Dagbók: september 1997
Mánudagur 29.9.1997
Klukkan 11.30 fór ég í Menntaskólann í Kópavogi, þar sem því var fagnað, að hópur nemenda hafði hlotið fyrstu verðlaun í myndbandasamkeppni 100 evrópskra framhaldsskóla. Fór hópurinn til London og tók við verðlaununum.Þar voru tveir nemendanna úr MK kjörnir til að fara á fund þings Evrópusambandsins í Brussel og tala máli evrópskra ungmenna. Voru fulltrúarnir kjörnir eftir að hafa flutt framboðsræður, raunar voru þrír Íslendingar kjörnir en aðeins tveir máttu koma frá hverju ríki í 10 manna hópnum. Einnig hefur MK verið valinn til að taka þátt í evrópsku verkefni, sem snertir rannsóknir vegna útlendinga- og kynþáttahaturs. Sýnir þessi viðurkenning til MK, að íslenskir framhaldsskólanemendur standa vel að vígi í evrópskum samanburði.
Sunnudagur 28.9.1997
Fórum á fyrstu tónleika Tríó Reykjavíkur á þessu starfsári í Hafnarborg.
Laugardagur 27.9.1997
Síðdegis flutti ég ræðu og svaraði fyrirspurnum á fundi Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, um menntamál. Eftir það var ég viðstaddur þegar fyrstu íslensku sjónfræðingarnir fengu afhent prófskírteini sín við hátíðlega athöfn á Hótel Sögu og sagði nokkur orð af því tilefni.
Föstudagur 26.9.1997
Síðdegis flaug ég til Egilsstaða og hélt þaðan að Hallormsstað, þar sem ég flutti ávarp á ársfundi Fámennra skóla, en í þeim samtökum eru fulltrúar þeirra skóla, þar sem fleiri en einum árgangi er kennt saman. Eftir ávarpið svaraði ég fyrirspurnum. Sneri ég til baka með kvöldvélinni.
Fimmtudagur 25.9.1997
Um kvöldið fórum við á tónleika í Langholtskirkju, þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék á UNM-hátíðinni, það er hátíð ungra norrænna tónskálda og efndum við til móttöku fyrir tónskáldin í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar eftir tónleikana.
Föstudagur 19.9.1997
Klukkan 9 flutti ég setningarávarp á norrænni ráðstefnu um búsetulandslag í Norræna húsinu, sem það stóð að ásamt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Sídegis fór ég upp í Munaðarnes og flutti ræðu og svaraði fyrirspurnum á landsfundi Félags framhaldsskólanema. Var það í þriðja sinn, sem ég sótti slíkan fund og er að mínu mati ómetanlegt að fá þannig tækifæri til að ræða við fulltrúa framhaldsskólanema af öllu landinu. Um kvöldið fórum við á frumsýningu á Þremur systrum í Þjóðleikhúsinu.
Miðvikudagur 17.9.1997
Í hádeginu var afmælisfundur Verslunarráðs Íslands á Hótel Sögu, þar sem forsætisráðherra flutti ítarlega ræðu um stöðu Íslands í alþjóðlegu tilliti. Um kvöldið var að nýju fundur á sama stað, þar sem Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðismanna í Reykjavík, tók ákvörðun um opið prófkjör vegna borgarstjórnarkosninganna. Var þessi ákvörðun tekin á lýðræðislegan hátt og er sú afgreiðsla í hróplegu ósamræmi við vinnubrögðin hjá R-listanum, þar sem menn sitja í bakherbergjum og deila með sér sætum en komast síðan að þeirri niðurstöðu að fela Ingibjörgu Sólrúnu að ráða aðferðinni, sem á að beita við skipan framboðslistans. Skilst mér að hún hafi sagt einhvers staðar, að kannski myndi hún handvelja á listann, af því að Davíð Oddsson hafi gert það á sínum tíma og sigrað! Hún sleppir því hins vegar, að umboðið fékk kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins eftir almennan fund, umræður á honum og atkvæðagreiðslu. Hin ólýðræðislegu vinnubrögð, sem jafnan hafa einkennt hinn skipulagslausa Kvennalista, virðast nú eiga að ráða við ákvarðanir á vegum R-listans í vandræðagangi hans og framboðsraunum. Bendi ég enn á það, hve lítið er fjallað um þessar raunir í fjölmiðlum, enda kemur það R-listanum líklega best að það sé ekki gert.
Sunnudagur 14.9.1997
Hálfur mánuður er síðan ég færði hér síðast inn dagbókarbrot og stafar það af því, að um síðustu helgi eða dagana 20. til 23. september var ég í Hamborg og Lübeck á fundi menningarmálaráðherra Eystrasaltslandanna. Var þetta þriðji ráðherrafundurinn af þessu tagi en hinn fyrsti, sem ég sæki. Eins og kunnugt er var Ísland ekki með í Eystrasaltssamstarfinu, þegar það hófst en síðan var okkur boðin aðild eftir gagnrýni af okkar hálfu. Tel ég gagnlegt fyrir okkur að eiga aðild að þessari svæðasamvinnu ríkjanna en auk Norðurlandanna fimm eiga Eistland, Lettland, Litháen, Rússland og Pólland aðild auk sambandslandanna Schleswig-Holstein og Mecklenburg-Vorpommern, að þessu sinni tóku fulltrúar Freie und Hansestadt Hamburg einnig þátt í fundunum. Helmut Schäfer, aðstoðarutanríkisráðherra sambandsstjórnarinnar í Bonn, stjórnaði hins vegar fundinum, en í Þýskalandi eru menningarmál á verksviði einstakra sambandslanda en sambandsríkið kemur fram gagnvart öðrum ríkjum. Fyrsta daginn vorum við í Hamborg og fram eftir degi sunnudaginn 21. september, þegar farið var til Lübeck í Schleswig-Holstein, þar sem fundirnir voru haldnir. Borgin er rétt við landamærin, sem áður skildu á milli Austur- og Vestur-Þýskalands. Fórum við í ferð til borgarinnar Wismar í Mecklenburg-Vorpommern, sem er sambandslandið við Eystrasaltsströndina í fyrrverandi Austur-Þýskalandi og nær að landamærum Póllands. Enn er mikill munur á Austur- og Vestur-Þýskalandi, þótt stórátak hafi verið gert til að jafna muninn. Wismar á sér gamla sögu sem ein af Hansaborgunum og þangað munu menn vafalaust sækja til að sjá slíka borg, sem ekki hefur verið spillt með nýjum byggingum. Í ræðum sem fulltrúar borgarinnar og sambandslandsins fluttu yfir okkur kom fram mikill biturleiki, þegar fjallað var um einræðistíma kommúnista í landinu og sagt, að þeir hefðu valdið því meira tjóni en átökin í síðari heimsstyrjöldinni. Fórum um kvöldið á frumsýningu á leikritinu Bein útsending í Loftkastalanum.
Laugardagur 13.9.1997
Síðdegis laugardaginn 13. september fórum við Rut á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands en þar var einnig minnst 80 ára afmælis Jóns Þórarinssonar tónskálds þennan sama dag. Var smáhóf á vegum stjórnar hljómsveitarinnar í hléi og þar gafst mær færi á að ávarpa Jón nokkrum orðum og þakka honum ómetanlegt framlag til íslenskrar tónlistar og menningar. Að kvöldi laugardagsins bauð ég Vassili Shazhev, menntamálaráðherra Hvíta-Rússlands, í kvöldverð en hann var hér í vikunni á ráðstefnu um æðri menntun, sem haldin var af menntamálaráðuneytinu í tengslum við Evrópuráðið og Norrænu ráðherranefndina. Höfðum við hist á ráðstefnunni í Oxford í byrjun ágúst, sem áður hefur verið lýst hér á síðunum.
Föstudagur 12.9.1997
Síðdegis föstudaginn 12. september tókum við Rut þátt í hátíð í Tónskóla Sigursveins í tilefni af því, að hann var að flytja í nýtt húsnæði við Engjateig. Að kvöldi föstudagsins fór ég til Keflavíkur og sat þar fyrir svörum með öðrum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna. Var ég mest spurður um málefni RÚV, það er ekki starfsmannahald, heldur framtíð RÚV, afnotagjöld og Menningarsjóð útvarpsstöðva, einnig um skólagjöld í háskólum og skyldugreiðslur til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Er ljóst, að ungum sjálfstæðismönnum þykir sem Röskvumenn noti fjármuni þá, sem Stúdentaráð fær af innritunargjaldi námsmanna við HÍ ekki einvörðungu á hlutlægum hagsmunaforsendum námsmanna.
Fimmtudagur 11.9.1997
Fimmtudaginn 11. september fór ég síðdegis í Fjölbrautaskóla Vesturlands, Akranesi, og afhenti nemendafélaginu og fulltrúum nemenda viðurkenningu fyrir framgöngu þeirra við jafningjafræðslu, það er baráttu gegn fíkniefnanotkun. Var Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, með í förinni, en hún hefur átt drjúgan þátt í hinu góða samstarfi, sem hefur tekist milli menntamálaráðuneytisins og Félags framhaldsskólanema um jafningjafræðsluna, en hún hófst formlega 1. mars 1996. Að kvöldi fimmtudagsins tók ég þátt í kvöldverði gamalla félagsmanna í Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Var það ánægjuleg stund, þar sem Friðrik Sophusson fjármálaráðherra rifjaði upp minningar frá þeim tíma, þegar við vorum í Háskóla Íslands, og Margrét Leósdóttir, formaður Vöku, gerði grein fyrir störfum félagsins um þessar mundir.
Miðvikudagur 10.9.1997
Við Rut flugum í sólarferð á Costa del Sol miðvikudaginn 3. september og komum aftur heim miðvikudaginn 10. september. Nutum við þess vel að fá sex daga frí í sólinni, en þetta er eina sumarfríið okkar í ár. Ákvörðun um að taka frá nokkra daga í þessu skyni, þarf að taka með löngum fyrirvara til að unnt sé að skipuleggja önnur störf í samræmi við það. Hér miðaði ég við að meginákvarðanir um fjárlagafrumvarpið 1998 hefðu verið teknar. Ef ekki er haldið fast við dagana, hvað sem á dynur, er sú áhætta tekin, að ekki takist á ná jafnlöngum tíma í bráð