Dagbók: 2013

Þriðjudagur 31. 12. 13 - gamlársdagur - 31.12.2013 15:30

Ég þakka samfylgdina á árinu 2013!

Á árinu hef ég skrifað mun færri pistla hér á síðuna en undanfarin ár. Ástæðuna má rekja til þess hve mikið ég skrifa á vefsíðuna Evrópuvaktina sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti síðan í apríl 2010.

Tilgangur okkar var að leggja efni af mörkum til umræðunnar um aðild Íslands að ESB með því að birta daglega og raunar oft á dag fréttir sem tengjast ESB eða þróun mála sem hafa áhrif á ESB. Þetta hefur gengið eftir auk þess sem við skrifum leiðara á vefsíðuna og smágreinar.

Þáttaskil urðu í ESB-umræðunum á árinu 2013 þegar Samfylkingin, ESB-flokkurinn, galt afhroð í þingkosningunum 27. apríl. Við völdum tók ríkisstjórn flokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem hvorugur vill aðild að ESB. Fjarað hefur undan umræðum um ESB-málið eins og best sést af því að aðeins fulltrúi eins flokks, Bjartrar framtíðar, minnist á það í áramótagrein og heldur þar fram úreltri stefnu. Það verður ekki haldið áfram viðræðum við ESB án þess að þjóðin samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Málstaður Evrópuvaktarinnar sigraði á árinu. Hve lengi sú síða lifir fram á næsta ár kemur í ljós.

 

Mánudagur 30. 12. 13 - 30.12.2013 22:10

Í Morgunblaðinu birtist laugardaginn 28. desember frétt þar sem sagði að aukin tækni kallaði á nýyrði og í blaðinu daginn áður hefði sérstakur flugbúnaður, sem m.a. væri talinn geta nýst við leit að týndu fólki, verið nefndur flygildi eða drónur. Jón Þóroddur Jónsson fjarskiptaverkfræðingur vildi að tækið væri kallað vélfluga. Í fréttinni sagði:

„Jón Þóroddur Jónsson situr í orðanefnd rafmagnsverkfræðinga, sem hittist vikulega, og segist aðeins hafa rætt þetta í nefndinni. Hann segir að orðið dróna hafi verið notað um umrætt fyrirbæri sem og flygildi. „Flugvél er vel þekkt fyrirbæri og vélfluga er gott og gamalt íslenskt orð. Það er nákvæmlega það sem þetta er, vélfluga,“ segir hann. Jón Þóroddur áréttar að enska skýringin á drones sé lítil fluga með mótor að fljúga. Vélfluga.

„Þetta er fínt orð og miklu auðveldara í munni heldur en flygildi,“ segir Jón Þóroddur og bætir við að menn greini á um hvort skrifa eigi flygildi, flýgildi eða flígildi.“

Ég er sammála Jóni Þóroddi um orðið flygildi en ósammála honum um orðið vélfluga. Það gefur ekki nógu vel til kynna sérstöðu, oft ógnvekjandi, hinna fjarstýrðu flugvéla, orðið drón gerir það hins vegar. Ég hef notað orðið drón í hvorugkyni eins og flón en ekki kvenkyni eins og króna.

Eitt er að ræða hvaða orð eigi að nota um hina nýju tækni, annað að segja frá því hvernig unnt er að nýta tæknina. Fréttirnar í Morgunblaðinu snerust um drón og björgunarsveitir. Drón til njósna eða í hernaði eru oftar í fréttum. Víða um lönd eru settar reglur um hvernig þau megi nota – hafa þær verið settar hér? Þarf ekki að huga að því til að tryggja friðhelgi einkalífsins.

 

Sunnudagur 29. 12. 13 - 29.12.2013 23:10

Fjórðu lotunni af Downton Abbey lauk í sjónvarpinu í kvöld. Fyrsta lotan var frumsýnd í ITV-sjónvarpsstöðinni í Bretlandi og á Írlandi 26. september 2010 og ráðgert er að fimmta lotan verði sýnd árið 2014.

Þáttaröðin er eitt vinsælasta sjónvarpsefni sem komið hefur frá Bretlandi. Í Bandaríkjunum eru þættirnir sýndir undir merkjum Masterpiece Classic  á PBS-stöðinni og segir The New York Times að þeir séu líklega vinsælasta efnið sem sýnt hafi verið undir þessu merki í 40 ára sögu Masterpiece Classic.

Hér skal engum getum leitt að því hvað veldur þessum miklu vinsældum. Mörgum spurningum er enn ósvarað þegar fjórðu lotunni lýkur. Ef til vill ræður fortíðarþráin miklu um vinsældir þáttanna og glæsileikinn sem þeir sýna.  

Að baki vinsældunum býr ekki aðeins efni þáttanna heldur einnig umgjörðin. Hún hefur meðal annars leitt til þess að efnt er til sýninga víða um lönd á kjólunum sem konurnar klæðast. Þá eru vefsíður helgaðar matargerðinni í þáttunum og þannig má áfram rekja það sem þeir hafa getið af sér.

Laugardagur 28. 12. 13 - 28.12.2013 23:55

Martin Scorsese hefur leiktstýrt fimmtu kvikmyndinni með Leonardo Di Caprio í aðalhlutverki. Myndin The Wolf of Wall Street er þrjár klukkustundir að lengd. Hún segir frá Jordan Belford verðbréfasala á Long Island og er handritið reist á sjálfsævisögu hans. Myndin ber skýr merki leikstjórans og Di Caprio (39 ára) vinnur enn eitt leikafrekið undir stjórn hans.

Di Caprio segir í tilefni þessarar nýju myndar:

„Eins og öll varanleg tengsl er samvinna okkar reist á trausti. Að mínu áliti er The Wolf of Wall Street einskonar framhald af The King of Comedy, Goodfellas og Casino. Ég spurði Marty fyrir hvaða kraftaverk hann hefði fengið hjá Joe Pescu þessa ótrúlega grimmdarlegu setningu í Goodfellas: „Er ég einhver fjandans trúður?“ Marty trúði mér fyrir því að leikararnir hefðu spunnið í einn og hálfan dag. Hann notaði sömu aðferð í The Wolf of Wall Street. Við drógum einstakar senur mjög á langinn, myndvélan snerist allan tímann. Þetta var sannarlega skipuleg óreiða.“

Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum 25. desember og hér á landi hinn 26. desember í Sambíóunum er enginn vafi á að hún mun koma til álita vegna Óskarsverðlaunanna. Nú koma myndirnar hver af annarri sem munu setja svip á verðlaunahátíðir fyrri hluta ársins.

Föstudagur 27. 12. 13 - 27.12.2013 20:41

Hér á dagbókarsíðunni vitnaði ég á jóladag í Matteusarguðspjall þar sem sagt er frá viðbrögðum Jósefs þegar hann áttaði sig á að María væri þunguð. Séra Gunnar Jóhannesson skýrir þetta guðspjall í grein í Morgunblaðinu í dag og segir:

„Þegar Jósef komst að því að unnusta hans væri barnshafandi ákvað hann að skilja við hana. Ástæðan var sú að hann vissi jafnvel og nútímafæðingarlæknar hvernig börn eru tilkomin. Hann vissi að samkvæmt hefðbundinni framvindu náttúrunnar eignast konur ekki börn án þess að karlmaður komi þar nærri. Slík fæðing væri með öðrum orðum óhugsandi nema hin reglubundna framvinda náttúrunnar hefði verið sett til hliðar eða eitthvað lagt við hana af einhverju utan og yfir náttúrunni. Þegar Jósef viðurkenndi fyrir sjálfum sér að ástand Maríu var ekki tilkomið vegna ótrúmennsku hennar heldur vegna kraftaverks þá viðurkenndi hann að kraftaverkið var eitthvað sem andstætt var reglu náttúrunnar – og þar af leiðandi vitnisburður um yfirnáttúrlegan mátt utan hennar.

Ekkert getur verið óvenjulegt fyrr en þú hefur uppgötvað og komið auga á það sem er venjulegt. Trú á kraftaverk veltur því ekki á vanþekkingu á lögmálum náttúrunnar. Þvert á móti er trú á kraftaverk einungis möguleg í krafti þekkingar okkar á lögmálum náttúrunnar. Forsendur fyrir trú eða vantrú á kraftaverkum eru þær sömu í dag og þær voru fyrir tvö þúsund árum. Ef Jósef hefði ekki átt þá trú sem gerði honum kleift að treysta á Guð hefði hann getað afneitað yfirnáttúrlegum uppruna Jesú með eins hægu móti og hver annar í dag. Með sama hætti getur sérhver nútímamaður sem trúir á Guð gengist við kraftaverki með eins hægu móti og Jósef. […]

Jólin eru ekki aðeins tími til að trúa heldur og til að treysta Guði rétt eins og Jósef gerði þegar hann tók engilinn á orðinu og gekkst við kraftaverkinu sem leiddi frelsara heimsins inn í þennan heim.“

 

 

Fimmtudagur 26. 12. 13 - 26.12.2013 23:55

Það var til  marks um lúalega blaðamennsku hvernig dv.is sneri út úr leiðara sem ég ritaði á Evrópuvaktina á aðfangdag um kristni og gildi hennar fyrir sögu og menningu Evrópu. Enn andkannalegri voru sumar athugasemdirnar sem lesendur dv.is gerðu við orð mín í meðförum vefsíðunnar. Þetta minnti ekki á annað en ofstækisfullan málflutning þeirra sem láta að sér kveða í opinberum umræðum undir merkjum vantrúar.

Þeir eru dæmdir til að tapa rökræðum um mestu áhrifavalda í vestrænni menningu sem halda því fram að þar sé hin kristna arfleið og hinn kristni boðskapur ekki ráðandi afl. Það er engum til neins sóma að ætla að skera á þessar rætur. Með því segja það varðstöðu um mannréttindi að leggja stein í götu þeirra sem vilja kynna skólabörnum þessa uppsprettu vestræns þjóðskipulags eru höfð endaskipti á hlutunum.

Miðvikudagur 25. 12. 13 - Jóladagur - 25.12.2013 23:55

Á íkonum sem sýna heilagan Jósef stendur hann gjarnan með dreng við barm sér og hann stingur miða með bænarefni í brjóstvasa Jósefs. Ég á slíkan íkon frá Karmelnunnum í Hafnarfirði, kæran dýrgrip. Um íkona segir á wikipediu:

„Hver íkoni er meira og minna nákvæm eftirmynd þekktrar fyrirmyndar. Þessi hefð helgast af því myndirnar eru taldar búa yfir kynngi og kraftaverkamætti. Íkonar eru mikilvægur þáttur í öllum guðshúsum réttrúarkirkna en þeir eru einnig algengir á heimilum. Mörg kraftaverk eru rakin til áhrifamáttar íkona og sumir þeirra hafa orðið víðfrægir.

Heitið íkon kemur af gríska nafnorðinu εἰκών „eikon“ sem þýðir mynd og sagnorðinu „eikenai“, að líkjast. Íkon er ekki mynd „af“ einhverju heldur er raunveruleiki, andlegur gluggi. Sá sem horfir á það er talinn vera viðstaddur atburðina. Íkoninn á því rétt á sömu virðingu og er heiðraður á sama hátt og persónurnar sem eru á honum.“

Öllum verður hugsað hlýlega til Jósefs þegar þeir lesa þessa frásögn í Matteusarguðspjalli:

„Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda.  Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni,  vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.  Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: "Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.  Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans."

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða:  "Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel," það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.  Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.“

 

Þriðjudagur 24. 12. 13 - 24.12.2013 16:00

Í tilefni jólanna skrifaði ég um hinn kristna arf Evrópu á Evrópuvaktina eins og sjá má hér.

Ég óska lesendum síðu minnar gleðilegra jóla.


Mánudagur 23. 12. 13 - 23.12.2013 22:40

Af kynningarmynd um 30 ára afmælishátíð FFT sem birt er í sjónvarpinu af Hörpu sést vel hve mikil skemmd það er á útliti þessarar margverðlaunuðu byggingar að leyfa ljósadýrð í verslun á neðstu hæð í austurhorni hússins. Það er hreinlega ótrúlegt að Ólafur Elíasson eða arkitektar hússins hafi samþykkt þessa afskræmingu á ytra byrði Hörpunnar svo að ekki sé minnst á þá sem bera ábyrgð á rekstri hússins. Það er ekki nóg með að þessi verslun afskræmi útlit Hörpunnar heldur eru innviðir hennar á skjön við naumhyggju og stílhreint yfirbragð innan veggja hússins. Hvers vegna er þetta stílbrot leyft á þessum stað?

Hafsteinn Þór Hauksson, ritstjóri Tímarits lögfræðinga, undrast í leiðara í nýjasta hefti þess hvernig lögfræðingar í slitastjórnum föllnu bankanna geti unnið 190 stundir á mánuði að meðaltali í slitastjórnunum auk þess að gegna öðrum lögfræðistörfum. Þá bendir hann á hið háa tímagjald sem lögfræðingarnir taka fyrir vinnu sína, það sé úr takti við það sem almennt tíðkist. Ekki sé unnt að réttlæta þessar háu greiðslur með því að kröfuhafar séu erlendir og kippi sér ekki upp við að greiða háa reikninga.

 „Í þessu tilfelli sem við erum að tala um þá erum við að tala um opinbera sýslunarmenn, sem starfa vegna þess að þeir eru skipaðir til þess af héraðsdómi. Og þeir verða auðvitað bara að vinna sín verk af heiðarleika og fagmennsku en ekki út frá því sjónarhorni hvað þeir gætu hugsanlega komist upp með,“ sagði Hafsteinn Þór við sjónvarp ríkisins í kvöld.

Hugleiðing Hafsteins Þór er réttmæt. Af því sem gerst hefur eftir að bankarnir voru teknir til gjaldþrotaskipta fyrir um það bil fimm árum vekur ekki síst athygli hve langan tíma tekur að komast til botns í uppgjöri vegna þeirra og þetta verður enn undarlegra ef lögfræðingar vinna að þessum málum 190 klukkustundir á ofurlaunum mánuðum saman. Hver er framleiðnin? Hin hliðin á málinu er sú sem Samkeppniseftirlitið hefur nefnt til sögunnar og lýsti á þennan veg í júní 2011:

„Umsýsluvandi“ (Freistnivandi I). Hann endurspeglast í því að þeir aðilar sem starfa við að leysa úr vandamálunum hafa af því talsverðar tekjur og byggja lifibrauð sitt á því. Þrátt fyrir góðan ásetning vinna hagsmunir þeirra af tekjuöflun og atvinnuöryggi gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn.  Hér eiga í hlut skilanefndir, starfsmenn í úrlausnarferlum bankanna, starfsmenn viðkomandi fyrirtækja o.fl.

Sunnudagur 22. 12. 13 - 22.12.2013 21:40

Kammersveit Reykjavíkur efndi til jólatónleika sinna klukkan 17.00 í Norðurljósasal Hörpu. Þeir voru vel sóttir og var flytjendum innilega fagnað.

Nú er þáttur minn á ÍNN frá 18. desember þar sem ég ræddi við Árna Daníel Júlíusson sagnfræðing um Landbúnaðarsögu Íslands kominn inn á netið og má sjá hann hér. Þetta er fjórða og síðasta ritverkið sem ég ræði á ÍNN á þessari bókavertíð.

Laugardagur 21. 12. 13 - 21.12.2013 22:30

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði í dag áherslu á að með framlagi sínu til að greiða fyrir kjarasamningum til næstu 12 mánaða vildi ríkisstjórnin draga úr óvissu. Að ná því markmiði er höfuðskylda stjórnvalda og hefur ríkisstjórnin styrkt stöðu sína verulega með því sem gerst hefur í aðdraganda jólahátíðarinnar. Hún hefur rekið af sér slyðruorðið með skuldaleiðréttingu, hallalausum fjárlögum og framlagi sem dugði til að ritað er undir kjarasamninga.

Ríkisstjórninni ber nú að nota svigrúmið sem hún hefur skapað til að aflétta gjaldeyrishöftunum. Ég skrifaði í dag pistil á Evrópuvaktina þar sem ég minni á að Steingrímur J. Sigfússon taldi sér óhætt að hækka skatta af því að enginn kæmist úr landi vegna gjaldeyrishaftanna. Hann leit með öðrum orðum á höftin sem átthagafjötra sem hann gæti nýtt sér til skattpíningar. Hann hafði aldrei neinn áhuga á að aflétta höftunum og samfylkingarfólkið vildi nota þau til að knýja á um aðild að ESB.

Hvorugur núverandi stjórnarflokka hefur á áhuga á að nýta höftin í flokkspólitískum tilgangi. Þeir hljóta að vinna markvisst að afnámi þeirra.

Andrúmsloftið á alþingi breyttist við brottför Jóhönnu Sigurðardóttur þaðan. Fyrir ári sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sig úr Samfylkingunni til að mótmæla Jóhönnu og ríkisstjórn hennar. Í andrúmsloftinu undir stjórn Jóhönnu hefði aldrei verið samið á þennan hátt. Steingrímur J. taldi sig hafa hannað hið fullkomna skattkerfi og hefði ekki fallist á að því yrði breytt.

Föstudagur 20. 12. 13 - 20.12.2013 23:40

Stjórnendur þýska vikuritsins Der Spiegel hafa ákveðið að skera niður efni á ensku vefsíðunni Spiegel Online. Hún gefur ekki nógu mikið í aðra hönd. Vefsíðan hefur notið vaxandi vinsælda í Bandaríkjunum eftir að fréttir um NSA-njósnir í Þýskalandi tóku að berast. Næstum hálf milljón manna í Bandaríkjunum heimsóttu síðuna í júlí. Kostnaður Der Spiegel er hins vegar meiri en tekjurnar og þess vegna hefur verið tekin ákvörðun um að rifa seglin.

Samhliða því sem umsvifin á Spiegel Online minnka verður tekið til við að innheimta gjald af lesendum fyrir aðgang að ýmsum greinum á síðunni. Vakin er athygli á að Der Spiegel sé ekki eina þýska blaðið sem hafi neyðst til að loka enskum vefsíðum sínum. Hið sama hafi Die Welt og Bild orðið að gera.

Það er greinilega þessum þýsku stórblöðum ofvaxið að halda úti vefsíðum á öðru tungumáli en sínu eigin. Þetta hefur ekki aðeins gerst í Þýskalandi heldur einnig í öðrum löndum. Í Finnlandi hætti til dæmis Helsingin Sanomat að halda úti ensku vefsíðunni sinni.

Sérstakar síður sem höfða til fólks af fleiri en einu þjóðerni snúast venjulega um eitthvert ákveðið málefni og lesendur treysta því að þangað geti þeir leitað til að afla sér upplýsinga um þetta málefni án tillits til upprunalands fréttanna.

 

Fimmtudaginn 19. 12. 13 - 19.12.2013 22:15

Fjórða hefti 9. árgangs tímaritsins Þjóðmála undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar kom út í dag. Efni þess er fjölbreytt að vanda. Ég hef frá upphafi skrifað dálk í Þjóðmál sem ber fyrirsögnina Af vettvangi stjórnmálanna og birtist hann í þessu hefti eins og öðrum að auki skrifa ég í þetta hefti grein um þrjár nýjar bækur sem snúast um þrjá fyrrverandi ráðherra: Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrím J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson.

Þetta er ekki hefðbundin bókagagnrýni heldur ber ég saman hvernig lýst er stjórnarmynduninni frá 1. febrúar 2009 þegar söguhetjurnar þrjár settust saman í ríkisstjórn. Frásagnirnar sanna að ólíkum augum líta menn silfrið.

Össur skrifar bók sína Ár drekans sem dagbók sína frá árinu 2012. Guðmundur Magnússon blaðamaður sagði í Morgunblaðinu hinn 11. desember:

„Spurningar hafa á hinn bóginn vaknað um það hvers eðlis þessi skrif Össurar eru sem heimildir. Hvort þau séu réttnefndar dagbækur. Eru þær skráðar jafnóðum eins og látið er í veðri vaka? Eða er formið aðeins notað fyrir frásagnir sem eru að meira eða minna leyti skrifaðar í aðdraganda útgáfunnar? Ég veit ekki svarið við þessu, en mér finnst athyglisvert að lesa í þessu sambandi athugasemdir sem tveir flokksbræður Össurar hafa birt á netinu. Annar þeirra, Kjartan Valgarðsson, bendir á að í færslu 19. maí 2012 sé Össur í flugvél á leið á leiðtogafund Nato í Bandaríkjunum. Þeir taka tal saman, Össur og utanríkisráðherra Lúxemborgar sem er um borð. „Við gerum báðir ráð fyrir því að í Frakklandi vinni François Hollande góðan sigur,“ skrifar Össur. Kjartan bætir við: „François Hollande var kjörinn forseti 6. maí. Það er útilokað að Össur hafi skrifað þetta í dagbók sína þennan dag.“

Önnur athugasemd lýtur að fundi 6. desember 2012. Þar segir Össur frá fundaferð Árna Páls Árnasonar þegar hann var að undirbúa formannsframboð sitt í Samfylkingunni. Össur segir að á fund í Árborg hafi komið „tveir riddarar að sunnan, Mörður Árnason og Kjartan Valgarðsson“. Kjartan: „Ég kom ekki á neinn af fundum Árna Páls.“ Mörður staðfestir síðan að hann hafi ekki komið á neinn slíkan fund.

Ef „dagbókarfærslurnar“ í Ári drekans eru fleiri af þessu tagi, gagnstætt því sem auglýst er, missir bókin auðvitað gildi sitt sem trúverðug söguleg frumheimild. Þetta þarf að upplýsa. Bókin hefur aftur á móti gildi sem vitnisburður um stjórnmálamanninn Össur Skarphéðinsson og sýn hans á stjórnmálin.“

 

Miðvikudagur 18. 12. 13 - 18.12.2013 21:30

Í dag ræddi ég á ÍNN við Árna Daníel Júlíusson, sagnfræðing og annan höfunda Landbúnaðarsögu Íslands, sem Skrudda gefur út í fjórum bindum og er tæplega 1.500 blaðsíður. Þátturinn er næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þegar ég blaðaði í þessum bókum rakst ég á margt forvitnilegt. Landbúnaðarsagan er Íslandssagan fram á 20. öldina og af henni lærum við margt sem auðveldar okkur að skilja samtímann.

Í kvöld var síðasti þáttur í þriðju lotu Homeland sjónvarpsþáttaraðarinnar sýndur í DR1. Þættirnir eru bandarísk útgáfa á ísraelskri þáttaröð og snúast um efni sem kann að vera gerast á þessari stundu þegar átök og öryggisgæsla hafa tekið á sig nýja mynd.

Þingfréttir eru horfnar úr öðrum fjölmiðlum en ríkisútvarpinu. Þar eru þær í mjög föstum skorðum og meira er oft fjallað um umgjörð umræðna á þingi en efni þeirra, hvort þingmenn tali oft eða lengi frekar en það sem þeir segja. Þetta einkennir einnig nálgun stjórnenda Kastljóss. Þingmenn eru gjarnan kynntir til sögunnar með þeim fyrirvara að eitthvað bogið sé við hvernig þeir halda á málum eða ræða þau. Þessi afstaða fréttastofu útvarpsins er ekki til þess fallin að vekja áhuga á því sem í raun gerist á alþingi. Ég renni yfir lista með nýbirtum ræðum á vef alþingis og staldra við þau mál sem vekja mér áhuga.

Þjónusta alþingis á vef sínum er mikil og góð. Sé ekki unnt að lesa ræður má hlusta á þær eða heyra þær fluttar.

Þriðjudagur 17. 12. 13 - 17.12.2013 22:20

Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði af sér í dag eftir að stjórn ríkisútvarpsins hafði tilkynnt honum að hún ætlaði að auglýsa embættið þegar fimm ára ráðningartími hans hefði runnið út á næsta ári. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem embættismaður bregst við á þennan hátt þegar þeir sem hafa ráðningarvaldið ákveða að nýta sér lögbundinn rétt til að auglýsa embætti laust til umsóknar.

Að sjálfsögðu getur viðkomandi embættismaður sótt um starfið. Þetta gerði til dæmis Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri þegar embætti hennar var auglýst laust til umsóknar. Þjóðleikhúsráði bar að að gera það lögum samkvæmt. Tinna var endurráðin. Stjórn ríkisútvarpsins bar ekki að auglýsa. Ákvörðunin er ekki óeðlileg í ljósi ástandsins á ríkisútvarpinu.  Páll Magnússon hefur metið stöðu sína á þann veg að hann yrði ekki endurráðinn eftir auglýsingu.

Mánudagur 16. 12. 13 - 16.12.2013 23:15

Á vefsíðunni dv.is hefur dag eftir dag mátt lesa frásagnir af afleiðingum þess að fjölmiðlar fengu upplýsingar um raunverulegar aðstæður hælisleitanda hér á landi. Í stað þess að ræða efni málsins og bera það saman sem maðurinn sagði og það sem í raun var á döfinni snúast skrifin á dv.is um það hvaðan upplýsingarnar bárust.

Þegar fjölmiðlar grípa til skrifa af þessu tagi minnir það mig á umræður fyrir mig mörgum áratugum þegar sagt var frá því að nokkrir íslenskir þingmenn hefðu hitt Norðmanninn Arne Treholt á fundi í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrir um 40 árum og rætt við hann um brottför varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Þótti þetta frásagnarvert eftir að Treholt var dæmdur fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna. Eftir að Morgunblaðið sagði frá þessum fundi hófust miklar umræður um hvaðan blaðið hefði fengið upplýsingarnar og var ætlunin greinilega að draga athygli frá efni málsins.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vakti máls á því á alþingi í dag að innanríkisráðuneytið hefði  „verið viðfangsefni fjölmiðla að undanförnu vegna upplýsinga sem virðast hafa lekið úr ráðuneytinu, eða einhverri af stofnunum þess, um málefni tiltekins hælisleitanda“.  Spurði hún Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra hvað hún hefði „gert til að komast til botns í því hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur rötuðu í fjölmiðla […] „mjög óheppilegt [sé] að uppi sé óvissa um hvernig þessi gögn láku út“.

Leki er vandi í stjórnkerfum allra landa en hins vegar er mjög misjafnt hvernig um hann er rætt á opinberum vettvangi.  Formaður VG taldi í þessu tilviki um að ræða fordæmi sem skipti „verulega miklu máli“.  Hanna Birna sagði að velta ætti fyrir sé „hvort læsa þurfi gögnum frekar, hvort takmarka þurfi enn frekar aðgang að þessum gögnum, bæði þá innan ráðuneytanna og hugsanlega innan undirstofnana þeirra. […]Það er búið að skoða málið innan innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytisstjórinn hefur farið með það. Engin ástæða er til að ætla að nokkur formleg gögn hafi farið frá ráðuneytinu þannig að ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvernig þetta gerðist, þ.e. ef það hefur gerst.“

Leki er sjaldan upplýstur, hann skapar stjórnmálamönnum vanda en almennt er fjölmiðlamönnum ekki kappsmál að það sé gert, þeir telja sér almennt til tekna að geta birt efni sem lekið er til þeirra. Þetta á greinilega ekki við um blaðamenn á dv.is. Hvað veldur?

Sunnudagur 15. 12. 13 - 15.12.2013 22:30

Það er einkennilegt að sjá hvert umræðurnar um IPA-styrkina leiða menn. Þetta eru styrkir sem ESB veitir til að auðvelda umsóknarríkjum að laga sig að kröfum ESB. Að halda einhverju öðru fram er fráleit blekking. Össur Skarphéðinsson mátti beita valdi utanríkisráðherra og einstökum pólitískum áhrifum til ná frumvarpi til laga um styrkina í gegnum alþingi ef marka má eigin frásögn hans. Hann átti það að lokum Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þingforseta að þakka að unnt var að lauma frumvarpi hans í gegn á úrslitastundu. Vinstri-grænir kusu að sofa á verðinum þrátt fyrir opinberar heitstrengingar um andstöðu við IPA-styrkina.

Eftir að lögin komu til sögunnar var hafist handa við að framkvæma þau og var það gert með því fororði Össurar og félaga að styrkveitingar ættu ekkert skylt við aðlögun, það yrðu að minnsta kosti örugglega ekki vandræði þótt aðildarumsóknin klúðraðist.

Nokkrir aðilar nýttu sér heimildina sem lögin veittu, sóttu um og fengu IPA-styrki. Utanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar sem er andstæð aðild að ESB varð þrumu lostinn þegar ESB tilkynnti að ekki væri ætlunin að standa við það sem gert var á grundvelli laga Össurar og nú hefur Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, gefið til kynna að látið verði reyna á lögmæti uppsagnar ESB.

Eftir að Birgir lýsti áformum um að láta reyna á skyldu ESB til að standa við gerða samninga áttu ESB-aðildarsinnar á borð við Stefán Ólafsson prófessor og G. Pétur Matthíasson varla nógu sterk orð til að lýsa hneykslan sinni eða reiði. Hvernig nokkrum dytti í hug að móðga ESB á þennan hátt? Hafa þeir ekki til þessa mótmælt að um aðlögun að ESB hafi veriðb að ræða? Afstaða þeirra nú sýnir enn einu sinni að þeir standa alltaf með ESB.

Laugardagur 14. 12. 13 - 14.12.2013 22:20

Flugum heim frá París í dag með Icelandair. Dálítil seinkun sem kom þó ekki að sök.

Í París eru mörg jólatré á opinberum stöðum. Mörg er mikið skreytt eins og þau sem eru fyrir framan Pantheon. Stórt tré er fyrir framan Notre Dame kirkjuna, lýsingin mætti vera fallegri. Hjá öllum blómasölum er unnt að kaupa jólatré til að hafa í heimahúsum. Frakkar fara hvorki leynt með jólahátíðina né minnast hennar á hlutlausan hátt, þar búa þó margar milljónir múslima.

Föstudagur 13. 12. 13 - 13.12.2013 17:30

Viðtölin sem birtust á ÍNN miðvikudaginn 11. desember við Óskar Jóhannsson, fyrrverandi kaupmann, um bók hans Bernskudaga, og Aðalstein Ingólfsson listfræðing um bók hans Karólínu eru komin á netið og má sjá þau hér.

Í dag skoðaði ég Cluny-safnið hér í París sem er miðaldasafn í V. hverfi og hefur að geyma margar forvitnilegar minjar auk þess sem þar má skoða leifar af rómversku baðhúsi. Meðal sýningargripa er náhvalstönn sem minnir á þá staðreynd að miðaldamenn töldu þær dýrgripi og jafnvel horn af einhyrningi.

Þá fór ég í Pantheon - heiðursgrafreit Frakka. Þessi gamla kirkja hefur nú verið gerð upp að innan og er einstaklega glæsileg.


Fimmtudagur 12. 01. 13 - 12.12.2013 22:20

Um nokkurt skeið hefur verið rætt um að stjórnvöld í Ungverjalandi hafi staðið að aðför að málfrelsi í landinu. Nú hefur Aldo Keel, svissneskur rithöfundur og þýðandi, sem bjó í tvö ár í Reykjavík skrifað grein í hið virta svissneska blað Neue Züricher Zeitung undir fyrirsögninni: Ungarn in Island?Ungverjaland á Íslandi? – sem hefst á orðunum: „Á Íslandi er fjandinn laus.“ Keel vitnar í orð Vigdísar Hauksdóttur þingmanns og lætur þess getið að hún hafi sem formaður fjárlaganefndar alþingis gagnrýnt fréttastofu ríkisútvarpsins fyrir vinstrimennsku og undirlægjuhátt gagnvart ESB og hún hafi hótað niðurskurði eins og fram hafi komið á vefsíðunni Eyjunni í ágúst. Nú óttist rithöfundar „ungverskt ástand“.

Vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af stööunni á ríkisútvarpinu og stórundarlegum ákvörðunum útvarpsstjóra. Að vega að sjálfum rótunum lofar ekki góðu um framhaldið og framtíðina. Miðað við þung orð sem fallið hafa um ástandið í Ungverjalandi og frelsi fjölmiðla þar er augljóst að lýsingar í útlöndum á ástandinu á ríkisútvarpinu gefa ekki rétta mynd af því sem hefur gerst á Íslandi. Hverjum er raun í hag að draga upp þessa mynd? Hvað halda þeir sem það gera að ávinnist með því?

Miðvikudagur 11. 12. 13 - 11.12.2013 23:55

Tókum lest síðdegis frá Brussel til Parísar, Thalys-hraðlest, sem er um 80 mínútur á leiðinni frá Brussel Midi til Paris Nord. Þegar við komum á brautarpallinn í París var öllum beint í öfuga átt og sagt að það hefði fundist taska án eigenda. Heyrðum við mikinn hvell þegar hún var sprengd.

Það var nokkur þraut að komast út úr þessari risastóru brautarstöð á háannatíma og þurfa að fara alls kyns krókaleiðir. Minnist ég þess varla að hafa áður verið í slíkum mannfjölda sem allur var á iði eða jafnvel hlaupum. Allt hafðist þetta að lokum en á einum stað þurftum við aðstoð varðar við að komast í gegnum eitt að hliðunum í stöðinni.

Mikill var mannfjöldinn á brautarstöðinni í Brussel en aðeins lítið brot af því sem var í París og þröngin var ekki minni á götunum fyrir utan stöðina í París - fór ekki á milli mála að við vorum komin til réttnefndrar stórborgar.

Í kvöld voru tveir þættir mínir um bækur frumsýndir á ÍNN, viðtal við Óskar Jóhannsson kaupmann um bók hans Bernskudaga og viðtal við Aðalstein Ingólfsson um bók hans Karólínu. Þættir verða sýndir á tveggja tíma fresti til 18.30 fimmtudaginn 12. desember og síðan að nýju um næstu helgi.

Þriðjudagur 10. 12. 13 - 10.12.2013 19:00

Í dag var 59. þing Atlantic Treaty Association (ATA) haldið í Brussel. Meðal ræðumanna var rússneski sendiherrann gagnvart NATO. Þingfulltrúi frá Montenegro spurði sendiherrann hvort honum þætti við hæfi að starfsbróðir hans í Belgrad hefði kallað Svartfjellinga monkeys af því að þeir hefðu áhuga á að ganga í NATO. Sendiherrann sagði stjórn sína andvíga stækkun NATO og hún segði það hátt og skýrt. Hann sagðist hins vegar ekki hafa heyrt það fyrr að rússneski sendiherrann í Belgrad hefði talað á þennan veg til Svartfjellinga.

Mánudagur 09. 12. 13 - 9.12.2013 23:55

Í dag var ráðsfundur ATA, Atlantic Treaty Association, haldinn hér í Brussel og stóð hann frá morgni til kvölds.

Sunnudagur 08. 12. 13 - 8.12.2013 21:40

Flugum með Icelandair til Amsterdam og tókum þaðan lest til Brussel. Hér verð ég í fáeina daga vegna málefna tengdum NATO - alls ekki ESB.

Átta manna sendinefnd Reykjavíkurborgar undir formennsku Jóns Gnarrs borgarstjóra var einnig á leiðinni hingað til Brussel í dag en hópurinn fór aðra leið en við.

Einkennilegt er að enginn sem fjallað hefur um bók Össurar Skarphéðinssonar hefur minnst á deilurnar um NATO í Jóhönnu-stjórninni. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vildi spara 500 milljónir kr. með því að hætta allri NATO-tengdri starfsemi á vegum innanríkisráðuneytisins. Össur hafði  betur í þeirri rimmu við ríkisstjórnarborðið.

Ögmundur skýrði aldrei frá þessari sparnaðartillögu sinni opinberlega og hún hefur legið í þagnargildi fram að útgáfu bókar Össurar. Allir sem er annt um öryggi Íslands sjá að tillaga Ögmundar var flutt af pólitískri skemmdarfýsn. Samþykkt hennar hefði stórskaðað hagsmuni Íslands og gert þjóðina endanlega marklausa í öllum umræðum um öryggismál.

Ég skrifa ekki um þennan þátt í bók Össurar í umsögn um hana í næsta hefti Þjóðmála. Þar einskorða ég mig við stkjórnarmyndunina 2009 og lít í bók Össurar, Steingríms J. og Jónínu Leósdóttur um samband hennar við Jóhönnu.

Laugardagur 07. 12. 13 - 7.12.2013 22:00

Skýringarnar á ástandinu á ríkisútvarpinu eru skringilegar. Nú hafa einhverjir komist að þeirri niðurstöðu að vandinn hafi hafist með breytingunni í opinbert hlutafélag. Aðrir telja nefskattinn upphaf alls ills. Síðan má ekki gleyma þeim sem segja að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sé allt að kenna í þessu efni.

Allt eru þetta tilraunir til að forðast kjarna málsins. Hann er sá að teknar hafa verið ákvarðanir innan dyra í ríkisútvarpinu sem vega að rótum þess og þar með því sjálfu. Rás 1 er rótin og af henni hefur meginstofninn risið. Með því að vega að starfsemi rásar 1 er vegið að tilvist ríkisútvarpsins. Að segja þetta stafa af ohf-væðingunni eða nefskattinum er út í bláinn og einnig hitt að ríkisstjórnin hafi átt hlut að máli.

Ákvörðunin er útvarpsstjórans og nánustu samstarfsmanna hans. Hverjum gat dottið í hug að þessi hópur manna mundi valda því uppnámi sem nú hefur orðið með vanhugsuðum úrræðum sínum? Stjórn ríkisútvarpsins verður tafarlaust að láta sig málið varða en ekki setja það í nefnd.

Sætti ríkisstjórn og alþingi sig ekki við ákvarðanir útvarpsstjóra og vilji varðstöðu um meginstofn og hlutverk ríkisútvarpsins blasir við eitt ráð: að setja ríkisútvarpinu ný lög sem þrengja valdsvið útvarpsstjóra og marka fyrirtækinu hlutverk sem er í samræmi við það sem ríkisstjórn og alþingi vilja.

Grunninn fyrir rekstri rásar 2 þarf að rökstyðja á ný og setja þeirri rás skýr mörk þegar vegið hefur verið að rás 1. Það eru engin rök fyrir rás 2 að ríkisútvörp í öðrum löndum haldi úti slíkum stöðvum. Þeir sem láta sér nægja að benda til annarra landa þegar rás 2 ber á góma hafa ekkert efnislegt til mála að leggja.

Föstudagur 06. 12. 13 - 6.12.2013 23:30


Nú er samtal mitt við Svein Einarsson um nýja bók hans Kamban komið á netið og má sjá það hér.

Ég hef nefnt hér á síðunni að erfitt sé að fá upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa í grunnskólum. Mér var bent á  þessa síðu
Upplýsingarnar eru ekki allar auðskiljanlegar. Þær sýna hins vegar að ekki er unnt að segja að leynd hvíli yfir innra starfi grunnskólanna. Ég tel að birta eigi þessar upplýsingar á þann veg að sveitarstjórnarmenn og foreldrar átti sig á því sem í þeim felst. Af mörgu sem ber að gera til að styrkja grunnskólann og efla kunnáttu nemenda er að gera skólamál að stórmáli í komandi sveitarstjórnakosningum.


Fimmtudagur 05. 12. 13 - 5.12.2013 23:40

Tilkynnt var í kvöld að Nelson Mandela væri látinn 95 ára. Hann hefur um árabil verið meira en sameiningartákn fyrir þjóð sína í Suður-Afríku, Hann var einn fárra manna i heiminum sem höfðaði til alls mannkyns. Hann sat 27 ár í fangelsi og lengst á Robben-eyju undan ströndinni við Höfðaborg. Eyjan er nú á heimsminjaskrá UNESCO og þangað streymir fólk í pílagrímsferðir. Honum var sleppt úr fangavistinni 1990 og hann leiddi African National Congress, hreyfingu blökkumanna sem hafði verið bönnuð, til sigurs í kosningunum 1994, hinum fyrstu lýðræðislegu kosningum í sögu Suður-Afríku.

Ég var meðal þeirra sem tóku þátt í kosningaeftirliti í þessum kosningum í S-Afríku og fylgdist með því í úthverfum Jóhannesarborgar og Soweto þegar fólk gekk til kjörklefans. Var það ógleymanleg reynsla og minningin um fólkið sem beið tímunum saman eftir að röðin kæmi að því að fá atkvæðaseðilinn er enn lifandi í huga mínum. Skoskur þingmaður sem var í hópi eftirlitsmannanna sagði að þyrfti fólk í sínu kjördæmi að bíða í meira en 3 mínútur eftir að komast í kjörklefann sneri það á brott, hér stæðu kjósendur í átta tíma til að njóta hins lýðræðislega réttar.

Miðvikudagur 04. 12. 13 - 4.12.2013 21:40

Í kvöld var birt samtal mitt við Svein Einarsson, leikstjóra og rithöfund, um nýja bók hans Kamban á ÍNN sem má sjá næst klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Það var tímabært að flytja Guðmund Kamban að nýju heim til Íslands á þann glæsilega hátt sem Sveinn gerir. Kom mér á óvart að bókin skyldi ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Í Morgunblaðinu  í dag segir Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari á árunum 2004  til 2012, um dóm hæstaréttar í tölvupóstmáli Jónínu Benediktsdóttur frá árinu 2005:

„Ég efast um að það mál verði talið fordæmisgefandi. Einfaldlega vegna þess að úrlausnin í því var mjög röng. Þar var sagt að nota mætti stolna tölvupósta á þeirri forsendu að málið ætti erindi við almenning. Það er mjög undarlegt í ljósi þess að tölvupóstar eru einkagögn sem enginn á að nota. Mér er nær að halda að þessi dómur hæstaréttar hafi verið kveðinn upp við eitthvert hugarástand í réttinum sem átti ekki neitt skylt við lögfræði og þess vegna er ekki mikil hætta á því að þessi dómur verði fordæmi í þessum Vodafone-málum.“

Þetta er harður dómur hjá fyrrverandi hæstaréttardómara um viðhorf á sínum gamla vinnustað, „eitthvert hugarástand“ en ekki lögin eða fræðileg túlkun á þeim ráða niðurstöðu.


Þriðjudagur 03. 12. 13 - 3.12.2013 20:10

Í dag las ég fjölda frétta frá mörgum löndum um viðbrögð við PISA 2012 könnuninni. Í öllum nágrannalöndum okkar hafa menn ekki síður áhyggjur af niðurstöðunni en við. Má lesa um þetta á Evrópuvaktinni. Nú standa nemendur í Liechtenstein og Sviss sig best meðal Evrópuþjóða og Þjóðverjar eru sáttir við framfarir innan skólakerfisins hjá sér.

Þau rök standast ekki hér frekar en annars staðar á Norðurlöndunum að fjárskortur ráði því að nemendur nái ekki betri árangri. Spurning er hvort það sé sanngjarnt að láta nemendur taka þátt í prófum sem þessum  í skólakerfi þar sem almennt er látið eins og próf eða keppni um árangur í skólastarfi skipti ekki máli.

Nýlega ræddi ég við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa í þætti mínum á ÍNN og varð undrandi á lýsingum hennar á hvernig farið væri með niðurstöður í samræmdum prófum til að hindra að menn gætu borið saman árangur í skólum.

Á sínum  tíma beitti ég mér fyrir að upplýsingar um einkunnir  lægju fyrir á opinberum vettvangi. Mér er í raun óskiljanlegt hvers vegna fallið hefur verið frá birtingu þeirra og ekki sé lögð áhersla á að þjálfa nemendur í að taka próf og efla skilning þeirra á að árangur skiptir máli. Þeir sem eru á móti slíkri upplýsingamiðlun hljóta einnig að vera andstæðingar þess að niðurstöður í PISA-könnuninni séu birtar – eða hvað?

Hér er tekið fram að gleðilegt sé að nemendum líð vel í íslenskum skólum. Vissulega er það ánægjulegt. Er það hins vegar viðundandi ef námsárangurinn minnkar og þar með tækifærin sem skólinn skapar?

Mánudagur 02. 12. 13 - 2.12.2013 22:30

Björt framtíð mælist með gott fylgi (13,5%) og tekur fylgi frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Spurning vaknar um hvað býr að baki svörunum. Varla geta þau verið reist á vitneskju fólks um stefnu flokksins. Guðmundur Steingrímsson, formaður flokksins, verður jafnan eins og stórt spurningamerki þegar að leitað er svara hjá honum við brennandi spurningum. Það er gert á mbl.is mánudaginn 2. desember vegna aðgerða í þágu skuldugra heimila sem ríkisstjórnin kynnti laugardaginn 30. nóvember.

„Mér finnst enn þá spurningum ósvarað. […]Við þurfum að spyrja ýmissa spurninga, eins og hvaða frumvörp þurfa að koma fram og hvenær þau þurfa að koma fram,“ svaraði Guðmundur Steingrímsson mbl.is „Þá vakna spurningar hvað við erum að fá fyrir peninginn [sem aflað verður til að létta skuldbyrði heimilanna]. Hvort þessum peningum sé vel varið eða hvort þeim geti verið betur varið í annað í þágu fólks. Í þágu uppbyggingar í fjársveltu samfélagi eftir langvarandi kreppu.“

Þessi stefna að hafa helst enga skoðun höfðar greinilega vel til hóps kjósenda sem stækkaði í síðasta mánuði miðað við könnun sem kynnt var í sjónvarpinu í kvöld. Að vísu var tekið fram að könnunin hefði verið gerð áður en ríkisstjórnin kynnti skuldabyrðastefnu sína. Mátti álykta að könnunin hefði þegar misst gildi sitt.

 

Sunnudagur 01. 12. 13 - 1.12.2013 22:55

Atburðirnir í Kiev þar sem efnt er til mótmæla dag eftir dag til að árétta vilja aðgerðarsinna til að stjórnvöld halli sér að Evrópusambandinu frekar en Rússum eru hinir dramatískustu sem orðið hafa í evrópskum stjórnmálum undanfarin ár. Í grein í The New York Times sem sagt var frá á Evrópuvaktinni er átökunum lýst sem glímu milli kynslóða með ólíkt gildismat.

Þegar þetta er skrifað er óvíst hvernig átökin enda. Í dag höfðu mótmælendur bann stjórnvalda við að þeir kæmu saman á götum Kiev að engu. Þeir hröktu lögreglumenn á brott af Sjálfstæðistorgi borgarinnar og beittu jarðýtu gegn járngrindum lögreglu skammt frá forsetaskrifstofunni. Mótmælendur boða byltingu í ræðum sínum og á spjöldum sem þeir bera.

Í dag lýsti Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, vandlætingu á banninu við fundum og mótmælum í Kiev. Í vikunni munu utanríkisráðherra ríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu koma saman í Kiev en markmið stofnunarinnar er meðal annars að standa vörð um mannréttindi í aðildarríkjunum.

Laugardagur 30. 11. 13 - 30.11.2013 22:10

Stjórnarandstaðan telur verst við tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun skulda heimilanna að óvíst sé um fjármögnun þeirra. Í þessu felst ekki gagnrýni á efni tillagnanna heldur aðferðina við að fjármagna þær. Það sýnir að stjórnarandstaðan viðurkennir að tillögurnar skili þeim árangri sem að er stefnt, að koma til móts við skuldara.

Í fjárlögum ársins 2013 sem núverandi stjórnarandstaða samdi og samþykkti var áætlað að 3,7 milljarða kr. halli yrði á rekstri ríkissjóðs á árinu. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2013 sem lagt var fram í vikunni er nú gert ráð fyrir að heildarhalli ársins 2013 verði neikvæður um 25,5 milljarða kr. og þar með 21,8 milljörðum kr. lakari en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Breytingarnar á afkomu ríkissjóðs frá áætlun fjárlaga stafa aðallega af því að tekjur ríkissjóðs eru umtalsvert lægri en áætlað var í fjárlögum vegna minni hagvaxtar en vænst var.

Þessar tölur eru nýjasta sönnun um hve glögg núverandi stjórnarandstaða er á fjárlagatölur, hagvöxt og framvindu mála. Nú þegar forystumenn stjórnarandstöðunnar eru á nálum vegna afkomu ríkissjóðs í tilefni aðgerða í þágu skuldugra heimila er að sjálfsögðu ástæða til að leggja vel við hlustir.

Föstudagur 29. 11. 13 - 29.11.2013 23:30

Fréttir af nýrri könnun á vegum MMR sem birt var í dag sýnir að Björt framtíð er næst stærsti flokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokknum. Björt framtíð mælist með 15,2% en Sjálfstæðisflokkurinn með rúmlega 10 stigum meira fylgi. Fylgi Bjartrar framtíðar er til marks um vinsældir pólitískrar firringar – Annars vegar er þess krafist af stjórnarflokkunum að þeir standi við kosningaloforð sín um raunveruleg viðfangsefni varðandi hag lands og þjóðar hins vegar leggur Björt framtíð flokkurinn sem mælist stærstur í stjórnarandstöðu megináherslu á að leggja niður mannanafnanefnd og færa til frídaga!

Þegar Guðmundur Steingrímsson, leiðtogi Bjartrar framtíðar, tekur til máls á alþingi talar hann í hæðnislegum spurnartón án þess að leggja fram nokkuð sem getur talist framlag til efnislegrar lausnar á málum. Draga má í efa að nokkurs staðar sé unnt að finna sambærilegan stjórnmálaflokk í nágrannalöndunum sem rýkur upp í vinsældum, þeir gera það almennt með skýra stefnu, einkum með því að lýsa efasemdum um ágæti Evrópusambandsins.

Björt framtíð talar í hálfkveðnum vísum um ESB-málið, segist vilja leiða viðræður til lykta án þess að setja fram samningsmarkmið. Það er sama hvar borið er niður, hvarvetna leitast flokkurinn við að vera á gráu svæði og hann laðar greinilega stjórnarandstæðinga með sér þangað. Hve lengi honum helst á þessu fylgi er óljóst. Spurning er hve lengi samfylkingarfólk ætlar að líða Bjartri framtíð að höggva í sínar raðir.

Fimmtudagur 28. 11. 13 - 28.11.2013 22:30

Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra töldu stjórnendur ríkisútvarpsins lífspursmál fyrir stofnunina að öll starfsemi hennar flyttist í hið mikla útvarpshús við Efstaleiti sem er þó minna en upphaflega var ætlað. Nú sagði Páll Magnússon útvarpsstjóri í Kastljósi kvöldsins að hann vildi selja útvarpshúsið.

Eyjólfur Konráð Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var á sínum tíma eindreginn andstæðingur þess að svo stórt hús yrði reist yfir ríkisútvarpið og vildi að því yrði breytt í kartöflugeymslu.

Fylgi útvarpsstjóri hugmynd sinni eftir er eðlilegt að velta fyrir hvernig eigi að nýta húsið við Efstaleiti. Miðað við legu útvarpshússins á höfuðborgarsvæðinu og gerð hússins með miklum geymslum fyrir tæki og tól auk góðs rýmis umhverfis það mundi húsið til dæmis henta vel sem höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þar færi einnig vel um samhæfingarstjórn almannavarna, fjarskiptadeild lögreglu, neyðarlínuna auk vakstöðvar siglinga.

Miðað við áform Reykjavíkurborgar um breytingar á Hlemmi í þágu skapandi greina er ekki vafi um áhuga fjárfesta á að nýta lögreglustöðina við Hverfisgötu í þágu þjónustu af einhverju tagi eða reisa nýtt hús á reitnum – þarna er einnig kjörinn staður fyrir Listaháskóla Íslands sem vill vera í hringiðu miðborgarinnar.

Miðvikudagur 27. 11. 13 - 27.11.2013 21:15

Það væri verðugt að birta Reykvíkingum allt sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur sagt um það sem gerast á í Vatnsmýrinni. Nú segir hann „að hægt sé að gera Vatnsmýrina að okkar eigin Danmörku, sem sé flöt með örar samgöngur og aðstöðu fyrir góða umferð hjólafólks og þeirra sem gangandi eru. Sagði hann jafnvel möguleika á lestum þar þegar litið er til lengri tíma,“ segir á mbl.is í dag og er vitnað til þess sem kom fram á fundi um framtíð og tækifæri í Vatnsmýrinni á Hótel Natura.

Þá talaði Dagur B. einnig um „íbúðir meðfram Öskjuhlíðinni, norður af Háskólanum í Reykjavík“. Hvað á hann við? Svæðið þar sem skóli á vegum Hjallastefnunar hefur fengið aðsetur? Eða þar sem Flugbjörgunarsveitin er? Á að setja virkisvegg við alla vesturhlíð Öskjuhlíðar? Einu sinni sagði Dagur B. að lyfjafyrirtæki risi á þessum stað.

Norræna húsið er í Vatnsmýrinni þar flutti Camilla Gunell, landsstjóri á Álandseyjum, fróðlegt hádegiserindi um Álandseyjar sem herlaust svæði á nýjum tímum í öryggismálum. Kröfunni um herleysi er fylgt svo stíft að sérstakt leyfi varð að gefa sænska hernum til að lenda þyrlum á Álandseyjum við björgunarstörf vegna slyssins mikla þegar ferjan Estonia sökk og meira en 1.800 manns fórust.

Alyson Bailes, aðjúnkt í stjórnmálafræðideild HÍ, flutti einnig ræðu á fundinum og velti einmitt fyrir sér samskiptum borgaralegra yfirvalda og hernaðarlegra við gæslu öryggis í samtímanum. Færi eitthvað úr skorðum gerðist það inni í samfélögum og það kynni að auka á hættu fólks væri ekki heimilt að beita öllum ráðum til viðbragða meðal annars hervaldi – herlaus svæði gætu orðið hættulegri en þau þar sem kalla mætti á hermenn til hjálpar.

Síðdegis var útgáfuhóf vegna bókarinnar Karólínu sem Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur hefur skrifað um Karólínu Lárusdóttur og myndlist hennar – glæsileg bók og verðugur minnisvarði um list Karólínu – Forlagið er útgefandi  og flutti Jóhann Valdimarsson forstjóri eftirminnilega ræðu um sögu bókarinnar og áhuga sinn á útgáfu hennar.

 

 

Þriðjudagur 26. 11. 13 - 26.11.2013 21:55

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður flutti í hádeginu erindi í tilefni af 150 ára afmæli Þjóðminjasafnsins, stiklaði á stóru í sögu þess, lýsti atburðum á afmælisárinu og greindi frá framtíðarhugmyndum sínum – þar bar hæst væntanleg sýning í Þjóðmenningarhúsinu. Verður spennandi sjá hvernig tekst að mynda þar sýningu á efni úr mismunandi söfnum – Þjóðmenningarhúsið verður Safnahúsið að nýju.

Nú hefur Skoski þjóðernisflokkurinn kynnt stefnuskrá sína á tæpum 700 blaðsíðum í hvítbók sem ætlað er að sanna fyrir Skotum að þeim sé fyrir bestu að greiða atkvæði með sjálfstæði lands síns í þjóðaratkvæðagreiðslu 18. september 2014. Flokkurinn setur fram samningsmarkmið með því að kynna hollustu við drottninguna, sterlingspundið, aðild að NATO og að ESB. Þá er 15.000 manna skoskur herafli kynntur til sögunnar.

Fróðlegt er að bera þessi vinnubrögð saman við aðferðina sem Samfylkingin og VG beittu við hina misheppnuðu tilraun sína til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið án þess að gefa sér og því síður þjóðinni allri tækifæri til að segja álit sitt á þessu afsali á fullveldi hennar.

Talsmenn sjálfstæðis Skotlands ætluðu að mæla með aðild að evru-svæðinu en vegna vandræðanna þar hafa þeir horfið frá að leggja það fyrir skoska kjósendur. Áform þeirra um að halda pundinu verða greinilega notuð af ráðamönnum í London til að veikja trú Skota á nauðsyn þess að stíga skrefið til sjálfstæðis.

Mánudagur 25. 11. 13 - 25.11.2013 22:20

Þorbjörn Rúnarsson hefur ritað út fræga samtalið við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor í Spegli ríkisútvarpsins föstudaginn 22. nóvember í tilefni að því að 50 ár voru liðin frá morðinu á John F. Kennedy. Undir lok samtalsins beindi Gunnar Gunnarsson fréttamaður umræðunum inn á brautir sem leiddu til samanburðar á stöðu mála í Bandaríkjunum og Evrópu og hafði Gunnar á orði að líka væri „gríðarlega mikil fátækt í Bandaríkjunum“. Þá sagði Hannes Hólmsteinn:

„Ég held reyndar að fátæktin sé viðráðanlegri þar [í Bandaríkjunum], því það eru fleiri leiðir opnar til þess að komast út úr fátækt og við sjáum það til dæmis ef við lítum á Evrópu að þar er svo mikið atvinnuleysi hjá ungu fólki. Það er allt upp í helmingurinn af ungu fólki atvinnulaust í sumum Evrópulöndunum núna og það þýðir að það hefur ekki sömu tækifærin og í Bandaríkjunum til að brjótast út úr fátækt og í bjargálnir og það sem að ég held að bæði Evrópa og Bandaríkin þurfi að gera í framtíðinni er að keppa í lífsbaráttunni við þessi nýju ríki [Kína og Indland]. Og til þess að gera það held ég að þau þurfi að gera það sem er gamalkunnugt ráð, sem er að virkja kapítalismann og sköpunarmátt hans og lækka skatta. En það eru meiri líkur á að Bandaríkjamenn geri það heldur en Evrópubúar. Ég held að þeir séu dáldið að festast í einhverjum mótum sem getur orðið til þess að Evrópa breytist í eitthvað sambland úr elliheimili og byggðasafni.“

Hannes Hólmsteinn minnist þarna á að „allt undir helmingurinn af ungu fólki“ sé atvinnulaust í Evrópu. Þetta er ekki hárrétt. Í Grikklandi og á Spáni hefur atvinnuleysi ungs fólks farið yfir 60%. Í orðum hans kemur hins vegar fram mat sem reist er á raunsæi.

Sunnudagur 24. 11. 13 - 24.11.2013 22:20

Nýi þátturinn sem sýndur var í ríkissjónvarpinu í kvöld Orðbragð heppnaðist vel, hann má nálgasthér.  Það er tímabært að gera nútímalegan sjónvarpsþátt um íslenskt mál. Ritmálið verður æ mikilvægara vegna tölva og síma, að smíða brú á milli skammstafana nú og í fyrstu handritunum var vel til fundið. Þá spöruðu menn kálfskinn með því að stytta orðin – hvað spara þeir nú? Orðið app var tekið inn í málið en orðinu fésbók hafnað. Hvað orð á að nota yfir Facebook? Snjáldur?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsir ofstæki og hatri í sinn garð í þessari frásögn.  Ég gagnrýndi fyrir nokkru þegar Lára Hanna Einarsdóttir gerði tilraun til að afskræma nýjan sjónvarpsþátt Gísla Marteins Baldurssonar með eigin útgáfu á honum. Tilgangurinn virtist vera hinn sami og hjá þeim sem beita sér gagnvart ríkisútvarpinu til að Hannes Hólmsteinn sé bannfærður.

Laugardagur 24. 11. 13 - 23.11.2013 23:55

Nú er viðtal mitt við Vigdísi Grímsdóttur rithöfund á ÍNN komið á netið og má sjá það hér.

Í kvöld sáum við Carmen í Hörpu, sýnd fyrir fullu húsi, síðasta sýning á þessari fjölmennu og litríku sýningu. Hanna Dóra Sturludóttir, Garðar Thór Cortes og Þóra Einarsdóttir stóðu sig öll með prýði í stórum hlutverkum sínum. Ég hefði viljað hafa meiri suðræna spennu í uppsetningunni og átta mig ekki á hvers vegna hún tók mið af fasistastímanum á Spáni – voru fasistar að berjast sérstaklega við sígarettusmyglara?

 

Föstudagur 22. 11. 13 - 22.11.2013 23:40

Meirihlutinn í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt breytingar á þingsköpum til að hindra að minnihlutinn í deildinni geti beitt málþófi til að tefja framgang ákvarðana Bandaríkjaforseta um skipan manna í embætti. The New York Times segir að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Þingmenn deili um allt, stórt og smátt. Líkur séu á að ekki takist samkomulag um fjárlög í desember og þess vegna verði enn á ný að skrúfa fyrir opinbera þjónustu á næsta ári vegna fjárskorts.

Eftir rimmuna um fjárlögin fyrir nokkrum vikum þegar menn töldu að repúblíkanar hefðu gengið lengra en góðu hófi gegndi og ofboðið almenningi beinast spjótin nú að Barack Obama Bandaríkjaforseta. Í nýjasta hefti af The Economist birtist mynd af Obama sem sýnir hann sökkva í sæ undir fyrirsögninni: Maðurinn sem gekk venjulega á vatni.

Seinna kjörtímabilið er mun erfiðara Obama en hið fyrra. Í dag er hugur Bandaríkjamanna hins vegar við annað, 50 ára minningardag morðsins á John F. Kennedy. Á öllum sjónvarpsstöðvum fyrur utan ríkissjónvarpið íslenska eru minningamyndir um Kennedy og/eða upphaf fjögurra þátta raðar um Kennedy-fjölskylduna.

Í ríkissjónvarpinu á Íslandi er sýnd myndin Boðorðin tíu þar sem Charlton Heston leikur Móses. Myndin var gerð 1956 en tæknilegt útlit hennar hefur greinilega verið endurbætt. Sýningin tengist örugglega þáttaröðinni um sögu kvikmyndanna – sú saga er ríkissjónvarpinu ofar í huga en sagan tengd Kennedy.