Dagbók: mars 2003
Mánudagur, 31. 03. 03.
Tók klukkan 19.00 þátt í fundi nemenda í Réttarholtsskóla um réttindi grunnskólanemenda og var þar meðal ræðumanna ásamt átta nemendum, Stefáni Jóni Hafstein, formanni fræðsluráðs Reykjavíkur, og Þórhildi Líndal, umboðsmanni barna. Fundinum átti að ljúka klukkan 20.30 en hann stóð til 21.30 vegna fjörugra og málefnalegra umræðna. Á mínum grunnskólaárum hefði verið óhugsandi að efna til fundar af þessum toga, nemendur hefðu ekki haft burði eða þjálfun til þátttöku í honum.
Sunnudagur, 30. 03. 03.
Lokadagur landsfundar - Davíð Oddsson endurkjörinn formaður með 98% atkvæða.
Laugardagur, 29. 03. 03.
Þriðji dagur landsfundar, tók þátt í fundi stjórnmálanefndar til að ræða um utanríkismálakafla stjórnmálaálytunarinnar og kynna ályktun utanríkismálanefndar fundarins um Íraksmálið. Um kvöldið var veglegt hóf í Broadway.
Föstudagur, 28. 03. 03.
Sat landsfund sjálfstæðismanna og tók þátt í fundum vísindanefndar og utanríkismálanefndar.
Fimmtudagur, 27. 03. 03
35. landsfundur sjálfstæðismanna hófst klukkan 17.30 í Laugaradalshöll með söng Hamrahliðarkórsins og ræðu Davíðs Oddssonar.
Miðvikudagur, 27. 03. 03.
Var fundarstjóri á aðalfundi SPRON klukkan 17.00 til 21. 20 , þar sem tveir listar voru boðnir fram í stjórnarkjöri og milli 5 og 600 manns sátu fundinn.
Þirðjudagur, 25. 03. 03.
Fundir þingmanna Evrópusambandsins og utanríkismálanefndar héldu áfram fram yfir hádegi, flaug síðdegis frá Brussel og heim um kvöldið frá Kaupmannahöfn.
Mánudagur, 24. 03. 03.
Sat með fulltrúum úr utanríkismálanefnd alþingis fundi um Evrópumál í íslenska sendiráðinu í Brussel og með þingmönnum Evrópusambandsins.
Laugardagur, 22. 03. 03.
Flaug um morguninn um Kaupmannahöfn til Brussel.
Föstudagur, 21. 03. 03
Klukkan 17.00 var haldinn fundur í utanríkismálanefnd til að ræða um málefni Íraks og innrásina þangað, þar sem stjórnarandstaðan taldi skorta samráð við sig.
Eftir fundinn renndi ég inn í Árbæ, þar sem sjáfstæðisfélagið var með árlegt vorhóf sitt.
Fimmtudagur, 20. 03. 03.
Var klukkan 07.00 í RÚV og sat í klukkutíma á Morgunvaktinni með Óðni Jónssyni og ræddi um stríðið í Írak, sem hófst þá um nóttina.
Í hádeginu var ég á fundi með nemendum og kennurum í Háskólanum í Reykjavík og ræddi stríðið í Írak.
Klukkan 14.00 var borgarstjórnarfundur, þar sem borgarstjóri hafði mestar áhyggjur af því, að ég notaði orðaði silkihúfu í gagnrýni minni á ráðningu framkvæmdastjóra miðborgarinnar.
Þirðjudagur, 18. 03. 03.
Var um morguninn í Ísland í bítið með Ögmundi Jónassyni og ræddum við um málefni Íraks og líkur á stríði þar.
Síðdegis funduðum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Mánudagur, 17. 03. 03
Allan daginn sátum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins úr öllum kjördæmum á fundi í Valhöll og ræddum kosningarnar, málefni og baráttuna framundan.
Laugardagur, 15. 03. 03.
Fór klukkan 13.00 og var við fyrstu skóflustungu á 101 Skuggahverfi á Eimskipafélagsreitnum við Skúlagötu.Klukkan 14.00 fór ég í Þjóðarbókhlöðuna og hlustaði á erindi á málþingi um Veru Hertzsch.Um kvöldið snæddi þingflokkur sjálfstæðismanna saman í Valhöll á Þingvöllum.
Föstudagur, 14. 03. 03.
Síðasti dagur 128. löggjafarþingsins og sátum við á fundum fram undir klukkan 04.00 aðfaranótt laugardags.
Þirðjudagur, 11.03.03
Klukkan 17.15 efndi Varðberg til fundar um varnarmál Íslands að Hótel Sögu, þar sem við Halldór Ásgrímsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir vorum ræðumenn. Var fundurinn mjög vel sóttur.
Sunnudagur, 09. 03. 03.
Ókum til Reykjavíkur síðdegis, vissum að Hellisheiði var lokuð vegna fjöldaáreksturs þar, fórum því Þrengslin, en þar gekk á með dimmum éljum.
Laugardagur 08. 03. 03.
Vorum austur í Fljótshlíð og fékk ég traktorinn endurgerðan Massey Ferguson, árgerð 1966, enduruppgerðan heim á á hlað. Veðrið var einstaklega fallegt.
Laugardagur 01. 03. 03
Flaug klukkan 11.15 til Egilsstaða og ók þaðan með Arnbjörgu Sveinsdóttur þingmanni á Seyðisfjörð, þar sem við efndum til stjórnmálafundar og var Hilmar Gunnlaugsson lögmaður frummælandi með okkur. Var gaman að koma á Seyðisfjörð en þar finnst hvorki grútarlykt lengur né sést reykur af bræðslu eins og var þegar ég var þar í síldarbræðslu fyrir meira en 30 árum. Tækninni hefur fleygt fram á þessu sviði eins og öðrum.
Lenti á Reykjavíkurflugvelli rétt um klukkan 19.00.