Dagbók: apríl 1996
Sunnudagur 14.4.1996
Í hádegi sunnudaginn 14. apríl buðum við Völu Flosadóttur, Evrópumeistara í stangarstökki kvenna, til hádegisverðar í Ráherrabústaðnum. Með henni voru ungmenni, sem eru í Sidney 2000 hópi Frjálsíþróttasambands Íslands, þjálfari þeirra, stjórn sambandsins og móðir Völu.
Föstudagur 12.4.1996
Föstudaginn 12. apríl síðdegis skaust ég út af fyrirlestri Mayors í Háskóla Íslands, þegar hann var tekinn til við að svara fyrirspurnum, til að stjórna aðalfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem ég hef gert í mörg ár. Að kvöldi föstudagsins fórum við á frumsýningu á leikriti Jónasar Árnasonar í Borgarleikhúsinu. Laugardagskvöldið fórum við síðan og sáum Þrjár stórar konur í Tjarnarbíói en það er eftir Edward Albee. Ólíkari verk er vart unnt að sjá.
Miðvikudagur 10.4.1996
Miðvikudaginn 10. apríl var Jónmundur Jensson, góður sjálfstæðismaður, jarðsunginn frá Neskirkju. Síðdegis fimmtudaginn 11. apríl kom fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík saman til fundar og var dagskrá hennar samþykkt.
Þriðjudagur 9.4.1996
Tónleikar Hamrahlíðarkórsins í Listasafni Íslands þriðjudagskvöldið 9. apríl voru merkilegur viðburður. Þar voru eingöngu flutt lög eftir íslensk tónskáld.