Dagbók: nóvember 2015

Mánudagur 30. 11. 15 - 30.11.2015 19:00

Loftslagsráðstefnan hófst á Bourget-flugvellinum skammt fyrir utan París með 3ja mínútna ræðum fyrirmenna í dag. Talið er að 40.000 manns sæki hana og nýti sér 180.000 fm svæði sem lagt er undir fundina. Um 3.000 starfsmenn sjá til þess að allt gangi snurðulaust fyrir sig til 11. desember þegar ráðstefnunni líkur. Eins og vænta má er mikilli öryggisviðbúnaður og hann minnkaði ekki eftir hryðjuverkin í París föstudaginn 13. desember.

Frakkar eru gestgjafar en ráðstefnan er á vegum Sameinuðu þjóðanna sem standa straum af meginkostnaði við hana og annast framkvæmdina í samvinnu við Frakka. Utan þess rýmis sem Sameinuðu þjóðunum er ætlað standa 1.500 Frakkar vörð: ríkislögregla, staðarlögregla og brunaverðir. Þeir gæta öryggis á svæðinu og leiðum til þess.

Þeir eru einnig ábyrgir fyrir öryggi á opnu svæði til fundarhalda fyrir almenna borgara undir stjórn franskra yfirvalda. Þarna er um 25.000 fm svæði að ræða sem opnað verður þriðjudaginn 1. desember og talið er að um 20.000 manns muni sækja fundi þar. Þarna haf verið boðaðir 350 fundir og 71 kvikmynd verður sýnd í litlu kvikmyndahúsi. Frakkar kalla þetta Générations climat og þarna verða 340 sýningar- eða kynningarbásar ýmissa samtaka og stofnana.

Eins og af þessu má sjá er hér um risaverkefni að ræða á alþjóðavísu. Rauður þráður í ræðum fyrirmenna á fundunum í dag var að yrði ekkert aðhafst nú bitnaði það á komandi kynslóðum. Löngum hefur verið bent á að í því felist mikill stórhugur að fá mannkyn til að axla byrðar nú sem það njóti ekki sjálft – þetta er í hróplegri andstöðu við skammtímasjónarmið sem reist eru á að fleyta stjórnmálamönnum til valda eftir næstu kosningar, það er eftir fjögur ár eða svo. Málið snýst í raun um hvað þjóðir í norðri eru tilbúnar til að greiða þjóðum í suðri svo að þær grípi til róttækra ráðstafana gegn hlýnun jarðar og mengun – með þjóðum í norðri er átt við Vesturlönd og þar með Ástralíu, Nýja-Sjáland og Japan.

Í BBC í dag var birt frétt frá Peking þar sem fréttakonan var úti á götu með loftmengunarmæli sem sýndi að mengunin var 24 sinnum meiri en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur hættumörk. Sjón er sögu ríkari, sjá hér. 

Sunnudagur 29. 11. 15 - 29.11.2015 17:00

Í dag birtust sjónvarpsmyndir af átökum á Place de la République í París milli lögreglu og aðgerðasinna sem vildu draga athygli að málstað sínum vegna loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem er að hefjast í borginni með þátttöku um 40.000 manna. Aðgerðaganga var einnig í London og vafalaust víða annars staðar í heiminum.

Þegar ráðstefna var haldin um þetta mál í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum náðist enginn árangur. Nú segir í útvarpsfréttum að árangursleysið megi ef til vill rekja til þess að leiðtogar ráðstefnuríkjanna sátu hana á lokastigum hennar. Nú komi þeir til fundar í upphafi ráðstefnunnar og lofi það góðu um að niðurstaða hennar verði önnur en í Kaupmannahöfn. Þá kunni hryðjuverkin í París hinn 13. nóvember að stuðla að samkomulagi um loftslagsmál.

Þetta er undarlegur spuni í tilefni af ráðstefnu um mál þar sem til þessa hefur ekki náðst að sameinast um neitt sem skiptir sköpum varðandi viðfangsefnið. Grunur vaknar um að verið sé að búa í haginn fyrir enn eina málamyndarsniðurstöðuna.

Héðan fara til þessa fundar 15 manna nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, þrír framsóknarráðherrar eru í hópnum: forsætisráðherra, utanríkisráðherra og umhverfisráðherra. Reykjavíkurborg sendir tólf fulltrúa á ráðstefnuna, þá verða sex þingmenn í París, fulltrúar frá Akureyrarbæ, Háskóla Íslands, HS Orku, Landsvirkjun, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Orku náttúrunnar ef marka má það sem segir í dag á ruv.is. Þar er ekki minnst á forseta Íslands en einhvers staðar var sagt að hann yrði einnig í París.

Miðað við það sem tíundað er hér að ofan verða að minnsta kosti 40 fulltrúar frá Íslandi á ráðstefnunni í París. Þegar heim kemur verður öllum kappsmál að færa jákvæð rök fyrir þátttöku sinni og mun það setja þann svip á frásögnina af ráðstefnunni að hún hafi skilað góðum árangri. Þannig var til dæmis talað um niðurstöðu Kyoto-ráðstefnunnar um loftslagsmál 1997. Nú sjá menn að Kyoto-ráðstefnan skilaði ekki neinu sem máli skiptir í stóra samhengi hlutanna.

Þeir sem halda að tímasetning þátttöku fyrirmenna í ráðstefnu eða hryðjuverk unnin skömmu fyrir hana skipti sköpum um inntak niðurstöðu sem ætlað að skuldbinda ríki lagalega til að gera ráðstafanir sem tryggja að hlýnun jarðar verði innan við 2° telja greinilega að allt annað ráði afstöðu manna til efnis ráðstefnunnar en málefnaleg afstaða til þess. Til hvers að kalla 40.000 manns til Parísar ef svo er?

 

Laugardagur 28. 11. 15 - 28.11.2015 19:15

Í dag efndum við til bókakynningar í Hlöðunni að Kvoslæk í samvinnu við bókaútgáfuna Sæmund á Selfossi. Var hún vel sótt og heppnuð.

Tölvuárás var gerð á vef stjórnarráðsins og sendi forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu um málið í dag. Þar segir:

„Vefsíðum Stjórnarráðs Íslands var lokað í gærkvöldi í kjölfar álagsárásar sem virðist hafa verið skipulögð erlendis frá. […]

Umrædd árás beindist að netþjónum vefja ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands en engin gögn voru í hættu. Vefirnir innihalda gögn og upplýsingar sem eru þegar aðgengileg almenningi. Vefirnir voru hafðir lokaðir þar til ljóst var að ástandið var komi aftur í eðlilegt horf á tíunda tímanum í morgun. Upplýsingasíður Stjórnarráðsins eru nú komnar aftur í eðlilegt horf og aðgengilegar notendum.“ 

Á ruv.is segir í dag að vefsíðurnar hafi legið niðri í 13 klukkustundir vegna árása á vegum Anonymous. Í yfirlýsingu sem birtist á Youtube í nafni Anonymous 25. nóvember hafi hvalveiðar Íslendinga verið fordæmdar.

Ragnheiður M. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, sem annast kerfisstjórn fyrir stjórnarráðið sagði að netöryggissveit Póst-og fjarskiptastofnunar hefði verið virkjuð.

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt tillögur að lagabreytingum um að efla netöryggissveitina með því meðal annars að færa hana undir ríkislögreglustjóra og þar verði sólarhringsvakt sem nái ekki aðeins til fjarskiptafyrirtækja og stjórnkerfisins heldur að auki til fjármála-, orku- og flugumferðarfyrirtækja. Til þess að mæta kostnaði vegna meiri varna og  tækja verður innheimt sérstakt netöryggisgjald af þeim sem mestan hag hafa að bættum vörnum.

Innan Europol, NATO og annarra alþjóðastofnana er lögð sífellt meiri áhersla á varnir gegn tölvuárásum og hafa ríki vaxandi samstarf á því sviði. Framkvæmd varnanna er þó í höndum einstakra ríkja. Þessi síða mín er vistuð hjá Hugmsiðjunni og þaðan fékk þessa tilkynningu föstudaginn 13. nóvember:

„Töluvert hefur verið um nettruflanir í þessari viku. Upplýsingum hefur verið deilt á internetinu þess efnis að um sé að ræða skipulagðar árásir „Anonymous" hópsins vegna stuðnings Íslands við hvalveiðar. Tæknimenn eru að vinna í því að verjast þessu ástandi og vinna að lausn. Flókið getur verið að verjast svona árásum og erfitt er að vita hversu lengi ástandið varir. Búast má við þjónustutruflunum eða þjónusturofi hjá notendum erlendis. Tilkynningar munu berast um stöðuna eftir atvikum. Við þökkum fyrir sýnda biðlund.“

 Af þessu sést að tölvuárásirnar á Ísland hafa staðið í nokkrar vikur.

 

 

 

 

Föstudagur 27. 11. 15 - 27.11.2015 19:30

Það er furðulegt að lesa eða heyra allar auglýsingarnar hér á landi sem kenndar eru við Black Friday. Þetta er föstudagurinn eftir Thanksgiving, þakkargjörðardaginn í Bandaríkjunum. Að þessi dagur skuli kalla á útsölur eða verðlækkanir hér á landi er til marks um að alþjóðavæðingin mótast mjög af menningararfi í Bandaríkjunum og hnattrænum áhrifum hans.

Engin ein skýring er á því hvers vegna menn tala um Black Friday. Bent er á að hugtakið hafi fyrst verið notað í Fíladelfíu í Pennsylvaníuríki um umferðaröngþveitið og örtröðina í verslunum eftir frídaginn vegna þakkargjörðarinnar, hafi kaupmenn þá viljað rýma fyrir jólavörunum. Önnur skýring er að verslanir hafi verið reknar með tapi fram að þessum degi en skilað hagnaði komist in the black eftir þakkargjörðina vegna þess að þá hafi jólaverslunin hafist. Hitt er sagt alrangt að þennan dag hafi menn notað til uppboða á svörtum þrælum á tíma þrælahalds í Bandaríkjunum.

Hér skal ekki tekin nein afstaða til þessara skýringa en áréttað hve einkennilegt er að þessi dagur verði dagur mikilla umsvifa í verslun hér undir þessu bandaríska heiti.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær nýjar bifreiðar með öruggum geymslum fyrir skotvopn og ákveðið er í samræmi við gildandi reglur að nota þessar geymslur til að auka slagkraft lögreglunnar og þar með öryggi borgaranna. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, krefst sérstakrar umræðu um málið á alþingi og segist hafa verið að eltast við innanríkisráðherra á Facebook vegna þess að kvöldi fimmtudags 26. nóvember. Upphlaup Árna Páls sýnir hve langt er seilst til að vekja tortryggni í garð lögreglu og úlfúð um eðlilegar öryggisráðstafanir.

Í fréttum ríkisútvarpsins var skýrt frá því í kvöld að doktor í vinnusálfræði  teldi að fá þyrfti óhlutdrægan aðila til að stuðla að lausn samskiptavanda innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Vandinn stafar af því að háttsettir menn innan embættisins sættu sig ekki við að Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð lögreglustjóri. Að þeir gangi fram á þennan hátt er vissulega áhyggjuefni og vonandi tekst þeim sem valinn verður að fá þá til að sætta sig við orðinn hlut. Alkunna er að vanda af þessum toga er oft ekki auðvelt að leysa.

 

Fimmtudagur 26. 11. 15 - 26.11.2015 17:45

Viðtal mitt á ÍNN í gær við Eyþór Arnalds vegna skýrslu sem hann stóð að um stöðu og rekstur ríkisútvarpsins er komið á netið og má sjá það hér. 

Nú hafa hollvinir ríkisútvarpsins hafið útvarpsauglýsingaherferð til stuðnings hinu opinbera hlutafélagi. Miðað við hlustun er líklegt að auglýsingarnar nái aðeins til hinna sannfærðu. Alltaf er gott að herða á sannfæringu stuðningsmanna og hollvina. Hitt skiptir þó meira máli að stuðla að nýliðun en skortur á henni háir ríkisútvarpinu mjög eins og kemur fram í spjalli okkar Eyþórs. Ríkisútvarpið hefur því miður lent á skjön við samtímann af einhverjum ástæðum. Væri haldið á fjármálum og eftirliti með annarri opinberri stofnun á sama hátt og gert er gagnvart ríkisútvarpinu stæðu fréttamenn á öndinni og Kastljós logaði skærar en áður af hneykslan og vandlætingu. Aðhaldsleysi er helsti óvinur ríkisútvarpsins.

Fyrirsögnin efst á forsíðu Morgunblaðsins í dag er þessi: Hert eftirlit í skoðun – Forsætisráðherra gagnrýnir umræðuna um Schengen hér á landi og segir ákveðna menn horfa fram hjá staðreyndum um það sem sé að gerast í Evrópu.

Óljóst er hverjir þessir „ákveðnu menn“ eru, hafi einhverjir haldið því fram hér á landi að Schengen-samstarfið sé hið sama og áður þótt ytri landamæri Schengen-svæðisins í suðri hafi hrunið.  

Tekið skal undir með forsætisráðherra þegar hann segir mikinn vanda steðja að Schengen-samstarfinu. Nágrannaþjóðir okkar Svíar og Norðmenn hafa til dæmis ákveðið að taka upp landamæraeftirlit og skoða skilríki þeirra sem koma með ferjum og akandi. Flugfarþegum til landanna er ráðlagt að hafa með sér vegabréf verði spurt um skilríki. Norræna vegabréfasamstarfið er sagt í gildi en það snýst um að Norðurlandabúar geta farið á milli landanna án þess að sýna vegabréf. Þetta samstarf og sameiginleg landamæri Noregs og Svíþjóðar urðu til þess að Norðmönnum og Íslendingum var boðin aðild að Schengen á sínum tíma.

Í Morgunblaðinu í dag er einnig viðtal við forsætisráðherra vegna Schengen-aðildarinnar. Þar er skautað yfir málið á þann veg að mér þótti ástæða til að staldra við og skoða ummæli forsætisráðherra nánar en maður gerir við hraðlestur blaða. Við nánari athugun sá ég ýmislegt athugavert við orð forsætisráðherra og skrifaði í tilefni af þeim þessa grein á vefsíðuna vardberg.is

 

Miðvikudagur 25. 11. 15 - 25.11.2015 18:30

Í dag ræddi ég við Eyþór Arnalds, formann úttektarnefndar á málefnum ríkisútvarpsins, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður á dagskrá (rás 20) klukkan 20.00 í kvöld. Undarlegt er að kynnast viðbrögðum af hálfu ríkisútvarpsins við skýrslunni.

Í hádeginu í dag ræddi ég um hryðjuverkin í París og öryggi Íslands á fundi Sambands eldri sjálfstæðismanna í Valhöll. Ræðuna má lesa hér.

Þriðjudagur 24. 11. 15 - 24.11.2015 21:00

Vladimír Pútín sendi flugherinn til Sýrlands til að styrkja stöðu sína fyrir botni Miðjarðarhafs. Í Rússlandi var herförin kynnt á þann veg að um samfellda sigurgöngu yrði að ræða. Nú hefur rússneskri farþegavél með 224 um borð verið grandað með sprengju yfir Sinaí-skaga. Ríki íslams segist standa að baki verknaðinum. Í dag skutu tvær tyrkneskar F-16 orrustuvélar niður rússneska Su-24 orrustuþotu sem Tyrkir segja að hafi rofið lofthelgi þeirra.

Pútín dró von úr viti að viðurkenna að sprengju hefði verið laumað um borð í farþegaþotuna. Hann leit á það sem persónulegt áfall fyrir sig. Síðan neyddist hann til að skrúfa fyrir allar sólarlandaferðir Rússa til Egyptalands en tug þúsundir þeirra fara þanað til að stytta rússneska veturinn.

Eftir að Su-24 þotunni hafði verið grandað sagði Pútín fráleitt að hún hefði rofið tyrkneska lofthelgi. Hann sagði Rússland hafa fengið „stungu í bakið“ frá „samverkamönnum hryðjuverkamanna“. Þetta mundi hafa „alvarlegar afleiðingar fyrir samband Tyrklands og Rússlands“.  Hann harmaði að Tyrkir hefðu snúið sér til NATO. „Vilja þeir að NATO þjóni Ríki íslams?“ Hann sakaði Tyrki um að skipa sér við hlið Ríkis íslams.

Síðdegis lýsti NATO stuðningi við Tyrki, þeir hefðu gripið til varna eftir að lofthelgi þeirra var rofin.

Pútin hefur ekki lengur ímynd hins ósigrandi leiðtoga. Stóru orðunum sem hann lét falla um Tyrki hlýtur hann að fylgja eftir á einn eða annan hátt. Hættan á stigmögnun í samskiptum Tyrkja og Rússa er vissulega fyrir hendi og var það áður en til þessa atviks kom.

Pútín hefur um nokkurt skeið sent flugvélar sínar í ögrandi ferðir vítt og breitt í nágrenni Evrópulanda. Fréttir hafa meðal annars borist um flug rússneskra sprengjuvéla umhverfis Ísland. Þær hafa ögrað Eystrasaltsþjóðunum og Bretum auk þess að æfa sprengjuárásir á Gotland og Borgundarhólm.

Þegar menn leika sér að eldi eykst hættan á að þeir brenni sig. Þetta hefur Pútín reynt. Færir hann sig enn upp á skaftið eða dregur hann sig í hlé?

Mánudagur 23. 11. 15 - 23.11.2015 19:15

Forsætisráðherra Belga tilkynnti undir kvöld að á morgun, fjórða daginn í röð, yrði hæsta hættustig í gildi í Brussel en á miðvikudag yrðu skólar opnaðir stig af stigi og einnig brautarstöðvar fyrir lestarsamgöngur innan borgarinnar.

Greinilegt er að yfirvöld í Belgíu hafa ekki áttað sig á því sem Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, telur skynsamlegast að gera við aðstæður sem þessar. Hún lýsir því í grein í Fréttablaðinu í dag. Telur hún bestu leiðina til að sigra hryðjuverkamenn  „að styrkja menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi og tryggja öllum þjóðfélagshópum þátttöku í lýðræðislegu samfélagi“.

Þarna er sem sagt boðuð sú stefna að í stað þess að senda lögreglu inn í Molenbeek-hverfið í Brussel eða handtaka 21 mann og gera vopn upptæk eigi að opna þar félagsmiðstöð. Þeir sem hallast að þessari stefnu telja belgísk stjórnvöld líklega rekin áfram af illmennsku þegar þau fara eftir upplýsingum um bráða stórhættu og grípa til forvirkra aðgerða.

Belgíska lögreglan beindi því til almennings sunnudaginn 22. nóvember að fólk setti ekki á Twitter ef það sæi til ferða her- eða lögreglumanna. Slíkar upplýsingar kæmu þeim sem vildu dyljast eingöngu að notum. Netverjar brugðust við með því að setja fréttir og myndir af köttum á samfélagssíður. Heppnaðist þessi aðgerð lögreglunnar svo vel að hún sendi öllum köttum Belgíu formlegar þakkir fyrir stuðninginn.

Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar um að það kynni að verða íslenskum yfirvöldum ofviða að gæta Schengen-hliðsins gagnvart Bandaríkjunum vegna fjölgunar Asíumanna yfir hafið til Íslands eru reist á undarlegum misskilningi ef forsetinn heldur að ástandið á Keflavíkurflugvelli verði nokkru sinni sambærilegt við ástandið á grísku eyjunum, ítölsku eyjunni Lampedusa eða Möltu. Asíumenn þurfa vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og Íslands – áritunin er gefin út í sendiráði Íslands í Peking fyrir Kínverja.

 

Sunnudagur 22. 11. 15 - 22.11.2015 17:00

Í dag eru rétt 10 ár frá því að Angela Merkel, leiðtogi kristilegra demókrata (CDU), varð kanslari Þýskalands. Berthold Kohler, útgefandi Frankfurter Allgemeine Zeitung, segir af því tilefni að í síðustu þingkosningum hafi Merkel sigrað með þremur orðum; Þið þekkið mig. Það hafi dugað henni til að verða kanslari þriðja kjörtímabilið í röð.

Kohler segir að nú glími Merkel við andstreymi vegna flóttamannavandans. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Eins og ávallt fer hún eigin leið: skref fyrir skref. Á sama hátt og hún, utanbæjarkonan frá DDR [Þýska alþýðulýðveldinu], sneri CDU til vinstri hefur hún í kreppu eftir kreppu orðið að voldugustu konu Evrópu. Enn þann dag í dag eins og fyrr kemur enginn í hennar stað hjá CDU ( og hjá CSU [kristilegum í Bæjaralandi] eins og [Horst] Seehofer [leiðtogi CSU] nákvæmlega veit). Ólíklegt er að [Sigmar] Gabriel [leiðtogi jafnaðarmanna SPD] sigri hana í kosningunum árið 2017. Engu að síður skelfur valdagrunnur hennar í innalands – og utanríkismálum – trúin á að hún viti hvað Þýskalandi og ESB sé fyrir bestu – vegna flóttamannavandans, einnig innan hennar eigin flokks. Það verður erfitt fyrir Merkel að endurvinna glatað traust: sambandslýðveldið á enn eftir að takast við mesta vandann vegna hins mikla fjölda aðkomufólks. Á hinn bóginn eru þess mörg dæmi að á erfiðleikatímum takist Merkel best að sýna hvers hún er megnug í stjórnmálum. Og þótt stjórnmálaferill hennar til þessa sýnist ekki eins stórbrotinn og forvera hennar einkennist hann þó af atvikum og sviptingum sem komu mönnum í opna skjöldu.“

Kohler telur með öðrum orðum of snemmt að afskrifa Angelu Merkel þótt á móti blási. Alvaran sem þjóðir Evrópu og stjórnendur þeirra standa frammi fyrir vegna flóttamannastraumsins endurspeglast í þessum orðum. „Feilspor“ Angelu Merkel var að viðurkenna að landamæri þjóðríkisins dygðu ekki sem vörn gegn fólkinu sem leitaði skjóls innan Þýskalands. Varðstaða á þeim forsendum bryti gegn lögmálum alþjóðavæðingarinnar.  

 

 

 

Laugardagur 21. 11. 15 - 21.11.2015 21:00

Samtal mitt á ÍNN 18. nóvember við Bergsvein Birgisson rithöfund er komið á netið og má sjá það hér.

Páll Winkel fangelsismálastjóri er sakaður fyrir mannréttindabrot vegna þess að hann framfylgir reglum stofnunar sinnar á Kvíabryggju og færir rök fyrir máli sínu. Dómarar eru sakaðir um að fara ekki að lögum þegar þeir fella dóma um menn sem tengjast hrunsmálum. Sérstakur saksóknari hefur árum saman sætt gagnrýni vegna þessara mála. Ráðist er á ráðherra sem flutti frumvarpið um sérstakan saksóknara. Allir eru þessir aðilar á einn eða annan hátt sakaðir um að hafa rangt við vegna þess að ákveðnir einstaklingar hafa verið ákærðir eða hlotið dóma. Látið er í veðri vaka að allt sé þetta að ósekju.

Í þessari gagnrýni felst yfirlæti og ofmetnaður í krafti mikillar auðsöfnunar og þeirrar afstöðu að hún skapi sérstöðu og vald. Þetta viðhorf stuðlaði að ofvexti íslensku bankanna og síðan hruni þeirra.

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi um Baugsmálið lýsi ég hvernig mál gengu fyrir sig næstum dag frá degi eftir að lögregla hóf rannsókn hjá Baugi þegar henni barst kæra frá Jóni Sullenberger, kæra, sem talsmenn Jóns Ásgeirs og co. sneru síðan í pólitískar ofsóknir í von um að bæta stöðu sína fyrir dómstólunum.

Eftir hrun hafa verjendur vegna efnahagsbrota ekki gripið til þess að tala um pólitískar ofsóknir á hendur skjólstæðingum sínum heldur er ráðist á saksóknara, dómara og nú fangelsismálastjóra. Hann segir að almannatenglum sé beitt til að stuðla að hagstæðum orðum hans við eða um fanga.

 

 

 

 

Föstudagur 20. 11. 15 - 20.11.2015 19:00

Í dag var hádegisfundur í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem Billy Browder fjárfestir flutti ræðu. Browder var fyrir nokkrum árum stjórnandi stærsta erlendra fjárfestingasjóðs í Rússlandi, Hermitage Management Fund. Árið 2006 var honum bannað að koma til Rússlands. Hann flutti alla fjármuni sína frá landinu en lögfræðingur hans, Sergei Magnitískíj, komst að því að rússneskir lögreglumenn sem brutust inn í skrifstofur sjóðsins eftir að fjármunir í honum höfðu verið fluttir frá Rússlandi fölsuðu skjöl til að krefja rússneska ríkið um að endurgreiða skatta, hátt í 300 milljónir dollara, til sín og samverkamanna sinna.

Eftir að Sergei hafði kært þetta til rússneskra yfirvalda var hann handtekinn og látinn sitja inni í tæpt ár án dóms og laga þar til hann var drepinn í fangelsi 16. nóvember 2009. Frá þeim tíma hefur Browder helgað sig baráttunni fyrir að morðingjum Sergeis verði refsað. Í þeim tilgangi hefur hann meðal annars skrifað bókina Red Notice sem Almenna bókafélagið hefur nú gefið út undir heitinu: Eftirlýstur.

Þetta er ótrúleg en sönn saga sem minnir á frásagnir fyrri tíma um stöðu einstaklingsins andspænis alræðisstjórn í Rússlandi. Stjórn sem fer sínu fram án minnsta tillits til mannréttinda. Stjórnarhættir Vladimírs Pútíns taka á sig æ ógeðfelldari mynd og vald sitt reisir hann í vaxandi mæli á því að skapa ótta á meðal rússnesks almennings sem talin er trú um að öryggi þjóðarinnar sé í hættu fái forsetinn ekki öllu sínu framgengt heima og erlendis – valdbeitingin út á við er til þess fallin að ýta undir óttablandna þjóðerniskennd sem er alls staðar hættuleg blanda en ekki síst í kjarnorkuveldi undir harðstjóra sem stendur höllum fæti.

Ræðan sem Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna, flutti á fundi Varðbergs fimmtudaginn 19. nóvember er komin á netið og má sjá hana hér

Pútín beitti okkur Íslendinga ofríki síðsumars þegar hann bannaði Rússum að kaupa fisk af íslenskum fyrirtækjum. Þá töldu ýmsir að tjónið yrði allt að 38 milljörðum króna aðeins vegna uppsjávarfisks, makríls og síldar. Í Morgunblaðinu í dag segir að það kunni að nema 600 milljónum króna. Hvernig skyldi fyrri talan hafa verið reiknuð?

Fimmtudagur 19. 11. 15 - 19.11.2015 18:30

Í hádeginu í dag flutti Robert Barber, sendiherra Bandaríkjanna, ræðu á fundi Varðbergs í þéttsetnum fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns. Ræðan bar fyrirsögnina Tengsl Bandaríkjanna og Íslands: Brýn öryggismál á Norður-Atlantshafi. Að loknu máli sínu svaraði sendiherrann mörgum spurningum fundarmanna.

Ég lét þess getið þegar ég setti fundinn að líklega væri þetta í fyrsta sinn í tæplega 60 ára sögu Varðbergs (stofnað 1961) og Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) (stofnuð 1958) sem sendiherra Bandaríkjanna flytti ræðu á fundi þeirra – félögin voru sameinuð í Varðberg hinn 9. desember árið 2010.

Því má velta fyrir sér hvers vegna sendiherra Bandaríkjanna hafi ekki fyrr talað á fundi sem þessum. Á tíma kalda stríðsins voru samskiptin við Bandaríkin mikið hitamál. SVS og Varðberg stóðu vörð um varnarsamninginn við Bandaríkin og aðildina að NATO. Hefur sendiherra og forráðamönnum félaganna ekki þótt eðlilegt að bandaríska sendiráðið eða sendiherrann yrði þátttakandi í hinum flokkspólitísku deilum. Félögin efndu hins vegar oft til funda þar sem bandarískir yfirmenn Keflavíkurstöðvarinnar voru ræðumenn,

Viðhorfið til utanríkis- og öryggismála er ekki hið sama nú og fram til 1991. Tillagan að þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti að nýju á alþingi í gær er til marks um þetta. Hún er reist á niðurstöðu sameiginlegrar nefndar allra flokka og þar er áréttað að aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin séu grunnstoðir stefnunnar.

Á fundinum í dag var sendiherrann spurður hvort Bandaríkjastjórn hefði áform um að óska eftir aðstöðu fyrir herlið hér á landi í ljósi breyttra aðstæðna og aukinna hernaðarumsvifa Rússa umhverfis landið og á Norður-Atlantshafi. Sendiherrann sagði engar viðræður, hvorki formlegar né óformlegar, hafa farið fram um slíkt, hins vegar hefðu ýmsir háttsettir menn á vegum NATO og bandaríska varnarmálaráðuneytisins lagt leið sína hingað til lands undanfarið og af fréttum um þær ferðir mætti draga ályktanir um hvernig samskipti ríkjanna þróuðust á þessu sviði.

Undir lok máls sín hvatti sendiherrann Íslendinga til að ræða í hreinskilni og ítarlega um eigin öryggismál og hvað gera þyrfti til að bæta úr ágöllum ef þeir væru fyrir hendi.

Framlag sendiherrans sjálfs var gott innlegg í umræðurnar sem nauðsynlegt að fari fram hér á landi um breyttar aðstæður í öryggismálum og áhrif þeirra á það sem nauðsynlegt er að gera vegna þeirra.

Miðvikudagur 18. 11. 15 - 18.11.2015 17:30

Í dag ræddi ég á ÍNN við Bergsvein Birgisson rithöfund. Hann sendir nú frá sér nýja bók Geirmundar sögu heljarskinns - Íslenskt fornrit. Hún er listilega rituð á fornmáli og búið er um söguna eins og Íslendingasögu í útgáfu Fornritafélagsins með fræðilegum formála til skýringar á handriti sögunnar, tilurð þess og varðveislu. Í raun er ævintýralegt að svona saga hafi verið rituð á okkar tímum. Hún ber þess merki að höfundurinn hafi einstaklega góð tök á viðfangsefninu og þeirri tækni sem hann beitir við sagnagerðina. Þátturinn verður frumsýndur á rás 20 klukkan 20.00 í kvöld.

Gary Kasaparov, skákmeistari og andstæðingur Vladimírs Pútíns, ritar grein í The Wall Street Journal í dag og gagnrýnir að stofnað sé til samvinnu við Pútin við loftárásir í Sýrlandi. Hann segir:

„Kremlverjar vilja einnig að flóttamenn haldi áfram að streyma frá Sýrlandi til Evrópu. Krísan vegna farandfólksins gagnast Pútín á tvo vegu. Það beinir athygli Evrópumanna frá hernaði hans gegn Úkraínu sem haldið er áfram. Þá mun flóttamannastraumurinn ýta undir fylgi evrópskra stjórnmálaflokka lengst til hægri, flokka sem fagna opinberlega auknum þrýstingi Pútíns á Evrópusambandið með kröfu um að afnema þvinganir gagnvart Rússum. Hafi einum hryðjuverkamannanna í París tekist að lauma sér til Evrópu með sýrlenskum flóttamönnum bæri aðeins að fagna því.“

Talsmenn þess að starfað sé með Rússum og skjólstæðingi þeirra Bashar al-Assad Sýrlandsforseta minna á að til að sigrast á Hitler hafi lýðræðisríkin orðið að starfa með Jósef Stalín

 

Þriðjudagur 17. 11. 15 - 17.11.2015 20:30

Eftir árásina á Charlie Hebdo í janúar boðaði François Hollande Frakklandsforseti til samstöðugöngu um breiðstræti Parísar til að árétta einingu þjóðarinnar og alþjóðlegan stuðning við hana. Mikill mannfjöldi tók þátt í göngunni þar á meðal fjöldi þjóðarleiðtoga. Eftir árásirnar í París 13. nóvember nálgast Hollande þjóð sína og umheiminn á annan hátt.

Forsetinn og Manuel Valls forsætisráðherra fóru til Sorbonne-háskóla og stóðu þar á hádegi mánudaginn 16. nóvember þegar hinna látnu var minnst með mínútu þögn. Að henni lokinni hóf einhver að syngja þjóðsönginn Marseillaise og sífellt fleiri tóku undir með honum þar til hann hljómaði kröftuglega í háskólagarðinum.

Við svo búið ók forsetinn til Versala-hallar þar sem hann ávarpaði sameinað þing Frakka. Að ræðunni lokinni hóf einhver þingmanna að syngja Marseillaise og síðan hver af öðrum af miklum krafti. Í ræðunni lýsti forsetinn yfir stríði og að Frakkar mundu sigra í stríðinu við þá sem nú hefðu ögrað þeim og sært þá á þennan svívirðilega hátt.

Í frönskum blöðum segir að árásin hafi verið skipulögð í Sýrlandi, undirbúin í Belgíu og framkvæmd í Frakklandi. Að þessu sinni var ekki ráðist á skilgreindan hóp heldur gripið til öflugra skotvopna á fjölmennum stöðum til að fella sem flesta á sem skemmstum tíma. Ekki tókst að smygla sprengjumanni í sjálfsmorðstilgangi inn á íþróttaleikvang þar sem tugþúsundir manna, þeirra á meðal Frakklandsforseti, horfðu á knattspyrnuleik.

Næsta undarlegt er að hlusta á vangaveltur um að árásina 13. nóvember megi rekja til félagslegra aðstæðna manna. Mætti ætla að þeir sem þannig tala vilji að Frakkar eða Belgar ákveði að opna fleiri félagsmiðstöðvar eftir blóðbaðið í stað þess að senda lögreglu til að leita að vopnum eða sýna óvininum í tvo heimana.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams eira engum sem aðhyllast ekki öfgafulla trú þeirra. Allir eru réttdræpir. Að kenna þetta illa hugarfar við félagslegt vandamál er barnaskapur. Vissulega falla ekki allir fyrir öfgafulla boðskapnum en að ætla mönnum að sætta sig við hann í nafni fjölmenningar er fráleitt.

Frakklandsforseti greip til eina úrræðisins sem hæfði árásinni – að lýsa óvininum stríð á hendur. Hann virkjaði jafnframt í fyrsta sinn ákvæði Lissabon-sáttmála ESB um að ríkin leggi hvert öðru lið sé á eitt þeirra ráðist.

Mánudagur 16. 11. 15 - 16.11.2015 19:15

Á Birmingham-flugvelli var í morgun klukkan 11.00 var vel að því staðið að minnast fórnarlamba hryðjuverkmannanna í París með mínútu þögn. Gestir í flugstöðuinni voru með 15 mínútna fyrirvara minntir á að minningarmínútan yrði klukkan 11.00 og rétt fyrir þann tíma var enn flutt áminning og síðan gefið hljóðmerki þegar þagnarstundin hófst og í lok hennar. Allt féll í dúnalogn og margir stóðu úr sætum sínum til að árétta virðingu sína fyrir hinum látnu.

„Hryðjuverk munu ekki eyðileggja Frakkland, Frakkar munu eyðileggja hryðjuverkamennina,“ sagði François Hollande Frakklandsforseti á fundi sameinaðs þings, beggja deilda franska þingsins, í Versala-höll í dag.

Sameinað þing Frakka hefur vald til að breyta stjórnarskránni. Charles de Gaulle höfundur stjórnarskrár V. lýðveldisins frá 1958 vildi árétta skiptingu framkvæmdavalds og löggjafarvalds með því að forseti lýðveldisins gæti ekki tekið þátt í fundi hins sameinaða þings. Það var ekki fyrr en árið 2008 sem þessu var breytt að tillögu Nicolas Sarkozys, þáverandi Frakklandsforseta, sem ávarpaði sameinaða þingið 22. júní. Varð hann fyrsti þjóðhöfðinginn til að gera það frá 1851 þegar Louis-Napoléon Bonaparte stóð í þeim sporum.

Hollande stendur höllum fæti sem forseti og sömu sögu er að segja um Sósíalistaflokkinn. Nicolas Sarkozy fer fyrir stjórnarandstöðunni sem leiðtogi Lýðveldissinna en þar keppa þrír menn um að ferða forsetaefni flokksins árið 2017. Þjóðfylking Marine Le Pen leggur áherslu á skorður við fjölgun innflytjenda og andstöðu við meginstefnumál Evrópusambandsins. Kosið verður til héraðsstjórna í Frakklandi í desember. Í sama mánuði verður loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í París með þátttöku 25.000 manna og alls um 50.000 gesta.

Menn geta rætt fræðilega um stöðu mála í Frakklandi. Hið sögulegasta sem gerst hefur af hálfu franskra stjórnmálamanna er stríðsyfirlýsing Hollandes forseta. Það eru þáttaskil. Lög Frakklands heimila nú forseta og ríkisstjórn að setja neyðarástand í 12 daga, Hollande vill að lögunum verði breytt og heimildin nái til þriggja mánaða neyðarástands.

Sunnudagur 15. 11. 15 - 15.11.2015 19:30

Kosturinn við nútíma fjölmiðlun er að unnt að nálgast upplýsingar og umræður í ólíkum löndum milliliðalaust ráði maður yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til þess. Á netinu auðveldar Google manni slíka upplýsingaöflun með boði um að þýða texta á vefsíðum á tungumál sem maður skilur ekki.

Þar sem ég er staddur núna í Birmingham hef ég aðgang að fleiri sjónvarpsstöðvum en sem áskrifandi Símans í Reykjavík. Þar má nefna bresku heima sjónvarpsstöðvarnar, BBC, ITV og Channel 4 þar sem alls staðar eru frábærir fréttatímar og skýringar. Þá má einnig sjá France 24 á ensku auk frönsku. Þannig má áfram telja.

Í þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF var í kvöld sérstakur fréttatími þar sem rýnt var í ágreining innan þýsku ríkisstjórnarinnar vegna farand- og flóttafólksins. Ágreiningurinn hefur magnast vegna hryðjuverkaárásarinnar í París. Angela Merkel kanslari á undir högg að sækja innan eigin flokks og jafnframt er hætta á að gjáin breikki milli kristilegra og jafnaðarmanna. Er þetta erfiðasta málið sem Merkel hefur glímt við frá því að hún varð kanslari árið 2005.

Merkel opnaði þýsk landamæri fyrir flóttamönnum frá Sýrlandi. Nú er rætt um að einn hryðjuverkamannanna hafi komist til Evrópu sem flóttamaður. Þessar vangaveltur hafa orðið vatn á myllu andstæðinga stefnu Merkel.

Minnt er á að Merkel geti kúvent fyrirvaralaust eins og hún gerði eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan hinn 11. mars 2011 þegar kanslarinn ákvað að öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi skyldi lokað. Hvort hún geri það núna vegna flóttamannanna kemur í ljós.

Hvað sem öðru líður er augljóst að árásin í París sem Frakkar segja að sé stríðsaðgerð og svara beri sem slíkri hefur víðtæk áhrif. Árás á eitt NATO-ríki er árás á þau öll segir í 5. grein NATO-sáttmálans. Verður þessi grein virkjuð vegna stríðsins sem Frakkar heyja núna?

Í Birmingham var hinna látnu í París og í nýlegum hryðjuverkum í Beirút og Bagdad minnst í messu sem ég sótti í St. Martinskirkjunni.

Laugardagur 14. 11. 15 - 14.11.2015 19:00

Frakkar hafa orðið fyrir enn einni árás hryðjuverkamanna og féllu 129 manns en 352 særðust að sögn lögreglunnar í París um klukkan 18.00 laugardaginn 14. nóvember. Árásin var gerð af þremur samhæfðum hópum að kvöldi föstudags 13. nóvember á nokkrum stöðum í París og í nágrannaborgarhverfinu Saint-Denis. François Hollande Frakklandsforseti lýsti þessu sem stríðsaðgerð gegn Frökkum. Nokkru eftir ávarp forsetans laugardaginn 14. nóvember lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams sig ábyrg fyrir árásinni, hún hefði verið þaulskipulögð. Hollande sagði Frakka mundu beita öllu afli til að útrýma þessum barbörum.

George W. Bush Bandaríkjaforseti var gagnrýndur árið 2001 fyrir að lýsa yfir stríði gegn hryðjuverkamönnum. Hann breytti síðar um tón og talaði um baráttu gegn þeim – þótti stríðstalið of dramatískt fyrir hina pólitísku rétthugsun. Það er sérkennileg árátta hjá ýmsum álitsgjöfum að hafa ekki þrek til að kalla hlutina réttum nöfnum. Meira að segja Frans páfa þykir ástandið í heiminum þannig að hann talar um að þriðja heimsstyrjöldin sé nú háð „í bútum“.

Hvaða orð sem menn nota til að lýsa ástandinu í Mið-Austurlöndum og Evrópu er ljóst að vegið er að evrópsku öryggi og gildum mannúðar á þann veg að engin lýðfrjáls þjóð getur látið eins og ekki sé ástæða til öflugra gagnráðstafana.

Frakkar hertu alla öryggisgæslu í landi sínu eftir árásina á Charlie Hebdo í janúar á þessu ári og settu lög um meiri heimildir leyniþjónustu og lögreglu til að takast á við hryðjuverkamenn. Hvað Hollande og menn hans ætla að gera nú mun skýrast næstu sólarhringa en sameinað þing Frakklands kemur saman í Versölum mánudaginn 16. nóvember.

Hér hjá okkur verða úrtöluraddir háværar þegar vakið er máls á nauðsyn þess að gæta öryggis ríkisins.  Það eitt að hlusta á þær er varhugavert. Ég lauk grein sem birtist í Morgunblaðinu að morgni föstudags 13. nóvember á þessum orðum:

„Brýnasta verkefni líðandi stundar í öryggismálum þjóðarinnar er að efla lög- toll- og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli. Samhliða áætlunum um öra fjölgun farþega ber að gera heildstæða áætlun um öryggismálin og framkvæma hana – án öryggisins er allt annað unnið fyrir gýg.“

Um 98% allra sem koma til landsins fara um sömu bygginguna, Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Séu ekki öll tækifæri til eftirlits nýtt í henni er dýrmætu öryggistæki kastað á glæ.

Föstudagur 13. 11. 15 - 13.11.2015 18:00

Þátturinn á ÍNN frá 11. nóvember þar sem ég ræði við Ólaf Rastrick lektor og Valdimar Tr. Hafstein dósent við HÍ um bókina Menningararfur á Íslandi er kominn á netið og má sjá hann hér.

Meirihluti Breta segist vilja yfirgefa ESB ef marka má nýja skoðanakönnun. Kröfurnar sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur birt á hendur ESB benda ekki til þess að hann vilji að skerist í odda í viðræðum um ný aðildarskilyrði Breta. Hann ætlar greinilega að skapa eitthvert grátt svæði og vega þar salt – ólíklegt er að hann mæli nokkru sinni gegn aðild Breta að ESB. Cameron sagðist ætla að hverfa úr leiðtogasæti Íhaldsflokksins fyrir næstu þingkosningar – hann segir örugglega af sér eftir að hafa tapað þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Breta að ESB. Hann situr ekki sam fastast eins og Jóhanna og Steingrímur J. sem töpuðu tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og sátu samt áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Nú hefur þýska ríkisstjórnin falið sendiherra sínum í Washington að mótmæla við bandarísk stjórnvöld vegna þess að þýskir þingmenn fá ekki aðgang að skjölum sem varða fríverslunarviðræðurnar milli bandarískra stjórnvalda og ESB.

Leyndarhyggjan sem einkennir þessar viðræður eykur líkur á að þær leiði aldrei til neins. Bandaríkjamenn leyfðu aðeins 139 þýskum embættismönnum að líta á hina samræmdu texta í viðræðunum þar sem lýst er sjónarmiðum beggja aðila. Textarnir voru til sýnis í sendiráði Bandaríkjanna í Berlín, aðeins milli 10.00 og 12.00 tvo daga í viku. Allir bandarískir þingmenn hafa aðgang að textunum en aðeins fáeinir ESB-þingmenn í lessal í Brussel.

Það vakti undrun og reiði margra í Bretlandi þegar haft var eftir Barack Obama að utan ESB mundu Bretar ekki njóta þessa fríverslunarsamnings. Aðferðin við samningsgerðina og talið um samninginn er í hróplegri andstöðu við allt sem krafist er á tímum opinnar og lýðræðislegrar stjórnsýslu.

 

 

Fimmtudagur 12. 11. 15 - 12.11.2015 18:00

Flaug utan í morgun til ekki-Schengen-landsins Bretlands. Á flugvellinum myndaðist nokkur röð þegar farþegar úr vél Icelandair voru látnir skrá sig inn í landið með því að fara í gegnum mannlaus landamærahlið þar sem vélmenni afritaði opnu í vegabréfinu og viðkomandi var skipað að standa á gullituðum fótsporum og horfast í augu við vélmennið sem smellti af andlitsmynd og hleypti í gegn ef allt var gert eftir kúnstarinnar reglum. Þeir sem vélmennið hafnaði fóru í gegnum hlið hjá landamæraverði. Hvort einhver var endalega stöðvaður veit ég ekki.

Vegna aðildar að ESB geta Bretar borið upplýsingarnar sem þeir afla saman við gagnagrunna Schengen-samstarfsins. Schengen-ríki herða hvert af öðru eftirlit við landamæri sín. Svíar tóku upp tímabundið eftirlit um hádegið í dag. Á stjornarrad.is hefur ekki birst nein viðvörun til Íslendinga á leið til Svíþjóðar um nauðsyn þess að sýna skilríki við komuna til Svíþjóðar. Er eftirlitið ekki framkvæmt á flugvöllum? Fari menn um Eyrarsundsbrúna eða með ferjum frá Danmörku og Þýskalandi eru þeir krafðir um skilríki af Svíum. Ökuskírteini dugar ekki, að minnsta kosti ekki á ferjum Stena Line.

Meginrök Halldórs Ásgrímssonar og Þorsteins Pálssonar fyrir Schengen-aðild Íslands á sínum tíma voru að annars yrðu Íslendingar að sýna vegabréf á ferðum milli Norðurlanda.

Vel heppnaður landsfundur sjálfstæðismanna var haldinn fyrir þremur vikum, skömmu áður var skýrt frá ákvörðunum um leið Íslendinga úr fjármagnshöftum. Síðan hafa verið gerðir stöðugleikasamningar á vinnumarkaði. Í dag var birt skoðanakönnun í Fréttablaðinu sem sýnir verulega fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins sem mælist nú með tæp 30%.

Það er sérkennilegt að lesa skýringar álitsgjafa sem spyrja hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi rétt úr kútnum vegna þess sem hefur gerst undanfarið á stjórnmálavettvangi. Sé skýringanna á auknu fylgi ekki að leita þar fara spekingarnir einfaldlega langt yfir skammt.

Skýringuna á efasemdum um að leita beri skýringa á sveiflum í stjórnmálum á stjórnmálavettvangi má rekja til þess að óskiljanlegt er með vísan til stjórnmálastarfs eða stefnu hve mikið fylgi Píratar fá. Þeir mælast enn einu sinni stærsti flokkurinn. Stuðning við þá má ef til vill ekki rekja til stjórnmála?

Enginn flokkur beinir spjótum sínum sérstaklega gegn Pírötum. Könnun Fréttablaðsins sýnir að Samfylking og Björt framtíð ættu sérstaklega að láta sig Pírata varða – flokkarnir eru að verða að engu á sama tíma og ofvöxtur einkennir Pírata.

 

 

 

 

Miðvikudagur 11. 11. 15 - 11.11.2015 16:45

Í dag ræddi ég á ÍNN við Valdimar Tr. Hafstein dósent og Ólaf Rastrick lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands um bók sem þeir ritstýrðu, Menningararfur á Íslandi, sem kom nýlega út á vegum Háskólaútgáfunnar. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld og síðan má sjá hann á tveggja stunda fresti til kl. 18.00 á morgun auk þess verður hann á tímaflakki Símans (rás 20).

Það er merkilegt að velta fyrir sér hvað olli því að fyrir aldarfjórðungi komst menningararfurinn í tísku, ef svo má orða það, sem vinsælt viðfangsefni í þjóð- og stjórnmálum. Við myndun núverandi ríkisstjórnar ákvað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að færa menningararfinn til innan stjórnarráðsins, það er úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið, og sérstakur kafli er um mikilvægi hans í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Fúslega viðurkenni ég að hafa haft áhuga á þessum arfi þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1995 til 2002 og hér á síðunni má sjá margar ræður sem ég flutti á þessum árum og snerta þennan arf.

Þegar ég kom í ráðuneytið hafði Ísland ekki gerst aðili að samningi UNESCO um heimsminjar mér til nokkurrar undrunar. Nú er Ísland aðili og á sínar viðurkenndu heimsminjar: Þingvelli, Surtsey og handritin. Eins og fram kemur í samtali okkar í þættinum í kvöld skiptir skráning á UNESCO-lista um menningararfinn verulegu máli um afstöðu til hans.

Þriðjudagur 10. 11. 15 - 10.11.2015 16:00

Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Þýskalands, andaðist í Hamborg þriðjudaginn 10. nóvember 96 ára að aldri. Á sínum tíma hitti ég hann nokkrum sinnum og hlustaði á hann flytja ræður á fundum. Hann er með eftirminnilegustu mönnum. Hann var kanslari jafnaðarmanna (SPD) í átta söguleg ár frá 1974 til 1982 og tókst meðal annars á við andstæðinga innan eigin flokks vegna eindregins stuðnings hans við bandarískar, meðaldrægar kjarnorkueldflaugar í Evrópu.

Áður en ágreiningurinn varð sem mestur um þær hafði Schmidt tekið slaginn í Þýskalandi vegna nifteindarsprengjunnar sem sagt var að eyddi lífi en ekki tækjum og mannvirkjum. Var mikill hræðsluáróður stundaður vegna hennar enda var hún litinn illu auga frá Kreml. Schmidt vænti þess að Jimmy Carter Bandaríkjaforseti mundi fylgja ákvörðuninni um að flytja nifteindarsprengjur eftir. Hið gagnstæða gerðist, Carter féll frá ákvörðuninni. Hlustaði ég á Schmidt flytja magnaða og stóryrta ræðu af þessu tilefni þar sem hann vandaði Carter ekki kveðjurnar og velti fyrir sér hvernig treysta mætti ríki sem lyti forystu manns sem virtist láta guðlega vitrun ráða því hvernig hann kæmi fram við bandamenn sína og skildi þá eftir eins og þorska á þurru landi.

Þegar hann hóf stjórnmálaþátttöku sína og varð formaður þingflokks jafnaðarmanna á sjöunda   áratugnum ávann hann sér viðurnefnið „Schmidt-Schnauze“ eða Schmidt kjaftfori, áður sat hann í borgarstjórn Hamborgar og var þá kallaður „Macher“ eða verkmaðurinn. Honum þótti lítið koma til þeirra sem veltu vöngum um hugmyndafræði og framtíðarsýn. Eftir Schmidt er haft: „Sá sem sér sýnir ætti að fara til læknis.“

Að loknum hinum pólitíska ferli varð hann ritstjóri vikublaðsins Die Zeit í Hamborg. Á meðan hann hafði heilsu og krafta sótti hann ritstjórnarfundi blaðsins. Sagt er að þá hafi allir á ritstjórninni reynt að troða sér inn í fundarherbergið til að hlusta á skarpa greiningu hans á viðburðum líðandi stundar. Skrifaði hann forsíðugrein í blaðið brást ekki að salan jókst.

Hann var stórreykingamaður frá árinu 1932 þegar hann deildi í fyrsta sinn sígarettu með skólasystur sinni, Hannelore Glaser sem jafnan var kölluð Loki. Þau áttu samleið sem hjón frá 1942 í 68 ár eða þar til hún andaðist árið 2010. Schmidt reykti mentol-sígarettur og þegar rætt var að ESB kynni að banna þær er sagt að hann hafi keypt 38.000 stykki af þeim.

Mánudagur 09. 11. 15 - 9.11.2015 19:00

Fyrir 14 árum bjó Jim O‘Neill, aðalhagfræðingur Goldman Sachs, til skammstöfunina BRIC, hún hefur síðan verið notuð þegar fjallað er um nýmarkaðslöndin Brasilíu, Indland, Rússland og Kína. Goldman Sachs mælti með að fjárfest væri í þessum löndum og fóru margir að því ráði með miklum hagnaði.

Nú hefur Goldman Sachs hins vegar afmáð BRIC-fjárfestingarsjóðinn og fellt hann inn í aðra sjóði sína. Þar með hefur hugmyndin um þessa sérstöku fjárfestingarleið verið jörðuð segir í Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag. Þess er ekki vænst að í nánustu framtíð þyki spennandi kostur að festa fé í þessum löndum. Veltufé BRIC-sjóðsins hjá Goldman Sachs hefur minnkað um 88% frá 2010 og hlutabréf hafa lækkað um 30%.

Fjárfestar segjast hafa áttað sig á að óvissa sé of mikil í nýmarkaðslöndununm, þau muni varla ná sér á strik á næstunni og því sé öruggast að festa fé á gamalgrónum mörkuðum í iðríkjunum.

Segja má að það fari minna fyrir fréttum af efnahagslegri hnignun nýmarkaðsríkjanna en spunanum um ágæti þeirra og uppgang fyrir fáeinum árum.

Vefsíðan Kjarninn hefur breytt um svip og líkist hún nú Eyjunni þar sem safnað er efni af öðrum vefmiðlum og lesendum bent á að nálgast það á krækjum. Að þessi leið skuli valin til að halda Kjarnanum á lífi bendir til að ekki hafi fundist grundvöllur til að halda úti sjálfstæðum miðli sem stæði undir nafni með sjálfstæðri efnisöflun.

Sunnudagur 08. 11. 15 - 8.11.2015 16:00

Stefán Ólafsson prófessor hefur þokast frá Samfylkingunni til Framsóknarflokksins í skrifum sínum á netinu undanfarin misseri. Hann er í hópi ráðgjafa og samstarfsmanna Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra. Telur prófessorinn Framsóknarflokkinn hafa breyst í kröftugan talsmann „velferðarstefnu og bættrar afkomu heimilanna“. Hann starfi hins vegar með Sjálfstæðisflokknum vegna þess að Samfylkingin „fjandskapaðist sérstaklega í garð Framsóknar og boðaði fyrst og fremst aðild að ESB, sem allsherjarlausn á öllum vanda Íslendinga“. Telur Stefán það hafa verið „stór mistök“ enda hafi Samfylkingin goldið afhroð í kosningunum vorið 2013.

Fyrir þær kosningar var Stefán eindreginn talsmaður ESB-aðildar. Nú leggur hann sig fram um að sá fræjum tortryggni milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna meðal annars með því að hefja Sigmund Davíð Gunnlaugsson til skýjanna á kostnað sjálfstæðismanna.

Allt eru þetta barnalegar og gagnsæjar pólitískar æfingar til að koma sér í mjúkinn hjá þeim sem hafa útdeilingu bitlinga á valdi sínu. Heift Stefáns í stjórnmálum birtist þegar hann fjallar um Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor. Þá glittir í kröfu um ritskoðun eða jafnvel bannfæringu.

Hannes Hólmsteinn flutti nýlega fjölsóttan fyrirlestur þar sem hann greindi og gagnrýndi siðferðilega vörn Ayn Rand fyrir kapítalismanum. Stefán getur ekki unnt Hannesi sannmælis vegna þess framtaks (glærur Hannesar má sjá á netinu hér) heldur ræðst á  þau Ayn Rand í löngum pistli, þar sem Stefán telur Hannes Hólmstein stunda trúboð og segir:

„Sú staðreynd að það er að hluta sama fólki sem stendur að þessu nýja trúboði [um Ayn Rand] og stóð að byltingu nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma, vekur spurningar um hvort hin sérkennilega róttækni Ayns Rand verði jafn áhrifarík í flokknum í framhaldinu og nýfrjálshyggjan varð á valdatíma Davíðs Oddssonar.“

Bækur Ayn Rand (þrjár hafa komið út á íslensku) hafa selst í nærri 30 milljónum eintaka, gerð hefur verið kvikmynd um hana og starfandi eru hugmyndafræðihópar undir nafni hennar. Enginn vafi er á að hún hefur haft bein og óbein áhrif á milljónir manna þótt stjórnmálaflokkar geri ekki kenningar hennar að stefnu sinni. Óþolið gegn frjálsri hugsun í orðum Stefáns Ólafssonar skaðar ekki þá sem hann gagnrýnir. Það er hins vegar þeim síst til framdráttar sem hann styður eins og sannaðist í „hamförum“ Samfylkingarinnar vorið 2013.

 

Laugardagur 07. 11. 15 - 7.11.2015 16:00

Samtal mitt við Elínu Maríu Björnsdóttur leiðtogaþjálfara hjá FranklinCovey á ÍNN hinn 4. nóvember er komið á netið og má sjá það hér.  Boðskapurinn sem Elín María flytur á erindi inn í skólana. Það má ekki loka þeim fyrir aðferðum sem reynst hafa vel til að styrkja einstaklinga á öllum aldri á öllum sviðum þjóðlífsins.

Mikið fjölmenni var í gær í Listasafni Íslands þegar sýning á höggmyndum Nínu Sæmundsson, Listin á hvörfum, var opnuð. Nína Sæmundsson (1892–1965) var fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Hún er fædd í Nikulásarhúsum Fljótshlíð, skammt innan við Hlíðarenda en þar er nú minningarlundur um hana. Í kynningu á sýningunni segir meðal annars:

„Á þriðja áratug síðustu aldar bjó hún í helstu listamiðstöðvum hins vestræna heims, í Róm, París og New York en saga hennar er öðrum þræði saga mikilla sigra, en um leið harmrænna örlaga sem höfðu mikil áhrif á líf hennar. Nína bjó frá upphafi yfir miklum viljastyrk og brennandi áhuga á listum og þróaði sinn klassíska stíl, sem hún var trú lengi framan af ferlinum, en þar sameinar hún hið stórbrotna og hið innilega. Hin uppreista manneskja varð eitt af helstu þemum hennar, ásamt andlitsmyndum, sem hún gerði að sérgrein sinni.“

Hrafnhildur Schram listfræðingur hefur skrifað bókina Nína S. og kom hún út í gær hjá Crymogeu. Forsíðu bókarinnar prýðir listaverkið Afrekshugur sem er yfir anddyri Waldorf Astoria hótelsins á Park Avenue í New York. Hinn 10. október 2000 var efnt til athafnar í hótelinu „til að minnast þess, að 1931 vann Nína Sæmundsson myndhöggvari samkeppni um styttu yfir anddyri þessa fræga hótels. Þarna var Ríkey Ríkharðsdóttir frænka Nínu, sem hefur beitt sér fyrir því, að minning hennar væri í heiðri höfð. Ég sagði nokkur orð og einnig Eric Lang hótelstjóri auk þess sem Egill Ólafsson og félagar fluttu tvö lög,“ segir í dagbók minni hér á síðunni.

Föstudagur 06. 11. 15 - 6.11.2015 16:20

Björk Guðmundsdóttir, söngkona, og Andri Snær Magnason, rithöfundur, boðuðu til blaðamannafundar í Gamla bíói í hádeginu í dag. :Þau sögðust ætla að nota Iceland Airwaves. tónlistardaga í Reykjavík, til að ræða við erlenda blaðamenn um hugsanlegan sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Björk bað heimsbyggðina um stuðning gegn stefnu stóriðjustefnu ríkisstjórnar Íslands.

Margir gesta á Iceland Airwaves hafa áreiðanlega lagt leið sína hingað til að hlusta á Björk syngja eins og auglýst hafði verið. Tónleikum hennar var hins vegar aflýst hér eins og víða um heim undanfarið. Vafasamt er að aðdáendur söngkonunnar telji það sárabót að hún efni til blaðamannafundar gegn sæstreng sem enginn veit hvort verður lagður.

Úr því að Björk og Andri Snær efndu til blaðamannafundar til varnar Íslandi á tónlistarhátíð hefði verið forvitnilegt að heyra viðhorf þeirra til nýlegs myndbands söngvarans ofurvinsæla Justins Biebers sem tekið var við ýmsar viðkæmar íslenskar náttúruperlur. Megi marka vefsíðu Biebers höfðu alls 15,3 milljónir manna skoðað myndbandið síðdegis föstudaginn 6. nóvember en það var frumsýnt mánudaginn 2. nóvember.

Á visir.is segir hinn 3. nóvember í tilefni af myndbandi Biebers:

„Umræður sköpuðust um myndbandið inni á Facebook-síðu Baklands ferðaþjónustunnar. Davíð Samúelsson, leiðsögumaður og ferðaráðgjafi, velti því upp hvort við vildum auglýsa landið með þessum hætti þar sem ekki er hættulaust að fara á nærbuxunum einum klæða út í lónið [Jökulsárlón eins og Bieber gerir].


„Ég er nú aðallega svona að kveikja umræðu um þetta því við þurfum einfaldlega að umgangast íslenska náttúru af varúð. Auðvitað er frábært að fá svona rosalega mikla landkynningu í gegnum myndband Bieber en ég set spurningamerki við það að fara ofan í Jökulsárslón. Í því samhengi megum við ekki gleyma því að Justin Bieber er stórstjarna og ákveðinn „trendsetter“ og þarna er hann að gera eitthvað sem er ekki til eftirbreytni,“ segir Davíð og bendir á að ferðamönnum hafi oftar en einu sinni verið bjargað af jöklum [svo!] á lóninu eftir að hafa komist í sjálfheldu.“ 

Nýting mannsins á náttúrunni birtist í ýmsum myndum og unnt að ganga nærri henni þótt það sé ekki í þágu sæstrengs eða stóriðju.

 

Fimmtudagur 05. 11. 15 - 5.11.2015 18:00

Hér var í gær sagt frá því að forseti Víetnams hefði lýst sérstakri gleði yfir að taka á móti Ólafi Ragnar Grímssyni vegna mótmæla hans gegn Víetnamstríðinu. Nokkru síðar flutti Ólafur Ragnar ræðu í kvöldverðarboði Víetnamforseta. Þar sagði forseti Íslands:

„It is[…] a moving personal journey, bringing back the memories of the solidarity with the people of Vietnam which I, as a young student, and others of my generation in Europe and the Western world demonstrated to support your struggle against foreign oppression, your fight for freedom and full independence of your country. The Vietnam War, as we call it in the West, formed our political vision, moulded new forms of political campaigns, gave our culture a global vision which later became our guiding light in dealing with international challenges. The demonstrations and the protests were the testing grounds of our determination. For me, Mr. President, to be received here today so warmly and to honour, on behalf of my nation, the success and the progress of Vietnam is an illustration of how the ideas and the commitment of the young can bring us in advanced years to witness historic achievements.“

Sagt var frá því hér í gær að í bók Elíasar Snælands Jónssonar um Möðruvallahreyfinguna og baráttusögu Ólafs Ragnars frá miðjum sjöunda áratugnum fram á hinn áttunda væri ekki minnst á Víetnamstríðið eða baráttu gegn því.

Nú segir Ólafur Ragnar hins vegar í Hanoi að barátta sín gegn Víetnamstríðinu hafi mótað „political vision“ – stjórnmálaviðhorf sitt og mótmælin hafi verið „testing ground of our determination“ – prófsteinn staðfestunnar, hvorki meira né minna.

Guðjón Friðriksson sem ritaði bók um samskipti Ólafs Ragnars við útrásarvíkingana sagði hann geta farið fram úr sjálfum sér í ræðum og yfirlýsingum. Spurning er hvort hann hafi gert það í þessum ræðubúti í Hanoi. Eins og sagði hér í gær sjást ekki dæmi um baráttu Ólafs Ragnars gegn Víetnamstríðinu í þeim gögnum sem fyrst koma í hugann þegar leitað er heimilda um þenna kafla í stjórnmálasögu forseta Íslands.

 

Miðvikudagur 04. 11. 15 - 4.11.2015 18:30

Gestur minn á ÍNN í kvöld er Elín María Björnsdóttir leiðtogaþjálfari (Senior Global Consulant/Keynote Speaker hjá FranklinCovey). Frumsýnt kl. 20.00  í kvöld, sjá einnig.

Ólafur Ragnar Grímsson og fylgdarlið er nú í opinberri heimsókn í Víetnam og hitti hann í dag 4. nóvember Truong Tan Sang (f.1949), forseta Víetnams. Sang hefur verið forseti frá 2011 og er meðal æðstu manna Kommúnistaflokks Víetnams. Hann var handtekinn árið 1971 í Suður-Vítenam og haldið föngum til 1973 þegar samið var í París um lyktir stríðsins. Hann er lögfræðingur að mennt. Á vefsíðunni forseti.is segir:

Á fundinum [með Ólafi Ragnari] minntist forseti Víetnams á þátttöku forseta Íslands á yngri árum í baráttu vestrænna ungmenna gegn Víetnamstríðinu og forseti Íslands áréttaði að sú barátta gæfi heimsókn sinni til Víetnams djúpa persónulega merkingu. Sú saga væri áminning til valdhafa nútímans um að mótmælendur á okkar tímum gætu orðið forsetar í framtíðinni.

Þetta eru söguleg orðaskipti. Á árum Víetnamstríðsins háði Ólafur Ragnar stríð innan Framsóknarflokksins sem lauk með því að hann stóð að Möðruvallahreyfingunni á árinu 1973 um sömu mundir og samið var um lyktir Víetnamstríðsins.

Elías Snæland Jónsson, blaðamaður og ritstjóri, skrifaði í upphafi þessarar aldar bókina Möðuvallahreyfingin – baráttusaga. Þar greinir hann í smáatriðum frá ágreiningi meðal framsóknarmanna í aðdraganda þess að Möðruvallahreyfingin var stofnuð. Þeir deildu meðal annars um dvöl bandaríska varnarliðsins hér á landi en að andstaða við Víetnamstríðið hafi sett svip á baráttu ungra framsóknarmanna á þessum árum sést ekki af þessari bók (464 bls.).

Fjölmennasti fundurinn undir merkjum Ólafs Ragnars og hans manna var haldinn í troðfullu Háskólabíói undir lok janúar 1972 til að krefjast þess að hús við Fríkirkjuveg sem brann í desember 1971 og var í eigu Húsbyggingarsjóðs Framsóknarflokksins yrði endurreist svo að reka mætti þar áfram veitingastaðinn Glaumbæ „og ungu fólki búin geðfelld aðstaða til samkomuhalds í borginni“.  Þetta náði ekki fram að ganga og nú er Listasafn Íslands í þessu húsi.

Ólafur Ragnar ætti að skýra frá því til leiðbeiningar fyrir sagnfræðinga í Víetnam og á Íslandi hvar finna megi heimildir um baráttu hans gegn Víetnamstríðinu.

Þriðjudagur 03. 11. 15 - 3.11.2015 16:00

Bertel Haarder, menningarmálaráðherra Dana, er vinsælastur danskra stjórnmálamanna. Hann er úr Venstre-flokknum, mið-hægriflokknum, sem nú fer með stjórnarforystu í Danmörku. Mánudaginn 2. nóvember lýsti hann þeirri skoðun að danska ríkisútvarpið, DR, ætti að búa sig undir að afnotagjöld til þess lækkuðu og fjölmiðlaval Dana yrði fjölbreyttara.

Haarder sagði við Berlingske Nyhedsbureau: „Það verður vaxandi vandamál að sífellt fleirum finnst að þeir greiði mikið til Danmarks Radio þótt þeir nýti sér alls ekki neinar DR-rásir. Sé litið fram á veg getur þetta skapað vanda.“

„Af þessu leiðir að takmarka verður afnotagjaldið. Ekki dramatískt en það verður að fara lækkandi auk þess sem val á rásum eykst.“ sagði ráðherrann, þetta væri þróun en ekki bylting. Hann sagðist ekki vita hver lækkunin yrði eða hvernig valið yrði tryggt. Hann hefði ekki fullmótaða skoðun á málinu en það þyrfti að ræða næstu ár með hliðsjón af því að samkomulag stjórnmálaflokkanna um fjölmiðla rynni út í lok árs 2018.

Hann sagði skapa vanda að á ríkisreknum miðlum störfuðu fleiri blaðamenn en á öllum dagblöðum samanlagt. Þá skapaði það einnig vandamál að fréttastofa Danmarks Radio lyti einum fréttastjóra. Í því fælist ekki fjölbreytni. Þá bæru fréttir of mikið yfirbragð Kaupmannahafnar – sumir dagskrárliðir væru eins og „Nørrebro lokalradio“.

Ráðherrann tók fram að hann vildi ekki stríð, hann sagði sér kært sem fólki væri sameiginlegt og þar með public service þótt finna mætti annað nafn á fyrirbærið. Þess vegna vildi hann ekki leggja Danmarks Radio niður.

Verður spennandi fyrir áhugamenn um íslenska fjölmiðlun að fylgjast með umræðunum um þessi mál í Danmörku. Þar eins og í Bretlandi vilja ráðandi stjórnmálamenn ræða nýbreytni varðandi ríkisrekstur á fjölmiðlum. Virðast þeir geta það án þess að upp hefjist öfgafullar hrópanir á borð við þær sem heyra má hjá hræðsluáróðursmeisturum hér á landi sem tala fyrir stöðugt hærri gjaldtöku af almenningi í þágu ríkisútvarpsins samhliða því sem áhorf og hlustun minnkar.

Innan ríkisútvarpsins hefur valdi verið þjappað saman undanfarin ár, til dæmis með einum fréttastjóra hljóðvarps og sjónvarps. Þá ríkir augljóst 101-viðhorf í mörgum bókmennta- og menningarþáttum þar sem fámennur hópur með keimlíkan smekk hefur búið um sig. Bítur hann oft hlutdrægt frá sér eins kynnast má af pistlum Eiríks Guðmundssonar, sjá t.d. hér.


 

 

Mánudagur 02. 11. 15 - 2.11.2015 16:00

Guðmundur Andri Thorsson, dálkahöfundur Fréttablaðsins, birtir árlega málsvörn sína fyrir ríkisútvarpið í dálki sínum í dag, 2. nóvember 2105. Hann telur að ríkisútvarpið búi við „óttastjórnunarstíl Davíðsáranna sem við þurfum að losa okkur við til að skapa heilbrigðara andrúmsloft í samfélaginu“. Úrræði Guðmundar Andra er einfalt: ríkisútvarpið fái þá fjármuni sem það krefst!

Rökin sem notuð eru til bjargar ríkisútvarpinu verða sífellt langsóttari en Guðmundur Andri segir að óttastjórnun sé „markviss aðferð við að skjóta fólki skelk í bringu, stjórna umfjöllun um sig og halda stofnuninni í heljargreipum“. Ríkir þetta andrúmsloft á ríkisfjölmiðlinum af því að krafist er aðhalds í fjármálum hans?

Guðmundur Andri er skrautfjöður í fjölmiðlahatti Jóns Ásgeirs. Hann segir um einn anga þess fjölmiðlaveldis: „Stöð tvö á sér miklu glæstari sögu og hefðir í framleiðslu á leiknu innlendu sjónvarpsefni en RÚV, þar sem einhver þyrrkingur hefur alltaf ríkt á því sviði. Þjóðmálaumræða er líka með ágætum á Stöð tvö og um skemmtiefnið þarf ekki að fjölyrða.“

Dálkahöfundurinn segir einnig: „því að það getur ekki talist vera eðlilegt rekstrarumhverfi slíkri stofnun að vita aldrei hvað dyntóttir og hefnigjarnir stjórnmálamenn láta af hendi rakna, hverju sinni – eins og framlög til þjóðarfjölmiðilsins eigi að vera undir velvild einstakra stjórnmálamanna komin“. Með þessum orðum er skautað fram hjá þeirri staðreynd að vandinn við rekstur ríkisútvarpsins er hvernig stjórnendur þess fara með hina opinberu fjármuni. Í stað þess að ræða þá hlið mála er bitið í hina færandi hönd og hún borin sökum.

Hverjir eru hinir „dyntóttu og hefnigjörnu“ stjórnmálamenn? Af hverju er hópur fólks undir þessa sök seldur í stað þess að nafngreina illmennin? Er tilgangurinn með þögninni að hindra að unnt sé að sannreyna sleggjudóminn?

Niðurstaða Guðmundar Andra er þessi:

„Fólk sem vill leggja niður RÚV er andvígt hinum sameiginlega vettvangi. Það vill þjóðfélag sundurgreiningar, þar sem hægri menn hafa sína fjölmiðla og vinstri menn sína og svo talist fólk aldrei við, hafi engan sameiginlegan grundvöll að standa á en velji hver sinn veruleika, hver sínar staðreyndir, og svo gargi fólk hvert á annað.“

Þessi orð ber væntanlega að skilja á þann veg að ríkisútvarpið skapi sameiginlegan umræðuvettvang. Hafi svo verið er sá tími fyrir löngu liðinn. Þar ekki við þá sem standa utan stofnunarinnar að sakast.

 

Sunnudagur 01. 11. 15 - 1.11.2015 16:00

Vörnin fyrir að halda úti ríkisútvarpinu tekur á sig ýmsar myndir á eyjunni.is er þetta haft eftir Helga Hjörvar, þingflokksformanni Samfylkingarinnar:

„Þau samfélög þar sem að viðskiptalífið er allsráðandi í fjölmiðlum, það eru sannarlega fátækari samfélög og að eru samfélög þar sem er miklu meiri hætta spillingu. Á því að viðskiptalífið nái miklum sterkari tökum, til dæmis á pólitíkinni. Og það að hafa sterka almannaþjónustu, hvort sem það er Ríkisútvarpið eða með því að styðja fjölmiðla almennt með slíkri starfsemi, það sé til þess að draga úr valdi viðskiptalífsins, draga úr spillingu og styrkja og bæta stjórnmálamenningu og aðhald með okkur sem eru í pólitíkinni.“

Ekki kemur fram um hvaða samfélög Helgi Hjörvar talar eða hvaða fjölmiðla sem eru einkareknir en veita stjórnvöldum og spillingaröflum ekki aðhald. Helgi er í flokki sem háði „heilagt“ stríð gegn fjölmiðlalögum og stóð þar með einareknu fjölmiðlaveldi sem veitt hefur eigendum sínum forskot í baráttu við réttarvörslukerfið við rannsóknir efnahagsbrota sem snerta eigendurna.

Þessi ummæli þingflokksformanns Samfylkingarinnar sýna enn að til varnar starfsemi ríkisútvarpsins er gripið til innantómra frasa í anda yfirlætis eða elítusjónarmiða sem eiga engan almennan hljómgrunn en falla að síminnkandi áhorfi og hlustun á ríkisfjölmiðlinn.

Þá segir einnig á eyjunni.is:

„Helgi sagð það löngum hafa verið áhugamál Sjálfstæðisflokksins að þrengja að starfsemi RÚV og því aðhaldi sem það getur veitt. Ný yfirstjórn hafi hinsvegar sýnt að hún leggi nútímalegar áherslur í rekstri sínum, til að mynda með því að selja lóðina í Efstaleiti og leigja hluta útvarpshússins undir aðra starfsemi.“

Í þessum orðum er alið á þeim ósannindum að sjálfstæðismenn krefjist aðgætni í rekstri ríkisútvarpsins vegna skoðana sem þar birtast. Hvernig rímar þetta við afstöðu Illuga Gunnarssonar, ráðherra stofnunarinnar, um þessar mundir? Einfaldlega alls ekki, Illugi vill meira opinbert fé til hins opinbera hlutafélags. Þá er sérkennilegt að telja það útvarpsrekendum helst til meðmæla að þeir selji lóðir og leigi út húsnæði. Eykst áhorf eða hlustun við það?

Samfylkingin hefur verið óheppin með baráttumál þau 15 ár sem hún hefur starfað. Málflutningur þingflokksformannsins til varnar ríkisútvarpinu sýnir að hann hefur ekkert lært af reynslunni í því efni. Hann er fastur í miðlunartækni fortíðar.