Dagbók: maí 2001

Fimmtudagur 31.5.2001 - 31.5.2001 0:00

Flugum til Kaupmannahafnar og Rut hélt heim en ég fór til Helsinki vegna fundar menntamálaráðherra Norðurlandanna.

Miðvikudagur 30.5.2001 - 30.5.2001 0:00

Fylgdumst með leikunum í San Marínó og sóttum um kvöldið tónleika til heiðurs Verdi.

Þriðjudagur 29.5.2001 - 29.5.2001 0:00

Fyrir hádegi hittust íþróttamálaráðherrar smáþjóðanna og ræddu sameiginleg málefni. Síðdegis fylgdumst við með góðri framhöngu íslensku íþróttamannanna.

Mánudagur 28.5.2001 - 28.5.2001 0:00

Klukkan 11.00 var opnuð sýning á list frá þátttökuþjóðum smáþjóðaleikana í listasafni í San Marínó, en af Íslands hálfu hafði farandsýningin um Halldór Laxness verið sett upp í safninu. Klukkan 20.00 voru leikarnir settir við hátíðlega tveggja tíma athöfn í veðurblíðu og hita.

Sunnudagur 27.5.2001 - 27.5.2001 0:00

Klukkan 14.00 héldum við Rut frá Kaupmannahöfn til Bologna á Ítalíu og þaðan ókum við í rúman klukkutíma, þar til við komum til San Marínó vegna smáþjóðaleikana í íþróttum.

Þriðjudagur 25.5.2001 - 25.5.2001 0:00

Fyrir hádegi efndu íþróttamálaráðherra þátttökuríkja í smáþjóðaleikunum til fundar. Síðdegis fylgdumst við með framgöngu íslensku íþróttamannanna í hinum ýmsu greinum.

Fimmtudagur 24.5.2001 - 24.5.2001 0:00

Klukkan 13.00 hélt ég til Kaupmannahafnar og þaðan til ráðstefnumiðstöðvar skammt hjá Helsingör, þar sem ég var fram á sunnudaginn 27. maí og tók þátt í ráðstefnu um stjórnmál og öryggismál. Flutti ég ræðu um öryggismál Íslands.

Miðvikudagur 23.5.2001 - 23.5.2001 0:00

Klukkan 13.00 sat ég ársfund Háskóla íslands og tók þátt í umræðum á honum. Klukkan 17.00 flutti ég ávarp í 40 ára afmælishófi Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Þriðjudagur 22.5.2001 - 22.5.2001 0:00

Klukkan 20.00 setti ég 10. stuttmyndahátíðina í Háskólabíói.

Mánudagur 21.5.2001 - 21.5.2001 0:00

Sat fund menningarmálaráðherra fram yfir hádegi en hélt þá aftur heimleiðis og kom heim í gegnum Kaupmannahöfn rúmlega níu um kvöldið.

Sunnudagur 20.5.2001 - 20.5.2001 0:00

Hélt kl. 07.40 til Stokkhólms og þaðan til Falun í Svíþjóð, þar sem haldinn var fundur menningarmálaráðherra ESB, evrópska efnahagssvæðisins og umsækjenda um aðild að ESB um menningarmál og kröfur um aðlögun til umsóknarríkjanna. Um kvöldið fórum við í Dalhalla, sem er útióperusvið í gamalli námu og hlýddum á tónleika þar - það var þó of kalt í veðri til að njóta þess sem skyldi.

Laugardagur 19.5.2001 - 19.5.2001 0:00

Klukkan 11.00 hittumst við Ossur Skarphéðinsson til viðræðna í þættinum Í vikulokin á Rás 1 undir stjórn Þorfinns Ómarssonar. Alþingi lauk störfum klukkan tæplega aðfaranótt sunnudagsins 20. maí.

Miðvikudagur 16.5.2001 - 16.5.2001 0:00

Klukkan 14.00 tók ég þátt í fjarfundi við skóla í Róm en hér í Reykjavík stjórnaði Thor Vilhjálmsson rithöfundur honum og fór á kostum í ræðu sinni.

Þriðjudagur 15.5.2001 - 15.5.2001 0:00

Klukkan 16.00 var ég í Gunnarshúsi, höfuðstöðvum Rithöfundasambands Íslands, þegar skýrt var frá viðurkenningum ír Bókasafnssjóði höfunda.

Mánudagur 14.5.2001 - 14.5.2001 0:00

Klukkan 10 kom alþingi saman og var þá tekið fyrir frumvarp til að binda enda á verkfall sjómanna. Klukkan 13.40 flaug ég til Egilsstaða og hélt þangað til Seyðisfjarðar á ráðstefnunan Menningarlandið, þar sem meðal annars var gengið frá samkomulagi menntamálaráðuneytisins við 16 sveitarfélög á Austurlandi um samstarf í menningarmálum. Er þetta fyrsta samkomulagið um þessi mál, sem nær til svo margra sveitarfélaga. Kom heim aftur kl. 21.30 og fór síðan niður á þing þar sem rúmlega 22.00 var greitt atvkæði um að vísa frumvarpinu vegna verkfalls sjómanna til nefndar.

Laugardagur 12.5.2001 - 12.5.2001 0:00

Klukkan 13.00 fór ég á sýningu útskriftarnemenda í myndlist í Listaháskóla Íslands í húsnæði skólans í Laugarnesi. Klukkan 14.00 var ég í Norræna húsinu við afhendingu verðlauna á vegum IBBY til vegna barnabókmennta og ljóðagerðar ungs fólks. Klukkan 16.15 var ég á fundi með sjálfstæðismönnum í Kópavogi. Klukkan 17.00 var þingflokksfundur sjálfstæðismanna vegna laga til að binda enda á sex vikna sjómannaverkfall. Um kvöldið var Eurovision-keppnin þar sem íslenska lagið lenti í neðsta sæti með hinu norska.

Fimmtudagur 10.5.2001 - 10.5.2001 0:00

Setti klukkan 10.00 málþing á vegum menntamálaráðuneytis um samræmd próf í framhaldsskólum. Klukkan 13.30 var umræða utan dagskrár á alþingi um hugmyndir mínar um breytingu á Rannsóknarráði Íslands. Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og flutti ávarp þegar Heimili og skóli veitti viðurkenningu fyrir foreldrastarf í skólum. Klukkan 16.00 var ég í Landspítala Íslands - háskólasjúkrahúsi, þegar rektor HÍ og forstjóri sjúkarhússins rituðu undir samstarfssamning og flutti ávarp.

Sunnudagur 6.5.2001 - 6.5.2001 0:00

Tók þátt í Silfri Egils með Steingrími J. Sigfússyni og Bryndísi Hlöðversdóttur um alþjóðavæðingu.

Laugardagur 5.5.2001 - 5.5.2001 0:00

Klukkan 13.00 flutti ég ávarp í sal Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands við upphaf viku tungumálamenntunar fullorðinna. Klukkan 17.00 vorum við Rut á Keflavíkurflugvelli til að fagna 50 ára afmæli varnarsamningsins.

Föstudagur 4.5.2001 - 4.5.2001 0:00

Klukkan 14.00 hófst málþingi í Þjóðmenningarhúsinu á vegum utanríkisráðuneytisins í tilefni af 50 ára afmæli varnarsamningsins. Klukkan 20.30 tók ég þátt í fundi á vegum Kreml.is um alþjóðavæðingu.

Fimmtudagur 3.5.2001 - 3.5.2001 0:00

Klukkan 10.00 hófst fundur ráðuneytisins með forstöðumönnum menningarstofnana að Hótel Sögu. Klukkan 14.00 var ég í bóksafninu í Reykjanesbæ og ritaði þar undir samning við fulltrúa ísralelska fyrirtækisins Exlibris um landskerfi bókasafna. Klukkan 20.00 var ég í Stöð 2, þar sem tekinn var upp samtal okkar Ragnars Arnalds í þætti Árna Snævars Eldlínunni, sem sýndur var síðar um kvöldið, en þar ræddum við um 50 ára afmæli varnarsamningsins.

Þriðjudagur 1.5.2001 - 1.5.2001 0:00

Klukkan 14.30 fórum við í Ými, þar sem kynnt var fyrirhugað tónlistarstarf í húsinu á næsta vetri. Klukkan 16.00 opnaði ég víkingasýningu frá Jórvík í Byggðasafni Hafnarfjarðar.