12.9.1997 0:00

Föstudagur 12.9.1997

Síðdegis föstudaginn 12. september tókum við Rut þátt í hátíð í Tónskóla Sigursveins í tilefni af því, að hann var að flytja í nýtt húsnæði við Engjateig. Að kvöldi föstudagsins fór ég til Keflavíkur og sat þar fyrir svörum með öðrum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna. Var ég mest spurður um málefni RÚV, það er ekki starfsmannahald, heldur framtíð RÚV, afnotagjöld og Menningarsjóð útvarpsstöðva, einnig um skólagjöld í háskólum og skyldugreiðslur til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Er ljóst, að ungum sjálfstæðismönnum þykir sem Röskvumenn noti fjármuni þá, sem Stúdentaráð fær af innritunargjaldi námsmanna við HÍ ekki einvörðungu á hlutlægum hagsmunaforsendum námsmanna.