Dagbók: september 2012

Sunnudagur 30. 09. 12 - 30.9.2012 21:40

Í dag lauk qi gong námskeiðinu hjá dr. Yang, það stóð að nýju í sex tíma í dag eins og í gær. Þriggja daga törn með 15 tíma fræðslu um qi gong er dágóður skammtur en við sem tókum þátt eru margs vísari, ekki aðeins um qi gong heldur margt sem snertir kínverska menningu og áhrif hennar.

Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif koma dr. Yangs mun hafa innan hóps okkar sem stundum qi gong undir merkjum Aflsins, félags qi gong iðkenda. Við höfum reist æfingakerfi okkar á grunni frá Gunnari Eyjólfssyni leikara. Líklegt er að áhrifa frá dr. Yang muni gæta í útfærslu á þeim grunni. Innan qi gong skipta æfingarnar þúsundum. Meginatriði er að tryggja orkuflæði og jafnvægi í líkamanum þar sem litið er til fimm höfuðlíffæra: Nýrna, lifrar, milta, hjarta og lungna.

Laugardagur 29. 09. 12 - 29.9.2012 19:15

Í dag var ég í sex klukkustundir á qi gong námkeiði hjá Dr. Yang hér í Reykjavík.

Dr. Yang Jwing-Ming er fæddur á Tævan árið 1946. Fimmtán ára að aldri tók hann að æfa Kung Fu bardagalist og stundaði hana í 13 ár (1961 til 1974) undir leiðsögn meistara Cheng. Hann varð sérfróður í þeirri tegund bardagalistarinnar sem kennd er við hvíta trönu, það er fuglinn trönu. Bæði er barist með berum höndum og með alls konar vopnum. Hann lærði einnig qi gong undir leiðsögn sama meistara.

Þegar hann var 16 ára tók hann að læra Tajiquan undir leiðsögn meistarans Kao Tao, og síðan með öðrum meisturum.

Hann stundaði nám í eðlisfræði í háskóla frá 18 ára aldri og lagði einnig stund á Shaolin-bardagalistina og varð að lokum aðstoðarkennari meistara síns Lí. Hann útskrifaðist með meistaragráðu í eðlisfræði frá háskóla á Tævan 1971 og hóf að kenna eðlisfræði í flughernum á Tævan á meðan hann gegndi þar herþjónustu.

Dr. Yang fluttist til Bandaríkjanna árið 1974 og hóf nám í vélaverkfræði við Purdue-háskóla og þar hóf hann jafnframt að kenna Kung Fu. Hann lauk doktorsprófi í vélaverkfræði frá Purdue-háskóla árið 1978.

Árið 1980 hóf hann störf hjá Texas Instruments í Houston í Bandaríkjunum. Þar stofnaði hann Shaolin Kung Fu skóla Yangs en fluttist síðan til Boston árið 1982 og stofnaði þar Yang‘s Martial Arts Academy (YMAA) 1. október 1982 eða fyrir réttum 30 árum. Frá 1984 hefur hann helgað sig bardagalistinni og síðan qi gong.

Hann hefur nú flust frá Boston til Kaliforníu þar sem hann hefur komið á fót miðstöð til að kenna Kung Fu sem hann segir að taki mörg ár að læra og allt lífið að fullkomna. Hann býður nú 10 ára nám í miðstöð sinni í fjöllum Kaliforníu sem tók til starfa árið 2008.

Dr. Yang hefur ritað fjölda bóka og gefið út mikið magn mynddiska. Hann hefur lagt sig fram um að kynna Vesturlandabúum gömul kínversk rit um bardagalistir og qi gong.

Föstudagur 28. 09. 12 - 28.9.2012 22:25

Í dag hófst hér í Reykjavík þriggja daga námskeið í qi gong með dr. Yang, fæddum í Tævan 1946, búsettum í Bandaríkjunum frá 1974. Hann stofnaði eigin miðstöð kínverskra bardagalista í Boston 1982 en heldur nú úti námskeiðum í fjöllum Kaliforníu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynnti í dag að hún gefi ekki kost á sér í komandi þingkosningum. Það eru veruleg pólitísk tíðindi. Hún hefur notið mikils trúnaðar innan Sjálfstæðisflokksins og vinsælda sem ná út fyrir hin hefðbundnu flokksbönd. Þá lagði hún sig fram um að túlka sjónarmið þeirra sem vilja leiða ESB-aðildarviðræðurnar til lykta. Skarð hennar verður vandfyllt.

Þegar Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að hún yrði ekki í framboði að nýju tók fréttastofa ríkisútvarpsins mikla syrpu um að konur ættu undir högg að sækja í Sjálfstæðisflokknum. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnir brottför sína úr pólitíkinni verður ekkert sambærilegt uppnám í Efstaleiti vegna hlutar kvenna í Samfylkingunni. Hvað veldur? Neikvæða frétta-talið um Sjálfstæðisflokkinn mátti öðrum þræði rekja til viðleitni fréttastofu ríkisins til að draga úr gagnrýni á ráðherra vegna brota þeirra á jafnréttislöggjöfinni.

Ég skrifaði um nýjustu árásir Björns Vals Gíslasonar, formanns fjárlaganefndar, á ríkisendurskoðanda og ríkisendurskoðun á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Þetta upphlaup þingmannsins er með miklum ólíkindum. Meira hlýtur að búa að baki en deila um birtingu á skýrslu sem breytir í raun engu til eða frá og á rætur að rekja til ársins 2004 og reiðikastanna sem Jóhanna Sigurðardóttir tók þegar hún sat í stjórnarandstöðu. Árið 2004 gat hún ekki á heilli sér tekið vegna fjölmiðlamálsins. Hefði hugur fylgt máli hefði Jóhanna átt að beita sér fyrir frágangi þessarar skýrslu eftir að hún varð ráðherra 2007, þremur árum eftir að beiðni um skýrsluna var send ríkisendurskoðun. Hún gerði það ekki og ekki heldur eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009.

Margt bendir til að um samantekin ráð hafi verið hjá Birni Vali og Kastljósi að bregða upp svartri mynd af skýrslunni, ekki til þess í raun að fjalla um efni hennar heldur að koma höggi á ríkisendurskoðanda. Vinnubrögðin bera keim af einræðistilburðum í anda Steingríms J. Sigfússonar.

Fimmtudagur 27. 09. 12 - 27.9.2012 20:45

Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti í dag að hún ætlaði að hætta sem forsætisráðherra og mundi ekki bjóða sig fram oftar. Í fréttatíma ríkisútvarpsins ræddi Jóhanna Vigdís við forsætisráðherra, þær nöfnur gátu ekki setið á sér heldur þótti nauðsynlegt að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn. Var til marks um einstakt pólitískt smekkleysi Jóhönnu að hún skyldi ekki halda aftur af sér, að vísu sat fréttamaðurinn ekki heldur á sér. Hvaða tilgangi þjónaði að blanda Sjálfstæðisflokknum í þetta kveðjusamtal við Jóhönnu?

Svarið við spurningunni er einfalt: Það er fastur liður hjá fréttastofu ríkisins að sparka til Sjálfstæðisflokksins hvenær sem tækifæri gefst sama hvert tilefnið er eins og þarna birtist.

Það er mikill munur á illmælgi Jóhönnu og því sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við samfylkingarvefsíðuna Eyjuna í dag. Þar má meðal annars lesa þetta:

„Þótt ég hafi ekki verið fylgjandi Jóhönnu í skoðunum eða stutt hennar áherslur, þá hefur hún verið heil í þeim samskiptum sínum við aðra flokka á þinginu. Hennar stærstu mistök á þessu kjörtímabili var að setja of mörg átakamál á dagskrá sem leiddi til þess að mál sem hefðu átt að vera í forgangi og urðu undir. Mér finnst eins og hún hafi of oft valið átök í stað sáttar.“

Ég er þeirrar skoðunar að andrúmsloftið í íslenskum stjórnmálum muni breytast til batnaðar við að Jóhanna Sigurðardóttir snýr sér að öðru en pólitíkinni. Megi henni vegna sem best!

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna þar sem Jóhanna kemur við sögu eins og hér má lesa.

Miðvikudagur 26. 09. 12 - 26.9.2012 22:50

Í morgun ræddi ég þróunina á norðurslóðum og áhrifin á Ísland á fundi með þingmönnum í nefnd á vegum NATO-þingsins. Nefndarmenn kynna sér norðurslóðir í því skyni að semja skýrslu um efnahagslegar breytingar.

Gestur minn í ÍNN í dag er Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri Þjóðmála. Tímaritið hefur nú komið út í rúm 8 ár, fjórum sinnum á ári. Nýjasta heftið 3. hefti 2012 kom út í dag. Þar er meðal annars að finna greinar um stöðu Sjálfstæðisflokksins, Gnarrinn, NATO og frjálshyggjuna.

Þegar menn lesa gagnrýni á frjálshyggjuna í bókum eins og þeim sem fjallað er um í Þjóðmálum að þessu sinni eftir Einar Már Jónsson annars vegar og Stefán Snævarr hins vegar sést vel hve þessi gagnrýni ristir í raun grunnt. Hún er í raun um einskonar neyðaróp vegna þess þjóðfélagsskipulags sem hefur náð undirtökunum, ekki aðeins hér á landi heldur meðal allra þjóða sem nokkurs mega sín.

Þriðjudagur 25. 09. 12. - 25.9.2012 22:20

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði frá því í Kastljósi kvöldsins að Björn Valur Gíslason (VG), formaður fjárlaganefndar alþingis og nánasti samstarfsmaður Steingríms J. Sigfússonar, hefði setið með skýrsludrög ríkisendurskoðunar um umdeilt tölvukerfi ríkisins frá Skýrr á fundi fjárlaganefndar þingsins í dag þar sem saumað var að Sveini Arasyni ríkisendurskoðanda vegna skýrslunnar. Sveinn hafði hins vegar sagt að ríkisendurskoðun hefði aðeins afhent Gunnar Hall, fjársýslustjóra ríkisins, skýrsluna á óformlegan hátt. Þá ætlaði stofnunin að leita til lögreglu til að upplýsa leka á skýrslunni til Kastljóss.

Hvenær fékk Björn Valur skýrsluna í hendur?

Í þessu máli er eitt að upplýsa þingmenn um skýrsluna sem greinilega hefur verið gert með því að afhenda Birni Vali eintak af henni, annað er að bregðast við ábendingum í skýrslunni og athugasemdum um það sem betur má fara. Hafi niðurstaða um það legið fyrir í nóvember 2009 er spurning hvers vegna fjármálaráðuneytið fékk ekki vitneskju um málið til að bregðast við því sem ríkisendurskoðun varð áskynja.

Miðað við framgöngu Björns Vals Gíslasonar í fjölda mála sem hátt ber í stjórnmálunum er full ástæða til að taka öllu sem hann segir um ríkisendurskoðun og skýrslu hennar með fyrirvara. Hann hefur meiri vitneskju í þessu máli en hann vill vera láta í viðræðum við fréttastofu ríkisins og notar vitneskju sína til að beina umræðum í þann farveg sem hann telur sér og flokki sínum hagkvæmastan. Hvers vegna skyldu fréttamenn ekki velta fyrir sér hvernig Steingrímur J. Sigfússon stóð að þessum málum sem fjármálaráðherra?

Mánudagur 24. 09. 12 - 24.9.2012 22:20

Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland, flutti fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í hádeginu í dag. Hún gerði grein fyrir efnisöflun sinni og sagði álit á starfsaðferðum Stasi, austur-þýsku öryggislögreglunnar. Það koma fram hjá henni að Stasi-böndin hafi ekki rofnað meðal þeirra sem gengu þjónustunni á hönd þótt þeir sinni öðrum störfum núna en að njósna um vinnufélaga eða eigin fjölskyldu.

Stasiland er mögnuð bók og þar sem lýst er hinu ógnvekjandi ástandi sem ríkti í A-Þýskalandi undir stjórn kommúnista. Það er merkilegt að jafnaðarmenn á borð Stefán Ólafsson prófessor hafa hvorki þrek né þolinmæði til að hlusta á þá segja skoðanir sínar sem lýsa stjórnarháttum sósíalista og kommúnista.

Fréttastofa ríkisútvarpsins segir „ekki gott að átta sig á“ stöðu atvinnuleysisins hér á landi þótti hagstofan og forseti ASÍ segi að það aukist en minnki ekki. Hvers vegna á fréttastofan erfitt með að fóta sig? Af því að Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, neitar að viðurkenna staðreyndir í þessu máli eins og öðrum sem sýna og sanna hve honum eru mislagðar hendur.

Ráðherrar og spunaliðar þeirra hafa dregið upp falska mynd af stöðunni í atvinnumálum undanfarna mánuði. Þeir hafa komist upp með þetta af því að fréttastofa ríkisins leikur undir með þeim. Þegar hagstofan og forseti ASÍ sem ekki hefur verið andvígur Samfylkingunni, stóra stjórnarflokknum, segja ríkisstjórn og spunaliðana hafa rangt fyrir sér á fréttastofa ríkisins erfitt með að „átta sig“. Harðari verður gagnrýnin á stjórnarherrana ekki þar á bæ!

Farið var að landslögum og alþjóðasamningi við brottvísun íraks hælisleitanda héðan til Noregs. Fréttastofa ríkisins tekur afstöðu með þeim sem telja að manninum hafi verið vísað í dauðann með endursendingu til Noregs. Fréttastofan á ekki erfitt með að „átta sig“ þegar málefni hælisleitenda er á döfinni.

Sunnudagur 23. 09. 12 - 23.9.2012 23:55

Í dag voru réttir Fljótshlíðinni í mildu veðri.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir á vefsíðu sinni 23. september:

„En hvers vegna skyldu róttækir frjálshyggjumenn, eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?

Þetta segir Stefán vegna þess að RNH-stofnunin efndi laugardaginn 22. september til ráðstefnu þar franski sagnfræðiprófessorinn Stéphane Courtois, sem var ritstjóri og einn af höfundum Svartbókar kommúnismans, en hún kom út hjá Háskólaútgáfunni 2009 var meðal ræðumanna og auk þess Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland, sem kom út í ár á íslensku hjá Uglu og hefur hlotið góða dóma. Þór Whitehead prófessor flutti samantekt um niðurstöður ráðstefnunnar í lok hennar. Hannes Hólmsteinn og Þór eru í forustu fyrir RNH.

Að prófessorar í stjórnmálafræði og sagnfræði standi að ráðstefnu með erlendum fræðimönnum og höfundum um kommúnismann og áhrif hans ætti ekki að þykja undrunarefni. Þessi stjórnmálahugsjón hafði verulega mikið að segja hér á landi og þeir sem henni héldu á loft höfðu festst í alþjóðlegu neti sem enn er verið að kortleggja. Þetta net tengdi anga sína hingað og er þess vegna hluti íslenskrar sögu,

Helst mætti ætla að öfund byggi að baki skrifum Stefáns Ólafssonar um framtak starfsbræðra sinna við Háskóla Íslands, hann sjái ofsjónum yfir að þeir nái slíkum höfundum hingað til lands á málþing. Varla verður því trúað að Stefán sé andvígur umræðum um hlut kommúnismans í stjórnmála- og mannkynssögunni? Maður með slíkt viðhorf á heima annars staðar en í háskóla.

 

Laugardagur 22. 09. 12 - 22.9.2012 22:41

Í dag var smalað á svæðinu fyrir norðan Þríhyrning. Ég lét mér nægja að ganga að honum að sunnan.Veðrið var milt og gott, ekki eins mikil rigning og vænta mátti miðað við spá.

Sunnudagsblað Morgunblaðsins er í nýjum búningi í dag. Breytingunni er ætlað að létta yfirbragð blaðsins, mér sýnist léttleikinn meiri en höfðar til mín. Ég hallast að því að blöð eigi að verða efnismeiri og dýpri til að skapa sér sérstöðu og áhuga í keppni við netið og miðlana þar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlar að bjóða sig fram í hinu gamla, trausta vígi flokks síns, á Norðausturlandi, í næstu þingkosningum. Það er skynsamlegt hjá honum. Hann keppir þar um fylgi við Steingrím J. Sigfússon, formann VG. Sögusagnir eru að vísu um að Steingrímur J. ætli að flytjast til Reykjavíkur – líklega til að sækja fylgi til ESB-elítunnar í eigin flokki.

Jóhanna Sigurðardóttir málar Samfylkinguna út í ESB-horn í samtali við Fréttablaðið í dag. Hún segir flokkinn ekki geta starfað með öðrum eftir kosningar en þeim sem vilji halda áfram ESB-viðræðunum. Þessi yfirlýsing Jóhönnu sýnir skammsýni hennar sem stjórnmálamanns en stafar þó ekki af henni heldur frekjunni og sundurlyndisfjandanum sem einkennir málflutning hennar. Hvenær skyldi þingmönnum Samfylkingarinnar verða nóg boðið? Skyldi enginn koma fram til prófkjörs í Samfylkingunni með þann boðskap að tími Jóhönnu sé liðinn?

Föstudagur 21. 09. 12 - 21.9.2012 22:05

Varðberg og  Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt (RNH) efndu í dag til hádegisfundar í Háskóla Íslands. Norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen ræddi um alræðishugarfar fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks. Frásögn og greining prófessorsins var næsta yfirþyrmandi enda óhugnanlegt að kynnast hugarfarinu að baki fjöldamorðunum sem Breivik drýgði 22. júlí 2011.

Prófessorinn sagði að erfitt væri að setja Breivik í einhvern þekktan flokk öfgamanna, mætti kalla hann ný-fasista en í raun væri helst að finna stjórnkerfi eins og hann vildi skapa með því að líta til Írans og íslam-ríkisins sem þar hefði verið stofnað af Kohmeini á níunda áratugnum.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnlagaráðsmaður segir í bloggi á dv.is í tilefni af orðum mínum hér á síðunni í gær að ég eigi að lesa útleggingar seinni tíma manna á því sem sagt var um endurskoðun stjórnarskrárinnar á fimmta áratugnum sjálfur hafi hann til dæmis vitnað í Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing og sagt svo að dæmi sér tekið: „Í stjórnarsáttmála nýsköpunarstjórnarinnar, sem tók við völdum haustið 1944, var róttækum breytingum á stjórnarskrá til að mynda lofað „eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar““

Á því er mikill munur að lofa „róttækum breytingum“ á stjórnarskrá eða kasta henni fyrir róða eins og Eiríkur Bergmann og félagar hans í stjórnlagaráði hafa gert. Getur Eiríkur Bergmann bent á einhvern fyrri tíðar mann sem lagði til á fimmta eða sjötta áratugnum að lýðveldisstjórnarskránni yrði kastað fyrir róða?

Ég veit að menn hafa rætt breytingar á stjórnarskránni og samið tillögur um þær. Hins vegar er það ekki fyrr en nú sem látið er eins og kasta eigi lýðveldisstjórnarskránni þótt um 95% þjóðarinnar hafi samþykkt hana á sínum tíma.

Þetta virðingarleysi er jafn ólíklegt til að leiða til breytinga á stjórnarskránni eins og hitt að halda Sjálfstæðisflokknum frá endurskoðunarstarfinu en krefjast þess jafnframt af honum að hann samþykki það sem öðrum dettur í hug og ræði málið ekki á alþingi. Skoðanakúgun af þessu tagi á aldrei rétt á sér og síst af öllu þegar endurskoðun stjórnarskrár er til umræðu.

Fimmtudagur 20. 09. 12 - 20.9.2012 22:40

Til marks um vonlausa baráttu stjórnarflokkanna er að nú státa þeir sig af því að í dag hafi verið rædd á alþingi (141. löggjafarþingi) tillaga til þingsályktunar um um að skipa þriggja manna nefnd er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003 um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Tillaga þessi var áður lögð fram á 140. löggjafarþingi. Tillagan er að hluta byggð á þingsályktunartillögu sem Þórunn Sveinbjarnardóttir og þrettán aðrir þingmenn Samfylkingarinnar fluttu á 139. löggjafarþingi.

Sé þetta mál brýnt má spyrja: Hvers vegna hefur það ekki verið samþykkt? Tillagan hefur verið flutt á þremur þingum án þess að hljóta samþykki. Hvað veldur? Tillagan  er einfaldlega flutt til að halda lífi í hatursáróðri í garð stjórnarandstöðuflokkanna og þó sérstaklega Halldórs Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, og Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Von Samfylkingarinnar og vinstri-grænna er að bæta áróðursstöðu sína með tillögunni. Þingmennirnir vita að efni tillögunnar stangast á við heilbrigða skynsemi þar sem ríkisendurskoðun hefur þegar kannað umrætt álitaefni og gefið út skýrslu um það.

Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í ESB-málum við Háskólann á Bifröst og fulltrúi í stjórnlagaráði, sagði í ríkisrútvarpinu í dag að Íslendingum hefði verið heitið því við lýðveldisstofnun að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar færi fram. Hver lofaði þessu? Hvernig væri að stjórnlagaráðsliðinn skýrði það? Eiríkur Bergmann hermir loforð upp á látna menn án þess að færa nokkur haldbær rök fyrir fullyrðingum sínum. Hver hét því að skipt yrði um stjórnarskrá á Íslandi með heildarendurskoðun stjórnarskrár sem 95% þjóðarinnar samþykkti í atkvæðagreiðslu 1944?

Sé annar málflutningur stjórnlagaráðsmanna reistur á svipaðri rangfærslu og þeirri sem Eiríkur Bergmann kynnir í þessum orðum er full ástæða til að hvetja fólk til að fella tillögu stjórnlagaráðs. Stjórnlagaráðsliðar veðja greinilega á að enginn rýni í orð þeirra. Þeir skipa í raun ekki annan sess en hver önnur nefnd á vegum alþingis eða ríkisstjórnarinnar. Að fordæmi fjölmargra slíkra nefnda ættu þeir sem sátu í þessari að halda sér á mottunni og leyfa öðrum að dæma um álitið. Hinn annarlegi tilgangur stjórnlagaráðsliða birtist ekki aðeins í orðum Eiríks Bergmanns heldur einnig á opinberum fundum í Iðnó. Þar boðar þetta fólk meðal annars að því hafi tekist að finna orðalag gegn spillingu sem útiloki hana um aldur og ævi. Hvers vegna slær það ekki í gegn í Nígeríu? Eða Rússlandi?

 

Miðvikudagur 19. 09. 12 - 19.9.2012 22:50

Einhver ætti að taka sig til og taka saman höfuðatriði í öllum ræðunum sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti um ábyrgð ráðherra þegar hún var utan ríkisstjórnar. Málflutningur hennar þá er í hróplegri andstöðu við ábyrgðarleysi hennar sem forsætisráðherra. Hún virðist ekki átta sig á ábyrgð forsætisráðherra á ráðherrum í ríkisstjórninni. Henni er sama hvaða axarsköft eru unnin við embættisfærslu, ráðherrar sitja og sitja.  Að vísu lét hún Jón Bjarnason og Árna Pál Árnason taka pokana sína. Þeir sýndu ekki nægilega pólitíska undirgefni.

Sigurður Sigurðsson, afkastamikill bloggari, segir um Guðbjart Hannesson velferðarráðherra að í launamálum forstjóra Landspítala hafi hann gerst sekur um pólitísk afglöp sem ættu að leiða til afsagnar.

Undir þetta skal tekið. Guðbjartur varð strax á fyrsta sólarhring umræðna um þetta vandræðamál margsaga. Hann stóð svo klaufalega að málinu að hann gróf undan trausti starfsmanna Landspítalans í garð Björns Zoëga. Forstjórans bíður nú hið erfiða verkefni að lækna þetta mikla sár. Líklegt er að það verði ekki auðvelt í umboði þessa ráðlausa ráðherra.

Fyrsta frétt í ríkisútvarpinu í morgun var að í skjóli nætur hefði verið ákveðið að hætta við brottvísun hælisleitanda frá Nígeríu. Mál hans hafði hlotið fullnaðarafgreiðslu í útlendingastofnun og innanríkisráðuneyti. Á ábyrgð Ögmundar Jónassonar hafði ráðuneytið úrskurðað að vísa ætti manninum úr landi til Svíþjóðar. Að venju í slíkum málum handtók lögregla manninn og bjó hann undir brottför næsta dag, að morgni þriðjudags 18. september.  

Að sögn ríkisfréttastofunnar rauf Ögmundur hið lögbundna ferli að næturlagi til að hælisleitandinn gæti látið reyna á afgreiðslu ráðuneytis Ögmundar fyrir dómstólum. Var sagt að þetta væri gert af því að maðurinn hefði ekki vitað um rétt sinn til að skjóta ákvörðuninni sem tekin var á pólitíska ábyrgð Ögmundar til dómstólanna. Einnig var gefið til kynna að af þessari ástæðu hefði maðurinn fengið nýjan lögfræðing. Katrínu Oddsdóttur. Hún vakti þjóðarathygli með öfgafullum málflutningi á útifundum á Austurvelli 2008-2009 og hefur auk þess setið í stjórnlagaráði.

Allur er þessi málatilbúnaður með nokkrum ólíkindum. Ríkisfréttastofan sagði að Ögmundur Jónasson hefði ákveðið „að grípa inn í málið og stöðva brottvísun mannsins svo tryggt yrði að hann nyti réttlátrar  málsmeðferðar“. Málsmeðferðin til þessa hefur verið á ábyrgð Ögmundar – efast hann um að embættismenn útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytis hafi farið að lögum? Embættismönnum sem búa við slíkt vantraust yfirmanns síns eru ekki auðvelduð störfin.

 

Þriðjudagur 18. 09. 12 - 18.9.2012 21:25

Einn eftirminnilegasti erlendi stjórnmálamaður sem ég hef hitt er Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sem fagnar sjötugs afmæli í dag. Hann var innanríkisráðherra þegar ég hitti hann í skrifstofu hans í Berlín 26. ágúst 2008 og hann bauð mér síðan í hádegisverð á Hilton-hótelinu við Gendarmemarkt eins og sjá má hér.

Á fundi okkar var enn staðfest í mínum huga að skynsamlegast væri fyrir okkur Íslendinga að nálgast ríkisstjórnir ESB-ríkjanna sem EES- og Schengenríki og leita eftir tvíhliða úrlausn á málum sem okkur væru brýn í stað þess að sækja um aðild að ESB. Ég tel til dæmis að óska eigi eftir viðræðum við ESB um tvíhliða gjaldmiðlasamstarf í stað þess að fara löngu leiðina inn í evru-samstarfið sem ESB-ríki, vilji menn á annað borð tengjast evrunni á einhvern hátt. Hvers vegna skyldi EES-ríki ekki vera gjaldgengt í ERM II eins og það getur átt aðild að Prümsamningnum sem við Schäuble ræddum í ágúst 2008?

Í greinum þýskra blaða um Schäuble í dag er rætt um hann sem fremsta og reynslumesta stjórnmálamann Þýskalands um þessar mundir en honum hafi hvorki tekist að verða kanslari né forseti Þýskalands eins og hann hafi viljað. Skýringin sé að hann hafi verið of nátengdur Helmut Kohl Þýskalandskanslara í blíðu og stríðu, hann hafi risið og fallið með Kohl. Þeir hafa nú ekkert samband og Kohl afþakkaði án skýringa boð í 70 ára opinbera afmælisveislu Schäubles sem flokkur þeirra CDU heldur honum.

Árið 1990 varð Schäuble fyrir skotárás geðtruflaðs manns á kosningafundi. Lífi hans var bjargað en síðan hefur hann verið í hjólastól. Angela Merkel vildi ekki að hann yrði forseti Þýskalands árið 2004 en það er talið til marks um hina miklu sjálfstjórn hans að hann skuli sitja í ríkisstjórn hennar og leiða evru-ríkin sem fjármálaráðherra.

Mesta afrek hans á stjórnmálasviðinu er að hafa gert samninginn um sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands og að hafa leitt hina sundruðu þjóð saman á þann friðsamlega hátt sem gert var.

Í Der Spiegel segir að Schäuble geti verið einstaklega hrífandi og vingjarnlegur sýni hann þá hlið á sér, þannig kom hann mér fyrir sjónir í eftirminnilegu samtali okkar.   Hins vegar er sagt að hann fari svo sparlega með tilfinningar sínar að enginn viti í raun hvað honum finnist um menn og málefni,  kannski þess vegna höfði hann enn svo sterkt til margra þótt hann hafi setið á þingi í um 40 ár.

 

Mánudagur 17. 09. 12 - 17.9.2012 22:20

Seðlabanki Íslands gaf út 600 bls. skýrslu í dag þar sem fram kemur að verði krónan ekki notuð áfram sé evran besti kosturinn sem mynt fyrir Íslendinga. Í janúar 2012 kynnti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að þessi skýrsla væri á næsta leiti. Ég hef ekki séð skýrsluna aðeins  það sem um hana er sagt.  Einhvers staðar birtust kaflar úr henni sem taldir eru sýna að seðlabankinn hefði ekki staðið sem skyldi í aðdraganda hrunsins við mótun og framkvæmd peningastefnu. Eru ekki sömu hagfræðingar í bankanum nú og fyrir hrun? Er ekki eina breytingin að þeir hafa hækkað í virðingarstiganum?

Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra segir að skýrslan sýni að seðlabanki og fjármálaráðuneyti hafi farið í sömu átt eftir hrun sem ekki hafi verið fyrir hrun. Frá því eftir hrun hafa gjaldeyrishöft verið við lýði og ríkisstjórnin hefur enga leið út úr þeim. Ber að skilja orð ráðherrans þannig að ekki verði unnið að afnámi haftanna nema evran komi til sögunnar? Enginn hefur minnstu hugmynd um hvenær það verður. Er þessi skýrsla í raun varnarrit fyrir gjaldeyrishöftin? Samhæft vald seðlabanka og ríkisstjórnar yfir fjármálalífi landsins í krafti hafta?

Á Evrópuvaktinnií dag lesa endursögn og þýðingu á grein sem John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hefur ritað um framtíð ESB. Hann bendir þar á leið til þess að skapa sættir í Bretlandi um afstöðuna til ESB. Hann vill ekki að Bretland verði eitt af „kjarna-ríkjum“ ESB með evru og yfirþjóðlega stjórn ríkisfjármála.

Í raun er ótrúlegt að umræður um ESB komist ekki á það stig hérlendis að ráðherrar og talsmenn ESB-aðildar fáist til að ræða ESB og framtíð þess í ljósi núverandi stöðu og áforma framkvæmdastjórnar ESB og Þjóðverja.

 

Sunnudagur 16. 09. 12 - 16.9.2012 18:25

Hinn 12. september ræddi ég við Jón Helga Guðmundsson sem oftast er kenndur við Byko í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er kominn á netið og má sjá hann hér

Þýski stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur verið til umræðu undanfarna daga vegna úrskurðarins sem felldur var þar miðvikudaginn 12. september um aðild Þýskalands að björgunarsjóði evrunnar (ESM) og ríkisfjármálsamningi ESB-ríkjanna.  Dómararnir eru 16 í Karlsruhe og starfa í tveimur átta manna deildum. Því er haldið fram að enginn dómstóll í heimi fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna hafi jafnmikið vald og þýski stjórnlagadómstóllinn.

Dómstóllinn kom til sögunnar árið 1951 og var honum valinn staður í Karlsruhe í Baden-Württemberg  300 km fyrir sunnan Bonn sem þá var höfuðborg  V-Þýskalands. Tilgangurinn var að dómararnir yrðu utan seilingar stjórnmálamanna og hagsmunamiðlara og nytu því betri starfsfriðar en ella.  Dómarar eru valdir að hálfu af 69 þingmönnum í Bundesrat, efri deild, þýska þingsins, og að hálfu af 12 manna nefnd þingmanna úr Bundestag, neðri deild þýska þingsins.  Lögfræðingar eru kjörgengir séu þeir 40 ára eða eldri og til að ná kjöri verða þeir að fá tvo þriðju atkvæða. Kerfið leiðir til þess að samstaða er um val í dómstólinn þar sem menn sitja í 12 ár eða fara á eftirlaun 68 ára. Mikil leynd hvílir yfir öllu ferlinu við val dómaranna og sagði þýska vikublaðið Die Zeit einhverju sinni að hún væri meiri en við kjör páfa.

Stjórnlagadómstóllinn nýtur mikils trausts í Þýsklandi (75%), forsetaembættinu er treyst af 63%, þingið 40% og ríkisstjórnin 38%. Framkvæmdastjórn ESB nýtur aðeins 22% trausts meðal Þjóðverja.

Á 60 ára ferli sínum hefur dómstóllinn lýst 450 lagatexta ósamrýmanlega stjórnarskránni. Hann hefur fjallað um afgreiðslutíma verslana á sunnudögum, beitingu þýska hersins innan landamæra Þýskalands, kristna krossa í skólum, rétt til hælis og síðan fjölda mála varðandi fjárhagslegan stuðning við Grikki og til björgunar evrunni. Eðli málsins samkvæmt hafa þýskir stjórnmálamenn gjarnnan horn í síðu dómaranna í Karlsruhe og stundum er spurt hvort eðlilegt sé að átta dómarar geti tekið fram fyrir hendur á þjóðkjörnum þingmönnum.  Er meira að segja tala um „Karlsruhe-lýðræði“ þar sem vilji hinna þjóðkjörnu fái ekki að njóta sín. Við því verður hins vegar ekki hnekkt án stjórnarskrárbreytingar sem ekki er á döfinni.

Laugardagur 15. 09. 12 - 15.9.2012 18:20

Haustveðrið í Fljótshlíðinni er einstaklega gott og fallegt í dag. Nágrannar mínir smöluðu heimalandið og ráku dágóðan hóp í réttina. Hér í túninu hjá mér var stygg ær með þrjú lömb. Kom í ljós að ég á hana og er hún því af forystukyni úr Fljótsdal. Hún var tvílemb síðast þegar ég vissi. Flækingslamb hefur laðast að henni og hún ekki hrakið það frá sér.

Kindur hér um slóðir hafa ekki mátt þola neitt veður á borð við ofsaveðrið fyrir norðan. Glöggur maður nefndi við mig að veðrið hefði verið svo gott hér á landi undanfarin ár að sauðkindin hefði glatað hæfileikanum til að greina óveður í aðsigi og forða sér. Sé svo hlýtur reynsla undanfarinna daga að hafa vakið eðlislægt viðvörunarkerfi.

Hér við Eyjafjallajökul kom öskufallið sauðkindinni í opna skjöldu en hún lagaði sig fljótt að því og sagan um Fjalladrottninguna mína sem sneri úr óbyggðum og gekk tugi kílómetra á heimaslóð þegar hún hafði fengið nóg af öskunni er til marks um það. Þegar hún taldi hættuna liðna hjá hljóp hún til fjalla og héldu henni engin bönd þar til hún var felld vegna dýraverndunarsjónarmiða.

Föstudagur 14. 09. 12 - 14.9.2012 23:20

Í dag var þess minnst í Háskólanum í Reykjavík að 10 ár eru liðin frá því að lagakennsla hófst við skólann. Efnt var til málþings í skólanum um hvert stefnir í lagakennslu og kom prófessor frá Kaupmannahöfn og lýsti breytingum sem þar eru á döfinni. Námið verður verkefnamiðaðra og er að verulegu leyti reist á því að nemendur mynda hópa sem vinna að úrlausn verkefna.

Þá var efnt til pallborðsumræðna um lögfræði og siðfræði auk þess sem rætt var um stöðu laganáms hér á landi. Ég tók þátt í þessum umræðum. Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, var einnig meðal þátttakenda og taldi hann það hafa skipt sköpum fyrir þá lagadeild að Háskólinn í Reykjavik hóf kennslu í lögfræði. Taldi hann deildina hafa gengið í endurnýjun lífdaga við samkeppnina og almennt hefði lagakennsla í landinu batnað.

Eins og við er að búast af ríkisstjórn sem reist er á ofurtrú á getu ríkisins liggur í loftinu að ríkisstjórnin vilji að hætt sé innheimtu skólagjalda í sjálfstæðu háskólunum og ríkissjóður standi alfarið undir kostnaði við rekstur þeirra. Þetta er fráleit skoðun og mundi aðeins verða til þess að vega að öllu háskólastarfi.

Vandinn er að innan Háskóla Íslands hafa yfirvöld ekki haft þrek til að móta stefnu um innheimtu skólagjalda og lagt hana fyrir stjórnvöld.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, sat á dögunum fyrir svörum í Spegli ríkisútvarpsins og sagði að nú væri komið inn að beini við fjárhagslegt aðhald ríkisins og með lækkun útgjalda á fjárlögum til háskólastarfs.

Með pólitískan ofbeldismann á borð við Björn Val Gíslason (VG) sem formann fjárlaganefndar alþingis er full ástæða fyrir þá sem vilja standa vörð um menntun, rannsóknir og þróun á háskólastigi að vera á varðbergi. Björn Valur mun valta yfir fjármálaráðherra Samfylkingarinnar sýnist honum það þjóna hagsmunum hinnar þröngu klíku Steingríms J. innan VG. Með því að setja Björn Val í þessa stöðu vill Steingrímur J. fjarstýra fjármálaráðuneytinu og ráða framvindu ríkisfjármála. Hvorugur þeirra er málsvari öflugs háskólastarfs. Pólitísk valdasaga þeirra segir á hinn bóginn að þeir unni ekki neinum að blómstra á eigin forsendum. Sjálfstæðu háskólarnir eru því í sérstakri hættu.


Fimmtudagur 13. 09. 12 - 13.9.2012 21:30

Í dag var ég á Útvarpi Sögu í þætti um fullveldismál sem Páll Vilhjálmsson stjórnar og ræddum við saman í 50 mínútur um ESB-málefni og íslensk stjórnmál.

Þá skrifaði ég pistil hér á síðuna.

Miðvikudagur 12. 09. 12 - 12.9.2012 15:40

Í kvöld ræði ég á ÍNN við Jón Helga Guðmundsson, forstjóra Norvíkur, sem rekur Byko og Kaupás auk margra fleiri fyrirtækja hér á landi og erlendis. Við ræðum umsvif fyrirtækjanna og hvernig staðan er við núverandi aðstæður.

Fyrirtæki Jóns Helga hafa haldið sínu striki þrátt fyrir fjármálahrun og kreppu. Samkeppnisaðstæður breytast stöðugt og gjaldeyrishöftin valda því nú að erlendir aðilar geta skotið sér inn á smásölumarkað á sérstöku gengi sem hannað er af Seðlabanka Íslands.

Norvík hefur hafnaraðstöðu í mynni Thames og tók nýlega að sér stórverkefni í skipaflutningum sem tengist gerð Crossrail í London, það er nýju lestarkerfi neðanjarðar.  Skip á vegum Norvíkur flytja uppgröftinn á Thames til þess staðar þar sem hann er notaður til að skapa friðað svæði fyrir fugla.

Þátturinn verður sýndur fyrst klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 11. 09. 12 - 11.9.2012 22:00

Öryggisgæsla var meiri við þingsetningu í dag en nokkru sinni fyrr. Víggirðing lögreglunnar myndaði nógu stóran hring til að ekki væri unnt að kasta eggjum í þingmenn og aðra sem gengu á milli Dómkirkju og Alþingishússins. Í stað heiðursvarða í hátíðarbúningum voru lögreglumenn í óeirðaklæðnaði eða óeinkennisklæddir eins og öryggisverðir fyrirmenna í útlöndum. Þrátt fyrir gott veður létu fáir borgarar sjá sig á Austurvelli. Meiri athygli var vakin á því í fjölmiðlum að nokkrir þingmenn hefðu mótmælt athöfninni í Dómkirkjunni með því að hlusta á boðskap Siðmenntar sem lítur á sig sem keppinaut presta við þessa athöfn.

Sumir þingmenn minntust reynslunnar frá þingsetningunni 1. október 2011 með svo miklum ótta að þeir vildu ekki ganga til og frá Dómkirkju. Þeirra á meðal var Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra eins og hér má sjá.

Á dögunum ræddi ég við Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúa þjóðgarðsins á Þingvöllum, í þætti mínum á ÍNN eins og sjá má hér. Hann hefur tekið þátt í verkefni um forna þingstaði sem nær til Noregs, Færeyja, Bretlandseyja og Íslands. Hann segir að þessa staði megi meðal annars finna með því að þar standi kirkja eða helgistaður skammt frá því sem menn komu saman til að setja og lesa lög. Athöfnin í Dómkirkjunni er hluti menningararfleiðar sem sameinar þjóðirnar við Norður-Atlantshaf. Það er svo sem eftir öðru að Siðmennt vilji gera lítið úr þessum þætti þingsetningarinnar, hitt er skrýtið að þingmenn taki þátt í því.

Ég skrifaði um ræðu Ólafs Ragnars á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Mér þykir skrýtið að svo virðist sem hvorki hann né nokkur annar forystumanna hafi í þinghúsinu vikið að ofviðrinu á Norðausturlandi og tjóninu sem það hefur valdið. Þar ríkir almannavarnaástand og mikil verðmæti í húfi.

Mánudagur 10. 09. 12 - 10.9.2012 22:00

Varðberg, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt (RNH) og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands stóðu fyrir hádegisfyrirlestri í dag þar sem dr. Niels Erik Rosenfeldt, prófessor emerítus í sagnfræði í Kaupmannahafnarháskóla, flutti fyrirlestur um leynistarfsemi kommúnista. Nýlega kom út tveggja binda verk, The ‘Special' World: Stalin's Power Apparatus and the Soviet System's Secret Structures of Communication, eftir Rosenfeldt um leynideild þá, sem Stalín rak innan hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar. Fyrirlesturinn var vel sóttur og svaraði Rosenfeldt fyrirspurnum að honum loknum.

Kóreski hagfræðinginn Ha-Joon Chang hefur látið ljós sitt skína hér á landi undanfarið vegna útgáfu bókar sinnar: 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Hann telur meðal annars að með afnámi þrælahalds hafi verið vegið að frjálsum markaði.

Þegar sagt er frá sumum fræðimönnum dettur mér í hug kvikmyndin Elmer Gantry frá1960. Þar lék Burt Lancaster  „con man“ sem boðaði trú í litlum bæ í Ameríku. Myndin er reist á sögu sem Sinclair Lewis skrifaði 1927. Lancaster fékk Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í myndinni.

Í dag setti ég hér inn á síðuna fimm greinar sem ég hef ritað um Schengenaðildina á Evrópuvaktina undafarið. Efnið fyllti litla bók yrði það gefið út á þann veg. Fæstir þeirra sem gagnrýna Schengensamstarfið líta yfir sviðið allt. Hér má nálgast greinarnar:

 

http://www.evropuvaktin.is/pistlar/25154/

http://www.evropuvaktin.is/pistlar/25175/

http://www.evropuvaktin.is/pistlar/25193/

http://www.evropuvaktin.is/pistlar/25205/

http://www.evropuvaktin.is/pistlar/25237/

 

Sunnudagur 09. 09. 12 - 9.9.2012 22:20

Sáum fimmta og lokaþátt myndarinnar Draumurinn um veginn eftir Erlend Sveinsson í dag. Í fimm myndum sýnir hann pílagrímagöngu Thors Vilhjálmssonar rithöfundar 750 km leið eftir Jakobsveginum vorið 2005. Myndin er vel gerð í alla staði, hljóð og mynd, persóna og allt fas Thors fellur einstaklega vel inn í þennan ramma sem er skreyttur tilvitunum í ritverk hans. Myndaflokkurinn er afrek hvernig sem á hann er litið og dæmi um einstætt þrek og úthald Thors og Erlendar.

Fréttir ríkisfréttastofunnar um skort á konum í forystusveit sjálfstæðismanna hafa haldið áfram í dag. Skýringin á furðufréttunum er einföld. Áhuginn á stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins dregur athygli frá skipbroti jafnréttisstefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hvort heldur litið er til launa- eða ráðningarmála. Þetta skipbrot sýnir að hástemmdar stjórnmálayfirlýsingar jafnréttisráðherrans Jóhönnu og kvenfrelsisráðherrans Ögmundar reynast orðin tóm. Við þessar aðstæður ákveður ríkisfréttastofan að ræða skort á konum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins til að árétta mikilvægi jafnréttismála!

Laugardagur 08. 09. 12 - 8.9.2012 22:50

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skýrði frá því dag að hún ætlaði að hætta varaformennskunni og hverfa af þingi við kosningar vorið 2013. Ólöf hefur reynst vandaður þingmaður og hefur verið mikill fengur að henni í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Hennar bíður enn varðstaða gegn hinni ömurlegu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Á landsfundi fyrir kosningarnar verður nýr varaformaður valinn.

Það er fráleitur boðskapur sem ríkisfréttastofan flytur af þessu tilefni: „Ólöf er önnur konan sem tilkynnt er um að muni segja skilið við forystusveit Sjálfstæðisflokksins á innan við viku,“ sagði á ruv.is. Takið eftir orðalaginu „tilkynnt er um“. Þarna er eins og eitthvað æðra yfirvald hafi ýtt Ólöfu til hliðar þegar augljóst er að persónulegar ástæður eru að baki ákvörðun hennar og hún mun sitja þar til nýr hefur verið kjörinn, að öllum líkindum kona. Hin konan er Ragnheiður Elín Árnadóttir þingflokksformaður sem vék ófús úr fomannssætinu en án mótatkvæða var Illugi Gunnarsson valinn í hennar stað.

Hvers vegna kýs ríkisfjölmiðillinn að setja þetta fram á þennan hátt? Til að sverta hlut Sjálfstæðisflokksins í jafnréttismálum. Ríkisfjölmiðillinn kynnir málið eins og hann telur að falli að hagsmunum stjórnarflokkanna. Þetta sýnir hvernig ríkisfréttastofan mun haga sér komandi mánuði vaxandi stjórnmálaátaka.

Föstudagur 07. 09. 12 - 7.9.2012 23:12

Var í dag á Hrafnaþingi á ÍNN með Ingva Hrafni og Óla Birni Kárasyni og ræddum við um Sjálfstæðisflokkinn og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum að loknum flokksþingum þar. Þátturinn verður næst sýndur á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti fram til klukkan 18.00 á morgun.

Í dag sá ég við Perluna að einhver hafði farið með sleggju eða járnkarl og brotið næstum allar glerhlífarnar yfir ljóskösturum við tankana. Ég hef oft séð skemmdarverk unnin á þessum hlífum en aldrei jafnmargar þeirra eyðilagðar eins og að þessu sinni. Fróðlegt væri að vita hvað kostaði að setja nýjar hlífar og enn forvitnilegra að fá upplýsingar um þá skemmdarvarga sem þarna hafa verið að verki. Ástæða er til að velta fyrir sér hvers vegna ekki eru öryggismyndavélar þarna við tankana. Þó er enn undarlegra að hvergi utan dyra skuli vera ruslatunna. Þarna koma hundruð ef ekki þúsundir manna á hverjum degi þegar ferðamenn eru flestir.

Fimmtudagur 06. 09. 12 - 6.9.2012 22:00

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, flutti 50 mínútna ræðu til stuðnings Barack Obama á flokksþingi demókrata í gærkvöldi. Ræðan var mögnuð og sterk fyrir forsetann og einkennist af því að Clinton tekur helstu fullyrðingar repúblíkana gegn Obama vegur þær og metur áður en hann leitast við að jarða þær eða gera andstæðinginn ótrúverðugan. Flokksþingin einkennast af því að fyrir kjósendur eru lagðar tvær leiðir og tekist á um þær.

Línurnar eru skýrar en sá mun vinna sem nær best inn á miðjuna, fær þá kjósendur til fylgis við sig sem flakka á milli flokkanna. Þar er höfðað til hópa. Mikil hræðsla greip um sig meðal demókrata þegar það var blásið út að orðin „Guð“ og „Jerúsalem“ væru ekki í kosningaályktuninni. Obama beitti sér fyrir því að þetta yrði leiðrétt með atkvæðagreiðslu á þinginu sjálfu og þurfti forseti þess að endurtaka hana þrisvar áður en hann úrskurðaði að tveir þriðju hefðu samþykkt að setja orðin í hana.

Michelle Obama forsetafrú flutti frábæra ræðu og höfðaði þar sterkt til einstæðra mæðra en konur hafa frekar hallast að Obama en Romney. Obamamenn hafa mestar áhyggjur af könnunum sem sýna að fólk sem kaus hann 2008 hefur ekki áhuga á kosningunum núna. Baráttan snýst um að virkja þetta fólk. Forsetinn flytur ræðu í kvöld. Álitsgjafar segja að hann verði að slá í gegn ef hann ætli að sigra.

Ég hef ekki orðið var við að íslenskir stjórnmálamenn eða fjölmiðlamenn hafi tekið til umræðu mál sem sagt er frá á Evrópuvaktinni og sýnir að í Noregi og Svíþjóð telja ýmsir að okrað hafi verið á íslenskum skattgreiðendum með neyðarlánum 2009. Hér kemur líklega engum á óvart að íslensku samningamennirnir undir pólitískri forystu Steingríms J. Sigfússonar hafi ekki staðið fast á rétti Íslendinga auk þess samdi Steingrímur J. við Kristinu Halvorsen, flokkssystur sína í Noregi. Hún krafðist nokkurra milljarða í þóknun og Steingrímur J. samþykkti kröfuna.

Miðvikudagur 05. 09. 12 - 5.9.2012 19:10

„Á maður sem sagt að trúa því að Björn Bjarnason telji nú á tímum efnahagsþrenginga og deilna um leiðir að það sem besta sem stjórnarandstaðan geti gert sé að „berja á ríkisstjórninni“?“ þannig spyr bloggarinn og ESB-aðildarsinninn Magnús Helgi Björgvinsson á vefsíðu sinni í tilefni af því sem ég skrifaði hér á síðu mína í gær.

Svar mitt við þessari spurningu er einfalt: Já. Ég tel að því aðeins takist að losna úr efnahagsþrengingunum ef þessi stjórn fer frá völdum.

Raunar yrðu þung högg af hálfu stjórnarandstöðunnar mun öflugri leið til að takast á við þennan vanda en ESB-brölt ríkisstjórnarinnar eða sundrungariðja ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálinu. 

Magnús Helgi segir einnig:  „Hefði einhvern veginn haldið að það væri heldur að leita samstarfs við stjórnarflokkana um þau mál sem Sjálfstæðisflokkurinn teldi til framfara. Og finnst mönnum málþófið sem Ragnheiður Elín stóð fyrir hafi hjálpað Íslandi til frambúðar?“

Hvers vegna gerir Magnús Helgi ekki þá kröfu til stjórnarflokkanna að þeir leiti samstarfs við stjórnarandstöðunna? Þannig hefur til dæmis alltaf verið staðið að endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar nema þegar deilan hefur snúist um kjördæmamál. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin kosið átök um sjálfa stjórnarskrána? Jóhanna Sigurðardóttir vill alls ekki að samið sé við Sjálfstæðisflokkinn um málið.

Málþóf er hluti af starfi alþingismanna lögum samkvæmt. Leiðin til að komast hjá því er að ríkisstjórn sýni minnihluta á þingi tillitssemi. Ávallt eru einstök mál á dagskrá sem valda spennu og geta leitt til málþófs. Að stjórnarflokkar haldi þannig á málum að um sífellt málþóf er að ræða er einstakt og aðeins unnt að rekja til stjórnarhátta Jóhönnu Sigurðardóttur sem beitir aðferðum krossaprófs til að knýja fram lyktir mála að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins.

Verði Illugi Gunnarsson stjórnarflokkunum leiðitamur sem þingflokksformaður  sjálfstæðismanna er það ekki fagnaðarefni og Sjálfstæðisflokknum ekki til framdráttar.

 

Þriðjudagur 04. 09. 12 - 4.9.2012 20:45

Í greinaflokki sem ég ritaði á Evrópuvaktina í sumar um makríldeiluna vek ég máls á þeirri kenningu að Norðmenn sýni hörku í makríldeilunni af því að það komi sér vel fyrir stjórnmála- og embættismannakerfi landsins að Íslendingum sé haldið fjarri ESB-aðild. Kæmi til hennar yrði það til að kynda undir áhugamönnum um ESB-aðild Noregs en þeir ganga nú með veggjum og mega sín einskis í stjórnmálaumræðum. Greinaflokkinn má einnig lesa hér á síðunni.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gagnrýndi Norðmenn harkalega eftir ríkisstjórnarfund í dag og sagðist undrast hörku þeirra í okkar garð. Steingrímur J. Sigfússon gaf til kynna að Norðmenn hefðu ráðið mestu um að ekkert gerðist á fundinum í London í gær. Hann sagði hins vegar ekki á hvern hátt hann sjálfur hefði verið tilbúinn að hreyfa sig.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, er í hópi þeirra háskólamanna sem rétta Jóhönnu Sigurðardóttur hjálparhönd þegar í óefni er komið. Nú gerir hann það með því að ráðast á Ögmund Jónasson með þá vitleysu á vörunum að ráðherrar hafi aldrei sagt frá bókunum í ríkisstjórn. Hér í þessari frétt á Evrópuvaktinni eru nefnd nokkur dæmi um bókanir ráðherra sem vöktu mikla athygli og umræður.

Staðan á stjórnarheimilinu versnar jafnt og þétt engu að síður aukast vinsældir hennar í könnunum, nú styðja hana 34%. Í sömu Gallupkönnun kemur fram að fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar. Hið undarlega er að þingmönnum flokksins tekst ekki að ná þeim vopnum sem þeim eru rétt á hverjum degi til að berja á ríkisstjórninni. Þá var kjörinn sérstakur varaformaður flokksins síðla síðasta vetrar með það sem höfuðverkefni að blása lífi í starf hans. Skyldi nýr þingflokksformaður hleypa nýju lífi í stjórnmálabaráttu flokksins? Ragnheiður Elín átti góða spretti og lét ekki stjórnarsinna vaða yfir sig sem þingflokksformann.

Mánudagur 03. 09. 12 - 3.9.2012 22:05

Fréttastofa ríkisútvarpsins heldur áfram að sauma að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra vegna niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Í dag var rætt við Björn Val Gíslason, þingflokksformann VG, sem sagði að tapaði Ögmundur, flokksbróðir hans, jafnréttismáli fyrir dómstóli væru dagar hans sem ráðherra taldir. Þetta segir formaður þingflokks sem styður Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra þrátt fyrir að hún hafi verið dæmd fyrir jafnréttisbrot og einnig fyrir að móðga umsækjandann sem hún hafnaði á þann veg að hún varð að greiða henni miskabætur.

Ég hitti mann á förnum vegi í dag sem spurði: Fyrir hverju ætla vinstri-grænir að berjast í komandi kosningum? Hvaða málstað hafa þeir ekki svikið?

Þetta var áður en við blasti að Björn Valur er á eftir Ögmundi en ekki Jóhönnu.

Fréttastofa ríkisútvarpsins sannaði enn í samtalinu við Björn Val hve annt henni er um Jóhönnu. Fréttamaðurinn spurði ekki hvað þingflokksformaðurinn segði um dæmda forsætisráðherrann. Hvers vegna ekki? Það var þó mikli meiri fréttapunktur en gamalkunnar hótanir Björns Vals í garð Ögmundar. Þorir fréttastofan ekki að heyra svarið?

Ögmundur var í Kastljósi hann las grein í jafnréttislögunum og sagðist ekkert gefa fyrir hana. Hvers vegna snúast ekki umræðurnar um hvort jafnréttislögin og allt í kringum þau eigi í raun rétt á sér? Þolir pólitíski rétttrúnaðurinn ekki slíkar umræður? Ögmundur verður ekki skilinn á annan veg en þann að hann gefi ekkert fyrir lögin.

Sunnudagur 02. 09. 12 - 2.9.2012 22:05

Í dag héldu Rut og Richard Simm tónleika í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð, fjölmenni hlýddi á leik þeirra í fögru verði. Var þeim vel fagnað.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hélt í dag áfram að blanda mér í vandaræði Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra eftir að hann lenti undir öxi kærunefndar jafnréttismála. Ögmundur baðst undan þessum samanburði. Hann ber keim af einelti.

Á Stöð 2 tíunduðu fréttamenn nokkra ráðherra sem sættu neikvæðu áliti kærunefndar jafnréttismála áður en lögunum var breytt í núverandi horf þar sem nefndin kveður upp bindandi úrskurði. Hið einkennilega við þessi samanburðarfræði fréttastofu ríkisútvarpsins er að fréttamennirnir láta jafnan undir höfuð leggjast að nefna hinn ráðherrann sem er í nákvæmlega sömu stöðu og Ögmundur, sjálfa Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þau hafa bæði brotið sömu lög, þau voru ekki í gildi 2004.  Í stað þess að nefna Jóhönnu til sögunnar er mitt nafn dregið inn í þetta mál í skjóli feministans Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa VG. Þetta er fréttamennska á lægsta plani.

Í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins var í kvöld fyrst talað um þrjú þorskastríð og síðan leiðrétt í tvö. Hvaðan í ósköpunum kom sú leiðrétting? Fyrsta stríðið var vegna 12 mílnanna 1958, annað stríðið vegna 50 mílnanna 1972 og hið þriðja vegna 200 mílnanna 1975.

Eru því engin takmörk sett lengur hvað ræður ferðinni á fréttastofu ríkisútvarpsins? Einelti og þekkingarleysi á meginþáttum í samtímasögunni? Eða lítur fréttastofan á það sem hlutverk sitt að umskrifa söguna?

Laugardagur 01. 09. 12 - 1.9.2012 21:21

Furðufréttamennska ríkisútvarpsins birtist enn klukkan 18.00 í dag þegar nafn mitt var að ósekju dregið í kynningu á hinu helsta í fréttunum í frásögn af ágreiningi meðal VG-fólks eftir að Ögmundur Jónasson féll fyrir öxi kærunefndar jafnréttismála. Um er að ræða átta ára gamalt mál sem ég leysti með samkomulagi við Hjördísi Hákonardóttur, síðar hæstaréttardómara. Ég sagði jafnréttislögin barns síns tíma ef kærunefndin teldi sig þurfa að komast að þeirri niðurstöðu í áliti sínu sem þá lá fyrir. Þessi orð mín reyndust rétt því að jafnréttislögunum var breytt og þar á meðal ákvæðum um kærunefndina og valdsvið hennar.

Á vefsíðunni ruv.is segir 1. september:

„Viðbrögð Ögmundar Jónassonar við úrskurði um að hann hafi brotið jafnréttislög minna meira á viðbrögð Björns Bjarnasonar á sínum tíma, en ráðherra í femínískri ríkisstjórn, segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna.“

Ég veit ekki hvernig Sóley rökstyður mál sitt. Hún flutti það í þættinum Í vikulokin  sem er einn þáttanna sem haldið er úti til að ræða menn og málefni. Eitt er að það sé gert og fólk valið til að kynna ákveðin sjónarmið annað að sá áróður sé síðan notaður sem fréttaefni – í þessu tilviki greinilega til að koma höggi á mig að ósekju. Fréttastofa ríkisútvarpsins telur sig líklega eiga harma að hefna gagnvart mér og hikar ekki við að misbeita valdi sínu til þess.

Ég segi frá því í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi hvaða hlutverki fréttastofa ríkisútvarpsins gegndi í sambandi við spunann vegna orða minna í tilefni af úrskurði kærunefndarinnar í apríl 2004. Þá fluttu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson ræður sem falla dauðar núna þegar kærunefndin fellir bindandi úrskurð um embættisveitingar þeirra. Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur ekki fyrir að birta þau ummæli heldur hundeltist við mig á sama hátt og hún gerði fyrir átta árum. Það breytist ekkert þar á bæ enda sama fólkið við stjórnvölinn.

Sama dag og fréttastofa ríkisútvarpsins gerir frétt um áróðursummæli Sóleyjar Tómasdóttur birtist grein eftir Þorstein Pálsson, einn af ESB-viðræðunefndarmönnum Íslands, sem segir viðræðurnar sigldar í strand fari Ögmundur Jónasson með rétt mál um bókanir í ríkisstjórninni. Fréttastofan sér ekki ástæðu til að segja frá þessu í fréttum eða kanna málið enda ekki í samræmi við ESB-þjónkun hennar.