Dagbók: maí 2013

Föstudagur 31. 05. 13 - 31.5.2013 20:50

Í morgun var 11. aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda, haldinn í húsi SÁÁ í Efstaleiti þar sem flestar æfingar undir handarjaðri félagsins eru stundaðar. Þær eru einnig í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal, í húsakynnum eldri borgara í Hafnarfirði og Sjálandsskóla í Garðabæ auk þess sem hugleiðsla undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar er stunduð í húsi Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð.

Aflinn hefur lagt áherslu á kynningu út á við nema erlendir gestir komi til landsins á vegum félagsins.

Á síðasta kom hingað dr. Yang frá Bandaríkjunum, heimskunnur qi gong meistari, og efndi til námskeiðs á vegum félagsins. Á þessu ári 23. til 25. ágúst kemur Kenneth Cohen sem er í hópi fyrstu Vesturlandabúa til að kynna almenningi qi gong, hann hefur áður komið tvisvar hingað til lands en hér nú í fyrsta sinn á vegum Aflsins.

Dagskrá Cohens er tvískipt, hann flytur almennan kynningarfyrirlestur um qi gong síðdegis föstudaginn 23. ágúst en 24. til 25. verður hann með námskeið í Fljótshlíðinni. Hér má fá nánari upplýsingar www.aflinn.org,. Aðeins 30 manns komast á námskeiðið í Fljótshlíðinni.

Cohen er vinsæll og eftirsóttur fyrirlesari og kennari meðal heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum en sífellt meiri áhersla er lögð á hugleiðslu og andlega líðan sjúklinga og til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Þýska vikublaðið Der Spiegel birti í hefti sínu dags. 18. maí forsíðugrein um heilbrigði fyrir tilstuðlan hugleiðslu og slökunar. Der Heilende Geist – hinn læknandi andi.

 


Fimmtudagur 30. maí 2013 - 30.5.2013 22:45

Það rigndi töluvert i Fljótshlíðinni í dag og nú mun gróðurinn taka kipp. Það var því gott að fá tíma í gærkvöldi til að slá skikann við bæinn í fyrsta sinn og næsta nágrenni bæjarins. Hlýni með rigningunni verður sprettan hröð og mikil.

Ég hlustaði á samtal um menningu í útvarpinu upp úr hádeginu þar sem Ævar Kjartansson þáttarstjórnandi kallaði Hörpu „hlunkinn“ og „ferlíkið“. Þetta eru sérkennileg orð um byggingu sem hefur fengið virtustu arkitektaverðlaun Evrópu.

Rætt var við Halldór Guðmundsson, forstjóra Hörpu, sem andmælti að vísu ekki þessari orðnotkun Ævars en sýndi hve fráleit hún er þegar rætt er um húsið sem 1.9 milljón manns hafa heimsótt síðan það var opnað 11. maí 2011.

 

Miðvikudagur 29. 05. 13 - 29.5.2013 23:55

Í dag ræddi ég við erlendan fræðimann sem er að safna upplýsingum um þróun öryggismála á norðurslóðum og er hér á landi til að kynna sér borgaralega starfsemi okkar Íslendinga á þessu sviði.

Hann tók undir þá skoðun að annars vegar væri þjóðum kappsmál að halda öryggisgæslu með siglingum og auðlindanýtingu á borgaralegu stigi en hins vegar væri þróun í þá átt hjá þjóðum sem ráða yfir herafla að beina honum meira inn á norðurslóðir en áður.

Það er þverstæða í þessari þróun en hún er staðreynd engu að síður.

Þriðjudagur 28. 05. 13 - 28.5.2013 22:10

Gagnrýni á svonefnda stjórnsýsluúttekt á sviði fornleifarannsókna og fornleifaverndar árin 1990 til 2010 kemur ekki á óvart. Þar er vikið að rannsóknum Fornleifastofnunar Íslands á Þingvöllum og bréfi sem hún ritaði til Þingvallanefndar og nefndin svaraði.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur kallað eftir athugasemdum við skýrsluna og sendi ráðuneytinu bréf í dag með athugasemdum mínum þar sem ég sagði:

„Þingvallanefnd var ekki aðili að neinum deilum vegna fornleifarannsókna á Þingvöllum. Nefndinni bar lögum samkvæmt að taka afstöðu til bréfs Fornleifastofnunar Íslands og gerði það […] 10. júní 2005. Nefndin lýsti ekki öðru en afstöðu sinni. Hún fór ekki inn á verksvið annarra með því.

Að afgreiðsla Þingvallanefndar hafi verið brot á þjóðminjalögum er hrapallegur misskilningur og alvarlegur í skýrslu sem kynnt er sem stjórnsýsluúttekt. Að fullyrða að Þingvallanefnd hafi tekið sér vald umfram lög er á færi dómara en ekki skýrsluhöfundar. Slíka ásökun ber ekki að kynna í opinberri skýrslu á vegum ráðuneytis án þess að allir aðilar máls fái tækifæri til að lýsa afstöðu sinni fyrir birtingu. Í slíku stjórnsýsluferli hefði verið unnt að upplýsa höfund um lagaskyldur Þingvallanefndar.

Rétt er að geta þess að Þingvallanefnd átti beina aðild að öllum undirbúningi vegna skráningarinnar á heimsminjaskrá UNESCO. Nefndin tók ákvarðanir sínar með tilliti þess ferlis og samtala við erlenda sérfræðinga sem að málinu komu.

Engin skýring er gefin í skýrslunni á að tíunduð sé sú staðreynd að formaður Þingvallanefndar gegndi ráðherraembætti.

Þegar texti skýrslunnar er lesinn kemur í ljós að ummælin um Þingvallanefnd eiga í raun ekkert erindi í hana. Fornleifavernd og fornleifanefnd áttu síðasta orð í þessu máli varðandi fornleifaþáttinn eins og lýst er í skýrslunni. Þingvallanefnd gerði ekki annað en svara erindi sem henni barst og er það ekki í frásögur færandi.“

 

Mánudagur 27. 05. 13 - 27.5.2013 22:45

Í ræðu sem ég flutti í Rótarýklúbbi Reykjavíkur um öryggis- og varnarmál á dögunum sagði ég að yfirstjórn varnarmála væri stjórnsýslulegur bastarður þar sem ekki hefði verið leyst úr ágreiningi milli utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis . Ríkisendurskoðun staðfestir þetta í skýrslu sem sagt var frá í dag. Er furðulegt að lesa lýsingar á tregðu til frágangs á þessu máli þrátt fyrir að samkomulag liggi fyrir milli ráðuneytanna um hvernig fara skuli með það. Framkvæmdin á að sjálfsögðu að vera undir stjórn innanríkisráðuneytisins enda eru landhelgisgæsla og lögregla stofnanir á þess vegum. Utanríkismálaráðuneytið heldur hermálaþættinum enda er enginn her hér á landi heldur snýst þessi þáttur um samskipti við önnur ríki.

Á Keflavíkurflugvelli er sérstakt öryggissvæði, að það skuli enn falla undir utanríkisráðuneytið sýnir í hnotskurn um hvað málið snýst, það er að utanríkisráðuneytið heldur dauðahaldi í leifar valds síns frá þeim tíma þegar bandaríska varnarliðið dvaldist hér og utanríkisráðuneytið kom fram fyrir Íslands hönd gagnvart því og var einskonar „einræðisherra“ á Keflavíkurflugvelli. Þessi tími er liðinn og í raun ber innanríkisráðuneytið nú höfuð og herðar yfir öll ráðuneyti þegar litið er til flugvallarins og starfseminnar þar löggæslu, flugstarfsemi og annars.

Þetta mál lægi mun skýrar fyrir notuðu stjórnvöld orðið hermál frekar en „varnarmál“ og hernaðartengd verkefni  í stað „varnartengdra verkefna“. Væri það gert sæju menn betur verkaskiptinguna milli utanríkisráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins.

Þess er að vænta að nú verði tekið af skarið um þetta mál úr því að skýrsla ríkisendurskoðunar hefur verið birt. Þar er því beint til forsætisráðuneytisins að taka ákvörðun. Verði hún reist á efnislegu mati og eðlilegri verkaskiptingu milli ráðuneyta verða hermálin hjá utanríkisráðuneytinu en framkvæmd hinna borgaralegu verkefna hjá innanríkisráðuneytinu og stofnunum þess.

Sunnudagur 26. 05. 13 - 26.5.2013 23:12

Samtal mitt við Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl. og fyrrverandi hæstaréttardómara, á ÍNN 22. maí er nú kominn á netið og má sjá hann hér

Þeir sem hafa áhuga á að kynnast starfsháttum og aðstæðum hæstaréttar ættu ekki að láta þennan þátt fram hjá sér fara.

Laugardagur 25. 05. 13 - 25.5.2013 22:40

Flug Icelandair var á áætlun frá Osló í dag, það var 21 stigs hiti í Osló en 7 stig á Keflavíkurflugvelli. Allt er miklu grænna í kringum Gardemoen-flugvöll en Keflavíkurflugvöll. Í suðurhluta Noregs glíma menn hins vegar við mikinn vanda vegna flóða.

Í flugvélinni horfði ég á Óskarsverðlaunamyndina Argo og þótti hún standa undir lofinu sem borið hefur verið á hana. Styrkur hennar er á hve lágum nótum spennan er mögnuð í kringum atburð sem allir vita hvernig endaði. Að þessu leyti er hún lík myndinni um lokadaga Osama bin Ladens.

Um þessa helgi er endursýnt á ÍNN samtal okkar Jóns Steinar Gunnlaugssonar lögfræðings sem frumsýnt var miðvikudaginn 22. maí. Við ræðum um stöðu hæstaréttar.Verður á dagskrá ÍNN klukkan 18.00 sunnudag.

Föstudagur 24. 05. 13 - 24.5.2013 22:30

Við Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, lukum fundum okkar hér í Osló í dag. Fórum meðal annars í Gyldendal-forlagið og kynntum okkur útgáfustarfsemi þess á verkum Snorra. Þar er annars vegar um að ræða nýja þýðingu á Heimskringlu í þremur glæsilegum og myndskreyttum bindum og hins vegar sýnisbók úr Heimskringlu sem er gefin út fyrir skóla annars vegar og almenning hins vegar. Skólaútgáfan var gefin öllum nemendum í 9. bekk grunnskóla í Noregi í tilefni af útgáfu heildarverksins. Kjell Arild Pollestad þýddi verkið og sá um valið í sýnisbókina. Þá hefur Gyldendal sett skólaefni um Snorra á vefsíðu sína.

Eins og ég sagði í gær þá fagnaði forlagið Cappelen þá fyrsta bindi af þremur af nýrri þýðingu Knuts Ödegaards á Eddu.

Við höfum orðið þess áþreifanlega varir á ferð okkar til Bergen og Oslóar og viðræðum um málefni Snorrastofu hve mikill áhugi er á Snorra Sturlusyni og framlagi hans til norskrar sögu og menningar. Verður spennandi á sjá hvernig til tekst að vinna úr öllu því sem við höfum kynnst í þessari ferð.

Lokahnykkurinn í menningarferðinni var að fara í hið glæsilega óperuhús hér í Osló og sjá þar á litla sviðinu nýja norska óperu Khairos. Hún snýst um píanóstillara sem hefur hreina heyrn. Hann umturnast við að heyra í laufblásara í garði Khairos og drepur þann sem heldur á blásaranum. Honum er refsað með að verða settur um borð í olíuborpall. Ofurheyrn hans leiðir til þess að óþarft er að gera skjálftamælingar í leit að olíu. Hann auðveldar því íbúum í Khairos að stunda olíuvinnslu. Græðgin nær yfirhöndinni sem leiðir til ragnaraka, Í lokin er ungur drengur einn eftir á sviðinu, tákn framtíðarinnar, hinnar grænu jarðar sem rís úr djúpinu. Enn vorum við minntir á Snorra og Völuspá.

Khairos var samið að ósk Den Norske Opera & Ballett. Tónlist er eftir Knut Vaage, texti eftir Torgeir Rebelledo Pedersen og Kjersti Horn leikstýrir. Uppfærslan frumleg og beitt margvislegri tækni á opnu sviði. Þetta var fjórða sýning og ekki uppselt og því er líklegt að við verðum í fámennum hópi sem sér verkið að þessu sinni,

 

Fimmtudagur 23. 05. 13 - 23.5.2013 21:15

Nýrri ríkisstjórn er fagnað og óskað til hamingju. Þau eru níu sem taka að sér að leiða starfið í ráðuneytunum. Ekkert þeirra hefur setið áður í ríkisstjórn. Öll hefðu gott af að kynna sér 100 ára sögu stjórnarráðsins sem til er í fimm bindum og kom út árið 2004. Þá sjá þau hve illa var staðið að sameiningu ráðuneyta í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar var unnið óþarft skemmdarverk af dæmalausri eyðileggingarþörf sem oft einkennir upplausnartíma.  

Engin ríkisstjórn hefur fengið sambærilega falleinkunn hjá kjósendum og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það sýnir lítil tengsl við grasrótina þegar Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sér ástæðu til að vega að þeim sem gagnrýna stjórnarhætti Jóhönnu-stjórnarinnar og telja þá fulltrúa gamla tímans. Engir sýndu stjórninni meiri óvild en kjósendur. Lifa þeir ekki í samtímanum?

Í dag höfum við Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, setið fundi um málefni hennar í Osló. Í kvöld efndi Cappelen-forlagið og sendiráð Íslands síðan til útgáfuhófs í tilefni af fyrsta bindi i þriggja binda þýðingu Knuts Ödegaards skálds á verkum sem tengjast Snorra Sturlusyni. Að þessu sinni eru það Hávamál og Völuspá úr hinu fræga Edduhandriti Konungsbók.

Knut og frú Vigdís Finnbogadóttir tóku þátt í kynningunni. Fjölmiðlar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og var meðal annars sýnt viðtal við frú Vigdísi beint í helsta fréttatíma sjónvarpsins, Dagsrevyen. Gjörkunnugur maður sagði mér að hann hefði ekki áður kynnst slíkum áhuga á útgáfu bókar tengdu þessu efni. Hjá Cappelen var meðal annarra Kjeld Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.

Í viðtölunum sem við Bergur höfum átt er áhuginn hinn sami og fram kemur í kynningunni á þýðingu Hávamála og Völuspár. Menningararfur okkar og Norðmanna er hinn sami og mikilvægt að leggja rækt við hann. Ánægjulegt er að sjá að í stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstjórnar okkar Íslendinga er lögð rík áhersla á varðveislu þessa arfs og að hann sé lifandi þáttur í samtíðinni. Að svo sé sást mjög vel hér í Osló í dag.

 

 

Miðvikudagur 22. 05. 13 - 22.5.2013 22:30

Áður en haldið var áfram til Oslóar síðdegis skoðuðum við Bergen og áttum mikilvægan fund með vinum Snorrastofu auk þess að fylgjast með þegar listahátíðin í Bergen var sett þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir var meðal ræðumanna til að minnast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna í Noregi.

Þriðjudagur 21. 05. 13 - 21.5.2013 20:50

Í Litteraturhuset í Bergen var í dag fyrir hádegi málþing um íslenskar bókmenntir og þýðingu þeirra á norsku. Margir fróðlegir fyrirlestrar voru fluttir. Síðdegis opnaði frú Vigdís Finnbogadóttir veforðabókina Íslex og kynning var á orðabókinni. Þetta er stórmerkilegt tæki fyrir alla málnotendur. Hér má sjá meira um þessa viðburði.

Undarlegt er að lesa um að Ólafur Ragnar Grímsson segist hafa valið Sigmund Davíð Gunnlaugsson til að mynda ríkisstjórn á Íslandi af því að honum hugnaðist stefnan sem hann boðaði fyrir kosningar. Ólafur Ragnar fer hér enn einu sinni út fyrir hæfileg mörk í afskiptum af stjórnmálum og hann undirstrikar afskiptasemi sína með því að kalla Sigmund Davíð til sín á Bessastaði á morgun.

Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari með þessu? Að gera lítið úr Jóhönnu Sigurðardóttur og flokki hennar eða VG? Hann gerir Sigmundi Davíð eða nýrri ríkisstjórn engan greiða með þessu.

Mánudagur 20. 05. 13 - 20.5.2013 20:40

Flaug í dag með Icelandair til Bergen lögðum af stað 08.00 og lentum hér í 23. stiga hita klukkan 12.15.

Er á ferð með Bergi Þorgeirssyni, forstöðumanni Snorrastofu. Tilgangur dvalar okkar hér og Ósló síðar í vikunni er að efla tengsl Snorrastofu við Norðmenn.

Sunnudagur 19. 05. 13 - 19.5.2013 23:55

Nú hlýtur að bera til tíðinda í stjórnarmyndunarviðræðunum. Kosið var 27. apríl og nú er 19. maí, frá upphafi hefur verið ljóst að ekki kæmi annað til greina, tækju menn mið af úrslitum kosninganna, en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu stjórn. Formenn flokkanna hafa nú talað saman í tvær vikur og fengið til þess góðan frið. Fréttir af viðræðunum hafa snúist meira um umgjörð og aukaatriði en efni málsins.

Fjölmiðlar eru síður en svo aðgangsharðir við öflun pólitískra frétta. Sá maður sem nú er orðinn aðalritstjóri 365 fjölmiðlaveldisins með sameinuðum fréttastofum hefur ekki meiri áhuga  á stjórnmálum en að hann skrifaði leiðara um skaðsemi reykinga á kjördag, sé rétt munað. Að velja hann sem aðalritstjóra bendir til að fréttaþjónustan sé markvisst að breytast í einskonar neytendaþjónustu. Í æ ríkari mæli er litið á fréttamennsku sem miðlun upplýsinga til neytenda.

Þessi þróun í fjölmiðlum veldur því að þeir hætta að skipta sama máli og áður í opinberum umræðum. Sjónvarpsþættir um stjórnmál eins og danski þátturinn Borgen og bandaríski þátturinn House of Cards segja frá þríhyrningi: stjórnmálamanni, fjölmiðlamanni og almenningi. Fjölmiðlamaðurinn gegnir ekki minna hlutverki en stjórnmálamaðurinn þegar leitast er við að hafa áhrif á almenna manninn,. Milli fjölmiðlamannsins og stjórnmálamannsins eru síðan spunaliðarnir sem krydda það sem fyrir almenna manninn er borið.

Er þessi þríhyrningur fyrir hendi hér á landi? Hér láta háskólamenn að sér kveða í umræðum á sama veg og dálkahöfundar eða fréttaskýrendur fjölmiðla erlendis. Háskólamenn eru hluti af þríhyrningum í stað þess að standa utan hans. Þeir skipa sér við hlið fjölmiðlamannanna. Háskólamenn eiga einkum greiðan aðgang að fréttastofu ríkisútvarpsins og eru oft leið hennar til að ljá pólitískum frásögnum sínum blæ óhlutdrægni.  

 

Laugardagur 18. 05. 13 - 18.5.2013 22:50

Glæsilegt hjá Dönum að sigra í Evróvisjón. Legið hefur í loftinu í aðdraganda lokakeppninnar í Malmö í kvöld að hin tvítuga Emmelie de Forest kynni að vinna keppnina sem Danir kalla evrópsku Melodi Grand Prix, sigurlagið heitir Only Teardrops.

Danir halda keppnina árið 2014 og hafa blöð þeirra undanfarið varað skattgreiðendur við kostnaði vegna þess. Brødrene Olsen unnu keppnina fyrir Dani árið 2000 og Grethe og Jørgen Ingemann árið 1963.

Felix Bergsson var góður og öruggur kynnir í ríkissjónvarpinu. Ég óska Eyþóri Inga Gunnlaugssyni til hamingju með 17. sætið, hann er vel að því kominn.

Erfitt er að átta sig á þörfinni á að ergja sig yfir þessari keppni. Ég skrifaði leiðara um hana á Evrópuvaktina sem lesa má hér.

 

Föstudagur 17. 05. 13 - 17.5.2013 22:55

Forsetar Frakklands og Bandaríkjanna eiga undir högg að sækja.

François Hollande hefur setið eitt ár í embætti af fimm á kjörtímabilinu. Álit Frakka á honum hefur minnkað jafnt og þétt og nú er hann lægra skrifaður en forverar hans hafa verið. Hann reyndi að snúast til varnar á blaðamannafundi í vikunni með því beina athygli að vanda Evrópusambandsins, tækju menn sig á þar batnaði hagur Frakka.

Barack Obama er að hefja annað og seinna kjörtímabil sitt. Hann á nú í vök að verjast vegna þriggja mála sem talin eru til marks um misnotkun á valdi. Í fyrsta lagi beittu bandarísk skattayfirvöld (IRS) teboðshreyfinguna svonefndu óhæfilegu harðræði, tveir æðstu stjórnendur skattheimtu í Bandaríkjunum hafa orðið að víkja úr embætti; í öðru lagi er dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ábyrgt fyrir óhæfilegri símahlerun hjá starfsmönnum fréttastofunnar Associated Press; í þriðja lagi virðist sem á æðstu stöðum í Washington hafi menn reynt að leyna því sem gerðist í Benghazi í Líbíu þegar ráðist var á ræðisskrifstofu Bandaríkjanna þar og sendiherra þeirra felldur meðal annarra.

Nú er því víða haldið á loft að helst megi líkja Obama við Richard Nixon sem þótt hefur spilltastur forseta og hrökklaðist frá völdum fyrir um 40 árum vegna Watergate-málsins, yfirhylminga og pólitískrar spillingar.

Stjórnlög Frakklands og Bandaríkjanna gera ráð fyrir meira valdi forseta innan stjórnkerfisins en almennt tíðkast á Vesturlöndum. Verði forsetarnir áhrifa- eða máttlausir líður allt stjórnkerfið fyrir það og vandræði verða á öllum sviðum stjórnsýslu ríkisins.

Á dögunum sagði ég frá kaupum mínum á nýrri fartölvu hjá Nýherja og að vegna kaupanna hafi ég orðið að fjárfesta í Office 365 Homerunpremium forriti til að hafa þau forrit sem ég kýs í tölvunni. Forritið virkar í nýju tölvunni. Ég fékk fimm leyfi í áskriftinni og tekst mér ekki enn að nýta þau á öðrum tölvum. Ég sagði frá þessum vandræðum á fésbókinni og margir makkaeigendur töldu mig með ranga tölvu og búnað, hlakkaði í þeim vegna þess að þeir byggju betur. Ég ætlaði að leita ráða hjá Microsoft á Íslandi sem er umboðsaðili Office 365. Þar á bæ taldi viðmælandi í síma að vandamálið væri þeim óviðkomandi, ég ætti að ræða við seljanda tölvunnar. Það var skrýtið svar.

Fimmtudagur 16. 05. 13 - 16.5.2013 22:10

VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, og Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál efndu til fundar í morgun í Silfurbergi í Hörpu um tækifæri á norðurslóðum Martha Eiríksdóttir stýrði fundinum og erindi fluttu Svend Hardenberg, athafnamaður og sveitastjóri á Grænlandi, Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir og Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri hjá Mannviti. Fundurinn var fjölsóttur sem staðfestir enn einu sinni áhuga á hinum spennandi hlutum sem eru að gerast á norðurslóðum.

Þessi fundur hafði sérstöðu að því leyti að þar talaði Grænlendingur sem lýsti málum frá sjónarhóli heimamanns með víðtæka reynslu og þekkingu. Af máli Hardenbergs má ráða að tækifærin á Grænlandi séu mikil en fjárfrek. Hann segir að nýting þeirra sé leið þjóðarinnar til sjálfstæðis og nefnir: Jarðefni, álbræðslu og mannvirki tengd henni, vatnsaflsvirkjanir, fiskveiðar, útflutning á vatni í tanskipum og gagnaver auk annarra verkefna. Hann vill að Grænlendingar geti stofnað til samvinnu við aðrar þjóðir án milligöngu Dana og sagði að þeir hefðu minnt á sjálfstæða stöðu sína með því að senda ekki fulltrúa á ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Kiruna, þar sem þeim hafði ekki verið ætlað sæti við fundarborðið. Slíka móðgun létu þeir ekki bjóða sér.

Heiðar Már sagði að á Íslandi yrði ekki umskipunarhöfn vegna norðurslóðasiglinga nema risastórt alþjóðlegt skipafélag tæki ákvörðun um að hafa sér bækistöð til langs tíma. Hann benti á að Íslendingar gætu verulega látið að sér kveða vegna legu lands síns og þekkingar, Hér væru t.d. sjómenn og flugmenn sem þekktu aðstæður betur en aðrir Icelandair væri eina flugfélag heims sem flygi til allra aðildarlanda Norðurskautsráðsins nú þegar opnuð hefði verið flugleið frá St. Pétursborg um Ísland til Anchorage.

Haukur Óskarsson sagði að 31 milljaður tunna af olíu væri við Norðaustur-Grænland að mati bandarísku jarðfræðistofnunarinnar en nú lægi fyrir norskt mat um að 6 milljarða tunna væri að finna á Drekasvæði Íslendinga og 4 milljarða tunna á norska svæðinu við Jan Mayen. Þetta sýndi hve gífurleg tækifæri væru við Grænland. Taldi hann Akureyri kjörinn stað til þjónustu við þetta svæði en Heiðar Már sagði að 250 til 300 km væru þangað frá austurströnd Grænlands en 1.000 km til Tromsö næstu hafnar fyrir utan Ísland.

Hér má sjá upptöku frá þessum fróðlega fundi.

Undir kvöld ræddi ég um öryggis- og varnarmál á fundi Rotary-klúbbs Keflavíkur og nálgaðist málefni norðurslóða frá þeim sjónarhóli. Gæsla öryggis skiptir höfuðmáli við allt sem menn taka sér fyrir hendur við hinar erfiðu og oft hlættulegu aðstæður á norðurslóðum.

Miðvikudagur 15. 05. 13 - 15.5.2013 22:50

Norðurskautsráðið efndi til ráðherrafundar í Kiruna í Svíþjóð í dag. Carl Bildt lét þá af formennsku í ráðinu eftir að hún hafði verið í tvö ár í höndum Svía. Kanadamenn tóku við formennskunni og verður hún í pólitískum höndum Leonu Aglukkaq, heilbrigðis- og norðurslóðaráðherra Kanada. Hún er af ættum inúíta, frumbyggja á norðurslóðum Kanada. Hún lýsti andstöðu Kanadamanna við að ESB fengi fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu vegna andstöðu sambandsins við viðskipti með selafurðir.

Landstjórnin á Grænlandi ákvað þriðjudaginn 14. maí að senda ekki fulltrúa á fundinn í Kiruna. Kom þetta fundarmönnum á óvart en Aleqa Hammond, formaður landstjórnarinnar, sagði að í þessu fælust mótmæli við afstöðu Svía til Grænlendinga undanfarin tvö ár, þeir hefðu staðið gegn því að Grænlendingar sætu við hlið Dana á fundum ráðsins. Án Grænlands sætu Danir ekki í ráðinu og lýsti Villy Søvndal, utanríkisráðherra Dana, miklum vonbrigðum yfir framkomunni í garð Grænlendinga. Í ræðu á ráðsfundinum bað hann Kanadamenn að stjórna fundum ráðsins á annan veg.

Að Svíar setji Grænlendinga skör lægra en Dani á fundum Norðurskautsráðsins má ef til vill rekja til þess að þeir vilji halda aftur af Löppum eða Sömum innan ráðsins sem kynnu að gera kröfu til að sitja þar við hlið Norðmanna, Svía, Finna og Rússa. Staðreynd er að austan Atlantshafs sýna yfirvöld frumbyggjum norðurslóða minni virðingu en gert er vestan hafsins á Grænlandi, í Kanada og Alaska.

Carl Bildt notar jafnan norðurslóðarök innan ESB þegar hann talar máli aðildar Íslands. Þau rök eru ekki sett fram til að styrkja stöðu Íslands gagnvart ESB heldur í því skyni að ýta undir þá skoðun að ESB fái meiri ítök á norðurslóðum með aðild Íslands. Viðhorfið sem hann hefur sýnt Grænlendingum sem formaður Norðurskautsráðsins er ekki til marks um  mikla virðingu fyrir heimamönnum á N-Atlantshafseyjunum.

Þriðjudagur 14. 05. 13 - 14.5.2013 21:58

Jón Þór Ólafsson, nýkjörinn þingmaður Pírata, var gestur minn á ÍNN hinn 8. maí og má sjá samtal okkar hér. Mér lá hugur á að vita hver væri stefna Pírata, hins nýja flokks á alþingi.

Eins og við var að búast reyndist staða ríkissjóðs verri eftir kosningar en stjórnarliðar sögðu hana vera fyrir kosningar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi ráðherra, deila nú um þetta. Spilin verða vonandi lögð á borðið svo að almenningur geti sjálfur lagt mat á stöðuna.

Steingrímur J. hefur ritað sjálfshóls grein í The Financial Times og notar jafnframt tækifærið til að gera lítið kjósendum sem spörkuðu honum út úr stjórnarráðinu. Um þetta má meðal annars lesa hér.

Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður heldur áfram að skrifa um ráðningu nýs rektors Listaháskóla Íslands í Morgunblaðið. Við blasir að stjórn skólans hefur að minnsta kosti farið á svig við lög ef ekki brotið þau með vali sínu á eftirmanni Hjálmars H. Ragnarssonar. Skrýtin er röksemdin að nýi rektorinn hafi ekki kennt við skólann af því að hann hafi ekki haft tíma til þess þegar tilmæli bárust og að þetta skuli notað sem rök fyrir ráðningunni.

Hið einkennilega við þessar umræður er að ekki skuli birt nöfn umsækjenda um rektorsstöðuna. Þá er furðulegt að ekki skuli birt nöfn þeirra sem sóttu um stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Rétt er að minna á að fulltrúar VG sitja í formennsku stjórna beggja þessara stofnana en leyndarhyggja sýnist vera kær trúnaðarmönnum flokksins.

Á sínum tíma lá ekki í augum uppi hvaða leið mundi duga til að skapa sátt þegar Listaháskóli Íslands kom til sögunnar. Sé ekki gætt vandaðra stjórnsýsluhátta við allar ákvarðanir vegna yfirstjórnar skólans er vegið að stoðum hans.

 

Mánudagur 13. 05. 13 - 13.5.2013 20:25

Vígi í dag með þessari færslu nýja fartölvu. Lenovo L430 sem dugar til þeirra verka sem ég þarf hana. Gamla fartölvan mín er af sömu gerð en dýrara módel en þessi nýja. Það  er meiri hraði á öllu á þessari nýju. Þegar ég sagðist vera með Outlook-póstforrit kom í ljós að aðeins er unnt að nálgast það á netinu og ákvað ég þá að gerast áskrifandi að Office-pakkanum með netsambandi við Microsoft.

Ég hef verið PC notandi frá því að ég settist á alþingi árið 1991 en sem blaðamaður á Morgunblaðinu hafði ég starfað í Mac-umhverfi. Á þessum árum var WorldWideWeb ekki kominn til sögunnar, það var ekki fyrr en árið 1993 en fram til þess tíma voru samskipti á netinu erfiðari en nú. Ég kynntist tölvusamskiptum milli landa í blaðamennskunni og fékk meira að segja mótald (módem) heim til mín til að verið í sambandi við Morgunblaðið þaðan.

Strax á fyrstu árum www fékk ég áhuga á að setja upp vefsíðu þegar Arnþór Jónsson og félagar hans í Miðheimum vöktu athygli mína á þeirri leið til að miðla upplýsingum. Kom síðan bjorn.is til sögunnar árið 1995 sem afrakstur þess samstarfs.

Nú fylgir með í Office 365 sem ég tók í dag 20 GB geymslurými í SkyDrive – himnarými á vegum Microsoft. Ég hef þegar nýtt mér slíkt rými á vegum annars aðila og auðveldar það alla ritvinnslu þegar notaðar eru margar tölvur á mismunandi stöðum eins og ég geri.

Það verður spennandi að kynnast þessu nýja umhverfi en áskriftin sem ég tók í dag gerir mér kleift að setja hugbúnaðinn á fimm mismunandi tölvur.

Þar sem ég er utan Apple-heimsins tengi ég ekki saman tölvur og iPad eða iPhone. Apple-tækin veita ótrúlega mörg ný tækifæri til samskipta, athygli mín var til dæmis nýlega vakin á smáforritinu Viber sem gerir iPhone eigendum fært að tala saman eða senda sms-boð án tengsla við öll símafyrirtæki séu þeir staddir í þráðlausu umhverfi.

Eitt er að vera notandi og reyna að átta sig á allri þessari nýju tækni annað að stunda rekstur og atvinnustarfsemi á þeim sviðum þar sem hún hefur mest áhrif og hafa eitthvað í höndunum sem kannski er í raun úrelt á morgun.

Sunnudagur 12. 05. 13 - 12.5.2013 21:40

Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi í dag við Gunnar Helga Kristinsson prófessor í tilefni af hugmyndum í stjórnarmyndunarviðræðunum um að fjölga ráðherrum og breyta skipan ráðherra. Þess var látið ógetið í fréttinni að Gunnar Helgi sat í nefnd sem skilaði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra skýrslu um breytingar á stjórnarráðinu, fækkun og stækkun ráðherra.  Skýrslan var liður í umdeildum breytingum á stjórnarráðin sem alþingi samþykkti og  endanlega var hrundið í framkvæmd 1. september 2012.

Reynslan af þessum breytingum er lítil. Það er gjarnan vitnað til skýrslu ríkisendurskoðunar til staðfestingar á að vel hafi til tekist.  Að unnt sé að leggja mat á það á svo skömmum tíma er ekki sannfærandi.  Nokkur spuni hefur verið vegna þessara stjórnarráðsbreytinga í anda Samfylkingarinnar. Því fer víðs fjarri að öll kurl séu komin til grafar í þessu máli. Sumt hefur vafalaust heppnast annað alls ekki.

Miðað við stjórnsýsluhlutverk stjórnarráðsins og skyldur embættismanna til að afgreiða málefni borgararanna og gæta hagsmuna þeirra á vandaðan, skjótan og markvissan hátt er undarlegt að sjá hve mikil áhersla er lögð á stefnumörkun og ályktanasmíði á vegum ráðuneyta, til dæmis innanríkisráðuneytisins.  Sé vefsíða ráðuneytisins skoðuð sést að í skrifstofu stefnumótunar og þróunar eru 18 starfsmenn en aðeins 6 í skrifstofu almannaöryggis. 

Fréttir frá þessu ráðuneyti bera með sér að þar bíði mikill fjöldi úrskurða afgreiðslu, til dæmis hælisleitenda. Stærsta skrifstofa ráðuneytisins er helguð stefnumótun og þróun. Þessi áhersla bendir til að í ráðuneytinu vilji menn fara inn á svið alþingis og sölsa undir framkvæmavaldið verkefni á sviði stefnumörkunar og þróunar sem á heima í höndum stjórnmálamanna.  Þetta er ekki æskileg þróun og ætti að snúa af þessari braut með myndun nýrrar ríkisstjórnar.

 

Laugardagur 11. 05. 13. - 11.5.2013 18:40

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag um úrslit kosninganna og stjórnarmyndun auk þess sem ég minntist á deilur vegna ítölu í Almenninga, afrétt í nágrenni Þórsmerkur. Hér má lesa pistilinn.

Skógrækt ríkisins fékk á sínum tíma afnot af Þórsmörk með því skilyrði að húnn girti og verndaði gróður. Nú fær hún heimild til að kæra ítölu af því að henni mundi fylgja nauðsyn þess að girða. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta?

Í gær skrifaði ég um fyrirhugaða lokun Evrópustofu á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, bregst hinn versti við fyrir hönd Evrópustofu og fimbulfambar um að bannað verði að sýna frá Evróvisjón í ríkissjónvarpinu. Ég fjallaði um þessi furðuskrif prófessorsins á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér.

 

Föstudagur 10. 05. 13 - 10.5.2013 19:20

Með vætunni og aðeins meiri hlýindum eykst græni liturinn í túnunum. Umferðin austur fyrir fjall var meiri en oft áður í dag. Hvarvetna má stóra fjallajeppa sem eru til marks um að fjöldi ferðamanna fer um Suðurlandið. Fjöldi manns var við N1 á Hvolsvelli. Við mættum Strætó nokkrum sinnum á leiðinni, stórum og litlum vögnum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra bregst hinn versti við dómi í héraðsdómi Austurlands á þágu atvinnufrelsis með langferðabílum á þjóðvegum landsins. Í Morgunblaðinu í dag segist hann ekki þurfa að breyta neinu, dómarar eigi hins vegar að sjá að sér ef þeir túlki lögin á annan hátt en hann. Á forsíðu blaðsins stendur:

„Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að niðurstaða Héraðsdóms Austurlands, þar sem lögbanni á rútuferðir var hafnað, gefi ekki tilefni til endurskoðunar á þeim samningum sem Vegagerðin hafi gert við sveitarfélög um fólksflutninga. Ögmundur segir að það séu fremur dómstólar sem þurfi að endurskoða afstöðu sína.“

Þetta er djörf afstaða hjá ráðherranum en í samræmi við trú hans á að opinberir aðilar geri hlutina betur en einkaaðilar. Honum er misboðið að dómarar átti sig ekki á að deili hið opinbera við einkaaðila eigi að dæma hinu opinbera í vil.

Fimmtudagur 09. 05. 13 - 9.5.2013 23:55

Umræður um hvort kalla megi flugstöð Leifs Eiríkssonar Leifsstöð eða skylt sé að kalla hana FLE eins og helst má skilja á fréttatilkynningu Ísavia er sérkennileg svo að ekki sé meira sagt. Orðið Leifsstöð um flugstöðina verður ekki afmáð á þennan hátt það „er komið til að vera“ eins og sagt er á máli sem særir málkennd mína meira en að tala um Leifsstöð þótt Ísavia vilji annað. Hvernig dettur nokkrum í hug að skammstöfunin FLE komi í stað fyrir Leifsstöð? Það býr eitthvað annað að baki hvatningu í þessa veru en heilbrigð skynsemi.

Var ekki á sínum tíma deila um nafnið Ísavia? Sé rétt munað taldi lögaðili gengið á rétt sinn með upptöku þess nafns á hinu opinbera félagi á sviði flugrekstrar. Hvernig skyldi deilunni hafa lokið? 

Miðvikudagur 08. 05. 13 - 8.5.2013 22:00

Í dag ræddi ég við Jón Þór Ólafsson, nýkjörinn þingmann Pírata, í þætti mínum á ÍNN. Mér lék forvitni á að vita hver væri stefna þessa flokks sem fékk 5,1% og þrjá þingmenn í kosningunum 27. apríl. Ég vona að áhorfendur verði nokkru nær eftir að hafa horft og hlustað á samtal okkar. Píratar eru eins máls flokkur sem vill gæta þess að áhrif fjórðu upplýsingabyltingarinnar skili sér sem fyrst og best inn í mannleg samskipti og viðskipti.

Þátturinn er sýndur klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma til kl. 18.00 á morgun.

Skruppum austur að Þingvallavatni. Það var spegilslétt og mátti heyra í himbrimanum. Hvítur Hengillinn speglaðist í sólgylltu vatninu þegar við ókum aftur til borgarinnar.

Eina skynsamlega leiðin til að standa vörð um náttúruna innan þjóðgarðisns er að leggja göngustíga og sjá til þess að þeir séu nýttir. Góðar merkingar og upplýsingar skipta miklu. Enginn ferðamaður kemur á Þingvöll til að níðast á náttúrunni. Átroðningur hundruð þúsunda skilur hins vegar eftir sig spor og sjá verður til þess að þau séu í stígum og á pöllum.

Finna verður leið til að tryggja að þjóðgarðurinn sé fjárhagslega sjálfbær og þeir sem þangað koma leggi sjálfir grunn að því að innviðir hans séu nógu öflugir til að taka á móti ferðamönnum. Hér er um vanda sem stafar af eigin velgengni að ræða og á honum er unnt að sigrast.

Laga- og reglurammi auk stefnumótunar er fyrir hendi. Það sem máli skiptir er að standa þannig að framkvæmdinni að sem mest sátt ríki um hana.

Þriðjudagur 07. 05. 13 - 7.5.2013 21:40

Nú hafa ESB-umræður í Danmörku tekið óvænta stefnu þegar í ljós kemur að ríkisstjórnin hefur ekki stuðning 5/6 hluta þingmanna til að samþykkja samning sem hún hefur gert um aðild að Einkaleyfadómstóli ESB sem stofna skal í París til að framfylgja reglum sem hafa verið í smíðum í 30 ár um eitt einkaleyfi innan ESB.

Hér skal ekki slegið föstu að ekki takist að skapa meirihluta í danska þinginu þegar á reynir í þessu máli. Ef til vill er þetta að öðrum þræði pólitískur leikur til að koma hinni óvinsælu stjórn Helle Thorning-Schmidt í enn meiri vanda. Óvinsældir danskra jafnaðarmanna hafa ekki verið meiri frá því að flokkurinn var stofnaður.

Með hliðsjón af að íslensk stjórnskipun og stjórnarskrá taka mikið mið af dönskum stjórnlögum er forvitnilegt að skoða megindrætti málsins. Danir unnu í ESB-forsetatíð sinni 2012 að gerð samkomulagsins um einkaleyfadómstólinn á lokastigum þess. Eftir að það var gert komst danska dómsmálaráðuneytið að niðurstöðu um að samningurinn fæli í sér framsal á fullveldi og þess vegna bæri að leita samþykkis 5/6 þingmanna. Takist ríkisstjórninni ekki að fá þann meirihluta og vilji hún aðild Dana að samningnum verður hún að bera málið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Danir hafa sett ákvæði í stjórnarskrá sína sem ekki er að finna hér um aðild að yfirþjóðlegum alþjóðasamtökum og hvernig skuli halda á málum við framsal á fullveldinu. Hér hafa stjórnvöld undanfarin fjögur ár klúðrað tilraunum til að breyta stjórnarskránni og til að semja um aðild að Evrópusambandinu. Þessi mál hanga saman en enginn meirihluti er hvorki meðal þjóðarinnar né þingmanna til að þau nái fram að ganga.  

Mánudagur 06. 05. 13 - 6.5.2013 22:45

Það var vor í lofti í dag en gróður er mun seinni en undanfarin ár. Ég hef stundum hafið garðslátt í Fljótshlíðinni 10. maí en það verður ekki núna. Lóu-breiður voru hins vegar á túninu og hrossagaukurinn leikur sér í háloftunum, fyrstan sá ég að vísu tjaldinn eins og jafnan áður. Ég bíð eftir að jaðrakaninn setjist á girðingarstaurinn sinn.

Nú er þess minnst að eitt ár er liðið frá því að sósíalistinn François Hollande hlaut kosningu sem forseti Frakklands. Hann nýtur nú minnsta stuðnings sem forsetar í Frakklandi hafa hlotið í skoðanakönnunum. Þýska blaðið Süddeutsche Zeitung segir að sannleikurinn um fjárhagsvanda franska ríkisins birtist í sölu eðalvína úr kjallara forseta hallarinnar. Segir blaðið að þarna birtist in vino veritas. Sjá hér.

Fréttir af stöðu stjórnmála í Danmörku er ekki uppörvandi fyrir jafnaðarmenn. Nú hefur Ritt Bjerregaard, fyrrverandi forystumaður í Jafnaðarmannaflokknum, snúist gegn Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra og sagt hana í „stríði“ við eigin kjósendur. Bjerregaard var ráðherra, sat í framkvæmdastjórn ESB og gegndi síðast embætti yfirborgarstjóra í Kaupmannahöfn. Á sínum tíma var Bjerregaard meðal hinna fyrstu sem lýsti stuðningi við Thorning-Schmidt sem formann Jafnaðarmannaflokksins.

Nú nýtur danski jafnaðarmannaflokkurinn aðeins stuðnings 15,6% kjósenda en Venstre, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, mælist með 33,5%. Í kosningunum 2011 fengu Jafnaðarmenn 24,8% atkvæða og Venstre 26,7%, þá var munurinn á milli flokkanna 1,9 prósentustig, nú er hann 17,9 stig.

Þess má minnast að í aðdraganda þingkosninganna 27. apríl hélt Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, til Kaupmannahafnar til að leita ráða hjá Helle Thorning-Schmidt um hvernig ætti að snúa vörn í sókn í kosningabaráttunni.

Hver skyldi verða Ritt Bjerregaard í Samfylkingunni? Eða verður framvindan hin sama og undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur að enginn segi neitt? Flokkurinn fljóti sofandi áfram?

 

Sunnudagur 05. 05. 13 - 5.5.2013 22:20

Fréttastofa ríkisútvarpsins komst að þeirri skynsamlegu niðurstöðu í dag þegar fjallað var um  viðræður framsóknarmanna og sjálfstæðismanna um myndun ríkisstjórnar að ekki næðist saman um nýja stjórn nema með málamiðlun, það þýddi að annar eða báðir yrðu að slá af kröfum sínum.

Tónninn í fréttinni var á þann veg að þetta væri sérstakt fréttaefni, að samningar væru reistir á málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Fréttastofan hefur rétt fyrir sér að þetta er frétt ef miðað er við viðræðurnar sem farið hafa fram í tæp fjögur ár við Evrópusambandið um aðild Íslands án þess að í raun sé komið að umræðuefninu. Í ESB-viðræðunum er ekki leitað að málamiðlun heldur að hinu hvort Íslendingar þurfi aðlögunartíma að einhverjum reglum ESB.

Af hálfu Evrópusambandsins er jafnan talað um að „niðurstaða“ þess verði lögð fyrir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum viðræðunum. ESB-menn tala aldrei um málamiðlun sem reist sé á breytingum á reglum eða sáttmálum ESB enda kemur slík málamiðlun ekki til greina.

Ný ríkisstjórn sem rædd er núna mun hætta viðræðunum við ESB, báðir flokkarnir telja Íslandi betur borgið utan við ESB en innan dyra í því. Viðræðunum verður ekki fram haldið án þess að þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu. Hvaða flokkur mun flytja tillögu um slíka atkvæðagreiðslu? Ekki Samfylkingin, hún hefur alltaf verið á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ræða eigi við ESB eða ekki.

 

Laugardagur 04. 05. 13 - 4.5.2013 21:55

Í dag var tilkynnt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlaði formlega að hefja viðræður um stjórnarsamstarf við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.

Forvitnilegt verður að fylgjast með næstu skrefum. Vilji kjósenda er að þessir tveir flokkar taki höndum saman um landstjórnina. Samfylkingunni var hafnað á eftirminnilegan hátt og sömu sögu má segja um VG. Vinstri grænir njóta hins vegar meiri velvildar í almennum umræðum en Samfylkingin vegna þess hve Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, býður af sér góðan þokka.

Samfylkingin er svo brothætt á þessari stundu að reiðin fær ekki útrás á þann hátt sem verðugt er. Árni Páll Árnason, formaður flokksins, ætti að sjálfsögðu að segja af sér. Engir hafa talað meira um pólitískar fyrirmyndir í útlöndum hin síðari ár en samfylkingarfólk, fengi flokkur í lýðræðislandi sömu útreið  og Samfylkingin fékk 27. apríl hefði formaður þess flokks boðað afsögn.

Þrýstingur á afsögn Árna Páls mun magnast eftir að Sigmundur Davíð og Bjarni hefja stjórnarmyndarviðræðurnar. Lagst verður á sveif með Árna Páli af þeim sem óttast að Samfylkingin klofni vegna formannsátaka. Þeir hafa rétt fyrir sér. Árni Páll kann að vera síðasti formaður Samfylkingarinnar.

Össur Skarphéðinsson leitast nú við að dreifa athygli frá hamförunum innan Samfylkingarinnar með furðuskrifum um stjórnarmyndunarviðræðurnar sem hann ætlaði að stjórna fyrir hönd flokks síns ef marka má áróður hans þegar hann sóttist eftir sæti á framboðslista Samfylkingarinnar. Enginn vill ræða um stjórnarsamstarf hvorki við Össur né Samfylkinguna. Það er hin kalda niðurstaða kosninganna.

Föstudagur 03. 05. 13 - 3.5.2013 20:35

Pukur og leyndarhyggja tekur á sig ýmsar myndir í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Nú berast fréttir um að fyrir nokkrum vikum hafi Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra breytt reglugerð í því skyni að þrengja rétt EES-borgara til landakaupa hér. Hann var ekki að bregðast við aðsteðjandi vanda heldur þjóna eigin duttlungum. Hann taldi ekki einu sinni líklegt að þetta yki fylgi hans í SV-kjördæmi og kaus því að málið færi hljótt fram yfir kosningar.

Spurning er hvað fleira kemur í ljós þegar líður frá kosningum.

Nýlega birtist grein í Morgunblaðinu þar sem færð eru rök að lögbroti við ráðningu nýs rektors Listaháskóla Íslands. Fyrrverandi skólanefndarmaður ritar greinina og bendir á að fráleitt sé að ráða bókmenntafræðing í stöðu rektors þegar reglur geri ráð fyrir að rektor sé hæfur til að kenna einhverja grein sem er í boði í skólanum. Bókmenntafræði er ekki kennd þar heldur í Háskóla Íslands. Þetta er eitt en hitt er ekki síður einkennilegt að ekki skuli birt nöfn þeirra sem sóttu um rektorsstarfið. Það er ekki í þágu gegnsæis og lýðræðislegra stjórnarhátta að standa að ráðningu í starf af þessu tagi með leynd. Hér með er skorað á Kolbrúnu Halldórsdóttur, stjórnarformann listaháskólans, forseta Bandalags listamanna og fyrrverandi þingmann VG, að birta nöfn þeirra sem sóttu um rektorsstarfið í listaháskólanum.

Um þessar mundir mun stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands vinna að ráðningu nýs framkvæmdastjóra fyrir sveitina. Guðni Tómasson, ráðgjafi Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, er stjórnarformaður sinfóníuhljómsveitarinnar. Hvers vegna beitir hann sér ekki fyrir að birt séu nöfn umsækjanda um starf framkvæmdastjóra sveitarinnar?

Ef þeir trúnaðarmenn VG sem hér hafa verið nefndir til sögunnar eru í vafa um hvort eigi að birta nöfnin eða ekki verður Katrín Jakobsdóttir að taka af skarið og gefa fyrirmæli um nafnbirtingarnar sem handhafi æðsta pólitíska valds á sviði mennta- og menningarmála.

 

 

Fimmtudagur 02. 05. 13 - 2.5.2013 23:00

Vladimir Ashkenazy stjórnaði sinfóníuhljómsveitinni í Eldborg í kvöld við mikla hrifningu áheyrenda. Fyrir hlé lék Stefán Ragnar Höskuldsson einleik á flautu. Stefán Ragnar er sóló-flautuleikari í hljómsveit Metropolitan óperunnar í  New York. Beinar útsendingar frá henni má sjá öðru hverju í Kringlubíói á laugardögum og eru þær endursýndar á miðvikudögum, í gær Júlíus Cesar, barokkóperu eftir Georg Friedrich Händel. Sú sýning var frábær eins og aðrar sem ég hef séð.

Sýrland fyrirtæki Sveins Kjartanssonar og fleiri hefur tekið upp í mynd og hljóð alla tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan hún flutti í Hörpu. Fyrirtækið hefur staðið að þessu á eigin kostnað vegna áhuga eigenda þess og starfsmanna sem eru í hópi bestu upptökumanna landsins. Hið einkennilega er að hvorki sinfóníuhljómsveitin né ríkisútvarpið hefur sýnt þessu frumkvöðlastarfi áhuga.  Með þessari tækni er hið minnsta mál að sýna tónleika hljómsveitarinnar beint.

Berlínarfílharmónían býður netáskrift að tónleikum sínum, 149 evrur fyrir árið, Digital Concert Hall heitir þessi þjónusta á ensku og er einfalt að gerast áskrifandi að henni hvar sem er í heiminum. Rúmlega 30 tónleikar eru í boði á ári og er unnt að fylgjast með þeim beint. Nokkrum sólarhringum síðar er upptaka af tónleikunum á netinu og unnt er að skoða hana þegar hverjum og einum hentar og eins oft og hverjum hentar.

Það er einkennilegt að aldrei hafi verið gerð tilraun með að sýna beint frá tónleikum sinfóníuhljómsveitarinnar til dæmis á Ísafirði og Akureyri.

Ashkenazy laðaði hið besta fram hjá hljómsveitinni í kvöld í 6. sinfóníu Beethovens. Er mikils virði að til sé upptaka á mynd af þessum tónleikum. Hana ætti að sýna til að kynna hljómsveitina.  

Miðvikudagur 01. 05. 13 - 1.5.2013 23:40

Nú hefur Smugan vefblað til stuðnings VG lagt upp laupana og birtist ekki að nýju nema takist að safna fé til útgáfunnar. Það er meira en að segja það að halda úti vefblöðum eða vefsíðum og sjá til þess að efnið á þeim súrni ekki vegna hreyfingarleysis.

Við Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins, höfum nú haldið vefblaðinu Evrópuvaktinni  úti í þrjú ár. Þar hefur birst meira efni um Evrópusambandið og þróunina innan þess en í nokkrum öðrum íslenskum miðli á þessum tíma. Í dag er þar til dæmis útdráttur úr fróðlegri grein eftir Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, sem telur að aðeins sé um tvo kosti að ræða, að ESB splundrist innan frá eða til verði öflugra yfirþjóðlegt samband sem taki til sín meira vald en nú er frá þjóðþingum aðildarríkjanna. Fischer er eindreginn talsmaður seinni kostsins.

Evrópuvaktin sótti um styrki á árunum 2011 og 2012 úr sjóði sem alþingi myndaði til styrktar þeim sem ynnu að kynningu á Evrópumálum vegna umsóknarinnar að ESB. Fékk Evrópuvaktin styrki bæði árin. Nokkuð veður var reynt að gera vegna styrkveitingarinnar fyrra árið meðal annars af fólki sem bauð sig fram til alþingis í kosningunum 27. apríl en kolféll.

Ef til vill er ekki ástæða til að halda Evrópuvaktinni áfram. Það kemur í ljós. Málefnalega hefur markmið okkar Styrmis náðst, það er að koma þeim frá völdum sem vilja aðild Íslands að ESB. Í stað þeirra hafa nú þeir flokkar meirihluta á alþingi sem fylgja sömu stefnu og Evrópuvaktin, að Íslendingar eigi ekki erindi í ESB en leggja beri fyrir þjóðina hvort halda skuli áfram viðræðunum sem hófust eftir samþykkt alþingis 16. júlí 2009.

Nú er samtal mitt við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN 24. apríl komið á netið og má sjá það hér.