Dagbók: febrúar 2004
Sunnudagur, 29. 02. 04
Vorum í Fljótshlíðinni um helgina og fórum síðdegis í messu hjá séra Önundi Björnssyni að Hlíðarenda. Þar var stór hópur eldri borgara og drukkum við með þeim kaffi að lokinni messu að Goðalandi í boði safnaðarins.
Föstudagur, 27. 02. 04.
Fór klukkan 13.45 um borð í danska her- og eftirlitsskipið Vædderen í Reykjavíkurhöfn og skoðaði það hátt og lágt undir leiðsögn skipstjórans og í fylgd danska sendiherrans auk embættismanna.
Fimmtudagur, 26. 02. 04.
Héldum klukkan 08.30 frá hótel Héraði að Kárahnjúkum í fylgd Helga Jenssonar, fulltrúa sýslumanns á Seyðisfirði, og Vals Magnússonar lögreglufulltrúa við embættið. Vorum komnir um klukkan 10.00 á virkjunarsvæðið, en á leiðinni var gott veður, þótt á köflum væri dimmt vegna skafrennings. Það blés dálitíð á Kárahnjúkum en var bjart yfir og 12 stiga frost.
Hittum forsystumenn Impregilo á fundi, Þeir gerðu okkur grein fyrir framkvæmdunum og fóru yfir ýmis mál. Síðan héldum við niður á stíflusvæðið, þar sem Jöklu hefur verið veitt í hjáleiðslugöng og menn hafa hafist handa við undirstöður stíflunnar miklu.
Snæddum hádegisverð í hinu mikla mötuneytí, sem þjónar starfsmönnum Impregilo og fórum síðan í stöðvar Landsvirkjunar á svæðinu og hittum fulltrúa fyrirtækisins og auk þess trúnaðarmann starfsmanna.
Héldum frá Kárahjúkum um klukkan 13.00 og heimsóttum í bakaleiðinni hjónin að Skriðuklaustri, sem halda staðnum vel í glæsileika sínum og fengum höfðinglegar móttökur.
Tókum vél frá Egilsstöðum klukkan 16.10 og var hún á áætlun.
Miðvikudagur, 25. 02. 04.
Hélt með embættismönnum dómsmálaráðuneytisins um hádegisbil til Egilsstaða, aldrei þessu vant var 30 mínútna seinkun á vél Flugfélags Íslands. Við komuna til Egilsstaða héldum við til Þorgerðar Erlendsdóttur héraðsdómara og kynntum okkur starfsemi héraðsdómstóls Austurlands.
Ókum síðan á Eskifjörð og hittum Inger L. Jónsdóttur sýslumann og samstarfsfólk hennar á sýsluskrifstofunni. Funduðum með henni Jónasi Wilhelmssyni yfirlögregluþjóni og öðrum lögreglumönnum en héldum síðan í Norfjörð, fórum á netabryggjuna og kynntum okkur aðstæður, þar sem líki af Litháa hafði verið varpað í höfnina. Fórum í Egilsbúð og þágum kaffiveitingar í boði Guðmundar Bjarnasonar bæjarstjóra og Smára Geirssonar forseta bæjarstjórnar. Fórum síðan í lögreglustöðina í Neskaupstað og ræddum við lögreglumenn og kvöddum þar sýslumann og samstarfsmenn hennar.
Gistum á hótel Héraði, Egilsstöðum.
Föstudagur, 20. 02. 04.
Ríkisstjórnarfundur var að að venju klukkan 09.30 og lauk honum ekki fyrr en undir 11.30. Þá efndi ég til reglulegs fundar með skrifstofustjórum í ráðuneytinu, þar sem við fórum yfir mál, sem eðlilegt er að ræða á slíkum sameiginlegum vettvangi. Í hádeginu hitti ég þá félaga mína, sem komu til málsverðar, en í meira en 30 ár höfum við nokkrir haldið þeirri venju að koma saman í hádegi á föstudögum. Klukkan 15.00 var fundur í ritstjórn stjórnarráðssögu en klukkan 16.30 talaði ég um líkfundinn í Norðfirði og lögreglumál við þá Þorgeir og Kristófer, sem sjá um síðdegisþátt á Bylgjunni. Af þeim, sem eru með slíka þætti, sýna þeir félagar mestan áhuga á þeim málum, sem eru til meðferðar á verksviði dómsmálaráðuneytisins og reyni ég jafnan að bregðast við óskum þeirra um samtal.
Klukkan 19.30 hófst þingveislan að Hótel Sögu.
Fimmtudagur, 19. 02. 04.
Flaug klukkan 08.30 frá Heathrow til Brussel og var kominn þangað um klukkan 11.00 að staðartíma. Þórunn J. Hafstein, skrifstofurstjóri hjá EFTA, og fyrrverandi samstarfsmaður minn í menntamálaráðuneytinu, tók á móti mér á flugvellinum og höfðum við tíma til að skreppa í ensku bókabúðina í miðborg Brussel, áður en ég hitt Hauk Guðmundsson, fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, í sendiráðinu í Brussel og við bjuggum okkur undir ráðherrafund um Schengen-málefni.
Klukkan 13.00 var tveggja tíma vinnu-hádegisverður, þar sem ráðherrar ræddu óformlega um þau málefni, sem hæst ber, þar á meðal gagnkvæma vegabréfaskyldu og persónuleg kennileiti (biometrics) í vegabréfum. Javier Solana, sem fer með utanríkis- og öryggismál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tók þátt í málsverðinum og flutti ræðu um tengsl innra og ytra öryggis.
Að loknum þessum hádegisverðarfundi hófst hinn formlegi fundur. Honum var lokið rúmlega 15.30 og þá sá ég, að tími gafst fyrir mig til að taka vél fyrr frá Brussel en ég hafði ætlað og í stað þess að fara í gegnum London heim ákvað ég að fara um Kaupmannahöfn, sem þýddi að ég lenti rúmlega 22.00 í Keflavík í stað þess um miðnætti.
Miðvikudagur, 18. 02. 04.
Var með hefðbundin viðtöl í ráðuneytinu fyrir hádegi eins og jafnan á miðvikudögum. Auðveldara er að halda biðlistanum í lágmarki í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu en í menntamálaráðuneytinu, því að mun færri biðja um viðtöl við mig hér en í mínu fyrra ráðuneyti. Umræðurefnið er annars eðlis hér en á hinum staðnum og margt átakanlegt í mannlegum samskiptum fæ ég að heyra í þessum trúnaðarsamtölum. Við sumu er unnt að bregðast en annað er þess eðlis, að ráðherra getur ekki haft nein afskipti af því.
Um klukkan 14.30 svaraði ég fyrirspurn Marðar Árnasonar á alþingi um áfengisauglýsingar.
Síðan hélt ég út á Keflavíkurflugvöll en klukkan 17.00 hélt ég með Icelandair til London - gisti þar úti á flugvelli. Sá í bresku blöðunum, að mikil umræða er á breskum stjórnmálavettvangi um viðbrögð við frjálsri för manna á hinu stækkaða Evrópusambandssvæði eftir 1. maí 2004. Íhaldsmenn gagnrýna Blair og stjórn hans fyrir ráðleysi.
Þriðjudagur, 17. 02. 04.
Fór um hádegisbil til Selfoss en þar fór ég með starfsmönnum ráðuneytisins í heimsókn til Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns og samstarfsmanna hans á sýsluskrifstofunni og lögreglustöðinni. Var fróðlegt að kynnast því, hvernig starfið hjá sýslumanni og lögreglumönnum hefur breyst á síðustu árum með stórfjölgun sumarbústaða á svæðinu. Byggðamynstrið er að breytast á þessum slóðum og hefur það rík áhrif á störf sýslumanns og hans fólks. Athyglisvert var að heyra, hve sumarbústaðaeigendur eru tregir til að setja öryggismerkingu á hús sitt, en slík merking er besta úrræðið til að tryggja skjót viðbrögð lögreglu eða sjúkraliða á hættustundu. Undir lok heimsóknarinnar rituðum við sýslumaður undir árangursstjórnunarsamning.
Mánudagur 16. 02. 04.
Klukkan 18.00 buðum við laganemum til fordrykks á Hótel Sögu áður en árshátíð þeirra hófst í 50. sinn, þar sem ég flutti hátíðarræðu,
Föstudagur 13. 02. 04.
Um kvöldið var árshátíð stjórnarráðsins haldin að hótel Nordica. Hefur hún aldrei verið fjölmennari og rúmaðist tæplega 700 manna hópurinn ekki í stóra ráðstefnu- og veislusal hótelsins. Heppnaðist hátíðin vel en ég var undrandi á því, hve hljóðkerfi þessa nýja ráðstefnuhúss virkaði illa og hve erfitt virtist að ná með því til alls þessa hóps - raunar tókst Davíð Oddssyni forsætisráðherra það vel, en hann flutti snjalla hátíðarræðu.
Fimmtudagur, 12. 02. 04.
Fór um hádegisbilið til Reykjanesbæjar og ritaði þar undir samning bæjarins og Útlendingastofnunar um móttöku hælisleitenda, sem bærinn hefur tekið að sér.
Við rituðum undir samninginn í Duus-húsi, en við hliðina á salnum, þar sem við vorum, var Árni Johnsen að setja upp sýningu sína á steinverkum, sem hann hafði gert, á meðan hann sat inni á Kvíabryggju. Leit ég inn til Árna, hitti hann og skoðaði verkin undir leiðsögn hans. Þennan dag var hann einmitt laus úr fangavist.
Klukkan 19.00 ræddi ég um utanríkismál í stjórnmálaskóla SUS.
Miðvikudagur, 11. 02. 04
Fór á Rotary-fund í hádeginu og hlustaði á Sigurð Helgason, forstjóra Flugleiða hf., flytja fróðlegt erindi um sterka stöðu félagsins.
Þriðjudagur 10. 02. 04
Dagurinn snerist að verulegu leyti um málefni sérsveitar lögreglunnar og hitti ég hana meðal annars að máli síðdegis á fundi í dómsmálaráðuneytinu auk þess að ræða við forystumenn lögreglunnar og landssambands hennar.
Mánudagur, 09. 02. 04
Fór rúmlega 09.00 í heimsókn til Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fyrst um höfuðstöðvarnar í Skógarhlíð, síðan til Hjálparsveitar skáta, þá út á Seltjarnanes til slysavarnadeildar kvenna auk þess að kynnast sjó- og rústabjörgunardeildum hjá björgnuarsveitinni Ársæli, loks niður á höfn um borð í björgunarskipið Ásgrím S. Björnssonn og sigldi með því út á ytri höfn.
Fórum á milli staða í björgunarsveitarjeppa.
Var þetta mjög fróðleg og skemmtileg ferð og traustvekjandi að kynnast því, hve vel er að þessum störfum staðið og við góðar aðstæður.
Laugardagur, 07. 02. 04
Klukkan 19.30 var afmælisveisla stjórnarráðsins í Iðnó, þegar forsætisráðherrahjónin buðu þangað ríkisstjórn, ráðuneytisstjórum og fyrrverandi ráðherrum.
Föstudagur, 06. 02. 04
Flutti klukkan 13.00 ræðu á fundi SAFT og Heimilis og skóla um rétt barna til öryggis á Netinu.
Fórum austur í Fljótshlíð og vorum um kvöldið á fundi í Goðalandi, þar sem Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur flutti erindi um eldvirkni í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli með hliðsjón af hættunni á því, að flóð færi vestur um og niður í Landeyjar.
Fimmtudagur, 05. 02. 04
Borgarstjórn kom saman síðdegis en fundað var fram á kvöld á alþingi til að afgreiða frumvarp vegna sparisjóða.
Þriðjudagur, 03. 02. 04
Klukkan 15.00 fór ég í Fasteignamat ríkisins og kynnti mér landskrá fasteigna og ritaði undir samning um nýtingu hennar í þágu sýslumannsembætta.
Sunnudagur 01. 02. 04
Klukkan 12.00 var ríkisstjórnarfundur í Ráðherrabústaðnum til að ganga frá reglugerð um stjórnarráðið í tilefni 100 ára afmælis þess og klukkan 12.30 ríkisráðsfundur á sama stað til að staðfesta reglugerðina.
Klukkan 13.30 var athöfn í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem forsætisráðherra voru afhent fyrstu eintökin af sögu stjórnarráðsins
Klukkan 17.00 fór ég á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur undir stjórn Pauls Zukofskys í Langholtskirkju.
Klukkan 19.45 fórum við Rut í Þjóðmenningarhúsið og tókum þátt í athöfn í tilefni af afmæli heimastjórnarinnar.