9.7.2016 13:15

Laugardagur 09. 07. 16

Styrmir Gunnarsson fyrrv. ritstjóri, skrifar grein í Morgunblaðið í dag um Þingeyraverkefnið, fornleifarannsóknir, bókmenningarrannsóknir og gróðurfarsrannsóknir tengdar klaustrinu sem var starfrækt í um fjórar aldir á Þingeyrum í Húnaþingi, frá 12. öld fram á 16. öld.

Eigendur Þingeyra, hjónin Valgerður Valsdóttir og Ingimundur Sigfússon höfðu frumkvæði að rannsóknunum með því að opna land sitt fyrir vísindamönnunum. Þriðjudaginn 5. júlí buðu þau til opins kynningarfundar um verkefnið. Styrmir sótti hann og er það tilefni greinar hans. Undir lok hennar segir:

„Áhugi sveitunga þeirra Þingeyrarhjóna á þessu verkefni vakti athygli aðkomumanna. En staðreynd er að Þingeyrarverkefnið getur haft grundvallarbreytingar í för með sér fyrir Húnaþing til langrar framtíðar. Með fornleifarannsóknum og öðrum rannsóknum er lagður grundvöllur að endurreisn Þingeyra, sem sögulegs menningarseturs á þessum slóðum.

Um leið og Þingeyrar rísa á ný rís Norðvesturland í margvíslegum skilningi. Og milljónir ferðamanna fá tækifæri til að kynnast liðinni tíð á þessari norðlægu eyju sem þeir eru að byrja að taka eftir.

Þess vegna á að hlúa að Þingeyrarverkefninu eins og öðrum slíkum sögulegum og menningarlegum verkefnum, svo sem uppbyggingu Snorrastofu í Reykholti. Það eru fleiri slík tækifæri á Íslandi, sem á að nýta.“

Yfirstjórn þjóðkirkjunnar hefur sætt gagnrýni vegna þess að tveir hælisleitendur frá Írak voru hvattir til að leita skjóls í Laugarneskirkju eftir að yfirvöld höfðu afgreitt mál þeirra og lögregla hafði fengið lögmæt fyrirmæli um að flytja þá úr landi. Agnes M. Sigurðardóttir biskup reynir að berja í brestina í grein í Morgunblaðinu í dag. Biskup segir meðal annars:

„Kirkjan í nágrannalöndum okkar, svo sem Noregi, beitir sér í þágu hælisleitenda á sambærilegan máta og Laugarneskirkja lét reyna á. Kirkjan hefur þar skotið skjólshúsi yfir hælisleitendur á meðan stjórnvöld afgreiða umsóknir þeirra. Kirkjunnar fólk, leikir og lærðir, leggur þar sitt af mörkum í samstarfi við yfirvöld til að mæta vanda þeirra og veita þeim stuðning. Á meðan fá þessir einstaklingar að vera í umsjón kirkjunnar og yfirvöld leggja áherslu á að ljúka máli þeirra á málefnalegan máta.“

Eitt er að norska kirkjan veiti hælisleitendum skjól á meðan stjórnvöld afgreiða umsóknir þeirra. Annað hvort kirkjan í Noregi reyni að hindra laganna verði í störfum þeirra. Biskup segir ekkert um það – gerir norska kirkjan það?