Dagbók: febrúar 2006

Þriðjudagur, 28. 02. 06. - 28.2.2006 20:10

Var klukkan 15.00 í Skógarhlíð, þar sem opnuð var aðstaða fyrir bíla- og búnaðarþjónustu ríkislögreglustjóra. Þá rituðu þeir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, undir samstarfsamning lögreglu og gæslu, sem ég staðfesti.

Á leiðinni heim heyrði ég í bílnum að Illugi Jökulsson futti vikulegan pistil á NFS og var að býsnast yfir því, að stofna ætti greiningardeild hjá lögreglunni. Hann taldi enga þörf á því, þar sem ógnin af hryðjuverkum væri bara ímyndun.

Illugi gaf sér, að ég hefði sagt, að greiningardeild væri nauðsynleg vegna hryðjuverkaógnar. Ég lagði hins vegar áherslu á skipulagða og alþjóðlega glæpastarfsemi. Skyldi Illugi einnig telja, að hún sé ekki að skjóta rótum hér á landi?

Staðreynd er, að sömu aðferðir lögreglu og beitt er gegn fíkniefnasölum gefast vel gagnvart skipulagðri og alþjóðlegri glæpastarfsemi og þær nýtast einnig gegn hryðjuverkum. Með því að leggja áherslu á greiningarþáttinn í starfi lögreglunnar er áréttað að hún skuli leggja mat á hættu á afbrotum en ekki aðeins rannsaka afbrot, sem hafa verið framin. Áhættugreining er lykilþáttur í árangursríku starfi lögreglu, hvað sem líður hryðjuverkaógn.

Ég var undrandi á því, að Illugi skyldi ekki hafa kynnt sér rökin að baki greiningardeildinni betur, úr því að hann kaus að flytja sérstakan pistil um málið. Illugi getur verið þeirrar skoðunar, að Íslendingum eða öðrum stafi engin ógn af hryðjuverkum - það eru einfaldlega engin rök gegn því, að lögð sé áhersla á greiningarþáttinn í störfum lögreglunnar.

Mánudagur, 27. 02. 06. - 27.2.2006 20:54

Í gær ræddum við Egill Helgason um ástandið í Írak í Silfri Egils. Ef ég hefði haft þær tölur, sem ég las um í dag, á hraðbergi hefði ég nefnt þær í þættinum.

Brookings stofnunin í Washington er birtist sérstakan „Írak index“ til að fylgjast með þróun mála í Írak eftir innrásina þar og afstöðu almennings í landinu. Nýjasta skoðanakönnunin, sem er frá 13. febrúar, sýnir, að íraskur almenningur er bjartsýnn á framtíðina, þótt margt gerist til að draga úr honum kjarkinn. Þá er stuðningur við innrásina einnig ótrúlega mikill.

Spurt var: Telur þú, að mál þróist í rétta átt um þessar mundir í Írak? Já, sögðu 64% allra, sem spurðir voru; 76% Kúrda; 84% Sjíta; 6% Súnníta.

Spurt var: Með vísan til allra erfiðleika, sem þú kannt að hafa þolað frá innrás Bandaríkjamanna og Breta, telur þú persónulega, að það hafi verið þess virði að bola Saddam Hussein frá völdum? Já, sögðu 77% allra; 91% Kúrda; 98% Sjíta; 13% Súnníta.

Tæplega 80% Íraka telja innrásina hafa verið þess virði að losna við Saddam - Súnnítar telja sinn hlut greinilega mega vera betri.

Gestur Jónsson, höfuðverjandi Baugs, lætur sér ekki lengur nægja að krefjast þess, nú með skírskotun til álits dansks lögmanns, að ég hagi orðum mínum eins og hann telur nærgætið fyrir skjólstæðing sinn, í Kastljósi í kvöld agnúaðist Gestur einnig út í það, að norskur saksóknari skyldi hafa fengið grein birta í Morgunblaðinu sl. laugardag en frá henni sagði ég í dagbók minni þá.

Sunnudagur, 26. 02. 06. - 26.2.2006 10:17

Fréttablaðið birtir í dag frásögn af bústað breska forsætisráðherrans að Downing stræti 10 í tilefni af því, að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra var þar á dögunum. Ég var beðinn að segja eitthvað um húsið í blaðið, en hafði ekki tök á því. Hefði ég gert það, stæði þar líklega ekki, að Geir Hallgrímsson hefði verið þar árið 1974, því að hann var þar árið 1976.

Ég veit hins vegar ekki, hvort ég hefði haft tök á að leiðrétta það, sem mér sýndist haft eftir Steingrími Ólafssyni, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, en hann segir mér, að sé hugarsmíð Fréttablaðsins, að Halldór Ásgrímsson sé „þriðji starfandi forsætisráðherra Íslands sem kemur í Downing-stræti.“

Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra 1971 til 1974, fór til London um miðjan október 1973 og hitti Edward Heath, forsætisráðherra Breta, í Downing stræti, þar sem þeir sömdu um lausn á deilunni vegna 50 mílna útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Myndir í blöðum og bókum sýna Ólaf á þessum sögufræga stað.

Raunar má velta því fyrir sér, hvaða máli það skiptir í raun, hvort fleiri eða færri starfandi forsætisráðherrar Íslands hafi verið í Downing stræti, en úr því að lagst er í pælingar af því tagi, sérstaklega sé það er gert af hálfu opinberra talsmanna, ætti að leita af sér allan grun um hið rétta, áður en yfirlýsingar eru gefnar. Fyrst gleymdist heimsókn Steingríms Hermannsonar í húsið árið 1988 og í dag gleymir Fréttablaðið því, að Ólafur Jóhannesson var þar 1973.

Var klukkan 13.30 í Silfri Egils og ræddum við Egill einkum múslíma. Mið-Austurlönd, fjölmenningarsamfélagið og stöðu öryggismála í þessu ljósi.

Laugardagur, 25. 02. 06. - 25.2.2006 7:39

Morgunblaðið birtir í dag grein eftur Morten Eriksen, saksóknara efnahagsbrotadeildar norsku lögreglunnar. Hann ræðir um þann dóm hæstaréttar að vísa frá 32 ákæruatriðum í Baugsmálinu. Norski saksóknarinna segir meðal annars:

„Sjálfstæði og hlutleysi fjölmiðla má ekki verða fyrir skakkaföllum þó upp komi grunur um refsiverða háttsemi eigenda þeirra en þetta er erfið staða og jafnvægisþraut sem blaðamönnum fréttamiðla tekst ekki alltaf jafnvel að leysa. Í því sambandi má benda á ægivald Silvios Berlusconis forsætisráðherra Ítalíu yfir ítölskum fjölmiðlum. Og að baki spinna vef sinn fjölmiðlaráðgjafar sem reyna að hafa áhrif alls staðar sem þeir ná til. Þannig er daglegt líf víða um heim.

Þrátt fyrir þetta má það ekki hafa nein áhrif á niðurstöður sakamála hvort hinir ákærðu hafi áhrif í stjórnmálum, fjölmiðlum eða atvinnulífi. Jafnt háir sem lágir eiga að njóta sama réttlætis og þar með talið að því er varðar refsingu.

Ástæðulaust er þó að vera með einhvern barnaskap. Í öllum samfélögum sjáum við að reynt er bæði að beita og misbeita völdum. Það fer eftir getu réttarríkisins til þess að sýna hlutleysi hvort það tekst eða ekki þegar sakamál eru tekin til meðferðar fyrir dómstólum.

Hinar ýmsu hliðar Baugsmála verða örugglega árum saman umfjöllunarefni, jafnt í fjölmiðlum sem á almennum og faglegum vettvangi. Það er styrkur lýðræðisins. Umræður, gagnrýni og sjálfsgagnrýni eru nauðsynlegar forsendur réttarríkisins og lýðræði í reynd. Ég ber mikla virðingu fyrir Hæstarétti Íslands sem hefur af mikilli samviskusemi metið þau atriði sem honum voru fengin til úrlausnar.

Það þarf þó engu að síður að fjalla um niðurstöðu hans. Verði eftir henni farið í öðrum ríkjum mun hún hafa umfangsmikil áhrif hvað meginreglur varðar, langt út yfir það sem Baugsmál snúast um, og gengur ótvírætt þvert á almennar kröfur um gerð ákæra á Norðurlöndum. Hvert ríki setur sér löggjöf en á mikilvægustu sviðum höfum við alltaf átt það margt sameiginlegt að samanburður getur verið gagnlegur, ekki síst vegna hinna mörgu alþjóðlegu tenginga.“

Lesa meira

Föstudagur, 24. 02. 06. - 24.2.2006 6:48

Tók klukkan 16.00 þátt í athöfn við Skógarhlíð til að staðfesta flutning höfuðstöðva Landhelgisgæslu Íslands þangað.

Þegar ég hlustaði á það í Spegli RÚV, að því væri líkt við Watergate-hneyksli í Svíþjóð, að starfsmaður flokks sósíal-demókrata hefði ritað nafnlaus níðbréf um formann hægri flokksins og birt í fjölmiðlum, var mér hugsað til huglausu nafnleysingjanna á íslenskum innherjasíðum, sem ráðast með svívirðingum á nafngreinda menn. Mér er sagt, að á einhverri síðunni hafi nafnleysingjarnir meira að segja kvartað undan því, að þar væru engir málsvarar Sjálfstæðisflokksins - en að sögn virtust innherjarnir sjálfir helst vera stuðningsmenn Samfylkingarinnar eða einstakra forystumanna hennar.

Formaður sænska hægri flokksins vildi ekki sitja undir þessum persónulegu árásum nafnleysingjans og leitaði réttar síns - fyrr en varði kom hið sanna í ljós en Göran Persson, formaður flokks sósíal demókrata og forsætisráðherra, baðst afsökunar án þess að vilja greina frá nafni flokksstarfsmannsins, sem stóð að nafnlausu árásunum. Hér hefur þess ekki orðið vart, að ritstjórar skjóls fyrir nafnleysingja á netinu sýni sama hug og sænski forsætisráðherrann, sem vildi ekki bera ábyrgð á ritsóðanum.

Lesa meira

Fimmtudagur, 23. 02. 06. - 23.2.2006 21:45

Mér heyrðist, að Össur Skarphéðinsson væri að fjargviðrast yfir því á alþingi í dag, að Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, gæfi ekki fjármálaeftirlitinu fyrirmæli um rannsókn á sölu Búnaðarbankans. Á sínum tíma ruku samfylkingarmenn upp á nef sér á þingi yfir því, að ég teldi réttarkerfið ekki hafa sagt sitt síðasta orð í Baugsmálinu. Var sú staðhæfing jafnvel talin fela í sér einhver fyrirmæli til dómstóla!

Málflutningi vegna átta ákæruatriða í Baugsmálinu lauk fyrir héraðsdómi í dag, en skýrslutaka og yfirheyrslur fyrir dómi hófust síðastliðinn mánudag. Ljósvakamiðlarnir gefa lélega mynd af því, sem hefur verið að gerast í réttarsalnum - raunar er Morgunblaðið eini fjölmiðillinn, sem veitir almenningi nokkra sýn á málið.

Baugsmiðillinn DV, sem lifir á viðfangsefnum dómstólanna, leiðir þetta stóra mál hjá sér.

Skrýtið var að lesa greinar þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, í Morgunblaðinu í dag í tilefni af mati fyrirtækisins Fitch á þróun peningamála hér á landi. Það var engu líkara en blessað fólkið hefði himin höndum tekið, af því að Fitch lét ekki lengur við það eitt sitja, að hér væri allt eins og best yrði á kosið. Viðbrögðin sönnuðu enn, hve þessir stjórnmálamenn hafa lítið til málanna að leggja - þeir sitja og bíða eftir, að eitthvað  fari úr skorðum til að geta gert sér einhvern mat úr því. Hvar er frumkvæði þessara forystumanna?

Ég flutti erindi um stjórnskipun og stjórnsýslu í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins klukkan 19.00 og svaraði fjölmörgum spurningum nemenda fram til klukkan 20.00.

Miðvikudagur, 22. 02. 06. - 22.2.2006 21:27

Sagt var frá því i fréttum, að fundur Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra með Tony Blair, forsætisráðherra Breta, væri fyrsti fundur íslensks forsætisráðherra með breskum starfsbróður sínum í Downing-stræti síðan Geir Hallgrímsson var þar í febrúar 1976 til að ræða við Harold Wilson um lausn á síðasta þorskastríðinu.

Ég var með Geir í þeirri ferð og sat fundi í Downing stræti en einnig í skrifstofu Wilsons í breska þinginu auk þess sem hann bauð til hádegisverðar að sveitarsetri breska forsætisráðherrans, Chequers. Ég sá í bókabúð í London nýjar dagbækur aðstoðarmanns Wilsons og þar var þessara funda Geirs og Wilsons getið oftar en einu sinni.

Kannski rekst einhver blaðamannanna, sem er að fylgjast með Halldóri í London á þessa bók og birtir okkur þá kafla úr henni, þar sem sagt er frá fundum þeirra Geirs og Wilsons.

Wilson sagði af sér embætti forsætisráðherra skömmu síðar og er mönnum enn ráðgáta, hvers vegna hann ákvað að gera það á þessum tíma og er nú verið að sýna sjónvarpsmynd um aðdraganda afsagnarinnar.

Stjórnmálasagan verður oft tilefni sjónvarpsmynda eða leikrita, þó átti ég ekki von á, að nokkrum hefði dottið að gera leikrit um stofnun og upphafsár Evrópusambandsins, en slíkt leikrit er nú sýnt í Hampstead-leikhúsinu í London. Ég gaf mér ekki tíma til að sjá það, enda gæti ég ímyndað mér, að margt efni annað væri meira spennandi - en leikritið byggist á störfum Roberts Schumanns, utanríkisráðherra Frakka, á sjötta áratugnum, sem ásamt Jean Monnet er talinn höfuðarkitekt Evrópusambandsins.

Þriðjudagur, 21. 02. 06. - 21.2.2006 21:14

Hitti sendiherra Sviss og Liechtenstein gagnvart Evrópusambandinu og ræddi við þá um Schengen-málefni og EES.

Síðdegis var Schengen-ráðherrafundur og snerust umræður að mestu um, hve hátt gjald ætti að taka fyrir vegabréfsáritun, eftir að farið verður að gefa áritanir út með lífkennum og þar með auknum kostnaði.

Flaug frá  Brussel kl. 18.45 um London og hér var rétt skömmu eftir miðnætti.

Las í bresku blaði, að ákveðið hefði verið að loka sex hrafna við Tower í London inni af ótta við, að annars kynnu þeir að fá fuglaflensu, en í þau hundruð ára, sem þeir hafa verið turninum til verndar, hafa þeir aldrei fyrr verið lokaðir inni. Þess var getið, að tveir hrafnanna heiti Huginn og Muninn eins og hrafnar Óðins forðum daga.

Mánudagur, 20. 02. 06. - 20.2.2006 21:19

Var á fundum í Brussel fram yfir hádegi með fulltrúum Evrópusambandsins til þess meðal annars að undirbúa ráðstefnur á vegum Evrópunefndar í sumar um EES-samninginn og Schengen-samstarfið.

Sendiráð Íslands er til húsa í hjarta ESB-stjórnarbygginganna og auðvelt á fá fólk úr þeim til fundar við sig - raunar má segja að staðarvalið gæti ekki verið betra með tilliti til þess.

Það vottaði fyrir slyddu í Brussel í dag og mér er sagt, að hér hafi rignt meira og minna frá jólum og eigi að rigna enn út þessa viku.

Sunnudagur, 19. 02. 06. - 19.2.2006 14:57

Ellefu ára afmælisdagur síðunnar bjorn.is er í dag og minnist þess í pistli, sem ég sendi frá mér í gær.

Það var heldur svalt í London fram yfir hádegi og var farið að rigna, þegar ég hélt þaðan til Brussel.

Lengi höfum við sjálfstæðismenn spáð því, að uppboðsstefna R-listans á lóðum undir forystu Samfylkingarinnar mundi bíða skipbrot og nú sýnist sú spá hafa ræst, ef marka má fréttir um, að Árni Þór Sigurðsson, vinstri/grænum, og sjálfur Alfreð Þorsteinsson Framsóknarflokki hafi snúist gegn stefnunni af þunga, eftir að í ljó kom, að sami byggingarverktakinn keypti 39 af 40 lóðum undir einbýlishús við Úlfarsfell.

Þegar R-listinn samdi um sölu lóða til verktaka á Norðlingaholti hét hann því, að úthluta ekki lóðum á lægra verði annars staðar - sala lóða í Grafarholti byggðist einnig á því að ná í sem mesta peninga. Öll lóðaskortsstefna R-listans hefur byggst á því að úthluta sem minnstu til að ná í hæst verð. Þetta höfum við sjálfstæðismenn bent á í mörg ár og nú springur þessi stefna framan í höfunda sína og þeir eru misjafnlega fljótir að hlaupa frá borði.

Í dag birtist viðtal við mig í Fréttablaðinu, þar sem ég segi frá störfum Evropunefndar.

Laugardagur, 18. 02. 06. - 18.2.2006 23:10

Átti fund með fræðimanni um öryggis- og alþjóðamál í London og ræddum við íslensk, alþjóðleg og evrópsk öryggismál og hvernig áherslur hafa breyst bæði í hættumati og við framkvæmd stefnu í öryggismálum.

Á mörgum fundum og ráðstefnum um öryggismál á tímum kalda stríðsins sannfærðist ég um gildi þess að kynnast fræðilegri hlið öryggismálanna. Aðeins með því að líta til hennar er unnt að komast hjá því að vera bundinn af skammtímasjónarmiðum. Fræðimenn hafa ekki frekar en aðrir endilega rétt fyrir sér en þeir bregða ljósi á þróun og stöðu mála, sem auðveldar töku skynsamlegra ákvarðana um framtíðina.

Föstudagur, 17. 02. 06. - 17.2.2006 23:43

Skrifa þetta frá London en þangað flaug ég síðdegis á leið á Schengen-ráðherrafund í Brussel auk þess sem ég ætla að hitta sérfróða menn um öryggismál hér í London og um Evrópumál í Brussel. Fyrir hádegi flutti ég ræðu um löggæslumál og svaraði fyrirspurnum á fundi sveitarstjórnarmanna og þingmanna Sjálfstæðisflokksins í Valhöll.

Les á mbl.is: Í nýrri könnun tímaritsins Frjálsrar verslunar kemur fram að Morgunblaðið er í hópi tíu vinsælustu fyrirtækja landsins og er það í fyrsta sinn sem blaðið er í þeim hópi. Fjölmiðlafyrirtækið 365 miðlar er í 23.-26. sæti. DV er efst á lista yfir þau fyrirtæki sem neikvætt viðhorf er til og 365 miðlar eru þar í tíunda sæti.

Ekkert um óvinsældir Baugsmiðilsins DV kemur mér á óvart og ekki hefur blaðið batnað neitt undir nýjum ritstjórum og enn má lesa um sorg fólks vegna þess, hvernig blaðið tekur á viðkvæmum einkamálum. Hvers vegna skyldi Baugsveldið telja sér til framdráttar að halda þessu blaði úti í þessum búningi?

 

 

Fimmtudagur, 16. 02. 06. - 16.2.2006 9:30

Ræddi við þá félaga á síðdegisútvarpi Bylgjunnar um vændismál og greiningardeild lögreglunnar. Sagði hið sama og áður, að ég skildi ekkert í því, hvers vegna það væri gert að stórpólitísku máli hér, hvort setja ætti í íslensk lög sænsk lagaákvæði gegn götuvændi og mansali í Svíþjóð. Sagði einnig, að teldi ég nauðsynlegt að stofna hér öryggislögreglu eða leyniþjónustu mundi ég flytja frumvarp þess efnis á alþingi.

Þá kom ljósmyndari frá Fréttablaðinu og tók af mér myndir vegna viðtals um Evrópumál, sem mun birtast einhvern daginn í blaðinu. Ég tek heilshugar undir með þeim, sem segja, að ræða þurfi Evrópumálin. Bergljót Davíðsdóttir ritaði leiðara í DV þriðjudaginn 14. febrúar undir fyrirsögninni: Kominn tími til vitrænnar umræðu um ESB.

Bergljót vill greinilega að Ísland gangi í ESB og segir, að hér hafi ríkt „hundsleg þögn“ um málið, hvað svo sem það nú þýðir. Þetta er ekki hið eina skrýtna í þessum leiðara, þar sem hún hefur eftir Jóni Baldvin Hannibalssyni, að Davíð Oddsson hafi verið eini andstæðingur ESB-aðildar. Hvernig væri, að Bergljót, áhugamaður um vitræna ESB-umræðu og Jón Baldvin sjálfur rifjuðu upp ræður Jóns Baldvins sem utanríkisráðherra á tíma EES-samningaviðræðna? Þá kom ESB-aðild alls ekki til greina að mati Jóns Baldvins.

Bergljót segir: „Aðild hefur lengi verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar og nú er lag.“ Lesendur hljóta að spyrja Bergljótu: Aðild að hverju? Eitt er víst, ekki að Evrópusambandinu. Bergljót telur, að samningar Maltverja um veiðar smábáta við eyju sína vísi okkur áhyggjulausa leið inn í ESB. Þá telur hún, að í Noregi séu „uppi háværar raddir um inngöngu í Evrópusambandið.“ Það eru þó ekki nema nokkrir mánuðir síðan mynduð var ríkisstjórn í Noregi, sem ætlar ekki að sækja um ESB-aðild á þessu kjörtímabili.

Spyrja má: Hver hefur gagn af svona vitrænni umræðu? 

Miðvikudagur, 15. 02. 06. - 15.2.2006 21:54

Svaraði í dag Söndru Franks, varaþingmanni Samfylkingarinnar, sem spurði mig um netsíur gegn barnaklámi og sagði ég lögregluna líta til fyrirmynda í Noregi, auk þessum unnið væri að því að fullgilda samning Evrópuráðsins um glæpi í netheimum, sem mundi veita nýjar lögheimildir. Ég hafði ekki fyrr sest við tölvuna heima hjá mér en til mín kom t-bréf frá manni, sem sagðist sérfróður um t-öryggismál, og taldi tóma vitleysu, að unnt yrði að setja upp nokkrar síur, með því væri verið að kasta peningum út í vindinn. Sakaði hann mig um vilja til ritskoðunar í anda kínverskra stjórnvalda. Þá vissi ég það.

Ég fór í síðdegisútvarpið á rás 2 klukkan 17.05 og ræddi þar um frumvarpið til breytinga á kynferðisbrotakafla almennra hegningalaga og frumvarpið um nýskipan lögreglumála. Síðan náði fréttamaður RÚV tali af mér um vændi og sameiginlega forsjá, ólík efni, sem bæði eru þó til umræðu vegna frumvarpa frá mér. Ég skrifaði reyndar grein í Morgunblaðið í dag um sameiginlega forsjá. Í því máli virðist mér mega greina afstöðumun á milli lögfræðinga og félagsfræðinga - margir lögfræðingar virðast vilja halda í óbreytt ástand en félagsfræðingar vilja breytingar. Frómt frá sagt held ég, að félagsfræðingar hafi rannsakað þessi mál meira í seinni tíð en lögfræðingar. Raunar velti ég því fyrir mér, hvort lögfræðingar séu ekki að seilast of langt inn á svið utan lögfræðinnar með því að líta á sig sem sérfróða menn um félagsfræðileg úrlausnarefni við sambúðarslit.

Ég var einnig spurður um vændi af fréttamanni RÚV. Ég sagði rétt, að með frumvarpinu, sem ég hefði kynnt, væri lagt til að fella úr lögum ákvæði um, að ástundun vændis til framfærslu væri refsiverð. Höfundur frumvarpsins hefði ekki trú á því, að refsiákvæði dygðu til að glíma við hinn félagslega vanda, sem knýr fólk til vændis - það væri ástæðulaust að viðhalda þeirri blekkingu og takast frekar á við vandann á félagslegum forsendum. Eru þetta ekki góð rök? Þau eru að minnsta kosti skynsamlegri í mínum eyrum heldur rök Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri/grænna, og fleiri um, að okkur sé lífsnauðsynlegt að taka hér upp reglu, sem sett var í Svíþjóð til að sporna gegn götuvændi og mansali þar í landi - er glímt við mansal og götuvændi hér á landi? Ég veit ekki til þess - hvers vegna þurfum við þá innfluttar lagareglur, sem eru sérsniðnar til slíkrar glímu?

Ég sé, að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er að kveinka sér undan því, að ég birti frumvarp um kynferðisbrot, áður en starfshópur á vegum ráðuneytisins, þar sem hann situr meðal annarra, skilar áliti. Þessi hópur vissi vel um vinnu Ragnheiðar Bragadóttur og hafði öll tækifæri til að ljúka störfum á undan henni - að hún og frumvarp hennar ætti að vera í gislingu vegna skýrslu þessa hóps er fráleitt og hefur aldrei komið til umræðu, auk þess sem skýrslan um vændi birtist væntanlega áður en kynningarfrestur vegna frumvarpsins líður.

Þriðjudagur, 14. 02. 06. - 14.2.2006 20:55

Fyrsta umræða var um frumvarpið um nýskipan lögreglumála á alþingi í dag og hef ég sett framsöguræðu mína hér inn á síðuna. Almennt lofuðu þingmenn, hvernig staðið var að gerð frumvarpsins og við hve marga var rætt í aðdraganda þess. Í raun var ekkert deilt um meginbreytingar samkvæmt frumvarpinu. Hitt vakti meiri umræður, sem segir um að á vegum ríkislögreglustjóra skuli starfa rannsóknardeild og greiningardeild, sem meðal annars hefur það hlutverk að meta hættu á glæpum og hryðjuverkum. Drógu stjórnarandstöðuþingmenn alls kyns ályktanir af þessari grein í umræðunum og töldu, að þarna væri um leyniþjónustu eða öryggislögreglu að ræða.

Ég andmælti því og benti á, að í skýrslu verkefnisstjórnar um nýskipan lögreglumála væri einmitt vikið að því, að ætti að setja hér á fót öryggislögreglu, yrði að setja um það sérstök lög og eftirlitskerfi. Það fælist ekki í þessum tillögum. Ég minnti á, að í umræðum um almenna löggæslu óskuðu allir eftir grenndar- eða hverfalögreglu - hvers vegna? Jú, vegna þess, að þeir, sem störfuðu við slíka löggæslu, ættu auðvelt með að greina breytingar í því skyni að koma í veg fyrir afbrot - þeir þekktu sitt hverfi og íbúa þess og gætu á grundvelli þekkingar sinnar dregið úr líkum á afbrotum. Líta mætti á hlutverk greiningardeildar í þessu ljósi, nema verkefni hennar væri að greina hættur, sem steðjuðu ekki endilega að einu hverfi heldur landinu öllu, og til að hafa sem besta yfirsýn ætti deildin að eiga samstarf við erlenda starfsbræður og hafa sambærilegar heimildir og þeir.

Undir lok umræðunnar kom til orðaskipta milli mín og Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns og varaformanns Samfylkingarinnar, og lýsti ég sömu skoðun og áður, að málflutningur þingmannsins væri á þann veg, að ekki væri unnt að eiga við hann málefnalegar umræður og myndi ég láta hjá líða að svara ræðu hans. Hann sté þá í ræðustól, sakaði mig um einelti og endurtók spurningar sínar. Ég sagði þær þess eðlis, að þeim mætti öllum svara í þingnefnd fyrir utan eina, það er að ég hefði talað á ósæmilegan hátt um mannréttindadómstól Evrópu á 50 ára afmæli mannréttindasáttmálans og væri með afdankaðar skoðanir í því efni. Ég sagði þetta alrangt, hingað hefði til dæmis komið danskur prófessor til að ræða þessi mál á sömu forsendum sl. haust og á síðasta ári hefðu dómsmálaráðherrar Norðurlanda rætt dómstólavæðinguna á fundi sínum, það er þá áráttu dómstóla einkum alþjóðadómstóla að taka sér lagasetningarvald.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti ég frumvarp, sem Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hefur samið um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Verður frumvarpið til kynningar á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, þar til ég tek ákvörðun um endalega gerð þess og framlagningu á alþingi um 8. mars.

Lesa meira

Mánudagur, 13. 02. 06. - 13.2.2006 22:49

Fjölmiðlaumræður um niðurstöður prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík eru dálitíð spunakenndar, svo að ekki sé meira sagt. Fjölmiðlafólk skautar framhjá atriðum, sem hefðu örugglega verið gerð að aðalatariði, ef aðrir ættu í hlut - eins og þeirri staðreynd, að konu á borgarstjórastóli var velt úr sessi.

Forystugrein Morgunblaðsins í tilefni af úrslitum prófkjörsins ber fyrirsögnina: Krafa um breytingar. Hún hefst á þessum orðum: „Kjósendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík eru augljóslega óánægðir með þá stefnu, sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur fylgt og vilja breytingar.“

Hvernig í ósköpunum er unnt að kenna það við ósk um breytingar í borgarstjórn að kjósa þau Dag B. Eggetsson, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Stefán Jón Hafstein og Björk Vilhelmsdóttur í fjögur efstu sæti á framboðslista til borgarstjórnar? Steinunn Valdís hefur verið borgarstjóri, Dagur formaður skipulagsráðs, Stefán Jón formaður menntaráðs og Björk formaður velferðarráðs. Þau hafa þannig gegnt lykilembættum innan borgarstjórnar.  Það er rakalaus spuni að kenna setu þeirra í fjórum efstu sætunum á lista Samfylkingarinnar við breytingar á stefnu borgarstjórnarmeirihlutans.

Ef Morgunblaðið hefði sagt, að kjör þessa fólks á listann í þeirri röð, sem það lenti, væri krafa um breytingar innan Samfylkingarinnar, hefði verið unnt að taka undir þá skoðun. Hinn óháði Dagur, skjólstæðingur Ingibjargar Sólrúnar, ýtti samfylkingarfólkinu Steinunni Valdísi og Stefáni Jóni til hliðar og Björk færði Samfylkinguna nokkur skref til vinstri. Í þessu felst krafa um breytingu - en ekki hitt, að það muni breyta einhverju í borgarstjórn, að þetta fólk raðist á þennan hátt á lista Samfylkingarinnar.

Morgunblaðið segir svo í þessum leiðara sínum um breytingar: „Enn sem komið er er hann (Dagur B.) aðallega boðberi breytinga - en það liggur ekki ljóst fyrir nákvæmlega hvaða breytinga.“ Já, það er sannaarlega erfitt að ráða í breytingarnar.

 

Sunnudagur, 12. 02. 06. - 12.2.2006 22:14

Prófkjöri Samfylkingarinnar lauk með sigri Dags B. Eggertssonar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri lenti í öðru sæti, Stefán Jón Hafstein í því þriðja og Björk Vilhelmsdóttir hinu fjórða, allt fólk, sem á sæti í borgarstjórn núna undir merkjum R-listans, en þau Dagur og Björk voru ekki í Samfylkingarkvóta R-listans í síðustu kosningum, Björk kom þá sem fulltrúi vinstri/grænna og Dagur bauð sig fram á listann sem óháður. Í fjórum efstu sætum Samfylkingarinnar er því að finna einskonar smá-útgáfu af R-listanum, sem kallaður hefur verið minnst aðlaðandi pólitíska vörumerkið um þessar mundir, vegna þess hvernig hann skilur við Reykjavíkurborg, þar sem látið er reka á reiðanum og ekki tekið á neinu máli í því skyni að leiða það til lykta.

Um 8600 kusu í prófkjörinu þá tvo daga sem það stóð auk 700 utan kjörstaðar. Allir gátu greitt atkvæði, án tillits til þess hvort þeir lýstu yfir stuðningi við Samfylkinguna eða ekki - prófkjörið var haldið undir merkjum Samfylkingar og óháðra.

Í prófkjörsbaráttunni auglýsti Dagur B. Eggertsson meðal annars á þennan veg: „Prófkjör Samfylkingarinnar í dag og á morgun er opið öllum Reykvíkingum, óháð stétt og stöðu, flokkslínum, aldri og áhugamálum.“ Orðavalið lýsir því, hve prófkjörið var opið en af því mætti einnig ráða, að einhverjir flokkar efndu til prófkjörs fyrir fólk af ákveðinni stétt, á sérstökum aldri og með nánar skilgreind áhugamál, til dæmis bara frímerkjasafnara. Orðskrautið er dæmigert fyrir, hvernig Dagur nálgast viðfangsefni; sjálfsagður hlutur er settur fram eins og um einhver stórtíðindi sé að ræða.

Sótti í kvöld tónleika Kammersveitar Reykjavíkur á Myrkum músikdögum en þeir voru fjölsóttir í tónleikahúsinu Ými.

Laugardagur, 11. 02. 06. - 11.2.2006 22:33

Var klukkan 12.00 við Björgunarmiðstöðina Skógarhlíð og klippti þar á borða með fleirum við upphaf aksturs lögreglu, slökkviliðs og björgunarbíla um götur borgarinnar í tilefni 1-1-2 dagsins.

Á vefsíðunni ruv.is segir: „3.560 manns höfðu kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjavík rétt fyrir klukkan sex. Formaður kjörnefndar segir þátttökuna fara fram úr björtustu vonum. Ef utankjörfundaratkvæði eru tekin með þá hafa rúmlega 4.200 greitt atkvæði.“

Ég skil ekki, hvernig þessi þátttaka í galopnu prófkjöri Samfylkingarinnar getur farið „fram úr björtustu vonum“ - hvað skyldi formaður kjörstjórnar hafa haldið, að margir myndu koma á kjörstað? Ritstjóri ruv.is tekur undir gleðina með því að setja í fyrirsögn fréttarinnar, að kjörsókn hafi verið „góð“. Á alla venjulega kvarða er þetta lítil kjörsókn og þó sérstaklega með hliðsjón af því, að Samfylkingin vill bera sig saman við Sjálfstæðisflokkinn, þar sem þátttakendur í flokksbundnu prófkjöri voru um 12.000 - til að slaga upp í það þurfa sjö til átta þúsund að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar á morgun.

Föstudagur, 10. 02. 06. - 10.2.2006 23:59

Sat 10 ára afmælisráðstefnu Neyðarlínunnar 112 á hótel Loftleiðum, flutti þar ávarp og hlustaði á fróðleg erindi.

Hér eru 96% aðspurðra ánægð með þjónustu 112 en aðeins 0,5% óánægð. Í Finnlandi þekkja um 93% neyðarnúmerið 112 en aðeins 20% að meðaltali í Evrópu og 10% í Belgíu - í þessum löndum hefur neyðarnúmerið ekki verið útfært og kynnt á sama hátt og hér og í Finnlandi.

Eitt er að kynna númerið annað að veita þjónustu á bak við það. Í báðum tilvikum stöndum við Íslendingar okkur vel.

Fimmtudagur, 09. 02. 06. - 9.2.2006 21:43

Stundum er ástæða til að undrast, hve fjölmiðlamenn á fundum alþingis eða borgarstjórnar virðast hafa litla tilfinningu fyrir því, sem lýsir pólitísku ástandi. Þeir eru uppteknir af hinum hefðbundna ágreiningi milli meiri og minni hluta virðast ekki skynja strauma innan einstakra fylkinga. Þannig hef ég ekki tekið eftir því neins staðar nema á borgarstjórnarsíðu sjálfstæðismanna www.betriborg.is , að sagt sé frá þeirri vandræðalegu stöðu, sem varð á síðasta borgarstjórnarfundi, þegar fellt var á jöfnu að taka þar til meðferðar tillögu sjálfstæðismanna um aðferð við úthlutun lóða á nýju byggingarsvæði við Úlfarsfell. Tillaga sjálfstæðismanna gekk í sömu átt og hugmyndir Árna Þórs Sigurðssonar, borgarfulltrúa vinstri grænna, sem sat hins vegar hjá við dagskrártillöguna og kom þannig í veg fyrir, að unnt yrði að álykta í borgarstjórn til stuðnings sjónarmiðum hans sjálfs. Staðfestir þetta enn, hve vinstri/grænir eru aumir í borgarstjórn, enda er fylgi þeirra í könnunum í samræmi við það.

Í gær héldu þau þrjú, sem sækjast eftir fyrsta sæti á borgarstjórnarlista Samfylkingarinnar, opinn fund á NASA til að kynna sjónarmið sín og svara spurningum. Jón Baldvin Hannibalsson var meðal fundarmanna og steig undir lófataki í ræðustól. Af því tilefni birtist eftirfarandi frétt í sjónvarpinu kl. 22.00 miðvikudaginn 8. febrúar:

„Samgöngumál voru einnig rædd á fundinum og lagði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, fram þessa spurningu.

Jón Baldvin Hannibalsson: Hvernig getið þið hugsað ykkur þegar að þið horfið dálítið fram í tímann að bæta fyrir áratuga vanrækslusyndir Sjálfstæðisflokksins varðandi umferð í Reykjavík og almanna samgöngur sem að tryggja það að við getum komist leiðar okkar.

Stefán Jón Hafstein: Jón Baldvin, það eru ekki áratuga vanrækslusyndir Sjálfstæðisflokksins sem að leiða til þess hvernig almenningssamgöngukerfið er í dag. Við erum búin að stjórna í 12 ár. Við höfðum öll tækifæri. Reykvíkingar vilja aka í einkabílum.“

Hér ber að geta þess, að Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið erlendis undanfarin ár sem sendiherra í Washington og Helsinki, þó var R-listinn kominn til valda, þegar hann hélt utan. Nú saknar hann þess greinilega, að eiga ekki auðvelt með að fara í strætó og vill skella skuldinni á sjálfstæðismenn. Er þakkarvert, að Stefán Jón skyldi hressa upp á minni Jóns Baldvins og segja honum, hverjir hafa stjórnað Reykjavík síðustu 12 ár og einnig, að Reykvíkingar vilji aka í einkabílum. Steinunn Valdís sagði einkabílnum hins vegar stríð á hendur og sagðist  sko ekki ætla að gefast upp andspænis honum.


Miðvikudagur, 08. 02. 06. - 8.2.2006 20:23

Evrópunefnd hittist á fundi í hádeginu. Eftir hádegi sannaðist síðan, að vís leið fyrir stjórnmálamann til að fá fyrstu frétt er að tala í véfréttar- eða spásagnarstíl um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB).

Á viðskiptaþingi sá Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fyrir sér, að Ísland yrði gengið í ESB árið 2015, þótt ekki teldi hann tímabært að taka til við umræður um aðild, enda ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, gladdist mjög yfir þessum orðum forsætisráðherra og taldi hann genginn í lið með Samfylkingunni, án þess að vitað sé hvaða stefnu hún hefur í Evrópumálum og síðan lét Ingibjörg Sólrún í ljós von um, að Sjálfstæðisflokkurinn sæi líka Evrópuljósið. Hvers vegna skyldi Ingibjörg Sólrún ekki beita sér fyrir því innan eigin flokks, að hann móti skýra Evrópustefnu?

Evrópunefnd með fulltrúum allra flokka er að ræða þessi mál í góðri sátt og ætlar að skila skýrslu undir árslok, ef allt gengur þar að óskum. Mér hefði þótt spennandi og fréttnæmt, ef á viðskiptaþingi hefði verið unnt að upplýsa þá, sem þar voru, og aðra um, hvernig Evrópusambandið yrði árið 2015.

Þegar Halldór Ásgrímsson spáði aðild Íslands 2015, gaf hann sér þá forsendu, að evran hefði orðið að gjaldmiðli Dana, Svía og Breta. Er líklegt, að það verði? Hvaða flokkur í Bretlandi berst fyrir slíku? Hvað með gagnrýni á evruna og  kröfur innan Evrulanda um að losna undan stjórn seðlabanka Evrópu? Eða umræður innan ESB um, að þar verði til sérstakur klúbbur Evrulanda?

Ástæðan fyrir því, að enginn stjórnmálaflokkanna hefur tekið ESB-aðild á stefnuskrá sína, er einföld: Engir hagsmunar knýja á um aðild. Atvinnulífið svonefnda hefur ekki áhuga á að ræða málið, af því að fyrirtækin eru almennt betur sett utan ESB á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið.

Markmið þeirra, sem stjórnuðu viðskiptaþinginu er, ef ég heyrði rétt, að Ísland standi best allra ríkja í mati á samkeppnishæfni árið 2015. Það markmið fellur einfaldlega ekki að þeirri skoðun, að Ísland verði þá gengið í Evrópusambandið. Eða getur einhver sýnt fram á það?

 

Þriðjudagur, 07. 02. 06. - 7.2.2006 18:51

Tók þátt í umræðum á borgarstjórnarfundi um tillögu varðandi þá ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar að láta Laxárvirkjun renna inn í orkusölufyrirtæki norður í landi. Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, stendur að flutningi þessarar tillögu og skín í gegnum málflutning hans, að hann telur Landsvirkjun vera að stinga undan orkuveitunni. Ekkert liggur hins vegar fyrir um, að Reykjavíkurborg sem 45% eigandi Landsvirkjunar, skaðist af þessum gjörningi. Þegar betur er að gáð er tillagan hrein sýndarmennska, því að með henni verður lögheimildum stjórnar Landsvirkjum ekki hnekkt.

R-listinn sálugi hleypur frá viðræðum um sölu á hlut sínum í Landsvirkjun til ríkisins, þar sem engin samstaða er innan listans um þetta mál frekar en annað. Síðan telja fulltrúar listans sér sæma að ráðast á stjórn Landsvirkjunar á fundum borgarstjórnar og krefjast þess, að hún beri ákvarðanir undir borgarstjórn, svo að þar sé unnt að gæta hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur!

Allt þetta kjörtímabil borgarstjórnar hefur Alfreð Þorsteinsson nýtt minnsta tilefni til að hnýta í Landsvirkjun, svo að ekki sé talað um Landssímann, sem hann hótaði meira að segja að kaupa, án þess að hafa til þess nokkurt umboð frá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eða borgarstjórn. Hæst hefur Alfreð talað í þessa veru, þegar athygli hefur beinst að bruðli hans við húsbyggingar eða Línu.net. Samfylkingin og vinstri/grænir hafa hiklaust staðið að þessari óráðsíu með Alfreð - en nú er þetta sama fólk miður sín fyrir hönd Landsvirkjunar vegna ráðstöfunar á Laxárvirkjun og heimtar umræður í borgarstjórn. Ef vakið hefur verið máls á fjáraustri vegna orkuveituhússins eða Línu.net í borgarstjórn, þykir R-listanum tíma sínum illa varið og veitast með reiðiorðum að málshefjendum.

Leiðarahöfundar tveggja blaða skrifa í dag um þá tillögu, sem ég hef hreyft um greiningardeild hjá lögreglunni.

Lesa meira

Mánudagur, 06. 02. 06. - 6.2.2006 22:36

Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru á dagskrá alþingis í dag og þar spurði Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna, mig spurninga varðandi greiningardeild lögreglunnar, sem ég skildi ekki til fulls, því að hann tók að tala um landráð varðandi samskipti við varnarliðið og síðan landráð samkvæmt almennum hegningarlögum og gaf þá til kynna, að forsætisráðherra og utanríkisráðherra þáverandi hefðu gerst sekir um þau vegna innrásanna í Afangistan og Írak. Sólveig Pétursdóttir, forseti alþingis, fann að þessum orðum Ögmundar, sem sagðist sjálfur bera ábyrgð á þeim!

Ég sagðist ekki treysta mér til að fylgja Ögmundi í þeim leiðangri, sem hann hóf með fyrirspurn til mín og var greinilega til þess eins ætluð að hann fengi tækifæri til að vera með landráðabrigsl úr ræðustól alþingis.

Enn sannaðist við þessi orð Ögmundar, hve umræður um öryggismál eru oft vanþroskaðar og erfitt að ræða þau á hlutlægan hátt. Engu er líkara en sumir telji, að í umræðum um varnir landsins og öryggi borgaranna skili bestum árangri að láta tilfinningar ná tökum á sér og tala eða skrifa í krafti þeirra. Upphrópanir eða landráðabrigsl eru fyrst og fremst til marks um málefnafátækt eða hræðslu við að ræða efni málsins.

Laugardagur, 04. 02. 06. - 4.2.2006 19:02

Fréttamaður NFS hafði samband við mig í dag vegna ummæla Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, við NFS í gær þess efnis, að ég væri að leggja fram frumvarp til laga um leyniþjónustu, þar sem gert yrði ráð fyrir greiningardeild við embætti lögreglustjóra. Ég sagði, að ímyndunaraflið hefði greinilega leitt þingmanninn í gönur.

Ég veit raunar ekki til þess, að Björgvin G. hafi séð umrætt frumvarp eða greinargerðina með því. Lauslega hefur verið sagt frá málinu í fjölmiðlum en frumvarpið er ekki einu sinni komið til þingflokka ríkisstjórnarinnar.

Hundruð greina Björgvins G. um menntamál undanfarin ár benda raunar til þess, að þingmanninn skipti ekki höfuðmáli að kynna sér mál til hlítar, áður en hann fjallar um þau í fjölmiðlum. Honum virðist meira í mun að láta ljós sitt skína en að greina hluti og lýsa niðurstöðum með vísan til staðreynda - hann yrði líklega seint ráðinn til starfa í greiningardeild. Væri verið að stofna annars konar deild, kynni hann að verða ráðinn til að kveikja villuljós í fjölmiðlum - disinformation er gjarnan hluti af starfsemi njósnadeilda eða leyniþjónustu, en starfssviðið er utan landamæra viðkomandi ríkis. 

Föstudagur, 03. 02. 06. - 3.2.2006 9:57

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun lagði ég fram frumvarp til breytinga á lögreglulögunum. Frumvarpið snýst að meginefni um stækkun lögregluumdæma og nýskipan þeirra. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um, að við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra starfi greiningardeildir til að meta áhættu og sinna greiningu á því, sem tengist alþjóðlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi. Með þessu er að því stefnt, að íslenska lögreglan ráði yfir svipuðum tækjum og lögheimildum og lögregla í nágrannaríkjunum, auk þess sem þetta lýtur að sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglu, en þær hafa til dæmis verið skilgreindar af Evrópuráðinu og heimildir til þeirra eru í lögum um réttarfar við meðferð sakamála, en endurskoðun þeirra laga er á lokastigi hér.

Ég heyrði, að í fréttum hljóðvarps ríkisins var vitnað til ræðu minnar á fundi sýslumanna í Vestmannaeyjum til að skýra þetta ákvæði og tengja það umræðum um öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Skýringar af þessu tagi er ekki að finna í frumvarpi mínu og byggjast á hugarsmíð viðkomandi fréttamanns.

Á fundi ríkisstjórnarinnar gerði Geir H. Haarde utanríkisráðherra grein fyrir viðræðum sínum við utanríkisráðherra og aðstoðarráðherra í Bandaríkjastjórn í Washington daginn áður. Nú hefur verið skýrt frá því, að af hálfu ríkisstjórnar Íslands hafi verið lagt til, að Íslendingar taki rekstur Keflavíkurflugvallar og leitar- og björgunarþjónustu í sínar hendur. Þessari viðræðulotu embættismanna ríkjanna lauk síðdegis í dag í Washington og verður þeim fram haldið síðar.

Viðræðurnar staðfesta enn og aftur, að hvorug ríkisstjórnin vill binda enda á varnarsamstarfið eða rifta varnarsamningnum. Báðar vilja þær finna leiðir til samstarfs við þær aðstæður, sem nú ríkja í heimsmálum.

Í hádeginu sat ég fund miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins, en í fyrsta sinn í sögu flokksins gerðist það á þessum fundi, að hann sátu fleiri konur en karlar.

Sveinn Helgason á Morgunvakt rásar 1 á hljóðvarpi ríkisins ræddi í morgun við Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóra Baugs. Ég ætla að halda hér til haga kafla samtalsins.

 

Lesa meira

Fimmtudagur, 02. 02. 06. - 2.2.2006 9:03

Fréttir bárust af fundum Geirs H. Haarde utanríkisráðherra í Washington með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra, og Nick Burns, aðstoðarutanríkisráðherra, auk þess sem hann fór í varnarmálaráðuneytið. Þess er að vænta, að nú sjái fyrir endann á viðræðum ríkjanna um varnarmál og vissulega tími til þess kominn. Eins og fram kom í fréttum sjónvarps í kvöld er Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, í íslensku sendinefndinni, sem gefur til kynna, eins og utanríkisráðherra sagði, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið og landhelgisgæslan séu tekin til við að velta fyrir sér verkefnum, ef um það yrði til dæmis samið, að Íslendingar tækju að sér aukna ábyrgð á leit og björgun, sem hvílt hefur á þyrlusveit varnarliðsins.

Birt var niðurstaða Gallup-könnunar í RÚV í dag, sem sýndi 55% (9 fulltrúar) fylgi við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Samfylking með 30% (5), vinstri/grænir 8,5% (1), framsókn 4% (0) og frjáslyndir 2% (0).

Þessi könnun er gerð á sama tíma og framsóknarmenn voru að berjast í prófkjöri með töluverðum auglýsingum og verulegri umræðu í fjölmiðlum. Þeir voru ánægðir með þátttökuna í prófkjörinu, en könnunin sýnir, að þeir eiga enn nokkuð eftir til að ná landi, ef þeir ætla að fá einn fulltrúa kjörinn. Frjálslyndir eru á sama róli og áður, þrátt fyrir að Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi þeirra, hafi lýst sig stórkostlegan sigurvegara yfir Norðlingaölduveitu.

Á landsvísu er Sjálfstæðisflokkurinn með 43% + 1 frá síðustu Gallup-könnun. Samfylking með 27%, vinstri/grænir 18%, báðir óbreyttir frá síðustu Gallup-könnun. Framsóknarflokkurinn er með 10% -1% en frjálslyndir með 2%, og ættu þeir að fara að búa sig undir að fella tjöld sín.

Í borgarráði í dag bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins svar sitt við minnisblaði innri endurskoðunar borgarinnar um kaup R-listans á Stjörnubíósreits, þar sem endurskoðunin leitast við að svara gagnrýni sjálfstæðismanna á skýrslu endurskoðunarinnar um þessi kaup. Benda sjálfstæðismenn á, að það sé sama hvernig reiknað sé, R-listinn hafi látið borgina kaupa reitinn af Jóni Ólafssyni í Skífunni á yfirverði - sé yfirverðið á bilinu 26 til 50 milljónir króna, eftir því hvernig reiknað er.

R-listamenn bókuðu m.a.: „...snýst gagnrýni sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrst og fremst um að þeir telja að keypt hafi verið af röngum aðila, kaupsýslumanni sem ekki er Sjálfstæðisflokknum þóknanlegur.“ Sjálfstæðismenn í borgarráði sögðu á móti, að meirihlutinn kysi „að beina sjónum sínum einungis að því hver átti umrædda lóð og hagnaðist þannig verulega í viðskiptum sínum við borgaryfirvöld sem í þessu máli, eins og mörgum öðrum, sýna algjört ábyrgðarleysi í fjármálum borgarinnar og ráðstöfun á skattfé Reykvíkinga. Það er aðalatriði þessa máls.“

Lesa meira

Miðvikudagur 01. 02. 06. - 1.2.2006 9:18

Svaraði tveimur spurningum á alþingi í dag frá Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Samfylkingu. Annars vegar um viðbrögð vegna væntanlegra olíuflutninga á sjó frá norðurslóðum og hins vegar um ráðstafanir til orkusparnaði í nýju varðskipi - en þær ráðstafanir eru gerðar í samráði við fyrirtækið Marorku.

Horfði á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, ræða við Árna Mathiesen fjármálaráðherra í Kastljósi um skattamál, álver og fleira. Samfylkingarforystan virðist eiga mjög erfitt að ræða nokkurt mál efnislega á opinberum vettvangi, þau Íngibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, slá um sig með einhverjum heimatilbúnum frösum, sem eiga líklega að setja viðmælandann út af laginu, nú var það hjá Ingibjörgu Sólrúnu að kynning fjármálaráðuneytisins á tölum til að skýra skattalækkanir væri eins og tilboð um sólarlandaferð! Endurtók hún þetta hvað eftir annað í samtalinu.

Glöggur lesandi síðu minnar sendi mér þetta eftir samtal þeirra Árna og Ingibjargar Sólrúnar:

„Að láta hana komast upp með þann moðreyk, að skattar hafi verið hækkaðir, er alger óþarfi. Hún hækkaði hins vegar skattaálögur á Reykvíkinga með hækkun útsvarsálagningarhlutfalls og fasteignagjöldin með lóðaskorti, sem leiddi til húsnæðisskorts og þar með hækkunar álagningargrunnsins. Hún er skaðræði skattborgarans. Hún barðist á móti lækkun tekjuskattsálagningar og afnámi eignarskatts. Að láta hana komast upp með það að ásaka Sjálfstæðisflokkinn um skattahækkanir vegna þess, að í hans stjórnartíð hefur orðið heimsmet í raunhækkun launa, nær engri átt.  

Samfylkingin stundar hugtakabrengl til að rugla fólk í ríminu.  Hún kallar athugun á þróun ráðstöfunartekna rannsókn á þróun skattbyrði.  Hvernig skattkerfið sem slíkt hefur þróazt, fæst aðeins með því að skoða fastar launaupphæðir á mismunandi tímabilum. Það má líka spyrja Samfylkinguna að því, hvort hún sé að biðja um flatan skatt með þessu tali um hækkandi skattbyrði  með hækkandi launum.  Hvers vegna er formaðurinn ekki afhjúpaður frammi fyrir alþjóð?“

 

Lesa meira