4.6.2010

Föstudagur, 04. 06. 10.

Fundinum skammt fyrir utan Helsinki lauk um hádegisbilið. Þar kom skýrt fram, að Svíar hafa kastað hlutleysisstefnunni fyrir róða og skipa sér við hlið NATO, þótt enn dragist líklega, að þeir sæki um aðild að bandalaginu. Þá lýsti finnski varnarmálaráðherrann yfir því á dögunum, að Finnar gætu ekki staðið einir á hættustundu heldur þyrftu hjálp annarra.

Thorvald Stoltenberg ávarpaði fundinn í gær og greindi frá stöðu Stoltenberg-skýrslunnar um samstarf Norðurlanda í öryggis- og utanríkismálum. Honum finnst miða betur í anda skýrslunnar, en hann hafði vænst.

Icelandair flýgur beint til Helsinki og héldum við þaðan klukkan 15.20 og lentum hér klukkan 16.00 á íslenskan tíma, en þriggja stunda munur er á klukkunni hér og í Finnlandi.

Eftir heimkomu ók ég austur í Fljótshlíð og jókst öskufokið í loftinu eftir því sem nær dró Eyjafjallajökli. Grá öskuslikja er yfir öllu utan dyra. Gluggar eru svartir af ösku og óþrifnaður mikill.

Ég átta mig ekki á því, hvernig ég á að halda í horfinu með slætti við húsið. Víst er, að askan háir ekki sprettunni. Hestar og kindur eru á beit úti í hafa. Vonandi veldur askan þeim ekki skaða, eða litlu lömbunum og folöldunum.