30.12.2013 22:10

Mánudagur 30. 12. 13

Í Morgunblaðinu birtist laugardaginn 28. desember frétt þar sem sagði að aukin tækni kallaði á nýyrði og í blaðinu daginn áður hefði sérstakur flugbúnaður, sem m.a. væri talinn geta nýst við leit að týndu fólki, verið nefndur flygildi eða drónur. Jón Þóroddur Jónsson fjarskiptaverkfræðingur vildi að tækið væri kallað vélfluga. Í fréttinni sagði:

„Jón Þóroddur Jónsson situr í orðanefnd rafmagnsverkfræðinga, sem hittist vikulega, og segist aðeins hafa rætt þetta í nefndinni. Hann segir að orðið dróna hafi verið notað um umrætt fyrirbæri sem og flygildi. „Flugvél er vel þekkt fyrirbæri og vélfluga er gott og gamalt íslenskt orð. Það er nákvæmlega það sem þetta er, vélfluga,“ segir hann. Jón Þóroddur áréttar að enska skýringin á drones sé lítil fluga með mótor að fljúga. Vélfluga.

„Þetta er fínt orð og miklu auðveldara í munni heldur en flygildi,“ segir Jón Þóroddur og bætir við að menn greini á um hvort skrifa eigi flygildi, flýgildi eða flígildi.“

Ég er sammála Jóni Þóroddi um orðið flygildi en ósammála honum um orðið vélfluga. Það gefur ekki nógu vel til kynna sérstöðu, oft ógnvekjandi, hinna fjarstýrðu flugvéla, orðið drón gerir það hins vegar. Ég hef notað orðið drón í hvorugkyni eins og flón en ekki kvenkyni eins og króna.

Eitt er að ræða hvaða orð eigi að nota um hina nýju tækni, annað að segja frá því hvernig unnt er að nýta tæknina. Fréttirnar í Morgunblaðinu snerust um drón og björgunarsveitir. Drón til njósna eða í hernaði eru oftar í fréttum. Víða um lönd eru settar reglur um hvernig þau megi nota – hafa þær verið settar hér? Þarf ekki að huga að því til að tryggja friðhelgi einkalífsins.