31.5.2013 20:50

Föstudagur 31. 05. 13

Í morgun var 11. aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda, haldinn í húsi SÁÁ í Efstaleiti þar sem flestar æfingar undir handarjaðri félagsins eru stundaðar. Þær eru einnig í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal, í húsakynnum eldri borgara í Hafnarfirði og Sjálandsskóla í Garðabæ auk þess sem hugleiðsla undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar er stunduð í húsi Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð.

Aflinn hefur lagt áherslu á kynningu út á við nema erlendir gestir komi til landsins á vegum félagsins.

Á síðasta kom hingað dr. Yang frá Bandaríkjunum, heimskunnur qi gong meistari, og efndi til námskeiðs á vegum félagsins. Á þessu ári 23. til 25. ágúst kemur Kenneth Cohen sem er í hópi fyrstu Vesturlandabúa til að kynna almenningi qi gong, hann hefur áður komið tvisvar hingað til lands en hér nú í fyrsta sinn á vegum Aflsins.

Dagskrá Cohens er tvískipt, hann flytur almennan kynningarfyrirlestur um qi gong síðdegis föstudaginn 23. ágúst en 24. til 25. verður hann með námskeið í Fljótshlíðinni. Hér má fá nánari upplýsingar www.aflinn.org,. Aðeins 30 manns komast á námskeiðið í Fljótshlíðinni.

Cohen er vinsæll og eftirsóttur fyrirlesari og kennari meðal heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum en sífellt meiri áhersla er lögð á hugleiðslu og andlega líðan sjúklinga og til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Þýska vikublaðið Der Spiegel birti í hefti sínu dags. 18. maí forsíðugrein um heilbrigði fyrir tilstuðlan hugleiðslu og slökunar. Der Heilende Geist – hinn læknandi andi.