Fimmtudagur 10. 03. 11.
Þátturinn með okkur Sigurði Kára Kristjánssyni komst í loftið síðla kvölds eða í nótt eftir að útsendingar ÍNN hófust að nýju eftir bilun. Hér má sjá þáttinn.
Í gærkvöldi hafði ÍNN sett þáttinn Já á dagskrána klukkan 20.30 beint á eftir mínum þætti. Heyrði ég að í fjármálaráðuneytinu hefðu pólitískir samstarfsmenn Steingríms J. tekið að sér að sjá um þáttinn, enda er tilgangur hans að gefa þeim sem vilja samþykkja Icesave III færi á að kynna sjónarmið sín.
Þegar ég settist í dag og ætlaði að horfa á Já-þáttinn brá mér í brún því að þar stóðu þrír auðir stólar við borð með vatnskönnu og glösum. Enginn var sjáanlegur en í línu fyrir neðan stillmyndina stóð að enginn hefði komið til að annast þáttinn þrátt fyrir orð frá fjármálaráðuneytinu. Liðu síðan 30 mínútur án þess að nokkuð gerðist.
Áróðursmenn Steingríms J. hafa líklega komist að þeirri niðurstöðu að því minna sem þeir segðu um Icesave III þeim mun meiri líkur stæðu til þess að samningarnir yrðu samþykktir.