Dagbók: ágúst 2008

Sunnudagur, 31. 08. 08. - 31.8.2008 17:28

Veðurblíðan hélt áfram í Kaupmannahöfn í dag, rúmlega 20 stiga hiti og sól.

Fórum kl. 11.00 í Ny Calsberg Glyptotek hlustuðum á Sjællands Strygekvartet flytja tvo kvartetta Beethovens við mikla hrifningu. Umgjörð tónleikanna er einstök. Þar til fyrir nokkrum árum var íslenska sendiráið á Dantes Plads beint á móti Glyptotekinu.

Síðdegis gengum við um Tivolí og hittum þar fyrir framan látbragðsleikhúsið hjónin Æsu Bjarnadóttur og Sverri Jakobsson auk bróður Sverris, Ármann.

Sáum síðan verðlaunamyndina The Visitor, sem snýst meðal annars um málefni útlendinga í Bandaríkjunum. Hún er gerð af sömu naumhyggju og til dæmis Das Leben der Anderen. Engu er þröngvað upp á áhorfandann en allt sagt, sem segja þarf, til að skapa mikla dýpt.

Laugardagur, 30. 08. 08. - 30.8.2008 16:44

Flugum frá Vilníus klukkan 12.55 og lentum 13.30 á dönskum tíma í Kaupmannahöfn - færðum klukkuna til baka um eina stund á leiðinni.

Í morgun gafst tækifæri til að skoða gamla bæinn í Vilnius, sem er á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1994, tæpir 250 ferkílómtetrar og viðö endurreisn hans er gætt ákveðinna regla, sem útiloka alls ekki þróun gamla bæjarins og nýtingu mannvirkja þar.

Háskólinn er stór og mikill og er til marks um ríkidæmi Litháens, þegar ríkið var stærst og voldugast. Litháar voru síðastir Evrópubúa til að taka kristni, engui að síður er gamli bærinn þéttskipaður kirkjum, ef svo má segja. Þær hafa allar verið endurgerðar eftir Sovéttímann, en þá var þeim breytt í söfn eða bílaverksstæði.

Okkur var einnig boðið að skoða forsetahöllina, mikið og glæsilegt hús, þar sem forsetinn hefur skrifstou sína og ráðgjafar hans. Þar eru heiðursmerki forseta til sýnis, þar á meðal stórriddarakross íslensku fálkaorðunnar með stjörnu. Hann var veittur Valdas Adamkus árið 1998, þegar hann var fyrst kjörinn forseti. Leiðsögukona okkar sagði, að fálkaorðan sé fyrsta heiðursmerki hans sem forseta, enda hefði Ísland orðið fyrst ríkja til að viðurkenna Litháen 1991.

Hvað eftir annað var okkur Íslendingunum sérstaklega fagnað vegna hinnar fyrstu viðurkenningar, þar á meðal í fangelsinu, sem við skoðuðum í gær.

Það var sólbjart en frerkar andkalt í Vilnius og taldi fólk augljóst, að haustið væri að nálgast. Í Kaupmannahöfn er einnig sólbjart en hlýtt, 22 gráður, og mikill mannfjöldi nýtur góða veðursins í miðborginni. Allt frá Ráðhústorgi og niður að nýja leikhúsinu við höfnina, skáhallt á móti óperunni og samastað íslenska sendiráðsins.

Föstudagur, 29. 08. 08. - 29.8.2008 20:49

Flugum klukkan 08.15 frá Berlín til Vilníus og lentum þar um kl. 11.00 að staðartíma en við færðum klukkuna fram um eina stund á leiðinni.

Síðdegis sat ég fund með Petrus Baguska, dómsmálaráðherra, í ráðuneyti hans og ræddum við samstarfsáætlun ráðuneyta okkar og flutning litháiskra fanga til Litháen en nú er öllum formsatriðum lokið vegna þriggja fanga og eru þeir brátt á förum frá Íslandi til að taka út refsingu í heimalandi sínu.

Eftir hátíðlega undirritun samstarfssamkomulagsins héldum við í heimsókn í fangelsi nr. 2 í Vilníus, þar sem eru 473 fangar, enginn þeirra er að taka út fyrstu refsingu sína og allir eru fullorðnir karlmenn.

John McCain hefur valið Söru Palin sem varaforsetaefni sitt. Hún flutti ræðu við setningu þingmannaráðstefnunnar um norðurheimskautmál í Fairbanks í Alaska á dögunum, en þar er hún ríkisstjóri. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsilegur fulltrúi ríkis síns og góður ræðumaður. Hvað sem öðru líður er henni vel kunnugt um breytingar á norðurslóðum og nauðsyn þess að bregðast við þeim með nýjum aðferðum af hálfu Bandaríkjamanna. Þá er hún einnig kynnt til sögunnar sem einörð baráttukona fyrir hægrisinnuðum sjónarmiðum.

Fimmtudagur, 28. 08. 08. - 28.8.2008 20:12

Sigurbjörn Einarsson biskup andaðist í dag og er öllum harmdauði. Nú er skarð fyrir skildi, þegar svo öflugur málsvari kristni og mannúðar er fallinn frá. Blessuð sé minnning hans.

Ég varð við óskum þeirra fjölmiðlamanna, sem báðu mig að minnast hins aldna kirkjuhöfðingja.

Í morgun sátum við fund í Berlín með Bundeskriminalamt,  rannsóknarlögreglu þýska sambandsríkisins. Ræddum við hlutverk og viðfangsefni embættisins. Fyrir sameiningu Þýskalands voru höfuðstöðvarnar í Wiesbaden en nú er starfsemi þeirra að flytjast til Berlínar. Þetta lögreglustarf eins og annað mótast mjög af sjálfstæði 16 sambandslanda, sem hvert um sig hefur eigin lögreglu, þar á meðal rannsóknarlögreglu og leyniþjónustu.

Skipulag lögreglunnar byggist á því meginsjónarmiði, að aldrei verði neitt til í Þýskalandi, sem líkist Gestapo í nokkru tilliti. Valddreifing og skýrar valdheimildir ráða öllu skipulagi lögreglunnar auk þess sem skipan í einstökum sambandslöndum tekur mið af því, hvort þau voru á hernámssvæði Bandaríkjamanna, Breta, Frakka eða Rússa, þegar lagt var á ráðin um ný lögreglulið eftir stríð. 

Skammt frá fundarstað okkar er sovéska stríðsmerkið í Treptow og litum við inn í garðinn og skoðuðum þetta risa-minnismerki um sigur herja Stalíns yfir þýska hernum. Ég segi Stalíns, því að minnismerkið var reist 1948 til 1949 ekki síður til heiðurs Stalín en rússnesku hermönnunum, sem létu lífið fyrir ættjörðina.

Móðir jörð, Rússland, krýpur fyrir risastyttu í fjarlægð af hermanni með barn í fanginu með brotinn hakakrossinn við fætur sér. Á leiðinni frá móður að hermanni eru fimm risa-sigurkrossar, einn fyir hvert ár stríðsins við nasista, og á stöplum eru áletranir með hvatningarorðum Stalíns á þýsku og rússnesku.

Síðdegis gafst tóm til að skoða Kongresshalle eða Kulturhaus, sem Bandaríkjamenn reistu í Tiergarten og opnað var 1957. Ég veit ekki um neitt annað hús í sögunni, sem var svo öflugt vopn í kalda stríðinu, að Sovétménn sendu orrustuþotur í 100 m. hæð yfir það í því skyni að trufla fundi, sem þar voru haldnir.

Ferð um Berlín lauk í hinu einstæða Pergamon-safni, þar sem nú er Babylon-sýning, sem hefur að verleikum vakið heimsathygli.

Miðvikudagur, 27. 08. 08. - 27.8.2008 17:06

Ókum snemma morguns frá Berlín til Potsdam, þar sem eru höfuðstöðvar þýsku ríkislögreglunnar, Bundespolizeipresidium. Var okkur kynnt starfsemi hennar og sérstaklega landamæravarsla á flugvöllum, en með stækkun Schengen er ekki haldið uppi neinni landamæravörslu á landi í Þýskalandi - nema gagnvart Sviss, þar til landið verður fullgildur aðili að Schengen.

Nokkur kvíð var í Þýskalandi í desember sl., þegar landamærastöðvar á landi hurfu innan Schengen-svæðisins. Töldu Þjóðverjar, að ólöglegt fólk myndi streyma inn í land þeirra. Ekkert slíkt hefur gerst og ný ríkir sátt um afnám landamæravörslunnar, en vegna hennar var ríkislögreglan endurskipulögð og tók hin nýja skipan gildi í febrúar á þessu ári.

Á flugvellinum í Frankfurt am Main er unnið að mörgum spennandi verkefnum við landamæragæslu. Til dæmis er unnt að láta skanna lithimnu (iris) sína á vellinum, tekur 10 mínútur, og eftir það geta menn afgreitt sig sjálfir í gegnum vegabréfaskoðun við komu eða brottför með því að ganga að sérstökum skanna við vegabréfahliðin. Rúmlega 20.000 manns hafa þegar nýtt sér þetta tilboð.

Síðdegis hittum við forystumenn leyniþjónustu Berlínarborgar - Senatsverwaltung für Inneres - Abteilung Verfassungsschutz. Var okkur sagt frá heimildum hennar til upplýsingaöflunar, eftirliti með starfsemi hennar af hálfu þingsins i Berlín, tengslum við leyniþjónustur í öðrum sambandslöndum Þýskalands og við alríkisstofnanir á þessu sviði.

Telji þjónustan í Berlín nauðsynlegt að hlera síma eða hafa afskipti af póstsendingum einstaklinga, ber hún tilmæli um það  með leynd undir fimm manna nefnd, sem kjörin er af þingi Berlínar. Síðan fylgist sérstök þingnefnd með störfum nefndarinnar. Það er misjafnt eftir sambandslöndum, hve víðtækt umboð þessar þjónustur hafa.

Sérstaða Þýskalands í þessum efnum felst í tengslunum milli sambandsríkisvaldsins og valds einstakra sambandslanda, sem hvert um sig hefur skipað lögreglumálum á sinn hátt. Lengi hefur verið rætt um nauðsyn samhæfingar um landið allt í tveimur málaflokkum: menntamálum og lögreglumálum.

 

Þriðjudagur, 26. 08. 08. - 26.8.2008 21:25

Hitti dr. Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, í dag. Við ræddum saman í klukkustund í ráðuneyti hans og síðan í tvo tíma í hádegisverði á Hilton-hótelinu við Gendarmemarkt, þar sem áður var Austur-Berlín og sagðist ráðherrann hafa gist á hótelinu á sínum tíma, þegar hann var að semja við stjórn kommúnista í DDR, alþýðulýðveldinu A-Þýskalandi, en hún hefði undir lok ferils síns leyft erlenda fjárfestingu og sóst eftir að fá bandarísk fyrirtæki til landsins.

Schäuble er í forystu innan Schengen-samstarfsins og er mikils virði að njóta stuðnings hans við aðild Íslands að Prüm-lögreglusamstarfinu, en fyrir hans frumkvæði er það orðið að þætti í Evrópusamstarfi lögregluliða.

Í áranna rás hef ég hitt marga stjórnmálamenn, er Schäuble í hópi hinna merkustu þeirra. Honum hafa verið falin erfið verkefni á þýskum stjórnmálavettvangi og býr því yfir ótrúlega mikilli reynslu og þekkingu. Hann varð fyrir skotárás árið 1990 og hefur síðan verið í hjólastól.

Eftir hádegisverðinn gafst tóm til að ganga út á Unter den Linden í áttina að Alexanderplatz, sem var skrautfjöður DDR með sjónvarpsturni, er gnæfði yfir alla Berlín. Á leiðinni rakst ég á DDR-museum við ána Spree. Skrýtið safn um DDR, sem var þó enn skrýtnara og óhugnalegra en safnið. Í raun er ekki unnt að afgreiða ógnarstjórn kommúnista með þvi að gera grín að henni. Hvað yrði sagt, ef Þjóðverjar nálguðust nasistatímann á þennan hátt?

Ég skoðaði einnig sýningu í Deutsche Dom um þróun þýsks lýðræðis. Þar eru sýndar upptökur úr þýska þinginu af frægum umræðum, þar á meðal frá 1983 um tvíþætta ákvörðun NATO um kjarnorkuflaugar í Evrópu. Þar var Otto Schíly meðal ræðumanna fyrir hönd græningja og taldi Evrópu kunna að farast, ef ákvörðun NATO næði fram að ganga. Schily var forveri Schäuble í embætti innanríkisráðherra og jafnvel einarðari en hann um nauðsyn þess að tryggja öryggi Þjóðverja gegn hryðjuverkamönnum.  Sagt er, að ekki sé unnt að veita Schäuble meiri gagnrýni en segja hann taka léttar á öryggismálum en Schily hefði gert!

Mánudagur, 25. 08. 08. - 25.8.2008 20:38

Flugum kl. 07.45 til Kaupmannahafnar og þaðan klukkan 14,15 til Berlínar, þar sem lent var um 15.15. Búum nálægt Friedrichstrasse, Unter den Linden og Checkpoint Charlie, en þangað gengum við fyrir kvöldverð.

Austurhluti Berlínar er óþekkjanlegur frá því áður en múrinn hvarf. Friedrichstrasse er nú iðandi verslunargata, þar sem 250 milljón króna bílar eru til sýnis í gluggum. Frá Unter den Linden mátti sjá innpakkaðan Volkswagen bíl í verslunarglugga. Það er líklega nýi bíllinn, sem á að afhjúpa á Íslandi að viðstöddum 1500 blaðamönnum.

Sunnudagur, 24. 08. 08. - 24.8.2008 20:52

Silfurverðlaun í handbolta karla á Ólympíuleikum er eitt af þeim afrekum, sem erfitt er að setja í samhengi til að átta sig á stærð þess. Ólafur Stefánsson, fyrirliði landsliðsins, nálgast stærðina best með heimspekilegum hugleiðingum um hetjuna innra með hverjum og einum. Ein viðmiðun er, að á leikunum í Peking komust lið frá 87 af 204 þátttökulöndum á verðlaunapallinn. Ég segi við alla, sem hlut eiga að sigrinum glæsilega: Innilega til hamningu!

Starfsbróðir minn Össur Skarphéðinsson hefur verið í uppnámi vegna velgengni strákanna okkar, eins og þessar færslur á síðu hans sýna. Þessi er skrifuð undir leiknum við Frakka:

„Í hálfleik róa ég mig niður með kaffi og les Moggann, sem mér sýnist að fjalli bara um Hönnu Birnu. Ekki boðar það gott fyrri seinni hálfleikinn.“

Hér er Össur pirraður yfir, að menntamálaráðherra ákvað að fara til Peking, þegar augljóst var, að liðið myndi keppa um gullið við Frakka:

„Nú verður Þorgerður Katrín að vinna daginn og slaginn um athygli fjölmiðlanna til að heimastjórnin haldi sjó, og snýti ekki rauðu einn ganginn enn.“

Í tilefni af þessum orðum Össurar skrifar samfylkingarmaðurinn Andrés Jónsson pistil, sem birtist á eyjan.is undir fyrirsögninni: Þorgerður vann. Þar segir:

„Í tengslum við sigurgöngu handboltalandsliðsins hafa birst myndir af og viðtöl við fimm af sex ráðherrum Sjálfstæðisflokksins frá því á föstudag, - alla nema Guðlaug Þ. Þórðarson. Í tilefni af úrslitaleiknum ræddi fréttastofan í kvöld við Þorgerði Katrínu en hafði ekkert við forsetahjónin að tala.“

Össur nær gleði sinni á ný, þegar Þorgerður Katrín og Hanna Birna efna til hátíðar í Reykjavík við heimkomu strákanna. Þar verður hann örugglega hrókur alls fagnaðar, enda fer það honum betur en pirringurinn.

Fór klukkan 17.00 í Hallgrímskirkju, þar sem efnt var til tónleika á vegum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar með þátttöku söngfólks úr kirkjukórum víðsvegar um landið, einsöngvara, kammersveitar og organleikara. Fluttar voru tvær kantötur Bachs og nýtt verk Mistar Þorkelsdóttur, hugleiðing um tónlist hans við sálminn Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason.

Hér er lýsing á menningarnótt. Þar er brugðið ljósi á framgöngu við lögreglu, þegar fólk er í menningarskapi. Undrast nokkur, að hugað sé að öflugri valdbeitingartækjum fyrir lögregluna?

 

Laugardagur, 23. 08. 08. - 23.8.2008 18:15

Klukkan 10.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík og kynnti þar nýskipan lögreglumála fyrir nemendum í leiðtoga-meistaranámi. Var salurinn þétt setinn og mikil stemmning, ef svo má segja um kennslustund. Aðalsteinn Leifsson leiðir námið en í þessum tíma var það prófessor Gerard Seijts frá Richard Ivey School of Business í háskólanum í Vestur-Ontaríó í Kanada, sem stjórnaði umræðum. Hann hefur skrifað fræðilega úttekt á nýskipan lögreglumála hér og lagt hana fyrir nemendur sína.

Það var Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem bað mig, Stefán Eiríksson, lögreglustjóra, og Svein Ingiberg Magnússon, fyrrverandi formann Landssambands lögreglumanna, til að koma í tímann. Lýsa skoðun okkar á nýskipaninni, hvernig hún var undirbúin og framkvæmd.

Mun fleiri höfðu áhuga á að spyrja okkur á þeim tveimur tímum, sem við vorum í skólanum, en við höfðum tök á að svara. Kennslan er á ensku og öll samskipti leiðbeinenda og nemenda.

Það verður gaman að frétta af því, hvernig þessi kennslustund skilar sér í námi nemendanna, sem lýkur ekki, fyrr en næsta vor.

Síðdegis ritaði ég pistil um umræðuhefð og evru.

Föstudagur, 22. 08. 08. - 22.8.2008 7:27

Glæsilegur sigur í handbolta á Spánverjum tryggði liði okkar að minnsta kosti silfur í Peking og gull, ef kapparnir sigra Frakka á sunnudaginn. Merkilegt er að heyra, hve sérfróðir menn leggja mikla áherslu á sálarstyrk íslenska liðsins. Augljóst er, að í Peking tileinkar liðið sér qi gong boðskapinn um að stefna að mestum árangri hér og nú - er það vel við hæfi í Kína.

Í morgun sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér tilkynningu um, að lokið væri meðferð á kæru vegna brottvísunar Pauls Ramses úr landi.

Ráðuneytið breytti ákvörðun Útlendingastofnunar (ÚTL) í ljósi nýrra upplýsinga við meðferð málsins í ráðuneytinu. Uppýsingarnar breyttu forsendum og þar með var litið til undanþáguheimilda í Dublinreglunum. Á grundvelli þeirra ákvað ráðuneytið, að fela ÚTL að taka tilmæli kæranda til efnismeðferðar.

Staðhæfingar um dvalarleyfi Rosemary, eiginkonu Pauls, í Svíþjóð voru ekki á rökum reistar. Stangast sú niðurstaða á við það, sem ÚTL var kynnt við meðferð málsins, en ÚTL kannaði ekki mál hennar sérstaklega, þar sem hún sótti ekki um hæli. Paul upplýsti ÚTL um stöðu konu sinnar. Án dvalarleyfis á Schengen svæðinu hefur Rosemary ekki heimild til að ferðast á svæðinu og þar með ekki til Ítalíu, yrði Paul þar áfram í hælismeðferð.

Ráðuneytinu bárust einnig gögn um ættingja Pauls hér á landi. Skortur á þeim upplýsingum gaf ÚTL ekki rétta mynd af stöðu hans við meðferð máls hans.

Heildarmat ráðuneytisins á aðstæðum þeirra hjóna, miðað við nýjar upplýsingar, réðu niðurstöðunni. Ráðuneytið fann ekkert að málsmeðferð ÚTL.

Ákvörðun ráðuneytisins var tekin á grundvelli 2. mgr. 3. gr. í
Dublinreglugerðinni, sem heimilar ríki að taka á sig ábyrgð á umfjöllun um hælisbeiðni þó það beri ekki ábyrgðina.

Til að halda því til haga, sem sagt var, eftir að ÚTL kvað upp úrskurð sinn birti ég það, sem hér fylgir.

Lesa meira

Fimmtudagur, 21. 08. 08. - 21.8.2008 18:49

Ég óska Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innilega til hamingju með að verða orðin borgarstjóri. Hún hefur alla burði til að hefja embættið til nýrrar virðingar eftir hrakfarir þess undanfarin misseri.

Klukkan 16.00 var ég í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands á Reykjavíkurflugvelli og hitti þar bandaríska strandgæslumenn á Herkúles-flugvél, sem æfðu með starfsmönnum landhelgisgæslunnar björgun á farþegaskipi með um 2000 farþega í nauðum statt tæpar 600 mílur fyrir suðvestan Ísland, þar er nærri strönd Grænlands. Fokker-vél gæslunnar tók þátt í æfingunni með bækistöð í Narsarsuaq í Grænlandi. Efingin heppnaðist mjög vel.

Miðvikudagur, 20. 08. 08. - 20.8.2008 10:15

Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist á fundi í Reykholti í Borgarfirði. Veðrið var fagurt og bjart og umræður góðar.

Þriðjudagur, 19. 08. 08. - 19.8.2008 22:16

Marsibil Sæmundsdóttir er gengin úr Framsóknarflokknum og Ólafur F. Magnússon er genginn í Frjálslynda flokkinn. Ég held, að hvorug breytingin valdi þáttaskilum í íslenskum stjórnmálum, þótt ætla mætti annað af því púðri, sem fréttamenn eyða í frásagnir af þessu.

Margrét Sverrisdóttir, sem er varamaður Ólafs F. í borgarstjórn, en er ekki í sama flokki og hann, segir Ólaf F. vera að leita, að einhverjum, sem geti staðið straum af kostnaði við framboð hans í næstu borgarstjórnarkosningum. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður frjálslyndra, fagnar Ólafi F. en það er hundur í Jóni Magnússyni, þingmanni frjálslyndra. Því heyrist fleygt, að Jón ætli sér formennsku meðal frjálslyndra.

Dagur B. Eggertsson ætlar að beita þeim klækjum við skipan manna í nefndir borgarstjórnar að hafa þar sæti fyrir Marsibil, en hún segist ekki ætla að þiggja boð Dags um inngöngu í Samfylkinguna. Dagur er sagður búa sig undir að verða varaformaður í Samfylkingunni í stað Ágústs Ólafs Ágústssonar.

Hallgrímur Thorsteinsson ber sig illa vegna orða minna í gær um afstöðu hans til dagbóka Matthíasar. Svo virðist sem Hallgrímur og félagar vilji frekar hallmæla Matthíasi en ræða það, sem hann segir. Þá virðast þeir undrast, sem hefur verið á allra vitorði, að til Matthíasar og Styrmis streymdu menn og ræddu málefni líðandi stundar - vafalaust í von um, að sjónarmið þeirra endurspegluðust á síðum Morgunblaðsins.  

Mánudagur, 18. 08. 08. - 18.8.2008 0:27

Ætti ég eftir að hlaupa 200 metra af 400 vildi ég heldur vera að minnka forskotið með auknum hraða en hægja á mér. Hanna Birna er í þessari stöðu gagnvart Degi B. Megi henni takast að ná fyrst í mark! Það yrði auk þess Reykvíkingum fyrir bestu.

Matthías Johannessen birtir á www.matthias.is dagbókarbrot. Þau eru svo krassandi, að eðlilegt væri fyrir fjölmiðla að kafa dýpra og kynna sér málið til hlítar. Þess í stað setjast menn eins og Hallgrímur Thorsteinsson í vandlætingarstólinn. Honum fer það illa.

Matthías er þaulvanur höfundur viðtala og ávann sér virðingu og traust sem slíkur. Hann hefur ávallt haft einstakt lag á að draga jafnframt upp mynd af viðmælendum sínum. Ég minnist þess frá unglingsárum, að Guðrúnu, ömmu minni, þótti nóg um bersögli Matthíasar í viðtölum undir samheitinu: Í fáum orðum sagt.

www.matthias.is rúmast ekki undir orðunum: Í fáum orðum sagt, en veldur enn ýmsum lesendum áhyggjum og kannski líka viðmælendum.

 

 

Sunnudagur, 17. 08. 08. - 17.8.2008 21:28

Angela Merkel. kanslari Þýskalands, sagði í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, á blaðamannafundi með Mikhail Saakashvili, forseta Georgíu, að Georgía ætti fyrr en síðar að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Yfirlýsingin er svar við innrás Rússa 7. ágúst í Georgíu. Hún er tímabær og hefði raunar átt að ákveða aðild Georgíu á leiðtogafundi NATO í Rúmeníu fyrr á árinu. Þá var Merkel hikandi í afstöðu sinni af tillitssemi við Rússa.

Pólverjar hikuðu við að skrifa undir samning við Bandaríkjamenn um gagneldflaugar í landi sínu. Samningurinn var undirritaður eftir innrásina í Georgíu. Úkraínumenn hafa boðið Bandaríkjamönnum að setja um viðvörunarratsjár fyrir eldflaugavarnir í landi sínu og þeir vilja einnig í NATO.

13. ágúst 1961 reisti kommúnistastjórnin í A-Þýskalandi Berlínarmúrinn með fulltingi Sovétríkjanna. Hann var ekki rifinn fyrr en í nóvember 1989, eftir að Sovétmenn höfðu sagt kommúnistastjórninni, að þeir mundu ekki veita henni hernaðarlegan stuðning.

21. ágúst 1968 ruddust sovéskir skriðdrekar inn í Prag til að kæfa „vorið“, sem hófst þar 5. janáur 1968 - það er öldu frjálsræðis, sem Kremlverjar tölu ógna framgangi sósíalismans og þar með réttlæta valdbeitingu sína - henni lauk ekki fyrr en í ársbyrjun 1990 með flauelsbyltingunni.

Vladimir Pútín og félagar hafa auðveldað íbúum S-Ossetíu að fá rússnesk vegabréf og segjast nú vera að vernda öryggi rússneskra borgara með því að ráðast inn í Georgíu.

Medvedev, Rússlandsforseti, lofaði Sarkozy, Frakklandsforseta, í dag, að brottför rússneskra hermanna hæfist frá Georgíu á morgun. Stendur hann við orð sín?

Laugardagur, 16. 08. 08. - 16.8.2008 22:35

Glæsilegt hjá karlalandsliði okkar í handbolta að vera komið í átta liða úrslit á Ólympíuleikunum eftir jafntefli við Dani í dag. Morgunblaðið segir, að þessi árangur hafi náðst á hinn „ótrúlegasta hátt“.

Ég skrifaði í dag pistil um fjórða meirihlutann í Reykjavík á þessu kjörtímabili.

Samfylkingarmaðurinn Andrés Jónsson beinir því til mín á eyjan.is, að ég hætti að svara fjölmiðlamönnum á tölvunni. Hann segir: „Það er veikleiki að heimta að fá spurningarnar fyrirfram í tölvupósti.“ Ég bið aldrei um spurningar fyrirfram í tölvupósti, ég bið einfaldlega um þær í tölvupósti. Samþykki ég að ræða við ljósvakamiðla, bið ég aldrei um spurningar en er sagt umræðuefnið, eins og eðlilegt er. Ég ræði helst í síma við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni - þann fréttatengda útvarpsþátt, sem nær til flestra og þar sem um beina eða óklippta útsendingu er að ræða. Klipptu sekúndubrotin segja oft meira um áhuga eða skoðanir fréttamannsins en þess, sem við er rætt.

Föstudagur, 15. 08. 08. - 15.8.2008 6:29

Fyrir framan Ráðherrabústaðinn voru fréttamenn klukkan 09.30, þegar ríkisstjórnin kom þar saman til fundar, og spurðu þeir um afstöðu ráðherra til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég sagðist fagna honum. Þá var spurt, hvort ég teldi mistök að hafa myndað meirihluta með Ólafi F. Magnússyni. Ég sagðist hafa sagt álit mitt á þeim meirihluta, þegar hann var stofnaður og hefði engu við þau orð að bæta.

Einar Þorsteinsson fréttamaður ræddi við Ólaf F. Magnússon á rás 2 síðdegis og gekk nær honum með persónulegum spurningum en við eigum að venjast. Frægt er samtal þeirra Ólafs F. og Helga Seljan í Kastljósi á dögunum, þegar þeir töluðu báðir í senn og Ólafur F. átaldi Helga fyrir að komast aldrei að efni málsins heldur snerist samtalið um aukaatriði. Í Kastljósi kvöldsins var Helgi kurteisari við Ólaf F. en áður en gekk einnig nálægt honum persónulega. Stjórnendur Íslands í dag á Stöð 2 sögðu, að Ólafur F. gæti ekki komið þangað í kvöld vegna flensu.

Í sjálfu sér er sérstakt umhugsunarefni, hvernig fjölmiðlamenn fjalla um málefni brogarstjórnar Reykjavíkur. Oft er það gert í einskonar skætings- eða hneykslunartón. Í síðdegisþættinum á rás 2 var til dæmis birtur reiðilestur Össurar Skarphéðinsson á tröppum Ráðherrabústaðarins í garð hins nýja meirihluta með þeim formála fréttakonu, að Össur segði oft, sem margir hugsuðu, en þyrðu ekki að segja.

Elín Albertsdóttir ritar leiðara í 24 stundir og lýsir reiði sinni yfir því, að borgarfulltrúar hafi ekki viljað ræða við fjölmiðla, þegar þeir voru að ræða viðkvæm mál í eigin hóp. Elín segir af þessu tilefni: „Það (borgarfulltrúarnir) er fólkið sem ætlar enn um sinn að stjórna borginni. Það telur sig ekki skulda kjósendum sínum nein svör. Það ætlar að pukrast áfram í leynihornum.“ (!)

Þessi orð standast einfaldlega ekki, þegar litið er til þess, sem gerst hefur strax eftir að nýr meirihluti var myndaður. Ekki heldur fullyrðing Elínar, að Sjálfstæðisflokknum muni „ekki takast að ná upp á klettasylluna með Óskar Bergsson í forystusveit. Hann er þegar byrjaður að segja ósatt.... Kjósendur eru ekki fífl og þeir eru fyrir löngu búnir að fá nóg af óstjórninni.“

Lesa meira

Fimmtudagur, 14. 08. 08. - 14.8.2008 15:07

Í þann mund, sem ég er að ljúka við að pakka og slíta tölvusambandi hér í Fairbanks kl. 07.00 að morgni (15.00 á Íslandi) berast ákveðnari fréttir en áður um nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, það er með samstarfi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

Eftir að ég kemst héðan og í farsímasamband verður auðveldara að fykgjast með atburðarásinni á ferðalaginu heim.

Ég óska fyrrverandi samstarfsmönnum mínum í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna allra heilla.

Ég var í fimm tíma á leiðinni til Minneapolis frá Fairbanks - 09.00 til 13.00 - en klukkan var orðin 17.00 í Minneapolis. Þar komst ég í farsímasamband og frétti, að Hanna Birna yrði næsti borgarstjóri en sjálfstæðismenn og Óskar Bergsson framsóknarmaður ætluðu að mynda meirihluta.

Icelandair var í annarri flugstöðvarbyggingu en NorthWest og fór ég með neðanjarðarlest á milli bygginganna. Vélin hélt af stað á áætlun 19.20 og lentum við í Keflavík um kl. 06.30.

Miðvikudagur, 13. 08. 08. - 13.8.2008 13:50

Þingmannaráðstefnan um norðurheimskautsmál hélt áfram í dag, en síðdegis var okkur boðið í kynnisferð til Chena Hot Springs Resort, sem er í um klukktíma fjarlægð frá Fairbanks.

Eins og nafnið gefur til kynna er þarna um jarðhitasvæði að ræða. Bernie Karl, forstöðumaður á svæðinu og framkvæmdamaður tók á móti okkur og kynnti hina fjölbreyttu starfsemi, sem hann rekur þarna. Okkur Íslendingum fagnaði hann með sérstakri aðdáun og virðingu vegna þess hve við stæðum framarlega við nýtingu á hreinum orkugjöfum og ekki síst jarðhitanum. Virkjun jarðhita hefði ekki hafist í Alaska fyrr en árið 2006 og einmitt hjá sér. Sýndi hann okkur orkuveituna af miklu stolti. Hann var gjörkunnugur orkubúskap okkar Íslendinga, enda hefur hann heimsótt Ísland til að kynna sér nýtingu jarðhitans. Alaska er fimmta ríkið þí Bandaríkjunum, þar sem jarðhiti er nýttur og sagði Bernie Karl, að hann væri mestur í Alaska.

Nú rekur Bernie Karl þarna heita útilaug, heita potta og inni sundlaug. Þá er unnt að fara í óbyggðaferðir frá staðnum, gangandi eða á hvers kyns farartækjum. Þarna er gistiaðstaða  og matsalir.

Aurora  Ice Museum vakti þó mesta athygli okkar. Það er í raun sjálfbær frystiklefi, sem er knúinn af jarðhita, en hefur verið breytt í ísmyndasafn, bar, aðstöðu til hjónavígslu og ýmislegt annað. Var í einu orði sagt ótrúlegt að koma þarna inn og sjá það, sem fyrir augu bar. Bendi eg áhugasömum að fara inn á vefsíðu staðarins, sjón á netinu er sögu ríkari.

Þarna er mikið um gesti allan ársins hring en á veturna streyma Japanir til Alaska til að sjá norðurljósin.

Þingmannaráðstefnunni lýkur 14. ágúst en þá um morguninn held ég af stað heim á leið og missi því af erindi Guðna Jóhannessonar orkumálarstjóra um jarðhitann og nýtingu hans. Íslendingar hafa látið verulega að sér kveða á ráðstefnunni, meðal annars með tveimur framsöguerindum auk þess sem Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildarinnar, hefur haldið fast á málum við gerð lokaályktunar ráðstefnunnar.

 

Þriðjudagur, 12. 08. 08. - 12.8.2008 17:38

Þingmannaráðstefnan um Norðurheimskautið hófst um hádegi í háskólanum í Fairbanks. Auk okkar ferðafélaganna bættist Gunnar Svavarsson þingmaður í hópinn ásamt Hrönn Ásgeirsdóttur, eiginkonu sinni. Síðar um daginn kom síðan Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri, sem flytur hér ræðu.

Ég flutti ræðu síðdegis og ræddi þar um borgaraleg viðfangsefni við gæslu öryggis á N-Atlantshafi.

Kvöldverður var borinn fram á fljótabáti.

Það kemur okkur Íslendingunum á óvart, að við getum ekki náð sambandi í gegnum farsíma. Þessi þjónusta er ekki boði fyrir viðskiptavini íslenskra símafyrirtækja.

Mánudagur, 11. 08. 08. - 12.8.2008 5:23

Við Íslendingarnir, Sigurður Kári Kristjánsson, Karl Matthíasson og Jón Bjarnason alþingismenn auk mín og Örnu Bang, starfsmanns alþjóðaskrifstofu alþingis, og Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra vestnorræna ráðsins, flugum frá Minneapolis til Fairbanks í Alaska í um átta tíma með millilendingu í Anchorage.

NorthWest-flugfélagið tilkynnti rétt um kl 09.00 seinkun á 09.20 flugi til Anchorage vegna olíuleka í vélinni, sem þá átti að fara. Nokkru síðar var tilkynnt, að ný vél á næsta útgönguhliði væri til taks, en hún væri minni en áætlunarvélin og þess vegna þyrfti að fækka farþegum. Tók það allt sinn tíma. Við lentum klukkan 13.15 að staðartíma eftir tæplega sex tíma flug - það er eins og frá Íslandi til Minneapolis og tímamunur hinn sami, fjórar stundir.

Þegar í loft var komið um klukkustund á eftir áætlun sagði flugstjóriinn, að hann yrði að fljúga austar en ella vegna hættu á ösku frá eldgosum á Aleuta-eyjum, en þar væru þrjú eldfjöll virk um þessar mundir. Þess vegna var flogið austan og norður fyrir Fairbanks og þaðan tekin stefna í suður á Anchorage, sem er um 40 mínútum sunnar. Í aðflugli til Anchorage sáum við hið tignarlega fjall Mt. Kinley í allri sinni dýrð - hæsta fjall N-Ameríku.

Þrátt fyrir seinkun náðum við upphaflegri vél frá Anchorage til Fairbanks og, sem meira var, að töskur okkar allra  birtust á belitinu í Fairbanks, sem sannaði enn sveigjanlega og kraft hins frjálsa hagkerfis! Flugið milli Anchorage og Fairbanks er um 40 mínútur.

Við fréttum síðar um kvöldið í móttöku forseta háskólans í Fairbanks, að ráðstefnugestir hefðu ekki komist frá Seattle á vesturströnd Banadríkjanna til Fairbanks af ótta við, að flugvélar þeirra lentu í vandræðum vegna ösku frá eldgosunum í austri.

Sunnudagur, 10. 08. 08. - 10.8.2008 10:42

Flaug kl. 16.35 með Icelandair til Minneapolis. Veðrið var bjart og fagurt þegar við komum inn yfir austurströnd Grænlands og sáum jöklanna renna í sjó fram og jakana fljóta í heiðbláu hafinu.

Klukkan var um 19.00 á amerískan tíma, þegar við komum á flugvallarhótelið til gistingar, áður en lagt yrði í næsta áfanga til Fairbanks í Alaska. Ég er með hópi þingmanna og starfsmanna alþingis á leið á aðalfund þingmannasambands heimskautaráðsins.

Laugardagur, 09. 08. 08. - 9.8.2008 21:32

Fór með Rut í Skálholt, þar sem hún lék með Skálholtskvartettinum klukkan 17.00 verk eftir Haydn og Schübert. Klukkan 15.00 hlustaði ég á Bibertríóið leika hluta úr talnabandssónutum eftir Franz von Biber.

Ég er sammála Ara Trausta Guðmundssyni, sem undrast í grein í Morgunblaðinu, að gagnrýnendur skuli ekki lengur sendir til að skrifa um sumartónleika utan Reykjavíkur. Líklega stafar þessi ákvörðun ritstjóra ekki af metnaðarleysi, hún endurspeglar þröngan fjárhag blaðanna.

Nokkrar umræður hafa orðið um nálgunarbann í tilefni af nýföllnum hæstaréttardómi. Frumvarp frá mér um nálgunarbann er til meðferðar í allsherjarnefnd alþingis. Þegar ég flutti framsöguræðu um frunvarpið 22. janúar sl. sagði ég meðal annars:

„Ákvæði frumvarpsins eru í flestum atriðum samhljóða gildandi reglum um nálgunarbann. Veigamestu breytingarnar sem hér eru lagðar til koma fram í reglum 1. mgr. 2. gr. um aðdraganda að kröfu lögreglu um slíkt bann og heimildir þess, sem leita til hennar í þessu skyni, til stjórnsýslukæru ef lögreglu þykir ekki efni til að bera kröfuna fram.

Fram hefur komið sú gagnrýni að ákvæðið í núverandi mynd sé of þungt í vöfum og til þess fallið að letja brotaþola að fara fram á nálgunarbann auk þess sem tillögur frumvarpsins gangi ekki nógu langt. Fari betur á því að ákærandi taki ákvörðun um nálgunarbann en ekki dómari að beiðni lögreglunnar eins og í núgildandi lögum segir og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Dómari geti síðan endurskoðað þá ákvörðun.“

 

Föstudagur, 08. 08. 08. - 8.8.2008 1:18

Sá endursýningu á hluta setningarhátíðar Ólympíuleikanna í Peking, sem hófst 08.08.08.08.08.08 að þeirra tíma og einkenndist af sögu Kína, fólki og kúnstum þess - meðal annars tjai tsjí, næsta bæ við qi gong, en ekkert af atriðum þúsundanna á leikvanginum hefði gengið án qi gong aga.

Ég óska Kínverjum til hamingju með fyrsta daginn. Sjálfsagt er, að Þorgerður Katrín sé þar sem ráðherra íþróttamála.

Kjörorð leikanna er: Einn heimur, einn draumur. 

Fimmtudagur, 07. 08. 08. - 7.8.2008 20:54

Flaug norður á Akureyri um hádegisbilið.

Lögreglustjórar frá Blönduósi, Bjarni Stefánsson, Sauðárkróki, Ríkarður Másson, Húsavík, Halldór Kristinsson og Akureyri, Björn Jósep Arnviðarson auk Haraldar Johannessens, ríkislögreglustjóra og mín rituðu undir samkomulag um samstarfsátak gegn fíkniefnum á Norðurlandi.

Samkomulagið miðar að stórauknu samstarfi norðlensku lögregluliðanna fjögurra. Komið verður á laggirnar sérstöku teymi þriggja lögreglumanna við rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri ásamt lögreglumanni með fíkniefnahund. Verða tveir lögreglumannanna í teyminu frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Starfsstöð fíkniefnateymisins er í lögreglustöðinni á Akureyri en umboð þess nær til allra lögregluumdæmanna fjögurra á Norðurlandi. Með samstarfinu er stefnt að því að efla styrk og samtakamátt lögregluliðanna fjögurra og herða þannig baráttuna gegn innflutningi, dreifingu og neyslu fíkniefna.

Var þessi athöfn kl. 13. 30 í lögreglustöðinni en að henni lokinni eða klukkan 14.30 hófst önnur athöfn í þeim hluta lögreglustöðvarinnar, sem hýsir fangelsið. Þar bauð Páll Winkel, fangelsismálastjóri, okkur gesti velkomna í tilefni af því að nýtt og stærra fangelsi á Akureyri var formlega opnað. Fangar eru þar 10 en þeir voru á veiðum úti á Eyjafirði, á meðan þessi rúmlega klukkutíma athöfn fór fram.

Fangelsið er hið glæsilegasta. Byggt hefur verið lögreglustöðina og fellur nýbyggingin vel að því húsi, sem fyrir var, en það nýtist betur en áður fyrir lögregluna. Í þessari byggingu sannast, að vel er unnt að reka undir sama þaki starfsemi lögreglu og fangelsi, auk þess sem hvoru tveggja er inni í íbúðahverfi, án þess að valda nokkrum vandræðum.

Undarlegt er, að fjölmiðlamenn hafa gefið til kynna, að of vel sé búið að föngum á Akureyri og meira að segja er látið að því liggja, að refsing nái ekki tilgangi sínum, sé föngum búin nútímaleg aðstaða í húsbúnaði. Röksemdafærslan er dæmd til að leiða menn í ógöngur. Á að sníða öll fangelsi að hegningarhúsinu við Skólavörðustíg? Telja menn, að 19. aldar aðbúnaður fanga sé keppikefli nú á dögum? Ég er ekki þeirrar skoðunar frekar en banna eigi 21. aldar húsagerðarlist í götumynd Laugavegsins

Miðvikudagur, 06. 08. 08. - 6.8.2008 22:18

Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur og sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, flutti fróðlegt erindi í Rótarýklubbi Reykjavíkur í hádeginu í dag um kvóta og þorsk. Færði hann rök fyrir því, að kvótakerfið væri frá lögfræðilegum sjónarhóli síður en svo jafnstirnað og ætla mætti af dómum hæstaréttar og áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Deilurnar um kvótakerfið hafa einkennst af því, að menn með andstæðar skoðanir hafa skipað sér í fylkingar með eða á móti og haldið svo fast í röksemdir sínar, að athygli hefur dreifst frá því, hvernig kerfið hefur þróast, án þess að vera eins lokað og af er látið.

Af lestri 24 stunda má auðveldlega ráða, hve góðan svip Ólafur Þ. Stephensen setti á blaðið í ritstjóratíð sinni.

Þriðjudagur, 05. 08. 08. - 5.8.2008 18:45

Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, hefur farið svo mikinn undanfarið, að innan flokksins hafa menn orðað hana við leiðtogahlutverk á landsvísu. Hið einkennilega er, að gauragangurinn hefur að mestu snúist um misskilning. Það er til dæmis fráleitt hjá Guðríði að kenna starfsemi öryggisþjónustufyrirtækja við „falskt öryggi“.

Guðríður hafði varla sleppt orðinu um löggæslumál, þegar hún hóf að skammast yfir framgangi starfsmanna Kópavogsbæjar, það er að þeim voru falin ábyrgðarmeiri störf, án þess að auglýsa viðkomandi stöður. Fráleitt er, að telja þetta lögbrot eins og Guðríður taldi.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, ræðir framgöngu Guðríðar í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Í öllum þeim moðreyk sem Guðríður Arnardóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar í Kópavogi, þyrlar upp um ráðningar í stöður hjá Kópavogsbæ, vekur mesta athygli hvað hún hefur hrakist langt frá upphaflegum upphrópunum sínum um fordæmalausa ákvörðun og „klárt" lögbrot meirihlutans í bæjarstjórn. Eftir því sem fleiri hafa rekið þær stórkarlalegu yfirlýsingar hennar ofan í hana, bæði lögfræðingar og sveitarstjórnarmenn, hafa slíkar ásakanir vikið fyrir hinu gamalkunna og lúna stefi hennar um skort á góðum siðum í opinberri stjórnsýslu. Það huglæga mat hennar getur átt við um allar sveitarstjórnir á landinu sem einhvern tímann hafa nýtt sér rétt sinn til að veita starfsfólki stöðuhækkun. Af því sést hve ósanngjarnt og rangt það er.“

Mánudagur, 04. 08. 08. - 4.8.2008 22:01

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir ræddi í kvöld í sjónvarpi ríkisins við Ólaf Ragnar Grímsson í upphafi fjórða kjörtímabils hans á Bessastöðum. Ólafur Ragnar minntist tvisvar á það, sem hann kallaði „hermálið“ og sagði það hafa „klofið þjóðina í herðar niður“.

Hér er einkennilega að orði komist. Hinn pólitíski ágreiningur snerist um aðildina að Atlantshafsbandalagini (NATO), samstarfið við vestrænar lýðræðisþjóðir andspænis Sovétvaldinu. Um það var deilt, hvort nauðsynlegt væri að hafa varnarviðbúnað í landinu og hvort semja ætti við Bandaríkjamenn um varnir landsins og dvöl liðs þeirra hér á landi í krafti þess samnings. Ágreiningurinn tók á sig nýja mynd, eftir að Sovétríkin hurfu úr sögunni. Við erum enn í NATO og varnarsamningurinn er enn í gildi, þótt ekki sé lengur varnarlið með fast aðsetur í landinu.

Vinstri/grænir feta í fótspor Alþýðubandalagsins, þar sem Ólafur Ragnar var formaður, og eru enn á móti NATO og varnarsamningnum. Þjóðin var ekki „klofin í herðar niður“ vegna þessara mála. Það var ávallt traustur meirihluti meðal þjóðarinnar fyrir aðildinni að NATO, varnarsamningnum og veru varnarliðsins.

Í pistli í dag ræði ég um Alexander Solzhenitsín og spennu í Kína.

Laugardagur, 02. 08. 08. - 2.8.2008 12:10

Hinn árlegi flóamarkaður var í þriðja sinn í Fljótshlíðinni í dag og lögðu margir leið sína á hann í mildu og kyrru en röku veðri. Það fór þó, sem betur fer, ekki að rigna fyrr en eftir að markaðnum lauk klukkan 18.00 og hinn óseldi varningur var kominn í húsaskjól að nýju.

Veðrið var ekki eins gott og spáin hafði gefið til kynna.

Föstudagur, 01. 08. 08. - 1.8.2008 19:43

Jón Kaldal ritar leiðara í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni: Einkavædd lögregluverkefni og byggir á þeim sérkennilega misskilningi, að öryggisþjónustur séu að taka að sér verkefni, sem eðlilegt sé, að lögregla sinni.

Telur Jón, að ég þurfi, vegna þess ég fagna starfsemi öryggisþjónustufyrirtækja, að svara því, hvort fallið hafi verið frá markmiðum löggæsluáætlunar 2007 til 2011 um sýnilega löggæslu, hverfa- og grenndarlöggæslu. Svar mitt er einfalt: Ekki hefur verið fallið frá þessum markmiðum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur þessi stefna áætlunarinnar gengið eftir.

Ég visa til orðaskipta okkar Sigmars Guðmundssonar um sýnilega löggæslu í Kastljósi á dögunum. Jón Kaldal getur ekki fært nein rök fyrir því, að Seltjarnarnesbær hafi neyðst til þess að auka þjónustu við íbúa sína með samningi við Securitas. Bæjarstjórnin taldi einfaldlega, að þessi þjónusta mundi mælast vel fyrir og skila árangri og hefur þetta mat hennar reynst á rökum reist. Framúrskarandi þjónusta sveitarfélags leiðir sem betur fer til þess, að fleiri vilja sigla í kjölfarið.

Í húsum mínum hef ég tengingar við vaktstöð einkaaðila og sjálft stjórnarráðið hefur boðið út öryggisgæslu sína. Þettar er ekki gert af því að lögreglu er vantreyst heldur með virðingu fyrir eðlilegri verkaskiptingu. Þetta á ekkert skylt við framkvæmd löggæsluáætlunar. Hvergi í veröldinni er tallð, að löggæslu eigi að skipuleggja á sama veg og öryggisfyrirtæki skipuleggja þjónustu sína - eða veit Jón Kaldal um það? Kannski í lögregluríkjunum Kína og Kúbu?

Er Jón Kaldal í raun þeirrar skoðuðnar, að öryggi borgaranna sé betur borgið með lögreglumönnum, sem sitja við símann inni á lögreglustöð, en þeim, sem eru í viðbragðsstöðu í bifreið á sveimi um sama umdæmi? Hvort heldur Jón, að fólki, sem lendir í hremmingum og vill leita aðstoðar lögreglu, sé ofar í huga heimilisfang lögreglustöðvarinnar í Kópavogi eða 112?

Góðvinur lögreglunnar sagði á dögunum, að best væri að hafa lögreglu í lögreglustöðvum á nóttunni, því að þá væru ræningjar á ferð. Hann var skömmu síðar handtekinn við innbrot um hábjartan dag!

Í Kardemommubænum sungu menn (í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk):

Að ræna er best um blakka nótt,
í bænum sofa allir rótt.
Þó tökum við aldregi of eða van,
hvorki Kasper né Jesper né Jónatan.