1.11.2013 20:50

Föstudagur 01. 11. 13

Í dag gaf Almenna bókafélagið út á íslensku skáldsögu sem ber nafnið Kíra Argúnova eftir Ayn Rand, rússnesk-bandarískan rithöfund, vinsælasta kvenrithöfund heims. Bækur hennar hafa selst í 30 milljónum eintaka. Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, ritar eftirmála um Rand, ævi hennar og verk. Nú hafa þrjár skáldsögur Rand The Fountainhead eða Uppsprettan frá 1943, Atlas Shrugged eða Undirstaðan frá 1957 og  We the Living frá 1936, framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949 undir nafninu Kíra Argúnova, allar komið út í nýjum þýðingum á íslensku og ber að fagna framtakinu.

Í tilefni af útgáfunni hélt RNH í samstarfi við Almenna bókafélagið fund um heimspeki Ayn Rand í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Þar flutti dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, erindi og svaraði spurningum fundarmanna. Það einkenndi að sjálfsögðu málflutning hans hve rökföst Ayn Rand er í heimspekilegum boðskap sínum. Í máli Brooks kom fram að Undirstaðan seldist í 300.000 eintökum árlega sem væri einstök sala á 56 ára gamalli skáldsögu. Hann sagði að sala bókarinnar hefði aukist eftir að Barack Obama tók við embætti Bandaríkjaforseta.

Þátturinn Útsvar í sjónvarpinu rennur út í sandinn ef svo fer fram sem horfir. Spurningavalið að þessu sinni einkennist af svo mikilli sérvisku að jafnvel hinum gamalreyndu spyrjendum finnst ástæða til að vekja athygli á henni.