Dagbók: desember 1999

Föstudagur 31.12.1999 - 31.12.1999 0:00

Klukkan 10.30 var ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem Finnur Ingólfsson sagði formlega af sér sem ráðherra og Valgerður Sverrisdóttir tók við starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Klukkan 14.00 vorum við Rut við hátíðlega athöfn í Bláfjallasal í húsakynnum RÚV við Efstaleiti, þar sem Sigurður Pálsson skáld og Ólafur Gunnarsson fengu verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Klukkan 15.00 var ég kominn í húsakynni sjónvarpsstöðvarinnar Skjáreinn og í áramótaþátt Egils Helgasonar með þeim Siv Friðleifsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Klukkan 19.00 fórum við Rut í Perluna, þar sem efnt var til fagnaðar í tilefni af því, að um áramótin varð Reykjavík ein af níu menningarborgum Evrópu. Var þetta skemmtileg og vel heppnuð kvöldstund, sem hófst með söng kórsins Radda Evrópu undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur en Björk söng tvö lög með kórnum, áður en hún hvarf af vettvangi. Síðar um kvöldið söng Kristján Jóhannsson þrjú lög með miklum glæsibrag, þannig að við áttum þess kost, sem þarna vorum að heyra á sama kvöldi þessa tvo heimsþekktu íslensku listamenn koma fram. Hefur það ekki gerst áður, þannig að einnig í þessu tilliti var stundin í Perlunni söguleg. Ég var meðal þeirra, sem fluttu ávarp í veislunni. Sumir voru aðeins milli 19.00 og 20.00, margir fóru um 11.30 en við vorum hópi þeirra, sem dvöldumst Perlunni fram yfir miðnætti. Í kvörtunardálkum blaða og spjallþáttum útvarpsstöðva voru menn að mikla fyrir sér, að til þessa kvöldfagnaðar væri efnt, þótti ýmsum greinilega í of mikið ráðist. Þegar fylgst er með því í sjónvarpi, hvernig aðrar þjóðir fögnuðu áramótunum, má segja, að við Íslendingar höfum næsta lítið gert af opinberri hálfu til hátíðarbrigða. Hér er að vísu almennara en annars staðar, að hver og einn sendir flugelda á loft á gamlárskvöld. Í öðrum löndum virðast það ferkar vera yfirvöld, sem standa beinlínis fyrir slíkum skrautsýningum. Að þessu sinni var líklega mest um dýrðir í London, þar sem hin nýja Þúsaldarhöll var tekin í notkun með glæsilegri sýningu. Perluhátíðin jafnaðist ekki á við það, sem gerðist í Þúsaldarhöllinni, hún var skemmtileg eingu að síður.

Fimmtudagur 30.12.1999 - 30.12.1999 0:00

Klukkan 13.30 vorum við fjármálaráðherra í Verslunarskóla Íslands og rituðum undir þjónustusamning við skólann. Klukkan 14.00 var ég í Ráðherrabústaðnum og ritaði undir árangursstjórnunarsamninga við forstöðumenn 11. menningarstofnana ríkisins. (Má segja innan sviga, að undarlegt sé í öllum umræðum fjölmiðla um viðskiptalífið, rekstur fyrirtækja og stjórnunarhætti skuli ekki vera meiri áhugi á þeim nýjungum, sem menntamálaráðuneytið hefur að ýmsu leyti haft frumkvæði að því að innleiða í opinberum rekstri með þessum samningum við stofnanir á verksviði sínu. Samið hefur verið með þessum hætti við alla framhaldsskóla, allar helstu menningarstofnanir og tvo stærstu háskólana. Þorvarður Elíasson, skólameistari Verslunarskóla Íslands, sagði í útvarpsviðtali, eftir að samningurinn um skólann var undirritaður, að með reiknreglum að baki samningum um framhaldsskólanna hefði verið búið í haginn fyrir einkavæðingu þeirra. Þetta eru fjölmennustu vinnustaðir landsins.)

Miðvikudagur 29.12.1999 - 29.12.1999 0:00

Klukkan 15.30 vorum við Rut í Norræna húsinu þar sem Hermanni Pálssyni prófessor var veitt verðlaun úr sjóði Ásu Wright. Klukkan 16.30 vorum við Sunnusal Hótel Sögu, þar sem Frjáls verslun tilnefndi Pál Sigurjónsson forstjóra Ístaks mann ársins í íslensku viðskiptalífi.

Þriðjudagur 29.12.1999 - 29.12.1999 0:00

Klukkan 14.00 fór ég í bæjarskrifstofur Garðabæjar við Garðatorg og ritaði undir samning með bæjarstjóra og formanni þjóðminjaráðs um að komið skuli á fót Hönnunarsafni. Verður það í Garðabæ, ef áform um það rætast. Klukkan 15.30 fórum við Rut í Norræna húsið, þar sem Ólafur Ólafsson landlæknir hlaut viðurkenningu úr sjóði Ásu Wright. Þaðan fórum við síðan beint í Ársal Hótel Sögu, þar sem Frjáls verslun veitti Herði Sigurgestssyni, forstjóra Eimskips, viðurkenningu sem maður íslensks viðskiptalífs á árinu 1998. Um kvöldið var ég síðan á Hótel Loftleiðum, þar sem sundkappinn ungi, Örn Arnarson var kjörinn íþróttamaður ársins.

Þriðjudagur 28.12.1999 - 28.12.1999 0:00

Klukkan 15.00 fórum við Geir H. Haarde fjármálaráðherra í Kennaraháskóla Íslands og rituðum undir þjónustusamning við skólann. Klukkan 20.00 fórum við Rut í Hállgrímskirkju og hlýddum á tónleika Mótettukórs kirkjunnar.

Mánudagur 27.12.1999 - 27.12.1999 0:00

Ríkisstjórnin kom saman fyrir hádegi og þar var tilkynnt, að Finnur Ingólfsson mundi sækja um stöðu seðlabankastjóra. Um kvöldið var Örn Arnarson tilnefndur íþróttamaður ársins við hátíðlega athöfn og í beinni sjónvarpsútsendingu frá Hótel Loftleiðum.

Sunnudagur 26.12.1999 - 26.12.1999 0:00

Fórum á frumsýningu á Gullna hliðinu í Þjóðleikhúsinu. Þótti mér það hin besta skemmtun.

Mánudagur 20.12.1999 - 20.12.1999 0:00

Einn af aðstoðarmenningarráðherrum Kína kom hingað í heimsókn að eigin frumkvæði, en hann var á ferðalagi til Bretlands, Íslands, Noregs og Rússlands. Hitti ég hann á fundi klukkan 11.00 þennan dag en hann fór meðal annars til Akureyrar. Dvaldist hann hér frá laugardegi 18. desember til miðvikudags 22. desember.

Sunnudagur 19.12.1999 - 19.12.1999 0:00

Klukkan 17.00 voru hefbundnir jólatóntleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju. Þar sem þetta er síðasti pistillinn fyrir jól, óska ég öllum lesendum hans gleðilegra jóla.

Laugardagur 18.12.1999 - 18.12.1999 0:00

Klukkan 15.00 efndi Líffræðistofnun Háskóla Íslands til fagnaðar í Tæknigarði í tilefni af 25 ára afmæli sínu.

Mánudagur 13.12.1999 - 13.12.1999 0:00

Síðdegis var efnt til útgáfuhátíðar í Norræna húsinu vegna útgáfu á kynningarriti um húsið og Alvar Aalto. Um kvöldið gátum við loks komist til að sjá myndina Ungfrúin góða og húsið og sáum, að hún verðskuldaði mikla viðurkenningu.

Sunnudagur 12.12.1999 - 12.12.1999 0:00

Klukkan 15.00 fórum við Rut á hátíðlega og fjölmenna athöfn í Þjóðarbókhlöðunni til að minnast 100 ára afmælis Einars Ólafs Sveinssonar prófessors.

Fimmtudagur 9.12.1999 - 9.12.1999 0:00

Klukkan 14.00 komum við saman í Ráðherrabústaðnum Davíð Oddsson forsætisráðherra, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og ég ásamt Gísla Gunnarssyni, forystumanni í Sveitarfélaginu Skagafirði, og rituðum undir samning um Hestamiðstöð Íslands. Þarna voru einnig forystumenn hestamanna og þingmenn úr Norðurlandskjördæmi vestra ásamt fjölda blaðamanna. Klukkan 17.30 fórum við í Gerðarsafn í Kópavogi, þar sem sýningin Lífshlaup var opnuð með miklum glæsibrag en á henni er að finna málverk úr safni nágranna minna hér í Háuhlíðinni, þeirra Ingibjargar og Þovaldar heitins í Síld og fisk. Tek ég undir með Braga Ásgeirssyni, sem segir í Morgunblaðinu í dag eitthvað á þá leið að margir eigi eftir að verða hrifnir og undrandi yfir þeim glæsilegu verkum, sem þarna er að sjá.

Þriðjudagur 7.12.1999 - 7.12.1999 0:00

Klukkan 14.00 tók ég þátt í því með nokkrum ungum mönnum að opna Miðbæjarútvarpið, sem sendir út á 104,5 og hefur aðsetur að Laugavegi 66. Þar stóðu áður hús, þar sem ömmusystur mínar bjuggu og voru meðal annars með umboð fyrir Happdrætti Háskóla Íslands. Kom ég oft til þeirra sem barn og lék mér í garði við bakhús á lóðinni.

Sunnudagur 5.12.1999 - 5.12.1999 0:00

Fór á jólatónleika Fílharmóníukórsins í Langholtskirkju, þar sem Rut var konsertmeistari. Sá af tónlistargagnrýni Morgunblaðsins næsta þriðjudag, að þennan dag gátu tónlistarunnendur á höfuðbirgarsvæðinu valið á milli að minnsta kosti þriggja tónleika, sem allir hlutu mjög góða dóma.

Laugardagur 4.12.1999 - 4.12.1999 0:00

Fórum austur fyrir fjall í góðra vina hópi og mjög fallegu veðri.

Föstudagur 3.12.1999 - 3.12.1999 0:00

Klukkan 11.30 fór ég í heimsókn í Skýrr hf. í tilefni af því, að fyrirtækið hefur keypt Íslenska menntanetið og leggur á ráðin um góða þjónustu við skólakerfið. Klukkan 13.15 hófst jólaráðstefna Skýrslutæknifélags Íslands og flutti ég þar setningarræðu. Lýsti ég þar þeirri skoðun, að nú færi bylgja mikilla breytinga um heim upplýsingatækninnar hér á landi og annars staðar. Klukkan 15.00 var athöfn í Þingholti, þar sem Þroskahjálp heiðraði einstaklinga og stofnanir með múrbrjótnum, það er fyrir að rjúfa einangrun fatlaðra og þroskaheftra.

Föstudagur 3.12.1999 - 3.12.1999 0:00

Fór á frumsýningu á Bláa herberginu í Borgarleikhúsinu.

Fimmtudagur 2.12.1999 - 2.12.1999 0:00

Klukkan 10.00 hófst málþing á vegum menntamálaráðuneytisins um skólareglur og aga og þar flutti ég ræðu.

Miðvikudagur 1.12.1999 - 1.12.1999 0:00

Klukkan 13.00 var haldið upp á fimm ára afmæli Þjóðarbókhlöðunnar og kom það meðal annars í minn hlut að flytja þar ávarp. Klukkan 14.30 var ég viðstaddur þegar Íslandsbanki og Íslandssími kynntu í Gerðarsafni í Kópavogi samstarf sitt um ókeypis netaðgang. Klukkan 16.00 var skemmtileg athöfn í Fjölskyldugarðinu í Reykjavík, þar sem kynnt var dagskrá menningarársins og var ég meðal ræðumanna.