19.9.2005 22:41

Mánudagur, 19. 09. 05.

Sat fundi mestan hluta vinnudags míns í ráðuneytinu auk þess sem ég var á einum fundi í ráðhúsinu með borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.

Það fer að sjálfsögðu að setja einhvern svip á fundi borgarstjórnarflokksins, að prófkjörið nálgast, samstarfsandinn er hins vegar svo góður, að allt verður þar með góðum friði. Við erum  þrír borgarfulltrúar, sem gefum ekki kost á okkur í prófkjörinu: Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og ég. Það verður því töluverð endurnýjun í borgarstjórnarflokknum en auk okkar borgarfulltrúanna eru einnig varaborgarfulltrúar á þessum fundum okkar. Ég hef haft mikla ánægju af því að starfa með þessu góða fólki og það hefur verið skemmtileg reynsla að vera annars vegar í meirihluta á alþingi og hins vegar í minnihluta í borgarstjórn.