Eitt er að eltast við stjórnmálamenn og spyrja þá um efndir kosningaloforða. Annað er að semja fréttir í þeim tilgangi að skamma þá fyrir að fara að lögum þótt þeir hafi lýst efasemdum eða andstöðu við lagasetningu á sínum tíma. Augljóst er að einhver spunaliði Samfylkingarinnar hefur lagt agn fyrir fréttamann ríkisútvarpsins sem beit auðvitað strax á öngulinn af hollustu við veiðimanninn.

Vissulega er ástæða til að velta fyrir sér hve marga aðstoðarmenn eðlilegt er að einn ráðherra hafi. Ég tel að hann eigi að vera einn en fjölgun þeirra var meðal annars rökstudd með stækkun ráðuneyta, því ætti pólitískum samstarfsmönnum innan ráðuneyta að fjölga.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem kom að því að semja stjórnarráðslögin lýsti ánægju sinni yfir fjölgun aðstoðarmannanna í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins og taldi það einnig sérstakt ánægjuefni að til aðstoðarmannsstarfa hefði ráðist þingmaður. Prófessorinn vill greinilega veg aðstoðarmannanna sem mestan og setur það svip á núgildandi stjórnarráðslög. Hvernig væri að ríkisstjórnin beitti sér fyrir breytingum á þeim?

 

Miðvikudagur 13. 11. 13 - 13.11.2013 22:55

Í dag var minnst 350 ára afmælis Árna Magnússonar handritasafnara. Margrét Þórhildur Danadrottning kom til landsins af því tilefni. Sýnir það einlægan áhuga drottningar á hinum sameiginlega menningararfi Íslendinga og Dana að hún komi hingað í vetrarferð, hún kann einnig að hafa viljað kynnast Íslandi að vetrarlagi. Veðrið gerir henni það kleift.

Dagskrá drottningar var ströng í dag. Ég sótti tvo liði hennar. Athöfn í hátíðasal Háskóla Íslands og dagskrá í Þjóðleikhúsinu, hvoru tveggja vel heppnað. Það hefði þó vel mátt flytja eitt klassískt tónverk, til dæmis eftir Jón Leifs í Þjóðleikhúsinu. Hann leitar efnis í brunni handritanna.

Þriðjudagur 12. 11. 13 - 12.11.2013 21:15

Mótmælaalda gengur yfir Frakkland. Á Bretagne-skaga eru skipulega unnin skemmdarverk á ratsjám lögreglu. Af rúmlega 100 ratsjám á skaganum hafa  48 verið eyðilagðar í nóvember. Rauðhúfurnar, mótmælahreyfing gegn umhverfisskatti á Bretagne, hefur boðað til nýrra aðgerða 30. nóvember. Kennarar og nemendur mótmæla breytingum á stundatöflu í grunnskólum Frakklands. Eigendur smáfyrirtækja láta í ljós óánægju sína.

Fréttirnar af mótmælum og átökum við lögreglu í París mánudaginn 11. nóvember í tengslum við minningardag fallinna í fyrri heimsstyrjöldinni vekja óhug hjá mörgum Frökkum.  Manuel Valls innanríkisráðherra leggur sig fram um að draga úr ótta fólks með þeim orðum aðeins hafi verið menn úr litlum hópi hægri öfgamanna að ræða.

Frakklandsforseti sætti ekki aðeins mótmælum í París heldur einnig þegar flutti síðar sama mánudag ræðu í Oyonnax. Það var blístrað á meðan hann talaði og baulað á hann þegar hann hélt á brott úr ráðhúsi bæjarins undir kvöld. Var haft á orði að forsetinn hefði brugðið út af venju sinni og ekki heilsað um um 500 manns sem höfðu komið saman á ráðhústoginu. Bifreið hans hefði verið lagt svo að segja við dyr ráðhússins svo að forseti „litla mannsins“ þyrfti ekki að ganga of nærri almenningi. François Hollande nýtur nú aðeins stuðnings 21% kjósenda. Óvinsældir forsætisráðherrans eru álíka miklar. Innan raða þingmanna sósíalista eru vaxandi kröfur um afsögn ráðherrans.

Þetta er grafalvarlegt ástand. Ekki aðeins fyrir Frakka heldur allar þjóðir Evrópu en þó einkum evru-ríkin. Stjórn annars stærsta hagkerfisins á svæðinu er lömuð sökum eigin óvinsælda. Forsetinn og stjórnin eru á hröðum flótta undan sjálfum sér.

Mánudagur 11. 11. 13 - 11.11.2013 19:00

Svonefndur hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar kynnti tillögur sínar í dag. Þar eru reifaðar ýmsar hugmyndir. Sumar hafa verið á döfinni árum saman. Þeim verður ekki hrundið í framkvæmd nema festa ríki í stjórnarháttum og samheldni sé innan ríkisstjórnar og þingmanna sem standa að baki henni. Kostur er að tillögurnar skuli birtar opinberlega til að stuðla að umræðum. Ókostur er að birtingin kann að vekja falskar vonir eða skapa ótta hjá þeim sem telja að sér vegið með þeim.

„Leki“ um efni tillagna nefndarinnar á trúnaðarstigi bendir til að ekki hafi ríkt algjör heilindi í þingmannahópnum. Sé svo veikir það framgang tillagna hans þegar á reynir. Það er næsta andkannalegt að þingmenn slái um sig með hugmyndum sem kannski komast aldrei í framkvæmd, skynsamlegt er að segja minna og láta verkin tala.

Meðal efnis tillagnanna má nefna að sameina skal úrskurðarnefndir og auka hagkvæmni í störfum þeirra. Skoðuð verði hagkvæmni þess að setja á stofn sérstakan stjórnsýsludómstól.

Engin rök eru með þessari tillögu frekar en öðrum. Ég veit um mál til meðferðar í úrskurðarnefnd sem hefur mest sex mánuði til að ljúka máli en nú nálgast biðin eftir úrskurði 18 mánuði. Þá eru þess dæmi að umboðsmaður alþingis sitji árum saman með mál til álitsgjafar.

Vissulega kann að vera hagræði að því að sameina aðila sem eiga að úrskurða um stjórnsýslumálefni og jafnvel að koma á fót nýjum dómstóli, stjórnsýsludómstóli. Mesta hagræðið fyrir hinn almenna borgara felst hins vegar í að málum hans sé sinnt innan þeirra fresta sem stjórnvöld og opinberar nefndir hafa til úrlausnar á málum. Óhagræðið af seinagangi og stundum að því er virðist tómlæti innan stjórnsýslunnar verður ekki alltaf mælt í peningum. Seinagangur og tómlæti er því miður köld staðreynd víða og leiða til þess að slaknar á öllum aga í kerfinu, það er dýrkeypt. Auðveldasta leiðin til að spara er sjá til þess að vandaðri vinnu sé skilað innan tímamarka.

Sunnudagur  10. 11. 13 - 10.11.2013 17:15

Hér á landi er látið eins og það sé með öllu fráleitt að stjórnmálamenn láti í ljós skoðun á því hvernig starfsmenn ríkisútvarpsins vinna eða hvað þeir láta frá sér fara. Leyfi menn sér að finna að störfum ríkisfjölmiðlamanna séu þeir á skjön við allt sem þyki við hæfi úti í hinum stóra heimi. Þetta tal er auðvitað ekki annað en bölvað rugl eins og sést til dæmis í þessari frétt sem birtist á  Evrópuvaktinni.

Umræður um starfsemi kínverskra athafnamanna utan Kína sýna að fyllsta ástæða er að sýna verulega aðgæslu þegar hugað er að viðskiptasamskiptum við þá. Hér má lesa grein sem birtist á vefsíðu spánska blaðsins El Pais sunnudaginn 10. nóvember. Höfundar greinarinnar hafa manna best kynnt sér viðskiptahætti Kínverja utan Kína.

Laugardagur 09. 11. 13 - 9.11.2013 23:55

Í kvöld var óperan Tosca eftir Puccini sýnd um heim allan í beinni sendingu frá Metropolitan óperunni í New York. Hér á landi var sýninginn í Kringlubíói og var salur 1 næstum fullsetinn. Ég hef áður sagt frá þessum frábæru sýningum hér á síðunni. Útbreiðslan eykst jafnt og þétt um heim allan.

Föstudagur 08. 11. 13 - 8.11.2013 22:10

Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna í maí 2014 fer fram laugardaginn 16. nóvember. Vegna prófkjörsins ræddi ég við Halldór Halldórsson og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur í þætti mínum á ÍNN. Þau hafa bæði mikið til brunns að bera. Halldór hefur 12 ára reynslu sem bæjarstjóri á Ísafirði þar sem hann reyndist mannasættir og góður stjórnandi. Þorbjörg Helga hefur setið í borgarstjórn fyrst sem varamaður og síðan sem aðalmaður frá 2002. Hún er vel að sér um skólamál og hefur mótaðar skoðanir um umbætur á þeim. Það sem hún segir um leyndarhyggjuna um árangur skóla í Reykjavík er sláandi dæmi um að þar vinna menn ekki markvisst að því að ná árangri.

Hér má sjá viðtalið við Halldór Halldórsson frá 23. október.

Hér má sjá viðtalið við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur frá 6. nóvember.

Fimmtudagur  07. 11, 13 - 7.11.2013 23:55

Í dag er dánardagur  Jóns Arasonar Hólabiskups og sona hans Björns og Ara. Þennan dag árið 1550 voru þeir teknir af lífi í Skálholti fyrir trú sína. Til að minnast þess voðaverks var í kvöld kl. 20.30 efnt til samkomu í Skálholtsdómkirkju og síðan gekk hópur fólks með logandi kyndla  í köldu rokinu að minnisvarða Jóns Arasonar biskups.

Ég ók Gunnari Eyjólfssyni leikara austur í Skálholt þar sem hann flutti orð til íhugunar við athöfnina. Sagði hann meðal annars frá för sinni með hóp kaþólskra Pólverja í Skálholt  og hátíðlegum viðbrögðum þeirra þegar þeir heyrðu að norðan við kirkjuna gengju þeir á jörð þar sem blóði píslarvotta hefði verið úthellt. Tóku þeir þá að syngja sálm og fara með bænir. Sagði Gunnar að Skálholt væri helgasti staður á Íslandi.

Jón Bjarnason organleikari lék við athöfnina og Margrét Bóasdóttir söng einsöng. Skálholtskórinn og Söngkór Miðdalskirkju sungu undir stjórn Jóns. Prestarnir sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup og sr. Egill Hallgrímsson sóknarprestur fluttu hugleiðingu og bæn auk þess sem Kristján Valur flutti Krosskvæði Jóns Arasonar.

Miðvikudagur 06. 11. 13 - 6.11.2013 21:40

Enn hafa fundist merkar fornminjar frá víkingatímanum í Danmörku. Að þessu sinni nyrst á Jótlandi austanverðu eins og lesa má í þessari frétt á Evrópuvaktinni Talið er að silfrið sem um er að ræða sé frá dögum Haralds Blátannar konungs. Silfur rak víkinganna langt austur og suður á bóginn, alla leið til Bagdad eins og sannast á arabísku myntinni sem fundist hefur á stöðum þar sem verslun hefur verið stunduð.

Fyrir skömmu kom út bókin The Vikings – New History eftir Neil Oliver, skoskan fornleifafræðing, sagnfræðing og útvarpsmann. Hann reisir frásögn sína mjög á því sem fundist hefur við fornleifarannsóknir. Í bókinni er að sjálfsögðu sagt frá Haraldi Blátönn. Hann hafi verið konungur  Danmerkur og hluta Noregs, 958  til 986, en allt bendi til þess að einn sona hans hafi látið drepa hann. Hann hafi látið styrkja Danavirki sem hefði verið reist þvert yfir nyrsta hluta Jótlands á níundu öld til að verjast germönskum barbörum. Frægastur sé hann fyrir að sameina dreifða danska ættbálka í eina heild og tengja þá norskum nágrönnum sínum.

Oliver segir að Haraldi Blátönn hafi með öðrum orðum tekist að skapa tengsl milli hópa sem áður vildu ekki eiga nein samskipti sín á milli. Þessi hæfileiki hans hafi orðið til þess að Ericsson fyrirtækið ákvað að kenna tækni sem það þróaði vegna þráðlausra tenginga við hann, Bluetooth, Blátönn. Litla einkennismerkið sem er á öllum tækjum sem búa yfir blátannartækni eru upphafstafir Haralds Blátannar með rúnaletri og eru rúnastafirnir tveir festir saman.  Eins og sést hér fyrir neðan.

Í þætti mínum á ÍNN í kvöld ræði ég við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa meðal annars um skólamál í Reykjavík en yfir árangri í skólum hvílir svo mikil leynd að borgarfulltrúar eiga fullt í fangi með að fá nasasjón af honum. Þátturinn er næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 05. 11. 13 - 5.11.2013 20:30

Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hélt erindið „Réð Kolkrabbi atvinnulífi á Íslandi fram undir lok 20. aldar? Og hvað tók þá við?“ á málstofu viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands í hádeginu í dag. Hann ræddi þá kenningu sem til dæmis má sjá í ritgerð eftir Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í New Left Review, að íslenskt atvinnulíf hafi fram á tíunda áratug 20. aldar verið í höndum Kolkrabba eða fjölskyldanna fjórtán, en síðan þriggja viðskiptasamstæðna.

Sigurbjörg er kennari við Háskóla Íslands. Hún lét því miður ekki sjá sig á fyrirlestrinum.  Hefði verið fróðlegt að fá viðbrögð hennar við afhjúpun Hannesar Hólmsteins á hroðvirknislegum vinnubrögðum og röngum fullyrðingum hennar og Wades. Augljóst er að þau slá fram fullyrðingum sem standast ekki þegar litið er á hlutlæg gögn sem Hannes dró fram máli sínu til stuðnings.

Hannes Hólmsteinn á lof skilið fyrir dugnað sinn við að bregða ljósi á aðdraganda hrunsins  fyrir fimm árum á grundvelli rannsókna og upplýsingaöflunar sem einkennist af hugkvæmni og nákvæmni. Niðurstaða hans er að hefði íslenska fjármálakerfið fengið sambærilega fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Bandaríkjanna og danska kerfið hefði hið íslenska staðist áraunina. Þá skipti einnig sköpum að bresk stjórnvöld beittu tvo íslenska banka  í Bretlandi heljartökum rétt áður en þau ákváðu að dæla peningum inn í breska bankakerfið til að bjarga því.

Spurningunni um hvað olli þessari afstöðu stjórnvalda í Bretlandi og Bandaríkjunum hefur ekki verið svarað. Í Bretlandi var um meðvitaða ákvörðun að ræða – hvers vegna var hún tekin? Studdust bandarísk yfirvöld við ráðgjöf frá London? Var verið að ná sér niðri á íslenskum bönkum? Var um óvild í garð íslenskra stjórnvalda að ræða? Vonandi tekur Hannes Hólmsteinn sér fyrir hendur að leita svara við þessum spurningum.

Mánudagur  04. 11. 13 - 4.11.2013 20:55

Steingrímur J. Sigfússon lét í Kastljósi eins og hann hefði náð gífurlegum árangri við landstjórnina sem ráðherra. Fyrir kosningar þegar dómur kjósenda um verk hans var á næsta leiti ákvað hann að segja af sér af því að við blasti að flokkur hans mundi gjalda afhroð undir formennsku hans. Það var nauðvörn hans að draga sig í hlé. Katrínu Jakobsdóttur tókst að berja í brestina.

Meginástæðan fyrir falli Steingríms J. var að hann hafði hvað eftir annað haft rangt fyrir sér í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar út á við: Icesave-málinu. Niðurstaða EFTA-dómstólsins fól í sér lokadóminn um vanhæfni Steingríms J. í málinu og dómgreindarbrest hans.

Varnarrit Steingríms J. virðist öðrum þræði snúast um reiði hans í garð Ólafs Ragnars Grímssonar, helst má skilja umræður um bók Steingríms J. á þann veg að honum sé nú verr við Ólaf Ragnar en Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma. Þá er furðulegt að hlusta á gamla sönginn um að þingmönnum hafi verið nauðugur einn kostur að stefna Geir H. Haarde fyrir landsdóm.

Steingrímur J. sakar Ólaf Ragnar um einskonar valdarán með því að hafa stofnað til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, slæm hafi fyrri synjunin verið en verri hin síðari. Nú segir Steingrímur J. að hann líti ekki á ríkisráðsfundi sem umræðuvettvang en eftir að Ólafur Ragnar tók sér á ríkisráðsfundi frest til að rita undir Icesave-lög Steingríms J. sagði hann við fjölmiðla að hann sæi eftir að hafa ekki mótmælt Ólafi Ragnari á ríkisráðsfundinum.

Stutt sjónvarpssamtal við Steingrím J. segir auðvitað ekki alla söguna um bók hans.

Sunnudagur 03. 11. 13 - 3.11.2013 22:20

Hefðin hefur verið að ráðherrar segðu ekki frá því sem gerist á ríkisráðsfundum. Þegar ég safnaði efni í ritgerð mína um starfsstjórnir las ég fundargerðir frá forsetatíð Sveins Björnssonar. Þar er bókað að fleira hafi komið til umræðu á fundunum en staðfesting á lögum og öðru sem lagt var fyrir ríkisráðið á þeim tíma.

Umfang þess sem borið er undir forseta til staðfestingar eða endurstaðfestingar í ríkisráðinu hefur minnkað mikið eftir að Ólafur Ragnar Grímssonar varð forseti 1996.  Meginhluti embættaveitinga hefur verið færður úr formlegum höndum forseta í hendur þeirra sem hina efnislegu ábyrgð bera, ráðherranna. Dagskrá ríkisráðsfunda hefur því styðst að þessu leyti en lagafrumvörp og lög eru mun fleiri en á fyrstu árum lýðveldisins.

Um langt árabil hefur sá háttur gilt að fundargerð ríkisráðsins er skráð áður en fundur hefst. Af þessu er mikil hagkvæmni og auðveldar aðferðin að allir fundarmenn riti undir gerðina strax að fundi loknum. Þessi háttur undirstrikar að ríkisráðsfundirnir snúast um formsatriði.

Nú mun væntanleg bók frá Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, þar sem hann virðist ætla að rjúfa hefðina um trúnað um umræður á ríkisráðsfundum. Jóhanna Sigurðardóttir barðist sem forsætisráðherra við Ólaf Ragnar um setningu siðareglna – hvað ætli hafi staðið í þeim um frásagnir af ríkisráðsfundum?

Hafi komið til ágreinings milli forseta og forsætisráðherra á ríkisráðsfundum, var sá ágreiningur bókaður? Hefur verið horfið aftur til tíma Sveins Björnssonar að þessu leyti? Hvað um gagnsæið í stjórnsýslunni og æðstu stjórn ríkisins? Var ekki eðlilegt að skýra frá ágreiningnum í ríkisráðinu á þeim tíma sem hann varð?

 


Laugardagur, 02. 11. 13 - 2.11.2013 16:30

Morgunblaðið minnist 100 ára afmælis síns í dag með útgáfu á veglegu afmælisblaði. Mikil gerjun er í blaðinu um þessar mundir og sóknarhugur. Frá 2002 hefur markvisst verið unnið að því að grafa undan fjárhag blaðsins með útgáfu fríblaðs í krafti auðmanna.

Fréttablaðið hefur ekki roð við Morgunblaðinu þegar litið er til fjölbreytni og efnistaka. Þá hefur Morgunblaðið slegið öllum íslenskum fjölmiðlum við í netheimum með vefsíðunni mbl.is. Á netinu sannast að sé íslenskum fjölmiðlum skipað jafnfætis varðandi dreifingu og aðgengi stendur ritstjórn Morgunblaðsins feti framar en aðrir þegar litið er til talna um heimsóknir á síðuna. Miklu skiptir að halda þessu forskoti og þróa þennan þátt í starfsemi blaðsins í takt við vaxandi kröfur um meira netefni.

Í kvöld sagði ég frá för okkar til Parísar í júní þar sem við sáum Niflungahringinn í Bastillu-óperunni. Hér má lesa það sem ég sagði um ferðina.

 

Föstudagur 01. 11. 13 - 1.11.2013 20:50

Í dag gaf Almenna bókafélagið út á íslensku skáldsögu sem ber nafnið Kíra Argúnova eftir Ayn Rand, rússnesk-bandarískan rithöfund, vinsælasta kvenrithöfund heims. Bækur hennar hafa selst í 30 milljónum eintaka. Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, ritar eftirmála um Rand, ævi hennar og verk. Nú hafa þrjár skáldsögur Rand The Fountainhead eða Uppsprettan frá 1943, Atlas Shrugged eða Undirstaðan frá 1957 og  We the Living frá 1936, framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949 undir nafninu Kíra Argúnova, allar komið út í nýjum þýðingum á íslensku og ber að fagna framtakinu.

Í tilefni af útgáfunni hélt RNH í samstarfi við Almenna bókafélagið fund um heimspeki Ayn Rand í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Þar flutti dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, erindi og svaraði spurningum fundarmanna. Það einkenndi að sjálfsögðu málflutning hans hve rökföst Ayn Rand er í heimspekilegum boðskap sínum. Í máli Brooks kom fram að Undirstaðan seldist í 300.000 eintökum árlega sem væri einstök sala á 56 ára gamalli skáldsögu. Hann sagði að sala bókarinnar hefði aukist eftir að Barack Obama tók við embætti Bandaríkjaforseta.

Þátturinn Útsvar í sjónvarpinu rennur út í sandinn ef svo fer fram sem horfir. Spurningavalið að þessu sinni einkennist af svo mikilli sérvisku að jafnvel hinum gamalreyndu spyrjendum finnst ástæða til að vekja athygli á henni.