22.8.2008 7:27

Föstudagur, 22. 08. 08.

Glæsilegur sigur í handbolta á Spánverjum tryggði liði okkar að minnsta kosti silfur í Peking og gull, ef kapparnir sigra Frakka á sunnudaginn. Merkilegt er að heyra, hve sérfróðir menn leggja mikla áherslu á sálarstyrk íslenska liðsins. Augljóst er, að í Peking tileinkar liðið sér qi gong boðskapinn um að stefna að mestum árangri hér og nú - er það vel við hæfi í Kína.

Í morgun sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér tilkynningu um, að lokið væri meðferð á kæru vegna brottvísunar Pauls Ramses úr landi.

Ráðuneytið breytti ákvörðun Útlendingastofnunar (ÚTL) í ljósi nýrra upplýsinga við meðferð málsins í ráðuneytinu. Uppýsingarnar breyttu forsendum og þar með var litið til undanþáguheimilda í Dublinreglunum. Á grundvelli þeirra ákvað ráðuneytið, að fela ÚTL að taka tilmæli kæranda til efnismeðferðar.

Staðhæfingar um dvalarleyfi Rosemary, eiginkonu Pauls, í Svíþjóð voru ekki á rökum reistar. Stangast sú niðurstaða á við það, sem ÚTL var kynnt við meðferð málsins, en ÚTL kannaði ekki mál hennar sérstaklega, þar sem hún sótti ekki um hæli. Paul upplýsti ÚTL um stöðu konu sinnar. Án dvalarleyfis á Schengen svæðinu hefur Rosemary ekki heimild til að ferðast á svæðinu og þar með ekki til Ítalíu, yrði Paul þar áfram í hælismeðferð.

Ráðuneytinu bárust einnig gögn um ættingja Pauls hér á landi. Skortur á þeim upplýsingum gaf ÚTL ekki rétta mynd af stöðu hans við meðferð máls hans.

Heildarmat ráðuneytisins á aðstæðum þeirra hjóna, miðað við nýjar upplýsingar, réðu niðurstöðunni. Ráðuneytið fann ekkert að málsmeðferð ÚTL.

Ákvörðun ráðuneytisins var tekin á grundvelli 2. mgr. 3. gr. í
Dublinreglugerðinni, sem heimilar ríki að taka á sig ábyrgð á umfjöllun um hælisbeiðni þó það beri ekki ábyrgðina.

Til að halda því til haga, sem sagt var, eftir að ÚTL kvað upp úrskurð sinn birti ég það, sem hér fylgir.

Þráinn Bertelsson, rithöfundur og heiðurslaunalistamaður, ritaði opið bréf til ríkisstjórnar Íslands og stílar þá til Skugga Skuggasonar í Skuggasundi og lýsir aðdraganda bréfsins með þessum orðum:

„Ég hélt að sá tími myndi aldrei koma að ég þyrfti að fara á mótmælafund til að biðja íslensk stjórnvöld að stilla sig um að ata hendur sínar saklausu blóði. En það átti fyrir mér að liggja að fara í mótmælastöðu upp í Skuggasund, þar sem dómsmálaráðherra hefur skrifstofu. Ég er ekki að spauga. Dómsmálaráðuneyti Íslands stendur við Skuggasund!“

Í bréfinu segir Þráinn meðal annars:

„Úr því að „Lebensraum“ er orðið svona takmarkað á Íslandi vil ég gera stjórnvöldum það tilboð að flytja mig til Ítalíu og bjóða mig fram sem gísl í staðinn fyrir Paul Ramses; að hann geti fengið að sjá litla barnið sitt aftur, en ég víki í staðinn úr skugga hinnar helbláu handar.“

Þýska orðið fær Þráinn úr orðabók Adolfs Hitlers.

Hér eru fjórar glefsur af bloggi Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra:

3. júlí: „Ábyrgðina bera Útlendingastofnun undir stjórn Hauks Guðmundssonar og dómsmálaráðuneytið undir forustu Björns Bjarnasonar. Þetta ógeðslið fær mig til að fyrirverða mig fyrir að vera Íslendingur. Þetta eru vissulega ill öfl. Björn hefur vafalaust skipað Hauki að ganga fram af mannvonzku í þessu máli sem öðrum. Stofnunin er illræmd fyrir ofsóknir sínar.“

4. júlí: „Vísaði á Björn Bjarnason. Það var ekki ég, sagði Björn Bjarnason. Vísaði á Hauk Guðmundsson, settan fangabúðastjóra Útlendingastofnunar. Sá er blýantsnagarinn, sem á að leika hlutverk Adolfs Eichmann. Mig minnir, að Hildur Dungal hafi verið engu skárri. Stofnunin er hluti af lögregluríki Björns Bjarnasonar. Skipuð tugum lögmanna, sem gera ekkert og segja nei. Með núverandi rekstri er hún alveg óþörf. Reka má allt pakkið og setja í staðinn upp símsvara, sem segir í sífellu: Burt með hann.“

4. júlí: „Fáir mótmæltu fyrir utan glugga Björns Bjarnasonar í hádeginu. Fólin verða ekki hrædd við 150 manns. Stefna mannvonzku mun áfram ríkja í samræmi við hugarfar Björns og Hauks Guðmundssonar, sem við sáum í fréttum í gær.“

7. júlí „Ef sadismi Útlendingastofnunar keyrir úr hófi fram, er rétt að reka verstu sadistana.“

Feitletranir eru mínar. Takið eftir því, að bæði Þráinn og Jónas vísa til nasista í málflutningi sínum. Grípi menn til vopna úr búri nasista verða þeir marklausir í siðlegum, opinberum umræðum.