17.2.2004 0:00

Þriðjudagur, 17. 02. 04.

Fór um hádegisbil til Selfoss en þar fór ég með starfsmönnum ráðuneytisins í heimsókn til Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns og samstarfsmanna hans á sýsluskrifstofunni og lögreglustöðinni. Var fróðlegt að kynnast því, hvernig starfið hjá sýslumanni og lögreglumönnum hefur breyst á síðustu árum með stórfjölgun sumarbústaða á svæðinu. Byggðamynstrið er að breytast á þessum slóðum og hefur það rík áhrif á störf sýslumanns og hans fólks. Athyglisvert var að heyra, hve sumarbústaðaeigendur eru tregir til að setja öryggismerkingu á hús sitt, en slík merking er besta úrræðið til að tryggja skjót viðbrögð lögreglu eða sjúkraliða á hættustundu. Undir lok heimsóknarinnar rituðum við sýslumaður undir árangursstjórnunarsamning.