Dagbók: mars 2011

Fimmtudagur 31. 03. 11. - 31.3.2011

Í hádeginu flutti Niklas Granholm, öryggismálafræðingur frá Svíþjóð, erindi á vegum Varðbergs og fleiri aðila í Háskóla Íslands. Frásögn af erindinu má lesa hér.

Granholm dvelst hér í nokkra daga til að kynna sér stöðu landsmála. Hann sagðist draga þá ályktun af samtölum sínum að á stjórnmálavettvangi tækjust menn á við mikinn vanda án þess að hafa nokkra haldbæra lausn á takteinum. Þetta skapaði óneitanlega óvissu út á við. Enginn vissi í raun heldur hve vandinn yrði langvinnur.

Sumir láta eins og með því að segja já við Icesave III sé tekið á þessum vanda. Það er fráleit skoðun og aðeins blekking af hálfu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar í málinu. Ríkisstjórnin sjálf er meginmeinsemdin. Jóhanna Sigurðardóttir átti aldrei neitt erindi í embætti forsætisráðherra eins og síðustu tvö ár hafa sannað. Hroki hennar eykst eftir því sem hún einangrast meira. Jafnframt vex ábyrgð þingflokks Samfylkingarinnar sem tryggir henni ráðherravöld.

Firring þingmanna Samfylkingarinnar birtist nú í því að Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar alþingis, gerir því skóna að til álita komi að nefndin ræði í alvöru eða jafnvel samþykki að selja íslenskan ríkisborgararétt. Meðal röksemda sem hann notar er að alþingi hafi samþykkt ríkisborgararétt sinn eftir meðferð í allsherjarnefnd.

Róbert virðist ekki sjá neitt athugavert við að flytja hingað inn hóp fólks sem er kynnt til sögunnar sem ný tegund af útrásarvíkingum, sem vilji nota fjármuni sína til að kaupa sig frá löndum þar sem raforka er framleidd með kjarnorku eða stunduð er hermennska. Að þetta séu hinar raunverulegu ástæður er lítt trúverðugt þegar til þess er litið að umboðsmaður kaupanda ríkisborgararéttarins greip á lofti mál sem nú eru helst í fréttum vegna jarðskjálftans í Japan og átakanna í Líbýu.


Miðvikudagur 30. 03. 11. - 30.3.2011

Hér hefur verið rakið undanfarna daga hve klofin ríkisstjórnin er vegna aðildar Íslands að átökunum í Líbýu sem aðildarríki NATO. Jóhanna Sigurðardóttir var spurð um andstöðu vinstri-grænna við afstöðu ríkisstjórnarinnar þar sem þeir eiga sæti og svaraði hún: „Það er þeirra mál.“ Þetta svar er dæmigert fyrir Jóhönnu og með ólíkindum sé það tekið gott og gilt af stjórnarandstöðunni.

Hið sama gerist hins vegar vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar um Líbýu og í öðrum ágreiningsmálum að stjórnarandstaðan tekur að sér hlutverk varadekks fyrir stjórnina á alþingi og tryggir meirihluta þar. Þetta sífellda hjálparstarf stjórnarandstöðunnar hefur því miður dregið úr biti hennar svo að ekki sé kveðið fastar að orði.

Furðulegt er að lesa þau ummæli höfð eftir Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í Fréttablaðinu í dag, að það auki vanda Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að Bjarni Bjarnason hafi verið ráðinn forstjóri fyrirtækisins. Skyldi Kjartan sakna Alfreðs Þorsteinssonar sem ýtti skuldasöfnun OR af stað með Guðmundi Þóroddssyni? Mér er óskiljanlegt að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi ekki skapað skarpari skil gagnvart stjórnarháttum Alfreðs þegar þeir tóku forystu í stjórn OR árið 2006.
Þriðjudagur 29. 03. 11. - 29.3.2011

Á vefsíðu vinstri-grænna Smugunni er 29. mars haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins og fjármálaráðherra að sem herlaust land hafi Ísland „hvorki þekkingu né möguleika á að bera ábyrgð af aðgerðum að þessu tagi“ og vísar hann þar til hernaðaraðgerðanna í Líbýu. Samt situr hann í ríkisstjórn sem ákvað þátttöku Íslands í aðgerðunum á fundi fastaráðs NATO sunnudaginn 27. mars.  Smugan segir, að ráðherrar vinstri-grænna séu ósáttir við stuðning Össurar Skarphéðinssonar við aðgerðirnar.

„Við ræddum málið á ríkisstjórnarfundi og gerðum grein fyrir því að vinstri-grænir væru ekki aðilar að þeim stuðningi enda hefði málið ekki verið rætt í ríkisstjórn og ekkert samráð hafi verið haft við okkur,“ segir Steingrímur J. en það hafi ekki áhrif á setu hans eða annarra ráðherra flokksins í ríkisstjórn eða á samstarfið við Össur og Samfylkinguna, af því að vinstri-grænir séu á móti aðildinni að NATO. Þá hafi hann ekki fengið skýr svör um „hvernig málinu var háttað af fulltrúum Íslands“ í NATO.

Á sama tíma og Steingrímur J. sat á ríkisstjórnarfundi og lýsti þeirri skoðun að Össur og embættismenn hans hefðu ekki þekkingu til að bera ábyrgð á aðgerðunum í Líbýu sat Össur á 50 manna fundi í London og áréttaði mikilvægi þess að fast yrði tekið á málum í Líbýu og með því valdi sem dygði til bjarga almenningi undan Gaddafi.

Þetta orðagjálfur dugar ekki til að leysa Steingrím J. undan pólitískri ábyrgð á afstöðu Íslands á þessu máli innan NATO eða á fundinum í London.

Það var tímabært að í stól forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur settist að nýju maður sem telur sér skylt að halda þannig á málum að orkuveitan sinni frumverkefni sínu, það er að tryggja viðskiptavinum sínum heitt vatn. Bjarni Bjarnason, nýr forstjóri orkuveitunnar, sat fyrir svölum í Kastljósi í kvöld og lét Helga Seljan ekki draga sig inn í umræður um annað en sem hann taldi sér skylt að svara með framtíð fyrirtækisins í huga.

 

Mánudagur 28. 03. 11. - 28.3.2011

Ég vek athygli á vefsíðunni Vardberg.is, það er nýrri vefsíðu Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, sem er að komast í loftið stig af stigi. Þar er unnt að fylgjast með því sem er að gerast í starfi félagsins auk þess að skrá sig í félagið eða setja sig á póstlista þess. Þá vek ég athygli á því að Varðberg sendir ekki lengur út fundarboð í venjulegum pósti heldur aðeins til þeirra sem skrá sig á póstlistann á síðunni.

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af því að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður annars stjórnarflokksins, sagði á þingi að hann hefði ekki vitað að ríkisstjórnin ætlaði að samþykkja að NATO tæki að sér stjórn hernaðaraðgerða í Líbýu.

Í hádeginu var ég í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og kynnti qi gong stuttlega fyrir kennurum og nemendum.

Sunnudagur 27. 03. 11. - 27.3.2011

Ég velti fyrir mér hvort fleiri en ég hafi glímt við erfiðleika við að tengja fartölvu með Windows XP stýrikerfi við ljósnet Símans. Þetta kemur ítrekað fyrir hjá mér, eftir að tölvan hefur verið í venjulegu ADSL-umhverfi. Á sama tíma finnur fartölva með Windows 7, sem kemur einnig úr ADSL-umhverfi, ljósnetið strax. Nokkrum sinnum hef ég hringt í tæknideild Símans til að fá leiðbeiningar til að tengja XP-stýrikerfið. Ráðin eru mismunandi en alltaf hefur tölvan tengst að lokum.

Eins og lesa má hér hefur NATO tekið að sér yfirstjórn allra hernaðaraðgerða í Líbýu í samræmi við umboð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Fastafulltrúar NATO-ríkjanna 28 samþykktu þetta á fundi í Brussel í dag. Fulltrúi Íslands var í þeim hópi og hefur að sjálfsögðu ekki veitt samþykki sitt nema samkvæmt fyrirmælum frá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra.

Össur hefur haft stór orð um að ekki hafi verið staðið nógu skipulega að töku ákvörðunar um aðild Íslands að stríðinu í Írak, skort hafi samráð og opna umræðu. Þá séu ekki heldur nein haldgóð gögn í utanríkisráðuneytinu um ferli ákvörðunarinnar.

Össur hlýtur að gera þingi og þjóð grein fyrir aðdraganda þeirrar ákvörðunar sem tekin var í höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag með samþykki Íslands. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis og þingmaður vinstri-grænna, hefur að sjálfsögðu verið hafður með í ráðum og leitað umboðs frá flokksformanni sínum Steingrími J. Sigfússyni.Laugardagur 26. 03. 11. - 26.3.2011

Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings. Ég segi skoðun mína á því máli öllu í grein í nýju hefti af tímaritinu Þjóðmálum sem kom út í vikunni.

Ég tel að í samþykkt alþingis um að setja á laggirnar stjórnlagaráð með vísan til þessarar ógiltu kosninga sé farið í kringum niðurstöðu hæstaréttar. Með lögum var honum falið að eiga síðasta orð um hvort rétt hefði verið staðið að vali fólks á stjórnlagaþing, það var ekki gert að mati réttarins. Alþingi hefur haft þá ákvörðun að engu.

Nú kemur einn þeirra sem á rétt til setu í stjórnlagaráði samkvæmt samþykkt alþingis fram og segist ef til vill taka setu í ráðinu ef tillögur þess verði lagðar undir þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en þær verða lagðar fyrir alþingi. Má helst skilja orð þess manns, Eiríks Bergmanns Einarssonar frá Bifröst, á þann veg að alþingi verði að samþykkja þetta skilyrði hans, eigi að hann nýta rétt sinn til setu í stjórnlagaráði.

Eitt er að bjóða sig fram til stjórnlagaþings, taka þátt í kosningu sem er ógilt vegna þess hve illa var staðið að henni en annað að telja sig síðan hafa stöðu til að setja alþingi skilyrði. Slíkar kröfur lofa ekki góðu um framhaldið.

Föstudagur 25. 03. 11. - 25.3.2011

Miðvikudaginn 23. mars var flutt samtal mitt við Harald Briem, sóttvarnalækni, á ÍNN og má sjá þáttinn hér. Við ræddum um varnir gegn hvers kyns vá annarri en náttúruhamförum.

Í hádeginu í dag flutti dr. Laurence C. Smith, höfundur bókarinnar The New North erindi á vegum rannsóknarmiðstöðvarinnar RSE og Varðbergs í ráðstefnusal Þjóðminjasafns Íslands. Salurinn var þéttsetinn og góður rómur gerður að máli framsögumanna sem síðan svaraði spurningum. Hann var meðal annars spurður að því hvernig hann sæi stöðu Íslands í framtíðinni í ljósi rannsókna sinna. Hann svaraði á þann veg að Íslendingar ættu mikil og góð tækifæri - þeir yrðu hins vegar að hugsa stórt. Meta stöðu sína frá víðu sjónarhorni en ekki af hagsmunum einstaks heimshluta, það væri skaðleg þröngsýni.  Hér má til dæmis kynnast sjónarmiðum Smiths.

Guðbjörn Guðbjörnsson, tollvörður, sem sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn síðasta sumar til að stofna nýjan stjórnmálaflokk, bloggar á Eyjunni og tekur sér í dag fyrir hendur að verja Jóhönnu Sigurðardóttur og telur Kærunefnd jafnréttismála hafa vegið ómaklega að henni. Í sömu andrá tekur hann sér fyrir hendur að gagnrýna mig fyrir að hafa skipað þá Gunnlaug Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson í hæstarétt, en hvorugan þeirra skipaði ég í réttinn heldur þá Ólaf Börk Þorvaldsson og Pál Hreinsson. Þegar ég benti Guðbirni á þetta tók hann gamalkunna syrpu út af Ólafi Berki vegna frændsemi hans við Davíð Oddsson án þessa fara rétt með hvernig henni er háttað.

Ólaf Börk skipaði ég í ágúst 2003 og hefur hann staðið sig óaðfinnanlega sem hæstaréttardómari, enda búinn öllum kostum sem prýða mega góðan dómara. Sætir undrun að enn sé amast við því að svo hæfur maður skyldi valinn til setu í hæstarétti. Gagnrýnin snýst um frændsemi Ólafs Barkar við Davíð Oddsson og er eins ómálefnaleg og frekast er kostur. Hún nærist enn á hatrinu sem kveikt var af Baugsmönnum og lögfræðingum þeirra.

Jóhanna Sigurðardóttir fer enn og aftur með rangt mál þegar hún talar um einhverja hæfnisnefnd sér til ráðuneytis við val á skrifstofustjóra, hún hafi farið að ráðum þeirrar nefndar en ég ekki nefndar sem veitt hafi mér álit. Mannauðsráðgjafi leggur nafn sitt við niðurstöðu Jóhönnu, Kærunefnd jafnréttismála úrskurðar gegn áliti ráðgjafans og ákvörðun Jóhönnu. Hæstiréttur átti 2003 að segja álit á hæfi og hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Hann taldi Ólaf Börk hæfan en tvo aðra umsækjendur „heppilegri“. Hjördís Hákonardóttir sem kvartaði til Kærunefndar jafnréttismála sem starfaði eftir lögum þess tíma var ekki í hópi hinna „heppilegu“ heldur hafði í raun sömu stöðu og Ólafur Börkur.

Fimmtudagur 24. 03. 11. - 24.3.2011

Flugum frá París í dag með Icelandair, í fullsetinni vél. Mér var sagt að frá því í október hefðu nær allar vélar Icelandair frá París verið þéttsetnar. Hins vegar heyrðum við tilkynnt að í SAS-flugi til Stokkhólms væru svo fáir farþegar að þeir mættu sitja þar sem þeir vildu í vélinni.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði þingmönnum í dag að fagmennska hennar við að velja skrifstofustjóra í forsætisráðuneytið fælist í því að ráða ekki Önnu Kristínu Ólafsdóttir, af því að hún væri flokkssystir sín. Þar með sagðist Jóhanna sætta sig við að hafa brotið jafnréttislög. Vitleysan sem veltur upp úr Jóhönnu vegna þessa máls tekur engan enda. Sannast enn að hún hefur enga burði til að sitja í embætti forsætisráðherra, að minnsta kosti ekki með Hrannar B. Arnarson sem ræðuritara sinn.

Anna Kristín var hægri hönd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra og síðar aðstoðarmaður Þórunnar Sveinbjörnsdóttur í umhverfisráðuneytinu. Jóhanna skipaði Önnu Kristínu formann í nefnd til að endurskipuleggja stjórnarráðið. Arnar Þór sem fékk skrifstofustjórastarfið í forsætisráðuneytinu sat í nefndinni undir formennsku Önnu Kristínar.

Þegar kvartað er til Kærunefndar jafnréttisnefndar kann ýmislegt að búa að baki. Líklegast er að réttlát reiði þess sem fékk ekki starf ráði mestu um kvörtunina. Þá kann að koma til hvatning frá öðrum. Anna Kristín kom úr Kvennalistanum sáluga inn í Samfylkinguna. Jóhanna Sigurðardóttir kom hins vegar úr eigin flokki, Þjóðvaka. Endurpeglar kvörtun Önnu Kristínar spennu og klofning í Samfylkingunni?


Miðvikudagur 23. 03. 11. - 23.3.2011 21:23

Í mínum huga er ótrúlegt að sjálf Jóhanna Sigurðardóttir skuli standa frammi fyrir úrskurði Kærunefndar jafnréttismála um að hún hafi brotið jafnréttislög við embættisveitingu í forsætisráðuneytinu. Þetta og viðbrögð hennar við úrskurðinum sanna mér endanlega að Jóhanna er mesti gervibaráttumaður í stjórnmálum sem ég hef kynnst. 

Að Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu, telji sér fært að afsaka Jóhönnu með því að vísa til álits sem Kærunefnd jafnréttismála gaf þegar ég skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson í hæstarétt sýnir best hve veruleikafirring er mögnuð í kringum Jóhönnu. Tal Hrannars og Jóhönnu um mannauðsfræðinginn sem þau skýla sér á bakvið í forherðingu sinni, er ekkert annað en venjulegur samfylkingarspuni. Jóhanna situr uppi með úrskurð. Þegar ég átti í hlut var gefið álit. Ég fór að því og samdi við Hjördísi Björk Hákonardóttur.

Óhjákvæmilegt er fyrir þingflokk Samfylkingarinnar að taka nú af skarið og ýta Jóhönnu og Hrannari B. til hliðar. Hún er ekki hæf til að gegna embætti forsætisráðherra. Liðið sem hún safnar að sér endurspeglar vanmátt hennar. Hún og Jón Gnarr etja kappi saman um að misheppnast gjörsamlega að sinna forystu í þágu almennra borgara landsins. Samfylkingin tryggir Jóni Gnarr einnig valdasess sinn.

Allt stjórnarfar í landinu og þó sérstaklega stjórnarráðið setur niður við að hafa  Jóhönnu við enda ríkisstjórnarborðsins og Hrannar B. sem málsvara. Því fyrr sem Jóhanna hverfur úr forsætisráðuneytinu þeim mun líklegra er að taki að rofa til hjá þjóðinni. Því fyrr sem Jón Gnarr hverfur úr embætti borgarstjóra þeim mun líklegra er að hagur Reykjavíkurborgar vænkist.

Samfylkingin ber ábyrgð á óstjórninni í landinu og höfuðborginni. Að einhverjum detti í hug að Sjálfstæðisflokkurinn taki að sér að framlengja lykiláhrif Samfylkingarinnar á landstjórn eða borgarstjórn sýnir hve pólitískri dómgreind hefur hrakað.

Eftir nokkra daga hér í París þar sem ég hef lesið Le Monde mér til gagns og ánægju, þótt ég sé því ekki alltaf sammála, sé ég enn skýrar hve íslenskri blaðamennsku og fjölmiðlun hefur hrakað. Þegar öllu er á botninn hvolft eru fjölmiðlarnir kannski helsta fórnarlamb útrásarvíkinga og hruns. Menn átta sig kannski ekki á því að um skeið hafði Jóni Ásgeiri Jóhannessyni tekist að sölsa undir sig alla fjölmiðla í landinu utan RÚV en því reyndi hann að stýra með „terreur“ svo að ég vitni til þess tímabils sem ríkti á einu stigi frönsku stjórnarbyltingarinnar.

Lesa meira

Þriðjudagur 22. 03. 11. - 22.3.2011

Það er greinilega meiri pólitískur þróttur í þingmönnum vinstri-grænna en Samfylkingarinnar. Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason segja skilið við þingflokk vinstri-grænna vegna ofríkis einkum af hálfu Steingríms J. Sigfússonar sem nú hefur þrisvar sinnum dregið flokk sinn til niðurstöðu í Icesave-málinu. Steingrímur J. kemst ekki upp úr Icesave-holunni sem Svavar Gestsson gróf og því miður dró hann að lokum nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins með sér ofan í hana. Þeir áttuðu sig hins vegar að mikilvægi þess að þjóðin fengi að segja álit sitt á málinu. Með sameiginlegu átaki tekst okkur vonandi með því að segja nei að komast upp úr þessum Svavarspytti.

Þingmenn Samfylkingarinnar láta sig hafa það að styðja áfram við bakið á Jóhönnu Sigurðardóttur þrátt fyrir öll mistök hennar og í raun óvildarverk í garð stjórnarfars og stjórnmálaumræðu. Að fá slíka sendingu í forsætisráðuneytið hefur valdið meiri skaða en komist hefur til skila hjá almenningi. Jóhanna verður ekki oftar í framboði. Með því að styðja við bakið á henni í forsætisráðuneytinu eru þingmenn Samfylkingarinnar að koma sér undan því að velja nýja forystu í flokknum. Þröngir flokkshagsmunir ráða því ferð þeirra en ekki þjóðarhagur.

Í kvöld fórum við í Bastillu-óperuna hér í París og sáum Siegfried eftir Wagner, næst síðustu óperuna í Hring Niflungans. Siegfried, hin mikla hetja sem kann ekki að hræðast, ber merki einfeldnings fram að lokaatriðinu þegar hann bjargar Brynhildi úr loganum. Sýningin hófst klukkan 18.00 og henni lauk 23.20. Listamönnunum var vel tekið en sviðsmynd og búningar voru á skjön við það sem hefðbundið er. Philippe Jordan stjórnaði óperuhljómsveitinni. Günter Krämer er leikstjóri og Jürgen Bäckmann setur á svið. Torsten Kerl er Siegfried, Wolfgang Ablinger-Sperrhacke er Mime, Juha Uusitalo er Óðinn, Katarina Dalayman er Brynhildur, svo að nokkrir söngvarar séu nefndir. Dálítið var púað eftir fyrsta þátt en í lokin var almenn hrifning um 2.700 áheyrenda.

Mánudagur 21. 03. 11. - 21.3.2011

Í samtölum við Frakka hér í París í dag hef ég enn sannfærst um hve misráðið er að Íslendingar séu að burðast við að sækja um aðild að ESB á þessari stundu, ekki aðeins vegna aðstæðna heima fyrir hjá okkur heldur og ekki síður vegna sívaxandi óánægju með ESB í aðildarlöndum þessi.

Í gær voru héraðskosningar í nokkrum hluta Frakklands, Þjóðarfylkingin undir forystu Marine Le Pen er sigurvegari í fyrri umferðinni. Mér var bent á að vinsældir flokksins stöfuðu meðal annars af óánægju með þróunina innan ESB. Frakkar teldu nær fyrir eigin ríkisstjórn að huga að málefnum Frakka og hag þeirra en Grikkja, Íra og næst Portúgala og síðan Spánverja.

Þá er ekki allt sem sýnist þegar litið er til hernaðaraðgerðanna gegn Líbýu og forystu Frakka. Hafi Nicolas Sarkozy ætlað að slá sér upp meðal franskra kjósenda með forystu um árásina, er hann í besta i á falli á hálum ís.


Sunnudagur 20. 03. 11. - 20.3.2011

Eitt af því sem haldið er stíft  fram í umræðum um Icesave-málið er að Íslendingar einangri sig og hljóti alþjóðlega útskúfun segi þeir nei 9. apríl. Í dag hitti ég franskan lögfræðing hér í París og barst talið að Icesave. Hann taldi fráleitt annað en Íslendingar segðu nei. Enginn þjóð ætti að láta bjóða sér þetta. Ég er þeirrar skoðunar að álit þjóðarinnar út á við minnki við að segja já. Kannski kann einhverjum útlendingum að þykja einkennilegt að unnt sé að leggja mál sem þetta fyrir íslensku þjóðina. Úr því að það sé gert, hljóti menn að hafna því að taka á sig löglausar byrðar.

Hræðsluáróðurinn vegna ásýndar þjóðarinnar á alþjóðavettvangi minnir á stóryrðin sem féllu þegar ákveðið var að hefja hvalveiðar að nýju. Þær áttu að kalla yfir okkur reiði og útskúfun. Þá börðust og berjast enn fjölmenn alþjóðasamtök gegn ákvörðun íslenskra stjórnvalda og fyrirtæki erlendis með íslenskan varning gripu til viðskiptabanns á þennan varning til að verjast mótmælendum.

Ferðamönnum á Íslandi hefur aldrei fjölgað meir en síðan hvalveiðar hófust að nýju. Ekkert af hrakspánum hefur ræst. Engin sambærileg barátta er háð erlendis vegna Icesave og hvalveiðanna. Úrtölumennirnir nú eru allir á Íslandi og flestir í ráðherrastólum eða á alþingi auk hóps lögfræðinga þar sem þá ber hæst sem tóku að sér að verja málstað Baugsmanna á sínum tíma.


Laugardagur 19. 03. 11. - 19.3.2011

Mikill mannfjöldi var á bókasýningunni hér í París, Salon du Livre, þegar ég gekk þar um í nokkra klukkutíma um hádegisbilið í dag. Hvarvetna liggur fram séreintak af Le Magazine Littéraire sem er gefið út í tilefni sýningarinnar og heitir Les littératures nordiques, norrænar bókmenntir. Þar er sérstök kynning á 40 norrænum höfundum sem boðið er til sýningarinnar. Fjórir eru íslenskir: Auður Ava Ólafsdóttir, Árni Þórarinsson, Jón Kalman Stefánsson og Steinunn Sigurðardóttir. Er stórt rými á sýningunni helgað norrænum bókmenntum.

Franska blaðið Le Monde gefur út blaðauka um norrænar bókmenntir sem auk þess að fylgja blaðinu til kaupanda þess er dreift ókeypis á bókasýningunni. Í fyrstu opnu þess er grein eftir Sjón - bréfi til hans sjálfs. Þar er einnig grein um Ísland og íslenskar bókmenntir eftir Nils C. Ahl undir fyrirsögninni Promenade au paradis des écrivains - skemmtiganga í paradís rithöfunanna, en Ahl lýsir Íslandi í senn sem curioisté frá náttúrunnar hendi og paradís rithöfunda.

Á meðan ég gekk um bókasýningunna bárust fréttir af frönskum orrustuþotum yfir Líbýu og fundi Nicolas Sarkozys með fulltrúum hinna „viljugu“ gegn Gaddafi. Hvergi sáust nein merki um að almenningur á götum Parísar léti þessi tíðindi nokkuð á sig fá. Hvorki á sýningunni né í jarðlestunum virtist hafa verið gripið til sérstakra öryggisráðstafna vegna hugsanlegra stríðsaðgerða í Líbýu. Gaddafi er þó til alls vís í því skyni að halda í völdin.

Í Le Figaro er fullyrt að það hafi verið heimspekingurinn og fjölmiðlastjarnan Bernard-Henry Lévy (BHL) sem hafi knúið Sarkozy til dáða gegn Gaddafi með aðstoð heimamanna en BHL fór til Benghazi í Líbýu sem blaðamaður, hitti þar einn af leiðtogum uppreisnarmanna. Fór með hann á fundi Sarkozys og síðan tóki boltinn að rúlla þar til öryggisráðið gaf grænt ljós á hernaðaraðgerðir.

Frakkar taka því þunglega að Þjóðverjar sitja hjá vegna Gaddafis og í Le Monde er  talið að það minnki stuðning Frakka við að Þjóðverjar fái fast sæti í öryggisráðinu.

Föstudagur 18. 03. 11. - 18.3.2011

Ég lagði bílnum mínum á langtímastæðið við Leifsstöð um 06.30 í morgun. Á leiðinni inn í stöðina var svo mikill bylur að það tók í að ganga á móti honum. Veðrið var allt annað og betra í París, þegar við lentum þar.

Í flugvélinni voru nokkrir kunnir rithöfundar og bókmenntamenn. Þeirra erindi var að sækja franska bókamessu sem er nú um helgina, Salon du livre við Porte de Versailles. Þar eru Les lettre nordiques a l'honneur, eða norrænar bókmenntir í heiðurssæti, eins og segir í kynningu og einnig Spécial Suspense, polar & thirller.

Berglind Ásgeirsdóttir, nýskipaður sendiherra Íslands í Frakklandi, efndi til móttöku í tilefni af þessari bókahátíð en einnig vegna Air d'Islande, íslenskra menningardaga sem nú eru í París í þriðja sinn að frumkvæði Ara Allanssonar, kvikmyndafræðings. Frumkvæði hans vindur upp á sig eins og er eðli góðs framtaks.

Allt var þetta nýnæmi fyrir mig. Áhugi franskra fjölmiðla á íslenskum bókmenntum sést í blöðunum vegna bókamessunnar.

Fimmtudagur 17. 03. 11. - 17.3.2011

Í dag klukkan 18.00 var hátíðleg athöfn í franska sendiráðinu í Reykjavík þegar sendiherrann, Caroline Dumas, sæmdi Rut, konu mína, orðunni Chevalier de l'Ordre National du Mérite fyrir framlag hennar við kynningu á franskri tónlist og menningu.

Charles de Gaulle, forseti Frakklands, stofnaði þessa orðu árið 1963 og er hún stigi neðar en æðsta orða Frakklands Légion d'honneur, sem Napoleon stofnaði á sínum tíma. Orðan er veitt Frökkum og útlendingum fyrir einstakt framlag þeirra í þágu Frakklands og franskrar menningar.

Frakklandsforseti veitir ekki aðrar orður en þessar tvær, en innan þeirra eru mismunandi gráður. Aðrar orður eða heiðursmerki Frakka eru veitt af einstökum ráðuneytum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld flugbann í Líbýu. Samkvæmt samþykktinni er ekki aðeins heimilt að beita valdi til að stöðva lofthernað heldur allar aðgerðir aðrar en innrás á landi til að stöðva árásir sem geta stofnað lífi venjulegra borgara í hættu. Öryggisráðið komst að þessari niðurstöðu í sama mund og Gaddafi, einræðisherra Líbýu, hótaði árás á borgina Benghazi, sem hefur verið í höndum þeirra sem berjast gegn ofríki einræðisherrans.

Nú má búast við því að lofherjum Bandaríkjanna, Evrópuríkja og fleiri verði beitt til að brjóta ógnarstjórn Gaddafis á bak aftur.Miðvikudagur 16. 03. 11. - 16.3.2011

Átta lögfræðingar hafa sent frá sér yfirlýsingu um stuðning sinn við Icesave III. Rök þeirra eru meðal annars þessi:

„Færi nú á sömu leið, það er að EFTA dómstóllinn dæmdi með ESA, flyttist málið yfir á vettvang alþjóðastjórnmála. Afleiðingar gætu hugsanlega orðið þær að Íslandi yrði vísað af evrópska efnahagssvæðinu. Þá blasti við hætta á að lagður yrði tollur á íslenskar vörur í Evrópu sem hafa notið tollfrelsis frá 1971 og er þá hætt við að „mörgum kotbændunum muni þykja verða þröngt fyrir dyrum“ eins og Einar þveræingur hefði orðað það, þar á meðal öllum sem lífsbjörg hafa af fiskveiðum og vinnslu, þegar 30% tollur yrði lagður á þær vörur í Evrópu.“

Ég undrast að lögmenn gerist sekir um svo einfaldan hræðsluáróður. Hvernig í ósköpunum dettur þeim í hug, að Íslandi yrði vísað úr EES, þótt EFTA-dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að Icesave-kröfur Breta og Hollendinga féllu innan EES-samningsins? Leiðir lagaþræta nú á tímum til þess að sá sem tapar máli sé gerður útlægur?Hvaða ákvæði EES-samningsins heimila slíkan brottrekstur?

Ályktunin um að brottrekstur úr EES leiddi sjálfkrafa til tollahækkana af hálfu ESB hlýtur að byggjast á því að fríverslunarsamningur EFTA við ESB frá 1971 sé ekki lengur í gildi. Er það svo? Er um tvöfaldan hræðsluáróður lögfræðinganna að ræða til þess að ýta undir þá skoðun að Íslendingum yrði úthýst ef þeir stæðu á rétti sínum gagnvart löglausum kröfum?

Þar sem ég hef nýlokið við að rita bók um Baugsmálið, vekur athygli mína að meðal þeirra sem rita undir þessa furðulegu yfirlýsingu eru verjendur Baugsmanna sem fluttu hverja rangfærsluna eftir aðra til að véfengja rétt minn til að minnast á Baugsmenn og Baugsmiðla á tíma málaferlanna. Þeir eru því vanir að beita hræðsluáróðri, hvort sem hann skilar árangri eða ekki.  


 

Þriðjudagur 15. 03. 11. - 15.3.2011

Þennan dag fyrir fimm árum var hringt í Geir H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra, frá Bandaríkjunum og honum sagt að bandaríska varnarliðið hyrfi af landi brott fyrir lok september 2006.

Sama dag voru Baugsmenn sýknaðir í héraðsdómi af ákæru sem þeim var kynnt 1. júlí 2005.

Ég minnti hér á síðunni á að þennan dag hefði Júlíus Sesar verið myrtur og vitnaði í Shakespeare af því tilefni. Þessi orð drógu dilk á eftir sér í málflutningi Baugsmanna og voru meðal annars kærð til mannréttindadómstólsins í Strassborg. Þá sögu ætla ég ekki að rekja hér enda er bráðlega væntanleg bók frá mér um Baugsmálið þar sem þessu er öllu haldið til haga.

Í bókinni er meðal annars rifjað upp að Arnþrúður Karlsdóttir og Össur Skarphéðinsson komust að þeirri niðurstöðu í samtali á útvarpi Sögu að Geir hefði líklega pantað samtalið frá Bandaríkjunum einmitt þennan dag til að draga athygli frá niðurstöðu héraðsdóms!

Merkilegt er að fjölmiðlar setji ekki fréttir af því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki lækkað laun sín sem handhafi forsetavalds og að Ólafur Ragnar hafi ekki sett forsetaembættinu siðareglur í rétt samhengi. Þarna er um að ræða stórveldastríð á milli forseta og forsætisráðherra. Á bakvið fréttirnar eru embættismenn á æðstu stöðum sem endurspegla reiði húsbænda sinna með því að koma neyðarlegum upplýsingum á framfæri.

Mánudagur 14. 03. 11. - 14.3.2011

Nú hafa birst fréttir um að þeir sem sitja í skilanefnd og slitastjórn Glitnis hafi hver um sig fengið um 70 milljónir króna í árslaun 2010 og þeir hafi ákveðið að hækka laun sín frá og með 1. janúar 2011. Bankamálaráðherrann Árni Páll Árnason telur að þeir sem þiggi þessi laun hafi komið af stað eftirlitslausri eilífðarvél til að skammta sjálfum sér laun.

Þegar visir.is bar launatölurnar undir Árna Pál mátti ætla að þær kæmu honum í opna skjöldu. Hann sagðist þó hafa falið ráðuneytismönnum að semja frumvarp til laga svo að taka mætti á málinu af öðrum en skilanefndinni eða slitastjórninni.

Þessi frétt er aðeins enn ein í safn frétta um furðulegt ráðslag ríkisstjórnarinnar þegar kemur að launamálum á vettvangi hins opinbera.Sunnudagur 13. 03. 11. - 13.3.2011

Vefsíðan Eyjan hefur breyst á verri veg eftir að Karl Th. Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, tók við ritstjórn hennar í umboði Björns Inga Hrafnssonar og þeirra sem eru fjárhagslegir bakhjarlar hans. Eyjan var líflegust og best á meðan Guðmundur Magnússon ritstýrði henni. Frá þeim tíma hefur sigið á ógæfuhliðina og nú er hún málgagn Samfylkingar, ESB-aðildar og stuðnings við Icesave III. Þar er ráðist á bændur fyrir að vilja standa vörð um íslenskan landbúnað og snúið út úr orðum þeirra sem vilja ekki gína við nýjustu útfærslunni á Svavarssamningnum um Icesave.

Ritstjóri síðunnar notar dálkinn Orðið á götunni til að kynna sjónarmið sín. Þar segir 13. mars:

„Björn Bjarnason tjáir sig enn einu sinni um Icesave á vef sínum í gær og ítrekar þar andstöðu sína við samkomulagið við Breta og Hollendinga.

Orðið á götunni er að þessi Björn Bjarnason geti varla verið sá sami og skrifaði m.a. þetta 16. nóvember 2008:

„Þegar samið er, hafa báðir nokkuð til síns máls. Ég hef aldrei hallast að þeirri skoðun, að samningar séu svik, þegar deilur milli ríkja eru leystar. Mér heyrist örla á því sjónarmiði í gagnrýni stjórnarandstöðu á samninginn um IceSave.

Það er siðaðra þjóða háttur að ljúka deilum með samkomulagi – hins vegar má ekki greiða samninga of dýru verði eða afsala sér rétti til að halda lagaskilyrðum til haga og nýta lögfræðilega túlkun til hins ýtrasta.“"

Að nota þessa tilvitnun til að gera afstöðu mína til Icesave III tortryggilega sýnir aðeins hve langt já-menn Icesave telja sig þurfa að ganga í veikri vörn sinni fyrir lélegan málstað.  Ég tel að Icesave III sé keypt alltof dýru verði auk þess sem ég hef eindregið sannfærst um réttmæti þess að Íslendingar nýti sér lögfræðina til hins ýtrasta í þessu máli. Hún er besta vörn smáþjóða þegar leitast er við að kúga þær af hinum stærri.
Laugardagur 12. 03. 11. - 12.3.2011

í dag skrifaði ég pistil um Icesave-samningana hér á síðuna, Því meira sem ég velti málinu fyrir mér þeim mun ákveðnari verð ég í andstöðu við að samþykkja Icesave III.

Föstudagur 11. 03. 11. - 11.3.2011

Í dag var Thor Vilhjálmsson, rithöfundur, jarðsunginn frá Dómkirkjunni. Séra Hjálmar Jónsson annaðist preststörf við athöfnina en Sigurður Pálsson, rithöfundur, flutti minningarorð. Tónlist var mikil og góð.

Við Thor kynntumst þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra. Hann heimsótti mig oft í ráðuneytið til skrafs og ráðagerða. Þá lagði Thor mikla rækt við listviðburði og menningarleg mannamót og skiptumst við jafnan á kveðjum þegar við hittumst við slík tækifæri. Ég tek undir með Sigurð Pálssyni þegar hann segir að Thor hafi verið hvetjandi og áhugasamur um annarra hag og velferð.

Stjórnmálaskoðanir okkar Thors fóru ekki saman en mörg menningarpólitísk viðhorf áttum við sameiginleg og ég held að fyrst höfum við rætt saman þegar ég lagði mitt lóð á vogarskálarnar til að koma í veg fyrir að Paul Zukofsky sliti tengsl sín við íslenskt tónlistarlíf en Thor áttaði sig vel á því hve mikils virði það var að hafa slíkan snilling reglulega hér með námskeið og Sinfóníuhljómsveit æskunnar.

Á norrænni menningarhátíð sem kennd er við frönsku borgina Caen fylgdist ég með Thor kynna verk sín og íslenskar bókmenntir á frönsku. Féll honum vel að eiga samneyti með erlendum menningar- og menntamönnum sem sýndu honum verðskuldaða virðingu.

Thor hafði sérstakan áhuga á að efla menningartengsl Íslands og Ítalíu og blása lífi í samning landanna um menningarmál. Var ánægjulegt að leggja honum lið í því efni og hlusta á frásagnir hans af fundum með ítölskum menningarmönnum.

Íslenskt menningarlíf verður svipminna við brotthvarf Thors Vilhjálmssonar - blessuð sé minning hans.


Fimmtudagur 10. 03. 11. - 10.3.2011

Þátturinn með okkur Sigurði Kára Kristjánssyni komst í loftið síðla kvölds eða í nótt eftir að útsendingar ÍNN hófust að nýju eftir bilun. Hér má sjá þáttinn.

Í gærkvöldi hafði ÍNN sett þáttinn Já á dagskrána klukkan 20.30 beint á eftir mínum þætti. Heyrði ég að í fjármálaráðuneytinu hefðu pólitískir samstarfsmenn Steingríms J. tekið að sér að sjá um þáttinn, enda er tilgangur hans að gefa þeim sem vilja samþykkja Icesave III færi á að kynna sjónarmið sín.

Þegar ég settist í dag og ætlaði að horfa á Já-þáttinn brá mér í brún því að þar stóðu þrír auðir stólar við borð með vatnskönnu og glösum. Enginn var sjáanlegur en í línu fyrir neðan stillmyndina stóð að enginn hefði komið til að annast þáttinn þrátt fyrir orð frá fjármálaráðuneytinu. Liðu síðan 30 mínútur án þess að nokkuð gerðist.

Áróðursmenn Steingríms J. hafa líklega komist að þeirri niðurstöðu að því minna sem þeir segðu um Icesave III þeim mun meiri líkur stæðu til þess að samningarnir yrðu samþykktir.


Miðvikudagur 09. 03. 11. - 9.3.2011

Í dag ræddi ég við Sigurð Kára Kristjánsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Ræddum við um Icesave III sem hann er andvígur, stjórnlagaráð í stað stjórnlagaþings og fleira í tengslum við störf alþingis. Þegar þátturinn átti að hefjast klukkan 20.00 sást ekkert á skjánum og virðist útsending ÍNN hafa rofnað í kvöld að minnsta kosti hjá mér sem horfi á stöðina í gegnum ljósnet Símans. Þegar þetta er ritað um 21.30 en þáttinn átti að sýna fyrst klukkan 20.00 er ég engu nær um hvað hefur gerst.

Samkvæmt upplýsingum sem mér bárust bilaði eitthvað í stjórnstöð stöðvarinnar. Í kvöld átti að sýna fyrsta þáttinn á henni með boðskap já-sinna í Icesave III. Tækin hafa líklega neitað að miðla þeim boðskap út á ljósvakann.

Mér skilst að Ingvi Hrafn hafi þurft að leita með logandi ljósi að einhverjum sem vildi taka að sér að kynna já-málstaðinn. Mér kemur því á óvart að sjá niðurstöðu könnunar hjá RÚV um að 62% ætli að segja já 9. apríl.

Það er greinilega mikið verk að vinna við að sýna þjóðinni hvílík fásinna það er að ætla ð taka að sér að ábyrgjast skuldir einabanka - heildarábyrgðin nálgast 700 milljarða króna, þótt ekki séu nefndar aðrar tölur en 47 milljarðar og kannski 240 milljarðar.

Hin samningsbundna áhætta er mjög matskennd og ágæti samninganna byggist á samanburði við hinn dæmalausa Svavarssamning, versta milliríkjasamning lýðveldissögunnar. Enginn samningur getur hugsanlega orðið verri en hann.

Þriðjudagur 08. 03. 11. - 8.3.2011 20:54

Enn reynir á ábyrgð ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Að þessu sinni á Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem fer, fyrir hönd ríkisins, með pólitískt forræði á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og ber ábyrgð á meðferð þeirra gagnvart alþingi. Þá ber hann ábyrgð á eigandastefnu ríkisins í þessum fyrirtækjum og hefur eftirlit með framkvæmd hennar.  Bankasýsla ríkisins ber ábyrgð á að framfylgja eigandastefnunni gagnvart fjármálaráðherra sem aftur hefur eftirlit með því að stofnunin vinni eftir lögum og eigandastefnu ríkisins.

Elín Jónsdóttir, lögfræðingur, forstjóri Bankasýslu ríkisins sat fyrir svörum í Kastljósi 8. mars vegna gagnrýni á laun bankastjóra Arion banka og Íslandsbanka en bankasýslan á einn fulltrúa í stjórn hvors banka, í Íslandsbanka sat fulltrúinn hjá við ákvörðun um laun bankastjóra en greiddi atkvæði með launakjörunum í Arion banka og hafa þau sætt mestri gagnrýni.

Eftir ríkisstjórnarfund að morgni 8. mars sagði Steingrímur J. að hann ætlaði að kanna hvernig fulltrúar á ábyrgð hans hefðu greitt atkvæði um bankastjóralaunin. Hvað skyldi Steingrímur J. segja nú þegar það hefur verið upplýst?  Ætli hann telji sig ekki þurfa að bíða eftir athugun Elínar sem ætlaði að heyra álit stjórnar bankasýslunnar?

Í reglum um starfshætti  bankasýslunnar  segir að almennar reglur gildi um launakjör í bönkum, þar sem ríkið á ekki meirihluti og þar ákveði stjórn launakjör. Þá segir í þessum reglum:

„Opinber fjármálafyrirtæki skulu tileinka sér hófsemi þegar kemur að launakjörum. Með þessu er átt við að laun stjórnenda eigi að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á, en séu ekki leiðandi.“

Þarna er greinilega horfið frá fyrirheiti Jóhönnu Sigurðardóttur um að laun í landinu eigi ekki að vera hærri en hennar eigin laun. Helst mátti skilja Elínu Jónsdóttur hjá bankasýslunni á þann veg, þegar hún komst að í Kastljósinu fyrir stjórnandanum, Þóru Arnórsdóttur, að henni þætti laun bankastjóra Arion banka í samræmi við þessa reglu frá Steingrími J. Þá vaknar spurning um hvernig hann, sjálfur fjármálaráðherrann, ætlar að grípa á málinu.

Í starfsreglum bankasýslunnar sem Steingrímur J. setti er tekið fram að stjórnir og bankaráð fjármálafyrirtækja skuli „koma sér upp undirnefndum“, þar á meðal starfskjaranefnd sem geri tillögu um launastefnu. Nú er spurning hvort stjórnarmaður á vegum bankasýslunnar situr í þeirri nefnd en reglurnar segja að auki: „Launafyrirkomulag skal vera gagnsætt og sanngjarnt miðað við almenna framvindu efnahagslífsins og að vel unnin störf stuðli að framgangi.“ Spyrja má, hvort þessa hafi verið gætt.


 

Lesa meira

Mánudagur 07. 03. 2011. - 7.3.2011

Norska blaðið Aftenposten birtir frétt í dag þar sem sagt er frá því að Norðmenn og embættismenn ESB vinni að því að meta EES-samninginn og samstarfið á grundvelli hans í ljósi tæplegra 20 ára sögu hans. Norski utanríkisráðherrann, sem er yfirlýstur stuðningsmaður aðildar Noregs að ESB, lýsir ánægju með EES-samninginn og hvergi í greininni er að finna minnstu efasemd um að samningurinn missi gildi sitt þótt svo ólíklega vildi til að Íslendingar samþykktu að ganga í ESB.

Um árabil gaf íslenska utanríkisráðuneytið til kynna að EES-samningurinn stæðist ekki tímans tönn. Þessi áróður þjónaði þeim eina tilgangi að ýta undir áhuga Íslendinga á að sækja um aðild að ESB. Evrópunefndin sem skilaði skýrslu í mars 2007 drap þessa neikvæðu umræðu um EES-samninginn en ekki þrá Samfylkingarinnar eftir að komast inn í ESB.

Önnur svipuð blekking í umræðunum um ESB-aðild er, að ekki sé að kasta krónunni og taka upp nýjan gjaldmiðil án þess að ganga í ESB. Þeim mun frekar sem seðlabankinn þróast í þjónustuhlutverki sínu við Jóhönnu og Steingrím J. því brýnna verður að skipta um mynt.

Sunnudagur 06. 03. 11. - 6.3.2011

Hvarvetna þar sem vakið er máls á óvissu í heiminum um þessar mundir staðnæmast menn við fæðuöryggið, spurninguna um það hvernig þjóðir og ríki geti sem best tryggt öryggi sitt á því sviði miðað við síhækkandi verð á matvælum og óróa í arabaheiminum, þar sem ekki er aðeins framleidd olía heldur einnig mikið af hvers kyns matvælum. Þá hafa Kínverjar tryggt sér stór landsvæði í Afríku til að eiga öruggan aðgang að ræktanlegu landi.

Hér á landi eru hins vegar ESB-aðildarsinnaðir álitsgjafar önnum kafnir við gera forystumenn íslenskra bænda tortryggilega þegar þeir hvetja til þess að ekki sé gripið til neinna ráðstafana af hálfu íslenskra stjórnvalda sem draga úr fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Skammsýni álitsgjafanna er dæmalaust og reiknikúnstir þeirra marklausar, þegar litið er til þess hve langan tíma tekur að bæta það sem yrði eyðilagt með því að vega að grunngerð íslensks landbúnaðar eins og gert yrði með ESB-aðild.

Fréttastofa RÚV og þáttastjórnendur þess starfandi og fyrrverandi telja sig þarna hafa fundið jarðveg fyrir ESB-áróður sinn.

Laugardagur 05. 03. 11. - 5.3.2011 20:41

Furðu vekur að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, ætlar  ekki að birta skýrslu stjórnlaganefndar sem hefur starfað undir formennsku Guðrúnar Pétursdóttur samkvæmt umboði alþingis til að undirbúa efni í hendur stjórnlagaþings. Þingið átti að hefja störf 15. febrúar en mun aldrei koma saman þar sem hæstiréttur ógilti kosningar til þess.

Þrír þingmenn flytja tillögu til þingsályktunar í því skyni að breyta þeim sem fengu flest atkvæði í hinum ógildu kosningum í stjórnlagaráðsmenn sem starfi samkvæmt skipunarbréfi frá forseta alþingis. Innanríkisráðherra líkir tillögunni við fjallabaksleið til að fara á svig við ákvörðun hæstaréttar.

Að Ásta Ragnheiður ætli að liggja á skýrslu stjórnlaganefndar til að tefja fyrir opinberum umræðum um hana er í samræmi við annað í þessu dæmalausa máli.

Rétt er geta þess að yfir málinu svífur eindreginn vilji Jóhönnu Sigurðardóttur til að þjóðin fari ekki á mis við endurskoðun stjórnarskrárinnar - í þeim anda starfar Ásta Ragnheiður líklega að eigin mati þegar hún leggst á greinargerð stjórnlaganefndar.

Lesa meira

Föstudagur 04. 03. 11. - 4.3.2011

Mig undrar mjög hve langt lögmennirnir Lárus L. Blöndal og Jóhannes Karl Sveinsson ganga við að verja Icesave III samningana sem þeir gerðu í nefndinni með Lee Bucheit. Ég minnist þess ekki að opinberir nefndarmenn hafi áður látið svo mjög að sér kveða við að verja niðurstöðu sína. Venjulega láta slíkir menn við það sitja að skila ráðherra niðurstöðu sinni og snúa sér síðan að öðru. Hin pólitíska ábyrgð á málinu hvílir í Icesave-málinu á Steingrími J. Sigfússyni. Skyldi hann hafa fengið lögmennina til að stunda alvörn fyrir sig?

Fimmtudagur 03. 03. 11. - 3.3.2011

Í dag sat ég fyrir svörum í þættinum Undir feldi á ÍNN og ræddi um ESB-aðildarmál.

Miðvikudagur 02. 03. 11. - 2.3.2011

Nefndin sem samdi við Breta og Hollendinga um Icesave III hefur líklega farið í tíma hjá Steingrími J. Sigfússyni sem sagði vorið 2009 að Svavar Gestsson, vinur sinn, væri að ná „glæsilegri niðurstöðu“ þegar hann var tekinn til við að landa versta milliríkjasamningi Íslandssögunnar.


Icesave III samningurinn er vissulega betri en Svavarssamningurinn. Nú er hann sagður svo góður að Íslendingar þurfi ekkert að borga samkvæmt honum. Er ekki unnt að sannfæra Breta og Holllendinga um það? Falla þeir þá ekki frá samningnum fyrir sitt leyti og hirða það sem samningamennirnir segja að standi undir því sem þarf að greiða? Geri þeir það ekki hljóta Íslendingar að sjálfsögðu að segja nei við samningnum og benda Bretum og Hollendingum á greinargerð íslensku samningamannanna um hina „glæsilegu niðurstöðu".


Góðir hlutir gerast stundum hægt. Nú hefur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, loks látið sannfærast um nauðsyn þess að lögreglan fá forvirkar rannsóknarheimildir og meira að segja Össur Skarphéðinsson tekur undir með honum. Öðru vísi mér brá þegar ég hreyfði nauðsyn þessa í þingsalnum eða á öðrum vettvangi. Þá glumdi gagnrýni ekki aðeins í þinginu heldur einnig hjá álitsgjöfum í bloggheimum. Mér sýnist þeir meira að segja halda sér á mottunni núna. 

Ég les á vefsíðu Ögmundar: „ ... lagði áherslu á að jafnframt því sem rannsóknarheimildir lögreglu yrðu víkkaðar þannig að þær næðu til hópa en ekki einvörðungu einstaklinga, yrði eftir sem áður byggt á dómsúrskurðum.“ Af þessum orðum mætti ráða að einhverjum hefði hér á landi dottið í hug að forvirk heimild lögreglu kæmi til sögunnar án atbeina dómstóla. Engum hefur dottið slíkt í hug eins og Ögmundur getur kynnt sér af gögnum sem liggja fyrir um málið frá minni tíð í dómsmálaráðuneytinu.

Fróðlegt verður að sjá, hvernig takmarka á rannsóknarheimild við hópa en ekki einstaklinga.

Líklegt er að Össur Skarphéðinsson fallist nú á að slíkar heimildir verði veittar, þar sem hann gerir sér grein fyrir því að án þeirra verður Ísland ekki aðili að Evrópusambandinu. Ögmundur er að vinna að aðlögun að ESB með tillögu sinni um leið og hún er nauðsynleg til að styrkja öryggisgæslu í landinu. 

Þriðjudagur 01. 03. 11. - 1.3.2011

Flugferðin frá Boston tók 4 tíma og 20 mínútur, þannig að við lentum nokkru á undan áætlun í morgun klukkan 06.00 eftir vel heppnaða qi gong ferð.