Mánudagur 17. 09. 12
Seðlabanki Íslands gaf út 600 bls. skýrslu í dag þar sem fram kemur að verði krónan ekki notuð áfram sé evran besti kosturinn sem mynt fyrir Íslendinga. Í janúar 2012 kynnti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að þessi skýrsla væri á næsta leiti. Ég hef ekki séð skýrsluna aðeins það sem um hana er sagt. Einhvers staðar birtust kaflar úr henni sem taldir eru sýna að seðlabankinn hefði ekki staðið sem skyldi í aðdraganda hrunsins við mótun og framkvæmd peningastefnu. Eru ekki sömu hagfræðingar í bankanum nú og fyrir hrun? Er ekki eina breytingin að þeir hafa hækkað í virðingarstiganum?
Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra segir að skýrslan sýni að seðlabanki og fjármálaráðuneyti hafi farið í sömu átt eftir hrun sem ekki hafi verið fyrir hrun. Frá því eftir hrun hafa gjaldeyrishöft verið við lýði og ríkisstjórnin hefur enga leið út úr þeim. Ber að skilja orð ráðherrans þannig að ekki verði unnið að afnámi haftanna nema evran komi til sögunnar? Enginn hefur minnstu hugmynd um hvenær það verður. Er þessi skýrsla í raun varnarrit fyrir gjaldeyrishöftin? Samhæft vald seðlabanka og ríkisstjórnar yfir fjármálalífi landsins í krafti hafta?
Á Evrópuvaktinni má í dag lesa endursögn og þýðingu á grein sem John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hefur ritað um framtíð ESB. Hann bendir þar á leið til þess að skapa sættir í Bretlandi um afstöðuna til ESB. Hann vill ekki að Bretland verði eitt af „kjarna-ríkjum“ ESB með evru og yfirþjóðlega stjórn ríkisfjármála.
Í raun er ótrúlegt að umræður um ESB komist ekki á það stig hérlendis að ráðherrar og talsmenn ESB-aðildar fáist til að ræða ESB og framtíð þess í ljósi núverandi stöðu og áforma framkvæmdastjórnar ESB og Þjóðverja.