Dagbók: september 2005

Föstudagur, 30. 09. 05. - 30.9.2005 1:49

Ríkisstjórnarfundur klukkan 09.30 í Ráðherrabústaðnum en ákveðið hefur verið að föstudagsfundir ríkisstjórnarinnar verði þar.

Fór til Stykkishólms en klukkan 20.30 sátum við ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þar fyrir svörum á þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna í 90 mínútur.

Fyrirspurnir voru allar málefnalegar og snerust nokkrar þeirra um tónlistarhúsið, meðal annars um það, hvers vegna verið væri að reisa sérstakt óperuhús í Kópavogi samhliða tónlistarhúsi. Í tíð minni sem menntamálaráðherra sögðu forráðamenn Íslensku óperunnar, að þeir vildu vera áfram í Gamla bíói. Undir lok menntamálaráðherraferils míns í febrúar 2002 ákvað ég að það yrði hljómsveitargryfja í stóra tónlistarsalnum og ljósabúnaður, svo að unnt væri að sviðsetja óperu í salnum, en hann er hannaður til flutnings á tónlist en ekki óperum sérstaklega og nú hefur Portus ákveðið, að í honum verði einnig fullokmið konsertorgel, en það mun setja mikinn svip á salinn.

Ég var aðeins spurður einnar spurningar, það er um störf nefndar um breytingar á stjórnarráðinu og sagði ég, að hún væri um þessar mundir aða fara yfir tillögur frá fyrri árum um þetta efni, en ég væri viss um, að ráðuneytum yrði aldrei fækkað í sex, en því hefur verið hreyft.

Var komin heim aftur tæplega 01.00

Fimmtudagur, 29. 09. 05. - 29.9.2005 20:57

Var við þyrluæfingar sérsveitarinnar í Hvalfirði síðdegis, en gæsluþyrlan Sif var þar að þjálfa nýliða sveitarinnar í sigi og öðru er varðar notkun þyrlu við þær aðstæður, sem kunna að kalla á afskipti sérsveitarmanna.

Tveir menn láta þess getið í blöðum í dag, að þeir séu nýkomnir til landsins frá útlöndum og verður það þeim tilefni til að segja álit sitt á forsíðu DV síðastliðinn mánudag, 26. september, þegar vikið var að einkamálum Styrmis Gunnarssonar og Jónínu Benediktsdóttur.

Annar þessara manna er Jóhannes Jónsson eigandi Baugsmiðlanna, þar á meðal DV, hann segir í smágrein í Fréttablaðinu í dag: „Við komu mína til landsins á þriðjudaginn sá ég forsíðufrétt DV 26. september. Mér finnst hún vera langt utan við það sem réttlætanlegt er. Um leið og ég lýsi sárum vonbrigðum mínum með „fréttina“ þá vona ég að hér hafi verið um mistök að ræða.“

Hinn er Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV. Hann segist einnig hafa komið til landsins eftir að fréttin birtist á forsíðu blaðs hans 26. september. Hann segir í DV í dag, að fréttin 26. september varði „auðvitað“ Baugsmálið - auk þess „þurfi þjóðin DV“ til að upplýsa um einkamál á þann veg, sem gert var á forsíðu þess 26. september.

Jónas tekur af skarið um, að forsíðufréttin 26. september hafi ekki verið mistök. Ritstjórinn telur, að með fréttinni hafi DV verið að sinna mikilvægu hlutverki með því að upplýsa um það, sem „haldið er leyndu, af því að það er ekki til siðs að fjalla um einkamál.“

Skyldi eigandi Baugs fela forstjóra Haga að taka upp viðræður við ritstjórn DV til að ræða um viðskipti með auglýsingar í því skyni að koma í veg fyrir fleiri slík „mistök“ í DV? Slík fyrirmæli voru gefin forstjóra Haga til að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins.

Miðvikudagur, 28. 09. 05. - 28.9.2005 21:41

Var með viðtöl fyrir hádegi eins og venjulegt er. Davíð Oddsson sagði í Kastljósi í gærkvöldi, að sér hefðu þótt viðtalstímarnir sem borgarstjóri hvað erfiðastir í stjórnmálastarfi sínu, þegar hann hitti allt að 50 manns í tveimur viðtalstímum í viku. Sérstaklega hefði verið erfitt, þegar ekki var unnt að veita viðmælandanum neina úrlausn, en oft hefði það verið lokaúrræði fólks í vanda að óska eftir að leggja hann fyrir borgarstjórann.

Ég get tekið undir með Davíð, að oft tekur á, að geta ekki brugðist við vanda þeirra, sem koma með erindi sín. Það eru allt annars konar mál, sem menn bera undir dómsmálaráðherra í slíkum viðtalstímum en undir menntamálaráðherra, en miklu fleiri óskuðu eftir að hitta mig sem menntamálaráðherra. Vandinn þar var að láta ekki of langan biðlista myndast, það er auðvelt að koma í veg fyrir slíkt í dómsmálaráðuneytinu.

Breski Verkamannaflokkurinn heldur árlegt flokksþing sitt um þessar mundir. Sky-sjónvarpsstöðin var með það sem aðalfrétt af þinginu í dag, að 82 ára gömlum manni hefði verið vísað úr fundarsalnum fyrir að hafa kallaði frammí, þegar Jack Straw utanríkisráðherra var að ræða um ástandið í Írak - sýndar voru myndir, þegar gamla manninum er vísað út og vígalegir öryggisverðir handtaka ungan mann, sem var hlið hins gamla. Féttamaður Sky sagði þetta versta PR-mál fyrir Verkamannaflokkinn í mörg ár.

Frá því í fyrsta fréttatíma í morgun og fram eftir öllum degi og raunar fram á kvöld sagði fréttastofa hljóðvarps ríkisins okkur frá því, að stjórnarformaður Baugs, staddur í London, íhugaði að krefjast rannsóknar á meintu samsæri gegn fyrirtækinu. Sem betur fer er það óvenjulegt, að fyrsta frétt sé, að einhver sé að íhuga eitthvað, því að þætti slíkt almennt fréttnæmt, kæmist lítið annað að í fréttatímum.

Þriðjudagur, 27. 09. 05. - 27.9.2005 16:38

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun klukkan 09.30 og var terta á borðum í tilefni af því, að þetta var síðasti ríkisstjórnarfundur Davíðs Oddssonar. Mörg mál voru til umræðu eins og venja er, þegar dregur að því að alþingi komi saman til fundar.

Klukkan 14.00 var fundur ríkisráðinu á Bessastöðum. Hann var tvískiptur - á fyrri hluta hans báru ráðherrar upp tillögur til forseta Íslands og Davíð var kvaddur. Eftir að hann var farinn af fundi rúmlega klukkan 15 kom Einar K. Guðfinnsson alþingismaður á fundinn. Gengið var formlega frá skipan hans í embætti sjávarútvegsráðherra, Geir H. Haarde varð utanríkisráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.

Þegar Davíð gekk út af ríkisstjórnarfundi í morgun sátu fréttamenn fyrir honum og gagnrýndi hann harðlega framgöngu Baugsmiðlanna í Baugsmálinu. Davíð sagði orðrétt: „Og auðvitað þegar maður hefur séð hvernig Baugsmiðlarnir eru misnotaðir með hætti, sem maður hefur ekki séð á Vesturlöndum og jafnvel ekki annars staðar heldur, þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort önnur fyrirtæki, sem sömu aðilar eiga, séu misnotuð með sama hætti."

Blaðið stendur á hliðarlínunni og segir í forystugrein í dag, að trúverðugleiki 365 miðla (það er Baugsmiðlanna) í Baugsmálinu sé að engu orðið: „Fingraför eigendanna sjást langar leiðir. Að vera eigandi án ábyrgðar gengur einfaldlega ekki upp þegar fjölmiðlar eru annars vegar. Að tala um ábyrgð í sömu setningu og minnst er á nafn Gunnars Smára Egilssonar upplýsingafulltrúa Baugs er eins og hvert annað grín. Það er því rétt að halda nafni hans fyrir utan umræðuna.“

Skýring: Gunnar Smári er forstjóri 365 miðla en Blaðið segir í þessum orðum, að hann sé þar sem upplýsingafulltrúi Baugs og ábyrgðin sé hjá eigendum Baugs.

Blaðið telur ólíklegt, að Blaðamannafélag Íslands taki á þeim hnekki, sem íslensk blaðamennska hefur beðið, enda félagið byggt upp af starfsmönnum Baugs. Síðan segir Blaðið: „Það er hins vegar full ástæða fyrir Alþingi Íslendinga að taka upp að nýju umræðu um fjölmiðlalög. Það einfaldlega gengur ekki lengur að menn fái óáreittir að nauðga rit- og prentfrelsi í þágu eigenda sinna. Baugsmenn og starfsmenn þeirra hafa orðið sér til ævarandi skammar.“

Mánudagur, 26. 09. 05. - 26.9.2005 22:09

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 13. 30 í Valhöll. Þar sagði Einar K. Guðfinnsson af sér sem þingflokksformaður, þar sem hann er að verða sjávarútvegsráðherra en Arnbjörg Sveinsdóttir var einróma kjörin í hans stað. Þetta var einnig síðasti fundur þingflokksins, sem Davíð Oddsson sat sem þingmaður, en Ásta Möller kemur í hans stað. Þá kvaddi Gunnar I. Birgisson þingflokkinn en hann er orðinn bæjarstjóri í Kópavogi og tekur Sigurrós Þorgrímsdóttir við af honum.

Mér þótti fréttamenn hljóðvarps ríkisins taka sig á í kvöldfréttunum af Baugsmálinu, þeir voru hættir að lesa upp eða endursegja fréttir Fréttablaðsins en um helgina og í morgun hefði mátt ætla, að Kári Jónasson hefði ekki látið af störfum sem fréttastjóri hljóðvarpsins, þegar hann varð ritstjóri Fréttablaðsins, því að laugardag og sunnudag hafa fréttamenn lítið lagt annað til Baugsmála en frásagnir Fréttablaðsins.

Mér er sagt, að Hallgrímur Helgason, höfuðskáld Baugs, hafi lagt það til í sjónvarpsviðtali í morgun, að þjóðin losaði sig við okkur ráðherranna eins og lýs og flær.

Styrmir Gunnarsson hélt fund með starfsmönnum Morgunblaðsins í dag og lýstu þeir stuðningi við hann og hann ætlar ekki að segja af sér, honum þyki gaman að vinna á blaðinu. Þá er að sjá, hvort Baugsmenn grípi til viðskiptabanns á Morgunblaðið.

Og vódafón ætlar sjálft að óska eftir rannsókn á öryggi tölvupóstkerfanna hjá sér - en engin skýring hefur fengist á því, hvernig Fréttablaðið hefur komist yfir einka-tölvubréf til birtingar - Sigurður G. Guðjónsson sagði réttilega í Kastljósi í kvöld, að ekki væri unnt að sjá hvaða almannaheill kallaði á birtingu þessara tölvubréfa.

Jón Gerald Sullenberger gerði forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag að engu, þegar hann sagðist hafa veitt Jóni Steinari Gunnlaugssyni heimild til að senda einhver gögn til Styrmis Gunnarssonar. Hvers vegna skyldi Fréttablaðiö ekki hafa leitað staðfestingar á réttmæti fréttar sinnar, áður en hún var birt?

Tölvubréf, sem ég fæ, benda til þess, að almenningur geri sér sífellt gleggri grein fyrir því, hve alvarlegt er, að samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum og fjarskiptafyrirtæki sé jafnmikil og raun ber vitni auk hættunnar á því að eigendavaldinu sé misbeitt í eigin þágu.

Sunnudagur, 25. 09. 05. - 25.9.2005 21:07

Veðurblíðan hélt áfram fyrir austan, þótt heldur væri kaldara vegna meiri norðanáttar - það var vetrarlegt á Hellisheiðinni, þótt ekki væri þar hálka og nú virðist styttast í nýi vegurinn í gegnum Svínahraun komi til sögunnar.

Hvert eru Baugsmiðlarnir að fara með þessum fréttum af tölvubréfum Styrmis Gunnarssonar? Og síðan er gefið til kynna, að þeir ætli að hætta að auglýsa í Morgunblaðinu. - Þetta er ekki ný aðferð hjá þeim, í ágústhefti Mannlífs stóð þetta:

„Sigurður (G. Guðjónsson) segir að gleggsta dæmið sem hann þekki um að forsvarsmenn Baugs hafi viljað beita valdi sínu á fjölmiðla sé tölvupóstur sem sér hafi borist haustið 2002. Það var eftir viðtal Þórhalls Gunnarssonar og Jóhönnu Vilhjálmsdóttur við Jóhannes í Bónus í Ísland í bítið á Stöð 2. Þáttastjórnendur lögðu fram gögn sem sýna áttu óeðlilega hækkun vöruverðs á leiðinni frá Bandaríkjunum í verslanir Baugs og gagnrýndu Baug mikið og deildu hart við Jóhannes. „Jón Ásgeir sendi mér tölvupóst strax eftir þáttinn og tilkynnti að Baugur myndi ekki auglýsa í fjölmiðlum Norðurljósa framar. Svo þakkaði hann fyrir að til væri Ríkisútvarp,“ segir Sigurður.“

Upplýst er, að Jónína Benediktsdóttir efndi til kvöldverðar með Ingibjörgu Sólrúnu og Stefáni Jóni í baráttu hennar til að upplýsa sem flesta um framferði Baugsmanna og leita eftir stuðningi. Jónína hefur hins vegar aldrei rætt við Davíð Oddsson. Sigmundur Ernir var einnig meðal þeirra, sem Jónína hitti, en hann var þá fréttastjóri á DV en nú á Stöð 2.

Ég er viss um, að þeim fjölgar stöðugt, sem átta sig ekki á því, hverju verið er að þjóna með því að ræða Baugsmálið á þann veg, sem Fréttablaðið hefur kosið að gera og greinilega undir samræmdi stjórn innan 365 miðla, eða Baugsmiðlanna, því að þeir boða sitt á hvað, að ný stórtíðindi séu í vændum. Hvers vegna er ekki látið nægja, að málið hafi sinn gang fyrir dómstólunum?

Laugardagur, 24. 09. 05. - 24.9.2005 22:48

Var í einstakri veðurblíðu austur í Fljótshlíð og sinnti haustverkum, en á leiðinni austur í gær vottaði fyrir skafrenningi á Hellisheiði.

Fylgdist með fréttum af síðasta útspili Baugsmiðlanna vegna ákærunnar á hendur eigendum þeirra og skrifaði pistil um málið. Mér skilst, að mikil undrun sé víða yfir því, hvað þeir ganga langt í því skyni að reyna að gera hlut sinn sem bestan á kostnað annarra með samsæriskenningum og kröfum um að hinn og þessi sé rekinn eða sviptur embætti.

Föstudagur, 23. 09. 05. - 23.9.2005 22:19

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 09.30 og sat Davíð Oddsson í forsæti í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar, sem er í fríi. Rætt um mál, sem Davíð vill afgreiða á næsta ríkisstjórnarfundi, 27. september, sem verður hans síðasti, en sama dag verður ríkisráðsfundur og hádegisverður á Bessastöðum.

Klukkan 10.00 var ég kominn á hótel Sögu til að flytja ræðu á fundi sýslumannafélagsins. Ræðan var ekki skrifuð en í henni fór ég yfir helstu mál á dagskrá ráðuneytisins, sem snerta sýslumenn auk þess að ræða nauðsyn þess, að ráðuneytið og embætti á þess vegum svöruðu opinberlega gagnrýni í þeirra garð. Þannig væri ljóst, að viðbrögð starfsmanna embættis ríkislögreglustjóra hefðu skýrt stöðu Baugsmálsins fyrir almenningi fyrir utan að vekja reiði hinna ákærðu.

Fylgdist með því í Íslandi í dag á Stöð 2, hvernig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reyndi að tala sig frá dylgjum hennar um lögregluna. Þótt hún tali endalaust, er ljóst, að hún vék á ósæmilegan hátt að lögreglunni í útvarpsfréttum miðvikudaginn 21. september. Sá einnig Hallgrím Helgason rithöfund í Kastljósi, en hann er eins og Ingibjörg Sólrún haldinn þeirri trú, að eitt stórt póltiískt samsæri sé að baki andrúmslofti og lögreglurannsókninni á Baugi og þótt hann viðurkenni, að í raun hafi hann ekkert fyrir sér annað en eigið hugboð, lætur hann ekki af ásökunum sínum. Ef einhverjir eru sífellt að reyna að búa til andrúmsloft í kringum Baugsmálið og tengja það stjórnmálum eru það þeir, sem ræða um það eins og Ingibjörg Sólrún og Hallgrímur.

Fimmtudagur, 22. 09. 05. - 22.9.2005 19:25

Var í hádeginu í Foreldrahúsi og kynntist því góða starfi, sem þar er unnið.

Klukkan 17.00 efndu Landssamband sjálfstæðiskvenna og Samband ungra sjálfstæðismanna til fundar í Valhöll um heimilisofbeldi og var ég þar framsögumaður auk Drífu Snædal, framkvæmdastýru Kvennaathvarfs, og Róberts Spanó, formanns refsiréttarnefndar. Fundurinn var vel sóttur og margir lögðu fyrir okkur fyrirspurnir.

Morgunblaðið gerði hinu glæsilega tónlistarhúsi verðug skil í blaðinu í dag. Ég kveikti ekki á því fyrr en í dag, að Portus ætlar að hafa fyrsta flokks orgel í tónlistarsalnum stóra, en það er umfram kröfur, sem gerðar voru í útboði, þannig að salurinn stenst þá enn betur bestu sölum snúning.

Þá hefur einnig tekist, sem að var stefnt, að fá fyrsta flokks aðila til að standa að rekstri hótelsins og verður þarna W hótel, en þau eru að ryðja sér rúms víða.

 

Miðvikudagur, 21. 09. 05. - 21.9.2005 22:01

Fjölmiðlamenn óskuðu í dag eftir áliti mínu á framvindu Baugsmálsins og vísuðu til þess, sem Össur Skarphéðinsson sagði á vefsíðu sinni, þar sem hann fór ókvæðisorðum um ríkislögreglustjóra og samstarfsmenn hans. Ég svaraði þessu á þennan veg: „Vefsíða Össurar er góðra gjalda verð og hann viðrar þar skoðanir sínar, oft skemmtilega en stundum að því er virðist í dálitlu fljótræði. Í þessu tilviki er Össur til dæmis alltof hvatvís í dómum sínum en hann á eins og aðrir að gefa réttarkerfinu tíma til að vinna sitt verk. Árás Össurar á æðstu menn embættis ríkislögreglustjóra líkist óðagotsbréfi.“

Klukkan 15.00 var kynnt niðurstaða í vali á framkvæmdaaðila vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn. Athöfnin var í Þjóðmenningarhúsinu og varð fyrirtækið Portus fyrir valinu. Mér finnst tillagan glæsileg og er sannfærður um að húsið verður sú lyftistöng fyrir menningar- og þjóðlíf, sem ég hef vænst frá fyrsta degi síðan ég tók að mér að vinna að þeirri hugmynd að reist skyldi tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel á þessum stað.

Það var ríkisstjórnin, sem knúði á um að til þess yrði gengið að framkvæma drauminn um tónlistarhús og í janúar 1999 var kynnt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um málið að tillögu minni. Á árinu 2000 var ég í New York og fór þá í heimsókn til hljómburðarfyrirtækisins Artec, sem hafði verið til ráðgjafar við undirbúning verksins og hefur haldið því hlutverki síðan. Artec kom til sögunnar sem ráðgjafi, eftir að ég hafði rætt þetta mál við Vladimir Ashkenazy skömmu eftir að ég varð menntamálaráðherra árið 1995 og hóf að undirbúa málið. Mér þótti gleðilegt að sjá, að Ashkenazy er listrænn ráðgjafi Portus. Við Íslendingar eigum engan í okkar hópi, sem hefur meiri reynslu af tónlistarhúsum en Ashkenazy.

Markmiðið er að hið nýja hús verði risið árið 2009 og nú hafa verið valdir öflugir einkaaðilar til að hrinda þeim áformum í framkvæmd. Ég held, að enginn geti á þessari stundu gert sér grein fyrir því, hvaða breyting verður á Reykjavík við þessar framkvæmdir. Við erum á leið inn á nýtt stig í mannvirkjagerð og munum eignast hús og tónlistarsal, sem stenst hinu besta í heiminum snúning.

Þriðjudagur, 20. 09. 05. - 20.9.2005 21:23

Borgarstjórnarfundur hófst klukkan 14.00 og stóð til tæplega 18.00. Meðal umræðuefna var tillaga okkar sjálfstæðismanna undir forystu Kjartans Magnússonar um að reist skyldi stytta af Tómasi Guðmundssyni skáldi í Hljómskálagarðinum eða þar um slóðir. Áttum við von á því, að tillögunni yrði vel tekið og síðan unnið að framkvæmd hennar. Annað varð þó uppi á teningnum, því að Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók þessu frekar þunglega vegna þess, hve margar styttur væru af körlum í borginni og fáar af konum undir forsjá Reykjavíkurborgar. Nefndi hún raunar aðeins eina brjóstmynd af íslenskri konu, það er af dr. Björgu C. Þorláksson, sem stendur við Odda, hús Háskóla Íslands, og var afhjúpuð við hátíðlega athöfn 17. júní 2001, þegar 75 ár voru liðin frá doktorsvörn Bjargar. Ég var við þessa athöfn og skil ekki vel, hvernig Reykjavíkurborg getur eignað sér eitthvað í þessari styttu, því að Félag íslenskra háskólakvenna, Kvenréttindafélag Íslands, Vísindafélag Íslendinga auk ættingja Bjargar stóðu að þessu framtaki og styttunni var valinn staður á svæði Háskóla Íslands. Ég gagnrýndi ræðu borgarstjóra og taldi hana vera að blanda tveimur óskyldum málum saman og sýna minningu Tómasar óvirðingu með því að setja tillögu um styttu af honum í þetta ljós. Borgarstjóri dró síðan heldur í land og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reyndi að leggja henni lið með misheppnuðu gríni um borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og ágæti R-listans, eins og hann væri enn við lýði.

Hitt helsta umræðuefnið var um Háskólann í Reykjavík milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar en þar hafði Dagur B. Eggertsson yfirlætisfulla og sjálfumglaða framsögu fyrir hönd meirihlutans. Enn var staðfest í umræðunum, hve flumbrungangurinn og auglýsingamennskan er mikil í kringum þetta mál. Ég áréttaði þá skoðun mína, að ekki væri nægilega vel hugað að umhverfisvernd með þessum ráðagerðum og hvatti enn til þess, að efnt yrði til umhverfismats. Rökræður um málið við Dag reyndust tilgangslausar, því að hann snerist til varnar á svo ómálefnalegan hátt.

Lesa meira

Mánudagur, 19. 09. 05. - 19.9.2005 22:41

Sat fundi mestan hluta vinnudags míns í ráðuneytinu auk þess sem ég var á einum fundi í ráðhúsinu með borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.

Það fer að sjálfsögðu að setja einhvern svip á fundi borgarstjórnarflokksins, að prófkjörið nálgast, samstarfsandinn er hins vegar svo góður, að allt verður þar með góðum friði. Við erum  þrír borgarfulltrúar, sem gefum ekki kost á okkur í prófkjörinu: Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og ég. Það verður því töluverð endurnýjun í borgarstjórnarflokknum en auk okkar borgarfulltrúanna eru einnig varaborgarfulltrúar á þessum fundum okkar. Ég hef haft mikla ánægju af því að starfa með þessu góða fólki og það hefur verið skemmtileg reynsla að vera annars vegar í meirihluta á alþingi og hins vegar í minnihluta í borgarstjórn.

 

Sunnudagur, 18. 09. 05. - 18.9.2005 22:24

Var í réttunum í Fljótshlíðinni frá 10 til 12. Það rigndi dálítið og þoka lá yfir fjöllunum. Þannig veður hefði verið grábölvað í leitunum í gær.

Var að velta því fyrir mér, þegar ég hlustaði í dag á langa frétt í hljóðvarpi ríkisins um launagreiðslur og fundarsetur bankaráðsmanna Seðlabanka Íslands, hvort ný fréttastefna hefði komið með nýjum fréttastjóra. Fréttin sjálf, framsetning og flutningur var á þann veg, að illa samrýmdist því, sem maður er vanur úr þessari átt. Hið sama þótti mér á föstudag, þegar sagt var frá lendingu fjögurra Harrier orrustþotna á Reykjavíkurflugvelli. Þá var engu líkara en leitast væri við að gera ferðir þeirra eitthvað tortryggilegar eða að minnsta kosti hefðu flugmennirnir sýnt af sér of mikla varkárni miðað við ferðir farþegaþotna.

Laugardagur, 17. 09. 05. - 17.9.2005 22:59

Fór rúmlega 07.00 af stað í göngur með nágrönnum mínum í Fljótshlíðinni. Veðrið var eins og best verður á kosið. Þetta var í fjórða sinn, sem ég fer í göngurnar en núna var ég í fyrsta sinn á eigin hesti. Gekk það vel miðað við, að hann hefur lítið sem ekkert verið notaður í sumar fyrir utan að fara með í þriggja daga göngur um síðustu helgi. Hann hefur greinilega ekki verið taminn með langferðir af þessum toga í huga. Ég var komin heim að nýju rúmlega 18.00.

Sé, að fréttir snúast enn um yfirlýsingu forsætisráðherra um framboð Íslands til setu í öryggisráðinu og nú ganga forystumenn Framsóknarflokksins fram fyrir skjöldu og telja óvissu ríkja um málið. Þegar ríkisstjórnin ákvað framboðið 1998, var að sjálfsögðu ljóst, að það yrði kostnaðarsamt. Síðan hefur efnahagur þjóðarinnar batnað og enn traustari grunnur verið lagður að hagvexti en þá var í vændum.

Þegar ég íhuga þetta mál, finnst mér í raun meiri áhætta felast í því, að hverfa frá ákvörðuninni frá 1998 en halda fast í hana. Með því að snúa við blaðinu væri gefin yfirlýsing um, að Ísland treysti sér ekki til annars en standa á hliðarlínunni í alþjóðastjórnmálasamstarfi. Væri skynsamlegt fyrir sjórnvöld að gefa slíka yfirlýsingu á sama tíma og lögð er áhersla á útrás á öllum sviðum?  

Í ljósi ákvörðunarinnar 1998 og ræðu Geirs H. Haarde sem starfandi utanríkisráðherra á allsherjarþinginu 2004, sé ég raunar ekki, hvernig forsætisráðherra Íslands  hefði getað sagt annað um framboðið á 60 ára afmælisfundi Sameinuðu þjóðanna en Halldór Ásgrímsson gerði sl. fimmtudag.

Föstudagur, 16. 09. 05. - 16.9.2005 20:53

Mér þótti skrýtið að hlusta á Baldur Þórhallsson, lektor við Háskóla Íslands, lýsa yfir því í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, að grundvallarágreiningur væri í ríksstjórn og Sjálfstæðisflokknum um utanríkismál ef ekki þáttaksil í utanríkismálasögu þjóðarinnar vegna umræðna um það, hvort Ísland skuli sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eða ekki. Spurningin snerist um það, hvort einungis ætti að gæta þröngra hagsmuna lands og þjóðar eða láta að sér kveða í þágu alþjóðasamfélagsins.

Að setja þetta mál inn í slíkt kenningarkerfi í alþjóðastjórnmálafræðum er ofrausn að mínu mati. Spurningarnar, sem þarf að svara, lúta að því, hvort skynsamlegt sé að verja fé og kröftum í baráttu fyrir setu í öryggisráðinu. Davíð Oddsson hefur dregið athygli að kostnaðinum, sem þessu fylgir og réttilega sagt hann mikinn. Hann hefur hins vegar ekki tekið af skarið í málinu. Það gerði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hins vegar í ræðu sinni á leiðtogaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 15. september.

Afstaða mín í þessu máli hefur um nokkurt árabil verið sú, að Ísland eigi að halda fast við framboð sitt, en það var fyrir 20 árum, að Geir Hallgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, tilkynnti starfsbræðrum sínum á Norðurlöndunum, að Íslendingar vildu komast inn í norrænu framboðsröðina til ráðsins og árið 1998 ákvað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Halldór Ásgrímsson sem utanríkisráðherra, að til framboðsins skyldi gengið. Stuðning minn við málið hef ég rökstutt í greinum og ræðum, sem má finna hér á síðunni.

Um klukkan 15.00 í dag var mikill hvinur í lofti og ég sá orrustuþotur fyrir utan glugga minn við Skuggasund. Við nánari athugun kom í ljós, að þetta voru fjórar breskar Harrier þotur á æfingaflugi en þær gátu ekki lent í Keflavík vegna þoku.

Fimmtudagur, 15. 09. 05. - 15.9.2005 20:20

Dómsmálaráðherrafundurinn stóð fram yfir hádegi og lauk með blaðamannafundi, síðan var ekið aftur til Vilnius og haldið heim á leið um Kaupmannahöfn. Lenti vélin á Keflavíkurflugvelli um 21.30.

Fundurinn snerist meðal annars um sama efni og var rætt á dómsmálaráðherrafundi Norðurlandanna í júní, það er mörkin milli löggjafarvalds og dómsvalds og hvort þróun væri á þann veg, að dómarar væru að taka sér löggjafarvald, ekki síst þeir, sem sitja í dómstólum borð við mannréttindadómstól Evrópu og Evrópusambandsdómstólnum. Gerð var grein fyrir norskri skýrslu um vald og lýðræði, þar sem meðal annars er fjallað um þetta álitamál.

Þá var rætt um refsiábyrgð lögaðila og gerði ég sérstaka grein fyrir íslenskum lagareglum um það efni. Einnig var gerð grein fyrir samskiptum við Rússa og þar kom fram, að mjög erfitt væri að fá þá til pólitískra umræðna um þau mál, sem eru á verksviði dómsmálaráðherra.

Miðvikudagur, 14. 09. 05. - 14.9.2005 20:12

Flaug um hádegisbilið frá Kaupmannahöfn til Vilnius í Litháen og frá flugvellinum var okkur þátttakendum í dómsmálaráðherrafundi Norðurlanda og Eystrasaltslanda í 140 km í áttina að landamærum Hvíta Rússlands til bæjarins Druskininkau, sem er þekktur heilsulindarstaður.

Okkur var boðið í sérkennilegan sýningargarð, þar sem skoða mátti ýmsar minjar frá því að Litháen laut stjórn kommúnista og líkneski af Lenín og Stalín voru á torgum og í görðum. Hefur leifum þeirra verið safnað í þetta einkasafn. Var fróðlegt að fara þar um en erfitt vegna meiri fjölda af moskító-flugum en ég hef séð áður.

Þriðjudagur, 13. 09. 05. - 13.9.2005 21:14

Flaug klukkan 13.30 með Icelandair til Kaupmannahafnar og var kominn þangaðum klukkan 18.30 að dönskum tíma. Fór inn í borgina í mildu og góðu veðri en held áfram á morgun til Litháens á dómsmálaráðherrafund Eystrasaltslandanna.

Á fundinum verður örugglega enginn dómsmálaráðherra frá Noregi, því að ríkisstjórn Bondeviks féll í kosningunum í gær og við tekur vinstri/græn ríkisstjórn undir forystu Verkamannaflokksins. Hvað hafa margir Eiríkir Bergmann spáð því, að nú myndi Ísland lenda í vanda, af því að Noregur ætlaði í Evrópusambandið? Þeir spádómar eru ekki réttir frekar en annað, sem úr þessari átt kemur. Ný vinstri stjórn í Noregi verður einfaldlega ekki með ESB-aðild á dagskrá.

Verkamannaflokkurinn vann ekki neinn stórsigur í þessum kosningum, hann náði aftur til sín fylgi, sem hann tapaði í afhroðinu síðast. Framfaraflokkurinn er hinn stóri sigurvegari kosninganna og Carl I. Hagen, formaður hans, sagði á kosninganóttina, að á 21. öldinni myndi flokkur sinn gegna sama hlutverki í norskum stjórnmálum og Verkamannaflokkurinn á 20. öldinni.

Fyrir okkur Íslendinga er skrýtið, að unnt sé að halda stjórnmálaafli á borð við Framfaraflokkinn árum saman utan ríkisstjórnar og umgangast hann eins og holdsveikan í þinginu. Skyldi það ýta svona undir fylgi flokksins, að hann hefur aldrei þurft að axla neina ábyrgð? Hann er að því leyti líkur Samfylkingunni hjá okkur, hún hefur aldrei staðið undir neinni pólitískri ábyrgð, þótt hún sé að vísu talin samkvæmishæf í stjórnmálalífinu. 

Nú gerist það eins og jafnan ef vinstrsinnum vegnar vel í kosningum einhvers staðar í Evrópu, að skoðanabræður þeirra á Íslandi leggjast í pælingar um, að eitthvað svipað geti gerst hér. Í stjórnmálum gildir hins vegarað fagna eigin sigri frekar en annarra,  og til lítils er eða gera sigur annarra að sínum.

Mánudagur, 12. 09. 05. - 12.9.2005 21:18

Fundarhöld mín í dag snerust að mestu um málefni löggæslu og öryggismál auk umræðna um lagafrumvörp á komandi þingi.

Ég sá það í blöðunum í morgun, að skrif mín hér á vefsíðuna undanfarið og pistillinn um helgina hafa kveikt áhuga blaðamanna, því að vitnað er í efni af síðunni í Morgunblaðinu, DV og Fréttablaðinu.

Mér þótti útlegging Kára Jónassonar, ritstjóra Fréttablaðsins, skrýtnust, því að hann býsnast yfir því, að ég hafi sagt hér á síðunni, að ég væri hræddur um, að gleðin myndi hverfa úr stjórnmálavafstrinu með ákvörðun Davíðs Oddssonar að fara í seðlabankann. Ég veit ekki til þess, að Kári hafi nokkru sinni tekið þátt í stjórnmálastörfum með Davíð eða setið með honum fundi, þar sem rætt er af alvöru um mál, án þess að gleyma gildi þess að slá á létta strengi. Ég er viss um, að þessi einstaki hæfileiki Davíðs hefur oft auðveldað honum að laða fram sátt í erfiðum málum.

Jónas Kristjánsson, ritstjóri hins Baugsblaðsins, DV, skrifar í dag leiðara um Davíð Oddsson sem „síðasta einræðisherrann á Íslandi“ og slær þar á svipaðan streng og Kári í Fréttablaðinu.

Það er engu líkara en þessum gamalreyndu blaðamönnum hafi verið gefin sú lína af yfirritstjórn Baugsmiðlanna, að nú skyldi sleginn sá tónn í skrifum um Davíð Oddsson, að hann hafi hvílt eins og mara á samstarfsmönnum sínum, Sjálfstæðisflokknum og þjóðinni allri. Menn megi ekki einu sinni eiga þá skoðun sína í friði, að stjórnmálasamstarf við Davíð sé og hafi verið skemmtilegt.

Sunnudagur, 11. 09. 05. - 11.9.2005 22:05

Skruppum inn undir Þórmörk fyrir hádegi og ókum síðan að austan í fallegu og björtu veðri eftir miklar rigningar föstudag og laugardag, spáð er stormi á morgun en 13. september í fyrra kom svo mikið rok í Fljótshlíðinni, að vindmælar sprungu og fjárhús fuku með meiru.

Las skrýtna grein eftir Eirík Bergmann Einarsson í Morgunblaðinu, þar sem hann lætur eins og allt, sem ávannst í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991 til 1995 sé Jóni Baldvini Hannibalssyni að þakka auk þess sem hann hafi myndað Viðeyjarstjórnina en ekki Davíð Oddsson. Þá sé það Alþýðuflokknum að þakka, að Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu. Röksemdafærsla af þessu tagi er út í bláinn og einkennist af pólitískum barnaskap. Staðreynd er, að ekkert af þessu hefði náðst fram nema með því atkvæðamagni, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði á alþingi. Alþýðuflokkurinn hefði ekki náð neinu af því, sem Eiríkur Bergmann telur svo lofsvert nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft þá stefnu, sem hann fylgdi, Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur fylgdu annarri stefnu og Alþýðuflokkurinn átti ekki kost á samstarfi um þessi mál við neinn annan en Sjálfstæðisflokkinn.

Laugardagur, 10. 09. 05. - 11.9.2005 1:08

Fórum úr Fljótshlíðinni i kvöldverðarhóf í Aratungu og síðan þaðan aftur austur.

Sá síðan mynd í sjónvarpinu um Hamborgarhópinn, það er þá, sem réðust á Bandaríkin 11/9 2001 í nafni islam.

Árni M. Mathiesen lýsti yfir stuðningi við Þorgerði Katrínu Gunnardsdóttur í varaformannskjöri. Hún verður þó ekki sjálfkjörin, því að Kristján Þór Júlíusson. bæjarstjóri á Akureyri, hefur einnig lýst framboði sínu.

Föstudagur, 09. 09. 05 - 9.9.2005 1:15

Fór með gangnamönnum í Fljótshlíðinni inn að Felli en hafði því miður ekki tíma til að fara með þeim alla leið í náttstað. Það ringdi minna eftir því sem við riðum innar í hlíðina. Sendi Breka með þeim inn á fjallið svo að hann liðkaðist fyrir leitirnar í kringum Þríhyrning eftir viku.

Ég er undrandi á því, að hlusta á svokallaða fréttaskýrendur í útvarpi eins og þá Jóhann Hauksson á Fréttablaðinu og Birgi Guðmundsson hjá Háskólanum á Akureyri ræða um innri málefni Sjálfstæðisflokksins, án þess að ég verði var við, að þeir geri hina minnstu tilraun til að afla sér upplýsinga frá fyrstu hendi um það, sem þeir segja um einstaka menn eða málefni. Getsakir af þeim toga, sem þessir menn stunda í krafti þess, að þeir starfa við blað eða háskóla, eru á skjön við alla venjulega blaðamennsku, sem byggist á því, að menn afli sér heimilda og vísi til þeirra við útleggingar sínar.

Guðmundur Magnússon, blaðamaður á Fréttablaðinu, gerir því skóna í blaðinu í dag, að túlka megi orð mín hér í dagbókinni sl. miðvikudag á þann veg, að ég sé að hætta í stjórnmálum. Ef hann hefði viljað hafa það, sem sannara reynist, hefði Guðmundur hæglega getað sent mér töluvpóst og spurt, hvort túlka mætti orð mín á þennan veg. Hann hefur líklega grunað, að ég mundi svara honum neitandi, svo að hann kaus að bera eigin hugarburð á borð fyrir lesendur í þessum búningi: „Þess vegna eru ýmsir að spá því að hann fari sjálfur til starfa á öðrum vettvangi innan tíðar. Tíminn leiðir í ljós hvort það er rétt.“ Ég veit ekki við hvað á að kenna skrif af þessum toga. en eftir miðja síðustu öld þótti mönnum það almennt ekki til eftirbreytni að halda einhverju fram og segja síðan, að það hefði getað verið satt. Við erum nú á nýrri öld og læri menn ekki af sögunni falla þeir auðveldlega í pytti.

Fimmtudagur, 08. 09. 05. - 8.9.2005 21:19

Var klukkan 14.30 í varðskipinu Ægi, sem var að koma endurgert frá Póllandi, og efndi til blaðamannafundar til að kynna breytingar á skipinu og einnig áform landhelgisgæslunnar um kaup á nýju varðskipi og flugvél fyrir 3 milljarði af söluandvirði símans.

Þegar sagt var frá því síðastliðinn vetur, að tilboði Pólverja hefði verið tekið vegna endurgerðar brúar og íbúða áhafnar, var látið í veðri vaka, að með því væri verið að fara á svig við hagsmuni íslenskra skipamiða, en Slippstöðin á Akureyri bauð í verkið, án þess að fá það.

Ég ætla ekki að rifja upp þær umræður, en velti fyrir mér, hvort tekist hefði að ljúka verkinu hér á landi á jafnskömmum tíma og Pólverjar gerðu en nær 100 manns voru stundum við störf um borð í Ægi. Þegar ég skoðaði virkjanaframkvæmdir á Austurlandi fyrir nokkrum vikum, var mér sagt, að Slippstöðinni hefði gengið erfiðlega að fá menn hér og erlendis til að vinna það verk, sem hún tók að sér við fallgöngin að stöðvarhúsinu.

Sé í Morgunblaðinu í dag, að Slippstöðin hafi nýtt Margréti EA, frystitogara Samherja, sem gistiheimili í sumar fyrir 15 Pólverja, sem störfuðu tæpa þrjá mánuði hjá fyirrtækinu. Spyrja má: Er skynsamlegra að flytja Pólverja hingað til skipasmíða eða sigla skipi til Póllands til viðgerða það? Svarið hlýtur að ráðast af því, hvað er hagkvæmast fyrir þann, sem lætur vinna verkið.

Í frétt hljóðvarps ríkisins af blaðamannafundi mínum var sagt, að ég ætlaði að leggja fram frumvarp til nýrra laga um landhelgisgæslunnar í haust, ég sagði raunar, að ég ætlaði að gera þetta í vetur og finnst það raunsærri tímasetning en útlegging fréttamannsins.

Miðvikudagur, 07. 09. 05. - 7.9.2005 16:19

Sögulegur, sameiginlegur fundur þingflokks og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins var haldinn í Valhöll klukkan 14.00 í dag. Á fundinum kynnti Davíð Oddsson þá ákvörðun sína, að hann mundi láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum um miðjan október og taka við starfi seðlabankastjóra 20. október, en 27. september myndi hann hætta sem utanríkisráðherra. Að tillögu Davíð samþykkti þingflokkurinn samhljóða, að Geir H. Haarde yrði utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.

Á fundinum tóku margir til máls, þökkuðu Davíð frábær störf hans í þágu, flokks, lands og þjóðar og árnuðu honum og fjölskyldu hans heilla á nýjum vettvangi.

Eins og Davíð sagði á blaðamannafundi eftir þennan sameiginlega fund forystumanna flokksins er ákvörðun sem þessi ekki einföld, hann hefði tekið hana eftir mikla umhugsun, hann vissi þó ekki á þessari stundu, hvort hún væri rétt og kannski yrði aldrei unnt að komast að raun um réttmæti hennar.

Að sjálfsögðu hlaut að koma að því eftir langan og einstaklega farsælan feril í stjórnmálum, að Davíð tæki ákvörðun um að hverfa að öðru. Fyrir okkur, sem höfum starfað náið með honum í áratugi að sameiginlegum málefnum í blíðu og stríðu, eru þetta að sjálfsögðu mikil tímamót. Hitt er víst, að Davíð og samherjar hans eiga margt til gleðjast yfir, margri orrustu hefur lokið með góðum sigri, þjóðfélagið hefur tekið á sig nýja og betri mynd og lagður hefur verið grunnur að enn meiri framfarasókn, ef rétt er á málum haldið.

Matthías Johannessen, góðvinur foreldra minna, sagði oft, að sér hefði þótt gleðin hverfa úr stjórnmálavafstrinu með fráfalli þeirra. Ætli við séum ekki margir, sem hugsum þannig til Davíðs, þegar hann hættir sínu stjórnmálavafstri og hverfur að öðru. Hann sér alltaf eitthvað til að gleðjast yfir og megi gleðistundir hans verða sem flestar.

Var klukkan 20.00 í Kringlukránni á fundi okkar í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna með íbúum í hverfunum þar um kring, þar sem við kynntum stefnu okkar í skipulagsmálum og ýmsum örðum málum fyrir utan að minnast með þakklæti starfa Davíðs, ekki síst sem borgarstjóra. Við vorum fjórir borgarfulltrúar, sem fluttum ræður: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson auk mín en Þorbjörg Helga varaborgarfulltrúi var fundarstjóri og lögðu margir fundarmenn gott til málanna, þar á meðal séra Þórir Stephensen, sem hvatti okkur eindregið til þess að hverfa frá hugmyndinni um brú út í Viðey og flutti fyrir því sannfærandi rök, hvaða skaðvaldur hún gæti verið.

Þriðjudagur, 06. 09. 05. - 6.9.2005 21:12

Á ríkisstjórnarfundi, sem hófst klukkan 09.30 voru teknar sögulegar ákvarðanir um ráðstöfun á um 67 milljarða söluandvirði Símans og var þeim að meginhluta skipt til vegagerðar og hátæknisjúkrahúss fyrir utan greiðslu á erlendum skuldum. Þremur milljörðum verður varið til Landhelgisgæslu Íslands ( 2 milljarðar til varðskips og 1 milljarði til flugvélar) og einum milljarði til byggingar íslenskra fræða við hlið Þjóðarbókhlöðunnar, en hugmynd um slíkt hús ræddi ég nokkrum sinnum sem menntamálaráðherra og meðal annars á 90 ára afmæli Háskóla Íslands og er smíði þess nú tengd 100 ára afmæli skólans 2011 og 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta.

Við sjálfstæðismenn héldum síðan þingflokksfund um málið klukkan 14.00 og ríkti þar mikil eindrægni um málið.

Af þingflokksfundinum fór ég klukkan rúmlega 15.00 út í ráðhús, þar sem borgarstjórn sat á fundi en 16.20 kvaddi borgarstjóri sér hljóðs utan dagskrár til að tilkynna 8 milljarða króna ráðstöfun ríkisstjórnarinnar á símafé til Sundabrautar og var bókaður fögnuður yfir þeirri ráðstöfun og öðrum framkvæmdum í Reykjavík fyrir þessa fjármuni.

Ég tók þátt í umræðum um framtíð Vatnsmýrarinnar og lýsti undrun yfir því, að nú væri það helsta kappsmál R-listans að efna til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um skipulag í Vatnsmýrinni fyrir allt 100 milljónir króna, en það væri með öllu ótímabært, þar sem heimavinnan hefði ekki enn verið unnin nægilega vel.

Mánudagur, 05. 09. 05. - 5.9.2005 18:51

Vetrarstarf qi gong iðkenda hófst í morgun klukkan 08.10 og var tíminn vel sóttur og æft undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar.

Síðdegis sat ég fund með sérfræðingum Evrópusambandsins og fulltrúa breskra stjórnvalda um þróun Schengen-samstarfsins og málsmeðferð á ráðherrafundum fram að áramótum, en ég fer með formennsku í Schengen-ráðherraráðinu á þeim tíma.

Fyrir viku, mánudaginn 29. ágúst, birtist klausa í Fréttablaðinu um að þann dag síðdegis væri ekki útilokað að það skýrðist á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hvort eitthvað væri hæft í þrálátum umræðum um hugsanlegt brotthvarf annars manns úr stjórnmálum en Halldórs Ásgrímssonar. Enginn fundur var haldinn í fulltrúaráðinu þennan mánudag, heldur var hann haldinn klukkan 17.30 í dag og þar talaði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Kannski var þessi skrýtna klausa í Fréttablaðinu tilefni þess, að þeir fjölmiðlamenn, sem tala eins og þeir viti allt, ræddu það fram og til baka, að á þessum fundi fulltrúaráðsins myndi Davíð segja eitthvað um pólitíska framtíð sína. Fyrir framan Valhöll var hópur fréttamanna með myndatökumönnum og mátti ætla, að mikið væri í vændum, meira en venjulega, þegar sjálfstæðismenn koma saman til að taka ákvörðun um aðferð við að velja á framboðslista sinn. Það var einmitt gert samhljóða á fundinum að ákveða prófkjör og síðan flutti Davíð ávarp sitt og var klukkan ekki orðin 18.00, þegar ég var kominn heim og hlustaði síðan á það í hljóðvarpsfréttum ríkisins, að fundurinn stæði enn!

Sunnudagur, 04. 09. 05. - 4.9.2005 22:26

Var við sveitastörf í Fljótshlíðinni fram eftir degi, hugaði að girðingum og góðir nágrannar aðstoðuðu mig við að járna Breka, svo að ég gæti farið á honum í leitirnar.

Hörmungarnar í Bandaríkjunum vegna flóðanna í New Orleans eru sorglegar og sýna, að án samræmds björgunarkerfis, æfðra áætlana og samhæfingarmiðstöðva er voðinn vís á hættustundu. Borgir, ríki og alríki í Bandaríkjunum búa hver við sitt kerfi og innan þessara eininga eru síðan stofnanir, sem þarf að virkja eftir skýrum og einföldum boðleiðum auk þess sem fjarskiptakerfi þarf að þola ótrúlega mikið álag.

Hér á landi hefur verið lögð á það áhersla undanfarin misseri að styrkja samhæfinguna í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð auk þess sem tetra-fjarskiptakerfið nær sífellt yfir stærra svæði. Það var eina fjarskiptakerfið, sem hélt velli hjá lögreglu og björgunarliði í London 7. júlí. Sagt er, að ekki þurfi nema 5% notenda GSM-kerfis að hringja á sama tíma, til að það hrynji. Hvort þetta er rétt veit ég ekki.

Því ber að fagna, að Bandaríkjamenn þiggja aðstoð frá öðrum löndum en fara ekki að fordæmi Indverja, sem vildu ekki neina aðstoð annarra eftir flóðbylgjuna miklu við Indlandshaf.

Laugardagur, 03. 09. 05. - 3.9.2005 20:49

Fórum í Fljótshlíðina og nutum blíðu dagsins, stillu og glaða sólskins. Ég sló síðast 13. ágúst og þarf greinilega ekki að slá oftar í sumar, nú þarf ég hins vegar að fara að járna fyrir leitirnar.

Föstudagur, 02. 09. 05. - 2.9.2005 2:23

Flutti klukkan 17.00 ræðu á Grandhótel við setningu norræns þings kvennasamtaka um kynbundið ofbeldi að frumkvæði Stígamóta.

Var klukkan 20.00 í Þjóðmenningarhúsinu og hlýddi á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur, Ravel á Þingvöllum. Tónlistin var mjög vel flutt við mikla hrifningu eins og skemmtilegt erindi Péturs Gunnarssonar rithöfundar um Maurice Ravel, en eftir það leituðu á hugann efasemdir um, að Ravel hefði nokkru sinni komið til Íslands, þrátt fyrir póststimpil á kortinu.

Það fer einstaklega vel á því að efna til slíkra tónleika í Þjóðmenningarhúsinu og Pétur Gunnarsson tengdi komu Ravels til Íslands vel við byggingu hússins. Í því felst  þröngsýni að andmæla því, að Safnahúsinu hafi verið breytt í Þjóðmenningarhús með því notagildi, sem það nú hefur. Mér þótti ánægjulegt að vinna að þessari breytingu á nýtingu hússins. Þjóðmenningarhúsið hefur vissulega staðið af sér ónot og hrakyrði vegna breytinganna.

Fimmtudagur, 01. 09. 05. - 1.9.2005 22:27

Fór í kvöld klukkan 20.00 á íbúaþing okkar í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna í Fylkishöllinni í Árbæ. Fundurinn var vel sóttur eins og fundurinn á Hótel Borg í gær en nú höfðu framsögu auk Vilhjálms Þ. þau Kristján Guðmundsson varaborgarfulltrúi og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi en Björn Gíslason, formaður hverfafélagsins, var fundarstjóri.

Spurt var m. a. um afstöðu okkar borgarfulltrúanna til Elliðaárdalsins fyrir ofan stíflu, hvort við vildum að hann færi í kaf að þörfum Orkuveitu Reykjavíkur eða hvort nota mætti hólma til dæmis til íþróttaæfinga. Svarað var á þann veg, að dalinn ætti að varðveita og halda þannig á málum, að hann mætti nýta af mannfólkinu án þess að spilla náttúrunni. Einnig ætti að sporna af hörku gegn hugmyndum Dags B. Eggertssonar um að þrengja að dalnum með nýrri byggð.

Ég tók eftir því, að þeim rökum hafði verið beitt af borgaryfirvöldum, að ekki mætti stunda íþróttir í dalnum vegna þess, að þar væri varpsvæði mófugla. Skyldu það vera sömu sérfræðingar, sem snúast þar til varnar fyrir mófugla og þeir, sem samþykkja fyrir hönd borgarinnar, að mófuglabyggðin milli Nautólsvíkur og Öskjuhliðar fari undir Háskólann í Reykjavík og 2000 jeppa stæði?

Sá í Morgunblaðinu  í dag frásögn af því, að Eiríkur Bregmann Einarsson Evrópufulltrúi Viðskiptaháskólans á Bifröst hefði verið út í Finnlandi að hallmæla EES-samningnum. Ég skil ekki, hvaða hagsmuna Eiríkur Bregmann er að gæta með því að rægja stöðugt þennan samning, sem er í fullu gildi og reynist okkur Íslendingum hið besta.  Dugar honum ekki að mæla fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, án þess að tala illa um EES-samninginn?