Dagbók: júlí 2016
Sunnudagur 31. 07. 16
Flokksþing repúblíkana og demókrata eru að baki í Bandaríkjunum. Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump (R) og Hillary Clinton (D) hafa lagt af stað í kosningaleiðangra. Enginn þorir að segja fyrir um hver úrslitin verða í nóvember. Trump hefur frá fyrsta degi gengið mun betur að afla sér fylgis en nokkurn álitsgjafa óraði fyrir og þeir tala nú varlegar um sigurlíkur Hillary Clinton en þeir gerðu.
Umræðuefnin í tilefni af kosningabaráttunni koma á óvart. Demókratar eiga fullt í fangi með að verjast tölvuárásum Rússa eða að undirlagi þeirra. Raunar gátu þeir ekki varið netþjóna í höfuðstöðvum flokksstjórnarinnar og birtust stolin tölvubréf sem urðu til þess að flokksformaðurinn sagði af sér. Sannað þótti að flokksstjórnin hefði ekki gætt hlutleysis. Hún hefði gert á hlut keppinautar Hillary Clinton, Bernies Sanders. Eftir að Clinton hóf slaginn við Trump birtust fréttir um að Rússar hefðu gert tölvuárás á netþjóna kosningastjórnar hennar. Telur Clinton engan vafa á að Rússar séu þarna að verki.
Á flokksþingi demókrata flutti músliminn Khizr Khan ræðu og minntist sonar síns, Humayuns Khans, hermanns sem týndi lífi í Írak-stríðinu árið 2004. Hann gagnrýndi Donald Trump og sagði að kosningaloforð hans um að skerða rétt múslima til að koma til Bandaríkjanna væri í andstöðu við bandarískar hugsjónir. Trump ætti að lesa stjórnarskrá Bandaríkjanna. Hann sagði að Trump hefði ekki sjálfur fórnað nokkru eða nokkrum.
Trump lét þessu ekki ósvarað. Hann sagði í viðtali á ABC-sjónvarpsstöðinni: „Mér finnst ég fórni miklu. Ég legg mjög, mjög hart að mér við vinnu.“ Hann beindi þó jafnframt athygli að Ghazölu Khan sem stóð þögul við hlið eiginmanns síns þegar hann flutti ræðu sína. Trump sagði: „Hún stóð þarna án þess að segja nokkuð. Ef til vill fékk hún ekki leyfi til að tala.“
Gazhala Khan sagðist vera of harmi slegin vegna sonarmissisins til að geta tekið til máls á flokksþinginu. Í grein í Washington Post sagði hún síðar að orð Trumps um á íslam afhjúpuðu aðeins vanþekkingu hans.
Hillary Clinton segir að framkoma Trumps í garð Khan-hjónanna sé aðeins enn eitt dæmið um dónaskap hans í garð fólks. Um Clinton sagði Trump af þessu tilefni: „Hún greiddi atkvæði með Írak-stríðinu, ekki ég.“
Laugardagur 30. 07. 16
Ár og dagur er síðan ég hlustaði á þáttinn Í vikulokin í ríkisútvarpinu. Stundum fór ég í hann á sínum tíma þegar Páll Heiðar Jónsson sjórnaði honum og allt var þar í föstum skorðum varðandi fréttir vikunnar. Nú virðist þátturinn snúast um það sem stjórnanda hans á hverjum tíma er efst í huga og velur hann viðmælendur til að draga fram einhverja skoðun á því.
Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt frá því að í morgun hefði Helgi Seljan, stjórnandi Í vikulokanna, rætt um verðtryggingu við þingmann Framsóknarflokksins til að fá það alveg á hreint að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið gegn afnámi hennar í stjórnarsamstarfinu. Jánkaði þingmaðurinn því og sagðist ef til vill ætla að flytja tillögu um afnám verðtryggingarinnar á haustþingi. Líklega verður fyrir kosningar í von um að geta aflað sér einhverra atkvæða á því.
Þessi verðtryggingarmál hafa lengi verið hjartans mál framsóknarmanna eða í þau tæpu 40 ár sem liðin eru frá því að Ólafur Jóhannesson, þáv. leiðtogi framsóknarmanna og forsætisráðherra, samdi lagabálkinn um þau við eldhúsborðið heima hjá sér. Voru lögin gjarnan nefnd Ólafslög honum og framsóknarmönnum til heiðurs.
Verðtryggingarlögin reyndust vel í stríðinu við verðbólguna. Takist að sigrast á henni og halda henni niðri eins og gerst hefur undanfarið undir fjármála- og efnahagsstjórn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, verða lögin sjálfkrafa óþörf þótt þau gildi sem neyðarvopn gegn verðbólgudraugnum.
Ég veit ekki hvort Helgi Seljan spurði þingmann Framsóknarflokksins hvort ekki væri unnt að ákveða kjördag í haust vegna andstöðu framsóknarmanna. Það er í raun miklu brýnni spurning en hin um verðtrygginguna og sjálfstæðismenn. Raunar er erfitt að skilja að stjórnmálamenn telji sér til framdráttar að deila um hvort leita skuli umboðs kjósenda fyrr en seinna eftir að ákveðið hefur að kjósa áður en kjörtímabilð er á enda og það fyrir lok október.
Ég vil vekja athygli lesenda síðu minnar á stórmerkri grein um ástandið í Tyrklandi eftir Bassam Tibi, prófessor í Þýskalandi, sem birtist á íslensku á www.vardberg.is og lesa má hér.
Föstudagur 29. 07. 16
Meginatriði í umræðum hér á landi um Icesave-málið og uppgjörið við kröfuhafana hefur verið að Íslendingar beri ekki ábyrgð á skuldum annarra. Þeir sem tekið hafi áhættu í fjármálum verði að bera skaðann eins og þeir njóti hagnaðar verði hann. Að þetta meginatriði stangist á við það sem gildir á evru-svæðinu hefur öllum verið ljóst sem ekki eru blindaðir af evru-samstarfinu.
Nú hefur eftirlitsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sent frá sér skýrslu þar sem finna má harða gagnrýni á æðstu stjórnendur sjóðsins fyrir að ganga erinda evrunnar og beita blekkingum í því skyni.
Ambrose Evans-Pritchard, blaðamaður The Daily Telegraph, segir á vefsíðu blaðsins föstudaginn 29. júlí að æðstu stjórnendur AGS hafi blekkt eigin stjórn, gerst sekir um margar mjög skaðvænlegar ákvarðanir i Grikklandi, orðið ákafar klappstýrur í þágu evru-samstarfsins, haft merki um yfirvofandi kreppu að engu og sameiginlega verið um megn að skilja grunnkenningu að baki myntsamstarfinu.
Óréttlæti rangra ákvarðana AGS-stjórnendann birtist meðal annars í því að almennir grískir borgarar hafi verið látnir sitja uppi sem ábyrgðarmenn á skuldum bankanna, þeir sem minnsta burði höfðu til að greiða skuldirnar. Það hafi aldrei verið viðurkennt opinberlega að helsta markmið þríeykis ESB, seðlabanka evrunnar og AGS hafi verið að verja myntsamstarfið. Grikkjum hafi hvað eftir verið kennt um mistök sem rekja mátti til evru-stefnunnar sjálfrar. Í skýrslunni sé loksins viðurkennt að komið hafi verið fram við Grikki af ósanngirni.
„Hafi markmiðið fyrst og síðast verið að koma i veg fyrir að skuldavandinn [í Grikklandi] yrði að alþjóðlegum vanda, hefði kostnaðurinn við varnir gegn því átt að hafa verið borinn – að minnsta kosti að hluta – af alþjóðasamfélaginu sem átti mestra hagsmuna að gæta,“ segir í skýrslunni.
Ambrose Evans-Pritchard var á sínum tíma ómyrkur í máli þegar hann gagnrýndi aðför þríeykisins að Grikkjum sem höfðu engin önnur úrræði en það sem sumir kalla „innri gengisfellingu“, þar er niðurskurð samhliða hækkun skatta, ekki gátu þeir lækkað gengið eða tekið stjórn efnahagsmála alfarið í eigin hendur. Grein sinni lýkur Ambrose Evans-Pritchard á orðunum: Better late than never. Betra er seint en aldrei.
Fimmtudagur 28. 07. 16
Hér var vakið máls á því í gær að Birgitta Jónsdóttir (pírati), Oddný Harðardóttir (Samfylkingu) og Katrín Jakobsdóttir (VG) hefðu sameiginlega sagt að þær vildu ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum. Minnt var á að Birgitta vildi aðeins 9 mánaða kjörtímabil næst til að setja nýja stjórnarskrá og kollvarpa stjórnarráðinu.
Glöggur lesandi sendi mér bréf í tilefni af þessu þar sem segir:
„ Eitt skilyrðið sem Birgitta hefur oft nefnt er: Píratar setjast ekki í ríkisstjórn nema enginn þingmaður verði ráðherra, sama úr hvaða samstarfsflokki þingmaðurinn er. Enginn sé hvorutveggja þingmaður og ráðherra. Blaða/fréttamenn spyrja formenn væntanlegra samstarfsflokka aldrei útí þessi skilyrði Birgittu.“
Þetta er réttmæt ábending sem dregur enn athygli að hve innantómar spurningar fréttamanna til Birgittu og vegna hennar eru. Ef þeir telja ekkert að marka af því sem hún hefur áður sagt hvers vegna eyða þeir sínum tíma og annarra í samtöl við hana?
Í framhaldi af útilokunaryfirlýsingu flokksleiðtoganna þriggja skrifar Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG, grein i Fréttablaðið í dag þar sem segir meðal annars:
„Réttlátt skattkerfi er hornsteinn velferðarsamfélaga. Þeir sem nóg hafa og meira en nóg borga meira til samneyslunnar sem er hugsuð til þess að jafna kjör og tryggja velferð allra án tillits til efnahags. Núverandi stjórnvöld hafa ítrekað lýst afstöðu sinni gegn auðlegðarskatti og þrepaskiptu skattkerfi að norrænni fyrirmynd.“
Þarna er áréttað að komist þessir þrír vinstri flokkar til valda að loknum kosningum verði aftur tekið til við að fikta við skattkerfið í anda sósíalisma og stöðnunar.
Í nýjasta hefti Þjóðmála er vitnað í Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sem bendir á að skatttekjur hér séu nú háar bæði í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Skattbyrði sé nánast hvergi meiri meðal þróaðra ríkja. Aukin skattbyrði hafi að meginþunga lagst á fyrirtæki og sé nú verulega fyrir ofan meðaltal OECD-ríkja. Umskiptin hafi orðið mikil, skattbyrðin hafi verið einn lægst á Íslandi árið 2003. Þá segir í greininni eftir Óla Björn Kárason ritstjóra:
„Skattastefnan á Íslandi frá hruni gengur þvert á stefnu margra annarra þjóða sem á undanförnum árum hafa lagt áherslu á að bæta samkeppnisumhverfi atvinnulífsins og fremur leitast við að lækka skatta en að hækka þá.“
Þessa staðreynd hafa talsmenn sósíalisma á Íslandi að engu og vilja enn herða skattatökin.
Miðvikudagur 27. 07. 16
Það er upplýsandi fyrir kjósendur að þeir sem koma fram sem forystumenn Samfylkingar, VG og Pírata-flokksins segjast útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum. Í atkvæði sem greidd verða þessum flokkum felst ávísun á skattahækkanir, skuldasöfnun ríkissjóðs og ofstjórn á sviði atvinnumála. Ávísun á stöðvun og siðan afturför. Þessu kynntist þjóðin 2009 til 2013 og þessu hafa nágrannaþjóðir kynnst.
Úr því að flokkarnir þrír hafa ákveðið að stíga þetta skref hljóta fjölmiðlamenn næst að spyrja talsmenn þeirra hvort þeir ætli ekki að framkvæma það sem Birgitta Jónsdóttir, talsmaður stærsta flokksins, pírata, hefur boðað: að gera stjórnarsáttmála fyrir kosningar um breytingar á stjórnarskrá, uppstokkun á stjórnarráðinu og kosningar að nýju eftir níu mánuði.
Oft er talað um gullfiskaminni almennings það er þó enn meira áberandi hjá fjölmiðlamönnum sem eiga að reisa vörður svo að almenningur geti áttað sig á hvert stefnir. Hvers vegna spyrja þeir Birgittu Jónsdóttur til dæmis aldrei um samhengið í því sem hún segir? Er það vegna þess að þeir telja hana í raun marklausa? Eða vilja þeir hlífa henni við flóði eigin yfirlýsinga? Og hvað með Oddnýju og Katrínu Jakobs, ætla þær í samstarf við Birgittu um framkvæmd stefnu hennar?
Ákveði forsætisráðherrar annars staðar að rjúfa þing og efna til kosninga gera þeir það án þess að ráðgast fyrst við stjórnarandstöðuna. Nægir að líta til Danmerkur og Bretlands í því sambandi.
Nú hefur verið ákveðið að boða til kosninga í haust. Vikum og mánuðum saman hefur stjórnarandstaðan hins vegar vælt yfir því að hún viti ekki hvaða dag í haust. Má skilja sjálfa Birgittu á þann veg að af fjölskylduástæðum þurfi hugsanlegir frambjóðendur að vita þetta! Haft er í hótunum um að rætt verði endalaust um fundarstjórn forseta alþingis eða störf þingsins fái píratar ekki að vita um kjördag. Ávallt viðbúin! er greinilega ekki eitt af slagorðum pírata.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson útilokar ekki að hann verði ráðherra að nýju, nú þegar hann hefur ákveðið að ganga til virkrar stjórnmálaþátttöku aftur. Á þá kapallinn innan Framsóknarflokksins frá 7. apríl 2016 að ganga til baka? Þegar Sigmundur Davíð boðaði þingrof 5. apríl 2016 sagði Karl Garðarsson, þingmaður framsóknar: „Staðan núna er mjög óljós og við þurfum að fá skýringar frá Sigmundi um hvað býr að baki hjá honum.“ Hvað skyldi Karl segja núna?
Þriðjudagur 26. 07. 16
Enn er óljóst hvernig samningsmarkmið Breta verða gagnvart ESB. Theresa May forsætisráðherra hefur verið í Berlín og París. Angela Merkel sýndi skilning á ósk hennar um að Bretar fengju nokkra mánuði til að móta afstöðu sína. Meiri óþolinmæði gætti hjá François Hollande. Hann vill að Bretar taki sem fyrst af skarið um hvaða leið þeir ætli úr ESB og hvernig þeir vilja haga samskiptunum eftir brottförina. Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 23. júní var töluvert um hræðslutal í þá veru að kæmi til úrsagnar yrði núverandi samningi um landmæravörslu Breta í Calais í Frakklandi rift. Nú er ljóst að það gerist ekki.
Eins og áður ber allt að þeim brunni að lokum að skynsamlegast sé fyrir Breta að gera EES-samning í einhverri mynd við ESB. Vandamálið er ákvæðið um frjálsa för yfir landamæri sem stangast á við yfirlýst markmið Breta að hafa stjórn á hve margir flytjast til Bretlands. Eftir ferð May til Merkel og Hollandes hafa birst fréttir um að hugsanlegt sé að Bretar fái sjö ára undanþágu frá reglunni um frjálsa för.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), formaður Framsóknarflokksins, hefur verið meira og minna óvirkur í stjórnmálabaráttunni síðan 5. apríl þegar hann tilkynnti þingflokki sínum að hann segði af sér sem forsætisráðherra og vildi að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins, yrði forsætisráðherra í sinn stað.
Í gær, mánudaginn 25. júlí, sendi SDG flokksmönnum sínum bréf og boðaði virka endurkomu sína í stjórnmálalífið. Hann sagði meðal annars:
„Á næstunni mun ég því aftur hefja fulla þátttöku í stjórnmálabaráttunni. Það mun vekja viðbrögð. Látið það ekki slá ykkur út af laginu. [...] Á næstu dögum munu því flokksmenn fá sendar upplýsingar um öll þau álitamál sem upp kunna að koma.“
Í dag birtir SDG grein i Morgunblaðinu um störf ríkisstjórnarinnar og það sem eftir er af því sem lagt var upp með vorið 2013. Hann kýs að leggjast gegn ákvörðun Sigurðar Inga og Bjarna Benediktssonar að boðað verði til kosninga í haust þar sem enn séu óunnin verk. Þetta er næsta innantóm röksemdarfærsla þegar til þess er litið að 4. og 5. apríl undirbjó SDG þingrof og kosningar eftir illa útreið sem hann fékk í sjónvarpsþætti.
Viðbrögðin sem SDG boðar í bréfi sínu til framsóknarmanna snerta hvorki flokkinn né málefni hans heldur SDG sjálfan.
Mánudagur 25. 07. 16
Í netheimum og annars staðar má sjá álitsgjafa segja að samningur Mosfellsbæjar við hollenskt fyrirtæki um land undir stór-sjúkrahús minni á það um árið þegar Huang Nubo, kínverski auðjöfurinn, var hér á ferð og vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum undir golfvöll og fleira. Þegar í ljós kom að lög leyfðu ekki sölu landsins til hans ætluðu sveitarfélög á svæðinu samt að gera honum kleift að hrinda áformum sínum í framkvæmd.
Engin spurning er um að sveitarstjórn Mosfellsbæjar hefur ráðstöfunarrétt á umræddri lóð. Rísi þar stór-sjúkrahús hefst ekki starfsemi í því nema það fullnægi kröfum íslenskra laga, landlæknir veitir starfsleyfið.
Að þessu leyti er aðstaðan allt önnur en þegar Huang Nubo átti í hlut. Þá var ljóst frá upphafi að hann gæti hvorki eignast jörðina né hafið hér starfsemi nema að fá til þess undanþágu frá lögum. Ein meginástæðan fyrir áhuga Nubos var að hann taldi sig hafa nauðsynlegan pólitískan stuðning. Forystumenn Samfylkingarinnar innan og utan ríkisstjórnar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að fá Nubo til landsins.
Föstudaginn 4. maí 2012 ræddi ríkisstjórn Íslands til dæmis drög að samkomulagi við Huang Nubo. Samkomulagið var gert án vitundar Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem þurfti þó að veita Nubo undanþágu. Í kínverskum fjölmiðlum hreykti Huang Nubo sér af því að hafa sniðgengið Ögmund og lét eins og þar með væri hann kominn á beinu brautina til Grímsstaða. Eftir ríkisstjórnarfundinn kom hins vegar í ljós að ekkert samkomulag hafði verið gert.
Ég lýsti þeirri skoðun að Nubo væri að reyna á þanþol íslenska stjórnkerfisins – hann stundaði það sem á ensku væri nefnt social engineering. Hann komst langt inn í raðir Samfylkingarinnar og sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi eystra. Hann dró einnig fram ágreining innan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Vissulega á eftir að reyna á marga íslenska innviði áður en nýtt, erlent hátæknisjúkrahús einkaaðila með 1.000 starfsmenn rís í Mosfellsbæ. Sé málið lagt að jöfnu við bröltið í Huang Nubo er athyglin dregin frá lítilmótlegum þætti forystumanna Samfylkingarinnar í Nubo-málinu.
Hvergi hefur birst neitt sem sýnir að núverandi ráðamenn leggi sig fram um að laða erlendu spítalafjárfestana til landsins. Raunar heldur Kári Stefánsson því fram í Fréttablaðinu í dag að heilbrigðisráðherra sé „mjög mótfallinn hugmyndinni“.
Sunnudagur 24. 07. 16
Á sínum tíma lá ekki í augum uppi að verða við óskum og áhuga þeirra sem vildu koma á fót einkareknum háskólum við hlið Háskóla Íslands. Að breyttum lögum og gerðum samningum var skrefið hins vegar stigið og bylting varð í háskólastarfi á Íslandi án þess að Háskóli Íslands liði undir lok.
Sagan að baki Listaháskóla Íslands er löng. Árum saman var rætt um að ríkið breytti einstökum skólum á framhaldsskólastigi í háskóla án þess að það tækist. Í tíð Ólafs G. Einarssonar sem menntamálaráðherra á fyrri hluta tíunda áratugarins var enn sett á laggirnar nefnd til að ræða um leið til að koma á fót listaháskóla. Hún lagði til að um einkarekinn skóla yrði að ræða og var sú leið farin. Undir farsælli stjórn Hjálmars H. Ragnarssonar rektors og Stefáns Péturs Eggertssonar verkfræðings á stóli stjórnarformanns hóf skólinn starfsemi og náði sér fljótt á strik enda ríkti jafnan jákvæðni og bjartsýni hjá þeim sem stóðu í brúnni. Því miður tókst þeim félögum ekki að koma starfsemi skólans undir eitt þak vegna hrunsins.
Vissulega voru fordómar í garð einkarekstrar á háskólum. Hann hefur hins vegar staðið þá af sér og eina vinstri ríkisstjórn að auki. Hún lagði ekki til atlögu við þennan einkarekstur.
Þetta er rifjað upp hér og nú vegna ramakveinsins sem upp er rekið af sumum þegar enn einu sinni er reifuð hugmynd um að útlendingar hefji hér rekstur einka-sjúkrahúss. Ef af yrði væri sá rekstur annars konar en rekstur einkaháskólanna að því leyti að ríkið er í raun fjárhagslegur bakhjarl háskólanna með greiðslu á umsaminni fjárhæð að baki hvers nemanda sem greiðir skólagjöld að auki. Talsmenn nýja sjúkrahússins í Mosfellsbæ ætla ekki að semja við Sjúkratryggingar ríkisins til að skapa fjárhagslegan grundvöll starfseminnar.
Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur rakið þræði vegna ákvarðana um Mosfellsbæjarhúsið, talsmaður þess segir að ekki verði rætt við landlækni um starfsleyfi fyrr en eftir þrjú ár þegar húsið verði risið, hann verði að geta kynnt sér aðstæður. Fréttastofan hefur fundið efasemdarrödd hjá samfylkingarkonunni Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni velferðarnefndar alþingi. Hún lét meðal annars þessi ummæli falla: „Þetta er stór samfélagspólitísk spurning og þar er það ekki bara hreinn lagabókstafur sem ræður..“ Það er sem sagt geðþótti en ekki lögin sem eiga að ráða í þessu máli.
Laugardagur 23. 07. 16
Einkennilegt er hve mörgum er gjarnt að breyta öllu sem upp kemur í samfélaginu í pólitískt ágreiningsmál og fara með það á þeim forsendum í fjölmiðla og auk þess krefjast afskipta alþingis eða ráðherra. Þetta gerist á sama tíma og stjórnmálamönnum er gjarnan hallmælt og þeir taldir óhæfir til að taka ákvarðanir. Um álitamálin gilda auk þess almennt lög og reglur sem öllum ber að fylgja.
Ef til vill má rekja megi þessa þróun til breyttrar umræðuhefðar á alþingi. Í upphafi hvers fundar er svigrúm fyrir þingmenn til að viðra skoðanir sínar á stóru og smáu sem sagt er frá í fréttum þann daginn. Reyna þingmenn að komast sjálfir í fréttir með því sem þeir segja í þessum „frjálsa tíma“.
Þrjú ólík mál eru nú á döfinni sem nefna má í þessu samhengi:
Í fyrsta lagi að hvítabjörn frá Grænlandi gekk á land skammt frá Hvalsnesi á Skaga og var sem betur fer skotinn við fyrsta tækifæri. Eftir á hafa menn komið fram með kenningar um að öðru vísi hefði átt að standa að málum. Þessi öðru-vísi-aðferð var reynd á sínum tíma með afskiptum þáverandi umhverfisráðherra og rann einfaldlega út í sandinn. Hvers vegna að gera þetta að pólitísku máli að nýju?
Í öðru lagi má nefna ágreining milli viðbragðsaðila á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum (í annað sinn) um hvaða aðferð skuli beitt við að skýra frá kynferðisbrotum á þjóðhátíð í Eyjum. Ágreiningurinn er sagður snúast um ólíkt mat sérfróðra á hvað sé þolendum kynferðisofbeldis fyrir bestu. Fimm hljómsveitir sem höfðu samið um að koma fram á hátíðinni kusu að breyta ágreiningnum í pólitískt hótunarmál og leita síðan ásjár bæjarstjóra Vestmannaeyja. Lausn með óljósu orðalagi fannst.
Í þriðja lagi er síðan umræða um nýtt sjúkrahús í Mosfellsbæ. Fullnægi þeir sem að sjúkrahúsinu standa lögbundnum skilyrðum ber viðkomandi yfirvöldum að veita þeim starfsleyfi hvað sem einstökum þingmönnum finnst. Fyrsta skrefið var að tryggja land undir nauðsynleg mannvirki. Næsta skref er að skapa starfsumgjörðina að öðru leyti. Það er gleðiefni að ekkert hefur verið rætt um málið við stjórnmálamenn eða embættismenn. Þeir hafa þá ekki gert sig vanhæfa við formlega afgreiðslu málsins. Þar ber þeim að fara að lögum og reglum hvað sem skoðunum þeirra líður.
Föstudagur 22. 07. 16
Donald Trump sagðist forsetaframbjóðandi laga og reglu í lokaræðu flokksþings demókrata í Cleveland, Ohio, að kvöld fimmtudags 21. júlí. Hann ætlaði að hefja Bandaríkin til vegs og virðingar að nýju og hindra að „hræðilega Hillary“ næði kjöri þangað. Hún hefði nú þegar valdið Bandaríkjamönnum nægum skaða.
Allt bendir til þess að eftir tilnefningu Hillary Clinton hjá demókrötum í næstu viku sæti hún stöðugum árásum fyrir óheiðarleika og græðgi frá Trump og hans mönnum. Þeir segjast hafa af nógu að taka. Kosningabaráttán verður illskeytt og persónuleg.
Clinton-liðið mun hamra á að Trump sé ekki treystandi fyrir forystu ríkisins og heraflans. Hann sé óhæfur vegna sjálfselsku sinnar, dónaskapar og vanþekkingar á stjórnsýslu og góðum stjórnarháttum.
Ástæðulaust er að vanemta Trump á lokaspretti hans andspænis Hillary. Hann hefur sannað að honum tekst að framkvæma það sem hann ætlar sér þótt fáir hafi trú á því í fyrstu. Þegar hann hóf baráttuna fyrir tilnefningu repúblíkana og beitti til þess dónaskap, kjafhætti og svívirðingum um andstæðinga átti enginn von á að hann næði svona langt.
Stjórnmál eru spennandi vegna óvissunnar um hvaða stefnu þau taka.
Talsmenn stærstu matvöruverslana landsins hallmæla mest innlendri landbúnaðarframleiðslu og láta eins og þeir geti fyllt skarðið sem yrði, tækjust áform um að grafa undan bændum á þann hátt að þeir yrðu að hætta að framleiða mjólk og kjöt.
Að þessu er vikið í grein Hólmgeirs Karlssonar, framkvæmdastjóra Bústólpa, í Morgunblaðinu í dag þegar hann segir:
„Matvöruverslunin í landinu er sá aðili sem mest elur á þessari skoðun, þ.e. að lækka megi matarverð hér með innflutningi. Sú er bara alls ekki raunin og eru margar ástæður fyrir því. Versluninni gengur það eitt til að ná stjórn á þessum vöruflokkum þannig að hún sé í stöðu til að ráða álagningunni og geta aukið sína afkomu.“
Þetta eru einföld og skýr rök. Harkan í málflutningi talsmanna matvöruverslananna er ekki vegna umhyggju þeirra fyrir hag neytenda heldur vegna hagsmuna fyrirtækja þeirra. Þeir eru að vinna að höfuðmarkmiði sínu að skila sem mestum hagnaði. Almannatenglarnir sem mata fjölmiðlamenn á öðru vinna vel fyrir kaupinu sínu.
Fimmtudagur 21. 07. 16
Þegar framsóknarmenn tilkynntu Ólafi Ragnari Grímssyni um hlutleysi sitt gagnvart minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri grænna (VG) í lok janúar 2009 var það von áhrifamanna innan Framsóknarflokksins að draumurinn um að ýta íhaldinu varanlega til hliðar í íslenskum stjórnmálum rættist að lokum.
Fyrsta markvissa tilraunin til að brjóta upp flokkaskipanina á þennan hátt var gerð með hræðslubandalagi Alþýðuflokks og Framsóknarflokks í þingkosningum árið 1956 þegar Hermann Jónasson var formaður Framsóknarflokksins. Tilraunin rann út í sandinn. Kratar áttuðu sig á að þeir áttu enga samleið með framsókn og 1959 tóku þeir upp samstarf við sjálfstæðismenn í viðreisnarstjórninni sem sat samfellt til ársins 1971.
Innan Framsóknarflokksins hefur jafnan starfað vinstrisinnaður armur, andvígur samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Valgerður Sverrisdóttir var í forystu þessa arms framsóknarmanna í ársbyrjun 2009. Hún talaði þá fyrir aðild Íslands að ESB og tók síðan að sér eftir 1. febrúar 2009 að leiða þingnefnd um framgang stjórnarskrármáls Jóhönnu Sigurðardóttur.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í janúar 2009 og mátti sín lítils fram að þingkosningum í apríl 2009 á meðan framsóknarmenn á alþingi háðu harða baráttu við sjálfstæðismenn í stjórnarskrármálinu, baráttu sem Jóhanna, VG og framsókn töpuðu.
Eftir að Bjarni Harðarson, þingmaður framsóknar, sagði af sér í nóvember 2008 vegna mistaka við sendingu tölvubréfs þar sem afstaða Valgerðar Sverrisdóttur til ESB var gagnrýnd af tveimur kjósenda hennar, settist varamaður Bjarna, Eygló Harðardóttir, á þing. Var hún úr þeim armi Framsóknarflokksins sem þolir illa sjálfstæðismenn. Í ræðu um stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur 4. febrúar 2009 sagði Eygló m. a.:
„Með nýjum formanni Framsóknar voru innleiddir nýir tíma í íslensk stjórnmál. Tilboð um stuðning við minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur losað þjóðina úr spennitreyju frjálshyggjunnar. Þetta tilboð opnaði Samfylkingunni leið úr kæfandi faðmlagi Sjálfstæðisflokksins sem hún nýtti sér til heilla fyrir þing og þjóð.“
Nú er Eygló tekin til við að kvarta undan samstarfi við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn síðan 2013 og segist hafa átt í „stöðugum slagsmálum“ um fjárveitingar. Vill hún falla frá áformum um að lækka skuldir ríkisins og telur réttmætt að hækka skatta. Þetta eru dæmigerðar vinstri lausnir sem leiða til stöðnunar. Stóra spurningin er: Hver leiðir framsókn í næstu kosningum? Eygló?
Miðvikudagur 20. 07. 16
Um hvað snýst mál sem nú setur mikinn svip á fréttir ríkisútvarpsins og varð til þess að dagskrárgerðarmaður í morgunþætti rásar 2 fór með svo ósmekkleg ummæli að hún baðst afsökunar á þeim? Jú, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur beint því til viðbragðsaðila á þjóðhátíð Vestmannaeyjum að þeir veiti fjölmiðlum engar upplýsingar um kynferðisbrot sem kann að reka á fjörur þeirra á þjóðhátíð 2016.
Lögreglustjórinn sendi svipuð tilmæli fyrir ári. Sumir viðbragðsaðilar virða þau aðrir ekki. Tilgangurinn er að grunur verði ekki opinberlega staðfestur af opinberum eða hálf-opinberum aðilum. Meginrökin eru umhyggja fyrir þolandanum. Ætla má vegna viðbragðanna að í þessum tilmælum felist eitthvert fréttabann af þjóðhátíð. Svo er auðvitað ekki. Fjölmiðlar geta hins vegar ekki vitnað í dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum í leit að fréttum um þetta efni heldur verði að treysta á aðrar heimildir.
Fjölmiðlar sem hafa áhuga á þessum þætti þjóðhátíðarinnar á meðan hún stendur verða að leggja meira á sig til að afla frétta um hann en að hringja í lögregluna.
Theresa May, nýr forsætisráðherra Breta, sat í fyrsta sinn fyrir svörum í nýju embætti sínu í neðri deild breska þingsins í dag. Sé litið á þennan spurningatíma sem einvígi milli forsætisráðherrans og leiðtoga stjórnarandstöðunnar er augljóst að May gjörsigraði Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins. Staða hans innan eigin þingflokks er ömurleg en hann heldur í völdin í krafti þess að hann hafi sigrað í almennri kosningu félaga í Verkamannaflokknum. Vill Corbyn takast á við andstæðing sinn á þeim átakavelli.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, sat fyrir svörum á rás 2 ríkisútvarpsins í gær og veittist að Sjálfstæðisflokknum. Hún sagði m.a.:
„Það hafa verið mikil átök. Stundum jafnvel slagsmál við samstarfsflokkinn um framlög inn í velferðarkerfið.“
Vigdís Hauksdóttir, flokkssystir Eyglóar og formaður fjárlaganefndar alþingis, mótmælir þessum orðum og segir við Kjarnann í dag að samstarfið við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd, þar sem pólitíkin ræður meðferð fjárlagafrumvarpsins, hafi verið „afar gott“.
Eygló er í vinstri armi Framsóknarflokksins. Þar hafa menn jafnan horn í síðu Sjálfstæðisflokksins, studdu t. d. þess vegna minnihlutastjórn Jóhönnu 1. febrúar 2009. Að standa gegn lækkun skulda ríkissjóðs vegna varðstöðu um útgjöld til félagsmála sýnir að Eygló er á röngu vinstra róli.
Þriðjudagur 19. 07. 16
Aldrei er auðvelt að fóta sig á svelli stjórnmálanna. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefsíðunnar Kjarninn, reynir það í hugleiðingu á síðunni þriðjudaginn 19. júlí þar sem hann dregur stjórnmálamenn og flokka í dilka og skipar sér sess fyrir ofan þá enda sjái hann hlutina í stóra samhenginu. Þeir sem hafa reynslu af stjórnmálastarfi þykja slíkar æfingar forvitnilegar en þær eru einkum fóðurgjöf fyrir aðra álitsgjafa því að kjarni málsins er að það eru atvik og atburðir sem ráða mestu um framvindu stjórnmálanna.
Afstaða fólks til stjórnmálamanna mótast af mati á viðbrögðum þeirra við því sem að höndum ber. Viðbrögðin ráðast af stjórnmálaskoðunum eins og sannaðist þegar Steingrímur J. Sigfússon notaði hrunið til að innleiða hér sósíalíska skattastefnu sem lengi hafði verið draumur hans en reyndist martröð annarra og olli skaða í hagkerfinu. Þá notaði Jóhanna Sigurðardóttir hrunið til að viðra sérviskulegar hugmyndir sínar í stjórnarskrármálum. Loks var það síðan ESB-aðildarumsóknin en vegna hennar kynnist þjóðin svartasta skeiðinu í sögu íslensku utanríkisþjónustunnar vegna misheppnuðustu stefnumótunar stjórnvalda í utanríkismálum.
Í grein sinni segir Þórður Snær meðal annars að fólkið sé orðið þreytt á „að hlusta á pilsfaldarkapitalista í hugmyndafræðilegu gjaldþroti setja fram tillögur um að aðlaga þurfi menntakerfið að frumatvinnuvegunum og því Íslandi sem var, í stað þess að arðsemi auðlindanna verði notuð til að skapa það land sem fólkið vill búa í og þau atvinnutækifæri sem það kýs að spreyta sig á til frekari verðmætasköpunar. Það er orðið þreytt á upphrópunum á ómálefnalegum klisjum sem eru aldrei studdar neinum rökum, heimildum eða gögnum“.
Hér hefði verið æskilegt að Þórður Snær skýrði mál sitt með dæmum. Án þeirra er þessi texti einmitt til marks um það sem hann er að gagnrýna, upphrópanir sem missa marks. Hverjir eru það sem kynna tillögur um að aðlaga menntakerfið sjávarútvegi og landbúnaði, hinum hefðbundnu frumatvinnuvegum? Hvernig birtist andstaðan við að nýta „arðsemi auðlindanna“ til að skapa land sem kallar á búsetu fólks?
Í boðskap Þórðar Snæs gætir sömu óvildar og víðar má sjá í garð þeirra sem eldri eru og hafa ríka reynslu af stjórnmálastörfum. Sorglegustu dæmin um að illa fari í stjórnmálasögunni er að hafa reynslu og það sem sagan geymir að engu.
Mánudagur 18. 07. 16
Á vefsíðunni eyjan.is voru sunnudaginn 17. júlí nokkur „celeb“ nefnd sem hugsanlegir frambjóðendur Viðreisnar í komandi kosningum. Því var meira að segja haldið fram að Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi yrði leiðtogi og forsætisráðherraefni flokksins og frambjóðandi auk Páls Magnússonar, fyrrv. útvarpsstjóra.
Mánudaginn 18. júlí kemur annað í ljós.
Halla Tómasdóttir sem er í fríi á Spáni segir 18. júlí á FB-síðu sinni:
„Ja hérna, það er greinilega áhættusamt að fara í frí og úr sambandi við umheiminn. Ég fullvissa ykkur kæru vinir að ég hygg hvorki á valdarán né framboð. [...] Er ykkur þó þakklát fyrir hvatninguna!“
Með orðinu „valdarán“ vísar Halla til orða sem Benedikt Jóhannesson leiðtogi Viðreisnar lét falla í samtali við Jakob Bjarnar á visir.is mánudaginn 18. júlí. Þar segir að hvorki Halla né Páll hafi rætt framboð við Benedikt. Jakob Bjarnar segir:
„Ekkert rætt um hugsanleg framboðsmál Höllu og Páls . Allt þetta hefur þá verið ákveðið án samráðs við formanninn [Benedikt] sem veltir því nú fyrir sér, meira í gamni en alvöru, að um sé að ræða valdaránstilraun. „Ég hef ekkert við hana rætt. Né hún við mig. Ég hef rætt við Pál Magnússon. Ræddi við hann í viðtali á Bylgjunni, þá spurði hann mig um ýmis mál en hann ræddi ekkert sín framboðsmál.[...] En, þú mátt greina frá því að mjög líklegt er að ég verði í framboði. Þar er þá komið eitt nafn sem hægt er að staðfesta.“
Greint var frá því 12. júlí að Viðreisn hefði ráðið Birnu Þórarinsdóttur sem framkvæmdastjóra. Hún stjórnaði á sínum tíma starfinu í Evrópustofu, upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi. Rætur Viðreisnar má einmitt rekja til reiði Benedikts Jóhannessonar og fleiri yfir að landsfundur sjálfstæðismanna ályktaði árið 2013 að Evrópustofu, áróðursstofu ESB á Íslandi, skyldi lokað. Þá var sagt að Evrópustofa hefði ekkert með aðild að ESB að gera, hún væri einskonar Fulbright-stofnun! Að sjálfsögðu var stofunni lokað og gerðist það 31. ágúst 2015. Þá sagði Dóra Magnúsdóttir, arftaki Birnu: „Það er alveg skýr vilji Evrópusambandsins að starfa ekki í andstöðu við vilja stjórnvalda í hverju landi fyrir sig.“ Stofan yrði hugsanlega enduropnuð sæktu Íslendingar að nýju um ESB-aðild.
Sunnudagur 17. 07. 16
Fyrir skömmu hitti ég listunnanda sem ræddi af mikilli innlifun um hve Ragnar Kjartansson myndlistarmaður hefði áunnið sér mikla aðdáun margra um heim allan. Hann ætti eftir að öðlast meiri frægð en Ólafur Elíasson. Það væri undarlegt hve Íslendingar virtust tregir til að átta sig á virðingunni sem Ragnar nyti. Ég skyldi bara bíða og sjá hvað yrði sagt um Ragnar þegar hann opnaði sýningu sína í Barbican í London á næstunni. Án þess að ég mótmælti einu orði af þessu áréttaði viðmælandi minn skoðun sína með því að segja að það eitt að vera boðið að setja upp sýningu í Barbican sannaði ágæti Ragnars.
Sýning Ragnars The Visitors var opnuð í Barbican í liðinni viku. Laura Cumming skrifar einstaklega lofsamsamlega um hana í The Observer sunnudaginn 17. júlí en textann má lesa í heild hér á vefsíðunni guardian.com. Cumming segir meðal annars:
„Ragnar Kjartansson, who staged this vision, is one of the most brilliant artists at work today. Once seen, his art has true staying power. For many people, his white-sailed boat disappearing across the remotest harbour of the Venice Arsenale in 2013, carrying a crew of musicians performing an exquisite lament from dawn to dusk, was not just an unforgettable elegy for centuries of sailors crossing the bar but one of the most haunting spectacles in the history of the biennale.[...]
For the broken-hearted, Ragnar Kjartansson offers consolation; for lovers he conjures a mirror of their blessed state. The Visitors is a marvellous creation, rhapsodic, mesmerising and overwhelmingly affecting. It runs for more than an hour but you could stay there for ever. I could not pull myself away.“
Ég sé ekki betur en listfróði viðmælandi minn hafi haft rétt fyrir sér um að Ragnari Kjartanssyni yrði fagnað í Barbican.
Laugardagur 16. 07. 16
Þetta hefur verið söguleg vika. Theresa May varð forsætisráðherra Breta, hryðjuverkamaður varð 84 að bana í Nice og olli líkamstjóni á 202 með því að aka flutningabíl í mannþröng sem fagnaði þjóðhátíðardeginum 14. júlí og herinn gerði tilraun til byltingar í Tyrklandi.
Allt mál sem ég hef fylgst með stig af stigi af áhuga enda haft til þess nægan tíma, tölvu og snjallsíma hér í sjúkrahúsinu á Selfossi þar sem ég hef legið frá sunnudeginum 10. júlí vegna bráðrar húðsýkingingar sem kom fram á vinstra fótlegg. Liðu um 34 tímar frá því að ég varð einkenna um sýkingu var þar til ég ákvað að aka á bráðamóttökuna í sjúkrahúsinu á Selfossi. Þar var ég greindur og síðan lagður inn til að fá sýklalyf reglulega í æð. Á einni viku frá því að ég varð einkennana var hefur læknum og hjúkrunarfólki tekist að sigrast á sýklunum og síðdegis var ég útskrifaður.
Ég var minntur á að á sínum tíma hefði sýking af sama toga leitt sjálfan Gretti sterka til dauða og þess vegna bæri að fara að öllu með gát og ráða niðurlögum sjúkdómsins. Fyrir 25 árum fékk ég svipaða sýkingu og lá þá í nokkra daga á LSH með sýklalyf í æð.
Heimakoma er íslenskt orð um bráða húðsýkingu og segir í lýsingu á doktor.is að oft fylgi heimakomu sótthiti, skjálfti og almenn vanlíðan. Heimakoman geti komið fyrir hjá hvaða fólki sem er en sé algengust hjá börnum og eldra fólki. Sé ekkert að gert geti heimakoma leitt til blóðsýkingar (blóðeitrunar) og hún geti komið fyrir aftur og aftur á sama stað og þá sé hætta á langvarandi þrota og bjúg. Stundum sé til staðar langvarandi sveppasýking, t.d.milli táa, sem veiki húðina og geri bakteríum mögulegt að komast í gegnum hana og valda endurtekinni heimakomu eða annars konar sýkingum.
Við allar mínar sundferðir hef ég reynt að verjast því að fá fótsvepp en betur má ef duga skal.
Læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk sjúkrahússins á Selfossi hefur reynst mér afburðavel þessa daga, umhyggjan og þjónustan er með miklum ágætum. Þá er maturinn til fyrirmyndar og fiskurinn betri en á besta veitingastað. Kærar þakkir fyrir mig.
Föstudagur 15. 07. 16
Samskipti Kaffitárs við opinbera hlutafélagið ISAVIA hafa verið sérkennileg undanfarin misseri. ISAVIA hafnaði tilboði Kaffitárs um að reka áfram veitingastað í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kaffitár bað um skýringar en fékk ekki. Loks leitaði Kaffitár til dómstóla og hæstiréttur sagði Kaffitár eiga rétt á umbeðnum upplýsingum. Enn neitaði ISAVIA en lét undan eftir að dómari skipaði sýslumanni að sjá til þess að Kaffitár fengi gögnin.
Á vefsíðu ISAVIA má í dag lesa frétt um að ISAVIA hafi í morgun boðsent gögnin á skrifstofu Kaffitárs þar sem tekið hafi verið við þeim.
Í fréttinni segir ISAVIA að samkeppniseftirlitið hafi varað við afhendingu gagnanna og viðtöku í því kynni að felast brot á samkeppnislögum. Í fréttinni segir:
„Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi varað við því að Isavia gæti gerst brotlegt við samkeppnislög með afhendingu gagnanna, taldi fyrirtækið sér ekki annað stætt en að verða við úrskurði héraðsdóms þar um. Það er þá á ábyrgð Kaffitárs að hafa tekið við gögnunum, en Samkeppniseftirlitið telur að viðtakan geti falið í sér brot á samkeppnislögum.“
Afskipti samkeppniseftirlitsins af miðlun gagnanna frá ISAVIA gera málið enn skrautlegra. Telur eftirlitið að héraðsdómur hafi framið lögbrot með því að verða við tilmælum Kaffitárs? Dómarar eiga síðasta orðið um hvort lög eru brotin eða ekki.
Þessa meginreglu um hlutverk dómara er mikilvægt að hafa í heiðri. Innan stjórnsýslunnar geta menn leitað álits æðra stjórnvalds telji þeir ranglega staðið að málum. Þetta á til dæmis við um tímabundna lausn frá störfum eins og sagt var frá í fréttum nýlega varðandi tímabundna brottvísun lögreglumanns á höfuðborgarsvæðinu. Innanríkisráðuneytið reyndist ósammála lögreglustjóranum um hvert væri meðalhóf í máli lögreglumannsins og taldi að lögreglustjórinn hefði átt að treysta á betri gögn en orðróm við töku ákvörðunar sinnar.
Að aðilar innan stjórnsýslunnar séu ósammála um hvað sé meðalhóf er ekki óalgengt enda er um matskennda reglu að ræða og æðra stjórnvaldið hefur oft aðgang að meiri gögnum en hið lægra þegar það úrskurðar í málinu. Að í ágreiningi um slíka matskennda hluti felist eitthvert vantraust á lægra setta stjórnvaldinu er af og frá. Það væri eins og menn teldu það vantraust á héraðsdómara að hæstiréttur kæmist að annarri niðurstöðu en hann.
Fimmtudagur 14. 07. 16
Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar fjárfestingarfélags, er viðmælandi Stefáns Einars Stefánsson í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Um stöðuna á bankamarkaði segir Hannes Frímann:
„Það kæmi mér alls ekki á óvart þó staðan á bankamarkaði yrði eitt af kosningamálunum í alþingiskosningunum í haust. Það hefur mikil umræða verið uppi um uppbyggingu fjármálamarkaðarins og m.a. umræða um aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi og það kæmi mér ekki á óvart þó sú umræða leiddi til einhvers konar uppstokkunar á markaðnum nú þegar ríkið heldur á stórum hluta fjármálakerfisins. Menn sjá auðvitað ákveðin tækifæri í því að gera breytingar á þessu sviði þegar um 70% af kerfinu er í höndum ríkisins. Núna heldur ríkið á nær öllu hlutafé Landsbankans, Íslandsbanka í heild sinni, talsverðum hlut í Arion banka og svo má ekki gleyma Íbúðalánasjóði í þessu samhengi heldur.[...]
Það er mjög óeðlilegt ef ríkið ætlar að eiga í tveimur eða fleiri fyrirtækjum á samkeppnismarkaði og nauðsynlegt að það sé gert að forgangsmáli að losa um eignarhald ríksins á a.m.k. öðrum ríkisbankanum sem fyrst. Það er í sjálfu sér ekki ólíklegt eða óeðlilegt að ríkið haldi kjölfestuhlut í einum af bönkunum til lengri tíma en þá er mikilvægt að eigendastefna ríksins sé mjög skýr“
Allt er þetta rétt og mælt af skynsemi. Ein meginrökin fyrir að efnt sé til kosninga í haust er að flokkarnir geri þjóðinni grein fyrir hvaða stefnu þeir hafa í þeim málum sem þarna er lýst. Þetta er ný staða og á henni ber að taka á opin, gagnsæjan hátt með skýru umboði frá kjósendum.
Því miður leiddi einkavæðing bankanna fyrir hrun til þess að bankarnir lentu í höndum manna sem kunnu sér ekki nægilegt hóf með hroðalegum afleiðingum fyrir þjóðina og þá. Leyni-einkavæðing Steingríms J. Sigfússonar er víti til að varast. Allt hefur þetta leitt til djúpstæðrar vantrúar almennings á að pólitískir forystumenn þjóðarinnar hafi þekkingu, vit og burði til að marka og framkvæma stefnu um leið frá þessum mikla eignarhlut ríkisins í fjármálastofnunum.
Undir forystu efnahags- og fjármálaráðherra hafa markviss skref verið stigin á mótaðri stefnu úr fjármagnshöftunum. Að upphafsskrefunum komu erlendir sérfræðingar. Þá þarf einnig að kalla til vegna losunar á ríkiseignarhaldinu. Fyrst þarf þó að móta stefnuna og kynna hana almenningi fyrir kosningar.
Miðvikudagur 13. 07. 16
David Cameron kvaddi neðri deild breska þingsins í dag sem forsætisráðherra. Andrúmsloftið í þingsalnum minnti á það sem gerist í klúbbum. James Kirkup, álitsgjafa hjá The Telegraph, þótti nóg um í dálki sem hann ritaði á vefsíðuna í dag. Hann lauk henni með þessum orðum:
„I'm not saying Mr Cameron should go out in sackcloth and ashes, but politics shouldn't be a cosy club. It should be a fight, a contest of ideas and arguments and policies. David Cameron fought many such battles and won a good many of them, even if he lost the last one on Europe. His last day in the Commons should have rehearsed and aired those arguments, MPs criticising and praising him as they saw fit and as voters would want, with Mr Cameron giving a full account of himself. If he and his fellow MPs really wanted to do their duty today, they should have made sure he went out fighting.“
Ég íslenska ekki þennan texta en hann fellur vel að skoðun minni á hvernig staðið skuli að verki í þingum og sveitarstjórnum. Ég tek einnig undir með Kirkup þegar hann segir að þetta viðhorf sitt sé síður en svo vinsælt hjá öllum. Flestir fagni þegar stjórnmálamenn beri lof hver á annan og telji það þjóðlífinu til hagsbóta.
Ekkert segir að það sé rétt. Málið snýst um að klúbburinn kveður félaga í þeirri von eðs vissu að hver og einn klúbbfélagi njóti sama heiðurs.
Hvergi hefur þetta líklega gengið lengra en í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, kvödd með samþykkt ályktunar um viðskiptabann á Ísrael. Vegna harðrar gagnrýni, skorts á rökum og þess hve ályktunin var vitlaus rann hún út í sandinn og varð flutningsmönnum og samþykkjendum til skammar.
Krafan um klúbbandrúmsloftið tók á sig einkennilega mynd í nýlegri forsetakosningabaráttu þegar ýmsum þótti goðgá og um það var rætt í hneykslunartóni að Davíð Oddsson vildi beina athygli að skoðunum og ummælum Guðna Th. Jóhannessonar sem snertu sögu, metnað og stöðu þjóðarinnar út á við. Megi ekki draga fram andstæðar skoðanir þegar kosið er á milli manna er gengið lengra en góðu hófi gegnir.
Þriðjudagur 12. 07. 16
Theresa May verður næsti forsætisráðherra Breta. Að hún hafi verið innanríkisráðherra í sex ár, lengur en nokkur annar í 60 ár, sýnir að mikið er í hana spunnið. Hún sýndi klókindi í Brexit-málinu. Var höll undir sjónarmið úrsagnarsinna þar til atkvæðagreiðslunnar var boðað og ráðherrar urðu að taka af skarið. Þá lýsti hún stuðningi við aðild. Hvort hún gerði það til að halda embætti sínu ef málstaður Davids Camerons nyti stuðnings meirihlutans er óvíst, hún gerði það örugglega alls ekki til að verða forsætisráðherra eftir að Cameron neyddist til að segja af sér vegna meirihlutasigurs úrsagnarsinna fimmtudaginn 23. júní. Það kom May og Cameron báðum í opna skjöldu.
Menn geta sigrað í kosningum þótt þeir tapi kosningabaráttunni eins og sannaðist hér 25. júní. Menn geta einnig unnið kosningar en tapað eftirleiknum eins og sannast hefur rækilega hjá breskum úrsagnarsinnum eftir 23. júní. Hrakför þeirra hefur tekið á sig ýmsar myndir en einkum snúist um þrjá einstaklinga innan þingflokks íhaldsmanna: Boris Johnson, Michael Gove og Andrea Leadsom. Í fyrstu lotu rofnaði bandalag Johnsons og Goves, í annarri lotu skýrðist að Leadsom er ekki leiðtogaefni, í þriðju lotu var May sjálfkjörin eftir uppgjöf Leadsom.
Alastair Campell almannatengli er oft lýst sem manninum á bakvið velgengni Verkamannaflokksins undir Tony Blair. Hann sagði á Twitter 11. júlí þegar May varð sjálfkjörin flokksformaður:
„So there we are. A referendum that was about the people choosing our leaders has led to a new PM being decided by one very silly interview.“ - „Þá er svona komið. Þjóðaratkvæðagreiðsla sem snerist um að fólkið veldi leiðtoga okkar hefur leitt til þess að nýr forsætisráðherra er ákveðinn með vísan til eins kjánalegs viðtals.“
Viðtalið sem um ræðir var við Leadsom og birtist sunnudaginn 10. júlí í The Sunday Times undir fyrirsögninni: Being a mother gives me edge on May — Leadsom – Að ég er móðir gefur mér forskot á May – Leadsom. Síðan sagði í upphafi viðtalsins: „Tory minister says she will be better leader because childless home secretary lacks ‘stake in future'“. Íhaldsráðherra [Leadsom] segist verða betri leiðtogi vegna þess að barnlausan innanríkisráðherrann skorti „eign í framtíðinni“.
Enn einu sannast að stjórnmálin eru spennandi vegna þess að enginn veit hvernig þau þróast.
Mánudagur 11. 07. 16
Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í ráðstefnu í Noregi þar sem háttsettur flotaforingi innan NATO hafði á orði í erindi sem hann flutti að í ályktunum sínum og stefnumótun mættu pólitískir forystumenn bandalagsins stundum minnast á það sem félli undir bókstafinn A í skammstöfuðu heiti bandalagsins, Atlantshafið.
Í ljósi þessa áhugaleysis og þess að áhugi stjórnmálamanna og herforingja beindist mest að Eystrasalti og suð-austursvæði NATO um þessar mundir spáði ég því í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 8. júlí að ekki yrði minnst á N-Atlantshafið í lokaályktun fundar ríkisoddvita NATO í Varsjá 8. og 9. júlí. Ég reyndist hafa rangt fyrir mér. Það er gert í tveimur af 139 greinum lokaályktunarinnar. Greinarnar tvær má lesa í heild á vefsíðunni vardberg.is
Orðalagið um N-Atlantshaf er ekki eins afdráttarlaust og um Eystrasalt og Svartahaf þar sem rætt er um viðbrögð við versnandi ástandi í öryggismálum.
Í 23. grein segir að Rússar haldi áfram að styrkja hernaðarlega stöðu sína, auka hernaðarumsvif sín, taka í notkun nýjan háþróaðan búnað og ögra svæðisbundnu öryggi. Á Norður-Atlantshafi eins og annars staðar verði bandalagið tilbúð til að beita fælingar- og varnarmætti gegn hvers kyns hugsanlegri ógn, þ. á m. gegn siglingaleiðum og hafsvæðum í nágrenni stranda NATO-ríkja.
Í 47. gr. segir að bandalagið muni enn bæta strategíska forsjálni sína með því að efla greiningarstarf sitt, einkum í austri, suðri og á Norður-Atlantshafi. Geta þess til að skilja, fylgjast með og loks að sjá fyrir aðgerðir hugsanlegra andstæðinga með njósnum, eftirliti og könnun (Intelligence, Surveillance and Reconnaissance (ISR) og víðtækri upplýsingaöflun verði sífellt mikilvægari. Aðgerðir á þessum sviðum ráði úrslitum varðandi tímanlegar og upplýstar ákvarðanir um stjórnmál og hermál. Bandalagið ráði yfir nauðsynlegum kerfum til að tryggja að svörunarhæfni þess sé samsvarandi og hjá þeim herafla þess sem geti brugðist við með skemmstum fyrirvara.
Sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra Íslands og varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna sem var birt 29. júní fellur vel að orðalaginu í 47. gr. Varsjárályktunarinnar. Eftirliti og könnun er haldið úti frá Keflavíkurflugvelli og þessa starfsemi er ætlunin að efla.
Þegar flotaforinginn sem nefndur var hér í upphafi flutti erindi sitt var ekki lögð áhersla á sameiginlegar varnir NATO-svæðisins í ályktunum bandalagsins heldur aðgerðir fjarri því. Þetta er nú breytt og N-Atlantshafið skiptir að nýju máli.
Sunnudagur 10. 07. 16
Umræður um formennsku í Framsóknarflokknum halda áfram. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður tilkynnti þingflokki framsóknarmanna 5. apríl, tæpum tveimur sólarhringum eftir útsendingu á alræmdum Kastljós-þætti um Panama-skjölin að hann segði af sér sem forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, varð forsætisráðherra en sagðist styðja Sigmund Davíð sem flokksformann.
Lilja D. Alfreðsdóttir, sérfræðingur í seðlabankanum, kom þaðan í stól utanríkisráðherra. Hún hefur ekki ákveðið hvort hún haslar sér völl í stjórnmálum. Tækifærið virðist gott til þess þar sem þungavigtarfólk framsóknarmanna í Reykjavík hefur boðað brottför af þingi. Fylgi Framsóknarflokksins mælist hins vegar lítið.
Lilja styður Sigmund Davíð sem formann enda náinn samstarfsmaður hans.
Ef marka má orð Sigmundar Davíðs við afsögn hans sem forsætisráðherra kæmi á óvart að hann legði það á fjölskyldu sína að sækjast eftir flokksformennsku á auka-flokksþingi fyrir kosningar í haust.
Munu þau Sigurður Ingi og Lilja takast á um að leiða Framsóknarflokkinn eftir brottför Sigmundar Davíðs?
Laugardagur 09. 07. 16
Styrmir Gunnarsson fyrrv. ritstjóri, skrifar grein í Morgunblaðið í dag um Þingeyraverkefnið, fornleifarannsóknir, bókmenningarrannsóknir og gróðurfarsrannsóknir tengdar klaustrinu sem var starfrækt í um fjórar aldir á Þingeyrum í Húnaþingi, frá 12. öld fram á 16. öld.
Eigendur Þingeyra, hjónin Valgerður Valsdóttir og Ingimundur Sigfússon höfðu frumkvæði að rannsóknunum með því að opna land sitt fyrir vísindamönnunum. Þriðjudaginn 5. júlí buðu þau til opins kynningarfundar um verkefnið. Styrmir sótti hann og er það tilefni greinar hans. Undir lok hennar segir:
„Áhugi sveitunga þeirra Þingeyrarhjóna á þessu verkefni vakti athygli aðkomumanna. En staðreynd er að Þingeyrarverkefnið getur haft grundvallarbreytingar í för með sér fyrir Húnaþing til langrar framtíðar. Með fornleifarannsóknum og öðrum rannsóknum er lagður grundvöllur að endurreisn Þingeyra, sem sögulegs menningarseturs á þessum slóðum.
Um leið og Þingeyrar rísa á ný rís Norðvesturland í margvíslegum skilningi. Og milljónir ferðamanna fá tækifæri til að kynnast liðinni tíð á þessari norðlægu eyju sem þeir eru að byrja að taka eftir.
Þess vegna á að hlúa að Þingeyrarverkefninu eins og öðrum slíkum sögulegum og menningarlegum verkefnum, svo sem uppbyggingu Snorrastofu í Reykholti. Það eru fleiri slík tækifæri á Íslandi, sem á að nýta.“
Yfirstjórn þjóðkirkjunnar hefur sætt gagnrýni vegna þess að tveir hælisleitendur frá Írak voru hvattir til að leita skjóls í Laugarneskirkju eftir að yfirvöld höfðu afgreitt mál þeirra og lögregla hafði fengið lögmæt fyrirmæli um að flytja þá úr landi. Agnes M. Sigurðardóttir biskup reynir að berja í brestina í grein í Morgunblaðinu í dag. Biskup segir meðal annars:
„Kirkjan í nágrannalöndum okkar, svo sem Noregi, beitir sér í þágu hælisleitenda á sambærilegan máta og Laugarneskirkja lét reyna á. Kirkjan hefur þar skotið skjólshúsi yfir hælisleitendur á meðan stjórnvöld afgreiða umsóknir þeirra. Kirkjunnar fólk, leikir og lærðir, leggur þar sitt af mörkum í samstarfi við yfirvöld til að mæta vanda þeirra og veita þeim stuðning. Á meðan fá þessir einstaklingar að vera í umsjón kirkjunnar og yfirvöld leggja áherslu á að ljúka máli þeirra á málefnalegan máta.“
Eitt er að norska kirkjan veiti hælisleitendum skjól á meðan stjórnvöld afgreiða umsóknir þeirra. Annað hvort kirkjan í Noregi reyni að hindra laganna verði í störfum þeirra. Biskup segir ekkert um það – gerir norska kirkjan það?
Föstudagur 08. 07. 16
Hér var vikið að því í gær hvort Jón Bjarnason, fyrrv. þingmaður VG og ráðherra, hefði talað sem formaður Heimssýnar sem berst gegn aðild Íslands að ESB þegar hann formælti nýlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra Íslands og varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna um varnir Íslands.
Jón ræðir þetta á blog-síðu sinni 7. júlí og segir:
„Ég var ekki að tala fyrir hönd Heimssýnar við ruv um þetta mál enda hafa samtökin ekki tekið þennan samning fyrir á fundi sínum né heldur er það á sviði þeirra samtaka. Það er í sjálfu sér fjölmiðilsins að ákveða kynningu á viðmælendum sínum svo lengi sem farið er með rétt mál. Í sjónvarpsfréttum í gær var ég kynntur sem sérstakur áhugamaður um fullveldi Íslands og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra en í útvarpsfréttum var þess getið að ég væri formaður Heimssýnar. Hinsvegar var hvergi á það minnst að ég talaði fyrir hönd samtökin Heimssýn um þennan varnarsamning við Bandaríkin enda var það ekki svo.“
Miðað við alla gamla herstöðvaandstæðinga sem enn láta að sér kveða í opinberum umræðum er rannsóknarefni hvers vegna fréttamönnum ríkisútvarpsins datt í hug að hringja í Jón Bjarnason og spyrja hann um ofangreinda yfirlýsingu.
Menn þurfa ekki að rannsaka lengi: Jón er formaður Heimssýnar og hann brást ekki vonum fréttastofunnar um að tala gegn skoðunum fjölmargra sem hafa lagt málstað Heimssýnar lið. Jón datt í pyttinn og tilgangi fréttastofunnar var náð en fréttin var í raun engin. Næst var svo hringt úr Efstaleitinu í staðgengil rússneska sendiherrans á Íslandi sem gekk ekki eins langt og Jón í fordæmingu á yfirlýsingunni.
Í raun er þessi framganga fréttastofunnar í Efstaleiti í anda þess furðulega sem þar getur gerst þegar leitast er við að gera eðlileg samskipti tortryggileg. Landsmenn eru skyldaðir til að standa undir kostnaði við ríkisútvarpið hvort sem þeir líkar betur eða verr. Fjárhagsleg staða þess er öruggari en þjóðkirkjunnar sem menn geta yfirgefið sé þeim misboðið af þjónum hennar. Heimssýn getur formaður félagsins auðveldlega eyðilagt með gálausu tali um grafalvarleg mál.
Fimmtudagur 07. 07. 16
Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra og alþingismann vinstri grænna, miðvikudaginn 6. júlí um sameiginlega yfirlýsingu ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnir Íslands frá 29. júní 2016 og kynnti sem „talsmann fullveldismála“ og formann Heimssýnar. Á ruv.is sagði:
„Hann [Jón] telur að þessi yfirlýsing gangi mun lengra en varnarsamningurinn frá 1951. „Í samskiptum þjóða eiga samningarnir að vera mjög afmarkaðir og niðurnjörvaðir þannig að báðir aðilar viti hvað til síns friðar heyri í þeim efnum,“ segir hann. „Þessi er opinn og það verður þá hluti stóra bróður, sem er Bandaríkin, að skilgreina það sér í hag á hverjum tíma. Þetta gengur gegn íslenskum þjóðarhagsmunum.“
Þessi skoðun Jóns um að yfirlýsingin gangi lengra en varnarsamningurinn er órökstudd og stenst ekki gagnrýni. Yfirlýsingin er ekki samningur og hún er ekki opin. Hún lýsir hvernig ríkin ætla að haga samstarfi sínu í varnamálum um þessar mundir. Hún fellur innan varnarsamningsins frá 1951 og samkomulags um varnarmál sem ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna gerðu 11. október 2006 eftir brottför varnarliðsins.
Engir fylgjast betur með öllu er varðar varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna en starfsmenn rússneska sendiráðsins í Reykjavík. Á tíma kalda stríðsins hikuðu álitsgjafar sovéskra fjölmiðla ekki við að hóta Íslendingum vegna samstarfs þeirra við Bandaríkjamenn og umsvifa þeirra á Keflavíkurflugvelli. Var oft samhljómur milli Rússa og talsmanna herstöðvaandstæðinga hér á landi og mátti ekki á milli sjá hvor teldi hættulegra fyrir Íslendinga að treysta á varnarsamstarf við Bandaríkjamenn og vera í NATO.
Nú bregður hins vegar svo við að Jón Bjarnason gengur lengra í andstöðu sinni við yfirlýsinguna um varnarmál en Alexey V. Shadskiy, staðgengill rússneska sendiherrans í Reykjavík, gerði í sjónvarpsviðtali í 22.00-fréttum ríkisútvarpsins miðvikudaginn 6. júlí. Á ruv.is segir hann:
„Það er ekkert nýtt í samkomulaginu, ég las samkomulagið á íslensku og ensku og það er ekkert nýtt get ég sagt. Allt sem skrifað er þar sýnist mér bara verið að skjalfesta það sem þegar er.“
Heimssýn eru samtök þeirra sem vilja ekki Ísland í Evrópusambandið og til að vinna að þeim málstað er Jón Bjarnason formaður í samtökunum. Hafi hann talað sem Heimssýnar-formaður um varnarmál við fréttatsofuna eins og má skilja á kynningu á honum í fréttatímanum fór hann út fyrir formannsumboð sitt og vann gegn hagsmunum Heimssýnar.
Miðvikudagur 06. 07. 16
Erlendar fréttir verða ekki skrifaðar á íslensku eða önnur tungumál án þess að sá sem skrifar hafi þekkingu á bakgrunni þeirra.
Þetta kom í hugann við lestur fréttar á mbl.is í dag um að ESB-þingið hefði samþykkt að „stofna nýjan landamæraher til að taka á flóttamannavandanum“. Í fréttinni segir að „hernum“ sé „ætlað að standa vaktina á landamærum landa á borð við Grikkland og Ítalíu“.
AFP-fréttastofan er borin fyrir þessari frétt sem er í raun um að ESB-þingið hafi samþykkt að Evrópsku landamæra- og strandgæslustofnuninni European Border and Coast Guard Agency skuli komið á fót. Um er að ræða „uppfærslu“ á Frontex, Landamærastofnun Evrópu.
Nýja stofnunin getur tekið frumkvæði ef talin er hætta á að varsla á ytri landamærum Schengen-svæðisins dugi ekki til að halda aftur af ólöglegum straumi farandfólks. Leggur hún greiningu og mat fyrir viðkomandi ríki og vinnur að lausn vandans með samþykki og í samvinnu við ríkið.
Til að gera stofnuninni kleift að skerast í leikinn ef viðkomandi ríki ræður ekki við vörslu ytri landamæranna er henni heimilt að koma á fót allt að 1.500 manna varaliði landamæravarða úr öllum Schengen-ríkjunum sem unnt er að kalla út til að sinna vörslu þar sem brestur hefur komið í hana. Líklegt er að á mbl.is hafi menn ályktað sem svo að þarna sé kominn landamæraher ESB sem standi stöðugt vaktina. Það er einfaldlega misskilningur.
Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi í kvöldfréttum við Jón Bjarnason, formann Heimssýnar, um nýbirta sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra Íslands og varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna um samstarf ríkjanna í varnarmálum. Jón Bjarnason tók að sér að túlka yfirlýsinguna með vísan til varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og fórst það illa úr hendi.
Á vefsíðunni heimssyn.is er félagsskapnum lýst með þessum orðum:
„Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.“
Jón Bjarnason hefur fullt frelsi til að lýsa skoðunum sínum á öryggis- og varnarmálum Íslands. Spurning er hvort hann talaði í nafni Heimssýnar í fréttatímanum eða hvort fréttastofunni þótt við hæfi að láta líta svo út sem hann gerði það. Jón verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni.
Þriðjudagur 05. 07. 16
Einhvers staðar var sagt að Frakkar ætluðu að tileinka sér Húh! hróp stuðningsmanna íslenska karlalandsliðsins. Þar sem stafurinn h er almennt hljóðlaus í frönsku verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig til tekst. Nú eru þrír leikir eftir á EM 2016, skemmtilegast yrði ef Frakkar og Walesbúar kepptu til úrslita á sunnudag.
Magnús Guðmundsson, einn leiðarahöfunda Fréttablaðsins, segir skoðun blaðsins mánudaginn 4. apríl á sameiginlegri yfirlýsingu Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Roberts O. Works, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Magnús er eindregið andvígur því að formlega sé settur rammi utan um varnarsamstarfið á grundvelli varnarsamningsins frá 1951, rammi sem tekur mið af núverandi stöðu mála. Magnús misskilur eða rangtúlkar yfirlýsinguna vísvitandi þegar hann segir ákvörðunina um að gefa hana út „risavaxna“. Yfirlýsingin felur ekki í sér neina efnisbreytingu.
Magnús telur það ljóð á ráði utanríkisráðherra að hafa skrifað undir yfirlýsinguna án opinnar umræðu „bæði kjörinna fulltrúa, sem Lilja er reyndar ekki, sem og auðvitað þjóðarinnar sem á að fá að hafa sitt að segja í þessum efnum í opinni og almennri umræðu um málið“. Innskotið um að Lilja sé ekki kjörinn fulltrúi er marklaust sé því ætlað að draga úr gildi umboðs hennar til að rita undir yfirlýsinguna, það er fullt og óskorað. Auk þess hófst undirbúningur að yfirlýsingunni í tíð Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra en hann vakti oftar en einu máls á breytingunni á öryggisumhverfi Íslands án þess að t.d. Fréttablaðið sýndi orðum hans eða annarra um svipað efni þann áhuga að stofna til almennrar umræðu. Það er í samræmi við annað að af blaðsins hálfu skuli nú kvartað undan skorti á umræðu!
Kenningin um að ekkert skuli gert til að tryggja hernaðarlegt öryggi Íslands hefur lengi verið reist á þeim rökum að varnarleysi þjóðarinnar kallaði fram friðsamlegt umhverfi hennar. Nú eru 10 ár síðan varnarliðið hvarf úr landinu. Leiddi brottförin til þess að kenningin um friðsamlega umhverfið rættist? Nokkrum mánuðum eftir brottförina hófu Rússar herflug í nágrenni landsins og nú eru kafbátaumsvif þeirra í nágrenni landsins meiri en þau hafa verið í 30 ár. Kenningin kolféll þegar á reyndi.
Mánudagur 04. 07. 16
Íslenska karlalandsliðið mætti ofjarli sínum, Frökkum, á Stade de France við París í gær (5:2). Seinni hálfleikur var 2:1 fyrir Ísland sem sýnir að strákarnir okkar börðust eins og hetjur allt til loka leiksins.
Á Facebook-síðu mína setti ég tilvísanir í nokkur erlend blöð. Die Welt segir til dæmis um íslenska liðið: Komu sem amatörar, sneru heim sem þjóðsagnapersónur. Í finnska Hufvudstadsbladet segir íþróttafréttaritarinn að verði hann spurður eftir 10 ár hvað honum sé minnisstæðast frá EM 2016, muni hann svara: „Eldfjalladrunur Íslendinga. Gæsahúð í hvert sinn.“ Þarna vísar hann til stuðningsmanna strákanna okkar og hins nú heimsfræga Húh! hróps.
Íslenskir leikmenn og stuðningsmenn skilja eftir sig góða minningu í huga allra sem fylgdust með EM 2016.
Þingmaður breska Íhaldsflokksins, Michael Dobbs, er höfundur sögunnar House of Cards sem hann skrifaði um bresk stjórnmál þegar Margaret Thatcher var ýtt til hliðar af flokksbræðrum hennar. Sagan er kveikjan að hinum frægu sjónvarpsþáttum um Underwood-hjónin í Washington.
Dobbs skrifar grein í The Daily Telegraph í dag um valdabaráttuna núna í Íhaldsflokknum. Þar segir meðal annars:
„Fyrir sex mánuðum, jafnvel fyrir aðeins sex vikum virtist ekkert geta hróflað við David Cameron, vald hans var óskorað, hann sagðist ætla að draga sig í hlé þegar honum hentaði, að lokum var það atburðarásin og bestu vinir hans sem urðu honum að falli. Launmorðingjarnir Boris [Johnson] og Michael [Gove] hafa eins og forverar þeirra Brutus og Cassius [morðingjar Ceasars] og [Michael] Heseltine og [Geoffrey] Howe [morðingjar Thatcher] nú þegar áttað sig á að ekki er unnt að fela sig á bakvið blóði drifinn kufl.
Það sem við getum lært af sögunni ber undarlega líkt yfirbragð, eina sem hefur breyst er aðferðin við að taka mann af lífi. Við lifum á tíma internetsins. Jesús var svikinn með kossi. Boris með tölvubréfi.“
Lokaorðin vísa til þess að daginn áður en Michael Gove bauð sig fram og gróf undan Boris var lekið tölvubréfi frá eiginkonu hans þar sem hún bað mann sinn að ganga úr skugga um að Boris ætlaði að standa við loforðin sem hann gaf fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Sunnudagur 03. 07. 16
Fyrir áhugamenn um stjórnmál er álíka spennandi að fylgjast með sjónvarpsfréttum um stjórnmálaástandið í Bretlandi og fyrir áhugamenn um knattspyrnu að fylgjast með EM-2016.
Í kvöld munu þó allar fréttir frá Bretlandi víkja fyrir leik Íslendinga og Frakka í París. Undraverður árangur íslenska karlalandsliðsins setur mikinn svip á íþróttafréttir um heim allan. Í Bretlandi vakti mikla gleði sl. föstudag þegar lið Wales sigraði Belga i spennandi leik í Lille. Breskir íþróttafréttamenn láta hins vegar Íslendinga oft getið þegar þeir bera lof á sigur Walesbúa, segja lið beggja hafa komið mest á óvart á EM-2016 vegna glæsilegs árangurs.
Stjórnmálaumræður hér á landi eru svipur hjá sjón miðað við það sem er í Bretlandi. Stafar það af litlum áhuga í fjölmiðlum og tregðu stjórnmálamanna til að ræða innri mál flokka sinna í fjölmiðlum. Í breskum fjölmiðlum tíðkast ekki á sama hátt og hér að leita til einhverra fræðimanna í háskólum til að fá álit þeirra á stöðu stjórnmála heldur er talað við stjórnmálamennina sjálfa og kallað á fjölmiðlamenn til að brjóta mál til mergjar.
Þegar tekist er á um leiðtogaefni í flokkum eins og í Íhaldsflokknum núna koma frambjóðendur fram, kynna ákvörðun sína um framboð og svara spurningum síðan leita fjölmiðlamenn uppi stuðningsmenn þeirra og ræða við þá. Dálkahöfundar blaðanna taka einnig afstöðu ti einstakra frambjóðenda og hika ekki við að berjast fyrir þeim. Umræðurnar eru opnar, harðar og í mörgu tilliti vægðarlausar.
Íhaldsmenn takast á um nýjan leiðtoga fyrir opnum tjöldum. Innan Verkamannaflokksins tala menn hins vegar hreint út um tilvistarvanda flokksins ef Jeremy Corbyn flokksleiðtogi segir ekki af sér. Hann situr sem fastast og segist bíða eftir að skýrsla um Írak-stríðið komi út miðvikudaginn 6. júlí. Ætlar hann örugglega að reyna að ná sér niður á Tony Blair, forvera sínum í Verkamannaflokknum, sem var forsætisráðherra vorið 2003 þegar Írak-stríðið hófst.
Íslenskir stjórnmálafræðingar og fjölmiðlamenn segja stundum að íslenskir stjórnmálamenn hagi sér ekki eins og starfsbræður þeirra erlendis. Auðvelt er að færa rök fyrir að þessi munur sé minni milli innlendra og erlendra stjórnmálamanna en milli þessi hvernig fræðingarnir og fjölmiðlamennirnir fjalla um stjórnmál og stjórnmálamenn.
Laugardagur 02. 07. 16
Guðni Th. Jóhannesson ætlar að nota þennan mánuð til að máta sig í forsetaembættið með yfirlýsingum um hitt og þetta, nú síðast innflytjendamál. Það er einkennilegt að hann kýs að viðra áhuga sinn og skoðanir á þeim málum á svona áberandi hátt eftir kosningarnar í stað þess að ræða málið við kjósendur fyrir kjördag.
Má segja að hann hafi kastað sér í djúpu laugina með því að blanda sér í þá ákvörðun ráðamanna Laugarneskirkju með samþykki biskups að breyta kirkjunni í brottfararstað hælisleileitenda sem hafði verið kynnt að þeir yrðu fluttir úr landi í samræmi við löglega ákvörðun yfirvalda.
Nú er okkur sagt að það skorti „mannúð“ við töku ákvarðana um hælisleitendur og það sé ómannúðlegt að sannreyna hvort þeir segi satt um aldur sinn.
Lög hafa verið sett um útlendingamál. Ný lög með samstöðu þingmanna úr öllum flokkum sem lögðu sérstaka áherslu á gildi samstöðunnar í þessum málum. Unnið hefur verið að því að móta þessar reglur á þann veg að ná sem mestri sátt. Að forráðamenn þjóðkirkjunnar, Rauða krossins og nú nýkjörinn forseti gangi fram fyrir skjöldu til að boða kenningu um að hér skorti „mannúð“ í þessum málaflokki vekur spurningu um hver sé hinn raunverulegi tilgangur upphlaupsins.
Í umsögn lögreglustjóra um frumvarpið að nýju útlendingalögum var varað við að „sú mikla áhersla sem lögð er á mannúð í frumvarpinu […] grafi undan öryggissjónarmiðum sem lögreglu ber að hafa í forgangi“ ekki síst á tímum þegar sýnt er „að flóttamenn séu hagnýttir í ólögmætum tilgangi af glæpahópum“.
Afstaða lögreglustjóranna um hvernig flóttamenn koma til Evrópu er reist á mati Europol, Evrópulögreglunnar, sem segir að um 90% þeirra sem koma geri það með aðstoð smyglara. Gjaldið sem þeir taki hafi allt að þrefaldast eftir að leiðinni um Tyrkland til Grikklands og þaðan norður Evrópu lokaðist. Á fyrri hluta þessa árs hafa fleiri drukknað í Miðjarðarhafi á leiðinni frá N-Afríku til Evrópu en nokkru sinni fyrr á sambærilegu tímaskeiði.
Þegar rætt er um þessi mál þarf að segja alla söguna en ekki leika á tilfinningar fólks.
Föstudagur 01. 07. 16
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar fróðlega grein um Svein Björnsson, fyrsta forseta lýðveldisins, í Morgunblaðið í dag. Hann telur Svein hafa verið allt annan mann en þá sem hann lýsir á þennan hátt: „Stundum hvarflar það að greinarhöfundi hvort margir stjórnmálamanna í upphafi síðustu aldar hafi ekki verið geðveikir, elliærir, alkóhólistar ellegar dópistar. Jafnvel sumir þeirra með margar greiningar.“ Þótt ekki sé tekið mið af öðru en að nú eru fluttar hundruð eða þúsundir af þingræðum um fundarstjórn forseta þingsins eða störf þingsins má spyrja hvort Vilhjálmur hafi getið sér til um hvað hrjáir samþingmenn hans.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefur ákveðið að stofna til deilna við þá sem framkvæma útlendingalögin. Hún lagði blessun sína yfir að hælisleitendum yrði boðið í Laugarneskirkju í von um að það mundi hindra lögreglumenn við skyldustörf þeirra og kýs að taka undir með þeim sem vega síðan að lögreglumönnunum fyrir hvernig þeir stóðu að verki þegar þeir neyddust til að beita valdi. Í samtali við Fréttatímann segir biskup í dag „Ég er slegin yfir því hvað kirkjunni var sýnd gríðarleg óvirðing með þessum aðförum.“
Frásögnin í blaðinu ber með sér að kirkjunnar menn hafi stofnað til þessa atburðar í því skyni að ögra lögreglunni og kalla yfir hana vandræði. Öllum er í fersku minni hvernig hinir nýju bandamenn biskups í No Borders, samtökum stjórnleysinga, beittu sér gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á meðan hún var innanríkisráðherra.
Þá hefur markvisst verið vegið að Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, og starfsmönnum stofnunarinnar. Þegar marklaust reynist að saka embættismennina um lögbrot snýst ásökunin um að þeir sýni miskunnarleysi!
Biskup hefur tekið undir ásakanir á hendur Útlendingastofnun og nú er lögreglan skotmarkið. Biskup er í Svíþjóð á fundi með biskupum þegar rætt er við hana í Fréttatímanum og segir viðmælanda sinn í hópnum hneykslast á íslensku lögreglunni. Í Svíþjóð hefur verið kúvent í útlendingamálum þegar ljóst er að gamla stefnan leiddi til þess að lögreglan treystir sér ekki til aðgerða í tugum borgarhverfa nema í brynvarðri fylkingu.
Í krafti nýlegs úrskurðar Persónuverndar telur Útlendingastofnun sér heimilt „að leiðrétta rangfærslur sem hafðar eru í frammi á vettvangi fjölmiðla“ vegna útlendingamála. Lögreglan hefur sambærilega heimild og jafnvel skyldu til upplýsingamiðlunar.