Dagbók: apríl 1996

Sunnudagur 14.4.1996 - 14.4.1996 0:00

Í hádegi sunnudaginn 14. apríl buðum við Völu Flosadóttur, Evrópumeistara í stangarstökki kvenna, til hádegisverðar í Ráherrabústaðnum. Með henni voru ungmenni, sem eru í Sidney 2000 hópi Frjálsíþróttasambands Íslands, þjálfari þeirra, stjórn sambandsins og móðir Völu.

Föstudagur 12.4.1996 - 12.4.1996 0:00

Föstudaginn 12. apríl síðdegis skaust ég út af fyrirlestri Mayors í Háskóla Íslands, þegar hann var tekinn til við að svara fyrirspurnum, til að stjórna aðalfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem ég hef gert í mörg ár. Að kvöldi föstudagsins fórum við á frumsýningu á leikriti Jónasar Árnasonar í Borgarleikhúsinu. Laugardagskvöldið fórum við síðan og sáum Þrjár stórar konur í Tjarnarbíói en það er eftir Edward Albee. Ólíkari verk er vart unnt að sjá.

Miðvikudagur 10.4.1996 - 10.4.1996 0:00

Miðvikudaginn 10. apríl var Jónmundur Jensson, góður sjálfstæðismaður, jarðsunginn frá Neskirkju. Síðdegis fimmtudaginn 11. apríl kom fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík saman til fundar og var dagskrá hennar samþykkt.

Þriðjudagur 9.4.1996 - 9.4.1996 0:00

Tónleikar Hamrahlíðarkórsins í Listasafni Íslands þriðjudagskvöldið 9. apríl voru merkilegur viðburður. Þar voru eingöngu flutt lög eftir íslensk tónskáld.