Dagbók: júní 2010
Miðvikudagur, 30. 06. 10.
Ræddi í þætti mínum á ÍNN við Þórunni Sigurðardóttur, formann stjórnar Ago, sem skipuleggur innra starf í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhöllinni, sem á að opna 4. maí 2011 með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Vladimirs Ashkenazys, þar sem hann stjórnar 9. sinfóníu Beethovens. Var lagt á ráðin um það fyrir mörgum árum, að þannig yrði staðið að fyrstu tónleikum í húsinu og er gleðilegt, að dagetning hefur nú verið ákveðin.
Að lokinni upptöku hélt ég upp í Reykholt í Borgarfirði, þar sem ég hitti Gunnar Eyjólfsson til að aðstoða hann við qi gong æfingar fyrir hóp, sem nýtur þar heilsudaga í Fosshótelinu að frumkvæði Guðna Þórðarsonar, sem enn er kenndur við Sunnu. Er gaman að hitta Guðna, hressan og áhugasaman um að láta að sér kveða í ferðamennsku undir merkjum menningar og heilsu.
Þriðjudagur, 29. 06. 10.
Tvennt hefur verið vegið þyngst í rökum þeirra, sem vilja, að Ísland gangi í ESB: útrýming krónunnar og matarverð stórlækki.
Í gær sagði formaður Íslandsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að Íslendingar væru betur settir með krónu en evru.
Í dag birti Hagstofa Íslands niðurstöðu verðkönnunar á matvælum á Íslandi og í ESB ríkjum vorið 2009. Verðið var 4% hærra hér en að meðaltali innan ESB, en var 61% hærra árið 2006.
Hvaða rök skyldu ESB-aðildarsinnar á Íslandi finna næst?
DV er ómerkilegra en ella, þegar það skrifar um sum mál. Í gær vakti blaðið máls á því, að ríkisendurskoðun gerði úttekt á framhaldsskólanum Hraðbraut. Var látið að því liggja, að Ólafur H. Johnson, skólameistari og eigandi skólans, væri ekki með hreint mjöl í pokahorninu. Hann segir að svo sé, en samningar sínir við menntamálaráðuneytið séu lausir til endurnýjunar.
Í dag sá ég látið að því liggja á dv.is, að ég komi eitthvað að rekstri Hraðbrautar. Þegar betur er að gáð er á dv.is vitnað í pistla hér á síðu minni frá 2003, þegar ég sem dómsmálráðherra fagnaði því, að Hraðbraut væri að hefja starfsemi. Ég hefði verið því fylgjandi sem menntamálaráðherra, að samið yrði við skólann.
Þegar ég las um upphaflegu fréttina í DV, velti ég fyrir mér, hvort að baki henni byggi óvild í garð einkaskóla á framhaldsskólastigi. Nú ætlaði Katrín Jakobsdóttir í anda vinstri-grænna að ganga að skólanum dauðum og í því skyni hefði verið ákveðið að leka í DV , að eitthvað væri athugavert við fjárreiður skólans. Að nafn mitt skyldi dregið inn í frásögn DV styrkti þessa skoðun mína.
Mér er óskiljanlegt, að fjárfestar kjósi að verja fé sínu til að halda úti dagblaði undir ritstjórn Reynis Traustasonar. Það sýnir aðeins, að enn er 2007-hugsunarháttur við lýði hjá íslenskum peningamönnum.
Mánudagur, 28. 06. 10.
Ég fjallaði í dag um niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins á Evrópuvaktinni, eins og hér má sjá.
Mér þótti þáttagerðarmaður, sem ræddi við Jórunni Frímannsdóttur, varaborgarfulltrúa, morgunútvarpi RÚV heldur ákafur í að vilja kljúfa Sjálfstæðisflokkinn vegna ágreinings um ESB-málin. Jórunn sagðist ekkert ætla að kljúfa flokkinn.
Þá var RÚV-manninum einnig mikið í mun að fá staðfest, að einhver blekking hefði verið höfð í frammi við afgreiðslu ESB-málsins á landsfundinum.
Engin brögð voru í tafli á fundinum og ekki samantekin ráð þeirra, sem eru andvigir aðild að ESB í flokknum. Jórunn sagði hins vegar frá því, að ESB-aðildar og viðræðusinnar hefðu efnt til sérstaks fundar á landsfundinum, til að þétta raðirnar og skipuleggja starf sitt á fundinum. Þeim voru mislagðar hendur á fundinum.
Sunnudagur, 27. 06. 10.
Í dag skrifaði ég pistil um landsfund sjálfstæðismanna. Taldi ég hann sögulegan í fleiri en einu tilliti eins og sjá má hér.
Fróðlegt er að fylgjast með því, hvernig þeir bregðast við, sem telja sig eiga um sárt að binda innan Sjálfstæðisflokksins vegna samþykktar landsfundarins um ESB. Á ruv.is sagði til dæmis 27. júní:
„Ragnheiður Ríkharðsdóttir (svo!), félagi í Sjálfstæðum Evrópusinnum og þingmaður Sjálfstæðisflokksins (svo!), finnst dapurlegt ef aðeins rúmast ein skoðun innan Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Henni finnst það vera umhugsunarvert fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni, sem hefur sagst vera lýðræðissinnaður umbótaflokkur. Það finnst henni ekki fara saman við að allir eigi að hafa eina skoðun.“
Ótrúlegt er að lesa þetta haft eftir þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Oft er tekist á um málefni á vettvangi flokksins, á landsfundi og annars staðar, og meirihluti ræður að lokum. Það jafngildir því ekki endilega, að allir eigi að hafa sömu skoðun í flokknum.
Sé hins vegar tekin ákvörðun í þingflokknum, sem miðar að því, að þingmenn flokksins standi saman, mælist aldrei vel fyrir, að einhver þeirra skerist úr leik.
Að gefa til kynna, að um það megi efast, að Sjálfstæðisflokkurinn sé lýðræðislegur umbótaflokkur að loknum þessum landsfundi er fráleitt.
Laugardagur, 26. 06. 10.
Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk síðdegis með samþykkt stjórnmálaályktunar, þar sem áréttað er þrisvar sinnum, að flokkurinn vilji hverfa af braut ríkisstjórnarinnar í ESB-aðildarmálinu. Þá segir í ályktuninni, að Íslendingum sé best borgið utan ESB.
Í morgun flutti ég ræðu á fundinum og sagði frá niðurstöðum í málefnaumræðum fundarins kvöldið áður um utanríkismál. Ég sagði, að þar hefði þremur skoðunum verið lýst. 1. Að leggja ESB-umsókn til hliðar eða draga hana til baka. 2. Að ganga viðræðuferlið á enda og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. 3. Að stefna markvisst að aðild. Sagði ég gögn, sem ég hefði skoðað um umræðurnar, benda til þess, að fyrsta skoðunin hefði notið stuðnings flestra.
Þegar fundur hófst í stjórnmálanefnd fundarins, töldu ESB-aðildarsinnar, að ég hefði ekki lýst viðhorfum í málefnaumræðunum á sanngjarnan hátt. Ég svaraði ekki þessum ásökunum, þótt ég teldi þær ekki eiga við rök að styðjast. Fannst mér nokkuð með því unnið að styðja Einar K. Guðfinnsson, formann stjórnmálanefndarinnar, í viðleitni hans að ná samstöðu um ESB-lið stjórnmálaályktunarinnar. Tókst það að lokum og lýstu allir stuðningi við upphaflegan texta tillögunnar, eins hann kom frá Ásdísi Höllu Bragadóttur, sem hafði dregið saman ályktunardrög fundarins á eitt blað.
Á landsfundinum sjálfum komu fram tvær róttækari tillögur í ESB-málinu en málamiðlunin í stjórnmálanefndinni. Þær voru báðar samþykktar. þrátt fyrir að Bjarni Benediktsson og Einar Kristinn hefðu lagt til, að þeim yrði vísað til þingflokksins. Lögðu þeir sig þar með enn fram um að milda afgreiðslu málsins af tilliti til ESB-aðildarsinna.
Hvað sem efni málsins líður, tel ég, að ESB-aðildarsinnar hafi haldið illa á málstað sínum á fundinum. Það hafi átt sinn þátt í því, að niðurstaða fundarins varð þeim öndverð.
Föstudagur, 25. 06. 10.
Landsfundur sjálfstæðismanna var settur með snjallri ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, í Laugardalshöll klukkan 16.00 í dag. Í salnum voru 1100 til 1200 manns. Var gerður góður rómur að ræðunni.
Yfirbragð salarins var léttara en áður við setningu landsfundar, þar sem ekki var raðað stólaröðum fremst við sviðið. Litir á skjalamöppu og í sal og sviði voru bjartir og sumarlegir, eins og hæfði árstíðinni. Gamli, klassíski ræðustóllin hafði ekki verið fluttur úr Valhöll. Dró það þó ekki í áhrifamætti þess, sem sagt var!
Ég gladdist að hitta þarna vin minn Kjartan Gunnarsson, sem hefur glímt við alvarleg veikindi en er að ná sér á strik. Sagði hann þetta í fyrsta sinn, sem hann færi á mannamót síðan 14. nóvember. Hér sjáumst við sitja við borð með Sigríði, konu Kjartans, og Ármanni, frænda hennar. Við hlið mér, yst til vinstri á myndinni, situr Hafliði Pétur Gíslason, prófessor.
Að loknum upphafsræðum hófst hugmyndaþing, hið fyrsta, sem efnt er til á landsfundi. Má segja, að menn hafi rennt blint í sjóinn með það sem tilraun. Þegar upp var staðið klukkan 21.30, höfðu um 500 manns setið frá klukkan 18.00 í átta málefnahópum. Skiptist hver hópur á 10 manna borð, þar sem borðstjóri leiddi umræður í 50 mínútur, sem síðan voru dregnar saman. Á hverju borði voru þrjár slíkar lotur. Það kom í minn hlut að taka saman umræður um utanríkismál: 1. ESB, 2. Varnar- og öryggismál, 3. Norðurslóðir - loftslagsmál. Tæplega áttatíu manns tóku þátt í umræðum um utanríkismál.
Ég hafði blendnar tilfinningar til þess, að nýbreytni sem þessi yrði tekin upp á landsfundi. Eftir á að hyggja skilaði starfið góðum árangri, sem nýtist við stefnumótun á fundinum og í starfi málefnanefnda eftir hann.
Mér blöskrar að lesa frétt á visir.is, þar sem Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS, segir landsfundinn „jók“, af því að þar gefist ekki færi til umræðna. Fyrir þessu eru engin haldbær rök. Þá tekur Magnús Árna Magnússon, stjórnmálafræðingur og nýráðinn rektor háskólans á Bifröst, að sér í fréttum Stöðvar 2 að hafa eftir ónafngreinum sjálfstæðismönnum, að þeir skilji ekki þörfina á fundinum. Gerir rektorinn því skóna, að annar flokkur verði til á hægri vængnum vegna ESB-mála. Þetta er ekki traustvekjandi framganga, vilji rektorinn, að tekið sé mark á honum.
Fimmtudagur, 24. 06. 10.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á morgun, föstudag. Honum lýkur síðan á sunnudag. Fundurinn verður með sérstöku sniði, enda er til hans boðað á milli reglulegra landsfunda. Til fundarins er kallað, vegna þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér sem varaformaður. Á fundinum verður einng kjörinn formaður. Enginn hefur gefið kost á sér gegn Bjarna Benediktssyni, formanni. Í dag tilkynnti Lára Óskarsdóttir, Reykjavík, að hún byði sig fram til varaformanns. Allt bendir til, að Ólöf Nordal, alþingismaður, verði kjörin varaformaður. Hún kynnti framboð sitt fyrir nokkrum vikum.
Einkennilegt er að sjá sífellt vitnað í Svein Andra Sveinsson, hrl., um ESB-mál vegna landsfundarins. Til hans er vitnað á vefmiðlum, meðal annars Eyjunni, sem hefur tekið upp ritstjórnarstefnu í anda ESB-aðildar undir forystu Þorfinns Ómarssonar. Sveinn Andri hefur í frammi hótanir um að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, njóti ESB-sérsjónarmið hans ekki þess stuðnings á landsfundinum, sem hann væntir.
Sveinn Andri heldur þessu sjónarmiði á loft í því skyni að vekja athygli á sjálfum sér, líklega í von um að gera sig gildandi á landsfundinum. Fráleitt er, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggi Össuri Skarphéðinssyni og félögum lið í ESB-leiðangrinum. Svo illa hefur verið haldið á þeim málum, að rétt er, að stjórnarflokkarnir beri einir ábygrð á bjölluatinu í Brussel. Vilji Sveinn Andri kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, til að taka þátt í því ati, á hann það við sjálfan sig en ekki þá, sem eftir verða í flokknum.
Hinn holi hljómur í málflutningi Sveins Andra er í ætt við bjölluatið. Ég skrifaði pistil um þann áróður, sem Sveinn Andri og félagar stunda á Evrópuvaktina í morgun. Hann má lesa hér.
Miðvikudagur, 23. 06. 10.
Evrópuvaktin skýrir frá því í dag, að utanríkisráðuneytið hafi boðað hóp fjölmiðlamanna til fundar í dag, til að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðalviðmælandi Íslendinga við ESB, fengi tækifæri til að fylgja eftir ferð manna úr hópnum til Brussel á dögunum í boði ESB.
Skipuleg innræting af þessu tagi mun aukast, þar til yfir lýkur í aðlögunarferli Íslands að ESB á grundvelli ályktunar alþingis frá 16. júlí 2009. Í Brussel líta embættismenn ESB á íslenska embættismenn og utanríkisráðuneytið sem samherja í áróðursstríðinu, sem er að hefjast. Það sé skylda ríkisstjórnar umsóknarríkis að uppfræða þegna sína um ágæti ESB og þau gæði, sem bíði innan sambandsins. Staðfestir fundurinn í dag þá skoðun, að utanríkisráðuneytið sé í raun gengið í ESB og líti frekar á hlutverk sitt að koma öllum Íslendingum þangað inn en halda þannig á hagsmunum þjóðarinnar, að í odda skerist, standi málefni til þess.
Þess er ekki getið í frétt Evrópuvaktarinnar, að engum, sem rita á þá vefsíðu, var boðið til innrætingarfundarins. Er þó til síðunnar stofnað í þeim eina tilgangi að segja fréttir af Evrópumálum. Engum öðrum fjölmiðli hér er haldið úti í þeim eina tilgangi. Hér skal ekki leitt getum að því, hvers vegna utanríkisráðuneytið sá ekki ástæðu til að bjóða fulltrúa Evrópuvaktarinnar til þessa ESB-fundar. Þó skulu settar fram tvær tilgátur: 1. Ráðuneytið telur engu við þekkingu þeirra, sem á síðuna rita, að bæta. 2. Ráðuneytinu er ljóst, að innræting þess hrín ekki á umsjónarmönnum síðunnar.
Þriðjudagur, 22. 06. 10.
Furðulegt var að hlýða á Össur Skarphéðinsson skammast út í David Cameron fyrir að skilja samþykkt leiðtogaráðs ESB um viðræður við Ísland eftir orðanna hljóðan. Cameron tengir Icesave-málið að sjálfsögðu aðildarviðræðum við Ísland. Hann veit að Bretar geta beitt neitunarvaldi við gerð samningsrammans við Ísland. Þeir geta krafist þess, að þar verði skilyrði vegna Icesave. Þeir hafa stuðning til þess í niðurstöðu leiðtogaráðsins, eins og hér er rökstutt.
Blekkingariðja Össurar vegna Icesave og ESB er dæmd til að mistakast. Furðulegt er, að enginn embættismaður í utanríkisráðuneytinu skuli leiða Össuri og ríkisstjórninni fyrir sjónir, hvað felst í samþykkt leiðtogaráðsins. Í stað þess að gera það lætur sendiherra Íslands gagnvart ESB og aðalsamningamaður Íslands, eins og Össur hafi rétt fyrir sér við túlkun á niðurstöðu leiðtogaráðsins.
Utanríkisráðuneytið var því miður ekki heldur í stakk búið til að veita þá ráðgjöf í Icesave-málinu, sem dugði til að tryggja og treysta réttarstöðu Íslands.
Mánudagur, 21. 06. 10.
Sláttur er almennt að hefjast hér í Fljótshlíðinni. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að sprettan sé meiri en ég hef kynnst henni áður. Að minnsta kosti er það svo í garðinum kringum húsið mitt. Sannreyndi ég það ídag, þegar ég hirti eftir sláttinn í gær. Ef gamli Fergussoninn minn hefði ekki farið í gang, hefði ég átt fullt í fangi með að koma heyinu frá mér í veðurblíðunni. Hér sjást hestar gæða sér á heyinu.
Í færslu hér sl. laugardag vakti ég athygli á rangfærslum í forsíðufrétt Fréttablaðsins, þegar sagt var frá viðtali við Össur Skarphéðinsson. Í dag birtist ritstjórnargrein í sama blaði, þar sem því er haldið fram, að ég hafi samið við Björgólf Guðmundsson um smíði tónlistarhússins, Hörpu. Þessi fullyrðing er fjarri sanni. Ég var ekki menntamálaráðherra, þegar sá samningur var gerður. Þegar beinum afskiptum mínum af tónlistarhúsinu lauk, hafði því verið valinn staður og útlínur markaðar.
Rangfærslur af þessu tagi á forsíðu og í leiðara Fréttablaðsins vekja spurningu um, hvort menn á þeim bæ séu svo hart keyrðir, að þeir hafi ekki tóm til að leita heimilda og verði því að skrifa eftir minni og þar með skálda, þegar ekki vill betur.
Sunnudagur, 20. 06. 10.
Ég sló í dag hér í Fljótshlíðinni og þurfti ekki að vera með rykgrímu, enda hefur rigningin bundið öskuna. Finnst mér gróðurinn meiri en áður hefur verið og þegar ég lít úr hlíðinni niður að Þverá og yfir í Landeyjarnar sýnist mér aurarnar grænni en áður. Yfir þessu öllu gnæfir svartur Eyjafallajökullinn eins og sjá má á þessari mynd, sem ég tók í kvöld.
Furðulegt er, að enginn skuli leita álits Jóhönnu Sigurðardóttur eða Steingríms j. Sigfússonar á orðum Össurar, sem Fréttablaðið túlkar á þann veg á forsíðu sinni í gær, að hann vilji, að mynduð sé þjóðstjórn. Auðvitað getur verið, að einhverjir hafi spurt þau, en þeim hafi ekki þótt ástæða til að segja neitt um málið. Segir það í raun meira en mörg orð um áhrif eða réttara sagt áhrifaleysi Össurar í ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.
Laugardagur, 19. 06. 10.
Mikið var um dýrðir í Stokkhólmi í dag, þegar Viktoría gekk að eiga Daniel, sem var einkaþjálfari hennar. Athöfnin var glæsileg og henni var sjónvarpað víða um heim en þó ekki hér á landi. Sjónvarpið hefur ekki heldur sýnt þætti í aðdraganda brúðkaupsins, sem lýsir undirbúningi þess og brúðhjónunum. Er einkennileg ráðstöfun að fara á mis við svo gott sjónvarpsefni. Hvort það er vegna fátæktar RÚV eða ritstjórnarstefnu, hef ég ekki heyrt. Ég er hins vegar viss um, að margir nýttu sér aðgang að norrænum sjónvarpsstöðvum til að fylgjast með hátíðarhöldunum og aðdraganda þeirra.
Einkennilegt er að lesa á forsíðu Fréttablaðsins í dag, að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi lagt „það til á fundi með ríkisstjórninni skömmu eftir hrunið haustið 2008 að stofnað yrði til þjóðstjórnar.“ Þetta kemur fram í frétt um viðtal við Össur Skarphéðinsson í blaðinu, þar sem Össur segir, að það hafi „ekki hjálpað þeirri hugmynd að Davíð Oddsson hafi nánast ruðst inn á ríkisstjórnarfund og skellt henni á borðið.“
Þessi margræddi ríkisstjórnarfundur var haldinn 30. september, 2008. Þá höfðu bankarnir ekki hrunið og talið var unnt að bjarga þeim, þar sem ríkið hafði eignast 75% í Glitni-banka. Að segja fundinn haldinn skömmu eftir hrun bankanna er rangt. Davíð lagði ekki heldur til, að mynduð yrði þjóðstjórn heldur væri ástandið á þann veg, að slík stjórn kynni að eiga rétt á sér, staðan væri svo alvarleg. Loks er rangt, að Davíð hafi nánast ruðst inn á fund ríkisstjórnarinnar. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bauð honum að sjálfsögðu á fundinn eða jafnvel mæltist til þess, að hann kæmi til að skýra ríkisstjórninni milliliðalaust frá stöðu bankamálanna. Miðað við það, sem síðan hefur fram komið, hefði Geir átt að bjóða Davíð fyrr á ríkisstjórnarfund til að ræða þetta mál.
Virðist sama hvort Össur túlkar afstöðu stjórnenda ESB til Íslands og skilyrði af hálfu Breta og Hollendinga vegna Icesave eða hann segir frá tæplega tveggja ára atburðum, sem eru skjalfestir, hann færir allt í þann búning, sem honum hentar hverju sinni. Hið einkennilega er, að blaðamenn hafi þetta allt eftir, án þess að sannreyna, hvort rétt sé með farið.
Föstudagur, 18. 06. 10.
Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og á vefsíðuna Evrópuvaktina, þar sem ég ræddi um samþykkt leiðtogaráðs ESB í gær. Þar er Íslendingum stillt upp við vegg. Augljóst er, að ekkert mun miða í aðildarviðræðum, á meðan Icesave-deilan er óleyst. Bretar eða Hollendingar hafa neitunarvald innan ESB um samningsrammann við Ísland, sem framkvæmdastjórn ESB tekur nú til við að semja og kynna fyrir ESB-ríkjunum 27. Hvert þeirra getur gert athugasemd og stöðvað framgang málsins, nema Íslendingar fallist á ákveðin skilyrði. Þar ber Icesave og hvalveiðar hæst.
Furðulegt er að lesa þau ummæli höfð eftir Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, að fullveldi Íslands styrkist við aðild að ESB. Þá fáum við áhrif, sem við höfum ekki nú. Staðreynd er, að íslensk stjórnvöld hafa ekki nýtt sér rétt sinn til áhrifa samkvæmt EES-samningnum. Raunar hefur utanríkisráðuneytið skirrst við að hrinda tillögum um það efni í framkvæmd.
Hver trúir því, að breyting verði í því efni eftir ESB-aðild? Hvað er að gerast nú innan ESB? Evru-rikin bíða með öndina í hálsinum eftir því, sem Þjóðverjar og Frakkar ákveða. Bretar reyna að verjast því að verða dregnir of langt til ábyrgðar á björgunarsjóðum, sem þeir segjast ekki eiga að ábyrgjast. Svo er utanríkisráðherra á Íslandi, sem lætur eins og hann muni hafa einhver meiri áhrif en hann hefur nú með því að ganga í ESB.
Það lofar síðan ekki góðu um framhaldið, að Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, segir ekki rétt frá skilyrðum ESB og lætur eins og léttilegt sé að sigla fram hjá þeim.
Fimmtudagur, 17. 06. 10.
Ég ók yfir Hellisheiðina, þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti þjóðhátíðarávarp sitt á Austurvelli. Í upphafi þess sagði hún:
„Náttúrufegurðin, fallvötnin, jarðhitinn, fiskurinn, vatnið og frjósöm fósturjörðin fela í sé verðmæti sem verða dýrmætari með hverju árinu sem líður. Á þessum gjöfum náttúrunnar byggjum við Íslendingar okkar efnahagslega grundvöll. Það er sameiginlegt viðfangsefni okkar að standa um þær vörð svo að komandi kynslóðir muni njóta þeirra.“
Mér þótti kaldhæðnislegt að heyra þessi orð hjá forsætisráðherra, sem stefnir að ESB-aðild Íslands. Hún veikir aðeins varðstöðu þjóðarinnar um þær auðlindir, sem hún tíundaði í upphafi ávarps síns. Ætli Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki hugmynd um, hvað í því felst að ganga í ESB fyrir Ísland?
Í ávarpi sínu treysti Jóhanna sér ekki til að nefnda ESB á nafn, sátu þó leiðtogar ESB-ríkjanna á fundi þá sömu stundu, sem hún fluttu ávarpið og véluðu um aðildarumsókn Íslands á jákvæðan hátt með mörgum skilyrðum, eins og Herman Van Rompuy, forseti ESB-leiðtogaráðsins, orðaði það.
Ég skrifaði leiðara á Evrópuvaktina í morgun, þar sem ég sagði samþykkt leiðtogaráðs ESB óheillaskref. Ríkisstjórn, sem fer þannig að við gæslu hagsmuna þjóðarinnar, verður að víkja.
Við tókum þátt í þjóðhátíðarfagnaði í Goðalandi í Fljótshlíð síðdegis. Svartur Eyjafjallajökull gnæfði yfir okkur.
Miðvikudagur, 16. 06. 10.
Í dag tók ég viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, sem flutt er á ÍNN sjónvarpsstöðinni í kvöld klukkan 21.30 og síðan á tveggja tíma fresti þar til klukkan 20.00 17. júní, gangi dagskrá stöðvarinnar eins og skipulagt er.
Ég skora á þá, sem sjá ástæðu til að finna að þeirri ákvörðun Hönnu Birnu að taka að sér forsetaembættið að horfa á þáttinn og hlusta á rök hennar. Ég tel, að allt pukrið í kringum myndun meirihluta og skiptingu starfa á milli borgarfulltrúa valdi því, að menn átti sig ekki á því, hvernig málum er háttað. Hitt er síðan annað mál, að þessi skipan í borgarstjórn mun aldrei falla að skoðunum þeirra, sem telja, að þar eigi að ríkja stöðug stórstyrjöld milli minni- og meirihluta. Um þann þátt málsins ræðir Hanna Birna einnig í viðtalinu.
Þá spyr ég hana um þá ákvörðun hennar að gefa ekki kost á sér til varaformennsku í flokknum.
Hafi ég haft efasemdir um, að Hanna Birna væri að gera rétt með því skrefi, sem hún ákvað að stíga, hurfu þær eftir samtal okkar. Styð ég hana heilshugar, sérstaklega vegna þess, að hún á engan þátt í málefnaskrá Besta flokksins og Samfylkingarinnar, sem er dýr í framkvæmd og illa unnin - þar er á átta blaðsíðum til dæmis ekki vikið einu orði að íþróttum.
Að halda því fram, að Hanna Birna sé að sækjast eftir forsetastólnum vegna bíls og bílstjóra er fráleitt, því að ekki verður um slík fríðindi að ræða.
Þriðjudagur, 15. 06. 10.
Jón Gnarr varð borgarstjóri Reykjavíkur í dag og flutti andkannalega ræðu, þegar hann tók við embættinu. Hún átti líklega að vera fyndin. Að stjórna borg er alvörumál. Það getur vissulega farið fyndnum mönnum vel úr hendi. Þeir Jón og Dagur B. Eggertsson hafa sýnt, að auðvelt er að verða hlægilegur í valdabrölti í borgarstjórn. Dagur B. verður áfram hlægilegur, spurning um Jón Gnarr.
Leynisamningurinn, sem þeir Jón Gnarr og Dagur B. gerðu hefur verið birtur. Hann er átta blaðsíður. Undarlegt er, hve Samfylkingin er upptekin að því bæði í borgarstjórn og ríkisstjórn að ráðskast með stjórnkerfið sjálft í stað þess að láta hendur standa fram úr ermum í þágu borgaranna. Nú á enn að taka til við að stokka upp í ráðhúsinu. Kostnaður við þetta brölt er mikill fyrir utan að óvissa meðal starfsmanna veldur ávallt röskun.
Jóhanna Sigurðardóttir er einstaklega klaufaleg í stjórnsýslu sinni. Launamál Más Guðmundssonar eru til marks um það. Nú hefur hún lagt fram minnisblað í ríkisstjórn, þar sem hún tekur fram fyrir hendur rannsóknarnefndar alþingis og vill upp á sitt eindæmi láta rannsaka einkavæðingu bankanna í þingnefnd, sem hefur lögskipað hlutverk. Þingnefndinni varð á í messunni, þegar hún beindi málum til ríkissaksóknara, sem alls ekki gátu verið saknæm. Taki nefndin að sér að sinna einkaáhugamáli Jóhönnu, fer nefndin endanlega með trúverðugleika sinn.
Jóhanna heimtaði að fá að mæla fyrir frumvarpi um breytingu á stjórnarráðinu, sem er mikil hrákasmíði og aðeins til tjóns, verði það að lögum. Það er jafnvel verra en frumvarpið um varnarmálastofnun frá Össuri Skarphéðinssyni, sem hann heimtar að verði að lögum.
Mánudagur, 14. 06. 10.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er hættur að öskra á sjálfstæðismenn í þingsalnum og kennir nú hestapest og eldgosi um, að ekki sé hagvöxtur í landinu. Hann viðurkennir einnig styrkinn af því, að ríkið var skuldlaust, þegar bankarnir hrundu. Það hefði ekki verið svo, nema vegna þess að sjálfstæðismenn héldu vel á ríkisfjármálum. Skyldi Steingrímur J. farinn að búa sig undir samstarf við sjálfstæðismenn?
Nú stefnir í, að leiðtogar ESB-ríkjanna gefi grænt ljóst á aðildarviðræður við Ísland á fundi sínum 17. júní. Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna gerðu það fyrir sitt leyti í dag. Lögfræðingar ESB segja stjórnmálamönnunum, að úr því að framkvæmdastjórn ESB telji Ísland hæft til viðræðna, geti þeir ekki annað en látið málið renna í gegnum dagskrá sína, þótt þeir hafi enga trú á því, að Íslendingar hafi í raun áhuga á aðild.
Sama dag og utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna gáfu græna ljósið sitt í Lúxemborg birtist niðurstaða skoðanakönnunar, sem sýnir, að tæp 60% Íslendinga vilja, að ESB-umsóknin verði dregin til baka. Þá er einnig sagt frá því sama dag, að fjórir þingmenn úr jafnmörgum flokkum hafi lagt fram tillögu til þingsályktunar um að afturkalla ESB-umsóknina.
Eins og málum er nú háttað geta aðeins Jóhanna Sigurðardóttir eða Össur Skarphéðinsson komið í veg fyrir, að ESB-leiðtogarnir taki mál Íslands fyrir á fundi sínum 17. júní. Einangrun þeirra er hins vegar svo mikil, að þeim dettur hvorki í hug að taka tillit til skoðana almennings á ESB-umsókninni né afstöðu þingmanna.
Sunnudagur, 13. 06. 10.
Fróðlegt er að kynnast sjónarmiðum Norðmanna, þegar ný skoðanakönnun sýnir meiri andstöðu við aðild að Evrópusambandinu meðal þeirra en nokkru sinni fyrr, það er um 70% þeirra, sem taka afstöðu. Hin neikvæða afstaða mótast af ótta við efnahagsástandið á evru-svæðinu. Lífskjör í Noregi mundu versna við aðild og það falli ekki að norskum hagsmunum að taka upp evru. Auk þess sé ESB orðið að tákngervingi böðuls velferðarkerfisins með sífelldum kröfum frá Brussel um að skera niður útgjöld til velferðarmála. Um þetta allt og margt fleira má fræðast á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér.
Einhverjir kunna að minnast þess, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. kennir sig við norræna velferð. Hún hefur hins vegar einnig á stefnuskrá sinni að troða íslandi inn í ESB, þar sem Norðmenn telja, að nú sé gerð markviss aðför að velferðarkerfinu.
Enn sannast, að ekki stendur steinn yfir steini í stefnu ríkisstjórnarinnar, þegar litið er á gjörðir hennar.
Laugardagur, 12. 06. 10.
Ef marka má lista yfir mál á dagskrá alþingis mánudaginn 14. júní, verður varnarmálalögum ekki breytt á þessu þingi. Stafar það af því, hve illa frumvarp utanríkisráðherra um breytingar á lögunum var úr garði gert. Alltof mikill losarabragur er á frágangi málsins. Augljóst er, að utanríkisráðuneytið er í einhverjum „haltu-mér-slepptu-mér leik“ í varnarmálum. Óttast embættismenn þess greinilega að missa einhvern spón úr aski sínum.
Þá má leiða líkur að því, að Össur Skarphéðinsson hafi ekki gefið málinu mikinn gaum, enda er hugur hans allur við ESB-leiðangur hans, sem kann einnig að renna út í sandinn eins og niðurlagning varnarmálastofnunar. Er hvorugt málið til vitnis um þaulskipulagða málafylgju af hálfu Össurar og ráðuneytis hans.
Össur er eini utanríkisráðherra Íslands, sem hefur ekki sótt tvo ráðherrafundi NATO í röð. Hann hafði of mikið að gera til að sækja ráðherrafundinn í Brussel skömmu fyrir áramót. Hann ber því við, að aska hafi hindrað hann að sækja fund í Tallinn 22 til 23. apríl, sem stenst illa miðað við, hvenær flug lokaðist héðan.
Hinn 21.apríl var allt flug héðan með eðlilegum hætti nema til London. Almennt er flogið frá Keflavík til Kaupmannahafnar, Stokkhólms eða Helsinki til að komast til Tallinn. Daginn eftir, sumardaginn fyrsta, 22.apríl lokaðist loftrými Bretlands. Þann 23.apríl fóru nokkar vélar frá Keflavík um morguninn en frá Kaupmannahöfn hefði Össur ekki komist um kvöldið.
Lene Espersen, utanríkisráðherra Dana, sætir harði gagnrýni fyrir að kjósa frekar að fara í frí með fjölskyldu sinni til Mallorka en sækja óformlegan fund utanríkisráðherra fimm norðurheimskautsríkja í Ottawa í mars sl., skömmu eftir að hún varð utanríkisráðherra. Þykir Dönum ill skiljanlegt, að hún hafi sleppt þessu tækifæri til að hitta Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Föstudagur 11. 06. 10.
Nú dregur að þinglokum. Fréttir herma, að stjórnarflokkarnir hafi loks áttað sig á því, að þeir geta ekki haft skoðanir sjálfstæðismanna á stjórnlögum þjóðarinnar að engu. Eigi að ná samstöðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar, þarf að sýna vilja til þess í verki strax frá fyrsta degi. Til þessa hefur Jóhanna Sigurðardóttir ætlað að sýna hreinan yfirgang. Hvað eftir annað hefur verið tekið fast á móti. Hún kemst ekki lengra, án þess að taka mið af óskum annarra.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið saman mikið magn gagna um Icesave-málið og leggur fram tillögu til þingsályktunar um, að stofnað verði til rannsóknar á málinu. Í upphafi hennar segir:
„Alþingi ályktar að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem rannsaka skuli embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu. Skal nefndin skipuð þremur sérfræðingum á þeim sviðum sem rannsóknin nær til.
Rannsóknarnefndin skal leggja mat á hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenskra ríkið og íslensku þjóðina og eftir atvikum leggja mat á hverjir bera á þeim ábyrgð.“
Ekki er ólíklegt, að Björn Valur Gíslason, brúða búktalarans Steingríms J., hafi haft spurnir af þvi, að Sigurður Kári væri að semja og taka saman efni vegna þessarar tillögu og þess vegna gert hina svívirðilegu árás á hann á þingi miðvikudaginn 9. júní og vænt hann um að hafa þegið greiðslur frá bresku lögmannsstofunni Mischon de Reya, sem gagnrýndi, hvernig Steingrímur J. hélt á Icesave-málinu með Svavari Gestssyni.
Ársás Björns Vals sýnir, hve mjög Steingrímur J. og félagar óttast, að óhlutdrægir rannasakendur semji skýrslu um meðferð Icesave-málsins í þeirra höndum.
Fimmtudagur, 10. 06. 10.
Loksins rigndi duglega í Fljótshlíðinni í nótt og fram eftir degi, á meðan ég dvaldist þar. Svona mikil rigning hefur ekki fallið þarna lengi og verður forvitnilegt að sjá, hvaða áhrif hún hefur.
Í færslu hér sl. þriðjudag sagði ég, að þess sæjust merki sunnan Eyjafjalla að flúor í ösku væri tekinn að veikja liðamót í kindum og þær væru haltar. Nú hefur mér verið bent á, að bráðaáhrif vegna flúoreitrunar í sauðfé komi fram sem doði og ýmis einkenni frá taugakerfi og meltingarfærum, sjá http://www.mast.is/upplysingar/baendur/eldgosieyjafjallajokli. Langtímaáhrifin britist seinna, en langvarandi flúoreitrun geti skemmt tennur og bein sem eru að þroskast. Helti gæti því komið fram á næstu árum í því fé, sem núna er lömb og gemlingar.
Miðvikudagur, 09. 06. 10.
Mér hafa borist fyrirspurnir um örlög útilegukindar minnar, sem ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að ná í Þórólfsfelli undanfarna tvo vetur. Þórólfsfell er nokkuð fyrir austan Fljótsdal, innsta bæinn í Fljótshlíðinni, en þar keypti ég ána fyrir nokkrum árum. Þórólfsfell er nú hulið ösku.
Þrátt fyrir þrautseigju og ítarlegar tilraunir leitarmanna, jafnvel með aðstoð björgunarsveita, hefur ekki tekist að ná til byggða nokkrum ám, þar á meðal minni. Hefur hún því legið úti í tvo vetur og þótt mjög vör um sig, ef að henni er sótt.
Þegar gosið hafði staðið í nokkurn tíma og aska lagst yfir Þórólfsfell bárust fréttir af tveimur ám, sem héldu, hvor með sínu lambi, vestur með Fljótshlíðinni. Náði Jens, bóndi á Teigi, þeim við Þverá, næsta bæ við Hlíðarenda. Höfðu ærnar þá gengið tvo til þrjá tugi km undan öskunni.
Önnur var úr Fljótsdal, hin var mín. Viðar, nágranni minn í Hlíðarbóli, tók hana í hús og unir hún sér nú vel með ánum í túni hans og kann því vel að geta leitað í hús, ef svo ber undir. Hún og lambið eru vel á sig komin og vonandi verður þeim ekki meint af hamförunum. Holdarfar kindarinnar bendir til þess, að hún hafi ekki liðið skort á fjöllum.
Tvær ær, sem ég keypti í Fljótsdal bera öll merki um, að þær séu af forystukyni. Þær fara sínu fram og hafa báðir vakið umtal. Sú, sem hefur haldið sér í byggð, komst í Bændablaðið, þegar hún hafði sest að í fjárhúsi í Landeyjunum.
Þegar blaðamaður hringdi í mig og vildi birta frétt af þeirri, sem flúði undan öskunni, ákvað ég hlífa henni við áreiti ljósmyndara. Ég vil ekki að hún verði hrakin aftur til fjalla. Ég tók hins vegar þessa mynd af henni og lambi hennar í dag.
ps. Í Víkverja Morgunblaðsins birtist 15. júní:
„Öskufallið getur þó átt á sér ánægjulegar og spaugilegar hliðar í vissum tilvikum. Þannig barst Víkverja til eyrna að þrjóskukind ein hefði óvænt komið til byggða, sem ekki hefði komið fram í tveimur síðustu leitum á afrétti bænda úr Fljótshlíðinni. Var nánast búið að afskrifa kindina en enginn gladdist meira en eigandinn, er hún birtist öskugrá af afréttinum en við hestaheilsu að því er virtist.
Af tillitssemi við hlutaðeiganda ætlar Víkverji ekkert að upplýsa um hverja er að ræða, en samgleðst bara yfir endurheimtunum með bæði eiganda og ánni.“
Þriðjudagur, 08, 06. 10.
Síðdegis sat ég alþjóðlegu vísindaráðstefnuna á Ranga um loftslagsmál og áhrifin af loftslagsbreytingum. Hún er haldin með stuðningi NATO.
Ráðstefnugestum var boðið í skoðunarferð að Eyjafjallajökli og sat ég í bíl, þar sem Ármann Höskuldsson var fararstjóri og fræddi okkur um gosið og einkum öskufallið. Merki þess urðu greinilegri eftir því sem við ókum nær Þórsmörk. Við fórum þó ekki þangað heldur upp að lóninu við Gígjökul.
Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, sem skipulagði ráðstefnuna að hótel Rangá, tók þessa mynd af okkur Ármanni Höskuldssyni, Þorvaldi Þórarinssyni og Gísla Viggóssyni við Gígjökul.
Leiðin er greiðfær fyrir bíla, sem geta ekið yfir vatnsföll. Við vorum vöruð við að fara að lóninu, því að niður við það kynnu að vera eiturgufur. Okkur var bent á holu í sandinum. Þar hafði jaki bráðnað. Hættulegt er að stíga út á slíkar holur, því að menn geta auðveldlega sokkið í þær. Ármann sagði, að eftir Kötlugosið hefði slík sandbleyta verið mönnum og dýrum hættulegust.
Ær og lömb voru nokkuð austarlega og nálægt öskuþekjunni. Þess sjást merki sunnan Eyjafjalla, þar sem sauðfé hefur verið og er enn á beit, að flúorinn í öskunni er tekinn að veikja liðamót þeirra og ærnar eru haltar.
Eftir skoðunarferðina á öskuslóðir ókum við niður í Landeyjahöfn. Gísli Viggósson hjá Siglingastofnun, hönnuður hafnarinnar, var með í för. Daginn áður hafði hann flutt fróðlegt erindi um þetta einstæða mannvirki á ráðstefnunni og nú sýndi hann okkur það í miklu blíðviðri. Herjólfur hefur ferðir um höfnina 21. júlí. Eiga margir eftir að fagna, hve vel hefur verið staðið að þessu verki og þeim breytingum á samgöngum við Eyjar, sem það veldur.
Mánudagur, 07. 06. 10.
Síðdegis fór ég í hótel Rangá, þar sem haldin er ráðstefna sérfræðinga undir merkjum NATO og fleiri um loftslagsmál, öryggismál, norðurslóðir og fleira. Ég flutti þar stutta ræðu um endurnýjun tækjakosts landhelgisgæslunnar og hugmyndafræðina að baki honum.
Jóhanna Sigurðardóttir ræddi við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi um launamál Más Guðmundssonar. Við öllum blasir, að óhugsandi er, að ákvarðanir um að skapa seðlabankastjóra sérstöðu innan launakerfis ríkisins með breytingu á lögum um kjararáð hafa ekki verið teknar af öðrum en Jóhönnu Sigurðardóttir eða að minnsta kosti með vitund hennar. Hafi svo ekki verið, er ástæða til að spyrja, hvað í ósköpunum Jóhanna sé að gera í forsætisráðuneytinu.
Jóhanna lét eins og hún vissi ekki, að frumvarpi fjármálaráðherra um kjararáð hafði verið breytt á þingi sumarið 2009 að ósk forsætisráðuneytisins, til að unnt væri að koma til móts við óskir Más Guðmundssonar. Hún hefði fyrst áttað sig á þessu, eftir að frumvarpið var orðið að lögum, þá hefði hún lesið lagatextann og séð, að hann heimilaði ekki hækkun á launum Más! Að forsætisráðherra leyfi sér að bera þetta á borð fyrir landsmenn í sjónvarpsviðtali. gerir þetta mál allt enn verra.
Jóhanna undrar sig á því, að rætt hafi verið um þetta mál, ósannindi hennar og dæmalaust klúður í stjórnsýslu, í nokkrar vikur. Það sé aðeins gert vegna óvildar Davíðs Oddssonar í sinn garð. Þetta neyðaróp Jóhönnu verður henni ekki til bjargar, enda á það ekki við nein rök að styðjast. Lengd umræðnanna stafar af því, að í hvert sinn sem Jóhanna segir eitthvað um málið, verður tvískinnungur hennar ljósari. Segi menn ekki satt í upphafi og haldi sig ekki við staðreyndir, lenda þeir í stöðu Jóhönnu í Kastljósinu, að þykjast ekkert vita og verða eins og álfar úr hól auk þess að ráðast á aðra með svívirðingum.
Þá greip Jóhanna enn til þess ráðs, að segja tillögur á borði hjá sér, sem eigi að koma í veg fyrir, að eitthvað sambærilegt hneyksli geti endurtekið sig. Heldur hún virkilega, að það breyti einhverju um stöðu hennar nú?
Sunnudagur, 06. 06. 10.
Að slá með rykgrímu er nýnæmi en ég greip til þess ráðs í dag. Við réðumst gegn öskunni í Fljótshlíðinni gær og hreinsuðum hið mesta af húsveggjum, gluggum og stéttum eins sjá má á þessari mynd. Birti innan dyra, eftir að gluggar höfðu verið þvegnir og léttist á okkur brúnin. Útsýni er meira en á föstudag.
Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort spunaliðum Jóhönnu tekst að tala fjölmiðlamenn frá hinu rétta um afskipti hennar af launamálum Más Guðmundssonar.
Fráleitt er, að nokkrum, sem þekkir til stjórnsýslunnar, detti í hug, að ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins hafi gengið frá launamálum Más, án þess að hafa umboð Jóhönnu, forsætisráðherra, til þess.
Að sjálfsögðu ganga mál ekki þannig fyrir sig í stjórnarráðinu, síst af öllu hjá Jóhönnu, sem er haldin sérkennilegri tortryggni um, að farið sé að bakvið sig. Það er ekki stórmannlegt af henni, þegar í óefni er komið, að skella skuld á embættismenn, og láta eins og þeir starfi án ábyrgðar hennar. Miðað við allt tal Jóhönnu á þingi í áranna rás ætti hún að vera vel meðvituð um hvað til hennar friðar heyrir í þessu einstæða máli.
Að forsætisráðherra lands segi þjóðþingi ósatt um afskipti sín af launakjörum seðlabankastjóra, sem forsætisráðherrann ræður til starfa, leiðir alls staðar til stjórnskipulegs uppnáms.
Laugardagur, 05. 06. 10.
Á mbl.is birtist í kvöld frétt um tölvupósta, sem sýna, að Jóhönnu Sigurðardóttur var fullkunnugt um, að Már Guðmundsson yrði ekki seðlabankastjóri, nema við hann yrði samið um hærri laun en forsætisráðherra. Einmitt þess vegna lagði Lára V. Júlíusdóttir, formaður stjórnar seðlabankans, til á sínum tíma, að laun Más yrðu hækkuð um 400 þúsund krónur. Loforðið til Más varð einnig tilefni þess, að frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar um kjararáð var breytt sumarið 2009 í þingnefnd undir formennsku Helga Hjörvars. Steingrímur J. hefur sagt frumkvæði að breytingunni hafa komið úr forsætisráðuneytinu.
Fyrir tæpum mánuði, eða hinn 8. maí sl. skrifaði ég pistil hér á síðuna, þar sem ég leiddi líkur að því, að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sagt alþingi ósatt um hlut sinn í launamáli Más. Pistill minn hófst á þessum orðum:
„Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa haft uppi stór orð um nauðsyn þess, að farið sé að ábendingum í hrunskýrslunni. Þau hafa einnig hreykt sér af því að hafa skapað seðlabankanum nýjan og ábyrgðarmeiri starfsgrundvöll. Umræður um launamál Más Guðmundsson hafa leitt í ljós, að hyldýpi er á milli gjörða og orða Jóhönnu og Steingríms J., þegar kemur að því að opna stjórnsýsluna og upplýsa almenning um, hvað þar er að gerast. “
Fréttin á mbl.is um tölvubréf Más, þar sem hann vísar til samtals við Jóhönnu um launamál sín og að hann geti ekki sætt sig við 37% lækkun þeirra, birtist sama dag og lesa má í Morgunblaðinu yfirlýsingu Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar alþingis, um að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki gefið Má nein „loforð um tiltekin launakjör.“
Eftir fréttina á mbl.is er ljóst, að Már Guðmundsson og Lára V. Júlíusdóttir verða að grípa til sérstakra ráðstafana til að endurreisa traust á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Jóhanna og Steingrímur J. hafa ekki skýrt frá málavöxtum á viðunandi hátt. Jóhanna hefur auk þess sagt ósatt á alþingi. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur reynt að afvegaleiða almenning með yfirlýsingum sínum.
Atli Gíslason, þingmaður vinstri grænna, stjórnar um þessar mundir þingnefnd, sem rannsakar ávirðingar ráðherra og stjórnenda seðlabankans. Hún hefur sent settum ríkissaksóknara kæru vegna þess, að rannsóknarnefnd alþingis taldi stjórnsýslureglum ekki fylgt í seðlabankanum, þegar allt íslenska bankakerfið lék á reiðiskjálfi. Það þarf enga rannsóknarnefnd heldur almenna skynsemi og ábyrgð til að átta sig á því, að þingmenn hafa brýnna verkefni á sínum herðum en samskipti ráðherra og seðlabankastjóra haustið 2008.
Föstudagur, 04. 06. 10.
Thorvald Stoltenberg ávarpaði fundinn í gær og greindi frá stöðu Stoltenberg-skýrslunnar um samstarf Norðurlanda í öryggis- og utanríkismálum. Honum finnst miða betur í anda skýrslunnar, en hann hafði vænst.
Icelandair flýgur beint til Helsinki og héldum við þaðan klukkan 15.20 og lentum hér klukkan 16.00 á íslenskan tíma, en þriggja stunda munur er á klukkunni hér og í Finnlandi.
Eftir heimkomu ók ég austur í Fljótshlíð og jókst öskufokið í loftinu eftir því sem nær dró Eyjafjallajökli. Grá öskuslikja er yfir öllu utan dyra. Gluggar eru svartir af ösku og óþrifnaður mikill.
Ég átta mig ekki á því, hvernig ég á að halda í horfinu með slætti við húsið. Víst er, að askan háir ekki sprettunni. Hestar og kindur eru á beit úti í hafa. Vonandi veldur askan þeim ekki skaða, eða litlu lömbunum og folöldunum.
Fimmtudagur, 03. 06. 10.
Miðvikudagur, 02. 06. 10.
í dag var sýnt viðtal mitt við Óskar Bergsson, fráfarandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, á ÍNN. Þar segir hann frá því, hvernig Einar Skúlason stóð að því að ná undirtökum á kjörfundi framsóknarmanna í Reykjavík með því að leggja fyrirvaralaust fram lista með 300 nýjum félagsmönnum.
Á bakvið Einar stóðu menn innan Framsóknarflokksins, sem telja sig hafa verið að færa hann meira inn á mölina eins og sagt er, en Guðmundur Steingrímsson er fulltrúi þeirra í þingflokki framsóknarmanna. Hann varð fyrstur til þess að kosningum loknum að ráðast á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, flokksformann, vegna úrslita sveitarstjórnakosninganna. Telja ýmsir framsóknarmenn, að Guðmundur eigi að líta sér nær, þegar hann ræðir um afhroð Framsóknarflokksins í Reykjavík undir forystu Einars Skúlasonar.
Flaug klukkan 13.15 frá Keflavík með Icelandair til Kaupmannahafnar og þaðan til Helsinki með SAS. Var kominn inn á ráðstefnuhótel í Hanaholmen klukkan 23.30 að finnskum tíma, 20.30 að íslenskum.
Þriðjudagur, 01. 06. 10.
Í tilefni af því, að Hjördís Hákonardóttir tilkynnti afsögn sína sem hæstaréttardómari, heldur Illugi Jökulsson áfram að skrifa ósannindi og spinna samsæriskenningar um embættaveitingar á vefsíðu sína. Ein kenning hans er í stuttu máli sú, að ég hafi skipað Ólaf Börk Þorvaldsson dómara í hæstarétt árið 2003, af því að ég hafi ekki skipað Ólaf Oddsson rektor Menntaskólans í Reykjavík árið 1995. Ólafur Oddsson sé hálfbróðir Davíðs, sem hafi reiðst vegna ákvörðunar minnar, og þess vegna hafi ég skipað Ólaf Börk, frænda Davíðs, í hæstarétt.
Þegar ég varð menntamálaráðherra vorið 1995 var embætti rektors Menntaskólans í Reykjavík laust. Ég hafði varla komið mér fyrir í ráðuneytinu, þegar bréf barst þangað frá skólanefnd MR, sem mælti einróma með Ragnheiði Torfadóttur í rektorsembættið. Skipaði ég hana. Að þetta setti einhvern skugga á samstarf okkar Davíðs er hugarburður Illuga.
Við Ólafur Oddsson unnum náið saman að málefnum stúdenta á háskólaárum okkar, þegar við sátum saman í stúdentaráði. Ég vissi vel um mikla hæfileika hans en vildi ekki ganga gegn einróma niðurstöðu skólanefndar.
Í áranna rás hefur oft verið deilt um skipan manna í hæstarétt. Ákvörðun mín um að skipa Ólaf Börk hæstaréttardómara byggðist á skýrum málefnalegum rökum. Sjö ára reynsla af dómarastörfum Ólafs Barkar er besta sönnunin fyrir því, að hann er starfinu vaxinn og skilar því með sóma.
Illugi Jökulsson fullyrðir, að ég hafi verið „dæmdur fyrir brot á jafnréttislögum“ fyrir að ganga fram hjá Hjördísi Hákonardóttur, þegar ég skipaði Ólaf Börk. Þetta er ekki rétt hjá Illuga. Kærunefnd jafnréttismála gaf álit, þar sem fram kom, að ég hefði farið á svig við jafnréttislögin. Ég andmælti þessu áliti nefndarinnar og taldi jafnréttislögin „barn síns tíma“, styddist álitið við þau, sem reyndist rétt, því að lögunum hefur verið gjörbreytt. Á hinn bóginn vann ég að því í samræmi við álit kærunefndarinnar að ná samkomulagi um viðundandi málalyktir við Hjördísi og gekk það eftir.
Í því felst dæmalaus langrækni af hálfu Illuga að tönnlast á þessum gömlu málum. Að Illugi kýs auk þess að fara rangt með staðreyndir, staðfestir enn óvildina, sem að baki býr. Illugi á heiður að verja sem sagnfræðingur og álitsgjafi. Fjalli hann með sama hugarfari um önnur mál, vara ég lesendur hans við að taka mark á nokkru því, sem frá honum kemur.
Hér á síðunni má með aðstoð réttra leitarorða lesa mikið efni, sem tengist skipun Ólafs Barkar í hæstarétt og máli Hjördísar Hákonardóttur.