Mánudagur, 13. 02. 06.
Fjölmiðlaumræður um niðurstöður prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík eru dálitíð spunakenndar, svo að ekki sé meira sagt. Fjölmiðlafólk skautar framhjá atriðum, sem hefðu örugglega verið gerð að aðalatariði, ef aðrir ættu í hlut - eins og þeirri staðreynd, að konu á borgarstjórastóli var velt úr sessi.
Forystugrein Morgunblaðsins í tilefni af úrslitum prófkjörsins ber fyrirsögnina: Krafa um breytingar. Hún hefst á þessum orðum: „Kjósendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík eru augljóslega óánægðir með þá stefnu, sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur fylgt og vilja breytingar.“
Hvernig í ósköpunum er unnt að kenna það við ósk um breytingar í borgarstjórn að kjósa þau Dag B. Eggetsson, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Stefán Jón Hafstein og Björk Vilhelmsdóttur í fjögur efstu sæti á framboðslista til borgarstjórnar? Steinunn Valdís hefur verið borgarstjóri, Dagur formaður skipulagsráðs, Stefán Jón formaður menntaráðs og Björk formaður velferðarráðs. Þau hafa þannig gegnt lykilembættum innan borgarstjórnar. Það er rakalaus spuni að kenna setu þeirra í fjórum efstu sætunum á lista Samfylkingarinnar við breytingar á stefnu borgarstjórnarmeirihlutans.
Ef Morgunblaðið hefði sagt, að kjör þessa fólks á listann í þeirri röð, sem það lenti, væri krafa um breytingar innan Samfylkingarinnar, hefði verið unnt að taka undir þá skoðun. Hinn óháði Dagur, skjólstæðingur Ingibjargar Sólrúnar, ýtti samfylkingarfólkinu Steinunni Valdísi og Stefáni Jóni til hliðar og Björk færði Samfylkinguna nokkur skref til vinstri. Í þessu felst krafa um breytingu - en ekki hitt, að það muni breyta einhverju í borgarstjórn, að þetta fólk raðist á þennan hátt á lista Samfylkingarinnar.
Morgunblaðið segir svo í þessum leiðara sínum um breytingar: „Enn sem komið er er hann (Dagur B.) aðallega boðberi breytinga - en það liggur ekki ljóst fyrir nákvæmlega hvaða breytinga.“ Já, það er sannaarlega erfitt að ráða í breytingarnar.