Dagbók: maí 1999

Mánudagur 31.5.1999 - 31.5.1999 0:00

Ný ríkisstjórn kom saman til fyrsta fundar síns fyrir hádegið. Síðdegis hélt ég til Kaupmannahafnar á fund menntamálaráðherra Norðurlandanna.

Sunnudagur 30.5.1999 - 30.5.1999 0:00

Síðdegis fórum við Háteigskirkju og hlustuðum á Hamríhlíðarkórinn, sem var með kveðjutónleika fyrir för sína til Prag. Um kvöldið fór ég í Kaplakrika og fylgdist með landsleik Sviss og Íslands í handknattleik. Stóðu okkar menn sig frábærlega vel en þrátt fyrir níu marka sigur var okkur sagt, að þeir hefðu ekki náð áfram í Evrópukeppninni og gengum því fremur daprir í bragði af vellinum. Síðar um kvöldið kom svo í ljós, að sigur okkar manna yfir Kýpur tryggði þeim framgang. Er ótrúlegt, að reglur um leiki séu svo dularfullar og flóknar, að ekki sé unnt strax í í leikslok að skýra keppendum og áhorfendum frá niðurstöðunni.

Sunnudagur 29.5.1999 - 29.5.1999 0:00

Klukkan 13.30 var þess minnst við skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík, að hann er 125 ára. Þar flutti ég kveðju til skólans. Klukkan 17.00 vorum við Rut komin til Laugarvatns, þar sem ég tók fyrstu skóflustungu að hjónagörðum, sem Byggingarfélag námsmanna ætlar að reisa fyrir nemendur í íþróttaskor Kennaraháskóla Íslands. Sannast með því, að starfsemi Kennaraháskólans á Laugarvatni á eftir að styrkja staðinn sem skólasetur og efla byggð á honum.

Föstudagur 28.5.1999 - 28.5.1999 0:00

Ný ríkisstjórn mynduð.

Fimmtudagur 27.5.1999 - 27.5.1999 0:00

Þingflokkur, miðstjórn og flokksráð Sjálfstæðisflokksins samþykkja aðild að nýrri ríkisstjórn.

Miðvikudagur 26.5.1999 - 26.5.1999 0:00

Fórum að sjá leikriðið Abel Snorko býr einn á litlasviði Þjóðleikhússins, þar sem þeir Arnar Jónsson og Jóhann Sigurðsson flytja magnaðan texta af mikilli list.

Sunnudagur 23.5.1999 - 23.5.1999 0:00

Smáþjóðaleikar í Liechtenstein

Föstudagur 21.5.1999 - 21.5.1999 0:00

Fórum um kvöldið til Hveragerðis og vorum við upphaf tónlistarhátíðarinnar Bjartar nætur.

Fimmtudagur 20.5.1999 - 20.5.1999 0:00

Síðdegis fórum við í Ásmundarsafn, þegar það var opnað að nýju eftir að búið hafði verið um höggmyndirnar í garði þess með betri hætti en áður.

Þriðjudagur 18.5.1999 - 18.5.1999 0:00

Þingsetning eftir hádegið og umræður um stefnuræðu á kvöldfundi.

Mánudagur 17.5.1999 - 17.5.1999 0:00

Síðdegis fórum við Rut í 20 ára afmælishóf Íþróttasambands fatlaðra og flutti ég þar stutta afmæliskveðju.

Laugardagur 15.5.1999 - 15.5.1999 0:00

Um hádegið hófst hátíðarfundur Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs vegna 50 ára afmælis NATO.

Föstudagur 14.5.1999 - 14.5.1999 0:00

Síðdegis efndi Fulbright-stofnunin til samkvæmis með íslenskum og bandarískum styrkþegum sínum. Undanfarin ár höfum við Íslendingar aukið framlag okkar til stofnunarinnar og þar með gert fleirum en áður kleift að stunda nám í Bandaríkjunum fyrir utan að festa Fulbright-stofnunina í sessi hér á landi. Er gleðilegt að fylgjast með því, hve góðir háskólar í Bandaríkjunum sækjast eftir að fá íslensku umsækjendurna. Þá sýnir árangur Íslendinga í hinum samræmdu prófum, sem umsækjendur um vist í bandarískum háskólum þurfa að taka, að almennt standa þeir vel að vígi í þeirri hörðu, alþjóðlegu samkeppni. Um kvöldið bauð ég Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni með mér á frumsýningu á sönleiknum Rent, sem Þjóðleikhúsið sýnir í Loftkastalanum undir leikstjórn Baltasar Kormáks.

Fimmtudagur 13.5.1999 - 13.5.1999 0:00

Klukkan rúmlega átta um morguninn sótti ég Gunnar Eyjólfsson leikara og fórum við saman í morgunmessu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði eins og við gerum saman nokkrum sinnum á ári. Skömmu eftir för mína í Páfagarð fór ég í klaustrið og ætlaði að segja nunnunum frá Rómarferðinni en það gekk ekki eftir. Að þessu sinni gáfu nunnurnar sér hins vegar góðan tíma til að ræða við okkur og spurðu þær meðal annars um úrslit kosninganna. Pólsku Karmelnunnurnar héðan hafa stofnað klaustur í Tromsö í Noregi og einnig eflt klausturstarf í Bremen í Þýskalandi. Klaustrið hér er vinsælt og komast færri að en vilja. Er mikil blessun að slíkur griðastaður skuli til í landi okkar.

Þriðjudagur 11.5.1999 - 11.5.1999 0:00

Að loknum ríkisstjórnarfundi kom ríkisráðið saman klukkan 12.00 að Bessastöðum. Þar kvöddu þeir Þorsteinn Pálsson og Guðmundur Bjarnason formlega ríkisstjórnina og forseta Íslands. Jafnframt skýrði Davíð Oddsson frá því að ríkisstjórnin myndi sitja áfram og nota tímann fram að mánaðamótum til að ræða málefni og frekara samstarf flokkanna, sem að henni standa.

Mánudagur 10.5.1999 - 10.5.1999 0:00

Nýr þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 16.00. Var það fagnaðarfundur, þar sem menn glöddust yfir góðu gengi í kosningunum. Um kvöldið fórum við síðan út í Viðey og snæddum kvöldverð saman.

Laugardagur 8.5.1999 - 8.5.1999 0:00

Eftir að við Rut höfðum kosið fór ég í kosningamiðstöðina í Skipholti, þar sem var samastaður minn á kjördag, fyrir utan að eftir hádegi heimsóttum við Rut allar kosningaskrifstofur flokksins í borginni. Þar var mikill fjöldi fólks við störf. Um kvöldið var síðan kosningahátíð á Broadway fram eftir nóttu.

Föstudagur 7.5.1999 - 7.5.1999 0:00

Klukkan 10 var ég í Hveragerði og setti vorráðstefnu Nýherja hf. á Hótel Örk. Klukkans 11.30 var ég í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og ritaði undir samning um að hann tæki að sér í tilraunaskyni að bjóða nám á nýrri bóknámsbraut í upplýsinga- og tæknimennt. Klukkan 12.00 var ég á kosningafundi í Landsvirkjun. Síðdegis fór í Kringluna til að boða sjálfsstæðisstefnuna.

Fimmtudagur 6.5.1999 - 6.5.1999 0:00

Klukkan 12.00 var kosningafundur hjá Verk- og tæknifræðingafélagi Íslands. Um kvöldið fór ég í Kristskirkju og hlustaði á Vox Feminae syngja.

Miðvikudagur 5.5.1999 - 5.5.1999 0:00

Dagurinn hófst á því klukkan 8 eins og venja var síðustu vikurnar fyrir kosningar, að við efstu menn á D-listanum hittumst í Valhöll, bárum saman bækur okkar og skipulögðum starfið. Síðan var ég í viðtölum í ráðuneytinu fram yfir hádegi. Fór síðan í Kringluna síðdegis og tók þar þátt í því að kynna stefnu okkar sjálfstæðismanna.

Þriðjudagur 3.5.1999 - 3.5.1999 0:00

Klukkan 12.00 var athöfn í kaffihúsinu Vegamótum, þar sem ég afhenti Frelsispennan, verðlaun í ritgerðasamkeppni Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hlaut Eyþóra Hjartardóttir í 5. bekk í Verslunarskóla Íslands verðlaunin. Klukkan 14.00 fór ég á fund SAMSTARFS, samstarfsnefndar um starfsmenntun á framhaldsskólastigi, og ræddum við um hvað áunnist hefur á þessu sviði undanfarin tvö ár. Klukkan 15.30 skrifuðum við Hjálmar H. Ragnarsson rektor Listaháskóla Íslands undir samstarfssamning ráðuneytisins og skólans, sem byggðist á þeirri ákvörðun, að skólinn tæki að sér rekstur Myndlista- og handíðaskólans frá næsta hausti. Klukkan 18.00 var ég á hverfaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins við Suðurlandsbraut en þar var ég til 19.00 og einnig á sama tíma daginn eftir en liður í kosningabaráttunni var, að tvo daga í viku á þessum tíma skyldum við frambjóðendur vera á einhverri hverfaskrifstofanna. Klukkan 20.45 fór ég á sjónvarpsstöðina Skjá 1 og tók þar þátt í umræðum um spillingu í opinberu lífi við Jóhönnu Sigurðardóttur og Ólaf Örn Haraldsson Framsóknarflokki undir stjórn Egils Helgasonar, ritaði ég grein í Morgunblaðið, sem birtist fimmtudaginn 6. maí í tilefni af þessum umræðum.

Mánudagur 3.5.1999 - 3.5.1999 0:00

Klukkan 12.15 var kosningafundur í Kennaraháskóla Íslands. Klukkan 17.00 var kosningafundur á Hótel Borg, þar sem Bandalag íslenskra listamanna bauð öllum framboðum að senda fulltrúa sína til að ræða um menningarmál. Var fundurinn vel sóttur og stóð fram yfir klukkan 19.00 Klukkan 19.50 var ég í umræðum um Ísland og Evrópusambandið í beinni útsendingu á Stöð 2 við Ágúst Einarsson, þingmann fylkingarinnar, sem ekki náði endurkjöri.

Sunnudagur 2.5.1999 - 2.5.1999 0:00

Síðdegis fór ég í Reykholt í Borgarfirði og tók þar þátt í kosningafundi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Vesturlandskjördæmi.

Laugardagur 1.5.1999 - 1.5.1999 0:00

Klukkan 11.00 fór ég í Þjóðarbókhlöðuna og hlustaði á fróðleg erindi um Jón Leifs í tilefni af aldarafmæli hans og tók þátt í því að opna vefsíðu um tónskáldið. Klukkan 14.00 hófust hátíðartónleikar Tónskáldafélags Íslands og Kammersveitar Reykjavíkur í tilefni af afmæli Jóns Leifs í Þjóðleikhúsinu. Þar flutti ég ávarp.