3.5.1999 0:00

Þriðjudagur 3.5.1999

Klukkan 12.00 var athöfn í kaffihúsinu Vegamótum, þar sem ég afhenti Frelsispennan, verðlaun í ritgerðasamkeppni Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hlaut Eyþóra Hjartardóttir í 5. bekk í Verslunarskóla Íslands verðlaunin. Klukkan 14.00 fór ég á fund SAMSTARFS, samstarfsnefndar um starfsmenntun á framhaldsskólastigi, og ræddum við um hvað áunnist hefur á þessu sviði undanfarin tvö ár. Klukkan 15.30 skrifuðum við Hjálmar H. Ragnarsson rektor Listaháskóla Íslands undir samstarfssamning ráðuneytisins og skólans, sem byggðist á þeirri ákvörðun, að skólinn tæki að sér rekstur Myndlista- og handíðaskólans frá næsta hausti. Klukkan 18.00 var ég á hverfaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins við Suðurlandsbraut en þar var ég til 19.00 og einnig á sama tíma daginn eftir en liður í kosningabaráttunni var, að tvo daga í viku á þessum tíma skyldum við frambjóðendur vera á einhverri hverfaskrifstofanna. Klukkan 20.45 fór ég á sjónvarpsstöðina Skjá 1 og tók þar þátt í umræðum um spillingu í opinberu lífi við Jóhönnu Sigurðardóttur og Ólaf Örn Haraldsson Framsóknarflokki undir stjórn Egils Helgasonar, ritaði ég grein í Morgunblaðið, sem birtist fimmtudaginn 6. maí í tilefni af þessum umræðum.