11.11.2015 16:45

Miðvikudagur 11. 11. 15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Valdimar Tr. Hafstein dósent og Ólaf Rastrick lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands um bók sem þeir ritstýrðu, Menningararfur á Íslandi, sem kom nýlega út á vegum Háskólaútgáfunnar. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld og síðan má sjá hann á tveggja stunda fresti til kl. 18.00 á morgun auk þess verður hann á tímaflakki Símans (rás 20).

Það er merkilegt að velta fyrir sér hvað olli því að fyrir aldarfjórðungi komst menningararfurinn í tísku, ef svo má orða það, sem vinsælt viðfangsefni í þjóð- og stjórnmálum. Við myndun núverandi ríkisstjórnar ákvað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að færa menningararfinn til innan stjórnarráðsins, það er úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið, og sérstakur kafli er um mikilvægi hans í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Fúslega viðurkenni ég að hafa haft áhuga á þessum arfi þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1995 til 2002 og hér á síðunni má sjá margar ræður sem ég flutti á þessum árum og snerta þennan arf.

Þegar ég kom í ráðuneytið hafði Ísland ekki gerst aðili að samningi UNESCO um heimsminjar mér til nokkurrar undrunar. Nú er Ísland aðili og á sínar viðurkenndu heimsminjar: Þingvelli, Surtsey og handritin. Eins og fram kemur í samtali okkar í þættinum í kvöld skiptir skráning á UNESCO-lista um menningararfinn verulegu máli um afstöðu til hans.